Hæstiréttur íslands

Mál nr. 397/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 26

 

Miðvikudaginn 26. júlí 2006.

Nr. 397/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans væri til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. ágúst 2006 kl. 24. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006 var varnaraðili dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði og til greiðslu sakarkostnaðar, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 12. febrúar 2006. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð tilkynning varnaraðila 24. júlí 2006 til ríkissaksóknara um áfrýjun dómsins. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fullnægt til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt 106. gr. laganna meðan mál hans er til meðferðar hjá ríkissaksóknara og fyrir æðra dómi, en yfirlýsing varnaraðila um áfrýjun héraðsdóms bindur ekki ein sér enda á gæsluvarðhald yfir honum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. ágúst 2006, klukkan 24:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að dómfelldi hafi, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag, verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl., nú undanfarið á grundvelli almannahagsmuna, sbr. síðast dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. f.m. í máli nr. 317/2006, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. s.m. í máli nr. R-311/2006.  Brot kærða lúti að innflutningi á miklu magni amfetamíns hingað til lands sem talið sé að hafi átt að fara í dreifingu hér á landi.  Áframhaldandi gæslu­varðhald á meðan áfrýjunarfrestur varir þyki nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.  Um tímamark áfrýjunarfrests, kl. 24, sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 31/2005.

Sakarefnið sé talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds  sé vísað til 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl., nú undarnfarið  samkvæmt heimild í 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag var dómfelldi dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Sömu skilyrði eru enn fyrir hendi til að gæsluvarðhaldi verði beitt áfram að teknu tilliti til þess að samkvæmt 106. gr. laga um meðferð opinberra mála lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæslu­varðhald skuli haldast meðan á fresti stendur samkvæmt 2. mgr. 151. gr. sömu laga svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi, ef því er að skipta. Samkvæmt framangreindu eru fyrir hendi skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála. Verður krafa Lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur varir, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. ágúst 2006, klukkan 24:00.