Hæstiréttur íslands
Mál nr. 639/2015
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Sakarskipting
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2015. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 33.377.380 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 27. febrúar 2013 til 15. júní 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 24. júní 2014 að fjárhæð 3.906.093 krónur og 22. október 2015 að fjárhæð 2.135.439 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi slasaðist áfrýjandi 27. febrúar 2013 við vinnu hjá stefnda B ehf. á starfsstöð félagsins á […] en það var með frjálsa ábyrgðartryggingu atvinnurekenda hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Var áfrýjandi ásamt tveimur samstarfsmönnum að undirbúa svokallaða kerskel til hífingar en samkvæmt gögnum málsins var hún á annan tug tonna að þyngd. Hvíldi kerskelin á vagni sem flutti hana inn á verkstæðið og var botn hennar kúptur. Var verið að vinna við að lagfæra kerskelina og þurfti að hífa hana af vagninum og koma henni fyrir í gryfju. Við hífinguna voru notaðir tveir kranar sem voru staðsettir fyrir ofan hvorn enda kerskeljarinnar og voru samstarfsmenn áfrýjanda við hinn endann. Á krók hvors krana var hengt svonefnt herðatré sem festa þurfti við kerskálina en það var sérstaklega útbúið til þessa verkefnis.
Til að festa herðatréð við kerskelina þurfti að reka kólf í gegnum göt á henni inn í mótlæg göt á herðatrénu beggja vegna. Kólfurinn sem var 60 millimetrar í þvermál var fastur í þar til gerðum sleða við herðatréð með handfangi sem notað var til að ýta honum í gegnum götin. Annar endi herðatrésins hafði verið festur við kerskelina og var áfrýjandi að koma kólfinum fyrir á hinum enda herðatrésins þegar hann slasaðist. Til þess að reyna að stilla götin saman þannig að kólfurinn kæmist í gegn hafði áfrýjandi sett hægri þumalfingur sinn í gatið á herðatrénu, sem var opið á þeim tíma sem slysið varð. Þegar hann hafði sett fingurinn í gatið kom hreyfing á kerskelina með þeim afleiðingum að sá endi hennar sem áfrýjandi var að vinna við féll niður og herðatréð sem fast var við hinn endann dróst upp og þumalfingur áfrýjanda nánast klipptist af. Ekki liggja fyrir í málinu óyggjandi gögn um hvað varð þess valdandi að hreyfing kom á kerskelina.
Í málinu er ekki ágreiningur um afleiðingar slyssins heldur deila aðilar um bótaskyldu stefnda B ehf. og eigin sök áfrýjanda. Ef bótaskylda telst vera fyrir hendi er ágreiningur um við hvaða laun skuli miða í útreikningi bóta vegna varanlegrar örorku.
II
Daginn eftir slysið kannaði Vinnueftirlitið aðstæður á slysstað. Var niðurstaða rannsóknar Vinnueftirlitsins að rekja mætti orsök slyssins til þess að áfrýjandi hafi sett fingurinn í gat á herðatrénu og þegar hreyfing hafi komið á kerskelina hafi myndast „klippiátak á fingurinn vegna þess að kerskálin var óstöðug, þar sem hún var ekki skorðuð.“ Var það mat Vinnueftirlitsins að endurskoða þyrfti áhættumat stefnda B ehf. með tilliti til slyssins.
Samkvæmt fyrirliggjandi teikningum af umræddri kerskel og vagninum sem hún stóð á var botn hennar kúptur og sat hún því á miðju kúpunnar á vagninum án þess að vera skorðuð. Í kjölfar slyssins gerði stefndi B ehf. úrbætur til að tryggja stöðugleika kerskelja í flutningi þannig að þær væru alltaf skorðaðar áður en þær væru fluttar. Þá var tekin ákvörðun um að ekki yrði unnið samtímis beggja vegna kerskeljarinnar við að koma herðatrjánum fyrir. Þetta staðfesti vitnið C fyrir héraðsdómi, en hann var verkstjóri yfir verkinu sem áfrýjandi var að vinna við. Kom fram hjá vitninu að eftir slysið hefði verið lokað fyrir götin þannig að ekki væri lengur hægt að setja fingur inn í þau auk þess sem settir hafi verið trébitar undir kerskelina á vagninum þannig að engin leið væri til að hún ruggaði. Kvað vitnið þessa aðgerð hafa verið mjög einfalda.
Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að fyrirsvarsmenn stefnda B ehf. máttu reikna með því, miðað við lögun kerskeljarinnar, að hún gæti hreyfst þegar verið væri að koma umræddum herðatrjám fyrir á henni fyrir hífingu hennar af vagninum. Þá liggur fyrir að hægt var að koma í veg fyrir að hún hreyfðist með einföldum hætti. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og sér um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustað sem hann hefur umsjón með. Þá segir í 37. gr. laganna að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta og samkvæmt 42. gr. skal vinnustaður þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Með því að ganga ekki tryggilega frá því að umrædd kerskel væri stöðug fór stefndi B ehf. ekki eftir framangreindum lagaákvæðum. Vegna þeirrar saknæmu vanrækslu sinnar ber hann skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.
Eins og að framan er rakið var það niðurstaða Vinnueftirlitsins að orsök slyssins mætti, auk óstöðugleika kerskeljarinnar, rekja til þess að áfrýjandi setti fingurinn í umrætt gat. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi liggja fyrir í málinu skrifleg gögn um að starfsmenn stefnda B ehf. hafi verið hvattir til að gæta fyllsta öryggis við vinnu sína og ein af þeim reglum sem ítrekað kemur fyrir í gögnunum lýtur að því að við hífingar skuli starfsmenn gæta sín á því að koma sér ekki í þrönga stöðu eða skotlínu með líkama eða hendur. Þá kom fram í framburði fyrrnefnds verkstjóra að vinnubrögðin sem áfrýjandi beitti hefðu ekki verið viðurkennd hjá fyrirtækinu, heldur hefði við verkið átt að nota verkfæri. Fær það stoð í framburði þeirra starfsmanna sem unnu við verkið með áfrýjanda. Auk framangreindra gagna liggur fyrir að ofan við handfang kólfsins sem áfrýjandi var að koma fyrir var áberandi þríhyrningur þar sem varað var við klemmuhættu. Verður að fallast á það með héraðsdómi að meginástæða reglna af þessu tagi við hífingar lúti að því að þungir hlutir sem verið er að hífa geti sveiflast til, færst úr stað eða fallið niður af orsökum sem erfitt getur verið að sjá fyrir. Með þessu verklagi sínu braut áfrýjandi gegn reglum vinnuveitandans þótt honum hafi mátt vera ljóst að af því gat stafað hætta. Sýndi hann af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn þannig að rétt er að hann beri tjón sitt að þriðjungi.
III
Eins og að framan greinir er hvorki ágreiningur um örorku áfrýjanda né útreikning tjóns hans nema að því er varðar bætur vegna varanlegrar örorku. Eru aðilar málsins sammála að árslaun til ákvörðunar bóta skuli metin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en þá greinir á um hver skuli vera viðmiðunarlaunin. Áfrýjandi miðar útreikning kröfu sinnar við laun þau sem hann hafði frá því að hann hóf störf hjá stefnda B ehf. í september 2012 til febrúar 2013, uppreiknuð til tólf mánaða. Stefndu telja á hinn bóginn réttara að miða við meðallaun verkamanna á slysárinu.
Þegar áfrýjandi slasaðist hafði hann starfað hjá stefnda B ehf. í rúmt hálft ár sem nemi í suðu en hann var þá tvítugur að aldri. Fyrir dómi kvaðst hann hafa hugsað sér að vera áfram í þessari vinnu og afla sér réttinda sem suðumaður. Liggur ekki fyrir í málinu hversu langt var í að hann fengi þessi réttindi eða hverju það hefði breytt varðandi laun hans en krafa hans tekur mið af þeim launum sem hann hafði sem nemi. Við þessar aðstæður eru efni til að fallast á þá viðmiðun um árslaun áfrýjanda sem hann byggir kröfu sína á.
Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda tekin til greina að 2/3 hlutum. Frá bótafjárhæðinni dragast greiðslur sem áfrýjandi fékk annars vegar 24. júní 2014 úr slysatryggingu launþega frá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að fjárhæð 3.906.093 krónur og hins vegar greiðsla 22. október 2015 frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 2.135.439 krónur, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Verða stefndu því dæmdir til að greiða áfrýjanda 18.223.899 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði eins og greinir í dómsorði. Þá verða þeir dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð en um fjárhæð málskostnaðar og gjafsóknarkostnað áfrýjanda, sem greiðist allur úr ríkissjóði, fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, B ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt áfrýjanda, A, 18.223.899 krónur með 4,5% ársvöxtum af 3.282.424 krónum frá 27. febrúar 2013 til 27. nóvember sama ár og af 22.251.587 krónum frá þeim degi til 15. júní 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til 24. sama mánaðar, af 19.647.525 krónum frá þeim degi til 22. október 2015 og af 18.223.899 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði.
Stefndu greiði óskipt í ríkissjóð 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2015.
Mál þetta, sem var dómtekið föstudaginn 29. maí sl., er höfðað 27. október 2014. Stefnandi er A, […] en stefndu eru B ehf., […] og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum óskipt skaðabætur að fjárhæð 33.377.380 krónur, með 4,5% ársvöxtum af 4.923.636 krónum frá 27. febrúar 2013 til 27. nóvember sama ár og af 33.377.380 krónum frá þeim degi til 15. júní 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.906.093 krónum sem greiddar voru af stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. úr slysatryggingu launþega 24. júní 2014. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.
Mál þetta er skaðabótamál sem rekja má til líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir er hann starfaði fyrir stefnda B ehf. (hér eftir nefnt […] til styttingar) á starfsstöð félagsins að […]. Framangreindur stefndi er ábyrgðartryggður hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (hér eftir nefnt Sjóvá til styttingar).
Lýtur deila aðila að því hvort slysið hafi borið að með þeim hætti að stefndi B eða menn sem hann ber ábyrgð á hafi valdið því með saknæmum hætti eða hvort slysið megi rekja til gáleysislegrar hegðunar stefnanda sjálfs. Verði stefnandi talinn eiga bótarétt byggja stefndu á því að stefnandi skuli bera hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Ekki er deilt um fjárhæð tjóns eða að skilyrði séu til að meta árslaun sérstaklega sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en deilt er um hvað sé rétt árslaunaviðmið í því sambandi. Þá er deilt um upphafsdag dráttarvaxta.
Dómari og lögmenn gengu á vettvang og kynntu sér aðstæður á umræddum vinnustað og voru stefnandi og vitnið C með í för. Sá síðastnefndi var verkstjóri á vinnustaðnum er slysið varð. Við aðalmeðferð gáfu einnig skýrslu þeir tveir starfsmenn B sem komu að umræddu verki með stefnda í umrætt sinn.
I
Stefndi B er vélaverkstæði sem m.a. veitir álveri Alcoa-Fjarðaáls hf. í Reyðarfirði tiltekna þjónustu. Það verkefni félagsins sem hér er til skoðunar lýtur að lagfæringu á svokallaðri kerskel sem er málmkassi sem samkvæmt gögnum málsins er um 20 tonn að þyngd. Kerskelin er að innan með sléttum botni og fjórum hliðum, en opin að ofan. Þegar tími er kominn til viðhalds á hverri kerskel er hún losuð og hífð upp á flutningavagn sem síðan er dreginn að starfsstöð stefnda B sem er aflöng skemma með mikilli lofthæð. Vagninn er dreginn inn í skemmuna eftir ákveðinni akstursleið við hlið gryfju. Kerskelin er síðan hífð af vagninum og látin síga niður í gryfjuna þar sem viðhaldsvinna við hana fer fram. Að lokinni þeirri vinnu er kerskelinni lyft aftur upp á vagn og hún flutt til baka að álverinu. Fram kemur í gögnum málsins að botn kerskeljarinnar sem hvílir á vagninum er með lítilsháttar bananalagi þannig að skelin getur ruggað á vagninum. Samkvæmt framburði vitnisins C var það ekki vitað þegar slysið átti sér stað að kerskelin gæti ruggað á vagninum.
Til hífinga eru notaðir tveir svokallaðir brúkranar. Hanga þeir hvor um sig á stálbita fyrir ofan vinnusvæði og hvílir bitinn á rennu þannig að færa má hann eftir lengd skemmunnar og eins er hægt að renna lyftibúnaðinum til hliðanna eftir stálbitanum. Á krók hvors krana er hengt svokallað herðatré, sérstaklega útbúið til að lyfta kerskeljum. Er það látið síga niður að kerskelinni. Á hvorum enda herðatrésins er nokkurskonar gaffall sem ætlað er að falla að tilteknum stað á kerskelinni og sitja þar. Gaffallinn er á öxli þannig að unnt er að hreyfa hann lítillega til hliðanna en ekki fram og aftur. Þegar herðatréð hefur verið rétt staðsett á kerskelinni eru þar til gerðir kólfar reknir með handafli í gegnum þar til gerð göt á kerskelinni og áfram inn í mótlægt gat á herðatrénu, beggja vegna, en þegar það hefur verið gert er herðatréð fast og unnt að hefja hífingu á skelinni. Hvor kólfur er 60 millimetrar í þvermál og er fastur í þar til gerðum sleða við herðatréð og með handfangi sem notað er til að ýta honum í gegnum gatið. Hinum megin á herðatrénu var, á þeim tíma sem slysið átti sér stað, opið gat. Fram kom við skýrslugjöf, sem og við vettvangsgöngu, að þó að allt sé þetta hannað til að passa nákvæmlega saman þá þurfi oft að hreyfa til herðatréð með krananum til að stilla þetta af þannig að götin á herðatrénu og kerskelinni standist á og að kólfurinn komist í gegn.
Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda B sem „nemi í suðu“ í ágúst 2012. Síðdegis 27. febrúar 2013 var komið með kerskel til viðhalds í kersmiðju. Eftir því sem næst verður komist fóru þrír menn upp í kerskelina þar sem hún sat á palli flutningabifreiðarinnar til þess að koma herðatrjánum fyrir á henni. Fyrir liggur að ekki var föst regla á því hve margir starfsmenn áttu að sinna þessu verki. Í þessu tilviki sinnti stefnandi öðru herðatrénu en tveir vinnufélagar hans hinu. Stefnandi var með fjarstýringu fyrir brúkrana sem lyfti því herðatré sem hann var að vinna við. Búið var að festa annan enda herðatrésins við kerskelina en stefnandi var að vinna við það einn að festa hinn endann. Stóð hann þeim megin sem festikólfurinn er. Lýsti hann því svo fyrir dómi að hann hefði lagt frá sér fjarstýringu kranans og hafi síðan þreifað með þumalfingri í opið gatið hinum megin á herðatrénu í því skyni að stilla gatið af til hliðar. Hafi hann svo ætlað að fara hinum megin við herðatréð með fjarstýringu kranans og láta hératréð síga niður í rétta hæð til að unnt væri að reka kólfinn í gegn. Hann hafi hins vegar ekki komist svo langt því að þegar hann hafi sett þumalinn í gatið hafi heyrst hvellur og sá endi kerskeljarinnar sem hann hafi verið að vinna við hafi fallið niður og herðatréð, sem fast hafi verið í hinn endann, þá jafnframt dregist upp og við það hafi þumallinn nánast klippst af. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hann hafa losnað sjálfkrafa en í gögnum málsins er því lýst að hann hafi þurft að nota kranann til að losa sig. Kvað hann aðspurður að framangreind háttsemi hafi verið aðferð sem honum hafi verið bent á að væri einföld til að vinna þetta verk og kvað hann að verkstjóranum hafi að hans viti verið kunnugt um að hann beiti þessu verklagi og aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við það. Þá kvaðst hann hafa vitað vel af klemmuhættu við þessa vinnu og hafa séð viðvörunarþríhyrning á herðatrénu sem varaði við því. Hann kvaðst hins vegar hafa tengt klemmuhættuna við hreyfingu kranans en hann hafi talið útilokað að kerskelin gæti hreyfst. Hann hafi verið með fjarstýringu kranans og því verið sannfærður um að hann myndi ekki hreyfast. Í skýrslu stefnanda kom einnig fram að hann hefði ekki veitt því sérstaka athygli hvað starfsmennirnir sem voru að vinna við hitt herðatréð hafi verið að gera.
Tveir menn, D og E voru á sama tíma að vinna við að festa hitt herðatréð. Lýstu þeir því svo í skýrslum fyrir dómi að slysið hafi átt sér stað nánast samtímis því að þeir ráku festikólfana í og kváðust þeir ekki hafa verið komnir upp úr kerinu. Þeir hafi báðir snúið baki í stefnanda og hafi því ekki séð hvað gerðist. Gátu þeir ekki gert sér grein fyrir því hvað það hefði verið sem valdið hafi því að kerið hreyfðist til. Aðspurðir könnuðust þeir ekki við að það vinnulag væri viðhaft að þreifa umrætt gat með fingrunum og tók E sérstaklega fram að bannað væri að setja fingur í þetta gat og enginn annar en stefnandi hafi viðhaft slíkt verklag.
C kvað það ekki hafa verið viðurkennt verklag að setja fingur í umrætt gat. Hann hafi hins vegar séð það viðhaft og um það hafi verið rætt á vikulegum öryggisfundum.
Stefnandi var þegar fluttur á sjúkrastofnun og í kjölfarið með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Samkvæmt læknisvottorði þá hékk hægri þumall stefnanda á einni sin við komu á slysadeild. Áverkinn hafði greinilega orðið við tog og kramningu því æðar og taugar lágu útdregnar út frá sári. Ekki var möguleiki á ágræðslu og var því gerð bráðaaðgerð til að ganga frá stúfnum. Stefnandi var útskrifaður af Landspítalanum næsta dag eftir að hafa fengið áfallahjálp.
Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla þar sem aðdraganda slyssins og aðstæðum á slysstað er lýst í máli og myndum. Þá liggur einnig fyrir skýrsla vinnueftirlitsins. Samkvæmt báðum þessum skýrslum voru aðstæður á slysstað óbreyttar þegar skýrsluhöfundar skoðuðu þær.
Í skýrslu vinnueftirlitsins er því lýst að kerskelin sé með kúptum botni og dregin sú ályktun að hreyfing hafi komið á hana þegar tveir samstarfsmenn stefnanda hafi yfirgefið hana. Niðurstaða skýrslunnar er dregin saman með þeim hætti að sagt er að orsök slyssins megi rekja til þess að við verkið hafi stefnandi farið með fingur í gat á herðatrénu og þegar hreyfing hafi komið á skelina hafi myndast klippiátak á fingurinn vegna þess að kerskelin hafi verið óstöðug, þar sem hún hafi ekki verið skorðuð.
Í málinu liggur fyrir skriflegt áhættumat stefnda B vegna vinnu við brúkrana sem dagsett er 22. ágúst 2012. Þá liggur einnig fyrir skrifleg áhættugreining á „hífingu á skel af vagni í pytt og aftur í vagn“ sem dagsett er 23. mars 2013 og unnin var í kjölfar slyssins. Þá liggja fyrir í málinu skriflegar skýrslur B um atvik sem leitt hefðu getað til slyss en gerðu það ekki, auk skriflegrar skýrslu um það slys sem fjallað er um í málinu. Einnig liggja fyrir í málinu fundargerðir og glærusýningar af öryggisfundum þar sem farið var yfir framangreind atvik með starfsmönnum, þ.á.m. stefnanda.
Eftir slysið var verklagi við umrætt verk breytt í þremur atriðum. Búið er að loka götum þannig að ekki er lengur unnt að setja fingur þar inn. Kerskeljar hvíla nú á tréfleygum þannig að þær eiga ekki að geta ruggað. Þá er ekki lengur unnið við nema annað herðatréð í einu þegar hífing á kerskel er undirbúin.
Slysið var tilkynnt til stefndu Sjóvár 12. mars. 2013, en stefndi B var með frjálsa ábyrgðartryggingu atvinnurekanda frá félaginu í gildi á slysdag. Málsaðilar öfluðu sameiginlega mats F bæklunarlæknis og G hrl. á afleiðingum slyssins og lá matsgerð þeirra fyrir 7. maí 2014. Niðurstöður matsgerðarinnar eru að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé 23 stig og varanleg örorka 25%. Tímabundin óvinnufærni var 100% tímabilið 27.02.2013-27.11.2013. Tímabil þjáninga var það sama og tímabil óvinnufærni, þar af rúmlega í 2 daga. Heilsufar telst stöðugt þann 27. nóv. 2013.
Stefnda Sjóvá hafnaði bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu en ákvað hins vegar með vísan til aðstæðna allra, umfram skyldu og án viðurkenningar á bótarétti að greiða stefnanda óskertar bætur úr slysatryggingu launþega. Voru stefnanda því greiddar 3.906.093 krónur af stefnda Sjóvá 24. júní 2014 og hefur hann tekið tillit til þeirrar greiðslu við framsetningu fjárkröfu sinnar.
Eins og fyrr greinir er mál þetta höfðað 27. október 2014.
II
Stefnandi byggir á því að stefnda, B, beri skaðabótaábyrgð á slysi hans, m.a. á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefnda Sjóvá beri hins vegar ábyrgð á slysinu sem vátryggingartaki B, en fyrir liggi að ábyrgðartrygging hafi verið í gildi hjá stefnda Sjóvá á slysdegi. Varðandi aðild beggja stefndu að málinu vísi stefnandi ennfremur til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
Á því sé byggt að í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, séu lagðar ríkar skyldur á vinnuveitendur og verkstjóra um að tryggja öryggi starfsmanna á vinnustöðum. Samkvæmt 37. gr. laganna skuli haga vinnu og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlitsins, að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Sambærilegar reglur sé að finna um aðstæður á vinnustað í 42. gr. laganna og um vélar og annan búnað í 46. gr. laganna.
Nánar sé fjallað um skyldur atvinnurekanda til að tryggja viðunandi starfsskilyrði hvað varði tæki í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Tæki samkvæmt reglugerðinni teljist vélar eða vélbúnaður, áhöld eða verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður sé á vinnustöðum. Segi í 5. gr. reglugerðarinnar að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum séu látin í té innan fyrirtækisins henti til þeirra verka sem vinna eigi eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Þegar tæki séu valin til notkunar skuli atvinnurekandi hafa í huga þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og þá áhættu gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna sem fyrir hendi séu innan fyrirtækis. Einkum skuli hann hafa í huga áhættu á þeim stað þar sem vinnan fari fram og ennfremur aðra áhættu sem notkun viðkomandi tækis kunni að hafa í för með sér.
Í I. viðauka með reglugerð nr. 367/2006 sé að finna ítarleg ákvæði er varði notkun ýmissa tækja á vinnustöðum. Í 2.6. gr. viðaukans segi að þegar öryggi og heilbrigði manna krefjist þess skuli tryggja stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan viðeigandi hátt. Í 3.2. gr. viðaukans sé ennfremur fjallað um lágmarkskröfur um tæki til að lyfta byrði. Þar sé tekið fram í 3.2.3. gr. að varanlegur tækjabúnaður skuli vera þannig upp settur að byrðin skapi ekki slysahættu og renni ekki af stað eða falli niður.
Stefnandi telji ljóst að þau tæki sem notuð hafi verið til verksins, brúkraninn og herðatrén sem notuð hafi verið til að hífa kerskálarnar og flutningavagninn sem kerskálin hafi hvílt á, teljist tvímælalaust til tækja í skilningi laganna og reglugerðarinnar.
Stefnandi telji að slys hans megi rekja til þess að stefndi B hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar, samkvæmt áðurtilvísuðum laga- og reglugerðarákvæðum, til að tryggja aðstæður og öryggi á vinnusvæði hans. Hann telji ljóst af gögnum málsins að slys hans hafi orðið vegna þess að kerskelin sem hann hafi verið að vinna við hafi ekki verið nægilega stöðug þegar unnið hafi verið við að festa hana við lyftibúnað brúkrana við undirbúning að hífingu. Þessu til stuðnings vísi stefnandi til umsagnar vinnueftirlitsins um slysið þar sem tekið sé fram að orsök slyssins megi rekja til þess að stefnandi hafi farið með fingur í gat á herðatrénu og þegar hreyfing hafi komið á skelina hafi myndast klippiátak á fingurinn vegna þess að kerskálin hafi verið óstöðug, þar sem hún hafi ekki verið skorðuð. Mat vinnueftirlitsins hafi verið að endurskoða þyrfti áhættumat fyrirtækisins með tilliti til slyssins.
Stefnandi telji að verkstjórum stefnda B hafi borið skylda til þess að tryggja öryggi starfsmanna við verkið, en það hafi ekki verið gert. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 beri verkstjóra m.a. að sjá um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á vinnustaðnum sem hann hafi umsjón með. Þá skuli verkstjóri, skv. 23. gr. sömu laga, beita sér fyrir að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórni, séu fullnægjandi að því er varði aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt. Hann skuli einnig, verði hann var við einhver þau atriði, sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum, tryggja að hættunni sé afstýrt. Stefnandi telji ljóst með hliðsjón af atvikalýsingu að verkstjóri hafi ekki fylgt tilvitnuðum ákvæðum laganna umrætt sinn. Hann telji að einfalt hefði verið að tryggja stöðugleika skálarinnar með því að koma fyrir betri undirstöðum á vagninum sem kerskálin hafi setið á þegar verkið var unnið en með því hefði verið hægt að fyrirbyggja slysið. Stefnda, B, beri því ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þessa, á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi telji að ekki sé hægt að kenna óaðgæslu af hans hálfu um slysið. Hann hafi unnið verkið á þann hátt sem hann hafi talið öruggan og hafi ekki gert sér að fullu grein fyrir þeirri hættu sem gæti skapast af óstöðugleika kerskálarinnar. Af hans hálfu sé vísað til 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu sé eingöngu heimilt að skerða bætur starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysi hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða ásetning. Stefnandi telji fullljóst með vísan til atvika málsins að hann hafi ekki sýnt af sér slíkt gáleysi eða ásetning að heimilt sé að skerða bætur hans eða fella þær niður samkvæmt ákvæðinu. Þessu til stuðnings kveðst stefnandi ennfremur vísa til fordæmis dóms Hæstaréttar 27. febrúar 2014 í máli nr. 626/2013 þar sem rétturinn hafi ekki talið að forsendur væru til þess skerða bætur til starfsmanns sem orðið hafi fyrir líkamstjóni, enda hafi ekki verið sýnt fram á að hann hafi af stórkostlegu gáleysi átt þátt í að tjónsatburður varð.
Með hliðsjón af öllu ofansögðu telji stefnandi að stefndu beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni hans af völdum slyssins. Það megi fyrst og fremst rekja til þess að stefnda B hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980, sérstaklega með hliðsjón af reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja.
Stefnandi kveðst byggja á því að við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku skuli meta árslaun hans sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ekki byggja á 1. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. megi víkja frá meginreglu 1. mgr. ef það fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður á síðast liðnum þremur almanaksárum sem leiði til þess að laun tjónþola á tímabilinu séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi telur að aðstæður hans séu þannig að viðkomandi regla eigi við. Þau tekjuár sem miða ætti útreikning á bótum fyrir varanlega örorku stefnanda við, samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, gefi ekki raunhæfa mynd af tekjuöflunarhæfni stefnanda á slysdegi. Hann byggi ennfremur á því að samkvæmt lögskýringargögnum með 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé ekki ætlast til að orðin „óvenjulegar aðstæður“ í ákvæðinu séu túlkuð þröngt. Það sé t.d. nóg að um sé að ræða atvik sem hafa haft þau áhrif að tekjur tjónþola séu ekki þær sem hann hefði getað haft ef umrædd atvik hefðu ekki orðið. Til dæmis um aðstæður sem teljist óvenjulegar samkvæmt dómaframkvæmd sé þegar tjónþoli sé einungis í hlutastarfi, þegar tjónþoli hafi verið í fæðingarorlofi eða þegar tjónþoli sé nýlega orðinn 18 ára gamall þegar slys verði og því með litla starfsreynslu.
Á árunum 2010-2012 sem miða ætti við samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, hafi stefnandi ýmist verið í námi eða starfi. Hann hafi verið á þessum tíma 17 til 20 ára. Hann hafi verið við nám í tvo vetur í […], en hafi svo brugðið námi og hafi hafið störf við fiskverkun, en hafi ekki verið fastur starfsmaður þar. Í ágúst 2012 hafi hann skipt um starfsvettvang og byrjað störf hjá stefnda, B. Hann hafi starfað þar þegar hann hafi lent í slysinu og hafi stefnt á að starfa á þeim vettvangi til framtíðar.
Stefnandi hafi óumdeilanlega verið ungur að árum þegar hann hafi lent í slysinu og hafi ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum. Hann hafi þó verið orðinn 20 ára gamall. Hann telji að vegna ofangreindra sjónarmiða verði að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í máli hans í stað 1. mgr. sama ákvæðis. Aðstæður hafi sannarlega verið óvenjulegar, þar sem þátttaka hans á vinnumarkaði hafi verið takmörkuð þangað til hann hafi ráðið sig í vinnu hjá stefnda. Þá hafi hann nýlega skipt um starfsvettvang þegar hann hafi lent í slysinu. Annar mælikvarði en meðaltekjur hans s.l. 3 ár fyrir slysið sé þ.a.l. réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Stefnandi telji því að rétt tekjuviðmið séu tekjur hans frá því að hann skipti um starf, frá september 2012 til febrúar 2013, uppreiknaðar til 12 mánaða. Samkvæmt útreikningum hans verði uppreiknaðar árstekjur hans því 5.829.198 krónur. Uppreiknaðar tekjur m.t.t. vísitölu að viðbættu framlagi í lífeyrissjóð, nemi 6.755.400 krónum og taki bótakrafa hans mið af því. Vísi stefnandi máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar 6. október 2011 í máli nr. 664/2010 þar sem fallist hafi verið á kröfu tjónþola um að miða við tekjur hans árið fyrir slys þar sem hann hafi ekki nýtt starfsgetu sína til fullnustu árin þar á undan.
Krafa stefnanda um skaðabætur byggi á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar. Stefnandi telji allar forsendur til að leggja matsgerðina til grundvallar. Krafan sundurliðist á eftirfarandi hátt:
1. Bætur vegna tímabundins atvinnutjóns skv. 2. gr. skbl. kr. 2.116.176,-
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 484.460,-
3. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl. kr. 2.323.000,-
4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl. kr. 28.453.744,-
Samtals kr. 33.377.380,-
Auk skaðabóta sé krafist vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar líkt og í dómkröfum greinir.
Kröfu sína um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns kveðst stefnandi reisa á 2. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð F bæklunarlæknis og G hrl., dags. 7.5.2014, telji matsmenn að stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi, 27. febrúar 2013 til 27. nóvember sama ár. Meðallaunatekjur stefnanda, síðustu sex mánuði fram að slysi, þ.e. frá september 2012 til febrúar 2013, hafi samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum hans verið að meðaltali 485.767 krónur ((554.857 + 636.452 + 604.828 + 328.937+ 203.826 + 585.699)/6). Tekjur hans á tímabili óvinnufærni, sem hafi varað í 9 mánuði, hefðu því átt að vera samtals 4.371.899 krónur (9 x 485.767). Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti hafi tekjur stefnanda á tímabili óvinnufærni þó aðeins verið samtals 1.283.812 krónur og frádráttarbærar bætur samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, þ.e. frá stefnda Sjóvá vegna slysatryggingar hafi verið 971.911 krónur. Samtals geri það 2.255.723 krónur. Af hálfu stefnanda sé gerð krafa um mismuninn þar á, þ.e. 2.116.176 krónur (4.371.899 -2.255.723).
Krafa um þjáningabætur sé byggð á 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, telji matsmenn að tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga sé það sama og tímabil óvinnufærni, þ.e. frá 27. febrúar 2013 til 27. nóvember sama ár, en þar af hafi stefnandi verið rúmfastur í tvo daga. Stefnandi hafi því verið veikur án þess að vera rúmfastur í 270 daga. Þjáningabætur nemi 1.770 krónum á dag, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu sbr. 15. gr. laganna, fyrir hvern dag er stefnandi hafi verið veikur án þess að vera rúmfastur en 3.280 krónum þegar hann hafi verið rúmfastur. Með vísan til framangreinds krefjist stefnandi bóta fyrir þjáningar samtals 484.460 krónur ((270 x 1.770) +( 2 x 3.280)).
Varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska vísi stefnandi til 4. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð telji matsmenn að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé 23 stig. Vegna þessa þáttar sé því krafist 2.323.000 króna (10.100.000 x 23 stig) með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi.
Kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku reisi stefnandi á 5. - 7. gr. skaðabótalaga. Matsmenn telji samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga sé 25%. Með vísan til aldurs stefnanda á þeim degi er heilsufar hans í kjölfar slyssins teljist orðið stöðugt, sé margfeldisstuðull hans samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 16,484. Varðandi tekjuviðmið, þá byggi stefnandi útreikning meðallauna á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miði tekjur við laun sín frá því að hann hóf störf hjá stefnda, B í september 2012 til febrúar 2013, uppreiknaðar til 12 mánaða. Samkvæmt þessum útreikningum séu árstekjur hans samtals 5.829.198 krónur. Meðaltekjur hans, leiðréttar samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð verði þannig samtals 6.755.400 krónur. Verði bætur fyrir varanlega örorku því samtals 28.453.744 krónur (6.755.400 x 16,848 x 25%) og sé gerð krafa þar um.
Varðandi vaxtakröfu sína vísi stefnandi til 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Krafa vegna tímabundins tekjutaps, þjáningabóta og varanlegs miska beri vexti frá tjónsdegi samkvæmt ákvæðinu en krafa vegna varanlegrar örorku frá upphafsdegi metinnar örorku. Varðandi kröfu um dráttarvexti sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafstími dráttarvaxta miðist við þann dag er mánuður hafi verið liðinn frá að stefnda hafi verið tilkynnt um kröfu stefnanda og vísist að því leyti til 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001.
Til frádráttar komi greiðslur úr launþegatryggingu 3.906.093 krónur sem stefndi Sjóvá hafi greitt stefnanda 24. júní 2014.
Stefnandi krefst þess að tekið verði tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna og meginregluna um vinnuveitandaábyrgð, lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 21. gr., 23. gr., 37. gr., 42. gr. og 46. gr. Hann kveðst og byggja á reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sérstaklega 5. gr. og 2.6. gr. og 3.2. gr. I. viðauka sömu reglugerðar. Þá byggi hann á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 2.-7. gr., 15.-16. gr. og 23. gr. a. Um aðild vísist til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísist til 33. gr. og 42. gr. laga um meðferð einkamála og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga. Varðandi vaxtakröfu af skaðabótum vísist til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993. Um dráttarvexti sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988.
III
Sýknukröfu sína byggja stefndu á því að ósannað sé að stefndi B hafi vanrækt lögboðnar skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða samkvæmt reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum. Í því sambandi telji stefndu í fyrsta lagi ósannað að aðstæður eða umbúnaður á slysstað hafi verið ófullnægjandi í umrætt sinn þannig að fella skuli skaðabótaábyrgð á þá. Í öðru lagi byggi stefndu á því að ósannað sé að verkstjórn stefnda B hafi verið ófullnægjandi eða í ósamræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 þegar slysið varð. Í þriðja lagi byggi stefndu á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar slysið varð sem telja verði einu orsök slyssins. Slík háttsemi heimili að bætur séu felldar niður að öllu leyti.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns og sé því mótmælt að hann hafi sannað að tjónið megi rekja til atvika sem hið stefnda vélaverkstæði beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Um ábyrgð stefnda B fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndu byggi á því að það sé ósannað að slys stefnanda sé að rekja til atvika sem stefndi B eða starfsmenn þess beri skaðabótaábyrgð á að lögum.
Þannig telji stefndi ósannað að slys stefnanda verði rakið til ætlaðs vanbúnaðar á vinnuaðstöðu á starfsstöð stefnda eða brots á þeim skyldum sem á stefnda hvíli samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglum sem settar hafi verið með stoð í þeim lögum.
Í fyrsta lagi telji stefndi ósannað að stefndi B hafi vanrækt þær skyldur sem lagðar séu á vinnuveitendur og verkstjóra í ákvæðum 37., 42. og 46. gr. laga nr. 46/1980 eins og stefnandi haldi fram. Hafa umrædd ákvæði að geyma mjög almenna lýsingu á framkvæmd vinnu, aðbúnaði á vinnustaðnum og umbúnaði véla og tækja. Stefndu mótmæli því að stefndi B verði talinn hafa brotið gegn umræddum ákvæðum þannig að hann skuli bera skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda.
Þá mótmæli stefndu að stefndi B eða starfsmenn þess félags, hafi brotið gegn þeim kröfum sem settar séu með reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Stefndi B hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar séu í reglugerðinni, s.s. um að tæki séu hæfilega löguð að starfsmönnum og þeir geti notað þau án þess að þeim stafi hætta af. Allar öryggiskröfur taki einnig mið af þeirri áhættu sem fylgi viðkomandi starfi, notkun tækis og aðstæðum þar sem vinnan fari fram.
Í stefnu sé því haldið fram að stefndi B hafi vanrækt lögboðnar skyldur með því að tryggja ekki að kerskel sú sem stefnandi hafi verið að vinna við þegar slysið varð, hafi verið nægjanlega stöðug þegar unnið hafi verið við að festa hana við lyftibúnað, eða svokallað herðatré, við undirbúning að hífingu. Í því sambandi sé meðal annars vísað til I. viðauka með reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, einkum 2.6. gr. viðaukans um að tryggja skuli stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan viðeigandi hátt. Einnig vísi stefndi til 3.2. gr. viðaukans þar sem komi m.a. fram að varanlegur tækjabúnaður skuli þannig settur upp að byrðin skapi ekki slysahættu og renni ekki af stað eða falli niður. Stefndu mótmæli því að stefndi B hafi vanrækt umræddar skyldur.
Hér beri fyrst að nefna að stefndu telji að kerskel eða undirlag hennar umrætt sinn geti ekki fallið undir hugtakið „tæki“ eins og það sé skilgreint í reglugerð nr. 367/2006. Í 3. gr. reglugerðarinnar er hugtakið skilgreint sem vél eða vélbúnaður, áhöld, verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður sé á vinnustöðum. Það sé því ljóst að kerskelin eða undirlag hennar geti ekki talist til tækis í skilningi reglugerðarinnar, enda hvorki um vélbúnað, áhald eða verkfæri að ræða. Kröfur um að tryggja skuli stöðugleika tækja geti þannig ekki átt við um kerskelina eða undirlag hennar. Slíkar kröfur gildi hins vegar um þann lyftibúnað sem notaður hafi verið umrætt sinn, þ.e. herðatréð. Ekkert annað liggi fyrir í málinu en að það tæki hafi verið stöðugt umrætt sinn eins og lög og reglur bjóði.
Að sama skapi mótmæli stefndu því að ákvæði 3.2. gr. viðauka við framangreinda reglugerð verði talið eiga við um kerskelina eða undirlag hennar. Að mati stefndu eigi þau atvik sem þar sé vísað til ekki við um það herðatré og þær byrðar sem mál þetta snúi að. Ekkert liggi fyrir um að sú byrði sem felist í kerskelinni hafi runnið af stað eða fallið niður. Miðað við hvernig atvikum sé lýst bæði í lögregluskýrslu og umsögn vinnueftirlitsins, þá sé umrædd kerskel kúpt þannig að hún geti hreyfst lítillega til án þess að hún færist úr stað. Sé um að ræða staðreynd sem allir starfsmenn stefnda B sem vinni við kerskelina og herðatréð þekki til og hafi verið upplýstir um.
Stefndu mótmæli einnig þeim skilningi stefnanda að ummæli í umsögn vinnueftirlitsins bendi til þess að orsök slyss stefnanda megi rekja til þess að kerskelin hafi verið óstöðug þar sem hún hafi ekki verið skorðuð. Að mati stefndu hafi sú staðreynd að stefnandi setti fingur í gat á umræddu herðatré verið meginorsök slyssins. Hafi slík háttsemi farið gegn öllum starfsvenjum við framkvæmd starfsins og gegn leiðbeiningum og varúðarreglum á vinnustað stefnda B. Þegar svo hafi háttað til að fingurinn hafi verið í gati herðatrésins hafi síðan hreyfing kerskeljarinnar, sem starfsmenn hafi þekkt mætavel til, valdið sjálfum slysaatburðinum. Slysið hefði hins vegar aldrei komið til nema vegna hinnar gáleysislegu háttsemi stefnanda. Að mati stefndu geti umsögn Vinnueftirlitsins því ekki stutt þá skoðun stefnanda að slysið hafi orsakast vegna þess að kröfur í reglugerð um notkun tækja hafi verið vanræktar.
Þrátt fyrir að umsögn Vinnueftirlitsins vísi til þess að endurskoða skuli áhættumat vegna slyssins, þá telji stefndu það ekki sönnun þess að saknæm háttsemi hafi átt sér stað af hálfu stefnda B sem leiði til skaðabótaábyrgðar á slysi stefnanda. Þvert á móti sé alvanalegt og eðlilegt þegar vinnuslys beri að höndum að gerð sé krafa um að áhættumat skuli endurskoðað. Vinnuvernd og öryggi á vinnustöðum þurfi enda að vera í stöðugri endurskoðun og slys og atburðir sem verði á vinnustöðum geti hjálpað til við að koma í veg fyrir önnur eða frekari slys og því leiti menn sífellt eftir því að bæta áhættumat sem gildi fyrir viðkomandi verk. Stefndi B hafi strax yfirfarið umrætt áhættumat og hafi gert tilteknar viðbætur til að hnykkja enn frekar á þeirri hættu sem geti skapast þegar unnið sé með kerskeljar og hífingu þeirra, ásamt því að ítreka að líkamshlutar, s.s. fingur, skuli ekki settir í þrönga stöðu við framkvæmd starfans.
Í öðru lagi byggi stefndu á því að ósannað sé að verkstjórn stefnda B hafi verið ófullnægjandi eða í ósamræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 þegar slysið hafi orðið. Stefnandi vísi í stefnu til ákvæða 21. og 23. gr. laganna og telji að verkstjóri stefnda B hafi ekki fylgt þeim reglum þegar slys stefnanda varð.
Að mati stefndu sé ekkert komið fram um að verkstjórn hafi verið ábótavant. Umrætt verk hafi verið unnið í samræmi við viðurkennt verklag, að undanskilinni þeirri gáleysislegu háttsemi stefnanda sem falist hafi í því að setja fingurinn í gat herðatrésins.
Hér þurfi að vekja athygli á því að umrætt verk sé ekki sérlega flókið og um „rútínuvinnu“ að ræða eins og komist sé að orði í umsögn vinnueftirlitsins. Ekki hafi því verið þörf sérstakrar verkstjórnar við framkvæmd þess verks sem stefnandi vann umrætt sinn. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi margoft áður unnið sama verk.
Af hálfu stefnda B hafi verið gætt þeirra fyrirbyggjandi aðgerða sem lög bjóði. Stefndi B haldi vikulega fundi þar sem farið sé yfir tiltekin öryggisatriði auk atburða eða slysa sem upp kunni að koma í starfseminni, eins og sjá megi í gögnum málsins. Hafi stefnandi sótt slíka fundi eins og aðrir starfsmenn stefnda B. Á slíkum fundum sé einnig sérstaklega farið yfir algeng öryggisatriði og öryggisreglur í starfseminni. Stefndu telji því að verkstjórn við framkvæmd vinnunnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem lög nr. 46/1980 og reglugerðir sem settar séu á grundvelli þeirra laga geri.
Þá sé rétt að fram komi að afar áberandi þríhyrningsmerki sé á herðatrénu við þá pinna sem stefnandi hafi verið að vinna við umrætt sinn. Þríhyrningsmerkið vari sérstaklega við klemmuhættunni sem stafi af því að setja hönd eða fingur inn í gatið.
Stefndu mótmæli því að einfalt hefði verið að tryggja stöðugleika skeljarinnar með því að koma fyrir betri undirstöðum á vagninum sem kerskelin hafi setið á þegar verkið var unnið eins og stefnandi haldi fram. Um sé að ræða kerskel sem sé á annan tug tonna að þyngd og því verulega takmarkað hvað hún geti hreyfst til. Þá sé því mótmælt að slíkt verði talið skortur á verkstjórn af hálfu stefnda B við verkið þannig að fari í bága við lög. Verði talið að við framkvæmd verksins hafi átt að koma fyrir betri undirstöðum undir umrædda kerskel, þá hafi það verið einfalt verk sem ekki þarfnist sérstakrar verkstjórnar af hálfu stefnda B. Stefnanda hafi sjálfum borið að tryggja slíkar undirstöður og verði það því ekki talið til vanrækslu af hálfu verkstjóra stefnda B að gera það ekki. Þá skuli tekið fram að tilvitnuð ákvæði 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 verði ekki talin bera með sér slíkar skyldur, enda sé þar annars vegar vísað til þess að verkstjóri skuli sjá til þess að búnaður sé góður og öruggt skipulag á vinnustaðnum og hins vegar að starfsskilyrði séu fullnægjandi. Hér þurfi einnig að líta til þess að slys stefnanda hefði ekki orðið nema af því að hann setti fingur inn í gat á herðatrénu í andstöðu við skýrar verklagsreglur og aðvaranir.
Stefndi B hafi í hvívetna uppfyllt þær lagakröfur sem á honum hvíli sem vinnuveitanda, s.s. samkvæmt ákvæði 13. og 37. gr. laga nr. 46/1980 um ábyrgð á framkvæmd vinnu og að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Stefnandi líkt og aðrir starfsmenn hafi hlotið alla þá fræðslu og þjálfun sem hvíli á stefnda B sem vinnuveitanda, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980 og reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Þá hafi stefnandi framkvæmt það áhættumat sem vísað sé til í ákvæði 65. gr. a laganna og 4. gr. reglugerðar nr. 367/2006 eins og liggi fyrir í gögnum málsins. Áhættumatið uppfylli einnig þær kröfur sem raktar séu í framangreindri reglugerð nr. 920/2006.
Að öllu framanrituðu virtu mótmæli stefndu öllum kröfum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að líkamstjón hans megi rekja til atvika sem séu á ábyrgð stefnda B eða starfsmanna hans. Skuli því þegar af þessari ástæðu sýkna stefndu.
Í þriðja lagi byggi stefndu á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar slys hans varð þann 27. febrúar 2013. Verði stefnandi því að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið stórkostlegt gáleysi stefnanda sjálfs þegar hann setti þumalfingur hægri handar inn í gat herðatrésins, þrátt fyrir að í því fælist skýrt brot á verklagsreglum, í trássi við viðvörunarmerki á umræddu tæki og gegn betri vitund.
Þegar slysið hafi orðið hafi stefnandi farið gegn skýrri viðvörun sem komi fram með áberandi hætti á því tæki sem hann hafi unnið við umrætt sinn. Eins og sjá megi í lögregluskýrslu og umsögn vinnueftirlitsins þá sé á umræddu herðatré mynd af stórum viðvörunarþríhyrningi þar sem varað sé við klemmuhættu. Stefnandi hafi hins vegar kosið gegn betri vitund að fara gegn slíkri viðvörun og beita verklagi sem ekki hafi verið viðurkennt við starfið.
Stefnandi hafi líkt og aðrir starfsmenn fengið ítarlega leiðsögn um það hvernig verkið skyldi unnið. Þá hafi hann unnið það oft áður og hafi því þekkt til þess hvert hafi verið rétt verklag og hvaða hættur kynnu að fylgja framkvæmdinni. Í áhættumati stefnda B sem í gildi hafi verið þegar slysið varð komi skýrt fram að við hífingar á brúkrana sé klemmuhætta til staðar auk þess sem sérstaklega sé ítrekað að enginn eigi að vera í skotlínu eða í þröngri stöðu með hendur eða aðra líkamshluta. Hafi stefnandi verið upplýstur með ítarlegum hætti um þessar varúðarreglur.
Þrátt fyrir tiltölulegan ungan aldur stefnanda á slysdegi og þá staðreynd að hann hafði aðeins unnið hjá stefnda B í ríflega 6 mánuði, þá hafði hann oft unnið við að festa herðatré við kerskel áður og var því vanur því verki. Hafði hann því töluverða reynslu af verkinu og hvernig það skyldi unnið.
Þá liggi fyrir að stefnandi hafði ítrekað gerst brotlegur við hátternisreglur í öðrum störfum innan hins stefnda vélaverkstæðis og hafi meðal annars þurft að sæta tímabundnu banni við stjórn vinnuvéla. Af þeim sökum hafi verið brýnt sérstaklega fyrir stefnanda um rétt verklag við framkvæmd vinnunnar í ljósi slíkrar gáleysislegrar fyrri háttsemi.
Þegar allt framangreint sé virt telji stefndu ljóst að sú háttsemi stefnanda að setja fingur í gat herðatrés hafi falið í sér stórkostlegt gáleysi sem leiða skuli til þess að stefnandi skuli bera tjón sitt að fullu sjálfur.
Ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefndu sé byggt á því til vara að þeir verði aðeins taldir bera ábyrgð á tjóni stefnanda að hluta. Byggi stefndu á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til stórkostlegs gáleysis hans sjálfs í umrætt sinn. Verði stefnandi því að bera tjón sitt að mestum hluta sjálfur vegna eigin sakar. Á stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum hins stefnda vélaverkstæðis, hvíli að sýna tilhlýðilega aðgæslu og gæta ýtrustu varúðar þegar unnið sé við að hífa kerskeljar. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi hunsað skýrt viðvörunarmerki um klemmuhættu sem telja verði meginorsök fyrir slysinu.
Stefndu fallist á með stefnanda að aðstæður hans séu óvenjulegar og því skuli miðað við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og meta árslaun sérstaklega. Stefndu mótmæli hins vegar því árslaunaviðmiði sem stefnandi leggi til grundvallar í stefnu. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hvaða annar mælikvarði skuli vera réttari og telja stefndu að sú sönnun hafi ekki tekist. Að mati stefndu séu tekjur stefnanda hjá stefnda B fyrir vinnuslysið ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Í því sambandi sé vert að hafa í huga að stefnandi búi ekki að neinum formlegum starfsréttindum og að starfsreynsla hans fram að slysinu sé bundin við störf ófaglærðra verkamanna. Stefnandi hafi hætt námi í fjölbrautaskóla eftir um tvo vetur og unnið við fiskverkun áður en hann hafi byrjað störf hjá stefnda B í ágúst árið 2012. Hann hafi því aðeins unnið hjá stefnda í rétt rúma sex mánuði þegar slysið hafi orðið. Ekkert liggi fyrir um að hann hafi stefnt á að starfa á sama vettvangi eins og haldið sé fram í stefnu. Telja stefndu því að réttara sé að miða laun við meðallaun verkamanna á slysárinu sem samkvæmt könnun Hagstofunnar hafi verið 428.000 krónur á mánuði auk hefðbundins mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð eða sem nemi 5.546.880 krónur á ári.
Vísast að öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings þess að varakrafa stefndu skuli ná fram að ganga. Upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi sé mótmælt. Stefndi skori á stefnanda að upplýsa um greiðslur frá þriðja aðila sem dragast eigi frá bótum úr hendi stefnda, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Um lagarök vísi stefndu einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til þeirra reglna og reglugerða sem settar hafi verið með stoð í þeim. Krafa um upphafstíma dráttarvaxta styðst við ákvæði 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefndu sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Hér að framan er ítarleg grein gerð fyrir málatilbúnaði aðila málsins og tilvísana þeirra til einstakra reglna laga nr. 46/1980 um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og nánar tilgreindra reglna sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum. Stefndi B ber ábyrgð á því að aðstæður á vinnustað séu í samræmi við framangreindar reglur og einnig að starfsmenn fái viðeigandi leiðbeiningar og verkstjórn. Það verk sem stefnandi slasaðist við var samkvæmt skýrslu vinnueftirlits venjubundið verk og stefnandi kvaðst sjálfur hafa unnið verkið oft áður. Vitnið C, verkstjóri, bar með sama hætti.
Eins og fyrr hefur verið minnst á lá á þessum tíma fyrir skriflegt áhættumat stefnda B fyrir vinnu á brúkrana. Kemur þar m.a. fram undir liðnum „Komið fyrir hífi-búnaði og hann festur við farg og aftengdur“ að í verkinu felist klemmuhætta og er áhættustig sagt 21. Samkvæmt meðfylgjandi töflu er 25 mesta hættustig og áhættustig 20 til 25 telst mjög hátt. Í dálknum aðgerðir og eftirfylgni er fjallað um hvaða varnir skuli nota gegn hættum. Segir þar að nota eigi þykka leðurhanska ásamt því að stilla hífibúnað rétt, koma sér hvorki í þrönga stöðu, né skotlínu, með líkama eða hendur. Þá liggja fyrir í málinu endurrit glærusýninga af öryggisfundum þar sem farið er yfir atvik sem hefðu getað leitt til slysa, en gerðu það ekki, og er tilgangur þessara funda augljóslega að vekja starfsmenn til umhugsunar um öryggisþætti við vinnu sína og setja þeim reglur í því sambandi. Í þeim skriflegu gögnum sem þannig liggja fyrir má sjá að starfsmenn, þar með talinn stefnandi, hafa verið hvattir til að gæta fyllsta öryggis við vinnu sína og ein af þeim reglum sem kemur ítrekað fram í gögnum lýtur að því að við hífingar skuli starfsmenn gæta sín á því að „koma sér ekki í þrönga stöðu, eða skotlínu, með líkama eða hendur.“ Fyrir liggur að á herðatré því sem stefandi var að vinna við er stór viðvörunarþríhyrningur sem varar við klemmuhættu og kannaðist stefnandi við þetta. Verður að telja að meginástæða reglna af þessu tagi við hífingar hljóti að lúta að því að þungir hlutir sem er verið að hífa geta sveiflast til eða færst úr stað eða fallið niður af orsökum sem erfitt getur verið að sjá fyrir. Verður í hverju tilviki að meta hvort stöðugleiki hefur verið nægilega tryggður með tilliti til allra aðstæðna.
Gat það sem um ræðir er um 60 millimetrar í þvermál og getur það vart valdið vafa að mati dómsins að stefnandi setti þumalfingur sinni í mjög þrönga stöðu og „skotlínu“ er hann setti fingurinn í gatið og að lítið mátti útaf bera til að hann slasaðist. Með framangreindri háttsemi vék stefnandi verulega frá öryggisreglum sem samkvæmt gögnum málsins giltu um hífingar á vinnustað hans og fjallað hafði verið um á sérstökum öryggisfundum sem hann sat. Er ekki unnt, eins og hér stendur á, að líta svo á að sú hreyfing sem sannanlega varð á umræddu keri hafi verið umfram það sem búast má við við vinnu sem þessa og framangreindum öryggisreglum er ætlað að mæta. Má hér einnig hafa í huga að stefnanda var kunnugt um að kraninn sem hann stýrði var ekki eini kraninn sem í notkun var við verkið, en samkvæmt framburði hans sjálfs hugaði hann lítt að því hvernig samstarfsmönnum hans miðaði við hitt herðatréð. Með hliðsjón af öllu því sem að framan greinir er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að slys hans hafi orsakast af því að umrædd kerskel hafi ekki verið skorðuð með fullnægjandi hætti.
Þá er og ósannað í málinu að verklag það sem stefnandi viðhafði hafi verið í samræmi við það sem honum hafi verið kennt eða að verkstjóri hafi látið óátalið að væri viðhaft. Bendir framburður vitna sem og gögn málsins til hins gagnstæða.
Með vísan til þess er að framan greinir er að mati dómsins ósannað að slys stefnanda verið rakið til sakar stefnda B eða manna sem hann ber ábyrgð á. Verða stefndu þegar af þeirri ástæðu sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.
Þrátt fyrir framangreind málsúrslit þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Kristján B. Thorlacius hrl. en af hálfu stefndu Ingvi Snær Einarsson hdl. vegna Kristínar Edwald hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu B ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eru sýknaðir af kröfu stefnanda A í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.