Hæstiréttur íslands
Mál nr. 581/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
|
|
Þriðjudaginn 4. september 2012. |
|
Nr. 581/2012.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Á. Hermannsson fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.
X hafði framvísað fölsuðu vegabréfi og var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Aftur á móti þóttu ekki uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. september 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „allt til fimmtudagsins 5. september 2012, kl. 16:00.“ Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, þó þannig að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 5. september 2012.
Í 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga segir að neiti útlendingur að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur sé um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða hann sýni af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta, sé heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald. Samkvæmt gögnum málsins hefur varnaraðili játað að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi við komu sína til landsins. Kveðst hún heita öðru nafni og vera af öðru þjóðerni en fram kemur í vegabréfinu án þess að hafa stutt þá fullyrðingu frekar. Eins og atvikum er háttað er því ekki grundvöllur til að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald á samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn eru uppfyllt skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Samkvæmt þessu er fallist á að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 5. september 2012 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. september 2012.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a- og b liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, að kærðu, sem kveðst nú vera íranskur ríkisborgar, heita X og vera fædd [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. september 2012, kl. 16:00.
Kærða hafnar kröfunni en krefst þess til vara að beitt verði vægari úrræðum og til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur m.a. fram að þann 31. ágúst 2012 hafi lögreglan haft afskipti af kærðu á Keflavíkurflugvelli en kærða hafi verið á leið til Kanada. Kærða hafi verið beðin um að framvísa vegabréfi. Kærða hafi afhent lögreglu ítalskt vegabréf á nafni Y. Grunur lögreglu hafi vaknað um að vegabréfið væri falsað. Kærða hafi talað ágæta ensku og sagt aðspurð við lögreglu að vegabréfið sem hún framvísaði væri hennar og að hún hefði keypt farmiða til Kanada á söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli þá fyrr um daginn. Kærða hafi viðurkennt síðar hjá lögreglu að hún héti X og væri ríkisborgari [...].
EHS-0229 skilríkjasérfræðingur á vegabréfarannsóknarstofu hafi verið fenginn til að athuga vegabréfið og telji hann að vegabréfið sé breytifalsað. Ákveðið hafi verið að færa kærðu á varðstofu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli til viðræðna.
Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögregla sig hafa rökstuddan grun fyrir því að kærða hafi gerst sek um skjalafals og gefi rangar upplýsingar um það hver hún sé.
Með vísan til þessa telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til rannsóknar hjá lögreglu, unnið sé að rannsókn málsins, skilríkjarannsókn framkvæmd, unnið sé að því að upplýsa hver kærða sé, frásögn hennar af ferðalaginu rannsökuð og hvernig tilhögun ferðalagsins var.
Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hennar er til rannsóknar hjá lögreglu en rannsókn málsins sé á algeru frumstigi.
Auk þess sem rannsóknarhagsmunir séu fyrir hendi sé vísað til þess að kærða er erlendur maður sem ætla megi að muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málssókn eða fullnustu refsingar ef hún gengur laus.
Jafnframt sé vísað til þess að kærða er útlendingur sem lögregla hafi rökstuddan grun um að gefi rangar upplýsingar um hver hún sé.
Kröfum sinum til stuðnings vísar lögreglustjóri til a- og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, sbr. 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96, 2002, sbr. lög nr. 86, 2008.
Með vísan til gagna málsins og framangreindra röksemda lögreglustjóra ber að taka kröfu hans um gæsluvarðahald yfir kærða til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómar kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. september 2012, kl. 16:00.