Hæstiréttur íslands

Mál nr. 262/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 22

 

Miðvikudaginn 22. júní 2005.

Nr. 262/2005.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi. Frávísun máls frá Hæstarétti.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu hans um að R væri skylt að afhenda verjanda hans endurrit allra gagna, sem R hefði aflað eða honum hefðu borist vegna rannsóknar opinbers máls, sem beindist að X og hefðu verið í vörslum R í meira en þrjár vikur, var vísað frá dómi. Upplýst var að R hafði eftir að X kærði úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar afhent verjanda hans endurrit allra gagna sem vörðuðu það sakarefni sem þegar hefði verið beint að skjólstæðingi hans. Var málinu því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2005, þar sem kröfu varnaraðila um að sóknaraðila sé skylt að afhenda verjanda hans endurrit allra gagna, sem sóknaraðili hefur aflað eða honum hafa borist vegna rannsóknar opinbers máls, sem beinist að varnaraðila, og hafa verið í vörslum sóknaraðila í meira en þrjár vikur, var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka efnislega afstöðu til kröfu hans.

          Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999 og 1. gr. laga nr. 86/2004, skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum sem mál varða. Frá þessari meginreglu er sú undantekning í 2. málslið ákvæðisins að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Af fyrri dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á skýringu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 er ljóst að aðgangur verjanda að gögnum getur takmarkast enn frekar vegna hagsmuna annarra af friðhelgi upplýsinga um persónuleg málefni þeirra. Þá á verjandi aðeins rétt til skjala, sem varða það sakarefni sem beint er að skjólstæðingi hans, sbr. dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2002 í máli nr. 500/2002.

Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að hann hafi 20. júní sl. afhent verjanda varnaraðila endurrit allra gagna sem varða það sakarefni sem þegar hefur verið beint að skjólstæðingi hans. Samkvæmt því er ljóst að ástand, sem leiddi af atvikum þeim, sem fjallað er um í hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Skal málinu þá vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti.