Hæstiréttur íslands
Mál nr. 422/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 14. nóvember 2003. |
|
Nr. 422/2003. |
Elsa Ævarsdóttir (Einar Páll Tamimi hdl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Æ krafðist þess að felld yrði úr gildi synjun umhverfisráðuneytisins á umsókn hennar um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Með vísan til þess að skýr afstaða ráðuneytisins um að hafna erindi Æ um slíka löggildingu lá ekki fyrir varð ekki komist hjá því að vísa málinu frá héraðsdómi. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Til vara er þess krafist að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði sótti sóknaraðili um löggildingu til umhverfisráðuneytisins 30. nóvember 1999 til að mega gera uppdrætti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Hún er húsgagna- og innanhússarkitekt (húsgagna- og innanhússhönnuður), sbr. 1. gr. laga nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum með síðari breytingum. Umsóknin var á eyðublaði, sem sóknaraðili mun hafa fengið hjá ráðuneytinu, þar sem hún hafði merkt við að sótt væri um löggildingu fyrir aðaluppdrætti og innanhússhönnun. Í samræmi við lokamálslið 5. mgr. 48. gr. skipulags- og byggingarlaga var umsókn sóknaraðila send Félagi húsgagna- og innanhússhönnuða og prófnefnd samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laganna til umsagnar 1. desember 1999. Af umsögnum þeirra 25. apríl 2000 og 17. desember 1999 má ráða að litið hafi verið svo á að umsókn sóknaraðili hafi bæði beinst að löggildinu fyrir aðaluppdrætti samkvæmt 1. mgr. 49. gr. skipulags- og byggingarlaga og löggildingu fyrir séruppdrætti samkvæmt 4. mgr. sama ákvæðis. Það sama má ráða af bréfi ráðuneytisins 2. mars 2000 til Félags húsgagna- og innanhússhönnuða, þar sem sérstaklega var tekið fram að um væri að ræða umsókn sóknaraðila, sem væri húsgagna- og innanhússhönnuður, til að leggja fram innanhússuppdrætti fyrir byggingarnefnd, en skýrt væri tekið fram í lögum að aðeins arkitektar og byggingarfræðingar gætu hlotið löggildingu ráðuneytisins til að hanna aðaluppdrætti. Í bréfinu var jafnframt bent á að samkvæmt gögnum sóknaraðila væri hún húsgagna- og innanhússhönnuður, en hefði merkt við aðaluppdrætti á umsóknarblaði, sem ætlað væri arkitektum. Í áðurnefndri umsögn Félags húsgagna- og innanhússhönnuða var mælt með því að sóknaraðila yrði veitt löggilding til að leggja fyrir rétt yfirvöld aðaluppdrætti á fagsviði innanhússarkitekta sem og innanhússuppdrætti. Í umsögn prófnefndar var talið að sóknaraðili uppfyllti skilyrði til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Með bréfi ráðuneytisins 2. maí 2000 var sóknaraðila veitt löggilding til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar.
II.
Sóknaraðili gerir þær kröfur í héraðsdómsstefnu að felld verði úr gildi synjun umhverfisráðuneytisins 2. maí 2000 á umsókn hennar um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Eins og að framan greinir tilkynnti ráðuneytið sóknaraðila með fyrrnefndu bréfi að henni hefði verið veitt löggilding til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Í bréfinu var í engu vikið að umsókn sóknaraðila um löggildingu til að gera aðaluppdrætti. Skýr afstaða ráðuneytisins um að hafna erindi sóknaraðila um slíka löggildingu liggur því ekki fyrir þótt fallast megi á að sjónarmið þess hafi með óbeinum hætti komið fram í fyrrnefndu bréfi til Félags húsgagna- og innanhússhönnuða þegar leitað var eftir umsögn félagsins, sem síðan var veitt með ítarlegum skýringum á lagalegri stöðu sóknaraðila. Þegar allt framangreint er virt verður að fallast á að þeir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki verði komist hjá því að vísa málinu frá héraðsdómi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 17. september sl., að loknum munnlegum málflutningi um framkomna frávísunarkröfu stefnda, var höfðað fyrir dómþinginu af Elsu Ævarsdóttur, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri hinn 19. mars 2003 og þingfestri 20. mars 2003.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að felld verði úr gildi með dómi höfnun umhverfisráðuneytisins í bréfi dags. 2. maí 2000, á umsókn hennar, mótt. 30. nóvember 1999, um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Eins og að framan greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur til úrlausnar hér.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi sótti til umhverfisráðuneytisins, hinn 30. nóvember 1999, um löggildingu á sviði innanhússhönnunar. Var sótt um á umsóknareyðublaði, sem ráðuneytið lagði til, en á því staðlaða eyðublaði er ekki sérstaklega gert ráð fyrir umsókn af þessu tagi. Merkti stefnandi við „aðaluppdrætti” ásamt „innanhússhönnun” á umsókninni. Með umsókninni fylgdi vottorð um að stefnandi hefði lokið námi í innanhússarkitektúr frá Fachhochshule, Reinland, Pflaz, í Trier í Þýskalandi, árið 1994. Einnig fylgdi með umsókninni heimild iðnaðarráðherra til starfsheitisins húsgagna- og innanhússhönnuður, frá 21. mars 1995, auk yfirlits yfir starfsreynslu stefnanda.
Umsóknin var send til umsagnar prófnefndar mannvirkjahönnuða og Félags húsgagna- og innanhússarkitekta. Í bréfi ráðuneytisins til Félags húsgagna- og innanhússarkitekta er óskað eftir umsögn félagsins vegna umsóknar stefnanda um löggildingu til að skila inn innanhússuppdráttum fyrir bygginganefnd. Félag húsgagna- og innanhússarkitekta sendi ráðuneytinu bréf, dagsett í janúar 2000, þar sem bent var á að stefnandi hefði sótt um löggildingu fyrir aðaluppdrætti og innanhússhönnun og óskað eftir upplýsingum er vörðuðu misræmið á milli bréfs ráðuneytisins og umsóknarinnar, ætti félagið að gefa umbeðna umsögn. Með bréfi ráðuneytisins, dagsettu 2. mars 2000, var ósk um umsögn ítrekuð. Í bréfinu sagði m.a. svo: „Skýrt er tekið fram í lögum að aðeins arkitektar og byggingafræðingar geta hlotið löggildingu ráðuneytisins til að hanna aðaluppdrætti. Eins og sést á gögnum Elsu Ævarsdóttur, þá er hún húsgagna- og innanhússhönnuður, en hefur merkt við aðaluppdrætti á umsóknareyðublaði, en umsóknareyðublaðið er ætlað arkitektum.”
Þann 25. apríl 2000 sendi Félag húsgagna- og innanhússarkitekta umhverfis-ráðuneytinu svar við bréfi þess. Segir þar m.a., að félagið staðhæfi að ákvæði 49. gr. gildandi skipulags- og byggingarlaga er heimili einvörðungu arkitektum og byggingafræðingum að leggja fram aðaluppdrætti, einnig þá aðaluppdrætti sem alfarið falli undir fagsviðs innanhússarkitekta, séu ekki samræmanleg 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi. Í ljósi þess mæli félagið með því að stefnandi fái löggildingu til að leggja aðaluppdrætti á fagsviði innanhússarkitekta sem og innanhússuppdrætti fyrir rétt yfirvöld.
Með bréfi umhverfisráðuneytisins, dagsettu 2. maí 2000, var stefnanda tilkynnt að ráðuneytið veitti henni, frá og með þeim degi, löggildingu til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar.
Í stefnu er í löngu máli gerð grein fyrir því sem stefnandi kallar réttindabarátta hennar og fagfélags hennar, en ekki þykir ástæða til að gera grein fyrir þeirri sögu hér.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á því, að stefnda hafi verið óheimilt að hafna umsókn stefnanda um réttindi til að gera aðaluppdrætti að öllu leyti, þar sem stefndi hefði átt að samþykkja umsóknina varðandi aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Leiði þetta af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Umhverfisráðuneytið hafi gengið lengra en því hafi verið heimilt, með synjun sinni, sem hafi ekki verið í samræmi við málsatvik og gildandi rétt. Stefnanda hafi ekki verið fær sá kostur að sækja sérstaklega um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Umhverfisráðuneytið hafi látið stefnanda í té umsóknareyðublað er ekki geri ráð fyrir því að hægt sé að sækja um réttindi til að gera aðaluppdrætti á einstökum sviðum mannvirkjahönnunar. Þannig hafi stefnandi orðið að sækja um réttindi til að gera alla aðaluppdrætti. Stefnandi hafi hins vegar einungis viljað fá réttindi til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar og hafi ekki vænst þess að fá frekari réttindi. Ekki sé því deilt um hvort umhverfisráðuneytinu hafi verið rétt að synja umsókn hennar hvað varði aðra aðaluppdrætti en þá er falli innan sviðs innanhússhönnunar.
Stefnandi byggir á því, að synjun umhverfisráðuneytisins, dagsett 2. maí 2000 fari í bága við ákvæði 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Ráðneytið geti ekki réttlætt synjunina með vísan til almennra laga er fari í bága við nefnd stjórnarskrárákvæði. Ákvæði 9. gr. skipulags- og byggingalaga sé því ekki viðhlítandi lagagrundvöllur fyrir slíkri synjun.
Stefnandi byggir á því, að vegna synjunar umhverfisráðuneytisins á umsókn stefnanda geti stefnandi ekki stundað þá atvinnu sem hún kjósi og hafi menntað sig til. Stefnandi sé langskólagenginn sérfræðingur í hönnun innri rýma, en sé ekki heimilt að selja kunnáttu sína á byggingamarkaði. Án réttinda til að gera aðaluppdrætti sé henni ekki kleift að afla sér viðskiptavina og tekna út á kunnáttu sína og höfundareinkenni, sem sé eina söluvara hönnuða. Réttindi til að leggja aðaluppdrætti fyrir viðeigandi byggingaryfirvöld séu óhjákvæmileg til að stefnandi geti stundað sitt fag. Réttindi til þess að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar séu í raun engin réttindi, þar sem ávallt þurfi samþykki arkitekts eða byggingafræðings fyrir því að slíkir uppdrættir séu lagðir fram. Þannig geti innanhússarkitekt ekki selt viðskiptavini sínum neina fullvissu um að hönnunarsérkenni hans komi fram í endanlegum uppdráttum.
Stefnandi telur enga almannahagsmuni vera fyrir hendi sem réttlætt geti það, að stefnandi fái ekki réttindi til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar, en einungis arkitektar og byggingafræðingar. Vandséð sé hvaða hag almenningur hafi af því að geta ekki keypt hönnun af stefnanda eða öðrum innanhússarkitektum. Þvert á móti verði að telja, að það að knýja neytendur til að leita hönnuða, sem almennt kunni minna fyrir sér í innanhússhönnun en stefnandi, gangi þvert á hagsmuni almennings.
Stefnandi byggir á því, að löggjafinn geti ekki sjálfur átt fullnaðarmat á því hvort skilyrðinu um almenningsheill sé fullnægt eins og hér standi á. Þvert á móti beri dómstólum að meta hvort skilyrði um almenningsheill séu uppfyllt enda sé ákvæðinu fyrst og fremst ætlað að vernda stefnanda og aðra borgara gagnvart löggjafanum.
Í greinargerð með 75. gr. stjórnarskrárinnar segi að með því að breyta orðalagi á þennan hátt frá núgildandi reglu sé ætlunin að leggja öllu ríkari áherslu á að löggjafinn verði að meta sérstaklega hvort almannahagsmunir krefjist í raun að meginreglunni um atvinnufrelsi verði vikið til hliðar á afmörkuðum sviðum með lagasetningu. Verði þetta ekki skilið á annan veg en þann, að ætlast sé til þess að sérstaklega og ítarlega sé um þessi sjónarmið fjallað á einhverju stigi þingmeðferðar lagafrumvarpa. Í tengslum við 49. gr. skipulags- og byggingarlaga sé ekkert sem bendi til þess að umræddum sjónarmiðum hafi verið nokkur gaumur gefinn af hinum almenna löggjafa. Hljóti því afleiðingar þess a.m.k. að vera þær, að dómstólar meti hvort krafan um almannahagsmuni hafi verið uppfyllt í máli þessu og jafnvel að ákvæði 49. gr. yrði talið fara í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig geti 49. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið viðhlítandi grundvöllur synjunar umhverfisráðuneytisins á umsókn stefnanda frá 30. nóvember 1999.
Stefnandi byggir og á því, að sú skerðing á atvinnufrelsi stefnanda, sem að framan greini, brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir liggi að stefndi styðjist við 49. gr. skipulags- og byggingarlaga í synjun sinni á umsókn stefnanda um réttindi til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Byggt er á því, að þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans við mat á því hvernig lágmarksréttindi stefnanda, samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar, séu ákvörðuð, geti dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Ein af þeim grundvallarreglum stjórnarskrárinnar, sem hér um ræði, sé jafnræði samkvæmt 65. gr. hennar. Komi þetta afdráttarlaust fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000.
Í máli þessu sé stefnt vegna synjunar á umsókn um réttindi til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Þannig sé það hæfni á sviði innanhússhönnunar en ekki mannvirkjahönnunar almennt, sem leggja verði til grundvallar við mat á því hvort gætt hafi verið jafnræðis þegar atvinnufrelsi stefnanda hafi verið skert. Verkefni sem snerti einvörðungu innanhússhönnun og ekki önnur svið, sem innanhússarkitektar hafa ekki sérmenntun á, séu umtalsverður hluti hönnunarverkefna á byggingarmarkaði. Synjunin hafi slegið fastri réttarstöðu, þar sem minni menntun leiði til meiri réttinda. Stefnandi hafi fjögurra og hálfs árs menntun í innanhússarkitektúr, en geti ekki fengið réttindi til sjálfstæðrar innanhússhönnunar, en arkitektar geti fengið slík réttindi eftir fjögurra ára nám, sem nær undantekningalaust gangi mun skemur hvað varði menntun innanhússhönnunar og í sumum tilvikum hafi lítið sem ekkert með mannvirkjahönnun að gera. Þá fái byggingafræðingar slík réttindi að loknu þriggja og hálfs árs almennu námi í mannvirkjahönnun. Allt sé þetta nám á háskólastigi. Byggir stefnandi á því að mismunun á milli stefnanda og annarra innanhússarkitekta annars vegar, og arkitekta og byggingafræðinga hins vegar, byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum. Engum málefnalegum rökum hafi nokkurn tíma verið haldið fram fyrir núverandi mismunun hvorki við þinglega meðferð skipulags- og byggingarlaga, stjórnsýslulega meðferð frumvarps til þeirra laga, né stjórnsýslulega meðferð umsóknar stefnanda, móttekinni 30. nóvember 1999. Af þessu leiði að hin ómálefnalegu sjónarmið er leitt hafi til mismununarinnar hljóti að teljast atriði sem óheimilt sé að byggja mismunun á samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Fyrir liggi að afleiðingar mismununarinnar fyrir stefnanda og aðra innanhússarkitekta séu mjög alvarlegar. Innanhússarkitektar þurfi í öllum tilvikum að fá samþykki arkitekts eða byggingafræðings á hönnun sinni. Af þessum sökum hafi stór hluti innanhússarkitekta séð sig knúna til að vera launamenn hjá arkitektum eða byggingafræðingum, sem selji vinnu þeirra á sama verði og sína eigin, en stingi mismuninum í eigin vasa. Þetta fyrirkomulag sé augljóslega afar heppilegt fyrir arkitekta og byggingafræðinga, en fjárhagslega og faglega óboðlegt innanhússarkitektum.
Stefnandi byggir og á því, að 65. gr. stjórnarskrárinnar takmarkist við að allir skuli njóta jafnt stjórnarskrárbundinna mannréttinda. Það að veita með lögum tilteknum hópum sérstök réttindi er aðrir njóti ekki falli einnig þar undir. Synjun umhverfisráðuneytisins á umsókn stefnanda til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar brjóti gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, óháð því hvort réttindi til að hanna sjálfstætt innra rými húsa teljist stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi stefnanda eður ei.
Um lagarök vísar stefnandi til 65. gr. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Einnig vísar stefnandi til almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og viðtekins sjónarmiðs um innbyrðis rétthæð réttarheimilda. Einnig vísar stefnandi til ákvæða skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, einkum IV. kafla þeirra laga.
IV
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að sakarefni málsins sé sprottið af aðstöðu og skilgreiningum, sem löggjafinn hafi hvorki tekið afstöðu til né skilgreint að séu í lögum eða byggingarreglugerð, með þeim hætti sem stefnandi lýsi, þ.e. um aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Af þeim sökum sé sakarefnið ímyndað álitaefni, sem ekki eigi sér stoð í reglum sem varði innanhússarkitekta. Hvorki umhverfisráðuneytið né önnur stjórnvöld hafi getað veitt löggildingu þess efnis sem dómkröfur og málatilbúnaður stefnanda virðist felast í að fá viðurkennt. Lög og stjórnvaldsfyrirmæli skilgreini hins vegar aðaluppdrætti og það hverjir megi fá löggildingu til að gera þá. Málatilbúnaður stefnanda varði ekki aðaluppdrætti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum að því er virðist, heldur aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar, sem engin ákvæði laga eða reglna heimili að unnt sé að gefa löggildingu til. Beri því að vísa málinu frá dómi samkvæmt 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda felist í dómkröfunum og málatilbúnaði að stefnandi ætlist til þess að dómurinn fari inn á svið löggjafarvaldsins.
Þá byggir stefndi einnig á því, að krafa stefnanda og málatilbúnaður sé vanreifaður. Ekki liggi fyrir bein ákvörðun stefnda um synjun á löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Beri einnig að virða það í ljósi umsóknar hennar að hvergi komi skýrt fram að í erindi hennar felist beiðni um að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar, en stefnandi hafi merkt í tvo reiti á eyðublaði, annars vegar „aðaluppdrætti” og hins vegar „innanhússhönnun”, sem sé sitt hvað að lögum. Nánari útlistun á umsókninni komi ekki fram. Stefndi hafi því hvorki haft ástæðu né heimild til að veita stefnanda löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Það hafi ekki verið fyrr en um síðir við meðferð málsins, að Félag húsgagna- og innanhússhönnuða hafi mælt með því að stefnanda yrði veitt löggildin til að leggja aðaluppdrætti á fagsviði innanhússarkitekta, sem og innanhússuppdrætti, fyrir rétt yfirvöld, svo sem segi í bréfi félagsins frá 25. apríl 2000. Vísar stefndi því til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, við þessar aðstæður.
Málatilbúnaður stefnanda sé óljós. Hvorki í stefnu né framlögðum gögnum sé til að mynda útskýrt hvað stefnandi telji felast í aðaluppdráttum á sviði innanhússhönnunar og á hvern hátt hún telji að það svið skeri sig frá aðaluppdráttum eða séruppdráttum í skilningi laga. Af þessum ástæðum hljóti að teljast örðugt fyrir stefnda og dómstóla að skilja hvaða hagsmunir, réttindi eða réttarsamband felist í dómkröfunum, sbr. áskilnað 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá sé í stefnu að finna ýmiss konar vangaveltur um afstöðu félaga og baráttu milli þeirra sem á engan hátt geti staðið í tengslum við dómkröfur.
Stefnandi mótmælti frávísunarkröfu stefnda og krafðist þess að málið yrði tekið til efnisdóms. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, vegna þessa þáttar málsins.
V
Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er uppdráttum skipt í aðaluppdrætti og séruppdrætti. Samkvæmt sömu lögum skulu aðal- og séruppdrættir gerðir af hönnuðum, sem til þess hafa fengið löggildingu.
Í stefnu krefst stefnandi þess, að felld verði úr gildi höfnun umhverfisráðuneytisins á umsókn hennar um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar.
Af framlagðri umsókn, eins og henni hefur verið lýst hér að framan, sótti stefnandi um löggildingu fyrir „aðaluppdrætti” og „innanhússhönnun” án þess að skýra það nánar. Í framhaldi af því gaf stefndi út leyfisbréf til handa stefnanda um löggildingu hennar til að gera séruppdrætti á sviði innanhússhönnunar. Með vísan til efnis umsóknarinnar verður ekki séð, að stefndi hafi hafnað erindi eða umsókn um löggildingu til að gera aðaluppdrætti á sviði innanhússhönnunar, sem krafist er að felld verði úr gildi. Kröfugerðin er því ekki í samræmi við þá umsókn, sem fyrir liggur í málinu og stefndi tók afstöðu til með veitingu leyfis til hennar. Kröfugerð stefnanda er því ekki í samræmi við gögn málsins og málsatvik og tengsl milli kröfugerðar og sakarefnisins ekki ljós. Þessi málatilbúnaður stefnanda uppfyllir ekki kröfur um skýran og glöggan málatilbúnað svo samhengi málsástæðna verði ljós. Með vísan til d-liðar og e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber því að vísa máli þessu frá dómi.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.