Hæstiréttur íslands
Mál nr. 606/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn
- Fjarskipti
|
|
Þriðjudaginn 15. nóvember 2011. |
|
Nr. 606/2011. |
Sýslumaðurinn á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Rannsókn. Fjarskipti.
S krafðist dómsúrskurðar um heimild til að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við nánar tilgreint símanúmer yfir ríflega 19 mánaða tímabil frá apríl 2010 til nóvember 2011. Krafa lögreglu var tekin til greina í héraði, en með vísan til 3. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var heimildin takmörkuð við fjögurra vikna tímabil. Fyrir Hæstarétti takmarkaði S kröfu sína við 13 mánaða tímabil. Í dómi réttarins segir meðal annars að með vísan til framkominna upplýsinga í málinu væri fallist á þá kröfu S, enda gæti takmörkun sú sem fram kæmi í 3. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 eðli málsins samkvæmt ekki átt við um öflun upplýsinga um fjarskipti í fortíðinni eins og hér var óskað eftir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. nóvember 2011, þar sem fallist var á að lögreglunni á Akureyri væri heimilt að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við símanúmerið [...] frá og með 12. október 2011 til og með 8. nóvember sama ár. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að lögreglunni á Akureyri verði heimilað að fá upplýsingar um símtöl og önnur fjarskipti við símanúmerið frá og með 8. nóvember 2010 til og með 8. nóvember 2011.
Skráður rétthafi símnúmers þess sem umbeðin rannsóknaraðgerð beinist að er Y en hún er sambýliskona varnaraðila. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili gefið upp hjá lögreglu þetta símanúmer sem sitt. Kröfu um rannsóknaraðgerðina setti sóknaraðili fram við Héraðsdóm Norðurlands eystra með vísan til 80. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði fær það stoð í rannsóknagögnum lögreglu, að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila um brotastarfsemi þá sem þar er lýst. Með vísan til þessa er fallist á það mat héraðsdómara að ástæða sé til að ætla að upplýsingar sem miklu máli geta skipt við rannsókn málsins fáist með umbeðinni rannsóknaraðgerð.
Í kröfu sýslumannsins á Akureyri til héraðsdóms var krafist aðgangs lögreglu að umbeðnum upplýsingum fyrir tímabilið frá 1. apríl 2010 til 8. nóvember 2011. Héraðsdómur veitti heimildina, en með vísan til 3. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 var heimildin bundin við fjórar vikur, það er tímabilið frá 12. október 2011 til og með 8. nóvember sama ár. Í kæru til Hæstaréttar hefur sóknaraðili takmarkað kröfu sína og krefst nú upplýsinga fyrir tímabilið 8. nóvember 2010 til 8. nóvember 2011. Með vísan til framkominna upplýsinga í málinu verður fallist á þá kröfu, enda getur takmörkun sú sem fram kemur í 3. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 eðli málsins samkvæmt ekki átt við um öflun upplýsinga um fjarskipti í fortíðinni eins og hér er óskað eftir.
Dómsorð:
Sýslumanninum á Akureyri er heimilt að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við símanúmerið [...] frá 8. nóvember 2010 til og með 8. nóvember 2011.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. nóvember 2011.
Mál þetta barst dómnum í gær.
Rannsóknari, sýslumaðurinn á Akureyri, sem fer þar með lögreglustjórn samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1996 með síðari breytingum, krefst þess að lögreglu verði heimilað að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl úr og í símanúmerið [...] og önnur fjarskipti sem nota þetta símanúmer, frá 1. apríl 2010 til 8. nóvember 2011. Kveður hann lögreglu hafa upplýsingar um að notandi símtækis með þessu númeri sé X, kt. [...].
Í greinargerð með kröfunni er rakið að lögreglu hafi á síðastliðnum þremur misserum stöku sinnum borist upplýsingar um að nefndur sakborningur stundi viðskipti með fíkniefni og flytji inn lyf. Sambýliskona hans sé skráður rétthafi símanúmersins, en hann hafi gefið það upp sem sitt við lögreglu. Hann sé í forsvari fyrir tvö nánar greind einkahlutafélög, sem reki tvo tiltekna veitingastaði á [...]. Rannsóknari segir lögreglu telja upplýsingar sínar mjög áreiðanlegar. Fylgja kröfunni skýrslur lögreglumanna um þær. Grunar lögreglu að á næstunni muni sakborningur reyna að smygla til landsins fíkniefnum og lyfjum og sé henni því nauðsynlegt að fá umbeðnar upplýsingar um símasamskipti, sem muni skipta miklu fyrir rannsókn málsins, sbr. 1. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Kveður rannsóknari málið vera rannsakað sem hugsanleg brot gegn 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og eftir atvikum 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lyfjalögum nr. 93/1994.
Dómari hefur fallist á kröfu rannsóknara um að sakborningur verði ekki kvaddur fyrir dóm vegna meðferðar kröfunnar.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og fær stoð í rannsóknargögnum lögreglu, beinist sterkur grunur að sakborningi um framangreinda brotastarfsemi. Verður fallist á að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem geti skipt miklu fyrir rannsókn máls, fáist með umbeðinni aðgerð. Verður því á kröfuna fallist, nema hvað varðar tímaafmörkun.
Samkvæmt 3. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008 skal slíkri heimild sem þeirri sem hér er farið fram á, markaður ákveðinn tími sem ekki má vera lengri en fjórar vikur hverju sinni. Með vísan til þess verður lögreglu að sinni aðeins heimilað að afla umbeðinna upplýsinga frá og með 12. október 2011 til og með 8. nóvember 2011.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Lögreglunni á Akureyri er heimilt að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við símanúmerið [...], frá og með 12. október 2011 til og með 8. nóvember 2011.