Hæstiréttur íslands

Mál nr. 156/2004


Lykilorð

  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur
  • Réttindasvipting
  • Ökuréttarsvipting
  • Vanaafbrotamaður


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. október 2004.

Nr. 156/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Borgþóri Gústafssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Réttindaleysi við akstur. Ökuréttarsvipting. Vanaafbrotamaður.

 

B var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti og svo óvarlega að hann ók aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð við rautt umferðarljós. B játaði brot sitt. Hafði B 15 sinnum verið dæmdur fyrir ölvun við akstur og jafnframt 14 sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti. Var refsing B ákveðin fangelsi í sex mánuði, sbr. 72. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsing ákærða verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann 15 sinnum verið dæmdur fyrir ölvun við akstur og jafnframt 14 sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti. Verður því vísað til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar hans svo og 77. gr. sömu laga. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 9. febrúar 2004 á hendur Borgþóri Gústafssyni, kt. [...], óstaðsettum í hús, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...], laugardaginn 20. september 2003, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,61 o/oo) og sviptur ökurétti frá Grafarvogshverfi í Reykjavík að vínbúðinni Heiðrúnu við Stuðlaháls og þaðan um Vesturlandsveg og svo óvarlega um gatnamót Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar að hann ók aftan á bifreiðina [...] sem var kyrrstæð við rautt umferðarljós.

Ákæruvaldið telur háttsemi þessa varða við 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar öku­réttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.

                Ákærði kom fyrir dóm 25. febrúar sl. og játaði brot sín eins og þeim er lýst í ákæru.  Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur 22. nóvember 1963. Hann á að baki langan afbrotaferil allt frá árinu 1983. Fyrst hlaut hann dóm 12. júní 1986 fyrir ölvunarakstur og síðan þá hefur hann margítrekað gerst sekur um brot gegn umferðarlögum eins og þeim sem hann er nú sakfelldur fyrir. Hann var dæmdur í 3 mánaða fangelsi 21. september 2000 fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, en samkvæmt dóminum voru ítrekunaráhrif dóms er ákærði hlaut 14. september 1994 fyrir brot gegn sömu ákvæðum umferðarlaga þá ekki fallin niður. Með dómi uppkveðnum 23. janúar 2002 hlaut hann 3 mánaða fangelsi fyrir brot gegn sömu ákvæðum umferðarlaga og hann er nú sakfelldur fyrir og með dómi 21. nóvember 2002 var hann enn á ný sakfelldur fyrir brot gegn sömu ákvæðum umferðarlaga. Refsing samkvæmt síðastgreindum dómi, 2 mánaða fangelsi, var ákvörðuð sem hegningarauki við dóminn frá 23. janúar 2002. Samtals hefur ákærði verið dæmdur til óskil­orðs­bundinnar fangelsisrefsingar í átta ár fyrir ýmis auðgunarbrot, skjalafals og umferðarlagabrot. Síðast hlaut hann 45 daga fangelsisdóm 15. maí 2003 fyrir auðgunarbrot. Í ljósi þess að ákærði hefur enn á ný gerst sekur um brot gegn 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, sem og með hliðsjón af sakarferli ákærða að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.

                Þá er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 38.800 krónur.

                Sturla Þórðarson yfirlögfræðingur flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

Ákærði, Borgþór Gústafsson sæti fangelsi í 6 mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 38.800 krónur.