Hæstiréttur íslands

Mál nr. 833/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Sigurður Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X og Y (Björn Jóhannesson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L var heimilað að koma fyrir eftirfararbúnaði í bifreiðum í eigu og umráðum X og Y á grundvelli c. liðar 1. mgr. 82. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. desember 2017, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um heimild til að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í tveimur tilgreindum bifreiðum og öðrum þeim bifreiðum er varnaraðilar hafa til umráða og fylgjast með staðsetningu og ferðum bifreiðanna, án þess að eigendur, umráðamenn, ökumenn, farþegar og aðrir hlutaðeigendur viti af því, frá og með 27. desember 2017 til og með 10. janúar 2018. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                            

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 27. desember 2017

Héraðsdómi Reykjaness barst fyrr í dag krafa lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu um að embættinu verði heimilað að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í bifreiðunum [...] og [...] og öðrum þeim bifreiðum sem varnaraðilar, X, kt. [...], og Y, kt. [...],  kunna að hafa umráð yfir á úrskurðartímanum, og fylgjast með staðsetningum/ferðum bifreiðanna án þess að eigendur þeirra, ökumenn, farþegar og aðrir hlutaðeigandi viti af því, frá og með 27. desember 2017 til og með 26. janúar 2018.

                Skipaður talsmaður varnaraðila hefur krafist þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.

I

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að  lögreglustjóra hafi borist mjög áreiðanlegar upplýsingar þess efnis að varnaraðilar starfi hér á landi fyrir skipulögð glæpasamtök sem samanstandi af pólskum ríkisborgurum. Glæpasamtökin stundi framleiðslu og dreifingu kannabisefna, sem meðal annars séu flutt úr landi til annarra Norðurlanda og Póllands. Samkvæmt upplýsingum lögreglu starfræki samtökin stóra kannabisræktun af fullkomnustu gerð á óþekktum stað á höfuðborgarsvæðinu og séu varnaraðilar sagðir sjá um þessa ræktun.

                Í kvöld, miðvikudaginn 27. desember 2017, kl. 22:00, sé von á yfirmanni úr glæpasamtökunum, A, með flugi frá Póllandi og sé hann sagður umsjónar-/eftirlitsaðili með kannabisræktunum samtakanna hér á landi.

                Lögreglustjóri segir engan framangreindra aðila eiga sér sögu hjá lögreglu hér á landi. Lögregla meti þessar upplýsingar samt sem áður mjög áreiðanlegar og telji lögregla mikilvægt að fá heimild til að setja eftirfararbúnað á þau ökutæki sem varnaraðilar noti í því skyni að kortleggja ferðir þeirra, finna húsnæði þar sem kannabisræktun sé starfrækt og hafa uppi á samverkamönnum varnaraðila.

                Lögreglustjóri telji miklu skipta fyrir rannsókn málsins að veitt verði heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu lögreglustjóra í því skyni að afla sönnunargagna um hina ætluðu refsiverðu háttsemi. Til rannsóknar séu meint brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi.

                Til stuðnings kröfunni vísar lögreglustjóri til alls framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 82. gr., sbr. 83. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

                Fyrir þingfestingu málsins féllst dómari á kröfu lögreglustjóra þess efnis að krafan hlyti meðferð fyrir dómi, án þess að varnaraðilar yrðu kvaddir á dómþing, sbr. ákvæði 1. mgr. 103. gr. og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

                Að framansögðu virtu þykir ástæða til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með umbeðinni rannsóknaraðgerð. Varnaraðilar eru undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi og þá þykir sýnt að ríkir almannahagsmunir krefjist umræddra rannsóknar­aðgerða. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra, sbr. 81. og 83. gr. laga nr. 88/2008, með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

                Þóknun Björns Jóhannessonar hrl., sem skipaður var til þess að gæta hagsmuna varnaraðila beggja, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, þykir hæfilega ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í bifreiðunum [...] og [...] og öðrum þeim bifreiðum sem varnaraðilar, X, kt. [...], og Y, kt. [...], hafa til umráða og fylgjast með staðsetningu  og ferðum bifreiðanna án þess að eigendur, umráðamenn, ökumenn, farþegar og aðrir hlutaðeigandi viti af því, frá og með 27. desember 2017 til og með 10. janúar 2018. 

                Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila er ákveðin 80.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.