Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2012
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Vextir
- Gjafsókn
Skaðabótamál. Líkamstjón. Skaðabætur. Matsgerð. Vextir. Gjafsókn.
A krafði V hf. um skaðabætur vegna slyss sem hann kvaðst hafa orðið fyrir um borð í togaranum B er hann féll á bakið á þilfari skipsins. Héraðsdómur sýknaði V hf. af kröfu A þar sem ósannað þótti að hann hefði orðið fyrir slysi. Í Hæstarétti var talið að útgerð skipsins hefði haft tilefni til að óska eftir lögreglurannsókn við komu skipsins til hafnar hafi ekki verið talið að skráning í skipsbók dygði til fullnægjandi sönnunar á að A hefði orðið fyrir slysi um borð. Var V hf. látið bera hallann af skorti á sönnun þess hvað nákvæmlega gerðist um borð er slysið varð og lagt til grundvallar við úrlausn málsins að A hefði orðið fyrir slysi við störf sín og ætti rétt til bóta úr vátryggingunni sbr. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Hæstiréttur leysti síðan úr ágreiningsefnum varðandi tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur, bætur fyrir varanlega örorku og annað fjártjón, þ.á m. lyfjakostnað sem dæmdur var að álitum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2012. Hann krefst þess stefnda verði gert að greiða sér 38.630.902 krónur með 4,5% vöxtum af 4.697.176 krónum frá 18. maí 2003 til 1. október 2004, en af 31.013.927 krónum frá þeim degi til 15. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 38.630.902 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum stefnda: 573 krónum 28. nóvember 2003, 300.000 krónum 21. apríl 2004, 500.000 krónum 21. júní 2004, 200.000 krónum 29. júlí 2004 og 158.862 krónum 20. október 2004. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara lækkunar á kröfum áfrýjanda og að málskostnaður verði þá felldur niður á báðum dómstigum.
I
Í máli þessu krefst áfrýjandi skaðabóta vegna slyss sem hann kveðst hafa orðið fyrir 18. maí 2003 við störf um borð í skuttogaranum B, er togarinn var við flotvörpuveiðar. Togarinn var gerður út af […] hf., sem síðar varð FISK-Seafood hf. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda er byggð á slysatryggingu sem útgerð skipsins hafði keypt hjá stefnda samkvæmt 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Málsatvikum og ágreiningi aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Komst fjölskipaður héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri stefnda af kröfu áfrýjanda þar sem ósannað væri að áfrýjandi hefði orðið fyrir slysi í merkingu slysatryggingar sjómanna umrætt sinn. Væri þannig ósannað að áfrýjandi hefði slasast við að veiðarfæri hafi slegist í hann svo sem hann hefði haldið fram. Taldi dómurinn þá ekki þörf á að taka afstöðu til þess sérstaklega hvort það eitt að áfrýjandi hefði fallið á þilfarið í umrætt sinn væri slys samkvæmt skilmálum tryggingarinnar.
II
Meðal gagna málsins er ljósrit úr dagbók skipsins þar sem skráð er við 18. maí 2003: „Kl. 09.10 þegar verið var að láta flottrollið fara vildi það óhapp til að belgurinn slóst í [A] með þeim afleiðingum að hann skall í þilfarið og fann til í baki á eftir. Haft samband við lækni og látinn vita, [A] voru gefin verkjalyf og látinn hafa hægt um sig. Veður SA 12 m/sek. Hægur.“ Liggur fyrir í málinu að skipstjórinn C, sem er faðir áfrýjanda, færði þetta inn í bókina og kvaðst hafa byggt á frásögn D 1. stýrimanns, sem var á vakt í brú skipsins á þeirri stundu þegar áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir slysinu. Bar D fyrir dómi að hann hefði séð úr brúnni þegar áfrýjandi féll á dekk skipsins. Áfrýjandi var samkvæmt málsgögnum að mestu leyti rúmliggjandi það sem eftir var veiðiferðarinnar en skipið kom til Reykjavíkur seint að kvöldi 21. maí 2003. Leitaði hann til slysadeildar Landspítalans strax daginn eftir. Við rannsóknir í kjölfarið greindist áfrýjandi með brjósklos í baki og gekkst hann í nóvember 2003 undir aðgerð þar sem fjarlægt var stórt brjósklos. Er þessu nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Af vottorðum og matsgerðum lækna sem liggja fyrir í málinu, sem og framburði fyrir dómi, verður ráðið að brjósklos áfrýjanda kunni að hafa komið fram við fall á dekk skipsins, eins og hann lýsir því, þó að jafnframt sé ljóst að brjósklos verði oft án slíks atburðar, enda sé brjósklos slitsjúkdómur. Samkvæmt þessu er ekki útilokað að áfrýjandi hafi hlotið brjósklosið á þann hátt sem hann sjálfur telur.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er því lýst að áfrýjandi hafi sagst hafa verið að störfum við að taka svokallað höfuðlínustykki af höfuðlínu vörpunnar. Til þess að ná til höfuðlínustykkisins muni áfrýjandi hafa þurft að fara undir vængi veiðarfærisins, sem aðeins sé hægt að gera svo framarlega á aðalþilfarinu að útilokað sé, að mati dómsins, að sjá þann sem það gerir úr brú skipsins. Við málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst að áfrýjandi myndi hafa þurft að fara undir væng veiðarfærisins mun framar á skipinu en þar sem sjálft höfuðlínustykkið er staðsett ofan við skutrennuna. Vel megi vera að ekki hafi verið unnt að sjá til hans úr brúnni þar sem hann fór undir vænginn en þá hafi hann átt eftir að fara allnokkra vegalengd milli vængjanna aftur á skipið til að ná til höfuðlínunnar, en þar hefði hann fallið á dekkið. Var af hálfu áfrýjanda talið ljóst að vel sæist til þess staðar úr brúnni og væri þessi forsenda hins áfrýjaða dóms, sem ekki hefði farið á vettvang, því byggð á misskilningi. Samkvæmt málsgögnum er óljóst hvar áfrýjandi féll og verður ekki fullyrt að ekki sjáist til þess staðar úr brú skipsins.
Þá er þar enn til að taka að í forsendum héraðsdóms er fyrst komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að áfrýjandi hafi slasast við að veiðarfæri skipsins hafi slegist í hann. Beri hann sönnunarbyrði um að svo hafi verið. Síðan segir að ekki sé þá þörf á að taka afstöðu til þess sérstaklega, hvort það eitt að áfrýjandi hafi fallið á þilfarið umrætt sinn sé slys samkvæmt því ákvæði tryggingarskilmála slysatryggingar sjómanna sem til sé vitnað í málinu, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga. Á þetta verður ekki fallist enda byggir áfrýjandi kröfu sína á því að hann hafi fallið á þilfarið við vinnu sína um borð í skipinu þegar verið var að taka trollið inn. Getur ekki skipt höfuðmáli hvort sannað sé að veiðarfærið hafi slegist í hann eða hvort hann hafi fallið í bleytu á þilfarinu vegna veltings skipsins.
Svo sem lýst er í forsendum héraðsdóms könnuðust aðrir skipverjar, sem voru við störf á dekkinu með áfrýjanda, ekki við að hafa séð hann detta, þegar þetta var tekið til rannsóknar hjá lögreglu rúmu ári eftir að atvikið átti sér stað. Af þessu tilefni verður haft í huga að ekki er víst að þeir hafi séð fallið enda kvaðst áfrýjandi hafa staðið strax upp og haldið áfram störfum um sinn. Bendir þessi lýsing til þess að atvikið sjálft þurfi ekki að hafa verið eftirminnilegt öðrum skipverjum. Framhjá hinu verður hins vegar ekki litið að D 1. stýrimaður kveðst hafa séð áfrýjanda falla, en þeim framburði verður ekki vísað á bug á þeim forsendum sem greinir í héraðsdómi, eins og áður var rakið.
III
Samkvæmt 3. mgr. 221. gr. siglingalaga er skipstjóra skylt að óska eftir því að lögreglurannsókn vegna mannskaða eða meiri háttar líkamstjóns fari fram. Ekki verður talið að þessi skylda hafi fortakslaust orðið virk í því tilviki sem hér um ræðir, enda lá varla fyrir að áfrýjandi hefði orðið fyrir meiri háttar líkamstjóni í skilningi ákvæðisins. Á hinn bóginn verður fallist á með áfrýjanda að útgerð skipsins hafi haft tilefni til að óska eftir lögreglurannsókn við komu skipsins til hafnar ef ekki var talið að skráning í skipsbókina dygði til fullnægjandi sönnunar á að áfrýjandi hefði orðið fyrir slysi um borð, sérstaklega vegna þess að útgerðinni hlýtur að hafa verið kunnugt um fjölskyldutengsl áfrýjanda og skipstjórans sem var ábyrgur fyrir færslu skipsbókarinnar. Þó að áfrýjandi geti beint kröfu sinni að stefnda sem vátryggjanda útgerðarinnar án aðildar hennar verður stefndi að sæta þeim málsástæðum sem áfrýjandi hefði getað haft uppi gegn útgerð skipsins.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður talið að stefndi beri hallann af skorti á sönnun þess hvað nákvæmlega gerðist um borð í togaranum B hinn 18. maí 2003 þegar áfrýjandi hlaut brjósklos með þeim afleiðingum að hann þurfti að leggjast í koju og var fluttur beint á sjúkrahús þegar í land var komið. Verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi við störf sín og eigi rétt til bóta úr vátryggingunni, sbr. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.
IV
Áfrýjandi byggir kröfur sínar á matsgerð þriggja yfirmatsmanna 10. ágúst 2006 og er gerð grein fyrir niðurstöðum hennar í hinum áfrýjaða dómi. Þar er einnig gerð grein fyrir athugasemdum sem stefndi hafði fram að færa við yfirmatsgerðina og svörum yfirmatsmanna við þeim. Yfirmatsmenn staðfestu matsgerð sína fyrir dómi. Stefndi hefur ekki hnekkt niðurstöðum hennar og verður hún lögð til grundvallar við ákvörðun bóta til áfrýjanda.
Í málinu krefst áfrýjandi bóta úr hendi stefnda samtals að fjárhæð 38.630.902 krónur og sundurliðast krafa hans svo:
Annað fjártjón 7.616.975 krónur
Tímabundið atvinnutjón 2.524.651 króna
Þjáningabætur 584.150 krónur
Varanlegur miski 1.588.375 krónur
Varanleg örorka 26.316.751 króna
Til frádráttar komi eftirfarandi greiðslur frá stefnda miðað við þann dag er þær hafi verið inntar af hendi:
28. nóvember 2003 573 krónur
21. apríl 2004 300.000 krónur
21. júní 2004 500.000 krónur
29. júlí 2004 200.000 krónur
20. október 2004 158.862 krónur
Vaxtakröfu sína kveðst áfrýjandi byggja á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en samkvæmt greininni skuli bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og tímabundið atvinnutjón bera 4,5% vexti frá því slys varð 18. maí 2003 og bætur fyrir varanlega örorku frá stöðugleikapunkti 1. október 2004. Þá miðar áfrýjandi við að höfuðstólsfjárhæðin beri dráttarvexti frá 15. október 2006, en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að hann hafi lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 og 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.
Svo sem fyrr getur gerir stefndi til vara kröfu um lækkun á kröfu áfrýjanda. Hefur hann gert grein fyrir hvernig hann telur að reikna eigi kröfuna ef bótaskylda verði dæmd á hendur honum. Telur hann fjárhæð hennar þá eiga að vera 15.367.575 krónur og hefur þá dregið frá kröfunni 1.000.000 krónur sem hann hafi þegar greitt áfrýjanda. Fjárhæð varakröfu stefnda sundurliðast svo:
Útlagður kostnaður 1.459.240 krónur
Tímabundið atvinnutjón 369.947 krónur
Þjáningabætur 441.760 krónur
Varanlegur miski 1.588.375 krónur
Varanleg örorka 12.508.253 krónur
Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxtakröfu áfrýjanda þar sem hann hafi ekki við málssóknina lagt fram öll þau gögn sem þurft hafi til að reikna kröfu hans. Vísar hann þá einkum til þess að áfrýjandi hafi ekki lagt fram útreikning á verðmæti bóta sem hann fái frá öðrum og draga beri frá bótakröfu hans, svo sem honum hafi borið að gera. Hafi stefndi aflað gagna um þetta á sinn kostnað.
Samkvæmt framansögðu er ágreiningur með aðilum um svonefnt annað fjártjón, sbr. 1. gr. skaðabótalaga, tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og bætur fyrir varanlega örorku. Þá greinir hins vegar ekki á um að bætur fyrir varanlegan miska skuli nema 1.588.375 krónum. Verður nú leyst úr þeim kröfuliðum sem ágreiningur er um.
V
Kröfu sína um annað fjártjón að fjárhæð 7.616.975 krónur sundurliðar áfrýjandi svo að kostnaður vegna læknisvottorða og matsgerða nemi 1.512.053 krónum, lyfjakostnaður sem hann þegar hafi þurft að greiða nemi 243.283 krónum og lyfjakostnaður í framtíðinni 5.861.639 krónum. Stefndi fellst á fjárhæðina 1.459.240 krónur vegna kostnaðar við læknisvottorð og matsgerðir. Hefur hann þá fallist á kröfu áfrýjanda vegna þessara þátta að undanskildum reikningi að fjárhæð 52.813 krónur sem ekki hafi verið lagður fram í málinu.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála telst mestur hluti þess kostnaðar sem áfrýjandi krefst undir fyrsta kröfuþætti þessa liðar til málskostnaðar. Með því að stefndi hefur með framangreindum hætti fallist á að þessi kostnaður verði talinn með skaðabótakröfu áfrýjanda verður krafan tekin til greina að því leyti sem stefndi hefur fallist á hana en athugasemd hans um reikning að fjárhæð 52.813 krónur er réttmæt. Verður því fallist á kröfu áfrýjanda undir þessum kröfuþætti með 1.459.240 krónum.
Krafa áfrýjanda vegna lyfjakostnaðar er annars vegar vegna kostnaðar sem hann þegar hafi þurft að greiða og hins vegar vegna kostnaðar í framtíðinni. Fyrri þáttur þessa kröfuliðar er byggður á yfirlitum frá fyrirtækinu Lyf og heilsa hf. um viðskipti áfrýjanda við fyrirtækið einkum á árinu 2007, en áfrýjandi hefur haldið síðari þættinum óbreyttum frá upphaflegri kröfugerð í stefnu, 5.861.639 krónur, þrátt fyrir að hann hafi eftir að málið var höfðað aflað útreiknings E tryggingastærðfræðings á „eingreiðsluverðmæti framtíðarlyfjakostnaðar“ áfrýjanda. Kemur fram í bréfi E 15. mars 2010 að útreikningur hennar miðist við að lyfjakostnaður áfrýjanda hafi numið 129.111 krónum á árinu 2007 og hafi verið óskað eftir að útreikningur hennar miðaðist við „þá upphæð á ári greitt frá janúar 2008.“ Telur hún að eingreiðsluverðmæti lyfjakostnaðar til æviloka muni samkvæmt þessari forsendu nema 2.491.489 krónum. Stefndi hefur með öllu mótmælt kröfu áfrýjanda um lyfjakostnað. Bendir hann á að örorkumat áfrýjanda sé miðað við ástand hans óháð inntöku lyfja. Með lyfjum geti áfrýjandi unnið bug á hluta þeirra einkenna sem áhrif hafi haft á örorkumatið. Ekki sé unnt að krefjast bæði bóta vegna lyfjakostnaðar í framtíðinni, sem lækki raunverulegan miska og örorku, og einnig fullra bóta fyrir varanlegan miska og örorku.
Talið verður að kostnaður við kaup á lyfjum falli undir „annað fjártjón“ þess sem fyrir slysi verður samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga. Reifun kröfu áfrýjanda vegna þessa liðar er ófullnægjandi og verður ekki lögð til grundvallar dómi. Hins vegar þykja nægar upplýsingar liggja fyrir í málinu til þess að unnt sé að dæma áfrýjanda bætur vegna lyfjakostnaðar og verður sá kostnaður metinn að álitum 600.000 krónur.
Áfrýjandi gerir kröfu vegna tímabundins atvinnutjóns tímabilið 22. maí 2003, daginn eftir að skipið kom til hafnar, og til 1. október 2004, en það er sá dagur sem talinn var marka lok tímabundins atvinnutjóns hans í yfirmatsgerð. Áfrýjandi miðar kröfu sína í þessum lið við fullan tekjumissi allt fyrrgreint tímabil, en dregur frá þær fjárhæðir sem hann kveðst hafa fengið greiddar frá vinnuveitanda sínum og stefnda, auk 60% af greiðslum frá lífeyrissjóðum af sama tilefni. Hér veldur sérstökum ágreiningi milli aðila afleiðingar umferðarslyss sem áfrýjandi varð fyrir 16. janúar 2004, en yfirmatsmenn töldu tímabundið atvinnutjón hans vegna þess slyss „100% frá slysdegi til 1. október 2004.“ Telur stefndi að einungis beri að miða við að helmingur hins tímabundna atvinnutjóns tímabilið frá síðast nefndu slysi og til 1. október 2004 teljist til afleiðinga slyssins um borð í B hinn 18. maí 2003. Áfrýjandi bendir á að í dómi Hæstaréttar […] 2011 í máli nr. […] hafi vátryggjandi bifreiðarinnar, sem var bótaskyldur honum vegna umferðarslyssins 16. janúar 2004, verið sýknaður af kröfu hans um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þar sem hann hafi verið óvinnufær og ekki í vinnu 16. janúar 2004 vegna slyssins 18. maí 2003 sem um er fjallað í þessu máli. Við þessar aðstæður og með vísan til niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar, sem ekki hefur verið hnekkt, verður fallist á að áfrýjandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna tímabundins atvinnutjóns að fullu allt frá upphafsdegi kröfunnar 22. maí 2003 til 1. október 2004. Áfrýjandi hefur miðað við að staðgengilslaun hans allt tímabilið hefðu numið 6.188.699 krónum, en stefndi telur sambærilega fjárhæð 6.188.577 krónur. Í greinargerð til Hæstaréttar hefur áfrýjandi gert nákvæma grein fyrir því að eftir að þessi kröfuliður hafi sætt frádrætti, vegna þeirra greiðslna sem áfrýjandi hefur notið umrætt tímabil, séu ógreiddar eftirstöðvar tjónsins lítillega hærri en nemur kröfu hans. Þessu hefur stefndi ekki hnekkt og verður kröfuliðurinn því tekinn til greina að fullu með 2.524.651 krónu.
Í máli því sem dæmt var í Hæstarétti […] 2011 fékk áfrýjandi ekki tildæmdar þjáningabætur fyrir tímabilið 16. janúar 2004 til 1. október sama ár, að öðru leyti en því að honum voru dæmdar bætur vegna 17 daga sem hann var rúmliggjandi að frádreginni fjárhæð sem nam þjáningabótum án rúmlegu. Þær bætur hafa því ekki áhrif á ákvörðun þjáningabóta í þessu máli. Stefndi hefur byggt á því að hann geti ekki borið ábyrgð á nema helmingi þjáningabóta frá þeim degi er umferðarslysið varð 16. janúar 2004 og til 1. október sama ár. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og með vísan til niðurstöðu yfirmatsgerðar verða áfrýjanda dæmdar fullar þjáningabætur frá slysdegi til 1. október 2004 með þeirri fjárhæð sem hann krefst, 584.150 krónum.
Samkvæmt yfirmatsgerðinni hlaut áfrýjandi 40% varanlega örorku í slysinu. Krafa hans um bætur fyrir varanlegt örorkutjón nemur 26.316.751 krónu. Stefndi telur hins vegar að óbætt tjón áfrýjanda í þessum þætti málsins nemi 12.508.253 krónum. Ágreiningurinn um fjárhæð þessa liðar snýst um tvennt. Í fyrsta lagi telur áfrýjandi að skilyrði séu til að beita heimild 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til að meta árslaun hans sérstaklega við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Kröfu sína miðar hann við laun sem hann aflaði sér árið 2002 en ekki þrjú síðustu almanaksár fyrir slys svo sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Skýrir hann þetta svo að hann hafi árið 2001 ákveðið að vinna í landi og haft þá minni tekjur en fyrir sjómannsstörfin. Honum hafi ekki líkað það og því farið aftur til sjós, svo sem verið hefði fyrir árið 2001. Stefndi mótmælir þessu og telur að ekki séu skilyrði til annars en að beita þeirri viðmiðun sem aðalreglan í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga kveður á um. Áfrýjandi, sem er fæddur á árinu […], aflaði sér atvinnutekna öll þrjú síðustu árin fyrir slys. Verður ekki fallist á með honum að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við útreikning á bótum til hans fyrir varanlega örorku.
Í öðru lagi telur stefndi að frá kröfu áfrýjanda beri að draga bætur sem hann muni njóta vegna slyssins frá lífeyrissjóðum og vegna barna- og örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Vísar stefndi til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga um þennan frádrátt og lagði fram í héraði útreikning Talnakönnunar hf. 14. október 2008 þar sem eingreiðsluverðmæti þessara bóta er reiknað miðað við stöðugleikapunkt 1. október 2004. Stefndi telur fjárhæð örorkutjóns miðað við tekjuöflun áfrýjanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slys nema alls 23.236.158 krónum. Samkvæmt fyrrgreindum útreikningi Talnakönnunar hf. nemur eingreiðsluverðmæti lífeyris frá lífeyrissjóðum 36.875.000 krónum og bóta frá Tryggingastofnun ríkisins 9.228.000 krónum. Í bréfi frá Talnakönnun hf. 7. nóvember 2011, sem lagt var fram í héraði var að ósk stefnda endurtekinn fyrri útreikningur en að þessu sinni tekið „tillit til áhrifa fjármagnstekna á greiðslur frá Tryggingastofnun.“ Varð niðurstaðan sú að fyrri útreikningur stæði óhaggaður. Fyrir Hæstarétt voru lagðir fram enn nýir útreikningar frá sama aðila. Málsaðilar hafa ekki gert grein fyrir þýðingu þessara nýju útreikninga og verður því litið fram hjá þeim við úrlausn málsins.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt matsgerð F læknis sem fyrir liggi í málinu megi rekja örorkuna sem skapar áfrýjanda bótarétt frá nefndum aðilum að hálfu leyti til 18. maí 2003 sem um er fjallað í þessu máli. Stefndi reiknar með 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti lífeyrisins frá lífeyrissjóðum og 67% reiknaðrar fjárhæðar vegna örorkulífeyrisins en allri fjárhæðinni vegna barnalífeyrisins til 18 ára aldurs barns hans. Samtals nemi þessir frádráttarliðir 21.455.810 krónum. Með vísan til nefnds mats F dregur stefndi helming þessarar fjárhæðar, þ.e. 10.727.905 krónur frá kröfu áfrýjanda vegna varanlegrar örorku og fær þannig út fjárhæðina 12.508.253, sem greinir í varakröfu hans.
Fallist verður á sjónarmið stefnda sem hér hefur verið gerð grein fyrir um útreikning á fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda.
VI
Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður fallist á kröfu áfrýjanda með eftirgreindum hætti:
Lyfjakostnaður 600.000 krónur
Tímabundin örorka 2.524.651 króna
Þjáningabætur 584.150 krónur
Varanlegur miski 1.588.375 krónur
Varanleg örorka 12.508.253 krónur
Samtals 17.805.429 krónur
Ágreiningslaust er með aðilum að frá bótunum, sem byggjast á framangreindum forsendum, eigi aðeins að dragast greiðslur frá stefnda 300.000 krónur 21. apríl 2004, 500.000 krónur 21. júní 2004 og 200.000 krónur 29. júlí 2004, eða samtals 1.000.000 krónur.
Áfrýjandi gerir kröfu um að upphafstími dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 verði ákveðinn 15. október 2006. Telur hann að þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því hann hafi lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Svo sem fram er komið lagði áfrýjandi ekki fram nægilegar upplýsingar um frádráttarliði samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og aflaði stefndi gagna um þetta og lagði fram í héraði. Við þessar aðstæður og með vísan til niðurlagsákvæðis 9. gr. laga nr. 38/2001 verður upphafsdagur dráttarvaxta ákveðinn dómsuppsögudagur í héraði 5. desember 2011. Fram að þeim tíma dæmast með hliðsjón af 16. gr. skaðabótalaga og í samræmi við kröfur aðila 4,5% vextir frá tjónsdegi af öðrum kröfuliðum en varanlegri örorku, en frá 1. október 2004 að því er þann lið varðar.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður staðfest.
Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði í ríkissjóð og áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, hvort tveggja eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, A, 17.805.429 krónur með 4,5% vöxtum af 5.297.176 krónum frá 18. maí 2003 til 1. október 2004, en af 17.805.429 krónum frá þeim degi til 5. desember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastnefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 300.000 krónum miðað við 21. apríl, 500.000 krónum miðað við 21. júní og 200.000 krónum miðað við 29. júlí í öllum tilvikum árið 2004.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.
Stefndi greiði í ríkissjóð 850.000 krónur vegna málskostnaðar í héraði.
Stefndi greiði áfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2011.
Mál þetta var höfðað 14. mars 2008 af A, […] á hendur FISK-Seafood hf., […] og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. Við munnlegan flutning málsins 16. nóvember 2009 féll stefnandi frá kröfum á hendur FISK-Seafood hf. í máli þessu. Með dómi Hæstaréttar […] 2010 í máli nr. […] var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þessu ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Málið var dómtekið 8. nóvember 2011.
Kröfur
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum 38.630.902 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 4.697.176 krónum frá 18. maí 2003 til 1. október 2004, en af 31.013.927 krónum frá þeim degi til 15. október 2006, en með dráttarvöxtum af 38.630.902 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., til stefnanda, að fjárhæð 573 krónur hinn 28. nóvember 2003, 300.000 krónur hinn 21. apríl 2004, 500.000 krónur hinn 21. júní 2004, 200.000 krónur hinn 29. júlí 2004 og 158.862 krónur hinn 20. október 2004. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega, þannig að stefndi verði einungis dæmdur til greiðslu 12.508.253 króna án dráttarvaxta, og málskostnaður verði látinn niður falla.
Málsatvik
Í stefnu greinir frá atvikum málsins á þann veg að 18. maí 2003 hafi stefnandi orðið fyrir slysi við störf sín um borð í skuttogaranum B, er togarinn var við veiðar á flotvörpu. Slysið hafi átt sér stað með þeim hætti að stefnandi hafi fengið veiðarfærin framan á brjóstkassann þannig að hann hafi fallið aftur fyrir sig á þilfar. Hann hafi strax fundið fyrir óþægindum í baki en þó staðið á fætur og reynt að halda áfram vinnu sinni. Eftir um hálfa klukkustund hafi hann hins vegar fengið aukna verki í bakið með leiðni niður í vinstri fót. Hann hafi þá hætt að vinna og lagst fyrir. Yfirmaður á togaranum hafi haft samband við lækni og hafi stefnanda að ráði hans verið gefið verkjastillandi lyf. Nokkrum klukkustundum síðar hafi hann fundið fyrir leiðsluverkjum niður í báða ganglimi. Hann hafi verið rúmliggjandi það sem eftir var veiðitúrsins, nánar tiltekið í fjóra daga.
C, faðir stefnanda, var skipstjóri á B í umræddri veiðiferð. Í skipsdagsbók er skráð við daginn 18. maí 2003: „Kl. 09.10 þegar verið var að láta trollið fara vildi það óhapp til að belgurinn slóst í [A] með þeim afleiðingum að hann skall í þilfarið og fann til í baki á eftir. Haft samband við lækni og látinn vita. [A] voru gefin verkjalyf og látinn hafa hægt um sig. Veður SA 12 m/sek. Hægur.“ Í málinu liggur fyrir yfirlýsing C, dags. 3. mars 2009. Þar segir að hann hafi ekki verið vitni að slysinu. Þegar hann hafi heyrt af slysinu og í ljós hafi komið að meiðsli hafi orðið hafi honum borið sem skipstjóra að skrá um það í skipsdagbók. Skráning hans um slysið í skipsdagbók sé byggð á frásögn D, 1. stýrimanns, en hann hafi verið í brúnni þegar slysið varð og vitni að því. Skráning hans um slysið hafi verið um leið og hann hafi heyrt af slysinu og því hefðu fylgt meiðsli. Í ljós hafi komið að hann hafi misritað tildrög slyssins að því leyti að hann hafi skráð að það hafi orðið þegar verið var að setja trollið út en hið rétta sé að verið var að taka það inn. Varðandi vinnubrögðin um borð breyti engu hvort verið sé að setja troll út eða taka það inn, vinnubrögðin séu því sem næst hin sömu. Jafnframt staðfesti C að hann hefði hringt í lækni á Borgarspítalanum vegna meiðslanna sem A hefði orðið fyrir í þessu slysi. Fyrir dómi bar C að hann hefði heyrt að morgni 18. maí að eitthvað væri að stefnanda. Hann kvaðst hafa skráð um atvikið þann sama dag í dagbókina.
Strax eftir að togarinn kom til hafnar í Reykjavík að kvöldi 21. maí leitaði stefnandi á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss vegna mikilla verkja. Í læknisvottorði G, dags. 16. ágúst 2005, segir að stefnandi hafi leitað á slysadeild Landspítalans kl. 00.23 22. maí 2003 vegna vinnuslyss sem hann hafi orðið fyrir 18. s.m. en hún hafi verið ábyrgur sérfræðingur á vakt. Í vottorðinu er haft eftir stefnanda að hann hafi verið um borð í skipi úti á sjó er hann hafi fengið veiðarfæri í sig og fallið aftur fyrir sig án þess að geta borið fyrir sig hendur og lent þannig á bakinu. Hann hafi þurft aðstoð til að komast upp í koju og legið þar í fjóra daga alveg óvinnufær. Hann hafi sagst hafa afar slæma mjóbaksverki með leiðni niður í þjóhnappa og læri, þó meira hægra megin. Skrifað hafi verið upp á verkjalyf og málum fylgt eftir með sneiðmyndatöku. Læknirinn kveðst ekki hafa séð stefnanda aftur en henni væri kunnugt um að hann hefði ekki lagast þrátt fyrir sjúkraþjálfun og því verið tekinn til aðgerðar 14. nóvember 2003 þar sem brjósklos hafi verið fjarlægt og hafi H taugaskurðlæknir gert aðgerðina.
Í vottorði H, dags. 28. nóvember 2003, segir að stefnandi hafi komið til hans vegna verkja í baki sem leitt hafi niður í vinstri fót. Hann hafi sagst hafa orðið fyrir slysi um borð í togara þann 18. maí 2003, dottið á bakið og fengið væng af trolli á sig. Hann hafi haldið áfram að vinna en tólf tímum seinna hafi hann verið orðinn mjög slæmur og verið óvinnufær síðan vegna verkja niður í vinstri fót. Tölvusneiðmynd hafi sýnt stórt brjósklos L:IV-L:V vinstra megin. Stefnandi hafi verið í sjúkraþjálfun án nokkurs bata og því hafi verið ákveðið að gera á honum aðgerð. Hinn 14. nóvember 2003 hafi verið gerður bakskurður á stefnanda. Við aðgerðina hafi fundist stórt brjósklos sem hafi verið fjarlægt en hluti af brjóskinu hafi sprungið út úr liðbilinu og legið laust í hryggganginum.
Í málinu liggur fyrir tilkynning til útgerðar B og Tryggingastofnunar ríkisins um slys á sjómanni, undirrituð 30. maí 2003 af C skipstjóra. Þar er tildrögum slyssins og aðstæðum lýst þannig: „Verið var að láta trollið fara þegar belgur á trollinu slóst í [A] bátsmann þannig að hann datt á þilfarið. Fann til í baki á eftir. S.A. 12 m/sek.“ Í viðauka, undirrituðum af stefnanda og launafulltrúa útgerðar, er m.a. bætt við þeim upplýsingum að stefnandi hafi unnið hjá atvinnurekandanum með hléum frá 3. janúar 1991 og hafi ekki strax hætt vinnu eftir slysið heldur daginn eftir (19.05.03).
Hinn 16. janúar 2004 lenti stefnandi í umferðarslysi á Reykjanesbraut sem farþegi í bifreið sem lenti í árekstri fjögurra bifreiða. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið af vettvangi á slysadeild þar sem hann dvaldist í eina klukkustund en var þá útskrifaður. Í þessu slysi tóku sig upp áverkar frá fyrra slysi auk þess sem ný einkenni komu fram. Hinn 3. febrúar 2004 lenti stefnandi aftur í umferðaróhappi sem ökumaður fólksbifreiðar, þegar ekið var aftan á hana. Við höggið kastaðist bifreið hans fram á við og aftan á kyrrstæða bifreið. Stefnandi leitaði hvorki til slysadeildar né til lækna vegna þessa slyss.
Stefnandi var til meðferðar hjá eftirtöldum læknum auk þeirra sem að framan greinir. Hann leitaði til I á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi vegna þrálátra og viðvarandi einkenna frá baki. Þá var hann til meðferðar hjá J, sérfræðingi í gigtarsjúkdómum, og hjá heimilislækni sínum, K. Vegna þunglyndis og kvíða vísaði K stefnanda til L geðlæknis. Að auki fór stefnandi m.a. til M verkjasérfræðings.
Í vottorði I, dags. 28. febrúar 2005, segir m.a. að stefnandi hafi verið í bakprógrammi á bak- og hálsdeild St. Franciskusspítala í þrjár vikur haustið 2004 en í útskriftarviðtali hafi hann talið sig engu betri af verkjum og jafnvel hafa versnað. Að lokum segir: „Erfitt er að gefa upp í hlutföllum hver þáttur hinna einstöku slysa er í verkjaástandi [A] en ljóst má vera að slysið um borð í [B] var sýnu verst og að hann hafði ekki náð teljandi bata af sínum mjóbaksverkjum, þótt verkir niður í ganglimi hafi læknast við skurðaðgerð í nóvember 2003, þegar hann lenti í slysunum í janúar og febrúar.“
Í læknisvottorði L, dags. 27. desember 2004, segir að stefnandi hafi fyrst komið til hans í viðtal og skoðun 10. nóvember 2004. Áliti læknisins er þannig lýst: „[A] er í dag haldinn djúpu þunglyndi í kjölfar vinnuslyss sem hann varð fyrir þann 18. maí 2003. Ljóst er að þunglyndiseinkennin hafa farið vaxandi frá því hann slasaðist. Hann hefur haft stöðug verkjavandamál frá baki. Þessir verkir hafa síðan ágerst og versnað eftir að hann varð fyrir bifreiðarslysi í tvígang, fyrst þann 16. jan. 2004 og síðan þann 3. febr. 2004. Þrátt fyrir endurhæfingu og meðferð á Stykkishólmsspítala hefur verkjavandamálið ekki lagast. Verið alls ófær til vinnu og allt hefur hrunið í kringum hann. Hann varð að selja íbúð sína og [...]. Þetta hefur haft mikil áhrif á [A] og er [...] í dag. . .“
Að ósk stefnanda voru hinn 20. maí 2005 dómkvaddir tveir matsmenn, N lögfræðingur og O læknir, til að meta, með tilliti til þeirra bótaþátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 50/1993, afleiðingar þeirra þriggja slysa sem hann hafi orðið fyrir dagana 18. maí 2003, 16. janúar 2004 og 2. febrúar s.á. Matsgerð þeirra er dagsett 12. október 2005. Þar var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að stöðugleikapunktur vegna allra slysanna væri 23. júní 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 18. maí 2003 væri 25%, varanlegur miski 15%, tímabil tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi til 23. júní 2004 og ætti stefnandi rétt á þjáningarbótum frá slysdegi til 15. janúar 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 16. janúar 2004 væri 10%, varanlegur miski 7%, tímabil tímabundins atvinnutjóns frá slysdegi til 23. júní 2004 og ætti stefnandi rétt á þjáningarbótum frá slysdegi til 24. apríl 2004. Varanleg örorka vegna slyssins 3. febrúar 2004 var metin 0% og varanlegur miski 3%.
Stefnandi vildi ekki una niðurstöðu matsmanna og að ósk hans voru 9. desember 2005 dómkvaddir eftirtaldir matsmenn til að meta í yfirmati afleiðingar framangreindra slysa: P bæklunarskurðlæknir, Q, geð- og embættislæknir, og R prófessor. Yfirmatsgerð er dagsett 10. ágúst 2006. Um varanlegan miska segir m.a.: „Þá telja matsmenn einnig að verulegur kvíði og þunglyndi hafi fylgt í kjölfar fyrstu tveggja slysanna. Matsmenn telja að þessi [...] sé á háu stigi og komi til með að há [A] verulega í framtíðinni. Meta þeir þennan þátt til 20% varanlegs miska og skipta honum jafnt milli slysanna 18. maí 2003 og 16. janúar 2004.“ Um slysið 2. febrúar 2004 segir: „ . . . Höggið virðist hafa verið lítið, hann fann ekki til eymsla eftir áreksturinn samkvæmt lögregluskýrslu og hann leitaði ekki strax til læknis. Matsmenn telja því að síðasta slysið hafi valdið lítilli viðbót einkenna enda liggur bein staðfesting fyrir auknum eða nýjum einkennum ekki fyrir í gögnunum. Afleiðingar slyss þessa koma hér því ekki frekar við sögu.“
Meginniðurstöður matsins eru sem hér segir:
„Varanlegur miski [A], sem rakinn verður til vinnuslyssins 18. maí 2003, telst hæfilega metinn 25 stig. Varanlegur miski hans, sem rakinn verður til slyssins 16. janúar 2004 er hæfilega metinn 15 stig, þ.e. samtals 40 stig. Varanleg örorka, sem rakin verður til slyssins 18. maí 2003, telst 40 stig og 25 stig vegna slyssins 16. janúar 2004, þ.e. samtals 65 stig. Batahvörf (stöðugleikapunktur) vegna slysanna 18. maí 2003 og 16. janúar 2004 eru 1. október 2004. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 18. maí 2003 er ákveðið 100% frá slysdegi til 1. október 2004. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 16. janúar 2004 telst 100% frá slysdegi til 1. október 2004. Þjáningarbætur vegna slyssins 18. maí 2003 ákveðast frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 19 daga. Þjáningarbætur vegna slyssins 16. janúar 2004 ákveðast frá slysdegi til 1. október 2004, þar af rúmliggjandi í 17 daga.“
Í málinu liggur fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. […]. Í máli þessu krafðist stefnandi þess að íslenska ríkinu yrði gert að greiða honum miskabætur þar sem hann hefði saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar 2004 til hádegis 27. sama mánaðar vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna en rannsókn leiddi ekki til útgáfu ákæru á hendur stefnanda. Í málinu kom fram að stefnandi hefði viðurkennt neyslu fíkniefna og að umbúðir utan af fíkniefnum hefðu fundist á heimili hans. Íslenska ríkið var sýknað af bótakröfu stefnanda. Með bréfum, dags. 6. maí 2008, til yfirmatsmanna, vakti stefndi athygli þeirra á framangreindum upplýsingum um hagi stefnanda og leitaði álits þeirra á því hvort upplýsingarnar kynnu að valda því að forsendur matsins stæðust ekki. Í svarbréfi yfirmatsmanna, dags. 22. maí 2008, segir: „ . . . Þeir telja að miðað við þessi gögn séu forsendur yfirmatsgerðarinnar óbreyttar. Hins vegar útiloka yfirmatsmenn ekki að við endurupptöku matsmálsins kunni að finnast læknisfræðileg gögn eða önnur gögn um verulega og langvarandi fíkniefnaneyslu [A] [sic] sem gæti breytt forsendum okkar og niðurstöðu í fyrrgreindri yfirmatsgerð.“
Yfirmatsmennirnir staðfestu matsgerð sína fyrir dómi.
Að beiðni stefnda var F læknir dómkvaddur 25. júní 2008 til að gefa álit á því hvort og þá að hve miklu leyti ætlað vinnuslys 18. maí 2003 um borð í B hefði haft áhrif á að hann var metinn til örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins, Lífeyrissjóði sjómanna, Lífeyrissjóði VR og Lífeyrissjóði Norðurlands. Í niðurstöðu matsins, 10. september 2008, segir að sú færniskerðing stefnanda sem liggi til grundvallar örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi örorkumatsstaðli og mati á orkutapi hans gagnvart framangreindum lífeyrissjóðum verði að hálfu leyti rakin til sjóvinnuslyssins 18. maí 2003.
Stefndi aflaði útreiknings Talnakönnunar hf. á eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna til stefnanda frá Tryggingastofnun ríkisins og framangreindum lífeyrissjóðum miðað við stöðugleikapunkt 1. október 2004 vegna slysa 18. maí 2003, 16. janúar 2004 og 3. febrúar 2004. Niðurstöður Talnakönnunar hf. frá 14. október 2008 kveða á um 36.875.000 krónur varðandi lífeyrissjóðina og 9.228.000 krónur að því er tekur til Tryggingastofnunar ríkisins. Þá liggur fyrir í málinu að frumkvæði stefnanda útreikningur Talnakönnunar hf. frá 7. nóvember 2011 á eingreiðslu-verðmæti framangreindra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins að teknu tilliti til áhrifa fjármagnstekna.
Að frumkvæði stefnanda liggur fyrir í málinu útreikningur E tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti framtíðar lyfja-kostnaðar stefnanda. Samkvæmt honum er eingreiðsluverðmæti lyfjakostnaðar til æviloka 2.491.489 krónur.
Samkvæmt sundurliðun frá stefnda, dags. 13. september 2006, innti félagið af hendi greiðslur til stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns, samtals að fjárhæð 1.286.860 krónur. Þá innti stefndi af hendi greiðslur vegna læknisvottorða og innborganir á höfuðstól, samtals að fjárhæð 1.000.000 króna. Síðustu greiðslur voru 12. ágúst 2004, læknisvottorð 12.865 krónur, 20. október 2004, ýmiss kostnaður ótilgreindur 158.862 krónur, og 25. ágúst 2005 læknisvottorð 25.700 krónur.
Lögmaður stefnda sendi lögreglunni á Sauðarkróki bréf, dags. 9. júlí 2004. Þar segir að félaginu hafi borist fregnir af að lýsing stefnanda á atvikinu 18. maí 2003 kunni að vera ónákvæm og var þess óskað að teknar yrðu vitnaskýrslur af þeim sem verið hafi á vakt með stefnanda í umræddri veiðiferð eða öðrum hugsanlegum vitnum. Markmiðið væri að reyna að fá upplýst hvað gerst hefði í raun og veru, hvort stefnandi hefði slasast eins og lýst sé í skipsbók og hvort einhver vitni hafi verið að atburðinum. Skýrslutökur af skipverjum í umræddri veiðiferð fóru fram dagana 22. júlí til 3. ágúst 2004 og verður hér greint frá meginefni skýrslnanna.
S netamaður kvaðst ekki kannast neitt við málið og hafa heyrt um meiðsli stefnanda mörgum mánuðum síðar. Ef hann myndi rétt hafi skipið verið á flottrollsveiðum á Reykjaneshrygg og þeir stefnandi verið saman stjórnborðsmegin og séð um höfuðlínustykki og kapal, ásamt T að hann minnti.
U netamaður kvaðst ekkert kannast við málið. „[A] var í koju þegar ég mætti á vakt mína. Hann var þá sagður veikur og ég spurði einskis.“
V háseti: „Ég sá [A] ekki verða fyrir neinum áföllum um borð í þessari veiðiferð. Ég hafði engin samskipti við hann. [A] var sagður veikur og haft var samband við lækni. [W] kom víst að honum. Það sá þetta víst enginn. Ég heyrði að [A] hefði dottið.“
X 2. stýrimaður: „Ég man ekki eftir neinu vinnuslysi um borð. Við vorum allir á dekki og slys hefði varla farið fram hjá manni. Eitt sinn fékk [A] í bakið og var hann að drepast um borð. Ég þori ekki að tímasetja hvenær það var og hann hætti á skipinu upp úr því en fór í eina siglingu eftir það.“
T 2. vélstjóri: „Ég kannast við að hafa verið skipverji á [B] í umrætt sinn. Ég kannast ekki við umrætt atvik og minnist þess ekki að hafa orðið vitni að því að þetta hafi gerst.“
Y háseti: „Ég kannast ekkert við þetta mál. Ekkert nema það að [A] fékk í bakið þegar við vorum í úthafinu. Eitt skiptið þegar átti að ræsa hann þá komst hann ekki úr koju og var rúmfastur eftir það.“ Hann kannaðist ekki við að „belgur á trollinu“ hafi slegist í stefnanda með þeim afleiðingum að hann hafi fallið við og slasast á baki. „Í úthafinu er aðeins ein vakt. . . . Þetta kemur mér mjög á óvart. Ég heyrði að [A] hafi farið í aðgerð út af brjósklosi. Meira veit ég ekki.“
Z háseti: „Ég sá þetta ekki. Hann fékk víst í bakið og var rúmfastur. Heyrði síðar að [A] hefði meitt sig.“
Þ háseti var spurður hvort hann kannaðist við málið og svaraði: „Nei, ég varð aldrei var við neitt svoleiðis og hef ekkert heyrt um það.“
Æ háseti: „Ég man að [A] fékk í bakið í veiðiferðinni. Hann var óvinnufær, lá í koju og gat ekki labbað. Ég kannast ekki við að hafa orðið vitni að neinu slysi um borð og hef ekkert um það heyrt. Ég hef þá ekki verið á vaktinni.“
W matsveinn: „Kl. 05.30 morguninn sem [A] fékk í bakið kom klefafélagi hans, [Æ], til mín þar sem ég var að taka til morgunverðinn og sagði hann mér að [A] væri lamaður og gæti ekki hreyft sig. Ég fór inn í klefann til þeirra félaga og spurði [A] hvort hann gæti hreyft tærnar sem hann og gat og gerði. Síðan fór ég upp í brú og ræddi málið við vakthafandi stýrimann, [D]. [D] fór síðan niður í klefann til [A]. Ég beið í brúnni meðan [D] sinnti [A] en er [D] kom aftur upp þá hélt ég til minna fyrri starfa að taka til morgunverðinn. Ég tel að [D] hafi gefið [A] verkjatöflur án þess þó ég spurði eftir því. [A] var í koju næstu tvo daga og ég færði honum mat að borða. Síðan kom hann fram til snæðings. Þegar við fórum frá borði í Reykjavíkurhöfn þá gekk [A] óstuddur frá borði. Í gegnum tíðina hefur það verið svo að ef einhver meiðir sig um borð þá leitar viðkomandi fyrst til mín og ég „plástra“ og met hvort frekari meðferðar er þörf. Ég kannast ekki við að slys hafi orðið um borð í þessari veiðiferð. Það ræddi enginn í mín eyru.“
D, 1. stýrimaður: „Verið var á úthafskarfaveiðum og þá eru ekki neinar vaktir sem slíkar. Ég var í brúnni og verið var að vinna við trollið á dekkinu. Belgurinn á trollinu slóst eitthvað til og við það hrasaði [A]. Hann stóð upp en kvartaði eitthvað í bakinu á eftir og síðar hreinlega „læstist“ hann. Hann var kominn fram úr kojunni en síðan varð að setja hann hreinlega í þeim stellingum aftur upp í kojuna. Ég man ekki hvort það var daginn eftir. [A] var óvinnufær það sem eftir var af veiðiferðinni og hefur ekki komið aftur. Ég var sóttur upp í brú umrætt sinn og hjálpaði [Æ], klefafélagi [A], mér að setja hann upp í kojuna. Ég gaf [A] verkjastillandi og skipstjórinn, [C] faðir [A], hafði síðan samband við lækni. Aðspurður kveðst [D] ekki minnast þess að belgurinn á trollinu hafi slegist í fleiri en [A]. Ekki svo ég tæki eftir. Það er ætíð einhver sláttur á trollinu.“
Framangreindir skipverjar, aðrir en Þ, Z og U báru vætti við aðalmeðferð málsins og staðfestu framangreindar skýrslur sínar.
Í bréfi stefnda, dags. 26. nóvember 2004, til lögmanns stefnanda, er þess getið að félagið hafi greitt 1.286.860 krónur vegna áætlaðs tímabundins tekjutjóns stefnanda sem feli í sér ofgreiðslu. Einnig hafi það, án skyldu, greitt stefnanda að ósk hans 1.000.000 króna upp í ætlað tjón hans. Þá segir að í ljósi framburða skipverja fyrir lögreglu þurfi að fá frekari upplýsingar frá stefnanda og öðrum um hvernig slysið hafi atvikast.
Fyrir liggur skýrsla sem lögreglan í Reykjavík tók 2. maí 2005 af stefnanda samkvæmt beiðni stefnda 14. apríl 2005. Stefnandi bar að hann hefði slasast er verið var að taka trollið og að honum meðtöldum muni hafa verið átta til tíu menn á dekkinu. Hann var beðinn að skýra sem nákvæmast frá óhappinu og sagði: „Ég gekk fram með bb. síðunni á skipinu. Ég fór fram með síðunni til þess að ganga undir vængina á trollinu sem voru að rúllast inn á tromluna sem trollið gekk inn á, gerði þetta til þess að þurfa ekki að beygja mig eins mikið er ég fór undir vængina til þess að taka fótreipið klárt, en ég var bátsmaður er slysið átti sér stað, ég var bátsmaður í þessari ferð skipsins og það var verk bátsmannsins þegar trollið var tekið inn sem ég var að vinna. Ég var í raun undir vængjunum þegar slysið átti sér stað. Ég fékk vænginn snöggt í brjóstið, féll aftur á bak, byrjaði að taka fótreipið klárt en fann þá að ég gat ekki lyft upp fyrir mig, fann mikla verki í baki sem leiddu niður í báðar fætur en ég kvartaði ekki undan þessu. Ég veit ekki hvort einhverjir sáu er ég datt.“
Í bréfi stefnda, dags. 15. júní 2005, til lögmanns stefnanda segir að eftir heildstæða skoðun á gögnum málsins sé niðurstaða félagsins sú að sönnun skorti fyrir því að ætlað slys hafi í raun og veru orðið. Fyrir liggi að tíu af ellefu samstarfsmönnum stefnanda hafi ekki tekið eftir að hann félli og slasaðist í veiðiferðinni, þótt sumir þeirra hafi unnið mjög náið með honum í umrætt sinn. Aðeins D segist hafa séð slysið úr brúnni en það sé mjög ólíklegt miðað við stöðu hans, hvar ætlað slys eigi að hafa orðið og staðsetningu tromlunnar. Enginn annar samstarfsmanna stefnanda hafi séð eða heyrt neitt um slys stefnanda og virðist hann í upphafi ekki hafa kennt slysi um bakóþægindi sín. Ýmislegt annað, s.s. mótsagnir í gögnum málsins, renni frekari stoðum undir þá niðurstöðu félagsins að hafna frekari greiðslum í málinu og áskilji það sér rétt til þess að endurkrefja stefnanda um þær greiðslur sem þegar hafi verið inntar af hendi.
Stefnandi setti fram bótakröfu á hendur stefnda með bréfi dags.15. september 2006. Var krafan sögð reist á framangreindri yfirmatsgerð, skaðabótalögum nr. 50/1993, kjarasamningi og venju. Stefndi hafnaði kröfunni með bréfi dags. 14. nóvember 2006.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í togaranum B þann 18. maí 2003. Ábyrgð stefnda sé reist á því að stefnandi hafi, þegar slysið varð, verið tryggður slysatryggingu hjá stefnda, sem FISK-Seafood hf. hafi keypt til hagsbóta fyrir hann, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Gögn málsins beri skýrlega með sér að umrætt slys hafi orðið. Þannig greini skipsdagbók frá slysinu sem og tilkynning til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituð af launafulltrúa FISK-Seafood og skipstjóra. Læknisfræðileg gögn og álit dómkvaddra matsmanna, bæði í undirmatsgerð og yfirmatsgerð, taki svo af öll tvímæli um það að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í greint sinn. Þá hafi frásögn stefnanda verið skýr frá upphafi. Einnig sé byggt á því, hvað sem öðru líði, að greiðslur stefnda inn á tjón stefnanda á tímabilinu 19. ágúst 2003 til 25. ágúst 2005, alls 2.525.955 krónur, feli í sér bindandi viðurkenningu félagsins á bótaskyldu. Þá hafi útgerð skipsins viðurkennt, með ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum svo bindandi sé, að slysið hafi átt sér stað.
Skaðabótakrafa stefnanda sé reiknuð út á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 og umfang tjónsins sé reist á matsgerð yfirmatsmanna frá 10. ágúst 2006. Krafan sé þannig sundurliðuð: Sjúkrakostnaður/annað fjártjón 7.616.975 krónur. Tímabundið atvinnutjón 2.524.651 króna. Þjáningarbætur 584.150 krónur. Varanlegur miski 1.588.375 krónur. Varanleg örorka 26.316.751 krónur. Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku sé í endanlegri kröfugerð stefnanda miðað við 6% lífeyrisframlag í stað 7% áður en við það lækki fjárhæð þessa bótaþáttar um 251.175 krónur miðað við upphaflega kröfugerð stefnanda.
Um lagarök vísi stefnandi til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á ákvæði 1.-4. mgr. gr. 1.22 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998 með úrskurði gerðardóms 30. júní 2001 sem skipaður hafi verið af Hæstarétti Íslands 1. júní sama ár, sbr. lög nr.. 34/ 2001 um kjaramál fiskimanna og fleira. Þá sé vísað til slysatryggingar þeirrar sem Fisk-Seafood hf. hafi tekið hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., til hagsbóta fyrir stefnanda, sbr. framangreind kjarasamningsákvæði eins og þeim hafi verið breytt með úrskurði gerðardóms 30. júní 2001. Um fjárhæðir skaðabóta sé vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 og um vexti til þeirra laga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnda styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en aðilar hafi sammælst um að reka mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að ekki sé nægilega sannað að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingarinnar og vátryggingaréttar, þ.e. að hann hafi orðið fyrir skyndilegum, utanaðkomandi atburði sem hafi valdið meiðslum á líkama hans. Þessu til stuðnings sé bent á eftirfarandi: Skipverjar, sem verið hafi með stefnanda á dekki og jafnvel staðið við hliðina á honum allan tímann, hafi ekki séð hann fá neitt í sig eða falla á bakið og stefnandi hafi ekki nefnt það við neinn um borð að hafa orðið fyrir belg eða trolli, þegar hann hafi fengið í bakið. Miðað við þá frásögn stefnanda að hann hafi verið að fara undir vængina, þegar slysið varð, sé ómögulegt að D 1. stýrimaður hafi séð ætlað atvik miðað við staðsetningu hans í skipinu. Færsla skipstjórans, föður stefnanda, í skipsdagbók hafi lítið sem ekkert sönnunargildi enda sé ljóst að hún sé byggð á frásögn einhvers annars. Hinu sama gegni um tilkynningu um slysið til útgerðar og Tryggingastofnunar ríkisins enda stafi innihald hennar frá stefnanda og/eða föður hans. Læknisvottorð og matsgerðir séu því marki brennd að þau byggi á einhliða frásögn og lýsing stefnanda á því hvernig ætlaður atburður hafi orðið. Frásögn stefnanda um atburðinn sé ótrúverðug, á reiki og ekki í samræmi við gögn málsins. Þá verði að benda á að trollið sé dregið löturhægt upp úr sjónum og því geti ekki verið að vængurinn hafi „slegist“ í stefnanda. Því sé hafnað að greiðsla stefnda í upphafi hafi falið í sér bindandi skuldbindingu. Félagið hafi trúað frásögn stefnanda í upphafi en þegar í ljós hafi komið að meiðsl hans hafi ekki orðið með þeim hætti sem hann hafi lýst sé ljóst að stefndi hafi ekki lengur verið bundinn af ákvörðun sinni um bótaskyldu. Því sé enn fremur hafnað að stefndi hafi með „. . .ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum. . .“ viðurkennt með bindandi hætti að slysið hafi átt sér stað og óljóst sé hvað átt sé við.
Á því sé einnig byggt af hálfu stefnda að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Málatilbúnaður stefnanda sé reistur á yfirmatsgerð en niðurstöður hennar séu rangar þar sem allar upplýsingar hafi ekki verið lagðar á borðið af hálfu stefnanda, þegar matið hafi farið fram. Í því efni sé með vísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. […] bent á að stefnandi hafi viðurkennt neyslu fíkniefna og hafi brotasögu tengda fíkniefnum svo og að hann hafi hlotið mikinn mannorðsmissi vegna gæsluvarðhaldsins, sem haft hafi í för með sér andlegar þjáningar og nánast sé útilokað að leiðrétta, en í yfirmatsgerðinni sé mikið gert úr andlegum veikindum stefnanda vegna hins ætlaða slysaatburðar. Yfirmatsgerðin sé röng hvað andlega líðan stefnanda varði, eftir hið ætlaða atvik, enda hafi stefnandi fyrst farið til geðlæknis 10. nóvember 2004, þ.e. eftir að hann hafi auk ætlaðs atviks lent í tveimur umferðarslysum og sætt gæsluvarðhaldi í tæpa sjö sólarhringa. Samkvæmt þessu verði að sýkna stefnda á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir nægileg og fullnægjandi sönnun á líkamstjóni stefnanda.
Varakrafa stefnda sé þannig sundurliðuð: Útlagður kostnaður 1.459.240 krónur. Tímabundið atvinnutjón 369.947 krónur. Þjáningarbætur 441.760 krónur. Varanlegur miski 1.588.375 krónur. Varanleg örorka 12.508.253 krónur en til frádráttar komi greiðslur að fjárhæð 1.000.000 króna.
Niðurstaða
Eins og áður hefur verið rakið byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda á því að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í togaranum B þann 18. maí 2003. Ábyrgð stefnda sé á því reist að stefnandi hafi, þegar slysið varð, verið tryggður slysatryggingu hjá stefnda, sem FISK-Seafood hf. hafi keypt til hagsbóta fyrir hann, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Í málinu liggur fyrir afrit af tryggingarskírteini Fisk-Seafood hf. vegna slysatryggingar sjómanna fyrir tímabilið 1. janúar 2003 til 31. desember 2003 ásamt vátryggingarskilmálum nr. SS20. Óumdeilt er framangreind trygging var í gildi þann 18. maí 2003 og að stefnandi var tryggður samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Í 1. gr. tilvitnaðra vátryggingarskilmála segir um gildissvið tryggingarinnar:
„Félagið greiðir bætur vegna slyss, er sá sem tryggður er, verður fyrir, eins og segir í skírteini þessu. Með orðinu „slys“ er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans. Bætur greiðast því aðeins, að slysið sé bein og eina orsök þess, að sá, sem tryggður er, deyr eða missir starfsorku sína að nokkru eða öllu leyti.“
Eins og áður hefur verið rakið skýrði stefnandi í skýrslu hjá Lögreglunni í Reykjavík 2. maí 2005 þannig frá meintu slysi. „Ég gekk fram með bb. síðunni á skipinu. Ég fór fram með síðunni til þess að ganga undir vængina á trollinu sem voru að rúllast inn á tromluna sem trollið gekk inn á, gerði þetta til þess að þurfa ekki að beygja mig eins mikið er ég fór undir vængina til þess að taka fótreipið klárt, en ég var bátsmaður er slysið átti sér stað, ég var bátsmaður í þessari ferð skipsins og það var verk bátsmannsins þegar trollið var tekið inn sem ég var að vinna. Ég var í raun undir vængjunum þegar slysið átti sér stað. Ég fékk vænginn snöggt í brjóstið, féll aftur á bak, byrjaði að taka fótreipið klárt en fann þá að ég gat ekki lyft upp fyrir mig, fann mikla verki í baki sem leiddu niður í báðar fætur en ég kvartaði ekki undan þessu. Ég veit ekki hvort einhverjir sáu er ég datt.“ Í skýrslu stefnanda fyrir dómi lýsti hann atvikum efnislega eins.
Af þeim tíu skipverjum sem gáfu skýrslu hjá Lögreglunni á Sauðarkróki 22. júlí til 3. ágúst 2004, og áður hefur verið gerð grein fyrir, gáfu sex skýrslu fyrir dómi, þeir W, S, V, T, D og X. Staðfestu þeir allir fyrrgreindar skýrslur sínar fyrir lögreglu. Enginn framangreindra skipverja, að D undanskildum, kvaðst fyrir dómi hafði orðið vitni að því að stefnandi hefði fallið á þilfarinu og enginn þeirra, að V undanskyldum, hafði heyrt af því í veiðiferðinni að stefnandi hefði orðið fyrir slysi um borð. V sagðist hafa heyrt að stefnandi væri í koju þar sem hann hefði kastast til og lent illa. Orðið hefði slys og verið væri að ná til læknis. D sem var 1. stýrimaður á B í umræddri veiðiferð var í brú skipsins þegar meint slys varð en skipstjóri mun hafa verið í koju. Hann kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa haft góða yfirsýn yfir dekkið. Hann hefði séð stefnanda hrasa á dekkinu og detta á rassinn. Hann hefði staðið upp aftur og haldið áfram við vinnu sína. Hann kvaðst ekki geta sagt til um af hverju stefnandi hefði dottið og ekki séð veiðarfæri slást í hann. Í skýrslu hans kom ennfremur fram að 2. stýrimaður hefði einnig verið í brúnni, þar sem skipstjóri hefði verið í koju, og hefði 2. stýrimaður verið að hífa en hann sjálfur verið við stjórntæki skipsins.
Dómurinn telur að færsla skipstjórans, föður stefnanda, í skipsdagbók um meint slys stefnanda, hafi ekkert sönnunargildi. Ekki var um samtímafærslu að ræða ritaða af D, 1. stýrimanni, sem í raun fór með vald skipstjóra þegar meint atvik er talið hafa átt sér stað, heldur færslu ritaða af skipstjóranum eftir á en hann var að eigin sögn í koju þegar meint slys varð. Verulegt misræmi er milli þess sem annars vegar er haldið fram í málinu af stefnanda um atvik að meintu slysi og hins vegar því sem skipstjórinn skráir í skipsdagbók og í skýrslu til útgerðar og tryggingafélags og telja verður að hann hafi haft eftir stefnanda. Ekki er sama hvort verið er að hífa inn troll eða láta það fara, m.a. með hliðsjón af tímamismun eða hvort um er að ræða belg flottrolls eða vængi.
Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi á því að hann hafi slasast þegar veiðarfæri hafi slegist í hann um borð í B 18. maí 2003 og hann fallið aftur fyrir sig og meiðst í baki. Veðri þennan dag er lýst þannig í dagbók skipsins: „SA 12m/sek, hægviðri.“ Veiðarfærið sem hér um ræðir var flotvarpa. Þegar veiðarfæri af þessari tegund er tekið inn er það vafið upp á svokallaða flotvörputromlu, sem staðsett er rétt aftan við brú skipsins, nánar tiltekið á svonefndu bátaþilfari, sem er næsta þilfar ofan við aðalþilfar, sem veiðarfærið er tekið inn á. Þegar flotvarpan er tekin inn standa þeir sem við það vinna á aðalþilfarinu, sitt hvoru megin við veiðarfærið, og sjá til þess að línur, sérstaklega í vængjum þess, flækist ekki, þegar það er híft inn á tromluna. Stefnandi kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa verið að störfum framarlega á aðalþilfarinu við að taka svokallað höfuðlínustykki af höfuðlínu vörpunnar. Höfuðlínustykkið gegnir því hlutverki að nema þann afla sem fer inn í veiðarfærið. Kapall er frá höfuðlínustykkinu í kapaltromlu sem staðsett er á palli ofan við skutrennu skipsins. Til þess að ná til höfuðlínustykkisins mun stefnandi hafa þurft að fara undir vængi veiðarfærisins, sem aðeins er hægt að gera svo framarlega á aðalþilfarinu að útilokað er, að mati dómsins, að sjá þann sem það gerir úr brú skipsins. Að sögn stefnanda slóst veiðarfærið í hann, þegar hann var að reyna að ná til höfuðlínustykkisins með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig. Samkvæmt skýrslu vitnisins S netamanns fyrir dómi mun hann hafa staðið sömu megin við veiðarfærið og stefnandi og átt að sjá um höfuðlínustykkið ásamt honum. Vitnið varð ekki vart við að veiðarfærið rækist í stefnanda né að hann félli á þilfarið. Þó má telja líkur á að hafi veiðarfærið slegist til, með þeim hætti sem stefnandi heldur fram, hefði það einnig slegist í vitnið S. Við veiðar eins og þær sem B var á í umrætt sinn, er togtími langur og aðeins híft einu sinni til tvisvar á sólarhring. Ekki er því um formlegar vaktir að ræða hjá öðrum en skipstjóra, 1. stýrimanni og vélstjórum. Því eru yfirleitt allir áhafnarmeðlimir, sem starfa á þilfari, þar að störfum í hvert sinn sem varpan er tekin inn eða látin fara eða að jafnaði um 8 – 10 skipverjar. Þegar varpan var hífð í umrætt sinn voru 1. og 2. stýrimaður í brú skipsins. 1. stýrimaður, D, var samkvæmt skýrslu sinni fyrir dómi, eins og áður hefur verið rakið, við stjórn skipsins en 2. stýrimaður að stjórna hífingu á veiðarfærinu. Hlutverk þess sem fer með stjórn skipsins hverju sinni er fyrst og fremst að fylgjast með siglingu þess og umferð nálægra skipa og varla við því að búast að hann hafi á sama tíma góða yfirsýn yfir þá sem standa við vinnu á þilfari. Það er 2. stýrimaður sem hefur það hlutverk. Samkvæmt skýrslum þeirra, sem störfuðu á þilfari, þegar meint atvik átti sér stað, fyrir lögreglu og dómi, urðu þeir hvorki varir við að veiðarfærið rækist í stefnanda eða að hann félli á þilfarið. Verður að telja með miklum ólíkindum að enginn þeirra skipverja, sem voru að störfum með stefnanda á þilfari togarans og a.m.k. einn mjög nálægt honum, skyldi verða meints slyss var, hafi það borið að með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Þá verður ekki talið, að við veðuraðstæður eins og þær voru í umrætt sinn samkvæmt skipsdagbók, hafi „sláttur“ getað verið á veiðarfærinu og alls ekki til hliðar. Þar sem nokkur átök eru við hífingu veiðarfærisins inn á flotvörputromluna er mesta hliðarhreyfingin sem orðið getur aftur við skutrennu, þar sem belgur vörpunnar liggur í rennunni og hefur þar örlítið svigrúm til hliðarhreyfinga en ekki frammi við flotvörputromluna. Eini „slátturinn“ sem verður á veiðarfærinu er lóðrétt hreyfing sem helst verður í vondum veðrum við það að skipi er haldið með stefni upp í ölduna og getur þá veiðarfærið lyfst við skutrennu. Einnig getur við slíkar aðstæður myndast slaki við hífingu og síðan „sláist“ varpan eða belgur hennar upp, þegar aftur strekkist á. Að teknu tilliti til þess að útilokað verður að telja að sést hafi til stefnanda úr brú skipsins, veðurs og vitnisburðar þeirra skipverja sem störfuðu á þilfari í umrætt sinn er það mat dómsins að ósannað sé að slys hafi átt sér stað í merkingu slysatryggingar sjómanna þ.e. að stefnandi hafi slasast við að veiðarfæri hafi slegist í hann, hann fallið við höggið og hlotið bakmeiðsli af. Er þá lagt til grundvallar að á stefnanda hvíli sönnunarbyrði fyrir því að meint slys hafi orðið með þeim hætti sem hann heldur fram. Er þá ekki þörf á að taka afstöðu til þess sérstaklega, hvort það eitt að stefnandi hafi fallið á þilfarið í umrætt sinn sé slys samkvæmt áður tilvitnuðum tryggingaskilmálum slysatryggingar sjómanna, sbr. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Ekki verður á það fallist með stefnanda að þær greiðslur sem stefndi innti af henti til stefnanda og gerð er grein fyrir í máli þessu feli í sér viðurkenningu á bótaskyldu. Er þá til þess litið að engar greiðslur voru inntar af hendi inn á höfuðstól bótakröfu stefnanda eftir að skýrslutöku Lögreglunnar á Sauðarkróki yfir áhafnarmeðlimum lauk í byrjun ágúst 2004. Þá verður ekki séð að af hálfu útgerðar skipsins hafi verið gefnar viðurkenningar „með ýmsum staðfestingum og slysatilkynningum“ sem þýðingu geti haft fyrir úrlausn málsins, líkt og fram er haldið af stefnanda.
Samkvæmt framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Rétt er með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að málskostnaður milli aðila falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Arnar Svanssonar hrl., 850.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Mál þetta dæma Þórður S. Gunnarsson, settur héraðsdómari, og meðdómsmennirnir Björn Sigurðsson bæklunarskurðlæknir og Vilbergur Magni Óskarsson skólastjóri.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Arnar Svanssonar hrl., 850.000 krónur.