Hæstiréttur íslands
Mál nr. 123/2005
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Aðilaskipti
- Áskorun
|
|
Fimmtudaginn 29. september 2005. |
|
Nr. 123/2005. |
Dælur og ráðgjöf ehf. (Halldór H. Backman hrl.) gegn Hjalta Þorsteinssyni (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Vinnusamningur/Ráðningarsamningur. Uppsögn. Aðilaskipti að fyrirtækjum. Áskorun.
Í málinu var óumdeilt að með kaupsamningi 31. desember 2003, er fyrirtækið DR keypti vörulager, ýmsar aðrar eignir og viðskiptavild fyrirtækisins D, hafi orðið aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Deilt var um hvort H hefði réttarstöðu starfsmanns samkvæmt lögunum og ætti þess vegna rétt á vangoldnum launum úr hendi DR. H hafði starfað hjá D allt frá 1986 og í fullu starfi frá árinu 1994, en hann átti hlut í því fyrirtæki, a.m.k. eftir 2. mars 2003. Í janúar 2004 vann H svipuð störf og áður, en honum var sagt upp hjá D í lok þess mánaðar. Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en störf hans í þeim mánuði hafi verið í þágu DR, en ekki D. Var H talinn hafa réttarstöðu starfsmanns í skilningi laga nr. 72/2002 og var eignarhlutdeild hans í D ekki talið breyta þeirri niðurstöðu. Voru H dæmd laun úr hendi DR fyrir janúarmánuð 2004, sem og laun í uppsagnarfresti. Ekki var talið að DR gæti byggt rétt á því, að H hafi ekki sinnt áskorun hans um upplýsingar yfir laun eða aðrar greiðslur í uppsagnarfresti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á kröfufjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti lýstu aðilar yfir því að ekki sé ágreiningur í málinu um þá niðurstöðu héraðsdómara að með kaupsamningi 31. desember 2003, er Dælur ehf. seldu áfrýjanda vörulager sinn, ýmsar aðrar eignir og viðskiptavild, hafi orðið aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Deila þeirra stendur um hvort stefndi hafi réttarstöðu starfsmanns samkvæmt lögunum og eigi þess vegna rétt á vangoldnum launum úr hendi áfrýjanda fyrir janúarmánuð 2004 og síðan meðan á uppsagnarfresti stóð fyrir mánuðina febrúar, mars og apríl sama ár.
Fram er komið að stefndi starfaði hjá Dælum ehf. allt frá 1986 og í fullu starfi frá 1994. Fyrirtækið mun hafa verið í eigu stefnda og foreldra hans til 2. mars 2003 er 75% hlutafjár voru seld Kristófer Þorgrímssyni, Gunnari L. Björnssyni og Eiríki Hans Sigurðssyni. Ekki verður ráðið um eignarhlutdeild stefnda í því fyrirtæki fram að þeim tíma, en eftir söluna átti hann 25% hlutafjár. Mun stefndi hafa haldið sama starfi hjá fyrirtækinu sem innkaupa- og tæknistjóri og er óumdeilt að hann var í fullu starfi þar til aðilaskiptin urðu samkvæmt kaupsamningnum 31. desember 2003. Stefndi eignaðist ekki hlut í áfrýjanda, sem mun vera í eigu áðurnefndra þriggja manna.
Í lögum nr. 72/2002 er ekki að finna sérstaka skilgreiningu á því hver teljist starfsmaður í skilingi þeirra. Eins og fram kemur í héraðsdómi bera gögn málsins með sér að stefndi hafi í janúar 2004 unnið svipuð störf og áður, en honum var sagt upp störfum hjá Dælum ehf. með uppsagnarbréfi í lok þess mánaðar. Ekki verður annað ráðið en störf stefnda í janúar 2004 hafi verið í þágu áfrýjanda, en ekki Dælna ehf. enda mun það fyrirtæki þá hafa verið hætt starfsemi í kjölfar sölu á eignum þess til áfrýjanda. Þegar litið er til framanritaðs, og starfssviðs stefnda hjá Dælum ehf. og síðar áfrýjanda, telst hann hafa réttarstöðu starfsmanns í skilningi laga nr. 72/2002 en ekki verður fallist á að eignarhlutdeild hans í fyrrgreinda fyrirtækinu breyti þeirri niðurstöðu.
Í framangreindu uppsagnarbréfi var sérstaklega óskað eftir að stefndi ynni ekki á uppsagnarfresti sem skyldi vera þrír mánuðir. Í greinargerð áfrýjanda í héraði kom fram að hann teldi líklegt að stefndi hefði notið launa eða annarra greiðslna frá öðrum á uppsagnarfresti sem koma ættu til frádráttar launakröfu hans. Í greinargerðinni skoraði hann á stefnda „að upplýsa með viðunandi hætti um slíkar greiðslur“. Var áskorunin sögð sett fram „í skilningi 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991.” Áfrýjandi hefur bent á að stefndi hafi ekki orðið við áskorun þessari og til þess beri að líta við úrlausn málsins. Óumdeilt er að við munnlegan flutning málsins í héraði upplýsti stefndi að hann hefði ekki haft tekjur á tímabilinu er koma ættu til frádráttar. Áskorunin verður ekki talin leiða til þess að stefnda hafi borið skylda til að leggja fram sönnunargögn um þetta. Í greinargerð til Hæstaréttar skýrði áfrýjandi áskorun sína frekar og nefndi að stefndi gæti til dæmis lagt fram staðfest yfirlit úr staðgreiðsluskrá. Stefndi varð við því og felur yfirlitið í sér staðfestingu á fyrri fullyrðingu hans um þetta efni. Verður ekki talið að áfrýjandi geti byggt rétt á að stefndi hafi ekki sinnt áskorun hans. Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Dælur og ráðgjöf ehf., greiði stefnda, Hjalta Þorsteinssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29.desember 2004.
I.
Þetta mál, sem tekið var til dóms þann 18. nóvember 2004, er höfðað með stefnu birtri 16. júní 2004.
Stefnandi er Hjalti Þorsteinsson, kt. 260171-3219, Blásölum 23, Kópavogi.
Stefndi er Dælur og ráðgjöf ehf., kt. 411203-2470, Bæjarlind 1-3, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda fjárhæð 1.217.544 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 230.000 krónur frá 1. febrúar 2004 til 1. mars 2004 og frá þeim degi af 460.000 krónur til 1. apríl 2004 og frá þeim degi af 690.000 krónur til 1. maí 2004 og frá þeim degi af 1.217.544 krónur til greiðsludags. Þá er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. febrúar 2005 en síðan árlega þann dag. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndi krefst málskostnaðar.
II. Málsatvik
Lýsing stefnanda á málavöxtum er á þá leið að hann hafi starfað hjá Dælum ehf. um árabil auk þess sem hann hafi átt 25% hlut í fyrirtækinu. Í desember 2003 hafi stefndi Dælur og ráðgjöf ehf. verið stofnað og þann 31. desember sama ár hafi stefndi síðan keypt rekstur Dælna ehf. þ.e.a.s. lager, lausafé, og viðskiptavild. Stefndi hafi þannig hafið rekstur sem áður hafi verið undir nafni eldra félagsins undir nýju nafni og nýrri kennitölu. Þann 30. janúar 2004 hafi stefnanda verið sagt upp störfum hjá Dælum ehf. af Eiríki Hans Sigurðssyni framkvæmdastjóra Dælna ehf., sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóri stefnda, þar sem frekara vinnuframlagi hans hafi verið hafnað. Stefnandi hafi ekki fengið greidd laun vegna janúar né heldur hafi hann fengið frekari launagreiðslur frá félaginu. Stefnandi hafi leitað til VR sem sent hafi bréf dags. 11. mars 2003 til stefnda og krafið um vangoldin laun á þeirri forsendu að með kaupsamningi stefnda og Dælna ehf. hafi orðið aðilaskipti að fyrirtækinu og stefndi því yfirtekið launaskuldbindingar gagnvart stefnanda. Stefndi hafi með bréfi dags. 29. mars 2004 hafnað kröfu stefnanda og talið að einungis hafi verið keyptur lager, lausafé og viðskiptavild en ekki eignir og skuldir og því hafi ekki verið um aðilaskipti að ræða.
Lýsing stefnda á málavöxtum er að mestu samhljóða lýsingu stefnanda á málavöxtum en þar segir ennfremur að með kaupsamningi dags. 2. mars 2003 hafi þeir Kristófer Þorgrímsson, Gunnar L. Björnsson og Eiríkur Hans Sigurðsson keypt samanlagt 75% hlutafjár í Dælum ehf. Viðskiptin hafi átt sér talsverða forsögu en hið selda hafi verið afhent sama dag og kaupsamningurinn hafi verið gerður. Stefnandi hafi um árabil verið eigandi að félaginu ásamt foreldrum sínum þeim Þorsteini Hjaltasyni og Jónínu Arndal enda hafi hann verið tilgreindur seljandi í kaupsamningnum. Þar hafi einnig komið fram að stefnandi hafi eftir viðskiptin verið eigandi 25% hlutafjár í félaginu og hann skyldi starfa þar áfram í krafti eignaraðildar sinnar.
Skömmu eftir að hið selda hafi verið afhent kaupendum hafi komið í ljós verulega slæm staða félagsins og í senn rangar og villandi upplýsingar sem seljendur þ.ám. stefnandi hafi veitt um bókhaldsleg málefni félagsins, rekstrarstöðu þess og í raun alla þá þætti sem áhrif hafi haft á verðmyndun og verðmæti félagsins. Af þessu tilefni hafi kaupendur ritað bréf til seljenda og krafist þess að kaupverðið yrði endurskoðað eins og gert hafi verið ráð fyrir í samningnum sjálfum. Bréfi þessu hafi verið svarað af hálfu þáverandi lögmanns seljenda þann 7. ágúst 2003. Þar hafi komið fram að ekki yrði fallist á kröfur kaupenda að neinu leyti.
Lögmaður kaupenda ritaði seljendum bréf dags. 5. september 2003 og í kjölfarið hafi verið haldinn fundur með aðilum þar sem reynt hafi verið að miðla málum. Ekki hafi tekist að semja um friðsamlega lausn málsins en ekki hafi þó verið útilokað að sættir myndu takast. Stefnandi hafi verið viðstaddur fundinn og tekið þátt í öllum sáttaviðræðum og öðrum viðræðum um lausn málsins. Jafnframt hafi það verið gagnkvæmur skilningur bæði stefnanda og kaupenda að áframhaldandi vera stefnanda hjá félaginu hafi verið háð því að sættir myndu takast enda hafi það legið í hlutarins eðli.
Er liðið hafi að lokum ársins 2003 hafi orðið ljóst að sættir myndu ekki takast milli aðila kaupsamningsins. Jafnframt hafi verið fyrirliggjandi að afkoma félagsins Dælna ehf. hafi í raun verið svo slæm að gjaldþrot hafi blasað við. Í því skyni að takmarka tjón sitt og til að freista þess að bjarga fjárfestingu sinni hafi kaupendur gripið til þess örþrifaráðs að stofna nýtt félag, stefnda í þessu máli og láta það kaupa lager, lausafé og viðskiptavild Dælna ehf. Þetta hafi m.a. komið til umræðu á stjórnarfundi þann 19. desember 2003. Á fundinum hafi einnig komið fram sá gagnkvæmi skilningur allra viðkomandi að áframhaldandi vera stefnanda í starfi hjá Dælum ehf. eða stefnda í þessu máli yrði að óbreyttu ómöguleg. Ekki hafi verið fyrir hendi nægilegt traust og trúnaður til þess að stefnandi hafi getað haldið áfram að starfa með kaupendum. Undir þetta hafi stefnandi tekið á fundinum og hafi menn verið sáttir við það að stefnandi yrði ekki þátttakandi í stofnun hins nýja félags né kæmi að öðru leyti að rekstri þess eða störfum fyrir það.
Kaup stefnda á vörulager, lausafé og viðskiptavild Dælna ehf. hafi verið samþykkt á hluthafafundi í Dælum ehf. sem haldinn hafi verið þann 12. febrúar 2004. Kaupsamningur þar að lútandi hafi áður verið gerður þann 31. desember 2003 með áskilnaði um samþykki hluthafafundar. Rekstur Dælna ehf. hafi hætt frá og með 1. janúar 2004 og hafi stefnandi þá hætt störfum. Stefnandi hafi mætt á hluthafafundinn þann 12. febrúar 2004 í fylgd Eyvindar Sólnes hdl. og ekki gert athugasemdir við kaup stefnda á fyrrgreindum eigum Dælna ehf. né hafi stefnandi gert athugasemdir við starfslok sín sem orðið hafi tæpum tveimur mánuðum áður.
Meðal gagna málsins hafi verið uppsagnarbréf til stefnanda frá Dælum ehf. dags. 30. janúar 2004. Bréf þetta hafi verið útbúið að beiðni stefnanda sjálfs enda hafi hann hætt störfum í lok desember 2003. Hann kvaðst hafa þurft að hafa uppsagnarbréf með þessu efni í fórum sínum til þess að geta fengið atvinnuleysisbætur og/eða átt rétt á greiðslum úr ábyrgðarsjóði launa ef svo færi sem þá hafi litið úr fyrir að bú Dælna ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Þann 31. mars 2004 hafi kaupendur farið fram á það við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddir yrðu matsmenn vegna ágreinings kaupenda og seljenda í tengslum við framangreindan kaupsamning um hlutabréf í Dælum ehf.
III. Málsástæður og lagarök
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á þeim málsástæðum að með kaupsamningi dags. 31. desember hafi stefndi keypt viðskiptavild, lausafé og vörulager Dælna ehf. þar á meðal hafi verið vöruskápur, hillur, húsbúnaður, skrifstofubúnaður, áhöld og tæki. Undir kaupsamninginn hafi sömu aðilar ritað sem kaupendur og seljendur. Augljóst hafi verið samkvæmt kaupsamningi að ekkert hafi verið eftir í starfsemi Dælna ehf. og enginn grundvöllur hafi verið fyrir frekari rekstri enda hafi verið búið að selja allt nema kennitöluna. Athygli sé vakin á því að sömu aðilar hafi staðið að rekstri stefnda og staðið hafi að rekstri Dælna ehf. að stefnanda undanskildum. Þá hafi rekstur stefnda verið á sama stað og rekstur Dælna ehf. hafi verið.
Í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum segir að með aðilaskiptum sé átt við efnahagslega einingu þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð hafi verið í efnahagslegum tilgangi. Ljóst hafi verið að stefndi hafi keypt öll verðmæti fyrirtækisins sem hægt hafi verið að nota í efnahagslegum tilgangi. Í slíkum tilfellum færast réttindi og skyldur starfsmanna til kaupenda. Hér hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem stefnandi hafi starfað við og því eigi hann kröfu til launa gagnvart stefnda. Í uppsagnarbréfi frá Dælum ehf. sé vinnuframlagi hafnað enda hafi allri starfsemi verið hætt.
Stefnandi gerir kröfu um bætur í uppsagnarfresti sem nema launum í 3 mánuði auk orlofs.
Stefnandi kveðst sundurliða kröfu sína með eftirgreindum hætti:
a) Laun vegna janúar 2004 kr. 230.000
b) Laun vegna febrúar 2004 kr. 230.000
c) Laun vegna mars 2004 kr. 230.000
d) Laun vegna apríl 2004 kr. 230.000
e) Orlof maí 2003 apríl 2004 25 dagar kr. 265.344
f) Orlofsuppbót 2003-2004 45 vikur kr. 15.400
d) Desemberuppbót 2004 22 vikur kr. 16.800
Samtals kr. 1.217.544
Þar sem innheimtutilraunir sbr. bréf frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur dags. 11. mars 2004 og bréf Arnar Clausen hrl. dags. 25. mars 2004 hafi reynst árangurslausar og málshöfðun því nauðsynleg sé hér farið fram á ítrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, laga nr. 19/1979 um uppsagnarfrest, laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, samningalaga nr. 7/1936, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar og kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
Krafan um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvæði laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eigi ekki við í málinu enda hafi stefnandi verið í þeirri stöðu að hann teljist ekki hafa verið starfsmaður í skilningi laganna. Stefnandi hafi verið eigandi að fjórðungi hlutafjár í Dælum ehf. og hafi starfað þar í krafti eignaraðildar sinnar. Engu hafi breytt um þetta þótt hann hafi tekið laun eins og starfsmaður. Lögin eigi augljóslega ekki við um starfslok sem tengjast breytingu á eignaraðild hluthafa eða öðrum viðskiptalegum ráðstöfunum með hlutafé eða eigur hlutafélags. Þvert á móti sé tilgangur laganna eingöngu sá að vernda hag almennra starfsmanna sem ekki eiga neinn þátt í stjórnun eða stjórnunarlegum ákvörðunum vinnuveitandans sem lögpersónu vegna eignaraðildar sinnar.
Ljóst hafi verið að kaup stefnda á vörum, lausafé og viðskiptavild af Dælum ehf. hafi ekki verið ástæða þess að stefnandi hætti störfum. Þvert á móti hafi ástæðan verið sú að allar forsendur hafi verið brostnar fyrir áframhaldandi þátttöku stefnanda í samstarfi aðila. Sátt hafi verið um það með aðilum í desember 2003 að stefnandi myndi ekki eiga aðild að félaginu og einnig hafi verið sátt um það að stefnandi myndi hætta störfum í lok desember það ár. Uppsagnarbréf hafi einnig verið til málamynda og að beiðni stefnanda sjálfs enda hafi hann hætt störfum löngu áður.
Stefndi byggir á því að ekki verði fram hjá því litið að stefnandi hafi verið einn þeirra sem tekið hafi þátt í að selja umrædd verðmæti frá Dælum ehf. til stefnda. Kaupsamningur þar að lútandi dags. 31. desember 2003 hafi verið gerður með áskilnaði um samþykki hluthafafundar. Sá fundur hafi verið haldinn þann 12. febrúar 2004 og hafi stefnandi engum andmælum hreyft við sölunni eða öðrum ráðstöfunum á fundinum. Það hafi honum þó verið í lófa lagið að gera hafi honum verið á móti skapi að salan færi fram. Staða stefnanda og spurningin um það hvort ákvæði laga nr. 72/2002 eigi við um hann hljóti að taka mið af því að stefnandi hafi verið einn af þeim sem seldu stefnda vörur, lausafé og viðskiptavild Dælna ehf.
Stefnandi hafi verið eigandi að Dælum ehf. áður en kaupendur og núverandi eigendur stefnda hafi keypt þar 75% hlut. Stefnandi hafi því mætavel vitað hver staða Dælna ehf. hafi verið og jafnframt hafi honum verið ljóst að félagið hafi rambað á barmi gjaldþrots áður en viðskipti með hlutafé hafi átt sér stað. Stefnanda hafi því mátt vera ljóst að þessi staða kæmi upp. Stefnanda hafi einnig mátt vera ljóst að til ágreinings kynni að koma á milli hans og annarra hluthafa. Stefnandi hafi ekki verið ráðinn til starfa hjá Dælum ehf. sem almennur starfsmaður heldur hafi hann starfað þar í skjóli eignaraðildar sinnar og tengsla við fyrri eigendur. Þar af leiðir að stefnandi hafi ekki getað gert ráð fyrir því að halda störfum hjá félaginu hvað sem á hafi gengið í ágreiningi milli hans og annarra seljenda annars vegar og kaupenda hins vegar.
Loks byggir stefndi á því að þau viðskipti sem átt hafi sér stað með vörur, lausafé og viðskiptavild milli Dælna ehf. og stefnda þann 31. desember 2003 sbr. samþykki hluthafafundar þann 12. febrúar 2004 séu ekki aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002.
Varakrafa stefnda um lækkun á kröfugerð stefnanda er m.a. byggð á því að stefnandi hafi hætt störfum í lok desember 2003 og því beri að miða uppsagnarfrest í öllum tilfellum við að þriggja mánaða uppsagnarfrestur stefnanda hafi byrjað að líða í síðasta lagi þann 1. janúar 2004. Áréttað sé að uppsagnarbréf það sem stefnandi hafi fengið í lok janúar 2004 hafi eingöngu verið til málamynda að beiðni stefnanda sjálfs og honum til hagsbóta.
Stefndi byggir einnig á því að sátt sem verið hafi um starfslok stefnanda og eignaraðild hans að Dælum ehf. ásamt þeim trúnaðarbresti sem komin hafi verið upp hafi gert það að verkum að stefnda hafi verið óhægt um vik með að óska eftir vinnuframlagi meðan á hinum meinta uppsagnarfresti hafi staðið. Það hafi heldur aldrei verið ætlun aðila að um eiginlegan uppsagnarfrest yrði að ræða. Stefnandi krefjist launa auk orlofs og annarra greiðslna út apríl 2004 þó að hann hafi ekki unnið í þágu stefnda allt frá því í desember 2003. Stefndi telur það líklegt að stefnandi hafi notið launa eða annarra greiðslna frá þriðja aðila á þessu tímabili og verður skorað á stefnanda að upplýsa með viðunandi hætti um slíkar greiðslur sem komi til frádráttar kröfum stefnanda. Áskorun þessi sé sett fram í skilningi 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi vísar til stuðnings kröfum sínum til meginreglna fjármunaréttarins, samningaréttar og kröfuréttar auk ákvæða laga nr. 7/1936 eftir því sem við á. Þá sé byggt á meginreglum vinnuréttar og ákvæðum laga nr. 72/2002. Loks byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 138/1994 eftir því sem við á. Um réttarfar og málskostnað sé byggt á lögum nr. 91/1991.
Í skýrslu fyrir dómi bar stefnandi að hann hafi starfað hjá Dælum ehf. nær óslitið frá 1986 þar til í janúar 2004 ásamt því að hafa átt hlut í félaginu. Hann hafi verið í fullu starfi hjá félaginu frá 1994. Breytingar hafi orðið á eignarhaldi félagsins í mars 2003. Stefnandi hafi haldið áfram að starfa hjá Dælum ehf. eftir breytingarnar ásamt því að hafa átt 25% hlut í félaginu. Í desember 2003 hafi stefnda síðan verið stofnað. Ekkert hafi þá verið talað við stefnanda um starfslok hans hjá Dælum ehf. Á hluthafafundi í Dælum ehf. í desember 2003 hafi aðeins verið talað um að reynt yrði að leysa málin. Stefnandi kannast ekki við að á fundinum hafi verið samkomulag um að hann myndi hætta störfum hjá félaginu í lok desember 2003. Hann hafi litið þannig á að hann yrði starfsmaður stefnda. Stefnandi hafi verið innkaupa- og tæknistjóri hjá Dælum ehf. Hann hafi séð um erlend samskipti og þá hafi hann haft yfirumsjón með tilboðsgerð fyrir félagið. Hann hafi hinsvegar ekki komið að fjármálum félagsins. Í desember 2003 og janúar 2004 hafi hann unnið að tilboði í verk ásamt fyrirsvarsmönnum stefnda. Þá hafi hann séð um samskipti við útlönd. Í lok janúar 2004 hafi honum síðan verið sagt upp störfum hjá Dælum ehf. og vísað hafi verið í trúnaðarbrest. Í uppsagnarbréfinu hafi komið fram að ekki hafi verið óskað eftir frekara vinnuframlagi. Á hluthafafundi í Dælum ehf. í febrúar 2004 hafi hann ekki haft uppi neinar athugasemdir þar sem hann hafi verið í minnihluta og athugasemdir frá honum hafi ekki haft neitt að segja.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi starfaði um árabil hjá Dælum ehf. auk þess að vera eigandi að félaginu ásamt foreldrum sínum. Með kaupsamningi dags. 2. mars 2003 keyptu þeir Kristófer Þorgrímsson, Gunnar L. Björnsson og Eiríkur Hans Sigurðsson samanlagt 75% hlut í Dælum ehf. Eftir viðskiptin var stefnandi áfram starfsmaður hjá félaginu auk þess að vera eigandi að 25% hlut í félaginu. Með kaupsamningi dags. 31. desember 2003 keypti stefndi síðan Dælur ehf.
Stefnandi hefur haldið því fram að eftir kaup stefnda á Dælum ehf. hafi hann starfað áfram hjá félaginu. Sömu aðilar hafi staðið að rekstri stefnda og staðið hafi að rekstri Dælna ehf. að stefnanda undanskildum, þá hafi rekstur stefnda verið á sama stað og rekstur Dælna ehf. hafi verið. Þann 30. janúar 2004 hafi honum hinsvegar verið sagt upp störfum hjá Dælum ehf. af Eiríki Hans Sigurðssyni framkvæmdastjóra Dælna ehf. sem jafnframt hafi verið framkvæmdastjóri stefnda og frekara vinnuframlagi hafnað enda hafi allri starfsemi verið hætt. Stefnandi hafi ekki fengið greidd laun vegna janúar 2004 né heldur hafi hann fengið frekari launagreiðslur frá félaginu.
Stefndi hefur hinsvegar haldið því fram að í desember 2003 hafi orðið að samkomulagi að stefnandi yrði ekki þátttakandi í stofnun hins nýja félags einnig hafi orðið að samkomulagi að stefnandi myndi hætta störfum í lok desember það ár. Uppsagnarbréf dags. 30 janúar 2004 hafi aðeins verið til málamynda og gefið út að beiðni stefnanda sjálfs.
Ágreiningslaust er að með kaupsamningi dags. 31. desember 2003 keypti stefndi viðskiptavild, lausafé og vörulager Dælna ehf., þar á meðal vöruskáp, hillur, húsbúnað, skrifstofubúnað, áhöld og tæki. Sömu aðilar stóðu að rekstri stefnda og áður stóðu að rekstri Dælna ehf. að stefnanda undanskildum. Þá var rekstur stefnda á sama stað og rekstur Dælna ehf. var. Ágreiningur er hinsvegar um starfslok stefnanda hjá Dælum ehf. Fyrir liggur í gögnum málsins að deilur voru á milli fyrirsvarsmanna stefnda og fyrrverandi eigenda Dælna ehf. þ.e. stefnanda og foreldra hans varðandi kaupverð félagsins og virðist trúnaðarbrestur hafa verið komin upp á milli stefnanda og fyrirsvarmanna stefnda. Hinsvegar liggur ekki skýrt fyrir hvernig staðið var að starfslokum stefnanda hjá félaginu þegar stefndi keypti Dælur ehf.
Það er niðurstaða dómsins að með kaupum stefnda á Dælum ehf. hafi stefndi yfirtekið launaskuldbindingar gagnvart stefnanda. Fyrirsvarsmenn stefnda hefðu sem ráðandi aðili við kaupsamningsgerðina getað staðið betur að starfslokum stefnanda og verður stefndi að bera hallann af því að það var ekki gert.
Í gögnum málsins liggur fyrir að stefnandi vann í janúar 2004 að ýmsum verkefnum fyrir Dælur ehf. Þar má nefna vinnu við tilboð frá Dælum ehf. í vélbúnað og pípukerfi í dælustöð á Vesturhafnarsvæðinu. Einnig má þar nefna samskipti við Staðlaráð Íslands vegna sama verkefnis.
Þann 30. janúar 2004 fékk stefnandi í hendur uppsagnarbréf dags. sama dag frá Eiríki Hans Sigurðssyni framkvæmdastjóra Dælna ehf. sem jafnframt var framkvæmdastjóri stefnda. Í því kemur fram að stefnanda sé sagt upp störfum sem innkaupa- og tæknistjóra hjá Dælum ehf. með vísan í heimild í ráðningarsamningi. Uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir frá næstu mánaðarmótum að telja skv. ráðningarsamningi. Þá kemur fram að ekki sé óskað eftir frekara vinnuframlagi frá stefnanda. Í máli þessu heldur stefndi því fram að samkomulag hafi verið um að stefnandi myndi hætta störfum í lok desember 2003. Telja verður að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að starfslok hafi átt að fara fram með þessum hætti. Þegar litið er til þess og þess sem fyrir liggur um störf stefnanda fyrir Dælur ehf. í janúar 2004 er það mat dómsins að stefnda hafi ekki tekist sönnun þess að um það hafi verið samkomulag að stefnandi myndi hætta störfum í lok desember 2003 heldur hafi honum verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dags. 30. janúar 2004 og frekara vinnuframlagi hafnað.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ber að taka kröfur stefnanda til greina. Stefnandi gerir kröfu um laun vegna janúar 2004 og laun í uppsagnarfresti auk orlofs og uppbóta. Samkvæmt því er heildarkrafa stefnanda 1.217.544 krónur, en henni er ekki tölulega mótmælt og er tekin til greina ásamt vaxtakröfu stefnanda, en ekki er skilyrði til að lækka þá kröfu vegna annarrar vinnu stefnanda, þar sem um áunnin réttindi skv. vinnusamningi er að ræða, sem ekki skerðast af þeim sökum, en að kröfu stefnda hefði stefnanda verið skylt að vinna í uppsagnarfrestinum til hljóta þessi laun.
Í ljósi þessarar niðurstöðu ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem telst hæfilega ákveðinn 326.810 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
DÓMSORÐ
Stefndi, Dælur og ráðgjöf ehf., greiði stefnanda, Hjalta Þorsteinssyni 1.217.544 krónur auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 230.000,- frá 1. febrúar 2004 til 1. mars 2004, af kr. 460.000,- frá þeim degi til 1. apríl 2004, af kr. 690.000,- frá þeim degi til 1. maí 2004 og af kr. 1.217.544,- frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 326.810 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.