Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/2017
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Sakarskipting
- Líkamstjón
- Vextir
- Fyrning
- Gjafsókn
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 5.088.077 krónur, en til vara 4.102.102 krónur, í báðum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 17. nóvember 2008 til 14. janúar 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum frá stefnda 31. október 2012 að fjárhæð 1.182.301 króna og Sjúkratryggingum Íslands 29. september 2016 að fjárhæð 1.024.445 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu krefst áfrýjandi skaðabóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu […]. hjá stefnda vegna slyss sem hann varð fyrir við vinnu sína 17. nóvember 2008. Málinu er beint að stefnda á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Í stefnu í héraði er atvikum þannig lýst að áfrýjandi hafi „verið að bera byggingarefni inn í íbúð 0206, á annarri hæð í nýbyggingu í […] í […]“ og að þegar „hann sótti byggingarefnið út á aðliggjandi svalir féll hann aftur fyrir sig fram af svölunum.“ Lögregla kom á vettvang í kjölfar slyssins og í lögregluskýrslu er skráð að áfrýjandi hafi fallið úr 3,04 metra hæð.
Ágreiningslaust er að engar fallvarnir voru á svölunum þar sem slysið varð. Eftirlitsmenn frá Vinnueftirliti ríkisins komu á vettvang stuttu eftir slysið og í skýrslu þeirra um aðstæður á vettvangi segir að gengið hafi á með skúrum og að engar fallvarnir hafi verið á neðri veggsvölum og á efri svölum á vestari helmingi hússins. Er niðurstaða skýrslunnar sú að orsök slyssins megi rekja til þess að engar fallvarnir hafi verið til staðar. Í skýrslu vinnueftirlitsins voru jafnframt gefin fyrirmæli um úrbætur, meðal annars þau að ef undan væri skilin vinna við að setja upp handrið væri öll vinna og umferð á veggsvölum þar sem handrið vantaði bönnuð og að tryggja skyldi að á vinnupöllum væru bæði handrið og endalokanir.
Í kjölfar slyssins var áfrýjandi fluttur á sjúkrahús og greindist hann með opið beinbrot á vinstri handlegg og brot á öðrum lífbeinsarminum vinstra megin. Sama dag gekkst hann undir aðgerð á vinstri handlegg þar sem framhandleggsbrotin voru fest með spöngum og skrúfum.
Með bréfi 31. ágúst 2009 hafnaði stefndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu […]. vegna slyss áfrýjanda. Áfrýjandi skaut þeirri ákvörðun til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 14. janúar 2010. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu 2. mars 2010 að greiða bæri bætur úr ábyrgðartryggingunni, en með bréfi 10. mars 2010 var áfrýjanda tilkynnt að stefndi hygðist ekki una úrskurði nefndarinnar.
Dómkvaddir matsmenn mátu tjón áfrýjanda og í matsgerð þeirra 30. nóvember 2015 var ályktað að orsakatengsl væru á milli slyssins og einkenna áfrýjanda í vinstri framhandlegg og mjaðmagrind. Töldu matsmennirnir áfrýjanda hafa verið óvinnufæran með öllu frá slysdegi til batahvarfa 22. apríl 2009. Þjáningatímabil mátu þeir hið sama, en þar af teldist áfrýjandi hafa verið rúmliggjandi í þrjá daga. Loks var varanlegur miski áfrýjanda metinn til 10 stiga og varanleg örorka metin 10%.
Áfrýjandi mun upphaflega hafa höfðað mál gegn stefnda í júní 2014 en fellt það mál niður í nóvember sama ár. Mál þetta höfðaði áfrýjandi síðan 6. júní 2016.
II
Óumdeilt er að áfrýjandi féll af svölum annarrar hæðar nýbyggingarinnar að […] en að öðru leyti greinir aðila málsins á um það með hvaða hætti slysið bar að höndum og hvort það megi rekja til skorts á fallvörnum og ófullnægjandi verkstjórnar eða hvort óhappatilvik eða háttsemi áfrýjanda sjálfs hafi orsakað það.
Samkvæmt lögregluskýrslu lýstu áfrýjandi og Stefán Ragnar Þórðarson verkstjóri aðdraganda slyssins með þeim hætti að þegar það varð hefði verið unnið að því að bera byggingarefni inn í íbúð 0206. Jafnframt var haft eftir áfrýjanda að hann hefði fallið aftur fyrir sig af svölum annarrar hæðar. Í tilkynningu Stefáns Ragnars til vinnueftirlitsins 17. nóvember 2008 segir að áfrýjandi hafi unnið að móttöku byggingarefnis þegar hann féll, en þar er ekki tekið fram hvort hann hafi fallið fram eða aftur fyrir sig. Í skýrslu vinnueftirlitsins greinir að Stefán Ragnar og Sigurjón H. Steindórsson pípulagningarmaður, sem hafi orðið vitni að slysinu, hafi veitt upplýsingar. Í skýrslunni kemur fram að unnið hefði verið að frágangi utanhúss og að áfrýjandi hefði verið að bera inn byggingarefni af veggsvölum þegar hann hefði fallið fram af brún þeirra. Loks er þess að geta að í læknisvottorði Yngva Ólafssonar 14. desember 2008 er vitnað í sjúkraskýrslu frá slysdegi og frá því greint að áfrýjandi hafi dottið úr stillans við vinnu sína.
Áfrýjandi gaf símaskýrslu fyrir héraðsdómi með aðstoð túlks. Hann greindi svo frá að vinnu við að bera byggingarefni inn í íbúðir hefði verið lokið um þremur dögum áður en slysið varð og að hann hefði verið að vinna utanhúss við uppsetningu á vatnsrennum þegar hann missti jafnvægið og féll niður. Hann kvaðst hafa verið að reyna að ræða við vinnufélaga á hæðinni fyrir ofan um framkvæmd verksins þegar hann datt. Þá kvaðst hann halda að hann hefði dottið á hlið niður, auk þess sem hann rámaði í að hafa reynt að teygja sig í vinnupall. Loks kannaðist hann ekki við að lögregla hefði rætt við sig á vettvangi strax í kjölfar slyssins og kvaðst ekki vera mæltur á ensku. Gunnar Halldór Sigurjónsson lögreglumaður, sem ritaði lögregluskýrslu um slysið, bar aftur á móti fyrir héraðsdómi að hann hefði rætt við áfrýjanda á vettvangi og að hann minnti að samtalið hefði farið þannig fram að áfrýjandi „bullaði eitthvað á ensku.“
Fyrir héraðsdómi bar vitnið Stefán Ragnar að þegar slysið varð hefði verið unnið að því að taka gifsplötur upp á svalir og þaðan inn í húsið. Ekki hefði verið hægt að koma gifsplötunum upp án þess að taka niður fallvarnir og hífa þær upp á svalirnar því stigahúsið hefði verið of þröngt. Hann kvaðst reikna með því að áfrýjandi hefði verið að vinna við þetta þegar hann féll af svölunum, en hann hefði ekki sjálfur orðið vitni að slysinu. Aðspurður kannaðist hann ekki við að unnið hefði verið að vatnslögnum á slysdegi.
Áðurnefndur Sigurjón pípulagningamaður varð sem fyrr segir vitni að slysi áfrýjanda. Fyrir héraðsdómi bar hann á þá leið að hann hefði staðið í um það bil 15 metra fjarlægð og snúið að áfrýjanda þegar hann hefði séð hann ganga eftir svölum hússins og ætla að stíga út af þeim og niður á vinnupall sem stóð þar til hliðar. Hann hefði tekið í pallastoð og ætlað inn á vinnupallinn, en þegar hann hefði stigið inn á pallinn með annan fótinn hefði hann runnið til í bleytu og dottið niður. Hann mundi ekki til þess að hafa rætt við fulltrúa vinnueftirlitsins á slysstað og kvaðst ekki hafa tekið eftir því að hverju var unnið þennan dag.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að samskipti við áfrýjanda í tengslum við slysið voru háð einhverjum tungumálaörðugleikum og að gögn málsins og framburðir fyrir héraðsdómi eru nokkuð misvísandi um það hvernig það atvikaðist að áfrýjandi féll fram af svölunum, en áfrýjandi ber sönnunarbyrði um það atriði. Með vísan til þess að framburður áfrýjanda fyrir héraðsdómi um tildrög slyssins fær litla sem enga stoð í gögnum málsins verður ekki á honum byggt, sbr. einnig 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt er ljóst að Stefán Ragnar varð ekki vitni að slysinu sjálfu og hafa lýsingar hans á því hvernig það atvikaðist því takmarkað gildi. Þykir því verða að leggja til grundvallar að slysið hafi borið að með þeim hætti sem eina vitnið að því, Sigurjón, lýsti fyrir héraðsdómi, en líkt og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er engin ástæða til að draga trúverðugleika vitnisins í efa. Verður því við það miðað að áfrýjandi hafi fallið þegar hann hugðist stíga af svölunum niður á vinnupall sem stóð þar til hliðar.
III
Samkvæmt 13. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað og við framkvæmd vinnu. Í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sem settar eru með stoð í 38. gr. laga nr. 46/1980, eru taldar í IV. viðauka þær lágmarkskröfur sem gilda um öryggi og heilsuvernd á byggingarsvæðum. Í B-hluta viðaukans segir í 21. gr. að í yfir tveggja metra hæð skuli vera handrið alls staðar þar sem hætta getur verið á að menn falli niður. Við úrlausn máls þessa er einnig til þess að líta að eftir vettvangsrannsókn komst Vinnueftirlit ríkisins að þeirri niðurstöðu að leggja bæri blátt bann við allri vinnu og umferð á veggsvölum þar sem handrið vantaði ef frá væri talin vinna við uppsetningu handriða. Myndir sem bæði lögregla og vinnueftirlitið tóku á vettvangi sýna einnig að ekki hefði verið nauðsynlegt að taka niður allar fallvarnir á vesturhluta annarrar hæðar hússins til að koma þangað gifsplötum, en til þess hefði dugað að opna smærra hlið í skamman tíma. Á slysdegi skorti því verulega á að öryggisráðstafanir á vinnustaðnum væru í samræmi við kröfur laga nr. 46/1980 og verður það metið starfsmönnum […] til sakar. Þá þykir nægilega sýnt fram á að viðeigandi fallvarnir hefðu hindrað áfrýjanda í því að gera tilraun til að stíga af svölunum inn á vinnupallinn. Er því einnig fullnægt því skilyrði skaðabótaábyrgðar að orsakatengsl séu á milli hinnar saknæmu háttsemi og tjóns áfrýjanda.
Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að fyrir héraðsdómi bar áfrýjandi að hann hefði verið meðvitaður um skort á fallvörnum og að hann hefði gert athugasemdir við slysahættu sem af því gæti hlotist. Honum var því fullljóst að hætta stafaði að þeim sem fóru of nálægt brún svalanna. Allt að einu tók hann ákvörðun um að nýta sér þessar aðstæður og stíga út af svölunum í tilraun til að komast niður á vinnupall sem stóð þar til hliðar. Verður orsök slyssins því að stórum hluta einnig rakin til gáleysislegrar háttsemi áfrýjanda sjálfs. Þar sem atvik máls gerðust fyrir gildistöku 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993 skiptir ekki máli hvort sú háttsemi verður metin honum til einfalds eða stórfellds gáleysis og verður áfrýjanda samkvæmt framansögðu gert að bera helming tjóns síns vegna eigin sakar.
IV
Í málinu er ekki ágreiningur um mat hinna dómkvöddu manna á afleiðingum slyssins. Áfrýjandi byggir aðalkröfu sína á því að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku skuli meta árslaun hans sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, þar sem meginregla 1. mgr. 7. gr. laganna um meðalatvinnutekjur síðustu þriggja almanaksára endurspegli ekki líklegar framtíðartekjur hans. Vísar áfrýjandi til þess að hann hafi aðeins starfað á Íslandi í átta mánuði áður en slysið varð og að hann hafi hækkað umtalsvert í launum við að hefja þau störf. Er aðalkrafa áfrýjanda því miðuð við þær tekjur sem hann aflaði sér hér á landi umrædda átta mánuði.
Þegar slysið varð í nóvember 2008 var áfrýjandi 36 ára gamall og hafði verið sagt upp störfum hjá […] Áfrýjandi, sem er […], flutti aftur til […] skömmu eftir slysið og er ekkert fram komið um að hann hafi fyrir slysið gert ráðstafanir til að fá fjölskyldu sína til Íslands eða fá annað starf á Íslandi. Hefur hann ekki sýnt fram á að um óvenjulegar aðstæður hafi verið að ræða við tekjuöflun sína síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið og eru skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga því ekki uppfyllt.
Varakrafa áfrýjanda er reist á því að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku skuli byggja á lágmarkstekjuviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en tekjur áfrýjanda á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna voru lægri en þar greinir. Útreikningi áfrýjanda á þjáningabótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, bótum fyrir varanlegan miska samkvæmt 4. gr., sbr. 15 gr. laganna og bótum fyrir varanlega örorku samkvæmt 3. mgr. 7. gr., sbr. 6. og 15. gr. laganna hefur ekki verið mótmælt. Samkvæmt því verður fallist á að heildartjón áfrýjanda nemi 4.102.102 krónum, sem sundurliðast þannig að þjáningabætur nema 343.170 krónum, bætur vegna varanlegs miska 1.037.650 krónum og bætur vegna varanlegrar örorku 2.721.282 krónum. Verður stefndi dæmdur til að greiða helming tjónsins.
Fallist er á það með stefnda að vextir samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga sem eldri voru en fjögurra ára við birtingu stefnu 6. júní 2016 séu fyrndir, sbr. 3. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Telst krafa áfrýjanda til 4,5% vaxta frá því fyrir 6. júní 2012 því vera fyrnd, en að öðru leyti verða áfrýjanda dæmdir vextir samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga líkt og greinir í dómsorði. Þá hefur stefndi mótmælt dráttarvaxtakröfu áfrýjanda á þeim grundvelli að kröfubréfi hans 14. desember 2015 hafi ekki fylgt allar þær upplýsingar sem þurfti til að ákvarða bætur þar sem krafan hafi þá einungis verið miðuð við meðallaun karlkyns verkamanna á Íslandi. Í 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, er kveðið á um að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Matsgerð hinna dómkvöddu manna fylgdi kröfubréfinu en í henni koma fram upplýsingar um tjónsatvik og tekjur áfrýjanda samkvæmt skattframtölum vegna tekjuáranna 2005 til 2014. Verða dráttarvextir því dæmdir frá 14. janúar 2016.
Eftir framangreindum niðurstöðum verður stefndi dæmdur til greiðslu 2.051.051 krónu, með 4,5% ársvöxtum frá 6. júní 2012 til 14. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum stefnda 31. október 2012 að fjárhæð 1.182.301 króna og Sjúkratryggingum Íslands 29. september 2016 að fjárhæð 1.024.445 krónur.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða hluta þess kostnaðar í ríkissjóð.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, A, 2.051.051 krónu, með 4,5% ársvöxtum frá 6. júní 2012 til 14. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 31. október 2012 að fjárhæð 1.182.301 króna og 29. september 2016 að fjárhæð 1.024.445 krónur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Stefndi greiði 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 800.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um annað en sakarskiptingu og málskostnað.
Ekki verður með öruggum hætti fullyrt hvernig áfrýjandi féll niður af umræddum veggsvölum og tekið er undir með meirihluta dómenda að um það verði helst að líta til framburðar þess eina vitnis sem varð að atvikinu, enda lýsingar áfrýjanda nokkuð misvísandi.
Eins og fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda liggja fyrir skýrslur lögreglu og vinnueftirlits um aðstæður á vettvangi eftir rannsóknir á honum sama dag og slysið varð. Komst vinnueftirlitið að þeirri eindregnu niðurstöðu að orsök slyssins mætti rekja til þess að engar fallvarnir voru til staðar þar sem áfrýjandi var við vinnu sína og gaf jafnframt þau fyrirmæli um að leggja bæri blátt bann við allri vinnu og umferð á veggsvölum þar sem handrið vantaði, ef frá væri talin vinna við uppsetningu handriða. Var jafnframt um þetta vísað til viðeigandi ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðvum og ákvæða viðauka við reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, sem settar voru á grundvelli nefndra laga. Er ekkert fram komið í málinu sem leiðir til annars en að leggja beri þessa niðurstöðu til grundvallar.
Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda gerðust atvik fyrir gildistöku 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993, en fyrir þann tíma mátti líta til einfalds gáleysis starfsmanns við ákvörðun sakarskiptingar. Það breytir á hinn bóginn ekki því sem að framan er rakið um að meginorsök slyssins verður rakin til hættulegra aðstæðna á þeim stað sem áfrýjanda var gert að sinna vinnu sinni.
Tel ég samkvæmt framanrituðu að ekki verði lagt á áfrýjanda meira en 1/3 hluta tjóns þess sem hann varð fyrir.
Í samræmi við það tel ég einnig rétt að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað á báðum dómstigum sem renna skuli í ríkissjóð.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2017
I.
Mál þetta sem var höfðað 6. júní 2016 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 7. febrúar 2017.
Stefnandi er A, búsettur í […]. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf. Ármúla 3, 108 Reykjavík.
Stefnandi breytti dómkröfum sínum í þinghaldi 18. október 2016, en skýringin er einkum aukafrádráttur vegna innborgunar frá Sjúkratryggingum Íslands.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 6.606.758 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.380.820 krónum frá 17. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 og af 6.606.758 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni greiðslu frá stefnda að fjárhæð 803.551 króna þann 31. október 2012 og að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 1.024.445 krónur þann 29. september 2016.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.088.077 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.380.820 krónum frá 17. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 og af 5.088.077 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni greiðslu frá stefnda að fjárhæð 803.551 króna þann 31. október 2012 og að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 1.024.445 krónur þann 29. september 2016.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.102.102 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.380.820 krónum frá 17. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 og 4.102.102 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni greiðslu frá stefnda að fjárhæð 803.551 króna þann 31. október 2012 og að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 1.024.445 krónur þann 29. september 2016.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar stórlega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
II.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað vegna vinnuslyss sem hann lenti í 17. nóvember 2008, við störf sín hjá […], en stefnandi hafði starfað þar frá febrúar 2008. Stefnanda mun hafa verið sagt upp vegna samdráttar 1. september 2008 og var því á uppsagnarfresti þegar slysið varð. Í stefnu málsins segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi verið að bera byggingarefni inn í íbúð […], á annarri hæð í nýbyggingu við […]. Byggingin var langt komin, búið að setja gler í glugga og vinna hafin inni í íbúðum. Flest bendir til þess að á slysdegi hafi verkefnið verið að flytja gipsplötur inn í íbúðir á annarri hæð fjölbýlishússins. Gipsplöturnar voru það langar og breiðar að ekki var unnt að koma þeim inn í íbúðirnar um glugga né flytja þær eftir stigagöngum án þess að skemma þær. Þurfti því að taka tímabundið niður fallvarnir við útisvalaganga á annarri hæð. Voru gipsplöturnar hífðar upp að svalaganginum og nauðsynlegt magn tekið úr stæðu og borið inn í hverja íbúð fyrir sig. Var stefnandi einn þeirra sem vann að þessu verki. Lýsir hann slysinu svo í stefnu að þegar hann hafi verið að sækja byggingarefnið út á aðliggjandi svalir hafi hann fallið aftur fyrir sig fram af svölunum. Við aðalmeðferð málsins fullyrti stefnandi hins vegar að þessu verki hefði verið lokið um tveimur dögum fyrr og hann hafi þess í stað verið að vinna við annan mann við uppsetningu á regnvatnsrennum eins og rakið verður í niðurstöðu.
Ágreiningslaust er í málinu að engar fallvarnir voru á svölunum og yfirborð þeirra blautt vegna rigningar. Stefnandi féll neðan af svölunum að því er talið var, úr 3,04 metra hæð og lenti á möl með þeim afleiðingum að hann hlaut opið beinbrot á vinstri handlegg og áverka á mjöðm. Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið í Keflavík þar sem rannsóknir sýndu framhandleggsbrot. Í kjölfarið var stefnandi fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann í Fossvogi og lagður inn á bæklunarskurðdeild til aðgerðar. Voru bæði brotin í framhandleggnum rétt og fest með plötu og skrúfum. Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið óvinnufær í rúma fimm mánuði eftir slysið, varanlegur miski hans í kjölfar slyssins sé 10 stig og varanleg örorka 10%. Stöðugleikatímapunktur hafi verið 22. apríl 2009. Skömmu eftir slysið fór stefnandi aftur til […] og mun hann hafa síðan þá verið til meðferðar hjá þarlendum læknum vegna afleiðinga slyssins.
Lögreglan og Vinnueftirlitið komu samdægurs á slysstað og gerði Vinnueftirlitið umsögn um slysið. Þar segir undir fyrirsögninni Vinnubrögð og starfshættir: „Slasaði var uppi á veggsvölum 1. hæðar að bera inn byggingarefni. Vegna aðflutnings efnisins höfðu handrið á veggsvölunum verið tekin niður. Þegar A var að sækja byggingarefnið út á svalirnar féll hann fram af brún þeirra þar sem handrið vantaði. Fallhæðin var um 3 metrar.“ Það var niðurstaða eftirlitsmanns að orsök slyssins yrði rakin til þess að engar fallvarnir voru til staðar.
Með bréfi, dags. 26. janúar 2009, var óskað eftir afstöðu stefnda til skaðabótaskyldu vinnuveitanda stefnanda og bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu. Stefndi hafnaði kröfum stefnanda með bréfi 31. ágúst 2009. Í bréfinu kom fram að stefndi teldi skaðabótaskyldu ekki til staðar. Hvorki vinnuveitandi né starfsmenn á hans ábyrgð hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi sem leitt hefði til tjóns stefnanda.
Leitað var til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem með úrskurði sínum í málinu nr. 15/2010, 2. mars 2010, komst að þeirri niðurstöðu að sýnt hefði verið fram á að slysið yrði fyrst og fremst rakið til skorts á fallvörnum og yrði af gögnum ráðið að vinnuveitandi hefði ekki gætt nægjanlega að öryggisráðstöfunum við framkvæmd verksins. Því var greiðsluskylda úr ábyrgðartryggingu viðurkennd. Með bréfi 10. mars 2010 tilkynnti stefndi að félagið ætlaði ekki að una úrskurði nefndarinnar.
Þann 23. október 2012 greiddi stefndi stefnanda bætur úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu launþega. Alls greiddi stefndi 1.182.301 krónu vegna þessa en greiðslan byggði á matsgerð Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis, frá 11. október 2012, en þar var komist að niðurstöðu um að slysið hefði valdið stefnanda 5% læknisfræðilegri örorku.
Málið virðist hafa legið í láginni í tæp tvö ár en 23. júní 2014 mun stefna hafa verið birt fyrir stefnda þar sem farið var fram með viðurkenningarkröfu um bótaskyldu. Stefnandi felldi málið niður þann 19. nóvember 2014. Stefna þessa máls var síðan birt fyrir stefnda hálfu ári síðar, 6. júní 2016. Stefndi bendir á að þá hafi verið liðin rúm sjö og hálft ár frá slysdegi.
Í kjölfar þess að matsgerð dómkvaddra matsmanna lá fyrir í lok nóvember 2015 reiknaði stefnandi út skaðabótakröfu í ábyrgðartryggingu […] hjá stefndu. Krafan var send með tölvuskeyti 14. desember 2015 en stefndi mun ekki hafa sinnt þeirri kröfu.
III.
Stefnandi byggir á því að slys hans sé bótaskylt úr frjálsri ábyrgðartryggingu […] sem var í gildi á slysdegi hjá stefnda.
Stefnandi byggir á því að […] beri skaðabótaábyrgð á slysinu í ljósi þess að aðbúnaður og vinnuaðstaða á byggingarvinnustað fyrirtækisins hafi á slysdegi verið með öllu ófullnægjandi vegna skorts á fallvörnum á þeim stað þar sem stefnandi féll niður. Orsök slyssins hafi verið þessi skortur á fallvörnum, sbr. umsögn Vinnueftirlitsins. Um sé að ræða skýlaust brot á ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum með stoð í þeim og vísar stefnandi til 13. gr. og 1. mgr. 37. gr. laganna svo og því að fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í reglum nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, segi í 8. gr. að atvinnurekandi skuli gera ráðstafanir sem samræmast kröfum sem settar eru fram í IV. viðauka þeirra reglna. Í grein 15.2 í B-hluta IV. viðauka reglnanna segi m.a. að vinna í mikilli hæð skuli að jafnaði fara fram með hjálp viðeigandi búnaðar eða með því að beita öryggisbúnaði eins og grindverkum, pöllum eða öryggisnetum. Þá segi í grein 21.1 í B-hluta IV. viðauka reglnanna, að á vinnuflötum, verkpöllum, göngubrúm o.s.frv., skuli vera handrið ef hæðin er meiri en 2 metrar frá jörðu eða öðrum fleti og skuli handrið vera alls staðar þar sem hætta geti verið á að menn falli niður.
Stefnandi byggir á því að framangreindar athafnaskyldur hafi hvílt á […]. og þeim hafi borið að hlutast til um að tryggja að fallvarnir væru til staðar. Á slysdegi hafi gengið á með skúrum, og yfirborð svalanna því verið blautt. Því hafi verið enn meiri ástæða en ella til að hafa uppi viðeigandi fallvarnir til að tryggja öryggi starfsmanna, en í ákvæði 2.1 í B-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 segi að starfsmenn skuli varðir fyrir veðurfarslegum áhrifum sem gætu haft áhrif á heilsu þeirra og öryggi. Þá hafi hvílt enn ríkari skyldur á fyrirtækinu við að tryggja öryggi á starfsvettvangi þegar í hlut áttu óreyndir starfsmenn, líkt og stefnandi, en hann hafi einungis starfað á vinnustaðnum í 8 mánuði og hafði aldrei áður verið í byggingarvinnu.
Stefnandi byggir að auki á því að verkstjórn á vinnustaðnum hafi verið áfátt, en samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980 skuli haga vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Stefnanda var fyrirskipað að vinna verk sitt í rúmlega þriggja metra hæð, á stað þar sem engar fallvarnir voru til staðar og yfirborð blautt vegna rigningar. Aðstæður hafi því verið beinlínis hættulegar fyrir stefnanda og öryggi hans með öllu ótryggt. Verkstjóri hafi vanrækt að stýra verkinu vel þannig að starfsmenn hans væru ekki í hættu enda beri verkstjóri samkvæmt 20.-23. gr. laga nr. 46/1980 ábyrgð á því að öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustað og byggir stefnandi á því að verkstjóri hafi átt að ganga úr skugga um hættuna af framkvæmd verksins og gera viðhlítandi ráðstafanir til að verjast henni. Stefnandi telur að með réttri og fullnægjandi verkstjórn hefði verið unnt að koma í veg fyrir slysið.
Í stað þess að tryggja að fallvarnir væru til staðar áður en verkið var unnið hafi verkstjórinn samkvæmt gögnum málsins þvert á móti sjálfur fjarlægt fallvarnirnar áður en hann fól stefnanda að vinna verk sitt, sbr. lögregluskýrslu.
Stefnandi telur af framangreindu ljóst að verkstjórn var ófullnægjandi í umrætt sinn og byggir stefnandi á að það hafi verið meðorsök slyssins ásamt skorti á fallvörnum. Á hvoru tveggja beri vinnuveitandi hans, og þar með stefndi, skaðabótaábyrgð.
Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér neina þá háttsemi sem jafna megi til gáleysis í aðdraganda slyssins og hann beri því enga sök á því að slysið varð. Stefnandi hafi engar öryggisreglur brotið við vinnu sína og hefði einungis verið að fylgja eftir fyrirmælum yfirboðara sinna sem báru ábyrgð á því að tryggja að fallvarnir væru til staðar. Stefnandi mótmælir því sem stefndi hefur haldið fram að hann hafi verið að stytta sér leið eða klifra í vinnupöllum þegar slysið átti sér stað. Staðreyndin sé sú að stefnandi féll af svölunum við vinnu sína, eins og fram komi í lögregluskýrslu, tilkynningu til Vinnueftirlitsins og umsögn Vinnueftirlitsins.
Stefnandi byggir á því að hann hafi uppfyllt þær kröfur um aðgæslu sem hægt var að gera til hans við þessar aðstæður. Þegar hann framkvæmdi verkið hafi hann verið undir boðvaldi yfirmanna sinna og ekki í neinni aðstöðu til þess að neita að framkvæma umbeðið verk. Stefnandi hafi þó bent yfirmönnum sínum á hættuna sem fylgdi því að hafa ekki fallvarnir á svölunum. Þá sé á það bent að í umsögn Vinnueftirlitsins sé ekkert að finna sem bent gæti til þess að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi í aðdraganda slyssins og þannig orðið valdur að því. Varðandi eigin sök bendir stefnandi og á hversu stuttur starfstími hans hafi verið hjá […]. en stefnandi hafi enga reynslu haft af störfum sem þessu, utan sex mánaða vinnu líkast til árið 1995. Þá verði að skoða hugsanlega meðábyrgð stefnanda eða eigin sök í samhengi við sök stefnda, þ.e. sök tjónvalds og ábyrgð hans sem vinnuveitanda á aðstæðum á vinnustað, skorti á fallvörnum og slælegri verkstjórn en þessir þættir voru ráðandi orsakaþættir í því að slysið varð.
Þá byggir stefnandi á því, að ef komist verður að þeirri niðurstöðu að meðábyrgð hans í slysinu hafi einhver verið, leiði ákvæði 2. mgr. 24. gr. skbl., og þau sjónarmið sem ákvæðið byggi á, til þess að líta megi fram hjá hugsanlegri meðábyrgð hans í slysinu. Ljóst sé að líkamstjón stefnanda vegna slyssins er mikið, hann hafi lengi verið óvinnufær og í endurhæfingu og aðstæður hans eftir slysið allt aðrar en fyrir það. Einnig beri að líta til þess að fyrir hendi sé ábyrgðartrygging sem taki til tjónsins.
Stefnandi byggir á því að skýr orsakatengsl séu á milli varanlegs líkamstjóns hans og saknæmrar háttsemi vinnuveitanda hans og vísast um það einkum til læknisfræðilegra gagna málsins, örorkumatsgerðar, auk matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem hafi ekki verið hnekkt.
Varðandi viðmiðunarárslaun sem grundvalli fjárhæð bótakröfu stefnanda vísar hann til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar sé að finna heimild til að víkja frá meginreglunni, um að leggja tekjur síðastliðinna þriggja ára til grundvallar ákvörðunar bóta, enda endurspegli sá mælikvarði ekki líklegar framtíðartekjur tjónþola. Sé þetta í samræmi við það meginmarkmið skaðabótalaga að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón sitt, að bætur verði hvorki hærri né lægri en sem tjóninu nemur.
Tvö skilyrði séu sett fyrir því að árslaun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verði ákveðin sérstaklega. Annars vegar að aðstæður hafi verið óvenjulegar og hins vegar að þær aðstæður leiði til þess að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola en meðalatvinnutekjur síðustu þriggja almanaksára fyrir slys.
Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 37/1993, sem breyttu 7. gr. laga nr. 50/1993, komi fram að 2. mgr. sé rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þyki af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.
Stefnandi byggir á því að aðstæður hafi verið óvenjulegar síðustu þrjú ár fyrir slysdag. Megnið af þeim tíma hafi hann verið búsettur í […] en hann hafði starfað á Íslandi í 8 mánuði þegar slysið átti sér stað. Ekki sé því unnt að leggja tekjur síðustu þriggja ára fyrir slysdag til grundvallar, þar sem á því tímabili urðu miklar breytingar á högum stefnanda, þegar hann flutti til Íslands og hóf störf við byggingarvinnu. Við það að hefja störf hér á landi hafi laun stefnanda hækkað umtalsvert frá því sem áður hafði verið. Af þessu telur stefnandi ljóst að um óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 hafi verið að ræða á tímabilinu.
Í aðalkröfu byggir stefnandi á því að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku beri að miða við meðallaun verkamanna á slysárinu 2008, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni, en stefnandi telur þetta tækt viðmið þar sem hann hafi alla tíð starfað sem verkamaður og ekkert bendi til annars en að hann muni starfa sem verkamaður í framtíðinni.
Í varakröfu byggir stefnandi á því að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku beri að miða við þær tekjur sem stefnandi aflaði í starfi sínu hér á landi árið 2008, uppreiknuðum miðað við fullt tekjuár og að stöðugleikatímapunkti. Stefnandi telur að þessi mælikvarði sé réttari en tekjur síðustu þriggja ára fyrir slys eða lágmarkslaun.
Með vísan til framangreinds telur stefnandi að skilyrði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 séu uppfyllt í málinu og því beri að ákvarða árslaun hans sérstaklega en ekki miða við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, þar sem það leiði ekki til þess að hann muni fá tjón sitt bætt að fullu.
Ef ekki er fallist á að óvenjulegar aðstæður hafi verið til staðar og að annar mælikvarði sé réttari en sá sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, byggir stefnandi á því í þrautavarakröfu sinni að lágmarkslaun skaðabótalaga verði lögð til grundvallar við útreikning vegna varanlegrar örorku í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.
Stefnandi sundurliðar ítarlega kröfur sínar í stefnu málsins. Ekki þykir ástæða til að tíunda þær sundurliðanir í dómnum en þær byggja á matsgerð dómkvaddra matsmanna, ofangreindum sjónarmiðum um viðmiðunarlaun og ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 um það hvernig reikna skal út kröfur sem þessar. Verður enda ekki séð að við þessar forsendur séu gerðar athugasemdir af hálfu stefnda.
Um bótaábyrgð vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Einnig vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Þá er vísað til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem og þeirra reglna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna, einkum reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Um útreikning krafna er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um vexti á dómkröfur stefnanda er vísað til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um dráttarvexti til ákvæða 6. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Um aðild stefnda er vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum ákvæði 16. og 17. gr. Um aðild er einnig vísað til 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, en stefndi sé bótaskyldur vegna frjálsrar ábyrgðartryggingar sem […]. var með í gildi hjá stefnda á slysdegi. Um varnarþing vísast til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Sýknukrafa stefnda byggir á því að skilyrði sakarreglunar séu ekki uppfyllt hvorki hvað […]. varðar né aðila sem […]. geti borið vinnuveitendaábyrgð á.
Á stefnanda, sem meintum tjónþola í skaðabótamáli, hvíli sönnunarbyrði um að hann hafi orðið fyrir því óhappi sem hann lýsir í stefnu enda byggi hann kröfu um viðurkenningu greiðsluskyldu stefnda á fullyrðingum sínum um málsatvik.
Stefnandi sé einn um að lýsa atvikum eins og gert er í stefnu. Þó að atvikum sé lýst á þann veg í lögregluskýrslu að hann hafi fallið afturábak fram af svölunum sé sá texti eftir honum hafður. Einungis eitt vitni varð að atvikinu og er það þess fullvisst að stefnandi hafi verið að reyna að stytta sér leið niður á jarðhæð með því að klifra fram af svölunum yfir á vinnupall sem reistur hafði verið við stigahús fasteignarinnar sem sé við enda svalagangsins.
Málavaxtalýsing stefnanda hafi verið mikið á reiki og hafi birst hið minnsta fjórar útgáfur atvika sem frá honum stafa. Þar sem stefnandi muni ekki málsatvik betur og þar sem stefnandi hafi dregið að höfða mál þetta í sjö og hálft ár frá slysdegi verði að leggja vitnisburð þess sem sá atvikið gerast til grundvallar niðurstöðu. Í öllu falli verði að túlka allan vafa um málsatvik stefnda í vil.
Stefndi byggir á að stefnandi hafi ekki sannað að atvik hafi verið þau sem hann lýsir í stefnu og hann byggir greiðsluskyldu stefnda á. Verði þegar af þeim sökum að sýkna stefnda.
Hafi atvik verið með þeim hætti sem vitni ber um, hafi verið um óhappatilvik að ræða sem þriðji aðili verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á. Hafi atvik verið með þessum hætti er tímabundin fjarlæging fallvarna ekki í nokkru orsakasambandi við tjónsatvikið enda var stefnandi þá fyrir eigin vilja kominn fram fyrir þann stað þar sem fallvarnir voru staðsettar er tjónsatvik urðu.
Jafnvel þó að lagt yrði til grundvallar að stefnandi hafi fallið afturábak fram af svölunum hefur stefnandi ekki sannað sök […]. Í ákvæði 21.1 í IV. viðauka B-hluta reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum, sé mælt fyrir um að handrið skuli að jafnaði vera þar sem hæð er meiri en 2 metrar og þar sem hætta sé á að menn falli niður. Reglan verði þó ekki túlkuð svo þröngt að ekki sé heimilt að fjarlægja handrið tímabundið sé það nauðsynlegt og allir er starfa nálægt þeim stað er fallvarnir voru á eru meðvitaðir um aðgerðina.
Nauðsynlegt hafi verið að fjarlægja tímabundið þá fallvörn sem komið hafði verið upp við brún svalaganga. Ekki hafi önnur leið verið fær til að flytja stórar gipsplötur upp á svalaganginn eða inn í íbúðir þar sem þurfti að nota þær. Fyllstu varúðar hafi verið gætt við þessa tímabundnu ráðstöfun og stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum […]., hafi verið ljóst að fallvörnin hafði verið fjarlægð. Þar að auki hafi ekki verið nauðsynlegt, til að framkvæma það verk sem stefnanda hafði verið falið, að koma nálægt brún svalanna, hvað þá að ganga afturábak í átt að henni eða teygja sig framyfir hana.
Því sé sérstaklega mótmælt að […]. hafi sett starfsmenn sína í bráða og augljósa hættu. Vissulega sé alltaf einhver hætta til staðar við aðstæður sem þessar en stefnandi sem hafi verið vanur vinnu á byggingarvinnustöðum vissi af hættunni og þurfti ekkert að gera annað en að viðhafa lágmarks aðgæslu til að koma í veg fyrir að óhapp yrði.
Eins og atvikum er háttað verði það því ekki metið […]. til skaðabótaskyldrar vangæslu að hafa af nauðsyn fjarlægt fallvarnir í takmarkaðan tíma með vitund allra hlutaðeigandi.
Þá verði saknæmi ekki byggt á öðrum reglum sem taldar eru upp í stefnu. Tilvísuð ákvæði laga nr. 46/1980 og reglna sem settar eru með stoð í þeim séu almenn stefnumið en ekki sértækar hátternisreglur og engin ályktun verði dregin um að […] hafi gerst brotlegt við þessar reglur eða sýnt að sér saknæma háttsemi þó að óhapp hafi orðið á vinnustaðnum.
Stefndu mótmælir því sem hann segir að sé ný atvikalýsing í stefnu. Í henni sé í fyrsta skipti gefið til kynna að væta á vettvangi hafi verið meðvirkandi þáttur í falli stefnanda. Það sé ekkert í gögnum málsins sem styður að stefnandi hafi runnið eða honum skrikað fótur vegna vætu. Málatilbúnaður þessi beri þess öll merki að vera búinn til eftirá til að styðja skaðabótakröfu stefnanda.
Verði talið að tímabundin fjarlæging fallvarna hafi verið saknæm háttsemi er á því byggt að stefnandi verði, sökum eigin sakar, að bera meint tjón sitt að öllu leyti sjálfur.
Stefnandi hafi vitað vel að fallvarnir hefðu verið fjarlægðar og hafi tekið þátt í fjarlægingu þeirra. Honum bar því að haga sér í samræmi við aðstæður og gæta þess sérstaklega að fara ekki of nálægt svalabrúninni. Í öllu falli var engin ástæða til að ganga afturábak í átt að brún þeirra eða teygja sig fram af brúninni. Slíkt háttalag sé stórkostlega gálaust í ljósi þess að stefnandi vissi að engar fallvarnir væru á svalabrúninni og að ekkert kæmi í veg fyrir að hann félli þar fram af færi hann of nálægt.
Sú háttsemi stefnanda sem leiddi til óhappsins hafi því verið þarflaus, gálaus og augljóslega þannig að miklar líkur yrðu á því að mikið tjón gæti orðið.
Stefndi bendir sérstaklega á að tjónsatvikið hafi orðið fyrir gildistöku laga nr. 124/2009 sem gerðu stórkostlegt gáleysi að skilyrði þess að bótaréttur starfsmanns, sem verður fyrir líkamstjóni í starfi sínu, skerðist eða falli niður sökum eigin sakar.
Eigin sök stefnanda sé mikil og á því aðallega byggt að réttur hans til greiðslu skaðabóta úr hendi […] falli með öllu niður. Til vara er byggt á því að reglur um eigin sök leiði til þess að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur.
Auk eigin sakar byggir varakrafa stefnda á að skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu ekki fyrir hendi.
Við uppgjör skaðabóta vegna varanlegs líkamstjóns sé leitast við að bæta tjónþola þær tekjur sem líkur eru á að hann verði af vegna örorku sinnar. Líkindaútreikningur sem þessi sé ýmsum annmörkum háður og til að koma í veg fyrir að meta þurfi tjónið með flóknum útreikningum í hverju tilviki fyrir sig hafi, með skaðabótalögum, verið settar fram staðlaðar reglur um útreikninginn.
Meginregluna um þau laun sem miða skal við að tjónþoli hefði haft í framtíðinni sé að finna í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt greininni skuli árslaun til ákvörðunar bóta skv. 6. gr. laganna teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
Það sé stefnandi sem byggi hins vegar á undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. og beri honum samkvæmt almennum reglum skaðabótalaga að færa sönnur á fjárhæð tjóns síns. Sönnunarbyrði um að skilyrðum 2. mgr. 7. gr. sé fullnægt hvíli því alfarið á stefnanda.
Skilyrði beitingar 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu í grunninn tvö. Stefnandi hafi ekki sannað að aðstæður hafi verið óvenjulegar og að það leiði til þess að ekki gefist rétt mynd af framtíðartekjum hans við að skoða tekjur hans síðustu þrjú ár fyrir slys. Hið sama gildi um það skilyrði að til sé annað og betra viðmið sem gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola.
Stefnandi hafi verið 36 ára á slysdegi og hafði ekki aflað sér sérstakra starfsréttinda. Stefnandi hafi, líkt og fram komi í stefnu, einungis verið búinn að búa á Íslandi í um 8 mánuði og gögn málsins beri ekki með sér að hann hafi verið búinn að skjóta hér rótum; stofna hér fjölskyldu, kaupa hér fasteign eða annað slíkt. Þvert á móti flutti stefnandi af landi brott fljótlega eftir slysið og virðist ekki hafa mikil tengsl við landið. Stefnandi var að vinna uppsagnarfrest hjá […] er slysið varð og allt bendi til þess að hann hefði flutt af landi brott eftir efnahagshrunið árið 2008 líkt og fjöldi annarra erlendra verkamanna. Verði því ekki annað séð en að tímabil þar sem stefnandi starfaði hluta tímans erlendis og hluta hans hér á landi geti gefið raunsanna mynd af líklegum framtíðartekjum hans.
Að auki bendir stefndi á að ekki sé óalgengt að tjónþolar hafi hærri laun en ella á einhverjum tímabilum starfsævinnar. Það sé ekki óeðlilegt að tekjur manna sveiflist til, sérstaklega ekki þegar þeir ferðast milli landa til að stunda atvinnu. Engu breytir við útreikning skaðabótakröfu fyrir líkamstjón þó að tjón hafi orðið á slíku tímabili. Sérstaklega ekki ef allt bendir til þess að því tímabili hafi verið við það að ljúka.
Stefnandi hafi því ekki sannað að nokkuð hafi verið óvenjulegt við þrjú síðustu tekjuár fyrir slys. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að ætla megi að þau gefi góða mynd af því sem búast mátti við í framtíðinni. Þar sem laun stefnanda á þessu tímabili voru lægri en mælt sé fyrir um í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri því að miða við lágmarkslaun þau sem þar eru tilgreind.
Stefndi telur ósannað að meðallaun íslenskra karlkyns verkamanna séu betri mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda en tekjur hans sjálfs síðustu þrjú ár fyrir slys.
Í fyrsta lagi nái ekki allt verkafólk meðalárslaunum verkamanna á starfsævinni og ekkert sérstakt sem bendir til þess að stefnandi myndi ná þeim launum, þó að slysið hefði ekki orðið. Stefnandi hafi einfaldlega ekki sýnt fram á að til þess séu meiri líkur en minni, að hann hefði náð meðaltekjum verkamanna í framtíðinni, ef slysið hefði ekki orðið. Þá hafi stefnandi ekki sannað né gert líklegt að hann hefði starfað á íslenskum vinnumarkaði sem verkamaður út starfsævina, en gögn málsins bendi ekki til þess.
Loks telja stefndu rétt, ef miða á við meðalvinnutekjur starfstéttar á annað borð, að miða beri þá við meðalvinnutekjur þriggja síðustu ára fyrir slys í takt við meginregluna í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá beri að miða við meðallaun starfstéttarinnar óháð kyni en ekki eingöngu við meðallaun annars kynsins. Annað sé í andstöðu við meginreglu laga um jafnan rétt karla og kvenna og næsta augljóst að launamismunur sá sem stefnandi er að reikna sér muni ekki haldast út starfsævi stefnanda.
Varakrafa byggir að lokum á að fjárhæð greiðslu stefnda úr slysatryggingu launþega sem draga ber frá skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé ranglega tilgreind í stefnu.
Í stefnu sé ekki dregið frá skaðabótakröfunni fjárhæð sem jafngildir þeim hluta slysadagpeninga sem stefndi fékk greidda, úr slysatryggingu þeirri sem […] greiddi fyrir hann, sem varið var til greiðslu tekjuskatts. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón séu tekjuskattsskyldar og er sú fjárhæð því hluti þeirra slysabóta sem greiddar voru til stefnanda í skilningi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Vaxtakröfum stefnanda er mótmælt enda séu vextir eldri en 4 ára við birtingu stefnu fyrndir.
Dráttarvaxtakröfu er mótmælt á þeim grundvelli að ekki hafi legið fyrir allar þær upplýsingar sem til þurfti til að ákvarða bætur til stefnanda er kröfubréf var fyrst sent stefnda enda þar eingöngu miðað við að launaviðmið yrði meðallaun karlkyns verkamanna og upplýsingar til að reikna kröfuna út miðað við annan grundvöll lágu ekki fyrir.
Sýknukröfu sína kveðst stefndi byggja á almennum ólögfestum reglum skaðabótaréttar utan samninga, skaðabótalögum nr. 50/1993 og lögum um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.
Málskostnaðarkröfu byggi stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Stefnandi gaf skýrslu símleiðis frá […], þá gáfu skýrslu vitnin Steinar Harðarson, fyrrverandi starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins, Gunnar Halldór Sigurjónsson, lögreglumaður, Stefán Ragnar Þórðarson, verkstjóri á slysstað og Sigurjón H Steindórsson, pípulagningamaður. Framburður þessara verður rakinn síðar í meginatriðum.
Fyrir utan frásögn stefnanda sjálfs af slysinu var einungis einn sjónarvottur af því líkt og rakið verður síðar. Stefnandi ber eins og háttar til í málinu sönnunarbyrðina fyrir því að slysið hafi orðið með þeim hætti sem hann lýsir. Ekkert hefur þannig komið fram í málinu sem gefur ástæðu til að snúa sönnunarbyrði við að einhverju leyti.
Málsatvik eru um margt óljós og ekki hjálpar það til við úrlausn málsins hversu langur tími er liðinn frá slysinu eða nú hartnær átta og hálft ár. Haft var eftir stefnanda í lögregluskýrslu sem gerð var sama dag og slysið varð, að hann hafi verið að bera inn efni í íbúð 206 í húsinu við […], þegar hann hafi fallið aftur fyrir sig. Stefán Ragnar Þórðarson verkstjóri, sem tilkynnti um slysið bar á sama veg og nefndi sömu íbúð. Í skriflegri tilkynningu frá […]. um slysið til Vinnueftirlitsins 17. nóvember 2008 er rætt um að stefnandi hafi verið að undirbúa móttöku á gipsplötum þegar honum hafi orðið fótaskortur og fallið niður af 3. hæð svala á húsinu. Það er á skjön við önnur gögn málsins sem bera með sér að stefnandi hafi fallið af annarri hæð. Þá hefur lögmaður stefnda fullyrt fyrir dómnum að í stefnu þess máls sem fyrst var höfðað um kröfuna hafi málsatvikum verið lýst með öðrum hætti en gert sé í stefnu þessa máls. Lögmaður stefnanda mótmælti slíkri tilvísun þar sem stefnan hefði ekki verið lögð fram í þessu máli og fallið hafi verið frá kröfum á grundvelli hennar. Þetta gefur þó til kynna hversu óljós atvik málsins eru. Þá telur stefndi að í stefnu þessa máls sé í fyrsta skipti gefið til kynna að væta á vettvangi hafi verið meðverkandi þáttur í falli stefnanda, en því hafi ekki verið hreyft áður. Það er reyndar ekki nákvæmt því í málsskoti til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 14. janúar 2010 er nefnt að á slysdegi hafi verið rigning og undirlag því sleipt, en samt þó ekki byggt á því að það hafi verið meðorsök slyssins. Í sama bréfi kemur hins vegar fram að starfsmenn og þar með stefnandi hafi ekki verið að flytja inn gipsplötur. Sú vinna hafi klárast tveimur dögum áður og þess vegna hafi ekkert réttlætt að fallvarnir hafi ekki verið komnar aftur á sinn stað. Í bréfinu er þess þó ekki getið hvað starfsmennirnir voru þá að gera umrætt sinn.
Í vottorðum Yngva Ólafssonar yfirlæknis er sú lýsing á slysinu, sem virðist byggja á upplýsingum úr sjúkraskýrslu á slysdegi, að stefnandi hafi dottið úr stillans við vinnu sína í haugi í húsbyggingu um 3-4 metra, og borið fyrir sig vinstri handlegg í fallinu. Sú lýsing gefur til kynna að stefnandi hafi þá dottið fram fyrir sig eða á hlið eins og styðst við önnur gögn málsins og framburð stefnanda sjálfs fyrir dómi. Jafnframt virðist hún vera í samræmi við lýsingu eina sjónarvottsins.
Í skýrslu sinni fyrir dómnum þvertók stefnandi fyrir að slysið hefði orðið þegar hann hafi verið að bera inn gipsplötur. Slysið hafi orðið þegar hann var að setja ásamt vinnufélaga upp vatnsrennur við nýbygginguna. Hann fullyrti að frágangi gipsplatnanna hefði verið lokið líkast til tveimur dögum áður. Hann kvaðst hafa í umrætt sinn verið að kallast á við vinnufélaga sinn varðandi festingu á rennunum og líkast til stigið aftur í átt að brúninni til þess og jafnvel horft upp, þar sem hann kvaðst ekki hafa getað náð sambandi við hann í gegnum gat á svalaþakinu. Stefnandi neitaði því að við hann hefði verið rætt á slysstað eða eftir slysið. Færsla lögreglu í skýrslu þess efnis að hann hafi verið að koma gipsplötunum fyrir sé því ekki eftir honum haft og beinlínis röng. Stefnandi kvaðst enda ekki tala neina íslensku sem heitið gæti og ekki ensku. Við ritun skjala í málinu á ensku frá honum hafi hann notið aðstoðar vinar og vinkonu eiginkonu sinnar. Stefnandi kvaðst ekki hafa sjálfur fjarlægt fallvarnir en séð þegar það var gert og vissi því að þær skorti. Hann mundi ekki hvenær dags slysið varð en taldi þó að það hafi verið fyrir hádegi. Hann kvaðst hafa verið búinn að vinna við rennuuppsetninguna í tvo til þrjá tíma þennan dag. Hann minnti að komið hefði verið nærri lokafrágangi við húsið. Þá greindi hann frá því að hann hefði dottið á hlið niður en í fallinu hafi hann reynt að teygja sig í vinnupall. Læknir hafi sagt honum að líkast til hefði höndin sem brotnaði tekið af mesta höggið.
Steinar Harðarson, starfsmaður Vinnueftirlitsins, staðfesti að hafa gert skýrslu í málinu og að ljósmyndir sem henni fylgdu hafi verið teknar á slysdegi.
Gunnar Halldór Sigurjónsson lögreglumaður, sem var annar þeirra sem kom á slysstað kannaðist við skýrslu sína um málið. Sjúkrabíll hafi verið kominn þegar lögreglu bar að garði og sjúkraflutningamenn verið að hlúa að stefnanda. Bæði vitnið og félagi hans ræddu við stefnanda en þó aðallega vitnið. Hann minnti að samtalið hefði farið fram á ensku. Stefnandi hafi talað um að hann hafi verið að bera inn efni og dottið aftur fyrir sig. Ljósmyndir sem voru teknar á vettvangi hafi verið teknar á slysdegi. Vitnið áréttaði að það sem kæmi fram í lögregluskýrslu hefði verið haft beint eftir stefnanda.
Stefán Ragnar Þórðarson, sem var verkstjóri á vinnustaðnum, gerði alvarlegar athugasemdir við það að þurfa að koma fyrir dóm eftir allan þennan tíma og bar að hluta til við minnisleysi. Hann sagði þó alveg klárt að þarna hefði verið unnið við að taka inn gipsplötur. Það hafi ekki verið hægt að gera nema í gegnum svalirnar og því hafi verið nauðsynlegt að taka niður fallvarnir tímabundið meðan það verk væri klárað. Stigagangurinn hafi verið of þröngur.
Eini sjónarvotturinn að slysinu var Sigurjón H. Steindórsson. Sigurjón starfaði þarna fyrir undirverktaka við pípulögn. Hann hafði brugðið sér út fyrir í reykpásu og kvaðst hafa staðið u.þ.b. 15 metra frá slysstaðnum og snúið í áttina að stefnanda þar sem hann var við vinnu. Hann var mjög ákveðinn með það hvernig slysið hafi atvikast og lýsti því þegar hann hafi séð stefnanda taka í stoð og stíga niður af svölunum á vinnupall sem var þarna við hliðina. Þar hafi honum skrikað fótur og hann hrapað niður á jörðina. Vitnið hljóp að stefnanda og var hrætt um að hann væri jafnvel allur miðað við aðstæður. Vitnið veitti því enga athygli við hvað stefnandi hafi verið að vinna.
Óumdeilt er að fallvarnir skorti í umrætt sinn vegna þess að þær höfðu verið fjarlægðar. Af gögnum málsins er ekki óvarlegt að ólykta að þetta hafi verið vegna þess að verkið varð ekki framkvæmt með öðrum hætti sbr. til dæmis framburð Stefáns verkstjóra. Hugsanlega hefði mátt koma við öðrum fallvörnum en engin gögn gefa til kynna í hverju þær hafi getað falist. Ekki verður hins vegar séð að skort hafi á verkstjórn í umrætt sinn. Sumar aðstæður eru þess eðlis að gera verður þá kröfu að góður og gegn maður átti sig án mikillar umhugsunar á því að hætta geti stafað af þeim aðstæðum sem upp koma, og ekki verði gerð krafa um sérstakt eftirlit eða leiðbeiningar hverju sinni. Sérstaklega á þetta við þegar vinnustaður er í eðli sínu frekar hættulegur eins og títt er um nýbyggingar. Fram er komið að stefnandi gerði sér fulla grein fyrir því að fallvarnir hefðu verið fjarlægðar af nauðsyn. Ósannað er að þær hafi skort lengur en nauðsyn krafði. Því er ekki fallist á þann framburð stefnanda að því verki sem kallaði á þessar ráðstafanir hafi verið lokið einhverju fyrr. En gögn málsins og framburðir vitna benda eindregið til kynna hið gagnstæða og að stefnandi hafi verið að bera í hús gipsplötur í umrætt sinn.
Tekið skal undir með stefnanda að ef slysið yrði talið rakið til þess beint að fallvarnir skorti, þá skipti engu máli hvernig stefnandi féll niður af svölunum. Á hinn bóginn skiptir það máli við mat á trúverðugleika stefnanda hvernig hann hefur borið um það atriði, líkt og um önnur í málinu.
Eins og fyrr segir er það ekki heppilegt fyrir sönnunarfærslu í máli sem þessu að aðalmeðferð fyrir dómi fari fram rúmum átta árum eftir meint bótaskylt atvik. Á þessum töfum eru ekki sjáanlegar skýringar og stefnandi verður látinn bera halla af þessum mikla drætti.
Eins og að framan greinir þá hefur stefnandi verið nokkuð reikandi í lýsingum á slysinu og umgjörð málsins að öðru leyti. Ekki verður hjá því horft að það er fyrst við aðalmeðferð málsins sem stefnandi lýsir atvikum með þeim hætti að hann hafi verið að vinna við að setja upp regnvatnsleiðslur til að taka við regnvatni af þaki hússins. Þetta er á skjön við önnur gögn málsins. Ekki var leitað eftir framburði þess aðila sem vann, að sögn stefnanda, verkið með honum. Þá þvertekur stefnandi fyrir að hafa rætt um slysið við aðila á vettvangi. Það er á skjön við framburð lögreglu, sbr. framangreint. Einnig hefur stefnandi ekki útskýrt, eftir því sem best verður séð, eða mótmælt á fyrri stigum, lýsingum Yngva Ólafssonar yfirlæknis á tildrögum slyssins sem eins og fyrr segir eru fremur í átt framburðar eina sjónarvottsins. Gera má ráð fyrir því að þær séu hafðar eftir stefnanda. Stefnandi hefur borið því við að tungumálaörðugleikar hafi orðið til þess að atvikum málsins hafi ekki verið rétt lýst í fyrstu. Þótt það sé ósannað, og til að mynda ekki teknar skýrslur af þeim aðilum sem eiga að hafa aðstoðað hann við að rita ágætan enskan texta samkvæmt framlögðum gögnum, verður ekki fallist á að þetta geti skipt máli. Burtséð frá sönnun hér, þá leitaði stefnandi til lögmanns strax um átján dögum eftir slysið og þá þegar hefði verið hægt að bæta úr þeim atriðum sem talið var að hefðu misfarist. Þótt það skuli ekki dregið í efa að því hafi verið öfugt farið, hafa þó engin gögn verið lögð fram í málinu um að samskipti hafi verið milli stefnanda og lögmanns hans um margra ára skeið til að reyna að staðreyna eins og hægt væri atvik máls, þótt fyrrnefnt málskot til úrskurðarnefndar gefi það til kynna.
Dómurinn telur að þegar gögn málsins og framburðir fyrir dómi eru metin heildstætt verði að telja ósannað að fall stefnanda hafi borið að með þeim hætti sem hann lýsti fyrir dómi. Hugsanlega mætti undir vissum kringumstæðum byggja bótaskyldu á framburði eins og þeim sem stefnandi gaf við aðalmeðferð málsins og lýsir málsatvikum með nýjum hætti. Það sem hins vegar girðir fyrir það í þessu máli er að eini maðurinn sem staðhæfir að hafa séð slysið mjög greinilega ber öðruvísi um atvik heldur en stefnandi. Af skýrslu vitnisins Sigurjóns verður þannig ráðið að stefnandi hafi verið að reyna að komast niður af svölunum eftir leið sem var varasöm og vafalaust ekki ætluð til slíks brúks. Af ljósmyndum verður ráðið að nokkur hæð hafi verið frá svalagólfi niður á vinnupallinn sem stóð við hlið svalanna. Ekki eru nein efni til að draga trúverðugleika vitnisins í efa sem sá hvar stefnanda skrikaði fótur á þessu ferðalagi og það hafi verið meginorsök slyssins. Þær fallvarnir sem voru til staðar, og er þá horft til þeirra fallvarna sem ekki höfðu verið fjarlægðar og sjá má á ljósmyndum í málinu, hefðu því ekki getað varnað slysinu miðað við ásetning stefnanda umrætt sinn. Með vísan til ósamræmis í framburði stefnanda og gagna málsins, en einkum ef litið er til framburðar sjónarvotts, verður því talið ósannað að slysið hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi byggir á og að skortur á fallvörnum hafi þannig verið orsök slyssins. Því þarf ekki að fjalla um þá ábyrgð sem sá skortur gæti ella fellt á vinnuveitandann, þar sem orsakatengsl skortir. Orsökina megi fremur rekja til óhappatilviks í kjölfar þess að stefnandi tók sjálfur ákvörðun um að stíga niður á vinnupallinn.
Þegar af þessari ástæðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda og því verður eðli máls samkvæmt ekki fjallað um fjárkröfur hans.
Rétt er miðað við málsatvik að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn fyrir héraðsdómi, samkvæmt leyfi útgefnu 6. nóvember 2013 og því greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans sem telst hæfileg miðað við umfang málsins 1.350.000 krónur.
Fyrir hönd stefnanda flutti málið Haukur Freyr Axelsson héraðsdómslögmaður og fyrir hönd stefnda, Heiðar Örn Stefánsson hæstaréttarlögmaður.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfum stefnanda A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.350.000 krónur.