Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2003
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
- Verðbréfaviðskipti
- Skaðabótamál
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2004. |
|
Nr. 482/2003. |
Lífeyrissjóður Austurlands(Atli Gíslason hrl. Halldór H. Backman hdl.) gegn Gísla Marteinssyni ogTryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu(Valgeir Pálsson hrl. Guðmundur Sigurðsson hdl.) |
Lífeyrissjóður. Verðbréfaviðskipti. Skaðabótamál.
L gerði starfslokasamning við G í mars árið 2000, en G hafði starfað sem framkvæmdastjóri hjá sjóðnum frá árinu 1987. L krafði G um skaðabætur fyrir það tjón sem L hefði orðið fyrir vegna lánveitingar til fyrirtækisins B, sem G stóð að fyrir hönd sjóðsins síðla árs 1999, en B var tekið til gjaldþrotaskipta tveimur árum síðar og fékkst ekkert greitt upp í kröfu L við skiptin. Talið var, að ákvæði í fyrrnefndum starfslokasamningi, sem kvað á um að aðilar samningsins ættu ekki kröfur hvor á annan umfram það sem í samningnum segði vegna starfslokanna, yrði ekki skilið svo að L gæti ekki átt skaðabótakröfu á hendur G vegna stjórnunarstarfa hans. Þá var fallist á með L, að umrædd lánveiting hafi verið svo óvenjuleg að G hafi átt að leggja ákvörðun um hana fyrir stjórn L til samþykktar, en G hafði ekki sýnt fram á að það hefði verið gert. Þegar málsatvik voru virt í heild var talið að meta yrði það G til gáleysis, að hann hafi staðið að hinni umdeildu lánveitingu. Samkvæmt 23. gr. skaðabótalaga varð hann þó ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni L.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. desember 2003. Hann krefst þess að stefndi greiði skaðabætur að fjárhæð 54.000.760 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.540.000 krónum frá 1. júní 2000 til 1. desember sama ár, af 3.417.400 krónum frá þeim degi til 1. júní 2001, af 5.368.600 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 7.404.400 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2002, en af 54.000.760 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Hann gerir engar sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að bótafjárhæð verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en gerir ekki aðrar kröfur. Hann hefur lýst því yfir að fyrir Hæstarétti beri hann ekki fyrir sig að ábyrgðartrygging sé ekki fyrir hendi og fari því málatilbúnaður hans og stefnda saman.
I.
Stefndi var ráðinn framkvæmdastjóri hjá áfrýjanda í janúar 1987 og gegndi því starfi til 7. mars 2000 er gerður var starfslokasamningur við hann. Í niðurlagi þess samnings segir að hvorugur eigi kröfur á hinn vegna starfslokanna umfram það sem þar er skráð. Starf stefnda fólst meðal annars í því að ráðstafa fjármunum sjóðsins til lánveitinga og fjárfestinga. Samkvæmt gögnum málsins hafði hann til þess rúmar heimildir frá stjórn áfrýjanda.
Við gildistöku laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða 1. júlí 1998 urðu talsverðar breytingar á starfsumhverfi þeirra. Samkvæmt fundargerðum áfrýjanda var ákveðið að breyta samþykktum sjóðsins til samræmis við lögin 27. júlí 1999. Fjárfestingarstefna sjóðsins fyrir 1999 hafði verið lögð fram af stefnda og samþykkt af stjórn áfrýjanda 21. júní sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 hvílir sú skylda á stjórn lífeyrissjóðs að móta fjárfestingarstefnu.
Á stjórnarfundi 15. október 1999 var lagt fram bréf stefnda með ósk um starfslokasamning og var tveimur stjórnarmönnum falið að ræða við hann þar um. Stefndi keypti 28. nóvember 1999 fyrir hönd áfrýjanda víxil af Burnham International á Íslandi hf. að fjárhæð 12.000.000 krónur og 28. desember sama ár gaf það fyrirtæki út skuldabréf til áfrýjanda fyrir 40.000.000 krónum og gekk hluti andvirðis þess til greiðslu víxilsins en 28.000.000 krónur voru greiddar út. Skuldabréfið var án veðtryggingar eða annarrar ábyrgðar, en það var verðtryggt með vísitölu neysluverðs miðað við útgáfudag og bar 9% ársvexti. Það átti að endurgreiða með 20 greiðslum á gjalddögum 1. júní og 1. desember, fyrst 1. júní 2000. Aðeins skyldi greiða vexti á fyrstu 19 gjalddögunum, en ekkert af höfuðstól fyrr en á síðasta gjalddaga að 10 árum liðnum. Áfrýjandi heldur því fram að hvorug þessara lánveitinga hafi verið borin fyrirfram undir stjórn hans. Stefndi kveðst ekki muna hvort hann bar lánveitinguna undir stjórnarformann en sú regla hefði verið í gildi að nægilegt væri að framkvæmdastjóri og formaður væru sammála um einstaka ákvörðun. Engar skriflegar reglur hafi verið um þetta settar nema um lán til sjóðfélaga. Aðeins einstaka málum varðandi fjárfestingar hafi verið vísað til stjórnar. Það hafi verið gert þegar framkvæmdastjóri og stjórnarformaður vildu ekki bera einir ábyrgð á ákvörðun. Stjórninni hafi yfirleitt verið gerð grein fyrir fjárfestingum eftir á.
Burnham International á Íslandi hf. var félag sem starfaði að verðbréfaþjónustu samkvæmt leyfi viðskiptaráðherra með heimild í þágildandi lögum nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Starfsleyfi félagsins var afturkallað í nóvembermánuði 2001, þar sem það uppfyllti ekki lengur skilyrði laganna. Í kjölfarið var bú þess tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. þess mánaðar. Áfrýjandi lýsti almennri kröfu í búið en ekkert fékkst upp í hana, svo sem nánar greinir í héraðsdómi.
Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna þess tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna framangreindrar lánveitingar, og heldur því fram að hún hafi verið utan heimilda stefnda og því ólögmæt. Tryggingamiðstöðinni hf. er stefnt til réttargæslu þar sem áfrýjandi keypti starfsábyrgðartryggingu hjá því fyrirtæki, sem tók til allra stjórnenda og stjórnarmanna sjóðsins, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi.
Stefndi vitnar til framangreinds ákvæðis í starfslokasamningi sínum og áfrýjanda. Hann heldur því jafnframt fram að kaup hans á skuldabréfinu hafi hvorki falið í sér brot á lögum nr. 129/1997 né á samþykktum áfrýjanda og þau hafi samræmst fjárfestingaráætlun áfrýjanda fyrir 1999. Loks reisir hann málatilbúnað sinn á því að jafnvel þótt sök hans teldist sönnuð beri hann ekki skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
II.
Að framan er það rakið að gerður var starfslokasamningur við stefnda 7. mars 2000. Samkvæmt lokaákvæði hans áttu aðilar ekki kröfur hvor á annan umfram það sem í honum sagði vegna starfslokanna. Ákvæðið verður ekki skilið svo að áfrýjandi geti ekki átt skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna stjórnunarstarfa hans, sér í lagi ef atvik að slíkri ábyrgð komu síðar í ljós, svo sem áfrýjandi heldur fram að hér sé raunin.
Í 10. gr. samþykkta áfrýjanda segir að framkvæmdastjóri skuli aðeins taka ákvarðanir, sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar, með sérstakri ákvörðun stjórnar eða samkvæmt áætlun sem samþykkt hafi verið af stjórninni. Sé ekki unnt að bera meiriháttar ákvarðanir undir stjórnarfund, skuli hafa samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum. Slíkar ákvarðanir skuli síðan taka fyrir á næsta stjórnarfundi. Af gögnum málsins má ráða að eign áfrýjanda í verðbréfum, sem ekki höfðu skráð kaup- og sölugengi, var þegar hér var komið sögu verulega of hátt samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga nr. 129/1997. Í þágildandi 8. mgr. 36. gr. laganna sagði að lífeyrissjóði væri ekki skylt að selja eignir í því skyni að fullnægja þeim takmörkunum, sem kveðið væri á um í þeirri grein laganna, en skyldi þegar keypt væru verðbréf gæta þess að takmörkin væru virt. Var því ekki rétt á árinu 1999 að hækka það eignahlutfall. Þegar til þessa er litið og greiðslukjara skuldabréfsins, sem út var gefið 28. desember 1999, verður að fallast á það með áfrýjanda að lánveitingin sem í því fólst hafi verið svo óvenjuleg að stefnda sem framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins hefði borið að fara að áður greindu ákvæði samþykktanna og leggja ákvörðunina fyrir stjórnina til samþykktar. Stefndi tryggði sér ekki sönnun fyrir því að hann hefði lagt ákvörðun um kaup skuldabréfsins fyrir stjórnina og bar fyrir dómi að hann myndi ekki eftir því hvort hann bar ákvörðunina undir stjórnarformanninn. Gegn eindregnum framburði stjórnarformannsins verður ekki við það miðað að það hafi hann gert.
Að framan er það rakið að Burnham International á Íslandi hf. var þegar viðskiptin áttu sér stað félag sem stundaði verðbréfaviðskipti samkvæmt heimild viðskiptaráðherra í samræmi við lög nr. 13/1996 og átti að vera undir opinberu eftirliti samkvæmt XII. kafla sömu laga. Samkvæmt gögnum málsins hafði félagið skömmu áður keypt stóran hlut af áfrýjanda í Handsali hf. Engin gögn hafa verið færð fram um að stefndi hafi á þessum tíma mátt vita annað en að félagið stæði traustum fótum. Fullyrðingar fyrirsvarsmanna áfrýjanda um að lagt hafi verið fyrir stefnda að binda ekki sjóðinn við frekari skuldbindingar þessa félags eru engum gögnum studdar. Samkvæmt samþykktri fjárfestingarstefnu áfrýjanda fyrir 1999 skyldu skuldabréf banka og annarra fjármálastofnana vera 5% - 10% og skuldabréf fyrirtækja og einstaklinga 10% - 20%. Áfrýjandi heldur því fram að skuldabréfið falli undir síðari liðinn. Ekki hefur verið sýnt fram á að bréfið rúmist ekki innan þeirrar heimildar en það var aðeins lítið hlutfall af heildarfjárfestingu ársins 1999, sem nam um 5 milljörðum króna. Gögn um lánið lágu fyrir í bókhaldi áfrýjanda og hefðu því stjórn og endurskoðandi sjóðsins átt að verða þess vör fljótlega. Samkvæmt framburði stefnda vissi framkvæmdastjórinn sem tók við af honum um lánið. Engin athugasemd var þó gerð við stefnda fyrr en 14. janúar 2003, en málið var höfðað fyrir héraðsdómi 13. mars sama ár.
Stjórnin hafði samkvæmt framangreindu samþykkt lánastefnu fyrir 1999. Lífeyrissjóðurinn var að byrja að laga sig að lögum nr. 129/1997 og fram er komið að stjórnarmenn höfðu ekki áður mótað fjárfestingastefnu áfrýjanda heldur lotið í flestu ráðslagi stefnda. Þegar þetta er skoðað og málsatvik virt í heild verður að meta stefnda það til gáleysis að hafa keypt umdeilt skuldabréf án þess að hafa áður borið það undir stjórn áfrýjanda. Samkvæmt 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður hann þó ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni áfrýjanda. Verður því niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda og réttargæslustefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lífeyrissjóður Austurlands, greiði stefnda, Gísla Marteinssyni, og réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2003.
Stefnandi málsins er Lífeyrissjóður Austurlands, kt. 450771-0589, Egilsbraut 25, Neskaupstað. Stefndi er Gísli Marteinsson, kt. 0700837-3829, Jötunsölum 2, Kópavogi. Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.
Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 7. mars sl., sem birt var fyrir stefnda og réttargæslustefnda 13. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 27. sama mánaðar.
Málið var dómtekið 17. október sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.
Dómkröfur:
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, Gísli, verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 54.000.760 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 1.540.000 frá 1. júní 2000 til 1. desember s.á., af 3.417.400 krónum frá þeim degi til júní 2001, af 5.368.600 frá þeim degi til 1. desember s.á. af 7.404.400 frá þeim degi til 5. febrúar 2002 en af 54.000.760 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., af hálfu stefnanda.
Stefndi, Gísli, krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, en til vara, að krafa stefnanda verði lækkuð verulega að mati dómsins, og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Réttargæslustefndi krefst þess, að stefnandi verði dæmdur til að greiða félaginu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Stefndi var framkvæmdastjóri hjá stefnanda frá frá 13. janúar 1987 til 7. mars 2000. Gerður var starfslokasamningur við stefnda af því tilefni, dags. 7. mars s.á. Í niðurlagi samningsins segir, að hvorugur eigi kröfur á hinn umfram það, sem í samningnum segi. Starf stefnda fólst m.a. í því að annast ráðstöfun á fjármunum sjóðsins til lánveitinga og fjárfestinga. Hinn 28. desember 1999 gaf Burnham International á Íslandi út skuldabréf til stefnanda að fjárhæð 40 milljónir króna. Skuldabréfið var án veðtryggingar eða annarrar ábyrgðar, s.s. sjálfskuldarábyrgðar. Það skyldi endurgreiðast með 20 misserislegum greiðslum í gjalddögum 1. júní og 1. desember, fyrst 1. júní 2000. Aðeins skyldi greiða vexti á fyrstu 19 gjalddögum skuldabréfsins. Skuldabréfið var verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs á útgáfudegi og bar 9% fasta ársvexti. Það var að hluta endurgreiðsla víxils, að nafnverði 12 milljónir króna með gjalddaga 25 febrúar 2000, sem stefnandi hafði u.þ.b mánuði áður lánað Burnham International. Hvorug þessara lánveitinga var borin undir stjórn stefnanda. Burnham International var félag, sem starfaði á sviði verðbréfaþjónustu með leyfi viðskiptaráðherra samkvæmt heimild í lögum nr. 13/1996. Starfsleyfi félagsins var afturkallað í nóvembermánuði ársins 2001, þar sem félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði laganna. Í kjölfar þess var bú þess tekið til opinberra skipta með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. sama mánaðar. Stefnandi lýsti almennri kröfu í búið vegna framangreindrar lánveitingar, sem skipaður skiptastjóri búsins samþykkti. Á skiptafundi, sem haldinn var 22. mars 2002, upplýsti skiptastjóri, að heildareignir búsins næmu 8,5 milljónum króna. Samþykktar forgangskröfur næmu á hinn bóginn 18.940.469 kr., en samþykktar almennar kröfur 373.039.997 kr. Stefnandi keypti á árinu tryggingu hjá réttargæslustefnda, sem tók til allra stjórnenda og stjórnarmanna stefnanda og dótturfélaga. Tryggingin er tvíþætt og skiptist annars vegar í starfsábyrgðartryggingu framkvæmdastjóra með vátryggingarfjárhæð 100 milljónir í hverju einstöku tjónsatviki og hins vegar ábyrgðartryggingu stjórnenda og stjórnarmanna. Stefnandi krafði réttargæslustefnda um greiðslu á kröfu þeirri, sem hér er til umfjöllunar með bréfi, dags. 23. maí 2002. Réttargæslustefndi hafnaði kröfunni með bréfi, dagsettu 8. júlí s.á. Lögmaður stefnanda óskaði rökstuðnings fyrir synjun réttargæslustefnda í bréfi, dags. 10. september s.á. Í svarbréfi réttargæslustefnda, dags. 1. október s.á., var synjun hans rökstudd á þann veg, að stefnandi gæti ekki krafist bóta úr eigin ábyrgðartryggingu. Engin ákvæði í vátryggingarskilmálum gæfu til kynna, að í vátryggingunni fælist annað en það, sem almennt gilti, þegar tjón vátryggingartaka stafaði af starfsmönnum hans sjálfs. Stefnandi krafði stefnda um greiðslu á fjárhæð þeirri, sem hér er til umfjöllunar með bréfi, dags. 14. janúar sl. Réttargæslustefnda var sent afrit bréfsins. Stefndi sinnti ekki greiðsluáskorun stefnanda, sem höfðaði síðan mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir málsókn sína á hendur stefnda á því, að hann muni ekkert fá upp í kröfur sínar við skipti á búi Burnham International og hafi því orðið fyrir tjóni, sem nemi stefnufjárhæðinni. Stefndi hafi ekki leitað eftir samþykki sjóðstjórnar, eins og honum hafi verið skylt, skv. 10. gr. samþykkta stefnanda, þar sem um sérstaka og óvenjulega lánveitingu hafi verið að ræða. Í 26. gr. samþykkta stefnanda séu ákvæði, sem sett hafi verið í samræmi við ákvæði VII. kafla laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ( eftirleiðis lífeyrissjóðalög eða lsl.). Í 1. mgr. 8. tl. 26. gr. segi, að ávaxta megi fé sjóðsins í öðrum verðbréfum. Einnig segi þar um verðbréf, samkvæmt 8. tl., að þau skuli hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði og skilgreint nánar, hvað átt sé við með því orðalagi. Þá komi fram í sama ákvæði, að samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum, skv. 2.-9. tl. 1. mgr., útgefnum af sama aðila eða aðilum, sem tilheyri sömu samstæðunni, skuli ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins, en þessi takmörkun skuli vera 5% fyrir verðbréf samkvæmt 8. tl.
Stefnandi styður málssókn m.a. þeim rökum, að stefnda hafi verið ljóst, þegar lánið var veitt, að eignir lífeyrissjóðsins í verðbréfum, sem fallið hafi undir 8. tl. 26. gr. samþykkta lífeyrissjóðsins, hafi verið umfram leyfileg mörk skv. ákvæðum 36. gr. lífeyrissjóðalaga. Ákvörðunin um lánveitinguna til Burnham International hafi verið tekin af stefnda einum, án nokkurs samráðs við stjórn stefnanda eða nokkurn stjórnarmann. Hún hafi því verið heimildarlaus með öllu og andstæð fjárfestingarstefnu stefnanda, enda hafi lánið hvorki verið tryggt með veði né sjálfskuldarábyrgð. Í 10. gr. samþykkta stefnanda segi, að óvenjulegar eða mikils háttar ákvarðanir skuli framkvæmdastjóri aðeins taka með sérstakri ákvörðun stjórnar. Sé ekki hægt að bera slíkar ákvarðanir undir stjórnarfund, skuli haft samráð við formann stjórnar og aðra stjórnarmenn eftir föngum og taka þær síðan fyrir á næsta stjórnarfundi. Ljóst sé að ekkert fáist greitt upp í kröfuna úr búi Burnham International. Stefndi sé því skaðabótaskyldur, þar sem hann hafi brotið gróflega starfskyldur með saknæmum og ólögmætum hætti og bakað stefnanda tjóni, sem svari til stefnufjárhæðarinnar. Tjónið sé sennileg afleiðing af ákvörðun stefnda, þar sem honum var ljóst, eða mátti vera ljóst, að lánveiting til Burnham International, án veðtryggingar eða sjálfskuldarábyrgðar, gæti valdið stefnda tjóni, eins og komið hafi á daginn.
Stefnufjárhæðin sundurliðast þannig:
Ígildi vangreidds gjalddaga skuldabréfsins 1. júní 2000 kr. 1.540.000
(9% ársvextir frá 28. desember '99 til 1. júní ´00).
Ígildi vangreidds gjalddaga 1. desember ´00 - 1.877.400
Ígildi vangreidds gjalddaga 1. júní ´01 - 1.951.200
Ígildi vangreidds gjalddaga 1. desember ´01 - 2.035.800
Ígildi gjaldfellds skuldabréf við útgáfu kröfulýsingar 5.
febrúar 2002. - 45.840.000
9% samningsvextir frá 1. des. '01 til 5.febrúar ´02 - 756.360
Stefnufjárhæð kr. 54.000.760
Stefnandi kveðst byggja útreikning sinn á umsömdum gjalddögum skuldabréfsins, en gjalddagar þess hafi verið 1. júní og 1. desember og umsamdir ársvextir 9%. Skuldabréfið hafi verið verðtryggt miðað við grunnvísitölu neysluverðs 193,3 stig, en vísitala á gjaldfellingardegi hafi verið 221,5 stig. (40.millj. /221,5/193,3).
Stefnandi heldur því fram, að stjórn félagsins hafi verið alls ókunnugt um lánveitinguna til Burnham International, þegar starfslokasamningurinn var gerður við stefnda. Stjórnin hafi fyrst fengið vitneskju um lánveitinguna við undirbúning kröfulýsingar í bú Burnham International. Lánveitingin komi fram í reikningum félagsins, en þar sé um ógrynni viðskiptamanna að ræða og því hafi þessu ekki verið veitt athygli fyrr.
Stefnandi kveður réttargæsluaðild Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) þannig til komna, að sjóðurinn hafi a.m.k. frá árinu 1998 til loka ársins 2002 keypt ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Í tryggingarskilmálum sé tryggingin nefnd ábyrgðartrygging stjórnenda og stjórnarmanna og starfsábyrgðartrygging framkvæmdastjóra. Þar segi í section II, að tryggingin taki til tjóns, sem verði vegna óstjórnar (wrongful act) af hálfu framkvæmdarstjóra, stjórnenda og annarra stjórnarmanna. Einnig segi þar, að hugtakið óstjórn (wrongful act) merki m.a. mistök, trúnaðarbrest eða að viðkomandi stjórnandi stefnanda hafi farið út fyrir heimild sína. Það hljóti að falla undir hugtakið óstjórn, ef framkvæmdastjóri láni út fé sjóðsins, án þess að nægar baktryggingar séu fyrir hendi. Stefndi hafi þannig ljóslega farið út fyrir heimild sína, þegar hann heimildarlaust veitti Burnham International umrætt lán, án þess að gæta þess að nægar tryggingar væru fyrir hendi. Ljóst sé, að fé þetta sé stefnanda glatað, þar sem eignir bús Burnham International nægi ekki til greiðslu forgangskrafna. Tjón stefnanda sé þannig bein afleiðing aðgerða stefnda.
Stefnandi vísar til viðeigandi lagagreina til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni og kröfu sinni um málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda í fyrsta lagi á þeirri forsendu, að hann hafi ekki sýnt af sér gáleysi með því að krefjast ekki sérstakra trygginga fyrir láni því, sem Burnham International var veitt. Á þessum tíma hafi ekki tíðkast að gera kröfu um tryggingar, þegar fé var lánað bönkum eða verðbréfafyrirtækjum, heldur hafi verið talið að eigið fé þeirra ætti að nægja. Burnham International hafi, þegar lánið var veitt, verið burðugt félag með sterkt móðurfélag. Því hafi engin ástæða verið til að víkja frá þessari starfsvenju, enda hafi engar framkvæmdareglur eða fyrirmæli verið í gildi hjá stefnanda, sem gerðu kröfu til trygginga á þessu sviði.
Stefndi mótmælir því einnig að hafa með lánveitingu sinni brotið gegn lögum, reglum eða samþykktum. Lífeyrissjóðalög og 25. gr. samþykkta stefnanda mæli svo fyrir, að stjórn sjóðsins skuli móta fjárfestingarstefnu hans. Þetta hafi stjórnin gert á stjórnarfundi 21. júní 1999. Lánveiting stefnda hafi verið í fullu samræmi við þá ákvörðun stjórnarinnar. Stefndi hafi ekki heldur brotið gegn öðrum ákvæðum samþykkta stefnanda. Fjárfestingin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði 26. gr. samþykktanna. Engar reglur hafi verið í gildi, né önnur fyrirmæli, sem bönnuðu lánveitinguna. Framlagðar fundargerðir ársins 1999 beri með sér, að slíkar fjárfestingar hafi aldrei komið á borð stjórnar, heldur hafi þær verið teknar saman eftir á og kynntar stjórn á sex mánaða fresti, sbr. fundargerð frá 15. október þetta ár. Ekki verði heldur talið, að lánveitingin flokkist undir meiri háttar ákvörðun í skilningi 2. mgr. 10. gr. samþykkta sjóðsins. Stefndi telur rétt að geta þess, að ekkert bendi til annars, en að hann hafi haft samráð við stjórnarformann vegna lánsins. Því sé ljóst, að hvorugt saknæmisskilyrðið sé fyrir hendi og á grundvelli þess hafnar stefndi allri ábyrgð. Auk þess líti stefndi svo á, að fráleitt sé að gera hann persónulega ábyrgan vegna skorts á reglum hjá stefnanda, með sérstöku tilliti til þess, að það sé á verksviði og á ábyrgð stjórnarinnar allrar að setja reglur.
Stefndi byggi einnig á því, að lánveitingin til Burnham International hafi fallið utan gildissviðs 2. mgr. 10. gr. samþykkta stefnanda. Hann telur sig hafa í einu og öllu farið að stefnu stjórnarinnar. Samkvæmt þeirri fjárfestingarstefnu, sem mörkuð hafi verið af stjórn hinn 21. júní 1999, hafi átt að fjárfesta í skuldabréfum banka og annarra fjármálastofnana fyrir 5 - 10% af fé sjóðsins og hafi stefndi verið að fylgja þeirri stefnu með láninu til Burnham International. Eigið fé sjóðsins hafi numið u.þ.b. 15 milljörðum króna á þessum tíma. Í fjárfestingaráætlun sé gert ráð fyrir fjárfestingum í skuldabréfum, eins og því, sem hér um ræðir fyrir allt að 1,5 milljarði króna. Kaupin á skuldabréfi Burnham International hafi því verið 2-3% af heimild á þessu afmarkaða fjárfestingarsviði. Stjórnin hafi með fjárfestingarstefnumörkun í raun veitt heimild til fjárfestinga af því tagi, sem hér sé til umfjöllunar. Því sé ljóst, að 2. mgr. 10. gr. samþykktanna eigi ekki við um álitaefnið.
Stefndi styður mál sitt einnig þeim rökum, að stefnandi hafi samþykkt lánveitinguna með því að virða hana. Lánið sé hluti af ársreikningi ársins 1999 og hafi tryggingastærðfræðingur og endurskoðandi yfirfarið ársreikninginn og stjórnin samþykkt hann síðar án athugasemda. Þetta hafi einnig komið fram í ársreikningum fyrir árin 2000 og 2001, án þess að nokkrar athugsemdir hafi verið gerðar. Stjórnin hafi staðfest ársreikningana með áritun sinni. Stefnandi hafi enga fyrirvara gert í starfslokasamningi, sem gerður hafi verið við stefnda, enda þótt stefnanda hafi á þeim tíma verið fullkunnugt um lánveitinguna. Þar sé tekið fram berum orðum, að hvorugur samningsaðila eigi kröfur á hinn umfram það, sem komi fram í samningnum sjálfum. Stjórn stefnanda hafi borið að kynna sér fjárhagslega stöðu lífeyrissjóðsins og verði að reikna með því, að hún hafi gert það, áður en hún gaf áðurnefnda yfirlýsingu sína í starfslokasamningnum. Stefnandi hafi engar athugasemdir gert fyrr en á árinu 2002, eftir að bú Burnham International var tekið til opinberra skipta og í ljós hafi komið að fjárfestingin myndi ekki borga sig.
Með vísan til framangreindra málsástæðna beri að sýkna stefnda. Sömu sjónarmið liggi til grundvallar varakröfu hans.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að miða beri við dómsuppsögudag, enda hafi stefnandi ekki áður sannað tjón sitt gagnvart stefnda. Verði ekki á það fallist, sé upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt, enda hafi engar kröfur verið gerðar á hendur stefnda fyrr en með kröfubréfi, dags. 14. janúar þessa árs.
Stefndi vísar til meginreglna skaðabótaréttar til stuðnings kröfum sínum, svo og til laga nr. 29/1997. Stefndi vísar einnig til viðeigandi lagagreina til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.
Málsástæður og lagarök réttargæslustefnda.
Stefnandi beindi upphaflega dómkröfum sínum einnig að Tryggingamiðstöðinni hf., en féll frá efniskröfum sínum á hendur félaginu undir rekstri málsins. Samtímis því var fallist á, að aðild Tryggingamiðstöðvarinnar hf. breyttist þannig, að félagið hefði eftirleiðis stöðu réttargæslustefnda. Réttargæslustefndi varðist í upphafi dómkröfum stefnanda og skilaði ítarlegri greinargerð, þar sem byggt er á sömu málsástæðum og efnisrökum og stefndi, Gísli. Hefur sjónarmiðum hans verið lýst hér að framan og þykir því óþarft að gera málsástæðum réttargæslustefnda sérstök skil, enda engar kröfur lengur gerðar á hendur honum. Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins og áður er lýst.
Fjallað verður síðar um málskostnaðarkröfu réttargæslustefnda.
Niðurstaða:
Eiríkur Ólafsson stjórnarmaður í stjórn stefnanda á árinu 1999 gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Þá var einnig var skýrsla tekin af stefnda og af Björgu Sigurðardóttur endurskoðanda.
Verður getið helstu atriða úr skýrslum þeirra.
Eiríkur Ólafsson kvaðst hafa setið í stjórn Lífeyrissjóðs Austurlands í sjö ár en verið formaður stjórnar tvö tímabil, annars vegar frá vorinu 1999 til vors 2000 og aftur frá vori 2001 og til vors 2002. Nafn fyrirtækisins Handsals hf. hafi nokkrum sinnum komið til umræðu á stjórnarfundum vegna erfiðleika félagsins og tengsla lífeyrissjóðsins við það, en sjóðurinn hafi átt hlutafé í Handsali og margítrekað reynt að selja það. Loks hafi tekist að selja Burnham hlutaféð, sem hafi yfirtekið rekstur Handsals hf.. Stjórnin hafi verið einhuga um að tengjast félaginu ekki frekar. Sjóðurinn hafi tekið við skuldabréfi vegna sölunnar og þau tengsl við Burnham hafi verið of mikil að mati stjórnarinnar. Hann kvað stjórnina fyrst hafa fengið vitneskju um lánið til Burnham, eftir að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta og þá í tengslum við kröfulýsingu, sem gerð var í bú þess. Það hafi líklega verið á síðari hluta ársins 2001 eða í ársbyrjun 2002. Aldrei hafi verið fjallað um lánveitinguna í stjórn stefnanda né heldur um víxil, sem hafi verið undanfari lánsins. Stjórnin hafi fyrst fengið upplýsingar um kaup víxilsins á árinu 2002. Mætti kvaðst hafa beðið stefnda um að mæta á stjórnarfund á árinu 2002 og gera þar grein fyrir umræddri lánveitingu og tilurð hennar. Stefndi hafi mætt á fundinn en farið þaðan í fússi, þegar óskað var eftir skýringum hans á lánveitingunni. Mætti kannaðist ekki við, að sambærileg lán hefðu verið veitt eða komið til kasta stjórnarinnar. Aðspurður upplýsti mætti, að fjárfestingar sjóðsins í óskráðum bréfum hafi verið umfram heimildir í árslok 1999, en kvaðst ekki muna, hvort það hafi komið sérstaklega fram í reikningum sjóðsins. Stefndi hafi vitað þetta betur en nokkur annar. Stjórnarfundir hafi verið haldnir reglulega meðan hann gegndi stöðu stjórnarformanns á u.þ.b. mánaðar fresti og næsti fundur ákveðinn í fundarlok. Mætti upplýsti aðspurður, að stefndi hafi almennt séð um fjárfestingar í samræmi við samþykktir og fjárfestingastefnu sjóðsins. Hann hafi síðan skilað stjórninni skýrslu um þessar fjárfestingar u.þ.b. tvisvar á ári og skýrt þær fyrir stjórnarmönnum. Almennt hafi fjárfestingar ekki komið til meðferðar hjá stjórn sjóðsins, en lánveitingin til Burnham hafi verið óvenjuleg og því átt að fara fyrir stjórn. Stefndi hafi yfirleitt ekki borið undir hann fjárfestingar í þágu sjóðsins. Mætti upplýsti, sérstaklega aðspurður, að til þess hafi komið í nokkrum tilvikum að beiðnir um óvenjulegar fjárfestingar hafi verið bornar undir sjóðsstjórn.
Stefndi kvað starf sitt hafa falist í daglegum rekstri sjóðsins. Vinnureglur hans í sambandi við fjárfestingar og lánveitingar hafi verið nokkuð lausar í reipunum, en sú regla hafi verið í gildi, að nægilegt væri, ef framkvæmdastjóri og formaður væru sammála um einstaka ákvörðun. Engar sérstakar skriflegar reglur hafi verið settar, nema um lán til sjóðsfélaga, en í lok tímabils hans sem framkvæmdastjóra hafi verið mótuð fjárfestingastefna. Aðeins einstaka málum, sem tengdust fjárfestingum, hafi verið vísað til stjórnar, ef framkvæmdastjóri eða stjórnarformaður hafi ekki viljað bera ábyrgð á ákvörðun. Stjórninni hafi yfirleitt verið gerð grein fyrir fjárfestingum eftir á. Ekki hafi verið krafist trygginga á lánum, sem veitt voru bönkum eða fjármálastofnunum. Mætti kvaðst ekki muna nú, hvort hann hafði samband við stjórnarformann í tengslum við lán það, sem mál þetta varðar. Þarna hafi verið um að ræða breytingu á þegar veittu láni og því muni hann ekki, hvernig lánveitingin hafi nákvæmlega gengið fyrir sig. Engar athugasemdir hafi verið gerðar um lánveitinguna, meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra né heldur, þegar gengið var frá starfslokasamningi við hann, en þar hafi sérstaklega verið tekið fram, að hvorugur skyldi eiga kröfur á hinn. Hann kvaðst muna eftir því, að Hafliði Kristjánsson, eftirmaður hans í starfi, hafi minnst á þetta skuldabréf á einum fundi af nokkrum hjá Kaupþingi, en sagt bréfið vera í skilum og því skipti þetta líklega engu máli. Fundurinn hafi átt sér stað, áður en Burnham fór í þrot. Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi fyrst minnst á þetta mál við sig í janúar eða febrúar 2002, eftir að Burnham fór í þrot. Mætti tók fram, sérstaklega aðspurður, að hann hafi engan ávinning haft af umræddri lánveitingu frekar en af öðrum fjárfestingum í þágu stefnanda, sem hann hafi staðið fyrir. Hann kvaðst hafa vitað, þegar umrætt lán var veitt, að fjárfestingar stefnanda í óskráðum verðbréfum hafi verið umfram leyfileg mörk. Fjármálaeftirlitinu hafi verið send skýrsla ársfjórðungslega og hann hafi fengið þær upplýsingar, að ekki þyrfti að grípa til róttækra aðgerða til að mæta þessu fjárfestingaskilyrði, heldur ætti að reyna að ná sem bestum kjörum í hverju einstöku máli. Mætti kvaðst ekki minnast þess, að stjórnin hafi látið í ljósi vilja um að útiloka samskipti við Handsal eða Burnham, eftir að sala hlutafjár í Handsali átti sér stað. Hann kannaðist við, að stefnandi hafi lengi reynt að selja hlut stefnanda í Handsali, áður en það loks tókst. Hann kvaðst hafa talið, að Burnham væri skráð fyrirtæki og nokkurs konar dótturfyrirtæki Burnham International í New York, enda hafi forstjóri hins erlenda félags verið varaformaður stjórnar Burnham á Íslandi. Hann hafi því álitið hið erlenda félag eiganda þess íslenska og kaupin vænlegan fjárfestingarkost, sem rúmaðist innan fjárfestingastefnu stefnanda. Ekki hafi verið um að ræða kaup á hlutafé í óskráðu hlutafélagi heldur kaup á skuldabréfi, sem sé allt annar handleggur. Hann upplýsti, að algengt hafi verið að fjárfesta í verðbréfum, útgefnum af fjármálafyrirtækjum og því hafi umrædd kaup ekki verið óvenjuleg né heldur sú upphæð, sem þannig var ráðstafað. Sérstaklega aðspurður kvaðst stefnandi ekki geta sagt um það nú, hvort stjórninni hafi verið gerð sérstök grein fyrir umræddri fjárfestingu.
Vitnið, Björg Sigurðardóttir endurskoðandi, kvaðst hafa komið að málefnum stefnanda vorið 2002. Forveri hennar hafi endurskoðað ársreikning ársins 2001. Staða stefnanda í óskráðum bréfum á ársreikningi 2001 hafi numið um 26% af heildarfjárfestingum sjóðsins, en samkvæmt skýrslu til fjármálaeftirlitsins frá sama tíma hafi hlutfallið verið 29%.
Álit dómsins.
Stefnandi styður málsókn sína á hendur stefnda þeim rökum, að stefndi hafi með kaupum á umræddu skuldabréfi brotið gegn ákvæðum VII. kafla laga nr. 129/1997 og kaupin hafi einnig farið í bága við samþykktir stefnanda, einkum fyrirmæli 10. og 26. gr. þeirra.
Skv. 2. mgr. 10. gr. samþykktanna, sem áður er lýst, ber framkvæmdastjóra að leggja óvenjulegar og meiri háttar ákvarðanir undir stjórn til samþykktar, svo og ákvarðanir samkvæmt áætlun, sem samþykkt hefur verið af stjórninni.
Hvergi er að finna í samþykktum stefnanda skilgreiningu á því, hvað teljist óvenjulegar eða meiri háttar ákvarðanir. Ekki er við aðrar reglur að styðjast í þessu efni, sem dóminum er kunnugt um. Óljóst er því, hvort hér skuli miða við þá fjármuni, sem í húfi eru hverju sinni, áhættutöku eða hvort ákvörðun felist í úrlausn máls, sem stjórn eða framkvæmdastjóri hafa ekki áður fengið til meðferðar, eða öll þessi atriði saman vegin. Ákvæðið nær einnig til ákvarðana, samkvæmt áætlun, sem stjórnin hefur áður samþykkt. Engin skýring eða leiðbeining er gefin í samþykktunum, hvernig skilja beri þessi fyrirmæli. Sé átt við fjárfestingaráætlun, verður að líta til þess, að stjórnin gaf stefnda mjög frjálsar hendur um það, hvernig hann hagaði verðbréfakaupum og lét það viðgangast, að hann gerði stjórninni eftir á grein fyrir ráðstöfunum sínum, því sem næst tvisvar á ári. Ekki liggur annað fyrir en þessir starfshættir hafi lengi tíðkast og stjórn stefnanda engar athugasemdir gert, svo vitað sé. Stefndi hafði því engar skýrar reglur að styðjast við til leiðbeiningar því, hvenær mál væri með þeim hætti, að leita bæri samþykkis stjórnar. Því þykir ekki sjálfgefið, að umrædd skuldabréfakaup hafi verið svo óvenjuleg eða meiri háttar, að stefnda hafi verið skylt að leita samþykkis stjórnar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 10. gr. Ekki þykir heldur einsýnt um það, að kaupin hafi fallið undir síðari málslið tilvitnaðs ákvæðis.
Með vísan til þessa er ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda, að stefndi hafi brotið starfskyldur sínar með því að láta hjá líða að bera skuldabréfakaupin undir stjórn stefnanda, áður en þau voru afráðin.
Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi með kaupunum brotið gegn fyrirmælum 26. gr. samþykktanna. Í 1. mgr. 26. gr. er heimildum sjóðsins til ávöxtunar á fé sínu lýst í 10 töluliðum. Kaup stefnda falla að mati dómsins undir 8. tl., en þar er veitt heimild til kaupa á öðrum verðbréfum. Í öðrum töluliðum 1. mgr. er einkum fjallað um heimild til kaupa á sérgreindum verðbréfum, s.s. verðbréfum með ríkisábyrgð, veðtryggðum skuldabréfum og hlutabréfum og skilyrðum lýst, sem þessi verðbréf þurfi að uppfylla. Þessum skilyrðum og takmörkunum er nánar lýst í 2. til 5. mgr. 26. gr. Í 4. mgr. segir, að eign sjóðsins skv. 1. 5. og 8. tl. 1.mgr. hverjum um sig og 6. og 9. tl. skuli samanlagt ekki vera meiri en 35% af hreinni eign sjóðsins. Þó skuli eign skv. 9.tl. (innlend hlutabréf í óskráðum félögum) ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Í 5. mgr. er m.a. sú takmörkun sett, að samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum, skv. 2-9 tl., útgefnum af sama aðila eða aðilum, sem tilheyra sömu samstæðunni, skuli miðast við 10% af hreinni eign sjóðsins, en við 5% fyrir verðbréf skv. 8. tl. Hrein eign er skilgreind svo í 7. mgr. að átt sé við hreina eign sjóðsins til greiðslu lífeyris samkvæmt síðasta endurskoðaða ársuppgjöri.
Kaupin á skuldabréfi Burnham verða að mati dómsins felld undir 8. tl. 1. mgr. 26. gr. samþykktanna, eins og áður segir. Fram kemur í ársreikningum stefnanda fyrir árið 1999 að heildarverðmæti verðbréfasafns sjóðsins hafi numið u.þ.b. 13.240 milljörðum króna. Engra upplýsinga nýtur um það, hvert hafi verið hlutfall þessa verðbréfaflokks (önnur verðbréf) í verðbréfasafni stefnanda. Því verður ekki séð, hvort stefndi hafi farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt 26. gr. með kaupum á umræddu skuldabréfi.
Stefnandi byggir einnig á því, að kaup stefnda á skuldabréfi Burnham hafi ekki samrýmst þeirri fjárfestingaráætlun, sem mótuð var á stjórnarfundi stefnanda 21. júní 2001. Í þeirri fundarsamþykkt eru tilgreindir átta flokkar verðbréfa og við hvern flokk sett í hundraðshlutum hámark og lágmark. Umrætt skuldabréf fellur í þann flokk áætlunarinnar sem nefndur er skuldabréf annarra (fyrirtækja og einstaklinga). Þar er lágmarkið sett á 10% af heildarsafni en hámarkið er 20%. Svo virðist sem hér sé um að ræða langtímastefnumörkun um samsetningu verðbréfasafns stefnanda. Heildarverðmæti verðbréfasafns stefnanda nam rúmlega 13.240 milljörðum króna í árslok 1999, eins og áður er getið. Kaupverð skuldabréfsins nam því u.þ.b. 0,3% af verðbréfasafni stefnanda, en u.þ.b. 3% sé miðað við lægri mörk í fjárfestingaráætlun hans um skuldabréfaeign.
Að þessu virtu, þykir ekki fullsannað að stefndi hafi brotið gegn fjárfestingaráætlun stefnanda með umræddum kaupum.
Þá er á því byggt af hálfu stefnanda, að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með kaupum á umræddu skuldabréfi. Það hafi verið án nokkurra trygginga, sem hljóti að teljast vítavert með tilliti til fjárhæðar bréfsins. Einnig er á því byggt, að stefnda hafi verið kunnugt um afstöðu stjórnar stefnanda og þekkt til afskipta hennar af Handsali hf., forvera Burnham International á Íslandi hf.
Stefndi hélt því fram í skýrslu sinni fyrir dóminum, að ekki hafi verið krafist trygginga við kaup á verðbréfum, útgefnum af fjármálastofnunum.
Við mat á ákvörðun stefnda um skuldabréfakaupin verður að líta til aðstæðna, eins og þær voru, þegar kaupin voru gerð. Stefndi greindi dóminum frá því, að hann hafi álitið, að Burnham væri skráð fyrirtæki og nokkurs konar dótturfyrirtæki Burnham International í New York og því hafi hann talið hið erlenda félag eiganda þess íslenska og kaupin vænlegan fjárfestingarkost, sem rúmaðist innan fjárfestingastefnu stefnanda.
Ekki verður talið, að stefndi hafi mátt vita að kaup á umræddu skuldabréfi fæli í sér brot á starfskyldum hans vegna fyrri reynslu stefnanda af Handsali hf. Burnham International hf. á Íslandi var félag, sem að vísu yfirtók rekstur Handsals hf. en var undir nýrri stjórn, auknu hlutafé og annarri eignaraðild.
Sé á hinn bóginn litið til fjárhæðar skuldabréfsins og til 10 ára lánstíma, endurgreiðsluskilmála skuldabréfsins og óvissrar stöðu Burnham á fjármálamarkaði á þessum tíma, þykir stefndi hafa sýnt af sér gáleysi með umræddum kaupum.
Að öllum málsatvikum virtum, aðhaldsleysi og afskiptaleysi stjórnar stefnanda af störfum stefnda, skort á reglum og fyrirmælum og til þess, að stefndi virðist engan hag hafa haft af umræddum lögskiptum, þykir rétt að beita ákvæðum 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 23. gr. sömu laga, og fella niður bótaábyrgð stefnda.
Stefndi skal því vera sýkn af kröfum stefnanda.
Rétt þykir, að stefnandi og stefndi, beri hvor um sig sinn kostnað af málinu.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi beindi málsókn sinni í upphafi með beinum hætti að réttargæslustefnda og gerði sömu kröfur á hendur honum og stefnda, Gísla. Réttargæslustefndi varð því að verjast kröfum stefnanda og skilaði af því tilefni ítarlegri og efnismikilli greinargerð, eins og áður er lýst. Krafðist réttargæslustefndi aðallega frávísunar málins að því er hann snerti, sýknu til vara, en lækkunar krafna til þrautavara. Stefnandi féll frá kröfum sínum á hendur réttargæslustefnda undir rekstri málsins og varð aðild hans upp frá því réttargæsluaðild.
Réttargæslustefndi þykir því eiga rétt til málskostnaðar úr hendi stefnanda, sem ákveðst 249.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Skúli J. Pálmason kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Gísli Marteinsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Lífeyrissjóðs Austurlands.
Málskostnaður fellur niður.
Stefnandi greiði réttargæslustefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 249.000 krónur í málskostnað.