Hæstiréttur íslands

Mál nr. 608/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Fullnusta refsingar


Þriðjudaginn 26. október 2010.

Nr. 608/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Reynslulausn. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi gert að afplána 600 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að hann hefði framið brot er varðað gæti allt að sex ára fangelsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að afplána 600 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar 3. maí 2007. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

      Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Hæstaréttar Íslands frá 3. maí 2007, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun hinn 22. desember 2009.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að föstudaginn 22. október sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að öryggisverðir í [...], Smáralind, væru í átökum við karl og konu sem staðin hafi verið að þjófnaði, en um hafi verið að ræða X og Y. Að sögn öryggisvarðanna hafi sést til þeirra í öryggismyndavélum taka skó, fatnað, snyrtivörur og drykki og stungið vörunum í tösku sem þau hafi verið með. X og Y hafi veitt mikla mótspyrnu þegar öryggisverðir hugðust stöðva för þeirra og hafi svo farið að annar öryggisvarðanna hafi slasast á fingri. X og Y hafi verið handtekin og flutt í fangageymslu á lögreglustöðinni á Hverfisgötu.

X hafi verið yfirheyrður vegna málsins í dag. Hafi hann játað að hafa stolið rakspíra en ekki fleiru. Hafi hann sagst hafa ætlað að stela vörum til að nota til að greiða fíkniefnaskuld. X hafi jafnframt játað að hafa stolið leðurbelti og leðurhönskum sem hafi fundist á honum við leit umrætt sinn. Þá hafi hann verið með segul á sér sem notaður sé til að ná þjófavarnarmerkingum af fatnaði og hafi hann sagt hafa notað hann nokkrum sinnum í þeim tilgangi. Nánar aðspurður um fíkniefnaskuldina kvaðst hann hafa skuldað 1.000.000 krónur en að skuldin væri nú komin niður í 100.000 – 200.000 krónur en þetta væri vegna kókaínskuldar. Hafi honum verið hótað að honum og börnum hans yrði gert mein ef hann ekki greiddi skuldina.

Auk þessa máls sé kærði sterklega grunaður í eftirfarandi 9 málum:

Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, hinn 28. september sl., í versluninni [...], [...], Kópavogi, stolið tveimur Nexbase DVD-spilurum og PS3 Move start pack, samtals að andvirði 151.985 krónur. Á myndbandsupptökum megi sjá kærða taka umræddar vörur og hafi hann játað sök við yfirheyrslu.

Kærði sé grunaður um aðild að þjófnaði með því að hafa, hinn 30. september sl., í versluninni [...], [...], Kópavogi, í félagi við Y og Z stolið Toshiba Intel core i5 fartölvu. Á myndbandsupptökum megi sjá þjófnaðinn. Við yfirheyrslu hafi kærði sagst ekki hafa vitað af þjófnaðinum en hann hafi játað að hafa keypt tölvuna af Z og látið hana upp í fíkniefnaskuld.

Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, hinn 1. október sl., í versluninni [...], [...], Kópavogi, stolið tveimur HP fartölvum, samtals að andvirði 449.990 krónur. Á myndbandsupptökum megi sjá kærða stinga tölvunum innanklæða og ganga með þær út úr versluninni. Hafi hann játað sök við yfirheyrslu.

Kærði sé grunaður um þjófnað með því að hafa, hinn 7. febrúar sl., í verslun [...] við [...] í Reykjavík, stolið veski A, starfsmanns [...], sem hafi innihaldið um 7-8 þúsund kr. í reiðufé, vísakort, debetkort, ökuskírteini o.fl. Hann sé jafnframt grunaður um tilraun til fjársvika, með því að hafa síðar sama dag, í verslun [...] í Skeifunni, reynt að nota greiðslukort A til að greiða fyrir vörur. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði sagst þekkja sig á myndbandsupptöku en lítið geta tjáð sig um þetta þar sem hann myndi ekki eftir atvikinu sökum fíkniefnaneyslu.

Kærði sé grunaður um gripdeild, með því að hafa, hinn 24. febrúar sl. í verslun [...] í [...] í Reykjavík, fyllt innkaupakerru af matvöru, samtals að andvirði 35.411 krónur, og gengið með hana út úr versluninni en matvörurnar hafi allar komist til skila. Kærði hafi þekkt sjálfan sig á myndbandsupptöku sem hafi náðst af atvikinu og hefi játað sök.

Kærði sé grunaður um þjófnað, með því að hafa, hinn 28. júní sl., í [...], [...], Reykjavík, stolið seðlaveski í eigu B, starfsmanns verslunarinnar, sem í hafi verið um 20.000 krónur í reiðufé auk greiðslukorta o.fl. Hann sé jafnframt grunaður um vörslur fíkniefna og eignaspjöll um rætt sinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi hann játað vörslur fíkniefna og hafi sagst muna óljóst eftir rúðubroti og veskinu en hafi þó ekki getað tjáð sig mikið um það þar sem hann myndi atvik illa sökum fíkniefnaneyslu. 

Kærði sé grunaður um akstur án ökuréttinda hinn 15. júlí sl. og hafi játað sök við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Kærði sé grunaður um vörslur fíkniefna hinn 8. september sl. Hann hafi játað sök.

Kærði sé grunaður um akstur án ökuréttinda og undir áhrifum fíkniefna hinn 31. júlí sl. Hann hafi neitað að tjá sig um málið en vitni hafi bent á hann sem ökumann umrætt sinn og hafi fíkniefni mælst í þvagi hans.

Með ofangreindri háttsemi hafi kærði með síendurteknum brotum rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um brot gegn 244 gr., 245. og 248. gr. almennra hegningarlaga og lögum um ávana- og fíkniefni er geti varðað 6 ára fangelsi, auk brota gegn umferðarlögum.

Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005. 

Kærða var veitt reynslulausn á eftirstöðvum fangelsisrefsingar 22. desember 2009.  Í ákvörðun Fangelsismálastofnunar um það segir til samræmis við 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005, að skilyrði hennar séu: „ Að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum.“  Kærði hefur játað fyrir lögreglu að hafa gerst sekur um sex brot, sem falla undir 244. gr., 245. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.  Kærði er einnig grunaður um fjögur brot, tvö af þeim gegn 244. gr.  Er með þessu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um að hann hafi á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og að fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað getur sex ára fangelsi.  Samkvæmt ofanrituðu þykja uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærða verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar refsinga sem honum var veittur með ákvörðun Fangelsismálastofnunar um reynslulausn 22. desember 2009.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, kt. [...], skal afplána 600 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar Íslands 3. maí 2007.