Hæstiréttur íslands

Mál nr. 516/2016

Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari)
gegn
X (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)

Lykilorð

  • Ákæra
  • Líkamsárás
  • Skilorð

Reifun

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist á A og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, bak og brjóstkassa með þeim afleiðingum meðal annars að hún hlaut mar í andliti og sár á augabrún. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ákvörðun ákæruvalds um að höfða málið fælist beiting þess á valdheimildum á grundvelli laga og gæti hún eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla. Til refsimildunar var litið til þess að X hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Til refsiþyngingar var hins vegar horft til þess að brotið hafði beinst gegn eiginkonu hans, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, að þessu frágengnu að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins og loks að refsing verði milduð.

Af hálfu ákærða eru bæði frávísunarkrafa hans og krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reistar á því að héraðsdómari hafi átt að taka efnislega afstöðu til þess hvort fyrir hendi hafi verið almenningshagsmunir samkvæmt 2. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til útgáfu ákæru í máli þessu. Ákæruvaldið mat það svo að almenningshagsmunir krefðust þess að mál þetta yrði höfðað. Sú ákvörðun felur í sér beitingu ákæruvalds á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 14. mars 2011 í máli nr. 140/2011 og 26. október 2011 í máli nr. 578/2011. Verður framangreindum kröfum ákærða því hafnað.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður ekki litið til yfirlýsingar brotaþola um andstöðu sína við höfðun málsins. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 382.416 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni 1. mars sl., á hendur X, kennitala [...], [...] í [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 6. desember 2014, ráðist á A, eiginkonu sína, á heimili þeirra að [...] í [...], slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, bak og brjóstkassa, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar víðs vegar í andliti, bólgu yfir bæði augu, sár á hægri augabrún og eymsl á brjóstkassa, í hársverði og á baki.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Verjandi ákærða krefst þess aðallega að málið verði fellt niður, en til vara að því verði vísað frá dómi. Til þrautavara er krafist sýknu. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar sér til handa.

I

                Samkvæmt skýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð hennar við [...] bensínstöð að [...] þar sem statt var fólk sem hafði flúið af heimili sínu að [...] vegna heimilisofbeldis. Hitti lögregla þar fyrir B og C sem lýstu því að þau hefðu flúið út þar sem faðir B væri ölvaður og hefði ráðist á þau, en það væri vani á föstudögum að hann væri með læti vegna ölvunar. Upplýsti B að móðir hennar væri á heimilinu og bað hún lögreglu um að athuga hvort ekki væri allt í lagi með hana. Á sama tíma barst önnur tilkynning þar sem þess var óskað að lögregla færi að [...] þar sem eiginkonan væri flúin af heimilinu. Er lögregla kom þangað var A fyrir utan húsið og segir í skýrslunni að hún hafi verið blóðug og marin í andliti, henni hafi verið mikið niðri fyrir og virst mjög hrædd. Hún sagði að eiginmaður hennar, ákærði, hefði ráðist á hana og meðan á barsmíðunum hafi staðið hafi hann sagst ætla að drepa hana. Sjáanlegir áverkar á A voru mar í andliti og bólga á báðum augum. Þá blæddi úr hægri augabrún hennar, auk þess sem hún kvartaði undan eymslum í brjóstkassa, á brjóstum, í hársverði og á baki. Peysa hennar var rifin og blóðug og hártægjur á baki peysunnar. Ákærði sat inni í stofu og var skyrta hans blóðug og fráhneppt að neðan. Hann var greinilega undir áhrifum áfengis. Var ákærði handtekinn og færður á lögreglustöð. Við skoðun á íbúðinni að [...] komu í ljós blóðblettir í stofu og eldhúsi. Klappstóll var brotinn á gangi við eldhúsið og glerkanna brotin á gólfi í herbergi B. Salernishurð var brotin að neðan eftir spörk. Brotið jólaskraut lá á forstofugólfi. A var flutt á slysadeild og lögð þar inn vegna hugsanlegrar heilablæðingar.

                Í málinu liggja fyrir ljósmyndir af áverkum á A sem teknar voru á vettvangi. Má þar sjá verulega áverka í andliti hennar og blóð, auk þess sem blóðtaumur liggur frá augabrún. Þá er peysa hennar blóðug víðs vegar og má sjá hártægjur á bakhliðinni. Á ljósmyndum af ákærða sem teknar voru hjá lögreglu má sjá blóð á skyrtu hans, en neðri hluti hennar er fráhnepptur. Þá liggja fyrir myndir af vettvangi þar sem sjá má brotna hurð og blóðbletti.

                Af hálfu verjanda ákærða var lögð fram yfirlýsing A, dags. 14. mars 2016, þar sem fram kemur að ákæran í málinu hafi ekki verið gefin út að hennar kröfu eða beiðni og hún fari gegn vilja hennar. Þá lýsir hún því að verði málinu haldið til streitu muni hún ekki mæta fyrir dóm eða gefa skýrslu vegna málsins. Þá frábiðji hún sér afskipti hins opinbera af einkalífi þeirra hjóna og mótmæli því að ákæruvaldið eigi forræði málsins.

                Fyrir dómi neitaði ákærði að tjá sig um málið.

                Við aðalmeðferð málsins var haft símasamband við B, dóttur ákærða, þar sem hún var stödd erlendis. Hún skoraðist undan því að gefa skýrslu í málinu, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Þá mætti C, tengdasonur ákærða, fyrir dóminn, en skoraðist jafnframt undan því að gefa skýrslu með vísan til sama ákvæðis.

                A mætti ekki fyrir dóminn en haft var símasamband við hana að ósk ákæruvaldsins til staðfestingar á því að hún hygðist ekki gefa skýrslu í málinu. Skýrði hún þá frá því að hún skoraðist undan því að gefa skýrslu í málinu, samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, og stæði við skýrslu sína hjá lögreglu. Þá gerði hún grein fyrir ástæðu þessarar afstöðu sinnar og vísaði til yfirlýsingar sinnar frá 14. mars sl.

                Vitnið D lögreglumaður kvaðst muna vel eftir þessu máli. Lögreglumenn hafi verið kallaðir að sjoppu við [...] þar sem þeir hafi hitt dóttur og tengdason ákærða vegna heimilisófriðar. Þau hafi lýst því að þetta væri alvanalegt á föstudagskvöldum. Þeir hafi síðan verið kallaðir að heimili ákærða. Eiginkona ákærða hafi þar komið stökkvandi fyrir bifreiðina og sagt að maðurinn hennar ætlaði að drepa hana. Hún hafi verið blóðug, stokkbólgin á báðum augum og blætt hafi úr augabrún. Ákærði hafi setið í stofunni en hafi veist að lögreglumönnum er þeir hafi komið inn. Íbúðin hafi verið snyrtileg fyrir utan merki um átök, svo sem brotna hurð og stól. Eiginkona ákærða hafi lýst því að átökin hafi byrjað í eldhúsi og færst inn í stofu. Þar hafi ákærði legið á henni, veitt henni 20-40 högg og margoft sagt að hann ætlaði að drepa hana. Hann hafi ekki hætt fyrr en hann hafi örmagnast. Vitnið kvaðst hafa fylgt eiginkonu ákærða á slysadeild þar sem hún hafi verið lögð inn vegna hugsanlegrar heilablæðingar. Hún hafi verið mjög miður sín og hrædd og óskað eftir því að lögreglan veitti henni alla mögulega aðstoð.

                Vitnið E lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang umrætt sinn. Búið hafi verið að tryggja vettvang að mestu er hann hafi komið og ákærði hafi setið inni í stofu. Ljóst hafi verið að mikið hafi gengið á. Blóð hafi verið sjáanlegt og innanstokksmunir hafi kastast til. Ákærði hafi verið handtekinn og þurft hafi að taka hann tökum til að yfirbuga hann en hann hafi verið mjög drukkinn og viðskotaillur. Hann hafi haft minni háttar áverka á hnúum. Vitnið kvaðst hafa séð eiginkonu ákærða á vettvangi. Hún hafi verið blóðug og fatnaður hennar tættur. Hann kvað sig minna að búið hefði verið að rífa hressilega í hárið á henni.

                Vitnið F lögreglumaður tók skýrslu af eiginkonu ákærða, A. Hún hafi ekki viljað leggja fram kæru og lýst því að þau hjónin væru að vinna í sínum málum. Hún hafi greint frá því að þau hefðu umrætt sinn verið á jólahlaðborði. Ákærði hafi verið orðinn ölvaður en þá yrði hann mjög erfiður. Hann hafi ráðist að henni og látið höggin dynja á andliti hennar og höfði. Dóttir hennar og tengdasonur hafi verið farin út áður en þetta hafi átt sér stað. Hún hafi lýst því að hún hafi dvalist yfir nótt á spítala vegna gruns um blæðingu inn á heila. Hún hafi ekki viljað veita lögreglu aðgang að læknisfræðilegum gögnum vegna málsins.

                Vitnið G lögreglumaður, sem tók skýrslu af ákærða daginn eftir atburðinn, greindi frá því að hann hefði sagst muna lítið eftir kvöldinu. Hann hefði sagt að ef eiginkona sín greindi frá þessum atburðum væri það rétt. Hann hafi verið þreyttur, blóðugur og í uppnámi. Hann hafi greint frá því að hann væri ekki með opið sár og blóðið á honum væri því úr öðrum.

  II

                Ákærði krefst þess aðallega að málið verði fellt niður, en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Byggir hann það á því að ekki liggi fyrir kæra af hálfu brotaþola. Í máli þessu er ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins höfðar ákæruvaldið mál út af brotum samkvæmt 1. mgr. og skal það ekki gert nema almenningshagsmunir krefjist þess. Í þessu máli hefur ákæruvaldið, að lokinni rannsókn málsins, metið það svo að skilyrði væru til útgáfu ákæru samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008. Eðli málsins samkvæmt sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun dómstóla og verður kröfu ákærða um niðurfellingu eða frávísun málsins af þessum sökum hafnað.

                Ákærði neitar sök. Hann kaus að tjá sig ekki fyrir dómi um það sem honum er gefið að sök. Brotaþoli, sem er eiginkona ákærða, dóttir hans og tengdasonur skoruðust öll undan því að gefa skýrslu fyrir dómi. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 27. febrúar 2015 og símaskýrslu 8. desember sama ár. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þó getur skýrsla vitnis hjá lögreglu haft sönnunargildi þótt vitnið komi ekki fyrir dóminn ef þess er ekki kostur við meðferð málsins, sbr. 3. mgr. 111. gr. Í greinargerð með framangreindu ákvæði er orðalagið „þess er ekki kostur“ skýrt svo að það geti tekið til þess þegar vitni er svo alvarlega veikt að það gæti stofnað heilsu þess í hættu að koma fyrir dóm til skýrslugjafar, þegar vitni er horfið og ekki er vitað hvar það er niðurkomið eða þegar það neitar að gefa skýrslu fyrir dómi samkvæmt 117. gr. laganna. Brotaþoli mætti ekki fyrir dóminn þrátt fyrir boðun en sagði í símtali við dóminn að hún skoraðist undan því að gefa skýrslu. Þá hafði hún jafnframt lýst því yfir 14. mars sl. að hún myndi ekki mæta. Með hliðsjón af framangreindu þykir verða að líta svo á að þess hafi ekki verið kostur að fá vitnið fyrir dóminn í skilningi 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008.

                Ef þess er ekki kostur að vitni komi fyrir dóminn metur dómari hvort skýrsla fyrir lögreglu hafi sönnunargildi og hvert það sé. Í málinu liggur fyrir hljóðupptaka af skýrslum brotaþola hjá lögreglu. Í framburði brotaþola fyrir lögreglu 27. febrúar 2015 kom fram að brotaþoli vildi ekki leggja fram kæru í málinu. Hún lýsti því hins vegar hvað hefði gerst umrætt kvöld og var lýsingin á þann veg að ákærði hefði slegið hana, setst klofvega yfir hana á gólfinu og látið höggin dynja á henni með hnefum í höfuð og bringu. Þá greindi hún frá því að hún hefði fengið smávægilega blæðingu inn á heila sem hefði gengið til baka. Í símaskýrslu 8. desember 2015 lýsti hún óbreyttri afstöðu til kæru. Þá kvaðst hún myndi koma áverkavottorði til lögreglu, en henni snerist síðar hugur og heimilaði lögreglu ekki aðgang að læknisfræðilegum gögnum.

                Fyrir liggur að við handtöku ákærða var hann blóðugur og með áverka á hnúum. Af ljósmyndum í málinu má sjá talsvert blóð á honum en hann virðist ekki hafa haft nein sár sem blæddi úr. Af myndum af brotaþola frá umræddu kvöldi má sjá ýmsa áverka sem samrýmast ákæru. Þá hafa lögreglumenn lýst áverkum sem þeir sáu á henni.

                Lögreglumennirnir lýstu því með skýrum hætti hvernig aðkoman var á vettvangi umrætt sinn. Þar hafi verið ýmis ummerki eftir átök og blóðblettir. Brotaþoli hafi lýst árás ákærða og borið merki þess sem hefði gerst. Þá lýstu lögreglumenn skýrslutökum af ákærða og brotaþola.

                Með hliðsjón af framburði lögreglumanna hér fyrir dómi, ljósmyndum af ákærða, brotaþola og vettvangi, sem og öðrum málsgögnum, auk þess sem hliðsjón verður höfð af því sem fram kom hjá brotaþola við skýrslugjöf hjá lögreglu þykir sannað að ákærði hafi veist að brotaþola umrætt sinn eins og lýst er í ákæru og veitt henni þá áverka sem þar er lýst. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákæru og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur í [...] 1954. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga en líkamsárás ákærða beindist gegn eiginkonu hans. Þá verður litið til þess að um alvarlega líkamsárás var að ræða, en jafnframt til framlagðrar yfirlýsingar brotaþola. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl., 245.520 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en ekki hlaust annar kostnaður af meðferð málsins.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:      

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingarinnar skal frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hrl., 245.520 krónur.