Hæstiréttur íslands

Mál nr. 488/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Réttaráhrif dóms
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Föstudaginn 30. ágúst 2013.

Nr. 488/2013.

Leó Eiríkur Löve

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Bryndísi Bragadóttur

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Réttaráhrif dóms. Frávísunarúrskurður staðfestur

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L á hendur B var vísað frá dómi sökum þess að dómstólar hefðu þegar leyst endanlega úr sakarefninu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 15. júlí 2013 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess „að frávísunarkröfu [varnaraðila] í málinu [verði] hafnað“ og ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms, en til vara að málskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Leó Eiríkur Löve, greiði varnaraðila, Bryndísi Bragadóttur, 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2013.

Stefnandi, Leó E. Löve, Kringlunni 35, Reykjavík, höfðaði mál þetta 27. desember sl. á hendur stefndu Bryndísi Bragadóttur, Kringlunni 71, Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar 19. júní sl. að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefndu. Stefnandi krefst þess að kröfu stefndu um frávísun verði hafnað og að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms en til vara að málskostnaður falli niður verði fallist á kröfu stefndu um frávísun. Stefndi krefst málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur samkvæmt stefnu eru þær stefnda greiði stefnanda 1.432.053 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.235.000 krónum frá 19. maí 1989 til 5. apríl 1990, af 1.385.000 krónum frá 5. apríl 1990 til 31. maí 2001 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. maí 2001 til 15. janúar 2003 en dráttarvexti af allri upphæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 15. janúar 2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaður úr hendi stefndu að skaðlausu.

Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefnda þess að hún verði sýknuð af öllum dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gerir stefnda þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, en áskilinn er réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning við aðalflutning málsins, ef til hans kemur. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

I

Krafa stefnanda á rætur að rekja til tékka nr. 2250825 sem stefnda gaf út 21. apríl 1989 til handhafa. Eins og lýst er í stefnu fékk stefnandi dóm fyrir kröfunni 20. mars 1990 og hefur lagt fram dóminn. Um er að ræða dóm Bæjarþings Reykjavíkur í máli nr. 4681/1989 Lögþing h/f gegn Bryndísi Bragadóttur og Erni Karlssyni þar sem þeim var gert að greiða stefnanda 1.235.000 krónur auk nánar tilgreindra vaxta ásamt 150.000 krónum í málskostnað. Bú stefndu var tekið til gjaldþrotaskipta þann 28. október 1991. Stefnandi lýsti kröfu í búið en kveðst ekki hafa fengið neitt upp í hana. Skiptum lauk 12. júní 1992 og búið var lýst eignalaust. Bú stefndu var enn á ný tekið til gjaldþrotaskipta þann 15. janúar 2003, skiptum lauk þann 4. febrúar 2005 og var búið lýst eignalaust. Stefnandi kveðst án árangurs hafa gert tilraunir til að innheimta kröfuna. Stefnanda sé því nú nauðsyn að höfða mál þetta til að fá kröfu sína áfram viðurkennda.

Stefnandi segir kröfuna byggja á eftirtöldum kröfuliðum:

Höfuðstóll frá 19. maí 1989                                                           kr. 1.235.000.-

Málskostnaður í dómi Bæjarþings Reykjavíkur

Uppkveðinn hinn 20. mars 1990                                                   kr. 150.000.-

Endurrit dómsins                                                                               kr. 500.-

Birting dómsins                                                                                  kr. 2.560.-

Ritun aðfararbeiðna árið 2002                                                      kr. 9.782.-

Kostnaður fyrir aðfararbeiðnir                                                       kr. 17.403.-

Kostnaður fyrir aðfararbeiðni fyrir gjaldþrotaskipti                  kr. 11.205.-

Ritun gjaldþrotaskiptabeiðni árið 2003                                        kr. 5.603.-

Samtals                                                                                               kr. 1.432.053.-

Stefnandi vísar til framlagðrar aðfararbeiðni og gjaldþrotaskiptabeiðni um nánari skýringar á kröfunni. Stefnandi segir nauðsyn að höfða mál þetta nú vegna ákvæðis í 165. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 eins og því hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010. Samkvæmt 2. gr. síðarnefndu laganna fyrnist krafa stefnanda á tveimur árum frá og með 28. desember 2010 eða þann 29. desember 2012. Lögin hafi verið birt í Stjórnartíðindum þann dag og taki því gildi gagnvart stefnanda sama dag, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.

Stefnandi byggir einnig á því að kröfur um fyrningartíma, um sönnun á greiðslugetu skuldara og um hagsmuni kröfuhafa af greiðslu skuldar, sem gerðar séu með lögum nr. 142/2010 standist ekki ákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Því eigi að dæma eftir ákvæðinu eins og það hafi verið fyrir breytinguna með lögum nr. 142/2010 til að stefnandi geti með einföldum hætti viðhaldið kröfu sinni eins og verið hafi. Stefnandi telur að 165. gr. gjaldþrotalaga, eins og henni var breytt með 1. og 2. gr. laga nr. 142/2010, stríði gegn reglum um afturvirkni laga og því beri að víkja þeim til hliðar, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og lög nr. 62/1994. Jafnframt sé um brot á jafnræðisreglu og meðalhófsreglu að ræða. Löggjafinn geti ekki haggað gagnkvæmum samningum, viðskiptum og loforðum nema í algjörum undantekningartilvikum og komi fullar bætur fyrir.

Í stefnu er einnig að finna þá ósk stefnanda að sakarefni verði skipt með heimild í 31. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og fyrst leyst úr þessum þætti málsins til að stefnandi þurfi ekki að þarflausu að fara í kostnaðarsama sönnunarfærslu á stöðu sinni og hagsmunum af því að fá kröfuna greidda sem og að sanna greiðslugetu stefndu eins og hann hafi átt rétt á samkvæmt ákvæði 165. gr. gjaldþrotalaga fyrir breytinguna með lögum nr. 142/2010. Í stefnu eru rakin rök stefnanda fyrir hagsmunum hans af því að fá kröfuna greidda.

Um lagarök vísar stefnandi, auk framangreindra lagaákvæða, til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, auk laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr., en stefnandi segir að taka verði mið af skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málskostnaði, sbr. lög nr. 50/1988. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá og með 31. maí 2001 þegar lögin voru birt í Stjórnartíðindum. Fyrir þann tíma byggir stefnandi kröfu sína um dráttarvexti á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá gjalddaga upphaflegs höfuðstóls, 1.235.000 krónur en höfuðstóls og málskostnaðar, aukalega 150.000 krónur frá dómi Bæjarþings Reykjavíkur um greiðslu skuldarinnar til gildistöku laga nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta af öllum öðrum kröfum miðast við kröfu um gjaldþrotaskipti þann 15. janúar 2003.

Krafa stefndu um sýknu er á því byggð að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi fyrnst 29. desember 2012. Skýrlega verði ráðið af ákvæði 3., sbr. 2. mgr. 165. gr., laga nr. 21/1991 eins og því var breytt með 2., sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010, að fyrningu slíkra krafna verði aðeins slitið með málshöfðun innan fyrningarfrests á hendur þrotamanni til viðurkenningardóms um fyrningarslit gagnvart honum. Ákvæðið verði ekki skilið á annan veg en að um sé að ræða viðurkenningarmál um slit fyrningar. Málatilbúnaður og kröfugerð stefnanda fullnægi ekki því skilyrði laganna. Málshöfðun þessi hafi því ekki slitið fyrningu líkt og lög nr. 142/2010 gera kröfu um. Krafa stefnanda sé því fyrnd. Ákvæði laga nr. 142/2010 séu stjórnskipulega gild og skýr um efni sitt. Með lögum nr. 142/2010 sé í reynd ekki verið að skerða réttindi sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ef lög nr. 142/2010 verða talin fela í sér skerðingu réttinda sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sé skerðingin innan þeirra marka sem ákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar setur því að unnt sé að skerða eignarréttindi manna án þess að sérstakar bætur komi fyrir. Stefnda mótmælir því einnig að lögin stríði gegn viðhorfum sem gildi um afturvirkni laga. Loks heldur stefnda því fram, verði ekki fallist á sýknukröfu hennar af framangreindum ástæðum, að stefnandi hafi ekki gert það líklegt með rökstuðningi sínum að hann uppfylli kröfur 3. mgr. 165. gr. um að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, né hafi stefnandi sýnt fram á að líkur séu á því að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma.

II

Þegar málið var tekið fyrir 19. júní sl. lýsti lögmaður stefnanda því yfir að við nánari skoðun hefði hann séð að kröfugerð hans hefði mátt vera skýrari. Hann lagði fram breytta kröfugerð undir yfirskriftinni „Skýringar og lagfæring á kröfugerð“ þar sem sett er fram svohljóðandi „Kröfugerð“: „Stefnandi gerir þá kröfu að viðurkennd verði slit á fyrningu gagnvart stefndu vegna fjárkröfu sem dæmd var á bæjarþingi Reykjavíkur þann 20. mars 1990 og síðast lýst gagnvart stefndu með kröfu um gjaldþrotaskipti 15. janúar 2003. Krafist er greiðslu á 47.053.- krónum auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  1.235.000.- krónum frá 20. mars 1990 til 5. apríl 1990, af 1.385.000.- krónum frá 5. apríl 1990 til 31. maí 2001 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. maí 2001 til 15. janúar 2003 en dráttarvexti af 1.432.053.- samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 15. janúar 2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu.“

Til stuðnings breyttri kröfugerð segir í fyrrgreindu skjali lögmanns stefnanda að krafan hafi í raun komið fram í stefnu í síðustu línu málavaxta, enda ljóst af málabúnaði, málsástæðum og lagarökum í stefnu að verið sé að gera slíka kröfu á grundvelli núgildandi 3. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Kröfugerðin í stefnu lúti að því hver hin aðfararhæfa krafa verði með efnisdómi í þessu máli og sé nú lagfærð eftir ábendingum stefnda. Í engu sé vikið að formi framsetningar dómkrafna á grundvelli núgildandi 3. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga og að krefjast þurfi slita á fyrningu. Það að fallist sé á vaxtakröfur stefnanda að hluta í þessu máli feli í sér efnisdóm um að fyrningu telst slitið. Í málinu sé enn óleystur ágreiningur um tímabil vaxta og þann kostnað sem stefnandi hafi haft af því að viðhalda kröfunni. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir þeim kröfum og hafi því höfðað þetta mál um allar kröfur sem séu sprottnar af lögskiptum aðila sem upp hafa komið eftir að dómur gekk í Bæjarþingi Reykjavíkur 20. mars 1990.

Lögmaður stefndu mótmælti nýrri kröfu stefnanda með vísan til þess að um væri að ræða sjálfstæða kröfu um viðurkenningu á slitum á fyrningu kröfunnar sem rúmaðist ekki innan upphaflegrar kröfu stefnanda í málinu. Nýjan krafan væri einnig stefndu verulega í óhag í málinu. Hún samrýmdist því ekki 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

Krafa stefndu um frávísun málsins er byggð á því að þegar sé búið að dæma þá kröfu sem mál þetta varðar að efni til með fyrrgreindum dómi Bæjarþings Reykjavíkur 20. mars 1990. Því beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Lögþing hf. hafi fengið innheimtuumboð til að sækja kröfu stefnanda á hendur stefndu. Málsóknarumboð lögmanna helgist af dómvenju og í því felist að lögmanni sé framseld krafa til innheimtu en ekki til eignar. Lögmaðurinn höfði þá dómsmál til innheimtu hennar í eigin nafni. Líkt og stefnandi virðist sjálfur ganga út frá í málatilbúnaði sínum hafi stefnandi, þrátt fyrir framangreint framsal til málamynda vegna innheimtutilrauna, verið raunverulegar eigandi þeirrar kröfu sem mál þetta varðar frá 1989 og dæmd var að efni til árið 1990. Eins og stefnandi leggi málatilbúnað sinn upp í máli þessu verði að líta svo á að hann krefjist efnislegrar úrlausnar um sama sakarefni og leyst var úr í áðurnefndum dómi frá 1990. Stefnandi sé hins vegar bundinn af áðurnefndum dómi um úrlausn þessa sakarefnis þar sem krafan hafi verið dæmd að efni til milli þessara sömu aðila og þeirra sem að lögum gátu komið í þeirra stað, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi geti því ekki í máli þessu fengið efnislega leyst úr sama sakarefni og áður hafi verið leyst úr fyrir hliðstæðum dómstóli. Málinu beri því að vísa frá dómi.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefndu andmælti lögmaður stefnanda framangreindum sjónarmiðum stefndu. Hann hefði lagað kröfugerðina en hún væri efnislega sú sama og sett hefði verið fram í stefnu. Í kröfugerð hans samkvæmt stefnu fælist bæði fjár- og viðurkenningarkrafa. Stefnanda bæri nauðsyn til að fá dóm um að krafa hans væri enn til staðar.

III

Stefnukrafa máls þessa felur í sér fjárkröfu. Ekki verður fallist á það með stefnanda að kröfu um viðurkenningu á slitum fyrningar á kröfu hans sé að finna í stefnu. Breytt kröfugerð stefnanda frá því er greinir í stefnu, undir því fororði að um sé að ræða skýringu og lagfæringu á kröfugerð hans sem í raun komi fram í stefnu, felur í sér að stefnandi vill bæta við stefnukröfu sína nýrri kröfu og allt annars eðlis sem auk þess er stefnda í óhag. Gegn andmælum stefndu kemst hún því ekki að í málinu, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Þá liggur ljóst fyrir að dómur hefur þegar gengið um dómkröfur stefnanda samkvæmt stefnu, sbr. fyrrgreindan dóm Bæjarþings Reykjavíkur frá 20. mars 1990. Samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ber því að vísa málinu frá dómi.

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Leó E. Löve, greiði stefndu, Bryndísi Bragadóttur 250.000 krónur í málskostnað.