Hæstiréttur íslands

Mál nr. 366/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 7. júní 2011.

Nr. 366/2011.

Lögreglustjórinn á Eskifirði

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Kærufrestur. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2011, og bárust málsgögn réttinum 6. júní 2011. Kærði hann úrskurð Héraðsdóms Austurlands 25. maí 2011, þar sem honum hafði verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. júní 2011 klukkan 14. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Austurlands um gæsluvarðhald yfir varnaraðila var bókað eftir honum að hann myndi taka sér lögmæltan frest til ákvörðunar um kæru. Gögn málsins bera með sér að verjandi varnaraðila sendi dómstjóra Héraðsdóms Austurlands tölvupóst 27. maí 2011 þar sem lýst var yfir kæru á úrskurðinum. Vegna utanlandsferðar dómstjórans mun honum á hinn bóginn ekki hafa borist vitneskja um kæruna fyrr en nokkrum dögum síðar. Þegar litið er til dóms Hæstaréttar 19. janúar 2009 í málinu nr. 4/2009 verður talið að kæran hafi borist með fullnægjandi hætti og nægilega snemma, enda var hún send á opinbert tölvupóstfang dómstjóra Héraðsdóms Austurlands sem kvað upp hinn kærða úrskurð.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 25. maí 2011.

Sýslumaðurinn á [...] hefur með beiðni, dagsettri í dag, krafist þess, með vísan til c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 12 vikur, eða þar til dómur gangi í máli nr. 028-2011-1297, en ákæra verði gefin út í því eins fljótt og mögulegt sé.

Af hálfu kærða er þess aðallega krafist að kröfu sýslumanns verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verið markaður mun skemmri tími.

Í greinargerð sýslumanns kemur fram að kærði sé grunaður um að hafa í gær brotið gegn 106. gr. og 220. gr. og um tilraun til brots á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einnig brot gegn 45. gr. og 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Er atvikum lýst svo í greinargerð sýslumanns að kl. 19:17 í gær hafi kærði verið handtekinn á [...]. Lögreglan hafi haft afskipti af honum nokkru fyrr vegna aksturs án ökuréttinda og ölvunaraksturs og í framhaldi af því hafi hótaði kærði hótað lögreglumönnunum A, B, C, D og E og lækninum F, líkamsmeiðingum og lífláti og auk þess hafi hann kastað stórum steini að nefndum A. Hafi kærði farið inn á heimili sitt til að ná í sporjárn til að drepa lögreglumanninn D, en við handtöku hafi  sporjárnið dottið úr vasa kærða. Með hinum ætlaða ölvunarakstri hafi kærði valdið stórhættu og hafi næstum verið búinn að aka á tvo bíla, áður en hann hafi ekið á stórt járnrör og fest bifreiðina. Kærði hafi verið handtekinn og sé ennþá í haldi lögreglu. Nánari lýsing á háttsemi kærða á [...] í gær sjáist í hjálagðri skýrslu lögreglu.

Foreldrar kærða sem búi að [...] hafi neitað að taka við honum aftur þannig að hann eigi í raun ekki í nein hús að venda.

Kærði segist vera smitaður af lifrarbólgu C og HIV, og hafi hótað því óspart í gær að smita lögreglumennina af þessum ólæknandi sjúkdómum.

Kærði sé búinn að vera í fangelsi frá því þann 20. desember 2010, þar til hann hafi verið látinn laus þann 19. maí sl., þar sem hann hafi afplánað 5 mánaða fangelsisdóm sem kveðinn hafi verið upp í Héraðsdómi Austurlands 28. júní 2010. Hann hafi því byrjað í mjög alvarlegri brotastarfsemi svo til strax og hann hafi verið látinn laus og áfengisneysla virðist einnig byrja.

Kærði hafi verið í samfelldri brotastarfsemi frá árinu 2000, eins og hjálagt sakavottorð hans beri með sér, þrátt fyrir að hann hafi verið í fangelsi margoft á þessu tímabili, eins og hjálagt yfirlit Fangelsismálastofnunar ríkisins ber með sér.

Á árinu 2009 hafi verið kveðnir upp yfir kærða 4 dómar, allir óskilorðsbundnir samtals 9 og hálfur mánuður í fangelsi, fyrir mjög alvarleg brot á hegningarlögum, þ.m.t. tveir dómar fyrir brot á 106. gr. og 217. gr. hgl., og eins dómur fyrir brot á 225. gr. hgl.

Á árinu 2010 hafi kærði verið dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir þjófnað sem hann lauk afplánun á þann 19. maí sl., eins og áður segir.

Þann 10. maí sl. hafi kærði verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi. Hafi sá dómur verið birtur fyrir kærða þann sama dag og renni áfrýjunarfrestur út þann 7. júní nk. Ekki sé því hægt að láta kærða byrja að afplána þann dóm fyrr en áfrýjunarfrestur sé liðinn eða dómur Hæstaréttar hafi gengið, ef honum verður áfrýjað.     

Krafa um gæsluvarðhald byggir á c. og d. liðum 1. mgr. 95. gr.  laga 88/2008, um meðferð sakamála.

Um sé að ræða rökstuddan grun um að kærði hafi framið afbrot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi og kærði sé orðinn [...] ára gamall.

Annarsvegar sé á því byggt að c. liður nefndrar 95. gr. eigi við, þ.e. að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið, eins og brotaferill hans, sbr. ofangreint, beri með sér.

Hinsvegar sé byggt á d. lið sömu lagagreinar, þ.e. að telja megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings, en eins og í ofannefndri greinargerð komi fram hafi kærði farið út af heimili sínu vopnaður sporjárni í þeim tilgangi að drepa lögreglumann og jafnframt hafi hann hótað öðrum lögreglumönnum og lækni líkamsmeiðingum og lífláti og hafi ekið réttindalaus og ölvaður um götur á [...] og valdið stórhættu. Þá sé vísað til fyrri dóma vegna samskonar eða líkrar háttsemi.

Ef 9 mánaða fangelsisdómur héraðsdóms Austurlands í máli nr. S-108/2010, sem kveðinn hafi verið upp þann 10. maí 2011, verði fullnustuhæfur, áður en dómur gengur í kærumálinu frá í gær, muni kærði þá þegar hefja afplánum á þeim dómi og gæsluvarðhaldi verður þá hætt. Skv. upplýsingum verjanda kærða muni þessum dómi þó verða áfrýjað til Hæstaréttar.

Kærði nýtti sér rétt sinn til að tjá sig ekki um hina ætluðu refsiverðu háttsemi fyrir dómi.

Af hálfu verjanda kærða er byggt á því að ekki séu lagaskilyrði til að fallast á kröfu sýslumanns um gæsluvarðhald. Geti einn einstakur atburður, eins og hér sé um að ræða, ekki orðið grundvöllur fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008 og sé byggt á því að sýslumanni dugi ekki að vísa til brota sem hafi átt að eiga sér stað á árinu 2010, hvað þá á árinu 2009.

Varðandi d. lið kvað verjandi kærða að kærði hafnaði því að sýnt hefði verið fram á að hann væri hættulegur. Um væri að ræða stakan atburð þar sem kærði hafi verið undir áhrifum áfengis en öllu jöfnu stafi engum manni ógn af kærða. Séu því heldur ekki skilyrði til gæsluvarðahalds á grundvelli d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Sú frásögn um atburði, sem fram kemur í greinargerð sýslumanns og frumskýrslu lögreglu, bendir til að nokkur vitni séu að hinni ætluðu háttsemi kærða. Er þar m.a. lýst hótunum í garð lögreglumanna og því að kærði hafi kastað steini í átt að lögreglumanni sem vikið hafi sér undan. Framangreind háttsemi, ef rétt reynist, felur í sér brot á almennum hegningarlögum sem varðað getur fangelsi. Þá kemur fram í frumskýrslu að þrjú vitni, ættingjar kærða, hafi lýst því að kærði hafi farið að heiman vopnaður sporjárni og hafi sagst ætla að drepa nafngreindan lögreglumann. Kærði var sakfelldur og dæmdur til 9 mánaða fangelsisvistar þann 10. maí 2011 í Héraðsdómi Austurlands en sá dómur er ekki orðinn fullnustuhæfur. Var kærði þar sakfelldur fyrir hótanir í garð tveggja lögreglumann, en annar þeirra er sá maður sem vitni eru sögð hafa sagt kærða nefna sem þann sem drepa ætti með sporjárni því sem að framan er getið.

Fellst dómurinn á með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Er fallist á það með sýslumanni að eins og mál þetta liggur fyrir megi telja gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum kærða. Er því fallist á að skilyrði d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er að þeirri niðurstöðu fenginni ekki ástæða til að taka afstöðu til röksemda sýslumanns um að einnig séu uppfyllt í málinu skilyrði c. liðar 1. mgr. sömu lagagreinar.

Með vísan til þess sem að framan greinir, er því fallist á kröfu sýslumannsins á [...] um að kærða, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldi lengri tíma en nánar greinir í úrskurðarorði.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. júní 2011 kl. 14.00.