Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2013


Lykilorð

  • Húsbrot
  • Eignaspjöll
  • Líkamsárás
  • Rannsókn
  • Kæra
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 14. nóvember 2013.

Nr. 389/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Húsbrot. Eignaspjöll. Líkamsárás. Rannsókn. Kæra. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.

X var ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og líkamsárás með því að hafa ruðst heimildarlaust í íbúð í fjölbýlishúsi og veist þar að A, ýtt við henni og rifið utan af henni nærbuxur með þeim afleiðingum að hún hlaut rispu á mjöðm, auk þess að hafa hent farsíma og örbylgjuofni í gólf íbúðarinnar. Þá var X ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa síðar sama dag í sama fjölbýlishúsi veist að Á þannig að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í ofn og hlaut við það sár á hvirfli. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt A hefði borið fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu fyrir húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eignaspjöll samkvæmt 1. mgr. 257. gr. sömu laga hefði þar ekki komið fram að hún krefðist þess að sakamál yrði höfðað á hendur honum. Hafi því ekki verið fullnægt skilyrði 1. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til höfðunar sakamáls og þegar úr því hafi verið bætt 11 mánuðum síðar hafi verið liðinn hinn lögbundni 6 mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa frá héraðsdómi þeim hluta ákærunnar sem laut að framangreindum brotum. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu X af ákæru fyrir líkamsárásir gagnvart A og B.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2013. Af hálfu ákæruvalds er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að sé það gert að skilyrði fyrir því að sakamál sé höfðað, að krafa sé um það gerð, skuli það því aðeins gert að brotaþoli krefjist þess. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. sömu greinar að heimild til þess að bera fram kröfu um málshöfðun samkvæmt 1. mgr. falli niður sé krafa ekki gerð innan sex mánaða frá því að sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um þann sem sekur kann að vera um hina refsiverðu háttsemi. Í málinu er ákærða meðal annars gefið að sök húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt a. lið 2. töluliðar 242. gr. laganna sætir slíkt brot ákæru eftir kröfu þess manns sem misgert var við. Einnig eru ákærða gefin að sök eignaspjöll  samkvæmt 1. mgr. 257. gr. sömu laga, en í 4. mgr. þeirrar greinar er mælt fyrir um að því aðeins skuli höfðað mál út af slíku broti að sá krefjist þess sem misgert var við. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið niðurlag hljóðupptöku af skýrslu A hjá lögreglu 11. ágúst 2011, sama dag og umrædd brot eru sögð hafa verið framin, og var skýrslan gefin að viðstöddum réttargæslumanni hennar. Þótt fallist verði á með ákæruvaldinu að A hafi borið fram kæru á hendur ákærða fyrir framangreind brot kom þar ekki fram að hún krefðist þess að sakamál yrði höfðað á hendur honum vegna þeirra. Framangreindu skilyrði til höfðunar sakamáls var því ekki fullnægt umrætt sinn og þegar úr því var loks bætt ellefu mánuðum síðar var liðinn hinn lögbundni sex mánaða málshöfðunarfrestur sem kveðið er á um í 3. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Á hinn bóginn getur Hæstiréttur eftir 3. mgr. sömu greinar fellt úr gildi héraðsdóm ef rétturinn telur líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, meðal annars á grundvelli munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi, að ákærði hafi ekki gerst sekur um brot samkvæmt ákæru gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Verður ekki talið að sú niðurstaða sé röng svo að máli skipti og því hafnað þeirri kröfu ákæruvaldsins að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

Að framansögðu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 276.052 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 3. maí 2013.

Mál þetta, sem þingfest var þann 21. febrúar sl., og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 11. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi, dagsettri 21. janúar 2013, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...],

„fyrir húsbrot, eignaspjöll og líkamsárás

I.

með því að hafa að morgni fimmtudagsins 11. ágúst 2011, ruðst heimildarlaust inn í íbúð í fjölbýlishúsi að [...], og veist þar að A, kt. [...], ýtt við henni og rifið utan af henni nærbuxur með þeim afleiðingum að hún hlaut rispu á vinstri mjöðm. Einnig fyrir að hafa í umrætt sinn hent, annars vegar GSM farsíma í gólfið og stigið á hann og hins vegar örbylgjuofni í gólfið, með þeim afleiðingum að hvort tveggja skemmdist.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940. 

II.

með því að hafa síðar sama dag og þau atvik urðu sem frá greinir í ákærulið I, í stigagangi í sama fjölbýlishúsi og í fyrri ákærulið greinir, veist að B, kt. [...], þannig að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í ofn, með þeim afleiðingum að B hlaut sár á hvirfli.

Telst brot ákærða varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa brotaþolans A, en krafan er svohljóðandi:

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Sigurður Sigurjónsson hrl., f.h. brotaþola samkvæmt fyrri lið ákæru, A, kt. [...], kröfu um að ákærða verði með dómi gert að greiða brotaþola bætur að fjárhæð kr. 642.985,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga, auk kostnaðar sem af réttargæslu eða eftir atvikum lögmannsaðstoðar brotaþola hlýst.“  

Ákærði mætti við þingfestingu málsins. Einnig mætti Jónína Guðmundsdóttir hdl., vegna framkominnar einkaréttarkröfu [...], og var Jónína skipuð réttargæslumaður brotaþola. Málinu var frestað til 7. mars sl. Ákærði mætti fyrir dóm framangreindan dag ásamt Óskari Sigurðssyni hrl., sem skipaður var verjandi að ósk ákærða. Í þinghaldinu játaði ákærði að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð A í fjölbýlishúsinu að [...] samkvæmt fyrsta tölulið ákæru en neitaði sök að öðru leyti samkvæmt þeim ákærulið. Ákærði neitaði einnig sök í síðari ákærulið og hafnaði framkominni einkaréttarkröfu. 

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir húsbrotið og sýknu af líkamsárás í fyrsta og öðrum tölulið ákæru. Ákærði krefst þess að ákæru um eignaspjöll í fyrsta tölulið ákæru verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu af þeim þætti ákæru. Þess er krafist að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi og verjandi ákærða krefst málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Fyrir hönd brotaþolans A, krefst skipaður réttargæslumaður, Jónína Guðmundsdóttir hdl., miskabóta að fjárhæð 600.000 krónur og bóta vegna munatjóns að fjárhæð 42.985 krónur, allt ásamt vöxtum eins og nánar greinir í einkaréttarkröfunni. Þá er gerð krafa um þóknun til handa skipuðum réttargæslumanni og einnig til handa tilnefndum réttargæslumanni brotaþola, Sigurði Sigurjónssyni hrl.

 Málavextir

                Fyrir liggur að A, fyrrverandi sambýliskona ákærða og barnsmóðir, bjó á umræddum tíma ásamt barni hennar og ákærða í leiguíbúð í fjölbýlishúsi að  [...]. Þá liggur fyrir að A og ákærði höfðu nokkrum mánuðum áður slitið samvistum. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að fimmtudaginn 11. ágúst 2011 hafi lögregla tvisvar sinnum með stuttu millibili sinnt útköllum vegna atburða í eða við íbúð A. Í fyrra skiptið, klukkan 10:40, í kjölfar tilkynningar A um að hún hafi orðið fyrir líkamsárás á heimili sínu af hendi ákærða. Aðkomunni er þannig lýst í skýrslu lögreglu. „Þegar við komum að íbúðinni sáum við að hurðakarmur var brotinn, þegar inn var komið sáum við snyrtitösku á miðjum herbergisganginum og hlutir úr töskunni út um allt, aðeins innar var hluti af nærbuxunum sem A sagðist hafa verið í. Eldhús og stofa eru í beinu framhaldi af herbergisganginum og þar var örbylgjuofn á gólfinu.“ Í frumskýrslu kemur fram að ekki hafi verið hægt að læsa útidyrahurð á íbúð A.

                Stuttu eftir framangreinda tilkynningu barst lögreglu aftur tilkynning frá sömu íbúð. Þegar lögregla kom á vettvang greindi B, sem þar var staddur, frá því að ákærði hafi ráðist að sér þegar B hafi varnað ákærða inngöngu í íbúð A þegar ákærði kom í síðara skipti umræddan dag að heimili hennar. 

Meðal rannsóknargagna eru átta ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi þann 11. ágúst 2011 og sýna þær m.a. skemmdir á dyrakarmi á útidyrahurð, örbylgjuofn á hvolfi á gólfi fyrir framan ísskáp í eldhúsi íbúðarinnar, myndir af snyrtibuddu, snyrtidóti og lyfjum og nærbuxum á gólfi íbúðarinnar og loks er mynd af Nokia farsíma, allt munir í eigu A. Framangreindur farsími og nærbuxur, sem voru í vörslu lögreglu, lágu frammi við aðalmeðferð málsins og bar A kennsl á umrædda muni þegar skýrsla var tekin af henni. 

Í málinu liggur frammi læknisvottorð sem C læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi ritaði að beiðni lögreglu þann 26. október 2012. Þar kemur fram að þann 11. ágúst 2011 hafi A, brotaþoli samkvæmt fyrri lið ákæru, leitað til stofnunarinnar og hitt þar fyrir D lækni. Í svokölluðum nótum kemur m.a. fram að við skoðun hafi komið í ljós á vinstri mjöðm „grunn rispa ca 2cm að lengd, staðsetningin passar við nærbuxnahæð. Það eru ekki aðrir áverkar svo vitað sé. Þessi áverki kemur heim og saman við frásögn A.“

Einnig liggur frammi í málinu læknisvottorð sem E læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi ritaði að beiðni lögreglu þann 27. júlí 2012 um komu brotaþola samkvæmt síðari lið ákæru, B, til vaktlæknis stofnunarinnar þann 11. ágúst 2011. Segir í vottorðinu: „Við skoðun er á hvirfli grunnt svöðusár á stærð við þumalnögl, ca 2-3cmx1cm. ekki aðrir áverkar […] gæti allt eins samrýmst falli á ofn.“

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði, X, viðurkenndi að hafa brotið sér leið inn í íbúð A, fyrrverandi sambýliskonu sinnar til tæpra þriggja ára, í kjölfar þess að A hafi ekki viljað hleypa honum inn í íbúðina þegar hann vildi ræða við hana. Ákærði kvaðst hafa reiðst eftir að hafa fengið símtal frá B þess efnis að ákærði ætti að láta A í friði. Ákærði kvaðst hafa ýtt tvisvar til þrisvar á hurðina og notað til þess eigin þunga þar til hún opnaðist. Ákærði kvaðst sjá eftir þessu háttarlagi sínu. Þegar inn í íbúðina kom hafi A ekkert viljað tala við hann og því hafi hann tekið af henni síma og fleygt honum létt til hliðar á gólfið. Ákærði neitaði að hafa stigið á símann. Á leiðinni út úr íbúðinni kvaðst ákærði hafa slegið í hliðina á skáp sem ísskápurinn hafi staðið í en ofan á honum hafi verið örbylgjuofn. Ákærði tók fram að þegar hann fór út úr íbúðinni hafi örbylgjuofninn staðið ofan á ísskápnum enda hafi hann ekki komið við ofninn. Fram kom hjá ákærða að hann hafi sennilega verið æstur og reiður í umrætt sinn og hafi þau A rifist. A hafi verið í svokölluðum boxerbuxum eða stuttbuxum og ermalausum bol þegar hann kom inn í íbúðina. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekkert hafa komið við A í greint sinni, hvorki ýtt við henni né rifið utan af henni nærbuxur með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um af hverju nærbuxur A hafi verið rifnar þegar lögregla kom á staðinn.

                Aðspurður um annan lið ákæruskjals kom fram hjá ákærða að hann hafi séð eftir því sem á undan hafi gengið og viljað sjá hvað hann hefði eyðilagt og einnig viljað biðja A afsökunar. Ákærði kvaðst hafa farið upp með lyftunni en þegar upp á hæðina kom hafi B staðið fyrir framan lyftudyrnar og varnað sér útgöngu með því að ýta sér inn í lyftuna aftur og senda lyftuna aftur niður. Þá hafi B beðið sig um að fara en það kvaðst ákærði ekki hafa viljað því hann hafi ætlað að ná tali af A. Eftir að B hafi ítrekað ýtt honum aftur inn í lyftuna kvaðst ákærði hafa gengið rösklega fram en þá hafi B tekið utan um hann. Þar sem ákærða hafi ekki komið til hugar að taka á móti B hafi hann látið sig falla niður. Við það hafi B einnig fallið og lent ofan á ákærða og hafi þeir legið einhverja stund í gólfinu. Þessu hafi síðan lokið með því að ákærði hafi staðið upp og yfirgefið húsið. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir því hvort blætt hafi úr B eða hann fengið sár en ákærði kvað skyrtu sína hafa rifnað. Aðspurður kvaðst ákærði telja að A hafi séð þegar þeir féllu í gólfið en hún hafi staðið á ganginum innan við útidyrnar að íbúðinni. Fram kom hjá ákærða að hann og A, sem eiga barn saman, hafi slitið samvistum í marsmánuði 2011. Ákærði upplýsti að hann hafi á umræddum tíma verið 1,86 metrar að hæð og 110-112 kg. að þyngd.

                Vitnið A, fyrirverandi sambúðarkona og barnsmóðir ákærða, kvaðst hafa verið ein heima umræddan dag þegar ákærði kom. Hún hafi ekki viljað hleypa honum inn og því hringt í B kærasta sinn og beðið hann um að hringja í ákærða þannig að ákærði myndi láta vitnið í friði. Vitnið kvaðst hafa verið í nærbuxum (g-streng) og hlýrabol einum klæða þegar ákærði kom inn í íbúðina eftir að hafa brotið upp útidyrahurðina. Þegar inn kom hafi ákærði fyrst hent niður snyrtitösku vitnisins og traðkað á henni. Síðan hafi hann ýtt örbylgjuofninum sem við það hafi fallið í gólfið. Þrátt fyrir fallið hafi örbylgjuofninn verið í lagi og sé enn í notkun, nú hjá móður vitnisins. Hins vegar hafi komið gat á gólfteppið og beygla sé aftan á ofninum. Þá hafi ákærði ýtt við vitninu og rifið í nærbuxurnar hennar og hrópað á hana. Þegar hún hafi ætlað að hringja á hjálp hafi ákærði tekið af henni símann, grýtt honum í gólfið og stappað ofan á hann. Síminn, þ.e. skjárinn, hafi brotnað og hún því ekki getað hringt enda ekkert séð á símann. Fljótlega eftir þetta hafi ákærði yfirgefið íbúðina en vitnið hlaupið út og fengið að hringja í lögregla í síma konu sem hún hitti fyrir utan húsið. Vitnið greindi frá því að hafa verið í miklu áfalli eftir atburðinn og mikið hrædd. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa fengið rispur við að vera í svokölluðum g-streng. Fram kom að ákærði hafi látið vitnið hafa notaðan síma eftir atburðinn.

                Vitnið greindi frá því að þegar B, kærasti vitnisins, kom heim úr vinnu hafi þau séð til ákærða fyrir utan húsið. Vitnið kvaðst hafa orðið mjög hrædd og því farið inn á baðherbergi ásamt vinkonu sinni og hringt aftur á lögreglu en B tekið á móti ákærða. Vitnið kvaðst hafa hlaupið fram á stigaganginn eftir að hafa heyrt mikinn hávaða og þá séð B halda ákærða niðri. Þá hafi ákærði sagt „ok, ég skal fara“, staðið upp og yfirgefið húsið í rifinni skyrtu, en B hafi verið með blæðandi sár.

                Vitnið og brotaþolinn, B, sambýlismaður vitnisins A, kvaðst hafa verið í símasambandi við ákærða umræddan morgun og heyrt hræðsluöskur í vitninu A og grunað að ákærði hefði komist inn í íbúðina. Vitnið, sem á umræddum tíma var við störf í Þorlákshöfn, kvaðst hafa komið upp á Selfoss, líklega rúmri klukkustund síðar, og farið heim til A sem hafi verið í miklu sjokki. Hún hafi þá verið í íþróttapeysu og joe-boxerbuxum sem hafi náð niður á kálfa. Þá hafi verið búið var að sparka upp útidyrahurðina og hafi allt verið í rúst innan dyra. Nánar lýsti vitnið því þannig að snyrtidót og lyf hafi legið á gólfinu, örbylgjuofn hafi verið á gólfinu beyglaður og ónýtur, teppið rifið, sófinn brotinn og nærbuxur A á gólfinu. Stuttu eftir að vitnið kom í íbúðina hafi hann séð bifreið ákærða við fjölbýlishúsið og þá hafi A orðið mjög hrædd. Hann hafi þá ýtt A og vinkonu hennar, sem komið hafi A til aðstoðar, inn í íbúðina og beðið þær að loka sig af inni á salerni. Vitnið kvaðst hafa beðið eftir ákærða fyrir utan lyftudyrnar. Þegar ákærði kom upp með lyftunni hafi hann beðið ákærða að fara og sagt honum að hann ætti ekkert erindi þangað.  Vitnið kvaðst hafa komið í veg fyrir að ákærði, sem hafi verið rólegur, kæmist út úr lyftunni með því að ýta honum aftur inn í lyftuna með báðum höndum og gefið skipun um að lyftan færi aftur niður. Ákærði hafi hins vegar tvisvar eða þrisvar reynt að komast út úr lyftunni en vitnið kvaðst alltaf hafa ýtt honum til baka inn í lyftuna eins og áður er lýst. Síðan hafi ákærði stokkið snögglega á vitnið sem við það hafi dottið aftur fyrir sig og lent með höfuðið á ofni. Kvaðst vitnið hafa upplifað atvikið þannig að ákærði hafi ætlað að ráðast að honum og að á þeim tímapunkti hafi ákærði ekki verið rólegur. Þeir hafi síðan tekist á liggjandi á gólfinu og hafi skyrta ákærða rifnað. Loks hafi vitninu tekist að halda ákærða niðri og í því hafi A komið að. Allt í einu hafi ákærði sagt, „ég er rólegur, ég skal fara“, staðið upp og farið niður. Vitnið upplýsti að hann hafi á umræddum tíma verið 1,85 á hæð og um 115-120 kg að þyngd.

                Vitnið, F, vinkona A, kvað B hafa hringt í sig umræddan morgun og haft áhyggjur af A. Hún hafi því farið heim til A. Þá hafi lögreglan verið á staðnum, mikið drasl og A áhyggjufull. Kvaðst vitnið hafa lokað sig inni ásamt A þegar ákærði kom í síðara skiptið og þá hafi A hringt í lögreglu úr síma vitnisins. Þær hafi síðan heyrt öskur frammi, orðið áhyggjufullar og farið fram á stigaganginn en þá hafi ákærði verið á leiðinni út úr húsinu.  

                Vitnið, G, fyrrverandi lögreglumaður kvaðst hafa farið á vettvang með forgangi ásamt H lögreglumanni. Aðkomu að íbúð A lýsti vitnið þannig að hurðakarmur hafi verið skemmdur, mikið af snyrtidóti hafi verið á gólfinu á ganginum og innst í íbúðinni hafi örbylgjuofn legið á gólfinu. Þá hafi A bent þeim á rifnar nærbuxur sem lágu á gólfinu og greint frá því að ákærði hafi rifið þær. Ákærði hafi ekki verið á vettvangi en A hafi verið í miklu uppnámi, grátandi og virst hrædd. Vitnið minnti að annað hvort hún eða H hafi tekið myndir af vettvangi. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa skoðað hugsanlegar skemmdir á örbylgjuofninum. Vitnið kannaðist ekki við að hafa séð gsm-síma á vettvangi.

                Vitnið, H, lögreglumaður lýsti aðkomu á vettvang þannig að A hafi verið mjög hrædd og í uppnámi. Nærbuxur, snyrtitaska og örbylgjuofn hafi legið á gólfinu, en ákærði hafi ekki verið á vettvangi. Vitnið kvaðst ekki hafa kannað hugsanlegar skemmdir á örbylgjuofninum og ekki muna eftir að hafa séð gsm-síma í íbúðinni.

                Vitnið, C, læknir, sem skoðaði A umræddan dag á heilsugæslustöðinni á Selfossi, gaf skýrslu í gegnum síma og staðfesti það sem fram kemur í framlögðu læknisvottorði. Vitnið greindi frá lítilli grunnri rispu á yfirborði, líkt og skrámu eftir nögl eða núning á vinstri mjöðm A. Áverkinn hafi ekki kallað á aðhlynningu af neinu tagi enda engin blæðing. Vitnið taldi það eitt að ganga í g-streng ætti ekki að framkalla áverka sem þennan. 

                Vitnið, E, læknir, sem ritaði læknisvottorð vegna B, gaf skýrslu í gegnum síma. Vitnið staðfesti að C læknir hafi skoðað B  umræddan dag á heilsugæslustöðinni á Selfossi. Vitnið staðfesti að það sem fram kemur í framlögðu læknisvottorði hafi verið skráð upp úr sjúkraskrá heilsugæslustöðvarinnar á Selfossi. Sérstaklega aðspurt sagði vitnið að áverki sem þessi geti t.d. komið við að reka sig upp undir.

Niðurstaða

Fyrri töluliður ákæru, húsbrot og eignaspjöll

            Fyrri töluliður ákæru lýtur að ætluðum brotum ákærða gegn 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sæta ákæru eftir kröfu þess sem misgert er við, sbr. a-lið 2. mgr. 242. gr. laga nr. 19/1940 og 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá segir í 3. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að heimild brotaþola til þess að bera fram kröfu um málshöfðun falli niður sé krafa ekki gerð innan sex mánaða frá því að sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um þann sem sekur kann að vera um hina refsiverðu háttsemi. Með vísan til þessa er því nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði tilvitnaðra ákvæða almennra hegningarlaga og laga um meðferð sakamála séu uppfyllt í máli þessu.

                Í máli þessu liggur frammi samantekt lögreglu af skýrslutöku yfir brotaþolanum A þann 11. ágúst 2011. Í samantektinni  kemur ekki fram að brotaþoli  hafi sett fram kröfu um að sakamál sé höfðað gegn ákærða fyrir ætluð brot gegn 231. og 1.mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Meðal framlagðra rannsóknargagna er hljóðupptaka af framangreindri yfirheyrslu og er því nauðsynlegt að fjalla um efni hennar að þessu leyti, en dómari hefur kynnt sér hljóðupptökuna. Í upphafi skýrslutöku, sem tilnefndur réttargæslumaður A, Sigurður Sigurjónsson hrl., var viðstaddur kemur fram að til standi að taka skýrslu af vitni í máli nr. 33-2011-5641. Síðan segir orðrétt um kæruefni „en það er atvik sem gerðist í morgun og varðar meint húsbrot og líkamsárás.“ Undir lok yfirheyrslu segir lögreglumaðurinn við vitnið A. „En þú leggur fram kæru á hendur X fyrir skemmdarverk“. Vitnið grípur fram í og segir, „að skemma hurðina, brotið“. Lögreglumaðurinn segir þá, „húsbrot, ráðast inn á heimilið þitt“. Vitnið grípur aftur fram í og segir, „já mér finnst þetta allt of langt gengið…“ Í framhaldi af því segir lögreglumaðurinn. „Ég ætla, ég líka, að kynna þér þarna bótakröfurétt,  þú átt rétt á að leggja fram bótakröfu af því þú hefur orðið fyrir tjóni þannig á ég ekki að bara að bóka það bara“ og virðist lögreglumaðurinn beina orðum sínum að tilnefndum réttargæslumanni sem svarar, „jú, hún áskilur sér rétt til að krefja hann um bætur fyrir það tjón sem hann hefur valdið.“

Ákærða er gefið að sök brot gegn 231. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 242. gr. laga nr. 19/1940 og 4. mgr. 257. gr. áðurnefndra laga skal því aðeins höfða mál út af brotum gegn 231. og 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940, að sá krefjist þess sem misgert er við. Með vísan til þess sem að framan er rakið kom slík krafa ekki fram þegar skýrsla var tekin af brotaþolanum A þann 11. ágúst 2011. Skýrsla sú sem tekin var af brotaþola þann 13. júlí 2012 bætir þar ekki um, þó þar komi fram skýr refsikrafa, enda var þá liðinn sex mánaða frestur til að bera fram kröfu um málshöfðun sem kveðið er á um í 3. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu verður því ákæru vegna húsbrots og eignaspjalla í fyrri tölulið ákæru vísað frá dómi.

Fyrri töluliður ákæru, líkamsárás

Ákærða er gefið að sök að hafa umræddan dag, inni á heimili A að [...], veist að A, ýtt við henni og rifið utan af henni nærbuxur með þeim afleiðingum að hún hlaut rispu á vinstri mjöðm. Ákærði sagði brotaþola hafa verið í svokölluðum boxer stuttbuxum og ermalausum bol þegar hann kom inn á heimili hennar, en brotaþoli sagðist hafa verið í nærbuxum, svokölluðum g-streng, og hlýrabol. Ákærði lýsti því í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi sennilega verið æstur og reiður og hafi hann og brotaþoli rifist. Ákærði neitaði hins vegar alfarið að hafa veist að brotaþola eins og lýst er í ákæru og tók fram að hann hafi ekki komið við brotaþola. Brotaþoli lýsti atvikum þannig að ákærði hafi ýtt við henni, rifið í nærbuxur hennar og hrópað að henni. Vitnið C læknir bar fyrir dómi að áverki á vinstri mjöðm brotaþola hafi verið lítil grunn rispa á yfirborðinu án blæðingar, líkt og skráma eftir nögl eða núning og hafi áverkinn ekki kallað á aðhlynningu að neinu tagi. Málatilbúnaður ákæruvaldsins verður ekki skilinn á annan hátt en þann að brotaþoli hafi fengið umræddan áverka á vinstri mjöðm við það að ákærði reif utan af henni nærbuxurnar og vísað var til þess að nærbuxurnar, sem lágu frammi í málinu og brotaþoli staðfesti að væru sínar, hafi legið rifnar á gólfi íbúðarinnar þegar lögregla kom á vettvang stuttu síðar. Fyrir liggur að umræddur áverki var óverulegur og þess eðlis að ekki er útilokað að hann hafi myndast fyrir tilstilli brotaþola sjálfs. Verulega ber á milli framburðar ákærða og brotaþola sem í umrætt sinn voru ein í íbúðinni. Með vísan til alls þessa og gegn eindreginni neitun ákærða hefur ákæruvaldinu, að mati dómsins, ekki tekist að færa fram sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, á sekt ákærða hvað þennan þátt málsins varðar og vísast í því sambandi til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt því verður ákærði sýknaður af líkamsárás samkvæmt fyrri lið ákæru.  

Síðari töluliður ákæru, líkamsárás

                Ákærða er gefið að sök að hafa, eftir atvik þau sem lýst er í fyrri tölulið ákæru, veist að brotaþolanum B þannig að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í ofn með þeim afleiðingum að hann hlaut sár á hvirfli. Fyrir liggur að ákærði fór í lyftu til að komast að íbúð A og þegar á hæðina var komið hafi brotaþoli staðið fyrir framan lyftudyrnar og beðið ákærða að fara burtu. Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að hafa varnað ákærða útgöngu úr lyftunni með því að ýta honum ítrekað inn í lyftuna aftur. Þegar hér var komið sögu greinir ákærða og brotaþola á um atburðarásina. Ákærði kvaðst hafa gengið rösklega fram og brotaþoli þá tekið utan um hann, en þar sem ákærða hafi ekki komið til hugar að taka á móti brotaþola hafi ákærði látið sig falla niður. Við það hafi brotaþoli einnig fallið og lent ofan á ákærða og í framhaldi af því hafi þeir legið einhverja stund í gólfinu, eða þar til ákærði hafi staðið upp og yfirgefið húsið. Brotaþoli lýsti atvikum þannig að ákærði hafi snögglega stokkið á sig og við það hafi hann fallið aftur fyrir sig og lent með höfuðið á ofni. Báðir lýsa þeir því að hafa legið og velst um á gólfinu og að þá hafi skyrta ákærða rifnað. Brotaþola hafi síðan tekist að halda ákærða niðri og þá hafi ákærði allt í einu sagt, „ég er rólegur, ég skal fara“, staðið upp og farið niður. Þessi framburður fær stuðning í framburði vitnisins A en hún greindi frá því að þegar hún kom fram á stigaganginn hafi B haldið ákærða niðri. Vitnið F kvað ákærða hafa verið á leið út þegar vitnið kom fram á stigaganginn.

Fyrir liggur að nokkurt jafnræði var milli ákærða og brotaþola hvað líkamsburði varðar. Ákærði upplýsti að hann hafi á umræddum tíma verið 1,86 metrar á hæð og 110-112 kg að þyngd og brotaþoli að hann hafi verið 1,85 metrar á hæð og um 115-120 kg að þyngd. Einnig liggur fyrir samkvæmt framburði ákærða og brotaþola að til ryskinga hafi komið milli þeirra við lyftudyrnar þegar ákærði reyndi ítrekað að komast út úr lyftunni en brotaþoli aftraði honum för. Hins vegar ber þeim ekki saman um það hvernig það atvikaðist að þeir féllu í gólfið og ekki er ljóst hver hafi verið þáttur hvors um sig í þeim átökum en engin vitni voru að átökunum. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að verulegur vafi leiki á um það hvort ákærði hafi valdið brotaþola þeim áverkum sem honum er gefið að sök í ákæru. Þennan vafa ber að skýra ákærða í hag, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði er því sýknaður af líkamsárás samkvæmt síðari lið ákæru. 

Með vísan til þess að ákæru á hendur ákærða fyrir  minniháttar eignaspjöll  hefur verið  vísað frá dómi og ákærði hefur verið sýknaður af líkamsárás sem honum er gefin að sök í fyrri tölulið ákæru er bótakröfu í máli þessu vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 Með vísan til niðurstöðu málsins, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður allur sakarkostnaður í máli þessu felldur á ríkissjóð. Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir sakarkostnað var kostnaður vegna læknisvottorðs 11.178 krónur og þóknun verjanda á rannsóknarstigi 37.650 krónur, og verður hann, eins og áður segir, felldur á ríkissjóð. Sama gildir um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 213.350 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sem og þóknun tilnefnds réttargæslumanns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 188.250 krónur og skipaðs réttargæslumanns, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 150.600 krónur í báðum tilvikum að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Selfossi, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóminn. 

Dómsorð:

            Vísað er frá dómi ákæru á hendur X að því er varðar þann hluta ákæru sem fjallar um húsbrot samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og eignaspjöll samkvæmt 1. mgr. 257. gr. sömu laga. 

Ákærði, X, er sýkn af öllum öðrum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

                Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin útlagður kostnaður 48.828 krónur,  málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hrl., 213.350 krónur, og réttargæslulaun Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 188.250 krónur og Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 150.600 krónur, í öllum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.