Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/1998

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Páll Arnór Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Misneyting
  • Dómari
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Vitni
  • Ómerkingarkröfu hafnað
  • Skaðabætur

Reifun

X var ákærður og dæmdur fyrir misneytingu með því að hafa fengið Á, konu um áttrætt, til að taka mikið fé út af reikningi sínum og ráðstafa til sín, auk þess að fá hana til að ráðstafa veðskuldabréfi í sína þágu og undirrita erfðaskrá þess efnis að skuldir hans við hana skyldu falla niður við andlát hennar. Var X ákveðin fangelsisrefsing. Ekki var fallist á kröfu um ómerkingu héraðsdóms sem reist var á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður og konan hefði átt að koma fyrir dóminn, en til þess var hún ekki talin fær af heilsufarslegum ástæðum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 28. desember 1998 að ósk ákærða með vísun til allra liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að refsing ákærða verði þyngd.

Fyrir Hæstarétti krefst ákærði aðallega sýknu en til vara, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til þrautavara er þess krafist, að refsing ákærða verði milduð. Þá krefst ákærði þess, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi.

I.

Ákærði krefst ómerkingar og heimvísunar á þeirri forsendu annars vegar, að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994, þar sem úrslit málsins ráðist að verulegu leyti af mati á sönnun um sérfræðileg efni, er varði líkamlegt og andlegt ástand þeirrar konu, sem átt hafi að vera hlunnfarin. Hins vegar reisir ákærði ómerkingarkröfu sína á því, að konan hafi ekki komið fyrir héraðsdómara og sér hafi því ekki verið tryggð þau lágmarksréttindi, sem tilgreind séu í d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt framangreindu ákvæði réttarfarslaga er héraðsdómara heimilt en ekki skylt að kveðja til meðdómendur og ræðst nauðsyn þess af aðstæðum hverju sinni. Í málinu liggja fyrir læknisfræðileg gögn, er gefa skýra mynd af heilsufari brotaþola á þeim tíma, er máli skiptir. Læknar konunnar komu að auki fyrir héraðsdóm og skýrðu ítarlega þær forsendur, er lágu að baki gögnunum. Er skilmerkilega gerð grein fyrir þessum þáttum í héraðsdómi. Af þeim verður örugglega ráðið, að heilsu konunnar hefði verið stefnt í tvísýnu, hefði hún verið kvödd fyrir dóminn til skýrslugjafar. Fær þessi ályktun frekari stuðning í vottorði Björns Gunnlaugssonar læknis frá 3. maí 1999, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt. Óhjákvæmilegt er að skýra d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu svo, að læknisfræðilegar ástæður geti tálmað því, að vitni verði leidd fyrir dóm, án þess að réttur sé brotinn á sökuðum manni. Í slíkum tilvikum verður ákæruvaldið að sæta því, ef svo ber undir, að sönnunarfærsla þess takist miður en efni hefðu annars staðið til.

Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fallist á ómerkingarkröfu ákærða.

II.

Af hálfu ákærða hefur verið lögð fyrir Hæstarétt yfirlýsing brotaþola frá         15. apríl 1999 um viðhorf til sakarefnisins og framgangs þessa máls. Þessarar yfirlýsingar, sem ekki er vottfest, aflaði Sigurjón Ragnarsson án samráðs við sakflytjendur, en hann var eitt vitna í málinu og hafði hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefni II. kafla ákæru. Í áðurnefndu vottorði Björns Gunnlaugssonar læknis frá     3. maí 1999 kemur fram það álit, að undirskrift konunnar á þessu skjali sé marklaus vegna sjúkdóms hennar. Eins og aðstæðum er háttað hefur það enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakarmat og refsiákvörðun. Úrlausn um bótakröfu verður einnig staðfest, en ákæruvaldið hefur ekki krafist breytingar á henni. Hins vegar verður ekki séð, að tjónþoli hafi haft nokkurn kostnað af því að halda fram bótakröfunni, en fjárhæðir hennar eru fengnar úr rannsóknargögnum málsins. Eru því ekki skilyrði samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 91/1991 til að dæma bætur vegna lögmannskostnaðar.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður um annað en lögmannskostnað.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 1998.

Ár 1998, föstudaginn, 13. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í dómhúsinu við Lækjartorg af Hjördísi Hákonardóttur, héraðsdómara, kveðinn upp svohljóðandi dómur í sakamálinu nr. 381/1998: Ákæruvaldið gegn X.

Mál þetta sem dómtekið var 2. nóvember sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra hinn 3. apríl 1998 á hendur ákærða, X, kt. 060455-5629, Skildinganesi 18, Reykjavík, fyrir misneytingu gagnvart Ásrúnu Einarsdóttur, kt. 060616-2489, með því að hafa notfært sér bágindi Ásrúnar sökum heilarýrnunar, einfeldni hennar og að hún var ákærða háð, til að hafa af henni fé og áskilja sér hagsmuni er ekkert endurgjald skyldi koma fyrir, svo sem hér greinir:

I.

Fengið Ásrúnu á tímabilinu 11. apríl 1996 til og með 3. febrúar 1997 til að taka átján sinnum út af reikningi sínum nr. 18 650011 og einu sinni út af reikningi sínum nr. 03 801498, báðum í Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, alls kr. 28.400.000, og ráðstafa allri fjárhæðinni til ákærða með bankamillifærslum yfir á reikninga hans eða lánardrottna hans, afhendingu peninga eða með því að gefnar voru út bankaávísanir á nafn ákærða, en öllu fénu ráðstafaði ákærði í eigin þágu.

II.

Fengið Ásrúnu á árinu 1995 til að afhenda Sigurjóni Ragnarssyni, kt. 160729-2289, sem greiðslu upp í skuld ákærða við Sigurjón, veðskuldabréf að fjárhæð kr. 2.425.986 útgefið á Kvilft hf. til Ásrúnar 10. febrúar 1995 með veði í fasteigninni Einholti 2, 1., 2. og 3. hæð eystri enda, Reykjavík.

III.

Fengið Ásrúnu til að gefa út yfirlýsingu sem hún undirritaði 3. júlí 1997 í viðurvist lögbókandans í Reykjavík og var viðbót við erfðaskrá frá 20. mars 1996, þess efnis að standi eitthvað eftir af skuld ákærða við Ásrúnu þá er hún fellur frá skuli skuldin falla að öllu leyti niður.

Telst þetta varða við 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði alfarið sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Telji dómurinn að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem fram kemur í ákæruskjali ríkislögreglustjóra, að hluta eða öllu leyti, er gerð krafa um að tildæmd refsing verði eins væg og lög leyfa og hún að öllu leyti skilorðsbundin. Þá er þess krafist að verjanda ákærða verði tildæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.

Erla S. Árnadóttir, hrl. krefst fyrir hönd Ásrúnar Einarsdóttur bóta að fjárhæð kr. 38.643.033 ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags og málskostnaðar.

Málsatvik.

Ásrún Einarsdóttir er samkvæmt gögnum málsins fædd hinn 6. júní 1916. Hún var einkaerfingi eiginmanns síns, Arons Guðbrandssonar, einkaeiganda Kauphallarinnar, sem lést fyrir um 17 árum. Kynni þeirra hjóna og ákærða, X, munu hafa hafist þegar þau fengu X, sem er málari, til að annast málningarvinnu fyrir sig. Eftir að Ásrún varð ekkja var X í miklu sambandi við hana og annaðist ýmsa hluti fyrir hana.

Við framtalsgerð vegna ársins 1996, sem Erla S. Árnadóttir hrl. annaðist, kom í ljós að inneign Ásrúnar í Búnaðarbanka Íslands, reikningi 0301-18-650011, sem hafði verið rúmar kr. 27.000.000 í ársbyrjun var horfin. Fyrirspurn var send Búnaðarbanka vegna máls þessa og kom í ljós að teknar höfðu verið út af reikningnum kr. 28.350.000, sem virtust allar hafa runnið til X.

Með bréfi, dags. 18. júlí 1997, fór Helgi V. Jónsson hrl. þess á leit við Ríkislögreglustjóra að fram færi opinber rannsókn á þeim verknuðum sem ákært hefur verið fyrir í máli þessu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 14. október 1997, var Ásrún Einarsdóttir svipt fjárræði að eigin ósk. Í framhaldi af kæru lögmannsins hófst rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra. Fyrsta framburðarskýrsla var tekin af ákærða 30. júlí 1997.

Verður nú lýst ákæruliðum og afstöðu ákærða hjá ríkislögreglustjóra til einstakra þátta ákærunnar.

Ákæruliður I

Samkvæmt gögnum málsins tók Ásrún Einarsdóttir á tímabilinu 11. apríl 1996 til 3. febrúar 1997 átján sinnum út af reikningi sínum 301-18-650011 og einu sinni út af reikningi sínum 301-03-801498, báðum í Búnaðarbanka Íslands, aðalbanka, alls kr. 28.400.000. Samkvæmt skýrslu Tæknirannsóknarstofu Ríkislögreglustjóra, sem dagsett er 3. september 1998, er það niðurstaða Haraldar Árnasonar lögreglufulltrúa að yfirgnæfandi líkur séu á því að Ásrún Einarsdóttir hafi kvittað á úttektarmiða þá sem notaðir voru við að taka út af reikningum hennar á tímabilinu 11. apríl 1996 til 3. febrúar 1997.

Ákærði var yfirheyrður vegna hverrar einstakrar úttektar og kannaðist hann að nokkru við hvernig þeim fjármunum var ráðstafað. Ákærði kannaðist við að hafa keyrt Ásrúnu í bankann, Melaútibú Búnaðarbanka Íslands, í umrædd skipti. Hún hafi farið ein inn og hann beðið í bifreiðinni á meðan. Hún hafi ekki viljað að aðrir vissu að hún væri að lána honum peninga. Fram kom að sami gjaldkerinn, vitnið Halldóra Einarsdóttir, afgreiddi allar þessar úttektir og millifærslur Ásrúnar. Kvaðst hann kannast við eiginmann Halldóru og hefðu þau hjónin skrifað upp á fyrir hann sem ábyrgðarmenn og eitthvað af því hafi fallið á hann og væri það óuppgert. Kvað hann það hafa verið tilviljun að Ásrún hitti á Halldóru í fyrsta sinn sem hún fór í bankann í þeim tilgangi að lána honum og hafi hún síðan aðeins viljað að Halldóra afgreiddi hana. Þær hefðu hist áður í sumarbústað Ásrúnar. Hann svaraði neitandi þeirri spurningu lögreglu hvort hann hefði haft samskipti við Halldóru vegna þessara úttekta og millifærslna. Hann kvaðst ekki hafa haldið sérstakt yfirlit eða bókhald yfir þær fjárhæðir sem hann hefði fengið hjá Ásrúnu, en geta séð á yfirliti bankabókar sinnar hversu mikið hann skuldaði henni. Hann kvaðst ekki hafa gefið út skuldaviðurkenningar, skuldabréf eða aðrar staðfestingar á skuldum sínum við hana og endurgreiðslu þeirra, en hafa talið þær fram á skattframtali árið 1997. Hann kvaðst hafa haft í hyggju að endurgreiða alla upphæðina, en hafa haft frjálsar hendur um hvernig hann gerði það. Hann taldi Ásrúnu hafa gert sér fulla grein fyrir gerðum sínum varðandi lánveitingar hennar til hans.

Verður nú fjallað um hverja úttekt fyrir sig og hvernig þeim fjármunum var ráðstafað. Fylgt er ákæru og eru úttektir taldar í aldursröð að öðru leyti en því að síðast er talin úttekt frá 22.04.96 að fjárhæð kr. 300.000. Sú úttekt var önnur í röðinni.

1. Úttekt hinn 11.04.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 3.000.000. Greitt út með bankaávísun á nafn Ásrúnar Einarsdóttur nr. 1102026 að fjárhæð kr. 3.000.000. Bankaávísun þessi var síðan innleyst í Landsbanka Íslands bn. 137 hinn 11.04.1996. Samkvæmt framburði ákærða í lögregluskýrslu, dags. 07.08.1997, móttók hann andvirði tékkans og nýtti í eigin þágu. Samkvæmt gögnum málsins ráðstafaði ákærði fjárhæðinni þannig að hann greiddi kr. 300.000 inn á reikning Birgis Fredriksen, lagði kr. 700.000 inn á sinn eigin reikning í Íslandsbanka 517-26-1011 og greiddi kr. 1.300.000 til Gjaldheimtunnar í Reykjavík vegna skulda. Hann kvaðst ekki muna hvernig kr. 700.000 var ráðstafað.

2. Úttekt hinn 30.04.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 2.000.000. Greitt út með bankaávísun á nafni Ásrúnar Einarsdóttur nr. 1631377 að fjárhæð kr. 2.000.000. Þessi bankaávísun var innleyst í Landsbanka Íslands bn. 137 hinn 30.04.1996. Samkvæmt framburði í lögregluskýrslu af ákærða, dags. 07.08.1997, móttók hann andvirði tékkans og nýtti í eigin þágu. Samkvæmt gögnum málsins ráðstafaði ákærði fjárhæðinni þannig að hann greiddi kr. 150.000 inn á tékkareikning Birgis Fredriksen, vegna Euroskuldar eiginkonu ákærða greiddi hann kr. 70.382, kr. 1.400.000 greiddi hann inn á tékkareikning Sigurjóns Siggeirssonar og kr. 70.000 greiddi hann inn á tékkareikning Jóns Hafnfjörð. Að öðru leyti gat ákærði ekki gert grein fyrir ráðstöfun fjárins.

3. Úttekt hinn 23.05.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 3.000.000. Greitt út með bankaávísun á nafni Ásrúnar Einarsdóttur nr. 1631407 að fjárhæð kr. 3.000.000. Þessi bankaávísun var innleyst í Landsbanka Íslands bn. 137 hinn 23.05.1996. Samkvæmt framburði í ákærða í lögregluskýrslu, dags. 07.08.1997, móttók hann andvirði tékkans og nýtti í eigin þágu. Samkvæmt gögnum málsins ráðstafaði ákærði fjárhæðinni þannig að hann greiddi Þóri Lárussyni kr. 400.000, inn á tékkareikning Birgis Fredriksen greiddi ákærði kr. 200.000, inn á reikning Jóns Haffjörð greiddi hann kr. 50.000, Halldóri B. Jónssyni greiddi ákærði kr. 400.000 og kr. 1.495.000 lagði hann inn á eigin reikning í Íslandsbanka 517-26-1011. Samkvæmt framburði ákærða í lögregluskýrslu, dags. 07.08.1997, gat hann ekki áttað sig á ráðstöfun kr. 355.000.

4. Úttekt hinn 04.06.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 1.400.000. Samkvæmt gögnum málsins voru kr. 1.200.000 lagðar inn á reikning í nafni ákærða í Íslandsbanka 517-26-1011. Þá voru kr. 150.000 lagðar inn á reikning Guðmundar Ágústssonar í Íslandsbanka 526-26-402959 og kr. 50.000 inn á reikning Ólafs Víðis Björnssonar 311-03-835. Þá voru um leið teknar kr. 50.000 út af reikningi Ásrúnar Einarsdóttur á sama stað 0301-03-901498 sem greiddar voru út með seðlum. Í lögregluskýrslu, dags. 07.08.1997, kvaðst ákærði kannast við að hafa fengið að láni hjá Ásrúnu kr. 1.250.000 af þeim kr. 1.400.000 sem hún tók út. Hún hafi lagt kr. 1.200.000 inn á reikning ákærða í Íslandsbanka 517-26-1011, en kr. 50.000 kveðst ákærði muna að hún hafi lagt inn á reikning Ólafs Víðis Björnssonar samkvæmt hans beiðni. Ákærði kvaðst ekki kannast við kr. 150.000 innlegg á reikning Guðmundar Ágústssonar.

5. Úttekt hinn 19.06.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 1.500.000. Greitt út með bankaávísun á nafni X nr. 1631411 að fjárhæð kr. 1.500.000. Bankaávísun þessi var innleyst í Landsbanka Íslands bn. 137 hinn 19.06.1996 og samkvæmt skjölum málsins var fjárhæðinni ráðstafað þannig að kr. 56.000 voru greiddar inn á reikning Jóns Hafnfjörð 301-26-16842, inn á reikning Birgis Fredriksen 526-26-32005 voru greiddar kr. 300.000, inn á reikning Þóris Lárussonar v. Miklubrautar 78 voru greiddar kr. 500.000, inn á reikning ákærða 517-26-1011 voru greiddar kr. 600.000 og þá fékk ákærði greitt í seðlum kr. 44.000. Í lögregluskýrslu, dags. 07.08.1997, kvaðst ákærði kannast við að hafa móttekið og nýtt í eigin þágu andvirði tékkans samtals kr. 1.500.000. Hann kvað fjármuni þessa vera hluta af þeim lánum sem Ásrún hafi veitt honum. Hann muni þó ekki eftir þessu skipti og ekki heldur hvernig á því standi að tékkinn hafi verið stílaður á hans nafn. Ákærði kvaðst hafa ráðstafað fjárhæðinni eins og skjölin beri með sér.

6. Úttekt hinn 02.07.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 1.500.000. Lagt inn á reikning ákærða í Íslandsbanka 517-26-1011. Ákærði staðfesti í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, að hafa móttekið þessa heildarfjárhæð og nýtt í eigin þágu, en úttektin og millifærsla á hans reikning væri hluti af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Ákærði sagðist ekki muna hvernig fjárhæð þessari var ráðstafað.

7. Úttekt hinn 23.07.1996 af reikningi 0301-18-6500011 kr. 1.200.000. Lagt inn á reikning ákærða í Landsbanka 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið þessa fjárhæð og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

8. Úttekt hinn 07.08.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 1.200.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

9. Úttekt hinn 19.08.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.200.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

10. Úttekt hinn 03.09.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.500.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært yfir á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

11. Úttekt hinn 18.09.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.000.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

12. Úttekt hinn 26.09.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 2.000.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

13. Úttekt hinn 02.10.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.500.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

14. Úttekt hinn 9.10.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.500.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

15. Úttekt hinn 17.10.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.200.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

16. Úttekt hinn 25.10.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.200.000. Lagt inn á reikning ákærða 137-05-17600. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að hafa móttekið fjárhæðina og nýtt í sína eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki hafa framkvæmt færsluna sjálfur heldur hafi gjaldkerinn sem afgreiddi Ásrúnu millifært á hans reikning. Hann kvaðst ekki muna hvernig þessari fjárhæð var ráðstafað.

17. Úttekt hinn 31.10.1996 af reikningi nr. 0301-18-650011 kr. 1.400.000. Af þessari upphæð voru kr. 1.000.000 lagðar inn á reikning ákærða 137-05-17600. Þá lagði ákærði kr. 400.000 inn á reikning Guðmundar Ágústssonar 526-26-402959. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar og millifærslu á hans reikning vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann staðfesti að Halldóra Erlendsdóttir gjaldkeri í Búnaðarbanka Íslands hafi samkvæmt sinni beiðni ráðstafað úttekt Ásrúnar eins og gögn málsins bera með sér.

18. Úttekt hinn 03.02.1997 af reikningi 0301-18-650011 kr. 750.000. Lagt inn á reikning 517 26 2011. Í yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem Ásrún hafi lánað honum. Hann kvaðst staðfesta að hafa móttekið upphæðina og nýtt í eigin þágu. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því en það geti verið að hann hafi farið með Ásrúnu inn í útibúið og verið með henni þegar hún tók út upphæðina. Hann segist síðan hafa ritað greiðsluseðilinn sjálfur og lagt úttekt Ásrúnar inn á ofangreindan reikning.

19. Úttekt hinn 22.04.1996 af reikningi 0301-18-650011 kr. 300.000. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, kvað ákærði þessa úttekt Ásrúnar vera hluta af þeirri heildarfjárhæð sem hún hafi lánað honum. Ákærði staðfesti að hafa móttekið þessa upphæð og notað til að greiða skuldir vegna Miklubrautar 78.

Hann kvaðst aldrei hafa hafa beðið Ásrúnu að lána sér. Sigurjón Ragnarsson hafi átt frumkvæðið að því að Ásrún lánaði honum kr. 300.000 vegna uppboðsins á Miklubraut 78. Hún hafi síðan gengið á hann um skuldir hans og viljað hjálpa honum til að greiða þær í eitt skipti fyrir öll. Hafi hún tekið skýrt fram að um lán væri að ræða.

Ákæruliður II

Samkvæmt þessum ákærulið fékk ákærði Ásrúnu á árinu 1995 til að afhenda Sigurjóni Ragnarssyni veðskuldabréf að fjárhæð kr. 2.435.986, útgefið af Kvilft hf. til Ásrúnar 10. febrúar 1995 með veði í fasteigninni Einholti 2, 1., 2. og 3. hæð eystri enda Reykjavík upp í skuld ákærða við Sigurjón. Spurður um þetta hjá lögreglu 13.08.97 kvað hann Ásrúnu hafa greint sér frá því að hún hefði fengið þetta skuldabréf í hendur vegna eldri viðskipta með Einholt 2. Hún hafi spurt hann hvort hann gæti nýtt sér þetta bréf og boðið honum að nýta andvirði þess, en hann hafi ekki viljað taka bréfið. Ásrún hafi þá ákveðið sjálf að afhenda Sigurjóni Ragnarssyni, sem sé forráðamaður skuldarans, Kviltar hf., bréfið upp í skuld ákærða við Sigurjón sjálfan. Kvaðst hann vita að Sigurjón hafi farið á heimili Ásrúnar þar sem hún hafi afhent honum bréfið. Hafi skuld ákærða lækkað að því er nam andvirði bréfsins. Kvaðst ákærði engin gögn hafa varðandi þetta.

Nánar spurður um þetta atriði hjá lögreglu 15.10.97 kvað hann vera réttan framburð Sigurjóns Ragnarssonar á þann veg að Sigurjón hefði rukkað ákærða vegna eldri skulda og ákærði þá boðið þetta skuldabréf sem greiðslu upp í skuldirnar. Sigurjón hafi, eftir fyrirmælum ákærða, farið á heimili Ásrúnar Einarsdóttur og sótt þangað skuldabréfið.

Ákæruliður III

Hinn 3. júlí 1997 undirritaði Ásrún í viðurvist lögbókandans í Reykjavík yfirlýsingu, sem var viðbót við erfðaskrá frá 20. mars 1996. Var yfirlýsingin þess efnis að standi eitthvað eftir af skuld ákærða við Ásrúnu þá er hún fellur frá eigi skuldin að falla að öllu leyti niður. Í lögregluskýrslu, dags. 13.08.1997, var ákærði beðinn um að gera grein fyrir ástæðu þessarar viðbótar við erfðaskrána. Hann kvað Ásrúnu hafa lagt áherslu á að allt yrði skráð varðandi fjárhagsleg tengsl þeirra. Um svipað leyti hafi Ásrún minnst á það við sig að hennar vilji væri sá að væri eitthvað eftir að skuldum ákærða við hana þegar hún létist myndu þær skuldir falla niður. Ákærði hafi stungið upp á því að hún ræddi við Pétur Guðmundarson hrl. Þeir Pétur hafi farið heim til Ásrúnar þar sem þau hafi rætt saman um þennan vilja Ásrúnar og hugsanlegt innihald yfirlýsingar hennar um þetta efni. Kvaðst hann hafa setið hjá þeim í stofunni þar sem þau ræddu þetta. Nokkru síðar hafi Pétur hringt í ákærða og greint honum frá innihaldi yfirlýsingar varðandi þetta. Pétur hafi síðan sótt Ásrúnu heim og þau farið saman til sýslumannsins í Reykjavík þar sem viðbótin við erfðaskrána frá 20. mars 1996 hafi verið skráð. Í yfirheyrslunni kom fram að ákærða hafði ekki verið kunnugt um að Ásrún hafði fellt úr gildi greinda erfðaskrá frá 20. mars 1996, samkvæmt henni var sonur ákærða erfingi að stærstum hluta eigna hennar, með erfðaskrá í maí 1997.

Á grundvelli ofangreindrar lögreglurannsóknar var ákæra gefin út. Fyrir dóminum hefur ákærði staðfest lögregluskýrslur og skýrt mál sitt nánar.

Framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði kvaðst hafa kynnst þeim hjónum Ásrúnu Einarsdóttur og Aroni Guðbrandssyni í kringum 1970 en hann hafi unnið ýmis verkefni fyrir Aron og verið honum, og þeim hjónum, innan handar við hitt og þetta. Honum hafi snemma gengið vel í viðskiptum og hafi Aron aðstoðað hann við það. Þegar Aron hafi legið banaleguna fyrir 17 árum hafi hann tekið það loforð af ákærða að annast Ásrúnu eftir sinn dag. Ákærði kveður sambandið milli hans og Ásrúnar vera sérstakt, hún hafi leitað til hans með alla hluti, hann hafi gert allt frá því að sjá um húseignina og viðra sloppana hennar. Hafi hann farið á hverju einasta kvöldi, geti hann e.t.v. talið 10 eða 12 daga sl. 17 ár sem hann hafi ekki mætt hjá Ásrúnu eftir kvöldmat. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið neitt endurgjald fyrir þessa þjónustu, ekkert annað en kærleika og eingöngnu hafa sinnt henni að mannkærleik.

Ákærði kveður Ásrúnu hafa átt vinafólk og systkini, en hún hafi aldrei talað við hann um þessi systkini sín. Hafi ákærði sáralítið orðið var við systkini hennar á þessu tímabili, samgangur hafi verið lítill. Það hafi verið hann og fjölskylda hans, eftir að hann gifti sig, sem hafi umgengist Ásrúnu. Ákærði segir að Ásrún hafi verið vel á sig komin, góð kona og vel gefin í alla staði.

Hann kvaðst ekki hafa átt frumkvæði að fyrsta láninu, en eftir það hefði hann spurt hvort hún gæti hjálpað sér um þessa upphæð í hvert eitt sinn. Hefði hann oft beðið Ásrúnu að kvöldi og sótt hana daginn eftir og ekið henni í bankann. Ákærði kvað um hafa verið að ræða tímabundna aðstoð Ásrúnar við hann og hafi hann ætlað að endurgreiða henni þessa fjárhæð.

Ákærði kvað tildrög þeirra 19 úttekta, sem ákært er fyrir í I. ákærulið, vera þau að hann hafi átt í langvarandi fjárhagsörðugleikum út af rekstri, persónulegum ábyrgðum og öðru. Hann hafi svo staðið frammi fyrir útburði móður sinnar úr húsnæði að Miklubraut 78, Reykjavík og þurft að borga kr. 300.000 eða 400.000 sem hann hafi ekki átti til. Ákærði hafi þá snúið sér til sameiginlegs vinar þeirra Ásrúnar að nafni Sigurjón Ragnarsson og rætt við hann um það hvernig ákærði ætti að bregðast við þessu. Sigurjón hafi þá spurt ákærða hvort hann hafi talað við Ásrúnu en ákærði hafi svarað því neitandi og sagst ekki myndu ræða við Ásrúnu þar sem hún væri búin að styðja hann nóg í gegnum árin. Sigurjón hafi hins vegar ekki tekið það í mál. Síðar hafi Sigurjón komið með Ásrúnu og sagt hana vilja hjálpa ákærða um þessa peninga til að stoppa útburð á móður hans. Sama kvöld eða daginn eftir hafi Ásrún sagt við ákærða: "Ég er hérna með peninga X, ætlar þessum látum aldrei að linna hjá þér. Ég er hér með bankabók sem ég hef ekki hreyft hér í mörg ár, ég vil að þú notir þetta. Ég ætla ekki að gefa þér þetta. Ég ætla að lána þér þetta og þú skalt nota það sem þú þarft að nota úr þessu og síðan skalt þú reyna að fara að koma þér í almennilega vinnu og hætta þessu basli og gera upp við þessa aðila. Þannig að þú hafir sálarfrið fyrir þig og þína fjölskyldu." Ákærði kvað það síðan hafa verið svo að þau Ásrún hafi farið í þær 19 ferðir til að taka út peninga sem ákært sé fyrir. Þá hafi hann sótt Ásrúnu og spurt hana hvort hún gæti hjálpað sér um þessa upphæð. Ákærði kveðst hafa keyrt Ásrúnu í bankann og beðið eftir henni úti í bíl. Hún hafi farið sjálf inn í bankann og hafi vitað hvaða upphæð hún var að taka út. Ákærði lagði hins vegar áherslu á að hún hafi lánað honum þessa peninga. Þetta hafi verið tímabundin aðstoð sem hún hafi veitt ákærða. Ákærði kvaðst hafa skráð þessar úttektir sem lán sem hann hafi alltaf ætlað að endurgreiða Ásrúnu, en hún hafi sagst ekki myndu ganga fast á eftir því að hann greiddi. Ákærði kvaðst hafa hafa haft ákveðnar áætlanir um að endurgreiða Ásrúnu þessa fjárhæð, en hann hafi gert sér grein fyrir því að hann mundi ef til vill greiða þetta til baka á nokkrum árum, enda hefði Ásrún ekkert notað þessa peninga í mörg ár.

Ákærði lýsti Ásrúnu Einarsdóttur sem eldri konu, sem væri mjög vel á sig komin, góð og vel gefin í alla staði. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neinar breytingar á andlegu atgervi Ásrúnar, en ákærði hafi heimsótt hana að jafnaði þrisvar á dag hvern einasta dag. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við það sem segir í læknaskýrslum, en það væri kannski ekki að marka þar sem hann hafi umgengist hana það mikið. Ákærði kvaðst telja að Ásrún hafi gert sér fulla grein fyrir og haft yfirsýn yfir þær fjárhæðir sem teknar voru út. Hann kvaðst hafa skrifað það margsinnis á miða hjá henni og útskýrt þetta fyrir henni og hafi hún alveg verið með á nótunum.

Aðspurður um hvort hann hefði séð um að greiða reikninga og annað slíkt fyrir Ásrúnu kvaðst hann sáralítið hafa komið nálægt því. Hún hafi séð sjálf um að greiða hitaveitureikninga og rafmagnsreikninga og fleira og hafi vitnið aldrei komið nálægt því, en allt sem til hafi fallið, hvort sem það voru iðnaðarmenn eða verkamenn eða búðarinnkaup, hafi vitnið aðstoðaði hana við, en framan af hafi Ásrún að mestu leyti séð um þetta sjálf.

Aðspurður sagði ákærði að Ásrún hefði farið sjálf í banka og annað slíkt. Hún hafi verið mjög hress og ekki veigrað sér við að ganga eina og tvær ferðir á dag niður í bæ til að gera innkaup. Hún hafi haldið sér í góðu jafnvægi með þessum göngum, og verið mjög vel á sig komin líkamlega. Áttræð hafi hún farið út á veturna og mokað tröppurnar sjálf og gangstéttina. Það lýsi hvers konar kraftur hafi verið í henni og það hafi haldið henni gangandi að fara í þessa göngutúra.

Aðspurður um hvort ákærði hafi haft í hyggju að endurgreiða Ásrúnu þessa háu fjárhæð sem ákært er fyrir, kvað vitnið svo vera enda hafi hann skráð þetta sem lán, en það hafi orðið mistök við framtalsgerð hjá endurskoðanda. Það sé ákærða óviðkomandi að endurskoðandinn hafi ekki talið fram rétta upphæð. Ákærði hafi alltaf litið á þetta sem lán sem hann hafi ætlað að endurgreiða Ásrúnu, hún hafi ætlast til að hann greiddi en sagst ekki myndu ganga fast eftir því.

Ákærði kvaðst líta svo á að úttektirnar í fyrsta ákærulið hafi fyrst og fremst verið lán, aðstoð Ásrúnar vegna þess að hún vildi lána honum. Aðstoð Ásrúnar vegna þess að hún vildi lána mér en það hafi hún margsinnis sagt. Hún hafi haldið að þessu væri að linna. Hún hafi kannski séð alvöruna þegar fyrir lá útburður á móður ákærða sem hafi gengist í ábyrgð fyrir hann. Ásrún hafi þá sagt við ákærða: "Ætlar þessu aldrei að linna X ég vil að þú notir þetta. Ég hreyfi þetta ekkert það er alveg eins gott að þú getir rétt þig og þína fjölskyldu við á þessu, en ég gef þér þetta ekki. Ég lána þér þetta tímabundið og ég ætlast til að þú endurgreiðir það, en ég mun ekki ganga hart eftir þeim endurgreiðslum."

Aðspurður um hvort honum hafi verið ljóst þegar síðustu úttektinni lauk að þetta hafi verið allt sparifé Ásrúnar sagði vitnið að sér hefði ekki verið kunnugt um það en hann hafi vitað að hún hafi átt fé í Íslandsbanka.

Ákærði sagði að Ásrún hefði fremur viljað að hann notaði þá peninga sem lágu inni á bók í Búnaðarbankanum til að koma ákærða og fjölskyldu hans út úr vandræðum. Hann hafi ekki beðið Ásrúnu um aðstoð en Sigurjón Ragnarsson, sameiginlegur vinur þeirra beggja, hafi gengið í málið.

Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið í hendur veðskuldabréf það að fjárhæð kr. 2.425.986, sem greinir í ákærulið nr. II. Aðdragandinn að ráðstöfun á bréfinu hafi verið sá að ákærði hafi komið til Ásrúnar en hún hafi þá verið búin að fá póst eða umslag frá lögmönnunum Erlu V. Árnadóttur og Helga V. Jónssyni. Ásrún hafi sagt ákærða að þetta væri skuldabréf tengt Sigurjóni Ragnarssyni og hafi hún spurt ákærða hvað hún ætti að gera við bréfið. Ákærði hafi þá strax sagt henni að hún skyldi snúa sér til Helga V. Jónssonar og setja skuldbréfið í innheimtu. Ásrún hafi þá sagt að hún ætlaði sér ekki að standa í því að rukka vin sinn fram á dauðdaga. Hún hafi vitað að Sigurjón Ragnarsson hefði átt í erfiðleikum, en hann væri mikill fjölskylduvinur. Ákærði hafi sagt henni að ræða alfarið við Helga V. Jónsson eða Erlu Árnadóttur um það hvað hún ætti að gera við bréfið. Síðan hafi ekkert gerst í málinu í langan tíma og það ekkert verið meira rætt og hafi ákærði haldið að Ásrún hafi farið með bréfið til Helga V. Jónssonar eða farið með það í banka. Svo hafi Ásrún aftur farið að minnast á bréfið og sagt: "Ég veit það X að Sigurjón hefur nú verið eins og hrægammur á eftir þér að reyna að rukka þig um einhverjar skuldir og annað og gætir þú þá ekki hugsanlega notað þetta - orðið þér til framdráttar." Ákærði kvaðst hafa neitað þessu og sagst ekki vilja koma nálægt málinu vegna þess að hann hafi ekki viljað komast upp á milli þeirra Sigurjóns í skuldamáli. Síðan hafi liðið tími og Ásrún minnst á málið og hafi ákærði þá sagt við Ásrúnu að vildi hún gera Sigurjóni Ragnarssyni greiða eða aðstoða hann skyldi hún tala við hann. Það síðasta sem ákærði hafi vitað um málið hafi verið þegar Ásrún hafi hringt í Sigurjón og afhent honum bréfið og sagt það vera ákærða til framdráttar. Síðan hafi Sigurjón verið með bréfið. Ákærði hafi ekki séð það nema einu sinni hjá Ásrúnu.

Aðspurður um það hvernig það kom til að yfirlýsingin, sem var viðbót við erfðaskrá frá 20. mars 1996 og greinir í ákærulið nr. III, var útbúin, sagði ákærði að þegar þessi millifærslumál voru yfirstaðin hafi Ásrún sagt: "Það verður ljóta vesenið þegar þú þarft að standa uppi með þessar allar eignir X þegar ég er farin það verður einhver hasarinn og lætin." Hún hafi oft talað á þessum nótum og verið létt og haft gaman af. Þá hafi hún margoft tekið fram "er ég ekki bara að gera þér ógreiða X að láta þig eða þína hafa þetta. Það verður allt vitlaust eftir minn dag." Ákærði kvað þau hafa haft mjög sérstakan talsmáta sín á milli, eitthvað hafi þau þurft að tala um þessi 17 ár. Svo hafi hún sagt: "Ég vil síðan eftir minn dag . . . að þessi lögfræðingslýður fari ekki að hundelta þig eftir minn dag". Þau hafi rætt um þetta og ákærði sagt að það gæti vel verið að hann yrði ekki búinn að greiða henni allar skuldir og hafi hún þá sagt að þá féllu þær niður. Ákærði hafi þá sagt að svo væri ekki, hún yrði að gefa einhverja skriflega yfirlýsingu um það. Ákærði kvaðst ekki hafa sóst eftir því að hún gæfi út þessa yfirlýsingu. Ásrún hafi haft miklar áhyggjur af því að þeir sem hafi átt að teljast hennar nánustu færu á eftir ákærða vegna þess að þeir hafi alltaf séð ofsjónum yfir aðstoð Ásrúnar við hann. Ákærði hafi þá sagt henni að snúa sér til Helga V. Jónssonar hrl. eða Erlu S. Árnadóttur hrl. um það hvernig hún gæti brugðist við þessu. Ásrún hafi þá sagt að þetta væru ágætis lögmenn og endurskoðendur, en þeim kæmi ekki við hvernig hún ráðstafaði sínum hlutum. Ákærði sagði að þá aðstoð sem Ásrún veitti honum hefði hún viljað sem minnst ræða og ekkert ræða hana við sína nánustu eða við Helga V. Jónsson hrl. og Erlu S. Árnadóttur hrl.

Ákærði kvaðst hafa stungið upp á því að Pétur Guðmundarson hrl. aðstoðaði Ásrúnu við gerð yfirlýsingarinnar. Hann kvaðst hafa sagt honum að Ásrún hafi verið að aðstoða hann og sagt honum hvað málið gengi út á og þar sem ákærði væri ekki löglærður maður hvort hann gæti komið einhvern tímann og talað við hana og hún myndi útskýra hvað hún væri að fara. Síðar hafi þeir Pétur farið saman og rætt málið við Ásrúnu og Pétur sagst skyldu athuga þessi mál. Þá hafi liðið nokkur tími og þegar þeir Pétur hafi hist hafi Pétur boðið ákærða að lesa yfirlýsinguna en ákærði hafi þá sagt skýrt við Pétur: "Ég vil ekki koma nálægt þessu Pétur, ég vil ekki sjá þetta skjal þú skalt ræða eingöngu við Ásrúnu um það." Ákærði kveðst ekki hafa séð þessa yfirlýsingu fyrr en hjá lögreglu. Ákærði sagði að honum hefði verið fullkunnugt um hvað stóð til en það hafi ekki verið að hans beiðni. Ásrún hafi haft meiri áhyggjur af því en hann.

Aðspurður um erfðaskrá frá 9. maí 1997 þar sem er felld úr gildi erfðaskrá frá 20. mars 1996 og sonur ákærða arfleiddur, sagði ákærði að honum hefði verið fullkunnugt um hana vegna þess að Ásrún hefði beðið um aðstoð svila ákærða við gerð erfðaskrárinnar.

Ákærði sagði að hann hefði aldrei komið til Ásrúnar þegar ættingjar hennar voru í heimsókn, einhvern veginn hafi það atvikaðist svo að hóparnir hafi alltaf komið sitt í hvoru lagi. Ákærði kvaðst geta talið upp á fingrum annarrar handar þau skipti sem hann hitti Margréti Einarsdóttur hálfsystur Ásrúnar. Hann hafi einu sinni eða tvisvar séð alsystur Ásrúnar. Ákærði kvaðst alltaf hafa furðað sig á því hvað samgangurinn var lítill, en Ásrún hafi alltaf sagt að hún ætti enga samleið með þessu fólki.

Ákærði sagði að Ásrún hefði verið í símasambandi við margt fólk og margir hefðu litið inn til hennar, vinir og kunningjar. Ásrún hafi verið ákaflega ræðin, getað rætt allt á milli himins og jarðar. Hún hafi haft mjög sérstakar skoðanir á mönnum og málefnum. Kunningjahópurinn hafi verið mjög stór, en það hafi verið fáir vinir en góðir eins og hún hafi sjálf sagt.

Aðspurður um hvort hægt væri að segja að hún hafi verið einstæðingur, sagði vitnið að svo væri alls ekki. Hún hafi getað keypt sér alla þá aðstoð sem henni hafi dottið í hug. Hún hafi þó ekki viljað það heldur hafi hún viljað að ákærði sæi eingöngu um þetta. Hún hafi aldrei leitaði með eitt eða neitt af þessum málum til fjölskyldu sinnar.

Aðspurður um hvort Ásrún hefði verið ákveðin kona og haft sína meiningu á mönnum og málefnum kvað vitnið svo vera. Aron eiginmaður hennar hafi verið mjög sérstakur maður, haft mjög sérstakar skoðanir á lífinu og tilverunni, þau hafi verið tvö og barnslaus allan þennan tíma og hún hafi mótast heilmikið af honum, Ásrún hafi haft svona ákveðna takta frá honum. Ef hún sagði eitthvað hafi það staðið eins og stafur á bók.

Aðspurður um hvort ákærði teldi að Ásrún hefði verið orðin háð samskiptum við hann og fjölskyldu hans sagði ákærði að svo væri alls ekki. Hún hefði getað leitað til lögmanna eða systkina sinna og átt stóran kunningjahóp.

Vitnið Jón Gunnarsson Snædal, lyf- og öldrunarlæknir, kvaðst hafa hitt Ásrúnu þrisvar sinnum. Fyrst í lok desember 1996, síðan aftur í janúar 1997 og svo í september 1997. Vitnið kvað hana koma sér fyrir sjónir sem kona sem hafi alla tíð búið við gott traust. Hún hafi ekki þurft að bera mikla ábyrgð á öðru heldur en heimilishaldi sem hún hafi rækt af skyldurækni allan sinn búskap, en ekki haft aðra ábyrgð í lífinu hvorki barnauppeldi né störf í þjóðfélaginu. Hún hafi búið við mikið fjárhagslegt öryggi og öryggi á annan hátt sem hún lýsi sjálf. Hún virðist ekki hafa haft ástæðu til þess að vantreysta samferðarmönnum sínum í lífinu. Þannig sé hún að sjálfsögðu tiltölulega auðtrúa, auðvelt sé að vinna traust hennar.

Vitnið kvað Ásrúnu hafa verið lagða inn af heimilislækni sínum vegna hjartsláttaróreglu á bráðadeild Landsspítala haustið 1996. Þá hafi komið í ljós við skoðun og viðtal við ættingja að hún var orðin mjög minnislítil og gleymin og hafi hún þá fengið tíma hjá vitninu á móttöku í Hátúni, sem núna sé á Landakoti, svokallaðri minnismóttöku þar sem tekið sé inn til skoðunar fólk sem farið sé að tapa minni. Þetta hafi verið aðdragandinn að skoðun vitnisins í lok desember 1996.

Vitnið kvaðst hafa fengið upplýsingar frá aðstandendum Ásrúnar eins og ávallt undir þessum kringumstæðum. Þeir hafi tjáð vitninu að Ásrún hafi farið að tapa minni fyrir um það bil fimm árum og hafi þetta farið vaxandi. Vitnið hafi lagt fyrir hana spurningar og í samtalinu hafi komið fram að hún eigi það til að endurtaka sig. Ásrún gleymi að hún sé búin að segja frá einhverju og segi frá því aftur. Vitnið kvaðst hafa lagt minnispróf fyrir Ásrúnu sem hafi verið þýtt og staðfært á íslensku, almennt kallað MMSE og sé það afar mikið notað í þessum tilgangi. Samkvæmt prófum teljist hún vera með heilabilun, þ.e.a.s. vitræn geta hennar sé það skert að ljóst sé að hún eigi erfitt með og geti í raun og veru ekki séð um sig alveg sjálfstætt sökum minnistaps. Þá hafi komið í ljós að í þeim lið, þar sem reyni á skammtímaminni, hafi Ásrúnu ekki tekist að muna einfalda hluti í þrjár mínútur, þeir hverfi á þeim tíma. Einföld reikningsdæmi séu lögð fyrir hana og hún geti dregið sjö frá hundrað, en þegar hún hafi verið beðin um að draga aftur sjö frá þeirri tölu sem þá komi út þá gleymi hún henni og ráði ekki við verkefnið. Hún hafi verið beðin um að skrifa setningu og hafi ekki getað skrifað hana upp á eigin spýtur. Þetta sama próf hafi vitnið síðan endurtekið á heimili Ásrúnar í september 1997 og hafi útkoman þá verið afar svipuð að því einu undanskildu að Ásrún hafi verið betur áttuð á stað, þ.e.a.s. þegar vitnið hafi hitt Ásrúnu á heimili hennar hafi hún vitað hvar hún var og hvert heimilisfangið væri, en þegar vitnið hafi hitt hana áður á ókunnugum stað þá hafi Ásrún ekki vitað hvar hún var stödd. Að þessu leyti hafi hún verið betri. Rannsóknir sem vitnið hafi látið gera í byrjun janúar 1997, þ.e. tölvusneiðmynd af heila, hafi sýnt að heilinn var farinn að rýrna nokkuð. Það sé hins vegar afar erfitt að leggja mikið upp úr því og aðalástæða þess að sú mynd hafi verið tekin hafi verið til að sjá hvort einhverjar aðrar ástæður væru fyrir minnistapinu. Heilarýrnun sem komið hafi fram eða sem hafi sést passi vel við þessa gleymsku og í kjölfarið þá fái hún þá sjúkdómsgreiningu að þetta sé heilarýrnun af Alzheimer gerð og sé það ástæðan fyrir minnistapinu. Vitnið telur að sú staðreynd að Ásrúnu fari sáralítið ef nokkuð aftur á þessum níu mánuðum segi að hún sé búin að vera með hann árum saman. Þannig geti sú ágiskun ættingja að þetta hafi byrjað fyrir fimm árum vel staðist að dómi vitnisins.

Vitnið sagði að þegar hann hafi séð Ásrúnu í tvö fyrri skiptin í desember 1996 og janúar 1997 hafi honum verið ókunnugt um þau mál sem ákæran varðar og þau ekki komið til tals, Ásrún hafi ekki nefnt þau. Þegar vitnið hafi svo hitt hana í september 1997 þá séu þessi mál komin upp á yfirborðið og hafi hún sagt sjálf að það hafi verið farið illa með hana. Vitnið kvað Ásrúnu ekki hafa viljað ræða það frekar, hún hafi verið miður sín. Hún hafi lýst því yfir að hún hafi verið féflett. Ásrún hafi kosið að ræða það ekki frekar þannig að þau hafi ekki rætt það nánar og hafi vitnið beint athyglinni að því að athuga vitræna getu hennar eins og hún var á þeim tíma.

Vitnið taldi að í apríl 1996 til febrúar 1997, á þeim tíma er Ásrún fór í 19 skipti í bankann í þágu ákærða, hafi hún óyggjandi verið komin með það skert skammtímaminni að hún hafi ekki getað með nokkru móti munað eða haft yfirsýn yfir slíkar ferðir nema þá að hafa skrifað þær hjá sér. Vitnið kvað afar líklegt að hún hafi ekki munað eftir því að hafa farið í bankann nema vera minnt á það.

Vitnið taldi að leikmaður myndi sjá það fljótlega að Ásrún væri gleymin, því í venjulegu samtali endurtæki hún sig það mikið að ljóst væri þegar liði á samtalið að hún væri búin að gleyma því sem fram fór í byrjun þess og þetta taldi vitnið að leikmaður myndi auðveldlega sjá. Vitnið kvað ekki líklegt að þetta færi fram hjá þeim sem umgengist Ásrúnu daglega. Hún sé það gleymin að það dyljist engum, hvorki þeim sem tali við hana í eitt skipti eða oftar.

Vitnið Margrét Georgsdóttir, læknir, kvaðst hafa fyrst kynnst Ásrúnu 18 ára gömul er hún vann á Hótel Borg eitt sumar þar sem eiginmaður Ásrúnar var einn af aðaleigendum. Þá sé líka ákveðinn kunningsskapur innan fjölskyldu vitnisins við Ásrúnu. Sem læknir hafi hún kynnst henni árið 1986 en þá hafi Ásrún valið hana sem heimilislækni.

Vitnið kvað Ásrúnu afskaplega elskulega konu. Hún hafi lifað fremur verndaðri tilveru og átt mann sem var í mjög góðum efnum og hugsað mjög vel um hana. Þau hafi verið barnlaus og Ásrún verið mikið ein inni á heimili þeirra og samband þeirra hjóna verið náið. Vitnið kvaðst hafa orðið læknir Ásrúnar eftir að hún var orðin ekkja. Það hafi náttúrlega verið töluverð viðbrigði því Ásrún hafi ekki verið vön að annast fjárreiður þeirra hjóna og allt sem því hafi viðkomið. Vitnið taldi Ásrúnu hafa lifað mjög verndaðri tilveru.

Vitnið kvað Ásrúnu hafa verið kallaða inn til hóprannsóknar hjá Hjartavernd árið 1994. Þar hafi farið fram rannsókn á elliglöpum aldraðra og Ásrún hafi lent í úrtaki vegna þess. Lagt hafi verið fyrir fólk örstutt minnispróf sem Ásrún hafi ekki staðist, en allir sem ekki stóðust það hafi farið áfram í heilamyndatöku og komi þegar fram í þeirri myndatöku árið 1994 að hún sé með heilarýrnun.

Vitnið kvað Ásrúnu ekki hafa komið til sín um tíma en taldi að breytingar á andlegu atferli Ásrúnar frá 1995 þangað til það hitti hana aftur árin 1996 og 1997 myndu hafa verið ljósar þeim sem umgengust Ásrúnu mikið. Vitnið kvaðst hafa upplýsingar frá heimahjúkrun, sem Ásrún hafi fengið í framhaldi af spítalavistum, að hún væri ekki fær um að annast einfalda hluti, til dæmis vefðist fyrir henni með reikninga sem kæmu inn á heimilið. Hún hafi þurft að rita minnisbók til þess að muna hvert hún ætti að fara og hún væri ekki fær um að annast lyfjagjöfina. Þegar vitnið hafi fengið þessar upplýsingar hafi það haft samband við Árna Kristinsson, lækni, og kannað hvað Ásrún hafi haft mikið samband við hann. Þá hafi komið alveg sama sagan í ljós. Hún hafi ekki farið til hans heldur. Virðist hún hafa dottið út úr öllu sambandi við lækna í ein þrjú til fjögur ár. Hafi hann gefið vitninu heimild til þess að nota sínar minnisnótur og ljósritað fyrir vitnið allt sem hann hafi átt á stofunni um Ásrúnu.

Vitnið Halldóra Erlendsdóttir, kom fyrir dóminn og skýrði frá samskiptum sínum við Ásrúnu Einarsdóttur, en hún starfaði í Melaútibúi Búnaðarbanka Íslands þegar Ásrún tók þar út þær fjárhæðir sem ákæra varðar.

Vitnið kvaðst hafa aðstoðað Ásrúnu er hún kom í bankann en Ásrún hafi beðið vitnið að skrifa fyrir sig miðana. Vitnið kvað ákærða X einnig hafa komið í bankann, þau hafi komið bæði eða a.m.k. Ásrún komið inn. Vitnið hélt að ákærði hefði nú ekki komið inn.

Vitnið kvað Ásrúnu hafa komið að afgreiðsluborðinu og beðið hana um að fylla út fyrir sig úttektarseðla. Vitnið kvað Ásrúnu hafa vitað hvernig ráðstafa ætti fjármununum og viljað gera þetta fyrir X. Þá kvað vitnið ákærða stundum hafa haft samband við sig áður sem og eftir vegna umræddra ráðstafana.

Vitnið kvaðst hafa kynnst Ásrúnu þegar eiginmaður vitnisins vann við Tívolíið í Hveragerði. Hann hafi farið að dytta að lóðinni við sumarbústað Ásrúnar og hafi vitnið farið með honum, en þetta hafi verið u.þ.b. 1987-1988. Eftir þetta hafi vitnið ekkert hitt Ásrúnu nema á förnum vegi.

Aðspurð um hvernig sambandi ákærða og Ásrúnar væri háttað kvaðst vitnið ekkert vita nema það að hann hafi reynst henni mjög vel, aðstoðað hana við allt sem hún bað hann um. Henni hafi þótt mjög vænt um ákærða og börnin hans. Vitnið kvað Ásrúnu vera góða gamla konu. Vitnið kvað það mjög algengt að gamla fólkið kæmi og fengi aðstoð við að fylla út miðana í bankanum. Bankinn hafi verið með afgreiðslu úti í þjónustumiðstöð við Aflagranda og þar hafi það verið regla að skrifað var fyrir allt gamla fólkið, síðan hafi það skrifað undir.

Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því að andlegu atgervi Ásrúnar hefði hrakað á þessum tíma. Hafi sér ekki virst annað en að Ásrún væri með það alveg skýrt í höfðinu hvað hún væri að gera við peningana í þau 19 skipti sem hún kom í bankann. Hún hafi alltaf vitað að hún ætlaði að lána X þetta. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa séð neinar upplýsingar á miða eða eitthvað slíkt upp á hvernig ætti að ráðstafa fjárhæðunum. Aðspurð kvað vitnið ákærða gjarnan hafa haft samband við sig á undan eða eftir að úttektirnar áttu sér stað og útskýrt í hvað greiðslurnar ættu að fara. Það hafi aðallega verið í þeim tilgangi að staðfesta hvert þetta ætti að fara og inn á hvaða reikninga, en þetta hafi kannski ekki alltaf verið á hreinu áður en hún kom.

Vitnið kvað Ásrúnu alltaf hafa komið til sín þegar hún kom í bankann. Vitnið hafi komið úr fríi í tvö skipti til að aðstoða hana í bankanum.

Vitnið Þórunn Ingibjörg Friðfinnsdóttir kvaðst þekkja Ásrúnu og hafa aðstoðað hana við húsverkin hálfsmánaðarlega í þrjú til fjögur ár. Vitnið kvað Ásrúnu vera mjög yndislega konu, ákaflega hlýja og yndislega í alla staði.

Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við minnistap hjá Ásrúnu, kannski aðeins gleymna um einstaka hluti en ekki annað. Hún hafi verið mjög skýr og fylgst með öllu. Vitnið kvaðst ekki geta merkt það að hún væri neitt utan við sig.

Vitnið kvað Ásrúnu bera mjög góðar tilfinningar til ákærða því hann hafi reynst henni ákaflega vel að sögn Ásrúnar. Vitnið kvaðst oft hafa hitt ákærða, hann hafi verið sýnilegur á heimilinu.

Vitnið Jóhanna Runólfsdóttir, sjúkraliði, kvaðst vinna við heimahjúkrun á Heilsugæslustöðinni úti á Seltjarnarnesi og hafi Ásrún verið einn af skjólstæðingum vitnisins frá því um 20. febrúar 1997. Hún hafi fyrst aðstoðað hana við bað og síðan farið til hennar tvisvar á dag í fjórar til fimm vikur. Hún kvað Ásrúnu vera blíðlynda og góða konu og virkilega gaman að spjalla við hana. Vitnið kvað Ásrúnu hafa virkilega haft skoðanir og fylgst með. Ásrún hafi verið bæði líkamlega og andlega í góðu ásigkomulagi. Hún kvaðst hafa komið á miðvikudögum og fært inn í minnisbók sem Ásrún hafði að hún kæmi næsta miðvikudag.

Vitnið Margrét Sigríður Einarsdóttir, hálfsystir Ásrúnar, kvað þær hafa hringst mjög mikið á. Þær hafi talað saman tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum á dag. Þá hafi vitnið heimsótt Ásrúnu að jafnaði svona af og til. Stundum á hverjum degi, en stundum sjaldnar og Ásrún hafi einnig heimsótt hana.

Aðspurð kvaðst vitnið hafa orðið vör við afturför í andlegu atgervi Ásrúnar fyrir nokkuð mörgum árum síðan, kannski fjórum árum, en það sé erfitt að tímasetja það alveg. Ásrún hafi verið farin að tapa skammtímaminni fyrir nokkrum árum. Það hafi lýst sér í því að hún hafi sagt sama hlutinn aftur og aftur. Hún hafi kannski hringt með fimm, tíu og fimmtán mínútna millibili til að segja sama hlutinn og oft ekki munað frá degi til dags hvað hún hafi verið að tala um daginn áður.

Vitnið kvað Ásrúnu fyrst og fremst vera alveg óskaplega mikið góðmenni, ljúfmenni í eðli sínu, manneskja sem mætti eiginlega ekki vamm sitt vita á neinu sviði. Sumir myndu e.t.v. segja að það væri pínulítill barnaskapur á einstaka sviðum. Vitnið kvað Ásrúnu vera mjög auðtrúa. Hún væri ósjálfstæð, hún hefði alltaf verið það.

Aðspurð um samskipti Ásrúnar við ákærða og hans fjölskyldu, kvaðst vitnið lýsa þeim samskiptum þannig að X kæmi inn í líf þeirra hjóna á sínum tíma, hefði verið að aðstoða þau og hjálpa þeim í viðgerðum, sendiferðum og ýmsu fleiru sem þar féll til. Þegar Aron hafi fallið frá hafi ákærði verið mjög mikið með Ásrúnu, keyrt hana hvert sem hún fór hjálpað henni og aðstoðað hana við að lagfæra húsið eða láta lagfæra það og svo framvegis. Vitnið taldi að Ásrún hafi verið mjög háð þessu.

Vitnið sagði að fyrstu árin eftir að Aron dó hafi Ásrún aldrei rætt um ákærða með nafni. Hún hafi alltaf kallaði hann pilt eða mann sem væri að hjálpa henni. Síðasta ár eða 1997 hafi Ásrún gefið ýmislegt í skyn og hafi vitninu fundist að það væri eitthvað að hjá henni. Ásrún hafi sagt við sig að fyrra bragði að heyrði vitnið einhverjar sögur um að ákærði væri að hafa af henni peninga þá skyldi hún ekki segja orð. Ef vitnið segði eitthvað þá skyldi það segja að þetta væri bara rugl. Vitnið kvað sér hafa þótt þetta svolítið undarlegt, en ekki gert sér grein fyrir því að eitthvað væri að. Einu sinni áður hafi þær átt alvarlegar samræður út af þessu sama máli, fyrir mörgum árum síðan þegar Tívolí ævintýri ákærða hafi verið í fullum gangi. Þá hafi vitnið rætt þetta við Ásrúnu og hún hafi orðið mjög reið og átt erfitt með að sætta sig við að hún hefði verið að skrifa upp á einhverjar úttektir fyrir ákærða. Vitnið hafi rætt þetta bæði einslega við hana og eins með Halldóri heitnum Sigurðssyni, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, og síðan ákveðið að gera sem minnst eftir það.

Vitnið sagði að einhvern tímann í aprílmánuði 1997 hafi Jakob Sigurðsson, sem er bróðir Halldórs, og Sigrún dóttir Halldórs hringt í sig og beðið um viðtal. Þau hafi komið og Jakob hafi gengið beint að efninu og spurt hvort vitnið vissi hvað væri að gerast á Grenimelnum. Vitnið kvaðst hafa sagt honum að hún áttaði sig ekki alveg á hvað hann ætti við. Jakob hafi þá sagt sér að hann hefði fyrir því nokkuð öruggar heimildir að búið væri að tæma bankareikninga Ásrúnar alveg í botn. Hann hafi spurt hvort vitnið vildi gera eitthvað í þessu máli. Vitnið kvaðst hafa sagt Jakobi að hún mundi hafa samband við Helga V. Jónsson hrl. og reyna að vita hvort hún gæti komist að einhverjum sannleika í þessu máli. Helgi hafi ekki verið á landinu þannig að vitnið hafi beðið í einhvern tíma eftir að ná sambandi við hann. Helgi hafi síðan staðfest þessa frásögn Jakobs. Vitnið kvaðst hafa rætt við Ásrúnu í beinu framhaldi af þessu máli. Ásrún hafi orðið eins og endranær mjög óstyrk og reið og henni hafi fundist að þetta gæti ekki verið satt. Hún hafi sagt að það væri ekki rétt að hún ætti ekki peninga lengur á bankanum. Það væri fásinna, hún ætti peningana og vissi það vel.

Aðspurð kvað vitnið Ásrúnu hafa hrakað andlega undanfarin tvö, þrjú ár. Þau systkinin hafi talað um þetta. Þá hafi vitnið rætt um þetta við Aron Björnsson og konu hans. Vitnið kvað þau hafa byrjað að ræða alvarlega um um þetta fyrir svona fjórum og allt upp í fimm árum, en náttúrlega aldrei eins mikið eins og á síðasta ári. Það hafi verið mjög áberandi þá að Ásrún var í slæmu ástandi. Sé mikið álag á henni, mikil spenna í kringum hana og pressa verði hún eiginlega bara mjög rugluð.

Aðspurð kvað vitnið þetta koma þannig fram að Ásrún hafi verið illa áttuð. Það hafi komið fram í mjög litlu skammtímaminni, í miklum endurtekningum á því sem hún var að segja. Maður hafi kannski að tala við hana og hún hafi ekki vitað tveimur mínútum seinna um hvað maður hefði verið að tala.

Vitnið Haukur Clausen, fyrrverandi tannlæknir, kvaðst hafa þekkt Ásrúnu Einarsdóttur frá því að hann muni eftir sér. Þær hafi verið miklar vinkonur móðir vitnisins og Ásrún og faðir vitnisins og Aron og töluverður samgangur þar á milli. Þegar Aron hafi dáið hafi Ásrún haldið ákaflega mikilli tryggð við móður vitnisins, sem hafi andast í desember 1995, en þangað til megi segja að Ásrún hafi heimsótt hana daglega eftir að Aron dó eða hringt í hana. Vitnið kveður Ásrúnu hafa heimsótt móður sína þegar hún var komin á Droplaugarstaði, þar sem hún dvaldist síðustu tvö til þrjú árin sem hún lifði, Ásrún hafi komið næstum daglega til hennar. Vitnið kvaðst oft hafa rætt við hana þá. Frá því Aron dó hafi Ásrún verið til skiptis hjá þeim bræðrum á öllum stórhátíðum t.d. á páskum, jólum og nýári. Þar af leiðandi hafi samgangurinn verið töluverður. Það hafi stundum liði þó nokkuð á milli, sérstaklega eftir að móðir vitnisins dó.

Aðspurður um persónuleika Ásrúnar, hvort hún kæmi vitninu fyrir sjónir sem ósjálfstæð eða auðtrúa manneskja, kvaðst vitnið geta trúað því, sérstaklega seinni árin. Vitnið kvað Ásrúnu vera ákaflega góða konu. Hafi hún viljað öllum vel. Það geti vel verið að hún hafi verið tiltölulega einföld. Vitnið kvaðst aldrei hafa rætt fjármál við Ásrúnu, en hún hafi sagt þeim frá þeim. Hafi hún sagt að Aron hefði hugsað fyrir sig í öllu og hann hefði ákveðið hvort sem var allt sem ætti að gerast eftir þeirra dag. Þetta ætti allt að fara í góðgerðarstarfsemi. Hann hefði ákveðið það og hún ætlaði bara að fara að hans vilja, en að öðru leyti hafi fjármálin ekki verið rædd.

Vitnið kvaðst hafa hitt Ásrúnu eftir að mál þetta kom upp á yfirborðið. Hafi Ásrún ekki sagst skilja að svona gæti hent. Hún hafi sagt vitninu að hún hefði ekkert vit á fjármálum. Það virtist sem hún hafi ekki áttað sig á þessu fyrr en allt var um garð gengið. Aðspurður hvort Ásrún hefði rætt um ákærða X í þessu sambandi kvað vitnið svo vera. Vitninu skildist sem henni þætti ákaflega vænt um hann og börnin hans og þess vegna hefði hún sagst vera ennþá slegnari yfir því að eitthvað svona gæti gerst.

Vitnið sagði að sér virtist Ásrún stundum ekki vera með á nótunum þannig að hún kannski segði manni sama hlutinn á tveggja til þriggja mínútna fresti. Þetta væri búið að ganga svona fyrir sig að minnsta kosti ár. Vitnið hefði hugsað sem svo að hún væri bara svolítið að eldast og gert gott úr því öllu þó að hún væri að segja sömu sögurnar aftur og aftur. Eins hefði það stundum verið þegar hún hringdi, þá hefði hún hringt aftur eftir fimm mínútur og ekki munað að hún hefði verið að tala við þau og sagt að mikið væri langt síðan hún hefði heyrt í þeim. Þetta hafi komið fyrir undanfarna nokkuð marga mánuði og jafnvel á síðasta ári. Síðan í desember 1995 hafi honum fundist Ásrúnu hraka.

Vitnið Örn Clausen, hæstaréttarlögmaður, kvaðst hafa kynnst Ásrúnu þegar hann var ungur drengur á heimili móður sinnar, Ásrún hafi komið ung stúlka úr Þingeyjarsýslu. Vitnið kvaðst líka hafa kynnst Aron Guðbrandssyni, eiginmanni hennar, eftir að þau giftust.

Vitnið kvaðst hafa hitt Ásrúnu nokkrum sinnum á ári og haldið uppteknum hætti að fá hana alltaf í heimsókn á hátíðum og hitt hana stundum þess á milli, ekkert mjög mikið þess á milli en það hafi komið fyrir.

Aðspurður um persónuleika Ásrúnar, hvort hún kæmi vitninu fyrir sjónir sem ósjálfstæð eða auðtrúa manneskja, kvaðst vitnið segja að síðustu árin og jafnvel á meðan móðir hans bjó enn í Hlíðunum þá hafi honum fundist að henni væri byrjað að hraka svolítið og vera farin að eldast eiginlega um aldur fram, svona andlega, og það hafi lýst sér einkum í því að hún hafi sífellt endurtekið sama hlutinn sem hún var nýbúin að segja. Hafi þetta ágerst síðustu eitt, tvö til þrjú árin.

Vitnið sagðist vilja taka það fram að þau hafi aldrei rætt peningamál við Ásrúnu. Hún hafi aldrei minnst á þau við sig, en vitnið muni eftir því að skömmu eftir að Aron dó þá hafi það borið aðeins á góma. Aron hafi verið stóreignamaður að því er vitninu hafi skilist og hún hafi sagt: "Ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur vegna þess að hann Aron sá fyrir því öllu og við gerðum erfðaskrá og það fer allt í góðgerðarstarfsemi eftir minn dag, Aron sá um þetta alveg, ég þurfti ekkert að hugsa um það einu sinni". Þetta sé það eina sem vitnið muni eftir að Ásrún hafi sagt, að Aron hefði séð fyrir öllu og allt væri klappað og klárt og hún þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur.

Vitnið Sigurlaug Sigurðardóttir kvaðst hafa kynnst Ásrúnu líklega fyrir níu eða tíu árum. Hún kvaðst hafa kynnst Ásrúnu í gegnum Sigurjón Ragnarsson. Þær hefðu ekki haft mikil samskipti. Hún kvaðst hafa komið í sumarbústað hennar, einu sinni eða tvisvar á heimili hennar og hún hafi einu sinni komið inn á sitt heimili. Oftast hefðu þær hist á merkisdögum í fjölskyldu ákærða. Aðspurð um samskipti sín við Ásrúnu undanfarin tvö, þrjú ár, árin 1995, 1996 og 1997 kvað vitnið hana hafa hringt oftar í sig.

Vitnið kvað Ásrúnu mjög vel geta séð um sig sjálfa og svo hafi það verið ákærði, hann hafi reynst henni betur en nokkur sonur. Vitnið sagði að Ásrún hefði rætt við sig um ákærða, að hún hefði ekki getað búið þarna í þessu húsi nema af því að hann hefði reynst henni eins vel og hann gerði. Væru þau nágrannar og hafi hún vitað um ferðir hans. Vitnið kvaðst búa ein í húsi og ákærði hefði hjálpað sér og málað.

Aðspurð um andlegt heilsufar Ásrúnar undanfarin tvö, þrjú ár, kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir að henni færi neitt aftur. Hún hafi ekki endurtekið sama hlutinn í sama samtalinu.

Aðspurð kvaðst vitnið hafa talað um erfðamál við Ásrúnu. Þær hafi ekki verið sammála um erfðamál. Ásrún hafi spurt vitnið hvað það myndi gera ætti það ekki erfingja. Vitnið hafi sagt Ásrúnu að krabbameinssjúk börn fengju allt sem vitnið ætti. Þá hafi Ásrún farið að segja vitninu að ákærði ætti óvenju vel gefinn dreng sem héti Aron, en vitnið hafi þekkti Aron litla af því hann hafði oft komið til hennar og spjallað við hana og vitninu virst strákurinn bæði huggulegur og skemmtilegur. Ásrún hafi sagt að hún ætlaði að láta þennan dreng erfa sig af því hann væri greinilega með góðar námsgáfur og þyrfti að fá öll þau tækifæri sem lífið og peningarnir gætu gefið honum.

Aðspurð um hvort Ásrún virtist hafa einhvern áhuga á því að aðstoða X kvað vitnið að svo hefði verið. Ásrún hafi haft mjög mikinn áhuga, það hafi alltaf verið hennar fyrsta þegar hún heilsaði vitninu að segja hvað sér þætti vænt um þessa litlu fjölskyldu og að hún gæti ekki búið þarna vestur á Melunum ef hans X nyti ekki. Þá hafi hún sagt sér í samtali að hún hefði verið lasin og ekki getað eldað og hefði þá frú Þórunn, eiginkona X, komið með mat til sín. Vitnið sagði að það væri farið að hvarfla að því að maður ætti ekki að hugsa mikið um náunga sinn ef þetta væru þakkirnar fyrir annað eins stjan eins og X hafi veitt henni Ásrúnu í gegnum árin.

Vitnið Karin Birgitta Erikson, hjúkrunarfræðingur, kvaðst hafa kynnst Ásrúnu Einarsdóttur 1988. Ásrún hafi þekkt eiginmann sinn, Aron Björnsson. Vitnið kvaðst hafa haft meiri samskipti við Ásrúnu frá 1996, eftir að hún varð veikari, hafa hugsað meira um hana, en ekki á hverjum degi. Ásrún hafi fengið magasár og síðar hjartaáfall. Aðspurð kvaðst vitnið hafa kynnst Ásrúnu vel. Hún kvað Ásrúnu vera ósjálfstæða núna, en ekki hafa verið það 1988, henni hafi versnað síðan 1992-1993. Henni hafi hrakað mest andlega, hún hafi verið farin að tapa minni. Hún endurtaki sig stundum mikið, stundum muni hún ekki neitt, en suma daga sé hún bara góð. Kvaðst vitnið fyrst hafa tekið eftir því árið 1993 að Ásrún endurtók sig. Þetta hafi orðið mjög áberandi 1996, 1997. Það hafi verið dagar þar sem hún var mjög furðuleg.

Vitnið kvað Ásrúnu ekki hafa nefnt ákærða með nafni fyrr en á síðasta ári, heldur talað um "manninn" eða "hjálparmanninn". Kvaðst hún telja að ákærði hefði sinnt henni mikið. Hún hafi talað við sig um Aron sinn og að hann hafi átt mikla peninga. Það væri allt frágengið í erfðaskrá. Vitnið kvað Ásrúnu hafa verið hrædda en henni liði núna vel og á Dalbrautinni og talaði um það. Vitnið sagði að Ásrún hefði talað um þetta sem hafði gerst með peningana hennar. Hún hafi ekki nefnt nafn ákærða í því sambandi. Vitnið taldi hann ekki vera sjálfstæða og ekki fylgjast vel með.

Vitnið Jakob Jóhannes Sigurðsson kvaðst hafa þekkt fjölskyldu Arons og heimili frá barnæsku. Mæður þeirra Arons hafi verið einlægir vinir. Síðan hafi Ásrún komið inn á það heimili.

Vitnið kvað samskipti þeirra Ásrúnar hafa aukist eftir að Halldór bróðir hans féll frá árið 1993. Þau hjónin hafi komið til hennar nokkrum sinnum á ári, en ef þau hafi hringt þá hafi Ásrún yfirleitt viljað ráða því hvenær þau kæmu. Vitnið kvaðst einu sinni hafa komið inn á Grenimelnum án þess að gera boð á undan sér og hafi þá maður verið í ganginum eða anddyrinu. Ásrún hafi síðar sagt þeim að það hefði verið ákærði. Vitnið sagði að það hefði verið dálítið merkilegt en í það skipti hafi þau farið upp og sest og hafi honum þá fundist Ásrún vera mjög annarleg. Hún hafi verið allt öðruvísi heldur en hann hefði áður séð hana. Vitnið kvað þetta sennilega hafa verið veturinn 1996, 1997. Vitnið kvað Ásrúnu hafa haldið samskiptum sínum við ákærða alveg leyndum og sé honum það alveg ljóst þegar hann líti til baka að Ásrún hafi gert í því að þau hittu ekki ákærða.

Aðspurður um persónuleika Ásrúnar, hvernig hún hafi komið honum fyrir sjónir, taldi vitnið að í gegnum tíðina hefði hún verið alveg undir stjórn Arons, hann hefði stýrt öllu og hans vilji hefði ráðið. Taldi hann að Ásrún hafi verið orðin vön því að hún þyrfti einhvern sem hefði stjórn á hlutunum. Hún hafi haldið vel á fé fyrir sjálfa sig og annað því um líkt, en hún hefði ekki hugmynd um hvað peningar væru.

Aðspurður kvaðst vitnið hafa orðið var við breytingu á andlegu heilsufari Ásrúnar undanfarin ár. Hann hafi farið að taka eftir því um 1995, þá hafi honum fundist eitthvað vera farið að slá út í fyrir henni 1996 og þar á eftir hafi þetta farið nokkuð hratt niður, varðandi minni og annað því um líkt og að hugsa rökrétt. Ásrún hafi endurtekið sig. Vitnið kvað það hafa tekið sig svolítinn tíma að átta sig á þessu, en Ásrún sé orðin fullorðin kona. Ekki væri óeðlilegt þó að þetta kæmi fram. Vitnið sagði að þetta færi ekki fram hjá neinum sem hefði umgengist hana eitthvað að ráði.

Vitnið kvað Ásrúnu ekki tala um það sem komið hefði upp í samandi við fjármálin. Það væri einhver beiskja í henni en það kæmi ekki út. Vitnið sagðist ekki vita almennilega hvort hún gerði sér í dag alveg nógu vel grein fyrir ástandinu eða hvað hafi gerst.

Vitnið Helgi Vilhelm Jónsson, hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi, kvaðst ekki hafa haft með fjármál Ásrúnar að gera fyrr en þetta mál hafi komið í hans hendur á árinu 1997. Áður hefði hann starfað fyrir hana og fleiri við innheimtu á kröfum vegna Hótel Borgar, sem hafði verið seld, og síðan hefði hann aðstoðað Ásrúnu að beiðni Halldórs V. Sigurðssonar sem hafi þá séð um fjármál hennar. Vitnið taldi það hafa verið 1987 sem hann aðstoðaði hana við gerð erfðaskrár og síðan í sambandi við fjármál hennar eða kröfur sem á henni voru sem hafi komið upp 1987 og tengdust ákærða. Vitnið kvaðst hafa gert erfðaskrá sem sé frá 25. nóvember 1987 og einnig erfðaskrá 1997 sem afturkallaði erfðaskrá frá 20. mars 1996. Vitnið sagði að árið 1987 er hann hafi gengið frá erfðaskránni hafi það verið út af ákærða sem sú erfðaskrá var gerð, en Ásrún hafi verið mjög reið út í ákærða og hafi hann haft það á tilfinningunni að hún væri mjög passasöm með fjármuni sína og að hún væri á varðbergi að því er fjármál sín varðaði. Þegar vitnið hafi farið að hafa afskipti af henni í sambandi við þetta mál þá hafi hann séð eða fundist að hún væri farin að missa minni og verða gömul, að hún vissi að hún væri að gera eitthvað rangt, en hún léti samt teyma sig.

Vitnið kvað það hafa komið til tals 1987 að hún væri að láta hafa af sér peninga, þá hefði Halldór V. Sigurðsson talið að ákærði hefði dregið sér fé úr bankabókum hennar og hefði hún þá verið mjög reið út í ákærða og talið að hann hefði brotið traust hennar. Vitnið sagði að þegar hann hafi þurft að spyrja hana út úr 1997, þegar þetta máli hafi komið upp, þá hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að fjármunir hennar hefðu verið teknir út úr bankanum og kannaðist samt við að hafa lánað ákærða vegna móður hans fjármuni til þess að bjarga uppboði en kannaðist ekki við að hafa lánað honum aðra fjármuni.

Aðspurður um erfðaskrána sem gerð var 9. maí 1997 kvað hann tilefnið hafa verið þessa atburði, Ásrún hefði sagst hafa sennilega gert eitthvað rangt, gerði sér ekki alveg grein fyrir því en þó hafi hún sagt að hún hefði lofað eiginmanni sínum Aroni að passa vel upp á sameiginlegar fjárreiður þeirra og þau hefðu komið sér saman um hvernig verja skyldi fjármununum eftir þeirra dag. Henni hefði fundist hún hafa farið gegn þeim vilja. Vitninu fannst hún ekki gera sér grein fyrir umfangi málsins, hvað þetta væru stórar fjárhæðir. Ásrún hefði alltaf talað um það að hún vildi hafa sína erfðaskrá í sama anda og Aron hefði gengið frá henni. Það hefði verið það sem kom fram hjá henni stöðugt. Vitnið kvaðst minnast þess að þegar hann ræddi við ákærða út af þessum úttektum og blað var skrifað yfir úttektirnar þar sem ákærði setti stafina sína við, þá hefði Ásrún óskað eftir því að hann ræddi við sig eftir að ákærði var farinn og þá hafi hún skýrt honum frá því að hún hefði sennilega gert eitthvað rangt varðandi erfðaskrána sem væri inni í peningaskápnum. Þá hafi hún sýnt vitninu erfðaskrá sem var frá 20. mars 1996. Aðspurður kvað vitnið telja að hún hefði lýst eindregnum vilja sínum að kæra ákærða og gert sér ljóst að hann kynni að verða saksóttur.

Vitnið Aron Björnsson, heila- og taugaskurðlæknir, kvaðst hafa þekkt Ásrúnu Einarsdóttur frá því að hann fæddist og haft við hana mikil samskipti alveg frá upphafi utan það sem hann hafi verið við nám erlendis. Hafi hann og fjölskylda hans umgengist hana eins og góðan vin.

Aðspurður um persónuleika Ásrúnar tók vitnið fram að þetta væri yndisleg og góð kona, en hann taldi að hún væri auðtrúa og jafnvel fremur barnaleg að mörgu leyti og kannski væri það að hluta til vegna ákveðinna uppeldisástæðna þar sem hún hafi verið mikið varin fyrir ytra áreiti síðar í lífinu. Hún hafi verið mikið heima, hún hafi sinnt fyrst og fremst sínum heimilisstörfum og umgengist ákveðinn kunningjahóp með sínum manni. Þetta hafi leitt til þess að með vissa hluti hafi hún ekkert að gera og að það hafi verið tiltölulega auðvelt að hafa áhrif á hana. Aðspurður um breytingar á andlegu heilsufari Ásrúnar kvaðst vitnið hafa orðið var það. Ásrún hafi náttúrlega elst og heldur vitnið að nokkuð mörg undanfarin ár hafi henni verið að hraka, bæði minni og einnig það að hún hafi orðið ósjálfstæðari fyrir bragðið. Vitnið kvað óhætt að segja að hún endurtæki sig oftar en áður og að hún hringdi í hann þrisvar sama kvöldið með stuttu millibili. Þetta hafi í raun verið að gerast undanfarin um fimm ár en fyrst orðið áberandi síðustu tvö, þrjú árin. Vitnið kvað vera alveg greinilegan dagamun á henni. Auk þess hafi hún átt þarna í ákveðnum veikindavandræðum sem hafi ef til vill líka dregið hana heldur niður.

Aðspurður hvort Ásrún hafi einhvern tímann rætt við hann um samskipti sín við ákærða kvað hann svo ekki vera. Vitnið kvaðst persónulega alltaf hafa vitað af þeim manni í bakgrunninum en svo sérkennilegt sem það nú væri, þar sem vitnið hafi staðið Ásrúnu mjög nálægt, þá hafi hún aldrei nefnt hann með nafni eins og hún hafi annars gert við sitt umgengisfólk. Vitnið kveðst hafa túlkaði það þannig að það væri vegna þess að hún hreinlega vissi að það var eitthvað sem gekk á sem menn ættu ekki að vita um og ákveðin hugsanleg fortíð þessa sama manns sem hún vildi ekki bendla sig við, þ.e.a.s. hún hafi aldrei nefnt hann annað en pilt eða mann eða eitthvað í þeim dúr, öfugt við alla aðra sem hún hafi umgengist.

Aðspurður kvað vitnið Ásrúnu aldrei hafa rætt við sig um vandræðamál varðandi peninga er tengdust ákærða eða um erfðamál sín.

Aðspurður um það hvort vitninu fyndist Ásrúnu hraka mikið þegar hún fór að frétta af þessu máli í fjölmiðlum, kvað vitnið svo vera. Þetta hafi auðvitað verið erfitt fyrir hana, þarna hafi hún verið að upplifa að einhverjir, jafnvel miklir fjármunir voru farnir forgörðum, sem hugur hafi staðið til að lentu allt annars staðar. Vitnið taldi að hún hefði verið eða orðið nærri því hrædd við það hvað maður hennar hefði hugsað um þessa hluti. Það hafi verið einhver slík upplifun sem vitnið hafði.

Vitnið kveður Ásrúnu hafa talað um að ákærði hafi haft af henni fé. Það hafi viljað þannig til að hún hafi búið heima hjá þeim hjónum um það bil fyrstu vikuna eftir að þetta mál komst í hámæli og þá hafi málið auðvitað komið meira og minna upp í huga hennar, oft í mikilli hræðslu og geðshræringu og hafi hún þá verið tvístígandi en greinilega hrædd og óróleg líka.

Vitnið sagði að Ásrún vildi meina að hún hefði ekki tapað neinum peningum ennþá vegna þess að hún átti sig ekki á því að þeir hafi runnið út, þ.e.a.s. hún geri sér ekki grein fyrir því að hér sé um að ræða upphæðir sem séu verulegar og taldi vitnið að það byggðist að hluta til á því að hún væri svo góð og saklaus að hún trúði því ekki að nokkur maður myndi fara svona með hana. Það sé ekki fyrr en að hún sjái staðreyndirnar á borðinu. Varðandi peningavit þá taldi vitnið að hún gerði sér enga grein fyrir því hvað væru hundrað krónur og hvað væri ein milljón, það breytti engu í þessu samhengi. Hún gerði sér góða grein fyrir því hvað einn bolli væri og ef hann brotnaði, þá færi allt úrskeiðis, en peningar, hún hefði aldrei þurft að átta sig á þeim yfirleitt.

Vitnið kvað Ásrúnu hafa verið hrædda við ákærða og Sigurjón Ragnarsson. Eftir að hún hafi komið til þeirra hjóna og komist í öruggt skjól þá hafi hún endurtekið lýst því að hún væri hrædd við þá menn sem væru að ásækja hana, heimsækja og þrýsta á það að hún hreinlega snéri vinskap sínum eingöngu að þeim og frá öðrum sem hún þekkti. Þetta hafi komið fram í geðshræringu og gráti, í upphafi hafi verið ákveðinn tvístígandi í þessu þannig að hún hafi ekki viljað tjá sig skýrt um hlutina af hræðslu en eftir því sem dagarnir hafi liðið, þá hafi sífellt legið ljósar fyrir hvernig hennar hugur hafi verið og þetta hafi augljóslega verið hrædd og mikið meidd kona.

Vitnið Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri, kvaðst hafa verið með Ásrúnu Einarsdóttur í heimahjúkrun. Það hafi líklega verið eins og hálfs árs tímabil, frá 1996 og fram á árið 1997. Hún hafi komið að meðaltali einu sinni í viku, það hafi farið svolítið eftir því hvernig hún hafði það, ef hún hafi verið verri þá hafi hún komið oftar en yfirleitt ekki sjaldnar en einu sinni í viku.

Vitnið kvað Ásrúnu fyrst og fremst vera mjög einlæga og elskulega og mjög góða í sér. Efaðist vitnið um það, að hún gerði ráð fyrir því að nokkur annar gæti verið vondur í sér.

Aðspurð um andlegt heilsufar Ásrúnar, hvort því hefði hrakað mikið sagði vitnið að á þessu tímabili hafi hún metið hana þannig að það væri allt í lagi, ef aðstæður voru góðar og henni leið vel og hún var ekki lasin og væru allar kringumstæður í jafnvægi þá væri hún þokkalega skýr. Hún hafi náttúrlega verið farin að tapa skammtímaminni eins og gerist oft með fólk á þessum aldri. Hún hafi síður munað það sem gerðist í gær heldur en það sem gerðist fyrir löngu síðan, hún hafi oft munað það miklu frekar.

Vitnið kvað líkamleg veikindi hafa haft áhrif, allt álag hafi haft áhrif, til dæmis örari heimsóknir. Hún hafi farið í augnaðgerð á þessu tímabili þegar vitnið var með hana á árinu 1997, og þá hafi þurft meiri þjónustu, það hafi þurft að setja í augun á henni tvisvar á dag þannig að það hafi verið svolítill erill og þá hafi hún alveg misst áttir. Þá hafi hún átt mjög erfitt með að átta sig á því hver var að koma hvenær og hún hafi ruglað saman jafnvel nótt og degi, en þetta sé ekki óalgengt hjá fólki á hennar aldri sem farið sé að tapa minni.

Vitnið Erla Svanhvít Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður, kvaðst hafa séð um verkefni fyrir Ásrúnu, framtalsgerð og varðandi leigu á íbúð hennar. Einnig hafi skrifstofan sem vitnið starfi hjá unnið fyrir Ásrúnu ásamt hópi af fólki sem hafi selt Hótel Borg við að innheimta kaupverð samkvæmt þeirri sölu. Einnig hafi vitnið aðstoðað Ásrúnu við - eða hafði milligöngu um að gera upp við Búnaðarbankann. Einnig hafi Ásrún þá falið vitninu að höfða endurkröfumál vegna þessara skuldbindinga á hendur nokkrum aðilum. Aðspurð hvort ákærði hafi verið þar á meðal kvaðst vitnið ekki muna hvort hann var þar á meðal, hann hafi alla vega verið meðal þeirra sem báru eða voru skuldarar á þessum skuldbindingum. Eftir að þessari vinnu varðandi söluna hafi lokið þá hafi þeirra verkefni mestmegnis verið framtalsgerð.

Aðspurð um viðbrögð Ásrúnar þegar í ljós kom 1997 að það vantaði töluverða peninga inn á bankabækurnar hennar, kvað vitnið Ásrúnu alls ekki hafa áttað sig á því að reikningurinn var tómur. Hefði Ásrún sagt að ákærði hefði sagt sér að móðir hans væri í vandræðum vegna þess að íbúðin hennar væri á uppboði og hún hefði vorkennt henni og ætlað að lána henni eða leggja til einhverja fjármuni til þess að bjarga þessari íbúð frá uppboði. Vitnið kvað Ásrúnu enga grein hafa gert sér fyrir því að hún ætti ekkert sparifé eftir á þessari stundu. Vitnið kvað Ásrúnu hafa brugðið mjög mikið og vitninu hafi líka sjálfri brugðið, það megi segja að Ásrún hafi orðið fyrir áfalli.

Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að þegar hún kom til Ásrúnar vegna undirbúnings við framtalið 1997, að henni hafði hrakað verulega. Vitnið hafi fundið mikinn mun frá 1996, hún hafi endurtekið sig, sagt aftur sömu hlutina, og það hvernig hún hafi haldið þessum pappírum til reiðu, það hafi verið öðruvísi heldur en hafði verið.

Vitnið Sigurjón Rúnar Ragnarsson, kvaðst vera búinn að þekkja Ásrúnu frá því fyrir árið 1960. Hann kvaðst hafa komið til hennar um það bil einu sinni í viku. Hann lýsti henni sem elskulegri og algjörlega hrekklausri. Þegar hann hafi komið til hennar, þá hafi hann alltaf mætt mikilli gestrisni. Vitninu hafi fundist hún vera mjög sjálfstæð, hún hafi oft farið í strætisvagni upp á Hlemm og gengið heim, hún hafi fengið sér göngutúra niður á Ægisíðu. Hún hafi verið sjálfri sér næg. Aron hafi stjórnað ferðinni á meðan hann lifði og væri hún oft með hugann við hann. Hún væri farin að eldast og endurtæki sig svolítið en ekkert til baga. Aðspurður kvað hann hana stundum hringja oftar sama daginn en taldi það ekki vera af því að hún myndi ekki að hún hefði áður hringt.

Aðspurður hvenær hann hefði fengið í hendur skuldabréf að fjárhæð kr. 2.425.986 kvaðst vitnið ekki treysta sér til að svara því alveg nákvæmlega. Aðdragandann kvað vitnið vera þann að ákærði hefði skuldað sér peninga. Vitnið kvaðst hafa komið til Ásrúnar, hún hafi verið með bréfið í umslagi og beðið sig um að taka það til X. Aðspurður um hvort ákærði hafi sagt honum að sækja bréfið og að það ætti að fara upp í skuld hans, kvaðst vitnið ekki hafa sótt bréfið nema vegna þess að það hafi legið fyrir að hann ætti að taka það Hann kvað Ásrúnu ekkert hafa rætt um innihald umslagsins, en taldi að hún hefði vitað hvað hún var að gera. Ítrekað aðspurður kvaðst hann hafa átt að afhenda ákærða umslagið.. Aðspurður kvaðst vitnið hafa fengið bréfið upp í skuld ákærða og kvaðst hann hafa getað nýtt sér bréfið, það hafi gengið upp í aðra skuld. Vitnið kvað Ásrúnu hafa margsagt við sig að hún væri að hjálpa ákærða.

Hann kvað Ásrúnu hafa rætt um ákærða við sig, að hann væri búinn að vera henni stoð og stytta í gegnum mörg, mörg ár. Taldi hann þessa aðstoð ef til vill hafa komist á þegar Aron var veikur og ákærði hafi farið að keyra hana upp á spítala og stundum hafi Aron komið heim og þá hafi ákærði hjálpað í samandi við það, það hafi verið farið fram og til baka með Aron, hann hafi ekki alltaf verið á spítalanum. Vitnið taldi að Ásrún hefði verið hálf hrædd við Margréti systur sína og að Aron Björnsson hefði lítið komið til hennar.

Vitnið taldi að Ásrúnu hefði ekki verið farið að förlast meira en eðlilegt væri með 83 ára gamla konu. Spurður nánar varðandi hvort henni hafi verið farið að förlast eitthvað í reikningi og minni. Skýrði hann svo frá að fyrir um þrem, fjórum árum síðan, þá hefði hún sýnt honum hluta af því sem hún átti í bankabókum og hún hefði alveg verið með á því hvað hún var með í þessum bankabókum, það hafi verið yfirlit. Hún hafi verið orðin eitthvað óróleg yfir því að hún væri ekki með nóga peninga til ellinnar og hann hefði sagði við hana: "ef þú bara passar þessa peninga og heldur þeim til haga og þú hefur tekjur af húsinu þínu, þá er allt í lagi hjá þér Ásrún mín".

Vitnið kvað Ásrúnu hafa talað við sig um erfðamál og hún hefði verið að láta hann taka niður eftir sér punkta sem hún var búin að skrifa á blöð yfir hvað hún hefði hugsað sér að gera við hina og þessa muni sem voru þarna í húsinu, en á endanum hafi hún sagst ætla að láta þetta eiga sig, að vera skrá þetta svona niður. Hún hafi sagt honum að hún ætlaði að arfleiða Aronson X að þeim hluta hússins sem hún byggi sjálf í.

Vitnið kvað rétt að það hefði verið að hans áeggjan að Ásrún hafi lánað ákærða peninga, 300 þúsund krónur. Það hafi komið þannig til að það hafi átt að bjóða upp hús Guðríðar móður ákærða, sem hafi unnið hjá honum í mörg ár. Sjálfur hafi hann ekki getað hjálpað ákærða með þessa peninga og farið til Ásrúnar og sagði henni að það ætti að fara að bjóða húsið upp og hvort hún gæti hjálpað ákærða með þessar 300 þúsund krónur og það hafi hún gert.

Vitnið Valgerður Guðrún Einarsdóttir, kvaðst hafa þekkt Ásrúnu í um 30-35 ár. Hún hafi haft töluvert mikil samskipti við Ásrúnu, þær hafi báðar búið á Grenimel, en kynnst við það að vitnið fór að vinna fyrir Aron, þegar hann fór að selja spariskírteini ríkissjóðs. Á síðustu árum hafi þær oft talast við í síma og Ásrún komið við hjá henni þegar hún fór út í búð. Þegar hún var að vinna fyrir Aron þá hafi Ásrún oft komið og hann hafi sagt sér mikið frá henni og hún hafi komið með nesti sem hún hafði smurt í tösku handa þeim báðum, nestisbox og hitabrúsa. Ásrún hafi talað mikið um Aron eftir að hann lést. Þau hafi borið mikla virðingu hvort fyrir öðru og kvaðst vitnið vita að hún hefði ekki viljað gera neitt sem hann hefði ekki verið samþykkur. Hann hafi alfarið séð um fjármálin. Hún hafi verið mjög myndarleg og þau hafi ekki verið að eyða þar í óþarfa, þau bæði alveg indælisfólk. Beðin um að lýsa Ásrúnu kvað hún hafa vera heiðarlega, myndarlega og vel gefna konu, þegar hún var upp á sitt besta. En hún hafi aldrei komið nálægt fjármálum. Hún hafi umgengist vissan hóp, fátt útvalið fólk sem þau hafi boðið til sín á meðan Aron var lifandi, og nokkrar fjölskyldur hafi haldið áfram að bjóða Ásrúnu til sín um jólin og páska. Vitnið taldi að breytingar hefðu orðið á andlegu heilsufari Ásrúnar undanfarin ár. Það hafi komið vitninu þannig fyrir sjónir að hún hafi farið að marg endurtaka sig. Þegar hún hringdi til hennar þá hafi hún verið að segja allt það sama upp aftur og aftur. Í sama símtalinu og kannski hafi þær verið nýbúnar að kveðjast og þá hafi Ásrún hringt aftur og þá ekki munað að þær höfðu verið að tala saman. Kvað vitnið nokkur ár vera síðan að þetta hafi gert vart við sig, en þetta hafi ágerst mjög mikið. Vitnið kvað Ásrúnu ekki hafa rætt við sig um samskipti sín við ákærða. Varðandi hvort hún hefði rætt um fjármál eða erfðamál, sagði vitnið að þegar Aron hafi fallið frá hafi Halldór líklega tekið við hennar málum og hafi hún haft miklar áhyggjur af því þegar Halldór fór af landi brott, þá hún komið til vitnisins og beðið hana að hjálpa sér að skrifa húsaleigukvittanirnar. Hafi Ásrún leigt út 1. hæðina og kjallarann, en búið sjálf á 2. hæð. Hafi hún sagt henni hver húsaleigan var og vitnið skrifað þá fyrir þrjá mánuði í einu. Síðan hafi hún gert þetta fyrir hana þangað til að Helgi hafi tekið við. Hún hafi aldrei séð um þetta sjálf. Aron hafi alfarið séð um fjármálin. Hann hafi sagst leggja vissa fjárhæð inn á bók hjá henni. Vitnið taldi að Ásrún hefði náttúrulega borið skynbragð á peninga. Hún væri vel gefin kona og hafi farið óskaplega vel með eins og Aron og verið nákvæm. Hún hafi kannski komið með After eight pakka eða gefið henni pottaleppa sem hún hafði heklað fyrir hjálpina, það hafi aldrei verið neinar peningagreiðslur fyrir, þær hafi bara verið vinkonur. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við komur ákærða á heimili Ásrúnar vegna þess að hún átti heima innar í götunni, og hún hafi mjög oft séð hann aka framhjá, yfirleitt í hádeginu. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð hann þegar hún var að vinna í Kauphöllinni með Aroni. Vitnið kvað Ásrúnu oft hafa sagt sér frá systrum sínum, systur sinni sem bjó í Þingeyjarsýslu og hún hafi oft talað um Margréti systur sína. Hátíðisdagar hafi verið fast bókaðir hjá henni, hún hafi alltaf verið hjá sama fólkinu. Á aðfangadagskvöld hafi hún verið hjá Clausen bræðrum til skiptis, á jóladag hjá Ingimar flugstjóra og Helgu Zoëga og hjá tengdamóður vitnisins eða vitninu á annan og einnig oft farið líka til Margrétar systur sinnar í Garðastrætinu. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt annað en að henni þætti vænt um Margréti. Vitnið kvað peningamál ekki hafa komið til umræðu milli þeirra, kvaðst hún hafa borið það mikla virðingu fyrir Ásrúnu að hún hafi ekki viljað fara inn á það við hana.

Vitnið Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fór með rannsókn málsins og kvaðst hafa hitt Ásrúnu sennilega þrisvar sinnum. Hann kvað hana vera ósköp vinalega og notalega gamla konu. Hann taldi sig hafa komist að þeirri niðurstöðu við rannsóknina að það væru heilmiklar mótsagnir í því sem hún sagði og tekið því með fyrirvara sem hún hefði haldið fram. Það hafi komið fyrir í samtali að hún gleymdi hvað verið var að tala um.

Aðspurður sagði vitnið að Ásrún hefði talað um að hún hefði orðið fyrir áfalli. Það hafi vakað fyrir rannsakendum öðru fremur, að ganga úr skugga um vilja hennar eða hug til kærunnar sem hafi komið fram frá lögmanni hennar og hafi þeir spurt hana margítrekað hvort það væri hennar vilji að þetta mál væri kært. Hún hafi talað um ákærða og fjölskyldu hans þannig að henni væri mjög hlýtt til þeirra og vildi ekki að neitt slæmt kæmi fyrir þau og vildi þeim allt mjög vel. Þetta hafi hún tekið fram í hverju svari, en hún hafi líka tekið skýrt fram að hún vildi að rannsakað yrði hvernig peningarnir hefðu horfið af reikningnum af því að henni væri óskiljanlegt hvernig það hefði gerst. Þannig hafi hún svarað ítrekuðum fyrirspurnum um hvort hún vildi kæra. Niðurstaða vitnisins hafi verið sú að Ásrún óskaði eftir því að rannsókn færi fram á því með hvaða hætti peningarnir hefðu farið út af reikningnum. Það hafi verið alveg skýrt í huga vitnisins.

Aðspurður um hvort Ásrún áttaði sig á einstökum þáttum í kærunni kvað vitnið hana hafa áttað sig mjög illa. Bæði hafi þeir spurt hana margoft hvort hún hefði sjálf tekið út af reikningnum sínum, hvort að hún sjálf hefði óskað eftir breytingum á erfðaskránni, hvort hún sjálf hefði afhent þetta skuldabréf og svörin hafi verið mjög óáreiðanleg. Vitnið kvaðst ekki muna nú nákvæmlega hver þau voru en það hafi verið mjög erfitt að byggja á þeim.

Aðspurður kvað vitnið Ásrúnu ekkert hafa munað eftir skuldabréfinu í ákærulið tvö.Aðspurður kvað vitnið að tekin hafi verið um það ákvörðun í kjölfar vottorðs frá Jóni Snædal og einnig á grundvelli mats lögreglunnar eftir að hafa rætt við hana að yfirheyra Ásrúnu ekki frekar.

Vitnið sagði að Ásrún hefði ekki kannast við að hún hefði haldið minnisbækur og dagbækur er vitnið fór á heimili hennar ásamt Helga V. Jónssyni, Jakobi Bjarnasyni og Margréti Einarsdóttur. En þarna hafi verið þrjár bækur fyrir árin 1995, 1996 og 1997 sem þau hafi skoðað.

 Vitnið Pétur Guðmundarson, hæstaréttarlögmaður, kvað aðdraganda þess að hann gerði viðbót við erfðaskrá Ásrúnar Einarsdóttur, þ.e.a.s. yfirlýsingu um niðurfellingu skulda ákærða, vera þann að ákærði hafi leitað til sín og beðið sig ásjár um það að aðstoða gamla konu sem hann hefði eitthvað með að gera og við þeirri beiðni hafi vitnið orðið. Hafi vitnið þá hitt konuna og rætt við hana og gengið eftir því hver hennar vilji væri og í framhaldi af því gengið frá þeirri erfðaskrá sem konan hafi síðan undirritað hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík.

Aðspurður kvaðst vitnið hafa hitt Ásrúnu tvisvar. Í annað skiptið hafi hann farið heim til hennar til þess að ganga úr skugga um það hvað það væri raunverulega sem konan væri að óska eftir að gert væri og í hitt skiptið þegar hann fór með henni til sýslumannsembættisins í Reykjavík. Kvaðst vitnið ekki hafa getað séð annað á konunni heldur en að hún væri fullfær um að taka sínar eigin ákvarðanir. Aðspurður um hvað vitnið hafi rætt lengi við Ásrúnu í hvort skipti sagði hann að í fyrra skiptið sem hann hafi komið þar þá hafi honum verið boðið upp á kaffi, setið þar inni nokkra stund og spjallað við hana. Hafi þar ýmislegt borið á góma, m.a. látinn eiginmaður hennar, og hún hafi sagt honum eitthvað frá bernsku sinni í Þingeyjarsýslu. Hann hafi ekki merkt minnistap hjá henni, enda hefði hann þá ekki gert erfðaskrána. Hafi konan komið vitninu afskaplega eðlilega fyrir sjónir.

Aðspurður um það hvort það hefði komið eitthvað til tals milli vitnisins og Ásrúnar hversu miklar skuldir þetta væru kvað vitnið svo ekki vera. Hafi hann gengið út frá því að þarna væri um að ræða mjög lágar fjárhæðir. Gæti kannski hlaupið á par hundruðum þúsunda eða kannski milljón krónum, eitthvað slíkt en ekki meir. Það skuli þó tekið fram að aldrei hafi verið rætt um neinar fjárhæðir að öðru leyti en því að X hafi sagt vitninu að hann hefði aðstoðað þessa konu og séð svona um dagleg innkaup fyrir hana og ýmislegt fleira. Vitnið kvaðst hafa á einhverjum tíma bent ákærða á það að þegar menn gerðu slíkt ættu þeir tvímælalaust að halda yfir það mjög stíft bókhald og láta kvitta fyrir öllum þeim peningum sem þeir tækju við og eins að gera grein fyrir því hvernig þeir hefðu eytt þeim. Þaðan komi það væntanlega að vitnið taldi að það væri um litlar eða lágar fjárhæðir að ræða þar sem hann hafi álitið að þarna hefði einungis verið um að ræða daglegar þarfir eins og neysluvörur og þess konar hluti.

Kvaðst vitnið ekki hafa merkt að Ásrún væri undir neinum þrýstingi. Er vitnið ók Ásrúnu til sýslumannsembættisins í Skógarhlíð þá hafi hún talað töluvert um ákærða og sagt eitthvað í þá veru að sér væri það ljóst að ýmsir hefðu horn í hans síðu sem hún teldi að væri að ástæðulausu og hafi talaði mjög vel um ákærða.

Loks kom fyrir dóminn vitnið Hólmfríður Gísladóttir, deildarstjóri. Kvaðst hún hafa kynnst Ásrúnu árið 1970 er hún vann á Hótel Borg og hafi þróast vinskapur með þeim. Kvaðst hún heimsækja Ásrúnu u.þ.b. einu sinni í mánuði. Hún kvaðst einnig hafa kynnst ákærða er hún vann á Hótel Borg. Taldi hún Ásrúnu vera eðlilega áttræða konu og kvaðst ekki geta merkt sérstaka afturför. Ásrún hafi til dæmis fylgst vel með því þegar vitnið eignaðist barnabarn á árinu 1997. Kvað hún þær hafa talað um margt. Aron heitinn hafi verið ákveðinn persónuleiki og hafi sér fundist Ásrún vera ósjálfstæð og gera allt sem Aron segði, þetta álit hennar hafi breyst eftir að Aron dó. Hún kvað Ásrúnu hafa borið hlýjan hug til ákærða og barna hans, sérstaklega drengsins sem er eldri. Hafi ákærði verið henni eins og sonur. Hafi hún alltaf tekið upp hanskann fyrir hann þegar vitnið kvaðst ekki skilja hvers vegna hann væri ekki orðinn gjaldþrota af öllu sínu basli. Hafi hún talað um að það væri virðingarvert að hann léti ekki keyra sig í þrot og vildi reyna að vinna sig út úr þessu. Hann væri svo duglegur og allir töluðu svo illa um hann. Vitnið kvaðst telja að hún hefði viljað hjálpa honum, en þó hefði hún snúið sig út úr því ef vitnið spurði beint um það og hvorki svarað já eða nei. Vitnið kvaðst einnig hafa spurt Ásrúnu um erfðaskrá og hafi hún þá svarað því til að Aron hafi sagt að hún mætti gera það sem hún vildi við peningana. Vitnið kvað hana hafa verið passasama með reikninga og fylgst með því að leigjendur greiddu húsaleigu. Vitnið kvaðst telja að samband við ættingja hefði ekki verið mikið, en Margrét hálfsystir hennar hefði komið annað slagið. Vitnið bar að eftir að þetta mál hefði komið upp hefði Ásrúnu liðið mjög illa og eins og hún væri hrædd. Kenndi vitnið þetta vandamönnum. Kvaðst vitnið hafa keypt fyrir hana jólagjafir handa börnum ákærða.

Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök að hafa notfært sér bágindi Ásrúnar Einarsdóttur sökum heilarýrnunar, einfeldni hennar og að hún var honum háð til að hafa af henni fé og áskilja sér hagsmuni þá er nánar eru tilgreindir í ákæruliðum I. - III. og án þess að endurgjald skyldi koma fyrir.

Ásrún Einarsdóttir er fædd 6. júní 1916. Hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn Aron Guðbrandsson sem lést árið 1981. Þau voru barnlaus. Hann lét eftir sig mikla fjármuni. Með framburði vitna er upplýst að meðan Aron Guðbrandsson lifði sá hann um fjárreiður heimilisins, einnig að hann var ákveðinn maður og þau voru mjög samrýmd. Eftir lát Arons aðstoðaði Halldór Sigurðsson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, sem nú er látinn, Ásrúnu við fjármál, einnig hefur hún notið aðstoðar Helga V. Jónssonar og Erlu S. Árnadóttur hæstaréttarlögmanna. Ásrún var svipt fjárræði að eigin ósk með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 19. september 1997. Fjárhaldsmaður hennar er Ingólfur Hjartarson hæstaréttarlögmaður. Vitnum ber saman um að hún hafi í lífi sínu ekki sett sig inn í fjármál og beri ekki gott skyn á þau. Naut hún til dæmis aðstoðar vinkonu, vitnisins Valgerðar, við að skrifa kvittanir fyrir leigendur sína.

Fram er komið í málinu að ákærði hefur haft mikil samskipti við Ásrúnu um árabil, sjálfur kveðst hann hafa séð um hana að verulegu leyti eftir að eiginmaður hennar Aron Guðbrandsson dó. Kveðst hann hafa komið til hennar nær daglega og hjálpað henni með stórt og smátt og séð vel um hana. Mörg vitni hafa borið um að hann hafi komið mikið til Ásrúnar og hjálpað henni með ýmislegt, jafnvel að hann hafi verið henni sem sonur. Er ekki vefengt að Ásrún hafi eftir lát eiginmanns síns reitt sig mikið á ákærða og notið aðstoðar hans í daglegu lífi og átt vináttusamband við hann og fjölskyldu hans. Er ljóst af lýsingu ákærða sjálfs að hún var háð aðstoð hans og bar traust til hans. Ásrún er nú komin á níræðis aldur. Hún hefur ekki unnið utan heimilis.

Þegar litið er til framburðar þeirra vitna sem komið hafa fyrir dóminn og gefið skýrslu, einkum læknanna Jóns Snædal, sérfræðings í lyf- og öldrunarlækningum, og Margrétar Georgsdóttur, heimilislæknis, er sannað að gætt hafi heilarýrnunar og minnistaps hjá Ásrúnu Einarsdóttur á þeim tíma sem verknaðir þeir sem ákært er fyrir í máli þessu áttu sér stað. Kemur og fram hjá miklum meiri hluta vitnanna að minnisleysi hennar hafi verið farið að koma í ljós þó nokkru áður en þessi atburðarás hefst og er þetta stutt læknisfræðilegum gögnum. Í greinargerð Jóns Snædal, dag. 19. september 1997, kemur m.a. fram að við skoðun hans á Ásrúnu 27. desember 1996 hafi verið gert vitrænt mat á henni, svokölluð Mini-mental state examination (MMSE), einnig hafi geta til tjáningar verið metin. Við þessa rannsókn hafi komið fram greinileg skerðing á nærminni og hafi Ásrún ekki munað neinn hlut af þremur eftir 2-3 mínútur, hún hafi ruglast á vikudegi og ártali og hún hafi haft lélega einbeitingu og úthald við úrlausn tiltölulega einfaldra verkefna. Reikningsgeta hafi verið slök og henni hafi ekki tekist að skrifa óbrenglaða setningu. Gerð var tölvusneiðmynd sem sýndi greinilega rýrnum á heilaberki, rýrnun í hvíta vef heilans eins og sást með víkkun á heilahólfum. Við skoðun 8. september 1997, sem farið hafi fram á heimili Ásrúnar, hafi verið lagt fyrir hana sama vitræna prófið og áður. Útkoman hafi orðið heldur betri sem að hluta til skýrist af því að hún sé betur áttuð á eigin heimili. Eins og áður mundi hún engan hlut af þremur, áttun í tíma hafi verið slök og einbeiting, athygli og reiknigeta sömuleiðis. Fram kemur að hún hafi í stórum dráttum getað gert grein fyrir fortíð sinni og munað eftir því að hafa verið féflett og að hún hafi verið miður sín yfir brostnum trúnaði. Niðurstaða læknisins er svohljóðandi:

Um er að ræða liðlega áttræða konu sem alla tíð hefur búið við efnalegt öryggi og ekki þurft að bera ábyrgð utan þess sem venjulegt húshald krefur. Hún virðist hafa búið við gott traust og sjaldan haft tilefni til að vantreysta öðrum. Það liggur fyrir saga um hægt vaxandi minnistap undanfarin 6 ár. Rannsókn hefur leitt í ljós að orsökin er heilarýrnun og fær hún sjúkdómsgreininguna elliglöp af Alzheimer gerð. Afturför hefur orðið mjög lítil ef nokkur undangegna 8 mánuði og því er ljóst að vitræn geta hennar hefur verið verulega skert a.m.k. undanfarin 2-3 ár.

Ásrún Einarsdóttir er sökum minnisskerðingar ekki fær um að greina rétt frá staðreyndum, hvorki staðreyndum sem byggja á skammtímaminni né langtímaminni. Hún er ekki fær um að annast fjármál sín vegna mikils minnistaps og mjög slakrar reikningsgetu. Hún virðist hins vegar vera samkvæm sjálfri sér og hefur ágæta hæfni til að tjá sig. Hún getur þannig látið í ljós álit á því hverjum hún treystir af samferðamönnum sínum og verið samkvæm sjálfri sér í því áliti, og getur frá því sjónarmiði tekið ákvarðanir í erfðamálum. Á hitt ber að líta að hún virðist fram undir þetta ekki hafa haft ástæðu til að vantreysta sínum nánustu eða öðrum samferðamönnum í lífinu og er ekki fær um að meta réttilega hverjir eru trausts verðir.

Sjúkdómsgreining Ásrúnar Einarsdóttur er samkvæmt framburði vitnisins Jóns Snædal, læknis, heilarýrnun af Alzheimer gerð. Slíkur sjúkdómur fellur undir hugtakið "bágindi" í 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda geta bágindi bæði verið fjárhagsleg og persónubundin.

Einfeldni felur í sér dómgreindarskort, þar á meðal trúgirni. Meiri hluta vitnanna ber saman um þá persónulýsingu á Ásrúnu Einarsdóttur að hún sé elskuleg og góð kona, en hafi ekki þurft að axla mikla ábyrgð í lífinu, síst af öllu fjárhagslega, hún hafi lifað verndaðri tilveru. Sum vitnanna töldu hana auðtrúa, ósjálfstæða eða barnalega, algjörlega hrekklausa, önnur vitni lögðu áherslu á að hún væri vel gefin, hefði ákveðnar skoðanir og væri sjálfstæð í daglegu lífi. Þurfa framangreindir vitnisburðir ekki að stangast á. Ásrún Einarsdóttir hafði efnahagslega yfirburði yfir flesta samferðamenn og er glæsileg og góðlát kona sem hélt sér í góðu líkamlegu formi með hreyfingu og hefur gaman af að spjalla, á hinn bóginn mun hún hafa lifað verndaðri tilveru, hún var húsmóðir af eldri kynslóð, barnlaus, hrekklaus og lagði sig ekki eftir fjárhagslegum veruleika. Af þessum sökum var hún ekki vel í stakk búin til að bregðast við utanaðkomandi áreiti og síst þegar elli og sjúkleiki lagðist að henni. Ljóst er að dómgreindarskortur fylgir þeim sjúkdómi sem hún er haldin. Hún hafði áður, á níunda áratugnum, orðið fyrir miklu fjárhagslegu tapi af völdum ákærða, mun hún hafa tekið það nærri sér, en hætti þó málsókn á hendur honum. Virðist vináttusamband þeirra hafa jafnað sig af þeim atburði.

Þegar litið er til aldurs Ásrúnar, takmarkana hennar vegna minnisskerðingar og þeirra miklu samskipta sem ákærði hafði við hana og þá aðstoð sem hann veitti henni, þá verður að telja augljóst að hún hafi verið honum háð og borið traust til hans.

Það var faglegt mat vitnisins, Jóns Snædal, læknis, að leikmaður myndi fljótlega sjá að Ásrún væri gleymin, og taldi hann ólíklegt að þetta færi fram hjá þeim sem umgengist hana daglega. Þessi einkenni sem mörg vitni hafa lýst, eins og hér að framan er rakið, þykja vera þess eðlis að ákærða, sem að eigin sögn hafði þekkt hana frá árinu 1970 eða þar um bil og umgengist hana daglega, hlaut að vera fullljóst að hún hafði tapað andlegri getu til flókinna ákvarðana, ekki síst fjárhagslegra.

Ákærði hefur játað að hafa móttekið fé frá Ásrúnu Einarsdóttur í þau 19 skipti sem hér að framan eru rakin og að hafa í öll skiptin utan eitt ekið henni í bankann. Samtals námu þessar greiðslur kr. 28.400.000. Ákærði heldur því fram að þessi ferill hafi byrjað með því að vitnið Sigurjón Ragnarsson talaði um það við Ásrúnu að hjálpa ákærða um kr. 300.000 til að bjarga íbúð móður hans að Miklubraut 78 í Reykjavík frá uppboðssölu, og síðan hafi hún viljað hjálpa honum til að losna úr fjárhagsörðugleikum. Hann fullyrðir að allar greiðslurnar hafi verið lán sem Ásrún hafi veitt honum með fullri vitund og vilja um gerðir sínar og að hann hafi ætlað að endurgreiða allt féð. Þessi frásögn ákærða er ekki trúverðug. Gögn málsins sýna að framangreindar kr. 300.000 sem teknar voru út 22. apríl 1996 marka ekki fyrsta skiptið af þessum úttektum. Fyrsta úttektin var gerð 11. apríl 1996 og nam kr. 3.000.000. Af því sem komið hefur fram í málinu er ljóst að Ásrún vildi ákærða vel, en jafnframt að hún fór vel með og var ekki óhóflega útlátasöm á peninga þótt henni væri gerður greiði heldur endurgalt þetta með vináttu og gjöfum, samanber framburð vitnisins Valgerðar. Ákærði þekkti Ásrúnu vel og gat ekki dulist að minni hennar og ályktunarhæfni var skert og að hún gat ekki gert sér grein fyrir þeim fjárhæðum sem hún ráðstafaði í þágu ákærða og að hún gat ekki munað eftir þessum gjörðum sínum. Hún er sjálf talin hafa undirritað úttektarseðla, en ekki fjárhæðir og reikningsnúmer, mun gjaldkerinn, vitnið Halldóra, yfirleitt hafa séð um það, jafnvel komið úr fríi sérstaklega til að aðstoða hana. Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samband við vitnið Halldóru fyrir eða eftir úttektir Ásrúnar til að gefa fyrirmæli um hvernig fénu skyldi ráðstafað.

Sannað er að Ásrún var á þessum tíma minnisskert, einnig er upplýst meðal annars með framburði ákærða sjálfs að hún treysti mikið á aðstoð hans og var honum velviljuð. Upplýst er að skráð var í dagbækur minnisatriði til dæmis um það hvaða dag hjúkrunarfræðingur kæmi til þess að hjálpa Ásrúnu. Er ljóst að hún hafði enga möguleika á því að muna eftir ferðum sínum með ákærða í bankann nema með því að skrá þær niður. Það var hins vegar ekki gert. Allt þetta hlaut ákærða að vera full ljóst. Það er niðurstaða dómsins að hann hafi notfært sér þau bágindi Ásrúnar og ósjálfstæði sem í þessu voru fólgin til þess að hafa af henni fé samkvæmt I. ákærulið og án þess að endurgjald skyldi koma fyrir. Ekki er ljóst hvað orðið hefur um stóran hluta fjárins. Í árslok 1996 telur ákærði fram skuld við Ásrúnu Einarsdóttur að fjárhæð kr. 12.500.000 og árið 1997 kr. 13.250.000. Á árinu 1995 voru samanlagðar tekjur ákærða og eiginkonu hans um tvær milljónir, árið 1996 um fjórar milljónir og árið 1997 um ein milljón. Tvö börn eru á framfæri. Er ljóst að ákærði hafði enga fjárhagslega burði til þess að endurgreiða Ásrúnu nema óverulegan hluta þess fjár sem hann veitti móttöku. Einnig verður í þessu sambandi að hafa í huga aldur hennar og það að hann hafði ekki endurgreitt mikið fé frá árinu 1987.

Líkur hafa verið færða fyrir því að Ásrún hafi beinlínis ákveðið að hjálpa ákærða í það sinn er teknar voru út þær kr. 300.000 sem vitnið Sigurjón Ragnarsson kveðst hafa haft milligöngu um að Ásrún lánaði ákærða. Ljóst er engu að síður að hún gerði það ekki að eigin frumkvæði og eins og heilsu hennar var háttað og í ljósi þess að ákærði móttók þrjár milljónir króna ellefu dögum áður og tvær milljónir sex dögum síðar er ekki hægt að líta svo á að hann hafi verið í góðri trú í það tiltekna skipti. Ekki er vefengt að Ásrún hafi viljað rétta ákærða hjálparhönd. Þar sem ákærða mátti hins vegar vera ljós bágindi Ásrúnar Einarsdóttur vegna ellihrörnunar á árinu 1996 og 1997 og einfeldni, sem var afleiðing þessa og þess að hún hafði á langri ævi ekki þurft að hugsa um fjármál, það að hún treysti honum og var honum að háð um ýmsa hluti, og þar sem hann mátti ekki vænta greiðslu fyrir þá þjónustu sem hann veitti henni, og þar sem hún virðist ekki hafa verið útlátasöm á peninga en hér var um gífurlega mikla fjármuni var að ræða sem hann átti ekkert tilkall til, þá þykir hann hafa nýtt sér bágindi hennar, einfeldni og það að hún var honum háð til þess að komast yfir þá fjármuni sem í I. lið ákæru greinir án þess að nokkrar horfur væru á því að endurgjald kæmi fyrir. Þykir hann hafa misnotað þann aðstöðumun sem hann hafði öðlast vegna vinsamlegrar afstöðu hennar til hans og sjúkleika hennar. Er ákærði sakfellur fyrir brot það er greinir í I. ákærulið.

Að því er lýtur að veðskuldabréfi því sem fjallað er um í II. ákærulið hefur ákærði borið að Ásrún hafi á einhverju tímabili ítrekað borið það undir hann hvað hún ætti að gera við skuldabréf tengt Sigurjóni Ragnarssyni sem hún hafi fengið í pósti frá lögmönnum sínum. Hann hafi ráðlagt henni að setja það í innheimtu til sömu lögmanna eða annarra en hún hafi ekki viljað gera það vegna vináttu við skuldarann. Hún hafi viljað að hann nyti á einhvern hátt góðs af andvirði bréfsins en hann hafi ekki þegið það. Hann kveðst síðar hafa sagt að vildi hún gera Sigurjóni greiða skyldi hún tala við hann. Hann kvaðst vita að Ásrún hefði hringt í Sigurjón og afhent honum bréfið með þeim formála að það ætti að koma ákæra til góða. Þegar ákærði var yfirheyrður í annað sinn um þetta atriði hjá lögreglu hinn 15. október 1997 kvað hann vera réttan framburð Sigurjóns Ragnarssonar hjá lögreglu á þann veg að Sigurjón hefði rukkað ákærða vegna eldri skulda og ákærði þá boðið þetta skuldabréf sem greiðslu upp í skuldirnar. Sigurjón hafi, eftir fyrirmælum ákærða, farið á heimili Ásrúnar Einarsdóttur og sótt þangað skuldabréfið. Vitnið Sigurjón Ragnarsson kvaðst hafa fengið bréfið hjá Ásrúnu. Vitnið mundi ekki hvenær hann hefði fengið bréfið eða aðdraganda þess, en kvaðst ekki myndu hafa sótt það, hefði hann ekki átt að gera það. Hún hefði verið með það í umslagi og beðið sig að taka það til ákærða. Hann kvað Ásrúnu ekkert hafa rætt um innihald umslagsins, en taldi að hún hefði vitað hvað hún var að gera. Hann kvaðst hafa fengið bréfið upp í skuld ákærða við sig.

Talið er að þessi afhending skuldabréfsins hafi átt sér stað á árinu 1995. Svo sem að framan hefur verið rakið var Ásrún þá þegar skert vegna heilarýrnunar. Jón Snædal, læknir, kveður hana í september 1997 hafa verið verulega skerta í tvö til þrjú ár og samræmist það framburði fjölskyldu og vina. Skuld ákærða við Sigurjón Ragnarsson lækkaði sem andvirði bréfsins nam, var það staðfest af vitninu Sigurjóni fyrir réttinum. Framburður ákærða varðandi þennan ákærulið hefur ekki verið fyllilega staðfastur og þykir hann óskýr. Þegar skýrslur og framburður lækna og annarra vitna, sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi, er virtur verður að telja að ákærða hafi ekki mátt dyljast að Ásrún Einarsdóttir gat ekki gert sér grein fyrir hvers eðlis þær skuldbindingar voru sem fólust í skuldabréfinu sem hún afhenti Sigurjóni Ragnarssyni. Ásrún var ekki hæf á þessum tíma til að taka ákvarðanir varðandi meðferð veðskuldabréfs. Þykir sannað að ákærði hafi notfært sér bágindi Ásrúnar og einfeldni varðandi fjármál til auðgast um andvirði veðskuldabréfs þess sem lýst er í II. ákærulið með því að útistandandi skuldir hans lækkuðu sem verðgildi þess nam, og er hann fundinn sekur um þessa háttsemi.

Ákærði lýsti því fyrir dóminum að Ásrún hefði sagt að hún teldi það að skuldir hans við hana myndu sjálfkrafa gufa upp við andlát hennar. Sé þetta rétt styður það þá fullyrðingu, sem málssóknin byggir meðal annars á, að hún hafi verið reynslulaus og einföld þegar fjármál voru annars vegar. Ákærði kveðst hafa upplýst Árúnu um að málið væri ekki svo einfalt og hafi hún þá viljað gera þá viðbótarerfðaskrá sem ákæruliður III varðar. Samkvæmt framburði vitnisins Péturs Guðmundarsonar hæstaréttarlögmanns talaði ákærði um skuldir sínar og samskipti við Ásrúnu á þann hátt, að ætla mátti að ekki væri um mjög miklar fjárhæðir að ræða. Þykir mega byggja á því, meðal annars með vísan til framburðar vitnisins Péturs, að vilji Ásrúnar hafi staðið til þess að gera vel við ákærða og fella niður þær skuldir hans við hana sem hún taldi vera til staðar. Samkvæmt áliti Jóns Snædal, læknis, var hún fær um að láta í ljós álit á því hverjum hún treysti og þar af leiðandi vilja sinn til arfleiðslu. Henni var hins vegar um megn vegna heilarýrnunar að meta það hverjir væru trausts hennar verðir. Fullljóst er að hún gat ekki gert sér grein fyrir þeim fjárhæðum sem um var að ræða og vissi ekki að hún hafði veitt atbeina sinn til að þessir fjármunir færðust yfir til ákærða. Ákærða gat ekki dulist að Ásrún gerði sér ekki grein fyrir innihaldi þeirrar ráðstöfunar, sem fólst í eftirgjöf á skuld ákærða við hana eftir hennar dag samkvæmt yfirlýsingu sem hún undirritaði 3. júlí 1997 og var viðbót við erfðaskrá frá 20. mars 1996. Þykir ákærði hafa notfært sér bágindi og einfeldni Ásrúnar til að áskilja sér þá hagsmuni sem erfðaskráin geymdi. Er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í III. ákærulið.

Samkvæmt framansögðu þykir mega fallast á það sem fram kemur í ákæruskjali, að ákærði hafi við þá háttsemi sem lýst er í I., II. og III. ákærulið notfært sér bágindi Ásrúnar Einarsdóttur sem stöfuðu af ellirýrnun af Alzheimer gerð, einfeldni hennar og traust hennar á honum í þeim tilgangi að hafa af henni fé og áskilja sér hagsmuni sem ekkert endurgjald skyldi koma fyrir. Er háttsemi þessi rétt heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

Samkvæmt sakarvottorði ákærða X gekkst hann á árunum 1983 til 1987 fimm sinnum undir sektargreiðslur vegna umferðarlagabrota. Hann var dæmdur í 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár 13. september 1989 fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. maí árið 1991 var hann dæmdur í 7 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn sama lagaákvæði. Var fyrri dómurinn þá dæmdur með. Með hliðsjón af því að ákærði hefur áður gerst sekur um auðgunarbrot og því að brot hans nú eru stórfelld og fela í sér trúnaðarbrot gegn gamalli konu sem treysti vináttu hans, þá þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði og þykir ekki koma til greina að skilorðsbinda hana.

Erla S. Árnadóttir hrl. hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða Ásrúnu Einarsdóttur kr. 38.643.033 ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir misneytingu og Ásrún Einarsdóttir hefur ekki fengið neitt endurgreitt af þeim peningum sem hún lét af hendi. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að honum hafi verið kynnt bótakrafan fyrr en með birtingu ákæru. Samkvæmt þessu eru reiknaðir dráttarvextir á höfuðstóll samkvæmt ákærulið I ekki teknir til greina. Ekki þykir sannað í þessu máli að Ásrún hafi ætlað sér að innheimta veðskuldabréf það sem ákært er fyrir í II. lið og er því ekki fallist á reiknaðar verðbætur og dráttarvexti á þá kröfu. Höfuðstóll kröfu samtals að fjárhæð kr. 30.825.986 er tekinn til greina með almennum sparisjóðsvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá úttektardögum til dómuppsögudags en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags og kr. 70.000 í lögmannskostnað.

Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð kr. 250.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, kr. 250.000.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur settum saksóknara.

Dómsorð:

Ákærði, X, skal sæta fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði greiði Ásrúnu Einarsdóttur, kt. 060616-2489, Grenimel 32, Reykjavík, kr. 30.825.986 með almennum sparisjóðsvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá úttektardögum til dómuppsögudags en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags og kr. 70.000 í lögmannskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð kr. 250.000 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, kr. 250.000.