Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-108

Jóna Auður Haraldsdóttir (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Ábyrgð
  • Tryggingarbréf
  • Umboð
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 21. mars 2019 leitar Jóna Auður Haraldsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. febrúar sama ár í málinu nr. 501/2018: Landsbankinn hf. gegn Jónu Auði Haraldsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að honum verði heimilað að gera fjárnám fyrir kröfu að höfuðstól 5.796.243 krónur í eignarhluta leyfisbeiðanda í nánar tiltekinni fasteign á grundvelli tryggingarbréfs sem Multikerfi ehf. hafi gefið út 26. júní 2008 til Landsbanka Íslands hf., en gagnaðili segir réttindi samkvæmt því bréfi nú tilheyra sér. Leyfisbeiðandi kveður systur sína hafa áritað tryggingarbréfið um samþykki fyrir veðsetningu fyrir sína hönd samkvæmt umboði en með því hafi systir hennar farið út fyrir umboð sitt. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að Landsbanka Íslands hf. hafi við veðsetninguna borið að fara að ákvæðum samkomulags fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sökum þess að vísað hafi verið til samkomulagsins í skilmálum tryggingarbréfsins. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi að á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga bæri að víkja til hliðar samþykki leyfisbeiðanda fyrir veðsetningu þessari og sýknaði hana af kröfu gagnaðila. Með framangreindum dómi Landsréttar var krafa gagnaðila á hinn bóginn tekin til greina.

Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem hann sé í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar um að fjármálafyrirtæki beri sönnunarbyrði fyrir tilvist veðréttinda sinna. Varðandi fyrningu kröfu gagnaðila vísi Landsréttur jafnframt ranglega til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en hún hafi stofnast fyrir gildistöku laganna, sbr. 28. gr. þeirra. Loks telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.