Hæstiréttur íslands
Mál nr. 114/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Laun
|
|
Mánudaginn 21. mars 2011. |
|
Nr. 114/2011. |
Harpa Gunnarsdóttir (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Laun.
H kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu hennar sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrot o.fl. við slit S hf. H hafði verið framkvæmdastjóri þjónustusviðs S hf. frá 1. mars 2005 en framkvæmdastjóri þjónustusviðs og fjárhagssviðs frá 26. september 2007. Með samningi aðila 26. janúar 2008 gegndi H stöðu framkvæmdastjóra mannauðs- og rekstrarmála. Talið var að H hefði í starfi sínu sem framkvæmdastjóri verið einn af æðstu stjórnendum S hf. Með vísan til þessa og til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti var talið að þágildandi ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. tæki til kröfu H en þar sagði að sá sem hefði með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem væri til gjaldþrotaskipta nyti ekki forgangsréttar fyrir kröfum sínum sem ella hefði verið skipað í réttindaröð samkvæmt 1., 2., eða 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að ekki yrði talið að þeir fyrrverandi starfsmenn sem H kvað að hefðu fengið launakröfur sínar greiddar hefðu haft stöðu sambærilega H þannig að máli skipti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2011 þar sem viðurkennd var krafa sóknaraðila við slit varnaraðila að fjárhæð 16.241.876 krónur sem almenn krafa, en hafnað að viðurkenna hana sem forgangskröfu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að krafa hennar að fjárhæð 19.472.492 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili kveður þá galla vera á hinum kærða úrskurði að í forsendum hans virðist á því byggt að ekki hafi verið lögð fram haldbær gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu hennar að innri endurskoðandi, forstöðumaður áhættustýringar og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar, sem gegndi starfi forstöðumanns við starfslok, hafi fengið launakröfur sínar greiddar og því liggi ekkert fyrir í málinu sem bendi til þess að slitastjórn varnaraðila hafi mismunað starfsmönnum. Í fyrsta lagi hafi þessi fullyrðing þegar komið fram í greinargerð sóknaraðila í héraði og hafi henni ekki verið mótmælt í greinargerð varnaraðila heldur hafi mótbárur hans fyrst komið fram við munnlegan málflutning í héraði. Í síðari ræðu sinn hafi lögmaður sóknaraðila mótmælt þessum mótbárum sem of seint fram komnum og óskað þess að mótmælin væru bókuð í þingbók. Í öðru lagi hafi sóknaraðili aflað haldbærra gagna til stuðnings fullyrðingu sinni með áskorun til varnaraðila í héraðsdómi 18. október 2010. Varnaraðili hafi svarað þessari áskorun með bókun í þinghaldi 22. nóvember 2010 þar sem segi: „Aðrir starfsmenn en framkvæmdastjórar hjá varnaraðila fengu greidd laun í uppsagnarfresti og voru launatengdar greiðslur greiddar vegna þeirra.“ Þessar launagreiðslur hafi farið fram á grundvelli laga nr. 74/2009, enda nyti krafan forgangsréttar, sbr. lög nr. 61/2009. Þessar forsendur hins kærða úrskurðar standist því ekki. Þetta hafi verulega þýðingu fyrir sóknaraðila, sem byggi á því að hún hafi ekki verið í slíku starfi hjá varnaraðila að hún hafi stýrt daglegum rekstri og hún hafi heldur ekki búið yfir svo ríkum upplýsingum um rekstur varnaraðila að hún hafi getað haft áhrif á þá þætti í rekstrinum sem leitt hafi til þess að Fjármálaeftirlitið tók varnaraðila yfir. Hún byggi auk þess á því að seta hennar á fundum framkvæmdastjórnar varnaraðila skeri ekki úr um hvort krafa hennar njóti forgangs, enda hafi slitastjórn varnaraðila samþykkt forgangskröfur fyrrnefndra stjórnenda sem hafi setið þessa fundi og haft ríkari starfsheimildir en hún. Sóknaraðili bendir á að skipulag varnaraðila hafi tekið mið af stærð hans sem lítils fjármálafyrirtækis og allar helstu ákvarðanir hafi verið teknar af forstjóra og stjórn án vitundar hennar. Hún hafi hvorki haft heimildir til lánveitinga né aðrar heimildir til að skuldbinda varnaraðila. Svo virðist sem slitastjórnin beiti geðþótta við ákvarðanir um hvaða starfsmenn skuli njóta forgangs til launa. Eins og áður greini hafi innri endurskoðandi, forstöðumaður áhættustýringar og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar allir setið í framkvæmdastjórn varnaraðila fyrir gjaldþrot og fengið fullt uppgjör launa sinna í uppsagnarfresti frá varnaraðila þar sem slitastjórn hafi talið kröfur þeirra njóta forgangs. Enginn vafi sé á því að þessir menn hafi haft mun meiri áhrif á rekstur varnaraðila og afkomu en sóknaraðili í störfum sínum.
Sóknaraðili mótmælir niðurstöðu hins kærða úrskurðar um mótframlag í lífeyrissjóð og greiðslur vegna bifreiðar- og símahlunninda. Hún sé réttur eigandi kröfu um mótframlag í lífeyrissjóð, enda hafi kröfunni ekki verið lýst af lífeyrissjóðnum. Greiðslur um hlunnindi önnur en hefðbundnar launagreiðslur beri að inna af hendi eins og aðrar samningsbundnar greiðslur út uppsagnarfrest.
Varnaraðili mótmælir því að hafa mismunað starfsmönnum við uppgjör launakrafna og vísar í fyrrgreinda bókun sem hann lagði fram í þinghaldi 22. nóvember 2010. Þar vísi hann til kröfuskrár. Í henni komi fram að tilgreindir fyrrverandi starfsmenn varnaraðila hafi ekki fengið samþykktar forgangskröfur við slitameðferð varnaraðila. Fyrrverandi sparisjóðsstjóri hafi lýst almennri kröfu, sem hafi verið samþykkt lítillega breytt. Fyrrverandi framkvæmdastjóri og staðgengill sparisjóðsstjóra hafi lýst sinni kröfu aðallega sem búskröfu en til vara sem forgangskröfu og til þrautavara sem almennri kröfu. Ágreiningur sé hvort tveggja um fjárhæð og rétthæð kröfu þess síðastnefnda og sé hann óútkljáður. Upplýst sé að ekki hafi allir fyrrverandi framkvæmdastjórar hjá varnaraðila lýst kröfum við slitameðferðina. Enginn starfsmaður sem gegndi framkvæmdastjórastöðu hjá varnaraðila við starfslok hafi fengið greidd laun í uppsagnarfresti, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
II
Svo sem rakið hefur verið lýtur ágreiningur aðila bæði að fjárhæð og rétthæð kröfu sóknaraðila. Í hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu hennar vegna bifreiðarhlunninda að fjárhæð 343.797 krónur og er ekki ágreiningur um hana fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna verður fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um símahlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð. Nemur krafa sóknaraðila því 16.241.876 krónum eins og í hinum kærða úrskurði greinir.
Um rétthæð kröfu sóknaraðila er þess fyrst að gæta að varnaraðili hefur ekki andmælt því að sóknaraðili hafi borið fram þau mótmæli í munnlegum málflutningi í héraði sem hann hefur haldið fram og að framan getur. Með vísan til þess sem rakið er í niðurstöðu hins kærða úrskurðar um störf sóknaraðila hjá varnaraðila verður fallist á að sóknaraðili hafi í starfi sínu sem framkvæmdastjóri verið einn af æðstu stjórnendum varnaraðila. Vegna þessa og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður talið að þágildandi ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 taki til kröfu sóknaraðila. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeir fyrrverandi starfsmenn, sem sóknaraðili kveður hafa fengið launakröfur sínar greiddar, hafi haft stöðu sambærilega sóknaraðila þannig að hér skipti máli. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Harpa Gunnarsdóttir, greiði varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2011.
I
Mál þetta var þingfest 8. júní 2010 og tekið til úrskurðar 26. janúar 2011. Sóknaraðili er Harpa Gunnarsdóttir, Brekkusmára 4, Kópavogi en varnaraðili er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Lágmúla 6, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hennar að fjárhæð 19.472.492 krónur verði, við slit varnaraðila, viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara krefst hún þess að ofangreind krafa verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðila verði gert að greiða henni málskostnað auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila að fjárhæð 15.898.079 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá gerir varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
II
Málavextir eru þeir helstir að sóknaraðili hóf fyrst störf hjá varnaraðila árið 1979 og var hún fastráðin með stuttum hléum frá 1982. Samkvæmt starfssamningi aðila 30. mars 2005 var sóknaraðili ráðin framkvæmdastjóri þjónustusviðs varnaraðila frá 1. mars 2005 en frá árinu 1999 hafði hún sinnt starfi forstöðumanns starfsmannaþjónustu. Samkvæmt starfssamningnum voru mánaðarlaun sóknaraðila 775.000 krónur bundin við launavísitölu. Lagði varnaraðili sóknaraðila til bifreið og greiddi allan kostnað vegna hennar en sóknaraðili greiddi skatta vegna bifreiðahlunninda. Þá greiddi varnaraðili allan kostnað vegna heimasíma, farsíma, tölvubúnaðar og tölvutengingar á heimili sóknaraðila, auk þess sem varnaraðili greiddi líf-, sjúkdóma- og slysatryggingu fyrir sóknaraðila. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur var sex mánuðir. Samkvæmt samkomulagi um lífeyrismál, sem undirritað var sama dag, greiddi varnaraðili, auk lögbundinna lágmarksiðgjalda, aukalega 7% iðgjald af launum sóknaraðila til séreignarsjóðs samkvæmt samkomulagi Sambands Íslenskra bankamanna og Sambands íslenskra sparisjóða. Því til viðbótar greiddi varnaraðili síðan 5% „sérstakt viðbótarframlag“, eins og það var nefnt, til séreignarsjóðs að vali sóknaraðila.
Samkvæmt gögnum málsins tók sóknaraðili að sér, til viðbótar þeim störfum sem hún þegar hafði með höndum, að gegna starfi framkvæmdastjóra fjárhagssviðs varnaraðila frá lokum árs 2006 fram í janúar 2008. Var um að ræða tímabundið ástand meðan unnið var að því að finna starfsmann til að taka að sér starfið.
Þá virðist hafa verið gerður starfssamningur við sóknaraðila 11. maí 2006, en sá samningur liggur ekki fyrir í málinu. Hinn 29. janúar 2007 var gerður viðauki við þann samning þar sem laun sóknaraðila voru hækkuð í 1.198.569 krónur bundin vísitölu auk þess sem hún skyldi fá árangurstengda bónusgreiðslu samkvæmt sérstöku samkomulagi. Samkvæmt þeim samningi var starfsheiti sóknaraðila framkvæmdastjóri þjónustusviðs og fjárhagssviðs varnaraðila.
Hinn 26. september 2007 var gerður nýr starfssamningur við sóknaraðila þar sem laun hennar voru hækkuð í 1.500.000 krónur bundin vísitölu og sama dag gerðu aðilar með sér samkomulag um lífeyrismál. Voru samningar þessir á sömu lund og samningarnir frá 2005 en starfsheitið samkvæmt hinum nýja samningi var framkvæmdastjóri þjónustusviðs og fjárhagssviðs.
Hinn 16. janúar 2008 var gerður nýr starfssamningur milli aðila, auk samkomulags um lífeyrismál. Samkvæmt hinum nýja starfssamningi er starfsheiti sóknaraðila tilgreint sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs. Að öðru leyti er sá starfssamningur í meginatriðum samhljóða eldri starfssamningum að því frátöldu að uppsagnarfrestur var lengdur í 12 mánuði.
Hinn 26. janúar 2009 gerðu aðilar samkomulag um breytt launakjör sóknaraðila vegna erfiðra og breyttra aðstæðna á fjármálamörkuðum og með því samkomulagi lækkuðu laun hennar úr 1.651.970 krónum í 1.240.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins voru gerðar skipulagbreytingar hjá varnaraðila sem tóku gildi 1. febrúar 2009 þar sem starfsemi varnaraðila var einfölduð og við þær breytingar varð sóknaraðili framkvæmdastjóri mannauðs- og rekstrarmála.
Hinn 21. mars 2009 yfirtók Fjármálaeftirlitið rekstur varnaraðila og tók skilanefnd við stjórn félagsins samdægurs. Í kjölfarið var stjórn og forstjóra vikið frá, auk þess sem stjórnir dótturfélaga, utan SPRON factoring, voru einnig leystar frá störfum. Þá var stofnað nýtt eignarhaldsfélag, Drómi hf., sem tók formlega til starfa seinni hluta maí 2009, en þá var gengið frá ráðningarsamningum við tiltekna starfsmenn sem þáðu boð um starf hjá félaginu.
Hinn 31. mars 2009 ákvað skilanefnd varnaraðila að öllum starfsmönnum hans og dótturfélaganna, Netbankans og Frjálsa fjárfestingarbankans, yrði sagt upp störfum frá og með 31. mars 2009 en í byrjun apríl 2009 ákvað skilanefndin að fresta uppsögn þeirra starfsmanna sem þurftu að vinna áfram að tilteknum verkefnum um einn mánuð. Frá þessu var greint á fundi með starfsmönnum og gengið frá frestun á uppsögn hóps starfsmanna, þar á meðal sóknaraðila, með samkomulagi 8. apríl 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var slitastjórn varnaraðila skipuð.
Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 1. júlí 2009 kemur fram að framkvæmdastjórar hafi fengið laun í uppsagnarfresti þann tíma sem bráðabirgðastjórn varnaraðila hafi starfað en hafi á þeim tíma ýmist hafið störf annars staðar, óskað eftir starfslokum eða hætt störfum. Væri vinnuskyldu þar með aflétt. Þá kemur fram í bréfinu að laun framkvæmdastjóra væri almenn krafa og að óvissa væri um hversu mikið myndi greiðast upp í almennar kröfur. Þá kemur fram í bréfinu að þar sem framkvæmdastjórar hefðu verið á fyrir fram greiddum launum yrði ekki um frekari launagreiðslur að ræða í uppsagnarfresti. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu með bréfi 8. júlí 2009 og í kjölfar frekari bréfaskipta aðila hafnaði slitastjórn varnaraðila kröfum sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti.
Innköllun vegna slitameðferðar varnaraðila birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 14. janúar 2010 og var hún samþykkt með breytingum sem almenn krafa og var forgangsrétti hennar hafnað. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til kröfunnar með bréfi 16. mars 2010. Ekki tókst að jafna ágreininginn á kröfuhafafundi sem haldinn var 27. apríl 2010 og var málinu því skotið til úrlausnar dómsins með bréfi 3. maí 2010 sem móttekið var 4. maí 2010.
Krafa sóknaraðila er tilkomin vegna starfsloka hennar hjá varnaraðila og varðar laun í uppsagnarfresti, orlofsgreiðslur, auk greiðslna vegna hlunninda og iðgjalda til lífeyrissjóða. Í greinargerð sóknaraðila var sett fram sú krafa að viðurkennt væri að krafa sóknaraðila að fjárhæð 20.393.685 krónur væri forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila. Í þinghaldi hinn 30. september 2010 lækkaði sóknaraðili fjárhæð kröfunnar í 19.472.492 krónur með þeim rökum að fallið væri frá kröfum um hlunnindagreiðslur frá 1. október 2009.
Í máli þessu snýst ágreiningur einkum um stöðu kröfu sóknaraðila í skuldaröð. Þá er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar, þ.e. hvort sóknaraðili eigi aðild að kröfu vegna lífeyrissjóðsiðgjalda og hvort hann eigi rétt á hlunnindagreiðslum í uppsagnarfresti.
III
Sóknaraðili kveður kröfu sína vera forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en krafan sé tilkomin vegna slita á vinnusamningi 30. apríl 2009. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi uppsagnarfresturinn verið 12 mánuðir og í samræmi við það sé gerð krafa vegna heildarmismunar á núverandi launakjörum og þeirra sem hún hafi notið hjá varnaraðila.
Sóknaraðili kveður höfuðstól kröfu sinnar standa saman af umsömdum launum sóknaraðila á uppsagnarfresti að frádregnum þeim launum sem sóknaraðili hafi þegið frá öðrum launagreiðendum, auk lífeyrisgreiðslna og hlunninda. Sundurliðist krafa sóknaraðila svo:
|
Laun að frádregnum launum í nýju starfi |
11.140.292 |
|
Leiðrétting |
56.287 |
|
Orlof frá 1. júlí 2009 |
1.452.694 |
|
Orlof til 1. júlí 2009 |
3.248.806 |
|
Framlag í lífeyrissjóð |
3.179.616 |
|
Bifreiðahlunnindi |
343.797 |
|
GSM-sími |
25.500 |
|
Heimasími |
25.500 |
|
Samtals |
19.472.492 |
Sóknaraðili kveður ágreining aðila einkum vera þríþættan. Í fyrsta lagi sé uppi ágreiningur um rétthæð kröfunnar. Í öðru lagi sé ágreiningur um kröfu sóknaraðila um mótframlag í lífeyrissjóð og hvort sóknaraðili sé réttur aðili að þeirri kröfu. Í þriðja lagi sé uppi ágreiningur um kröfur vegna hlunninda, vegna bifreiðar, GSM-síma og heimasíma fram til 1. október 2009.
Sóknaraðili kveðst nánast alla sína starfsævi, eða í rúm 28 ár, hafa unnið hjá varnaraðila. Fyrst sem sumarstarfsmaður með skóla á árunum 1979-1981 og síðan fastráðinn starfsmaður með tveimur stuttum hléum frá árinu 1982. Framan af hafi hún verið við störf í útibúum varnaraðila, því næst í bókhaldi og síðan í starfsmannahaldi sparisjóðsins frá 1995. Haustið 1996 hafi hún tekið við deildarstjórastarfi í starfsmannahaldi varnaraðila og frá þeim tíma hafi hún gegnt stjórnunarstörfum fyrir fyrirtækið með aðaláherslu á starfsmannamál.
Í mars 2005 hafi sóknaraðili tekið við stöðu framkvæmdastjóra þjónustusviðs varnaraðila sem hafi samanstaðið af starfsmannaþjónustu, rekstrarþjónustu, skiptiborði og innri þjónustu sem séð hafi um ýmis bakvinnsluverkefni fyrir útibúastarfsemi varnaraðila. Í starfssamningi sóknaraðila frá 16. janúar 2008 segi meðal annars að framkvæmdastjóri skuli inna starf sitt sem best af hendi samkvæmt starfslýsingu og stjórnskipulagi varnaraðila á hverjum tíma og nánara samkomulagi við forstjóra. Unnið sé samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, samþykktum varnaraðila og þeim reglum sem settar séu innan varnaraðila.
Í skipulagsbreytingum, sem tekið hafi gildi 1. febrúar 2009, hafi þjónustusvið verið lagt niður og mannauðs- og rekstrarmál færð undir höfuðstöðvar varnaraðila. Áfram hafi sóknaraðili þó borið starfsheitið framkvæmdastjóri. Skömmu áður, hinn 26. janúar 2009, hafi sóknaraðili ásamt 25 öðrum starfsmönnum varnaraðila og dótturfélaga undirritað samkomulag um launalækkun vegna aðstæðna á markaði. Þar sem sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum innan sex mánaða frá gildistöku þess hafi það fallið úr gildi og hafi fyrri launakjör sóknaraðila tekið við.
Síðasti framkvæmdastjórnarfundur sem sóknaraðili hafi setið hafi verið haldinn haustið 2008, þ.e. nokkru áður en skipulagsbreytingarnar hafi tekið gildi 1. febrúar 2009. Þeir fundir sem sóknaraðili hafi sótt fyrir skipulagsbreytingarnar hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundir þar sem hver framkvæmdastjóri í samstæðunni, almannatengill, forstöðumaður áhættustýringar, innri endurskoðandi og forstjóri hafi farið saman yfir stöðu mála á hverjum stað og rætt þau málefni sem hafi verið efst á baugi hverju sinni. Ekki hafi verið um að ræða ákvörðunarfundi um málefni varnaraðila þar sem stærri málefni, sem sneru að fjármögnun, fjárfestingum, lánveitingum eða öðru slíku, hafi verið afgreidd af stjórn, lánanefnd og/eða forstjóra.
Skipulag varnaraðila hafi tekið mið af stærð hans sem lítils fjármálafyrirtækis. Allar helstu ákvarðanir um framgang mála hafi verið teknar án vitundar sóknaraðila af forstjóra og stjórn. Sóknaraðili hafi ekki haft lánaheimildir eða aðrar heimildir til að skuldbinda varnaraðila. Hún hafi þó haft heimild til að skrifa upp á skjöl fyrir hönd varnaraðila ef á þurfti að halda en slíkt hafi þá verið gert samkvæmt ákvörðun forstjóra eða stjórnar. Ákvarðanir um starfsemi varnaraðila og ábyrgðin vegna þeirra hafi því fyrst og fremst legið hjá forstjóra og stjórn.
Í 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sem slitastjórn varnaraðila virðist byggja afstöðu sína til rétthæðar kröfunnar á, sé að finna undantekningu frá forgangsrétti launakrafna starfsmanna en þar segi að hvorki þeir sem séu nákomnir þrotamanni njóti réttar samkvæmt 1.-3. töluliðum 1. mgr. fyrir kröfum sínum né þeir sem hafi átt sæti í stjórn eða haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem sé til gjaldþrotaskipta.
Þessi regla hafi verið nýmæli í lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, en í athugasemdum með 3. mgr. 112. gr. frumvarpsins sem síðar varð að lögum segi að reglan sé tekin upp að danskri fyrirmynd til að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé. Sambærileg takmörkun sé ekki fyrir hendi í ákvæðum 84. gr. laga nr. 3/1878 sem hafi stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd.
Við túlkun og beitingu 3. mgr. 112. gr. laganna verði að líta til þess að um íþyngjandi undantekningu sé að ræða frá 1. mgr. 112. gr. laganna sem mæli fyrir um forgangsrétt launakrafna við skipti á þrotabúi. Þá standi jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár til þess að sambærileg tilvik skuli fá sambærilega meðferð og mæli þar af leiðandi gegn því að tiltekinn starfsmaður félags njóti minni verndar en samstarfsmaður hans, nema veigamikil rök mæli með þeirri mismunun. Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir mjög óeðlilegar niðurstöður sem hafi tíðkast í tíð eldri gjaldþrotaskiptalaga, s.s. þegar forráðamenn gjaldþrota félags sem borið hafi ábyrgð á stefnu félagsins sem hafi komið því í þrot ættu forgangskröfu umfram aðra kröfuhafa sem tapað hafi á athöfnum og/eða athafnaleysi forráðamannanna.
Orðalag ákvæðisins bendi til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að ákvæðið næði einungis til þeirra sem hafi borið eiginlega ábyrgð á rekstri félagsins og haft úrslitaáhrif um afdrif þess. Í 3. mgr. 112. gr. laganna séu tilgreindir þrír hópar sem ekki njóti forgangsréttar vegna launakröfu sinnar, þ.e. þeir sem séu nákomnir þrotamanni, þeir sem átt hafi sæti í stjórn og þeir sem haft hafi með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar.
Hér sé um þröngan hóp að ræða sem ekki eigi forgangskröfu í þrotabú sökum stöðu sinnar og/eða möguleika til að hafa áhrif á afdrif félagins. Ekki sé þörf á því að gera grein fyrir fyrstu tveimur hópunum þar sem sóknaraðili hafi hvorki verið nákomin þrotamanninum né hafi hún átt sæti í stjórn félagsins. Því virðist slitastjórn varnaraðila telja að sóknaraðili hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins.
Í hlutafélagalögum nr. 2/1995 og lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé fjallað nokkuð ítarlega um starfsskyldur og ábyrgð framkvæmdastjóra hlutafélaga, en ætla megi að hlutverk stjórnanda þurfi að verulegu leyti að samræmast heimildum, skyldum og ábyrgð framkvæmdastjóra í nefndum lögum svo 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi við, sbr. orðalag ákvæðisins sem og áðurnefnd lögskýringargögn.
Í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé fjallað um starfsskyldur, heimildir og ábyrgð framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Þar segi meðal annars:
- Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu leggja reglulega mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess, sbr. 1. mgr. 84. gr.
- Á framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis hvílir sú skylda að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef ástæða er til að ætla að eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækisins sé undir lögbundnu lágmarki, sbr. 1. mgr. 86. gr.
- Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár, sbr. 1. mgr. 87. gr.
- Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 87. gr.
- Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum, s.s. fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu og heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, framkvæmdastjóra, stjórnar og annarra í þjónustu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, sbr. 1. og 3. mgr. 89. gr.
Þessu til fyllingar standi 18. gr. samþykkta varnaraðila hf. frá 27. febrúar 2008 sem svari efnislega til 68. gr. hlutafélagalaga en þar segi meðal annars að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafi gefið. Jafnframt skuli framkvæmdastjóri sjá um að bókhald og að fjárreiður séu í samræmi við lög og góðar venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóri ráði starfsmenn félagsins og fjalli um launamál þeirra.
Hafi sóknaraðili ekki sinnt neinum af þeim verkefnum sem sérstaklega sé getið í ofangreindum lögum um fjármálafyrirtæki heldur hafi þau verið í höndum forstjóra félagsins. Sóknaraðili hafi því ekki haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þetta sé jafnframt í samræmi við 17. gr. reglna varnaraðila um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra en þar segi um starfsskyldur forstjóra að hann beri ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, fari með ákvörðunarvald í öllum málefnum félagins sem ekki séu falin öðrum samkvæmt lögum nr. 161/2002 eða samþykktum félagsins. Þá standi forstjóri fyrir rekstri félagsins í samræmi við þær reglur sem settar séu af félagsstjórn samkvæmt samþykktum þess og lögum.
Ofangreint ákvæði sem skilgreini starfsskyldur forstjóra sé efnislega sambærilegt 68. gr. hlutafélagalaga og áðurnefndrar 18. gr. samþykkta varnaraðila sem fjalli um starfsskyldur framkvæmdastjóra. Því verði að telja að sóknaraðili hafi ekki haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins, þrátt fyrir starfstitil sinn, þar sem hún hafi ekki haft slík völd eða borið slíka ábyrgð að réttlætanlegt sé að neita henni um forgangsrétt fyrir kröfum sínum.
Samkvæmt 65. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 skuli stjórn félags ráða einn til þrjá framkvæmdastjóra, nema kveðið sé á um fleiri framkvæmdastjóra í samþykktum félags. Þegar samþykktir varnaraðila séu skoðaðar í samhengi við reglur hans um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra sé ljóst að forstjóri félagsins hafi einn gegnt hlutverki framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga og samþykkta félagsins. Í samræmi við þetta segi í 5. mgr. 12. gr. reglna varnaraðila um framkvæmd starfa stjórnar og forstjóra að félagsstjórn skuli ráða forstjóra og setja honum erindisbréf. Þá staðfesti stjórnin ráðningu staðgengils forstjóra.
Sóknaraðili hafi ekki verið ráðin af stjórn varnaraðila heldur af forstjóra félagsins sem hafi verið ráðinn af félagsstjórninni. Þegar af þeirri ástæðu teljist hún ekki framkvæmdastjóri í skilningi hlutafélagalaga, laga um fjármálafyrirtæki eða samþykkta varnaraðila. Því til stuðnings sé vísað til áðurnefndrar 18. gr. samþykkta varnaraðila þar sem segi að forstjóri fari með daglega stjórn félagsins.
Í 2. mgr. 74. gr. hlutafélagalaga segi að félagsstjórn geti veitt stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum eða öðrum heimild til að rita firma félagsins, svo framarlega sem öðruvísi sé ekki ákveðið í samþykktum þess. Samkvæmt 78. gr. laganna skuli tilkynna um ráðningu framkvæmdastjóra til hlutafélagaskrár og eftir atvikum birta hana í Lögbirtingablaðinu. Þá segi í 79. gr. laganna að félagsstjórn ákveði laun og starfskjör framkvæmdastjóra. Sóknaraðili hafi hvorki verið skráð sem framkvæmdastjóri hjá hlutafélagaskrá né hafi hún haft heimild til að rita firma félagsins. Þá skuli áréttað að hún hafi verið ráðin af forstjóra félagsins og samið við hann um launakjör sín, en ekki stjórn félagsins.
Af 134. gr. hlutafélagalaga, sem fjalli um skaðabótaábyrgð stjórnenda félags, megi jafnframt ráða að það séu stofnendur, stjórnarmenn, endurskoðendur, skoðunarmenn hlutafélags, matsmenn og rannsóknarmenn auk framkvæmdastjóra, í skilningi hlutafélagalaganna, sem beri ábyrgð á rekstri félagsins og geti eftir atvikum sætt skaðabótaábyrgð hafi þeir valdið félaginu tjóni í störfum sínum. Þar sem sóknaraðili hafi hvorki gegnt hlutverki framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaganna né haft ákvörðunarvald um stefnu félagsins verði ekki talið að hún tilheyri þeim hópi stjórnenda félagsins sem geti borið skaðabótaábyrgð á störfum sínum á grundvelli 134. gr. hlutafélaganna.
Að lokum megi einnig leita fanga í lögum um ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003, en markmið þeirra sé meðal annars að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda. Samkvæmt 10. gr. laganna séu nokkrir aðilar undanþegnir ábyrgðinni, en þar segi að kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóti ekki ábyrgðar samkvæmt lögunum. Sama gildi um kröfur launamanns sem hafi verið eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafi haft umtalsverð áhrif á rekstur þess.
Samkvæmt athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins, sem síðar hafi orðið að lögum, virðist þessi hópur falla utan ábyrgðarinnar sökum þess að hin rekstrarlega ábyrgð hvíli á þeim auk þess sem þeir eigi að hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins en ætla megi að sambærileg sjónarmið liggi að baki 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Verði ekki talið að sóknaraðili falli í þennan flokk þar sem hún hafi hvorki verið í stöðu til né haft möguleika á að breyta stefnu félagsins.
Þetta sé jafnframt í samræmi við norræna réttarframkvæmd en þar sé almennt ekki einblínt á starfstitilinn sjálfan heldur raunverulegar starfsheimildir starfsmannsins, hvort hann hafi verið ráðandi um stefnu félagsins og hvort hann hafi verið tilkynntur sem slíkur hjá hlutafélagaskrá. Slíkir mælikvarðar séu að sjálfsögðu heppilegri enda þurfi starfstitillinn einn og sér ekki að endurspegla raunverulega stöðu starfsmanns innan fyrirtækisins. Því til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að töluverð „verðbólga“ hafi verið á starfstitlum hérlendra fyrirtækja á undanförnum árum. Þannig hafi framkvæmdastjórum fjölgað gríðarlega án þess að nokkur raunveruleg breyting hafi verið gerð á starfsskipulagi íslenskra fyrirtækja. Þess þá heldur hafi starfsheitum venjulegra millistjórnenda og deildarstjóra verið breytt í framkvæmdastjóra án þess að hlutverk þeirra innan fyrirtækjanna hafi breyst að nokkru verulegu leyti. Samkvæmt þeirri orðanotkun, sem tíðkast hafi er núverandi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 kom í lögin, hafi sóknaraðili gegnt hlutverki skrifstofu- og starfsmannastjóra varnaraðila.
Stjórnarseta sóknaraðila í dótturfélögum varnaraðila breyti engu um forgangskröfu hennar þar sem hún hafi ekki krafist launa vegna stjórnarsetunnar. Stjórnarsetan sé því málinu óviðkomandi. Sóknaraðili telur einnig að fullyrðingar slitastjórnar þess efnis að hún hafi verið þriðji hæst launaði starfsmaður samstæðunnar séu rangar og ósannaðar.
Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi í reynd talið sóknaraðila njóta forgangsréttar til launa sinna þar sem þess hafi verið óskað að sóknaraðili ynni í uppsagnarfrestinum allt þar til slitastjórnin virðist skyndilega hafa skipt um skoðun 1. júlí 2009. Staðfesti þetta jafnframt að sóknaraðili hafi ekki haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins þar sem henni hafi ekki verið sagt upp störfum á sama tíma og þeim sem farið hafi með stjórn félagsins.
Í ljósi framangreinds verði ekki séð að sóknaraðili hafi haft með höndum framkvæmdastjórn í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 enda hafi hún ekki gegnt hlutverki framkvæmdastjóra í skilningi laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 eða laga um ábyrgðasjóð launa nr. 88/2003. Þá sé jafnframt ljóst að varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að undantekningarregla 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi við í þessu máli.
Þá byggir sóknaraðili einnig á því að afstaða slitastjórnar til launakrafna annarra starfsmanna sem gegnt hafi veigameira hlutverki fyrir varnaraðila en sóknaraðili leiði til þess að sóknaraðili geti ekki talist hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins í skilningi gjaldþrotaskiptalaga. Í því sambandi vísar sóknaraðili til dæmis til uppgjörs launakrafna innri endurskoðanda, forstöðumanns áhættustýringar og fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar, en þessir karlmenn eigi það sameiginlegt að hafa setið í framkvæmdastjórn varnaraðila fyrir gjaldþrot þess og hafi þeir allir fengið fullt uppgjör launa sinna á uppsagnarfresti frá varnaraðila samkvæmt þeim skilmálum sem settir hafi verið fram í uppsagnarbréfum en af því leiði að slitastjórnin hafi talið kröfur þeirra njóta forgangsréttar, sbr. lög nr. 21/1991 og 61/2009. Þá veki athygli að einn stjórnarmanna varnaraðila, sem jafnframt hafi verið útibússtjóri hjá varnaraðila, hafi fengið launakröfu sína greidda. Óhætt sé að fullyrða að allir þessir aðilar hafi haft mun meiri áhrif á rekstur varnaraðila og afkomu hans en sóknaraðili hafi gert í störfum sínum.
Virðist því sem varnaraðili mismuni starfsmönnum eftir einhvers konar slembimælikvarða. Þó sé hugsanlegt að slitastjórnin byggi afstöðu sína alfarið á starfstitlum starfsmannanna þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar hafi fengið greidd laun á uppsagnarfresti að því er virðist sökum þess að starfstitli hans hafi verið breytt í forstöðumann fjárstýringar 1. febrúar 2009 án þess þó að dregið hafi verið úr ríkum starfsheimildum hans samkvæmt bestu vitund sóknaraðila. Svo einfaldur mælikvarði brjóti í bága við orðalag og tilgang 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að launakrafa sóknaraðila eigi að njóta forgangsréttar, enda hafi hún ekki verið ráðin af stjórn varnaraðila heldur forstjóra félagsins. Hún hafi ekki verið skráð sem framkvæmdastjóri hjá hlutafélagaskrá og ekki stýrt daglegum rekstri félagsins. Hún hafi almennt ekki tekið við skipunum frá félagsstjórn heldur frá forstjóra félagsins. Þá hafi hún hvorki haft eftirlit með bókhaldi félagsins né borið ábyrgð á því auk þess sem hún hafi ekki farið með prókúruumboð. Þá liggi jafnframt fyrir að varnaraðili hafi greitt öðrum starfsmönnum, sem sátu í framkvæmdastjórn varnaraðila og gegndu veigameiri störfum en sóknaraðili, laun á uppsagnarfresti
Sóknaraðili byggir kröfu sína um lífeyrissjóðsgreiðslur aðallega á 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. en þar sé mælt fyrir um forgang krafna um gjöld til lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og orlofsheimilasjóða sem þrotamanninum hafi borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi á því tímabili sem um ræðir svo og gjöld til stéttarfélaga sem honum hafi borið að standa skil á vegna sama tímabils. Gildi það jafnt um framlög sóknaraðila sem og mótframlög vinnuveitenda hans, enda standi engin rök fyrir annarri niðurstöðu.
Afstaða slitastjórnar lúti einungis að því hvort sóknaraðili sé réttur aðili til að lýsa kröfunni í þrotabú stefnanda. Krafan sé að öðru leyti óumdeild en hún byggi á skýrum ákvæðum laga sem og samkomulagi um lífeyrismál. Sé því ljóst að sóknaraðili sé réttur eigandi kröfunnar enda hafi henni ekki verið lýst af lífeyrissjóðunum. Almenn vísun varnaraðila til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lífeyrissjóði breyti engu þar um. Þar að auki geymi lögin í öllum tilfellum lagaskyldu launagreiðenda til að inna af hendi lífeyrissjóðsiðgjöld.
Varðandi hlunnindi byggir sóknaraðili á þeirri meginreglu vinnuréttar að við uppsögn skuli greiða starfsmanni eða heimila honum afnot af því sem honum beri og hann eigi rétt á út uppsagnarfrest. Hvort sem það séu laun í uppsagnarfresti, uppsafnað orlof, notkun farsíma, notkun bifreiðar o.s.frv. Hér sé því um að ræða bætur vegna slita á vinnusamningi.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar sóknaraðili til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga sem og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Þá vísar sóknaraðili til óskráðra reglna samningaréttar um trúnaðar- og tillitsskyldur í samningssambandi og reglna um skaðabætur innan samninga. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir hann á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Varnaraðili hafnar því að krafa sóknaraðila njóti stöðu í réttindaröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laganna, eins og greinin hafi verið áður en henni hafi verið breytt með lögum nr. 95/2010, séu þeir sem hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félags útilokaðir frá forgangsrétti fyrir kröfum um laun, annað endurgjald fyrir vinnu, bætur vegna slita á vinnusamningi og orlofslaun. Þar sem sóknaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá varnaraðila frá árinu 2005 til starfsloka falli krafa hennar undir ákvæðið og því njóti hún stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í athugasemdum með frumvarpi til gjaldþrotaskiptalaga sé í skýringum við 3. mgr. 112. gr. á hugtakinu „framkvæmdastjórn“ vísað til hugtaksins „forráðmaður“. Í athugasemdunum segi meðal annars að lagt sé til að tekin verði upp regla að danskri fyrirmynd til að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé.
Því megi glöggt ráða, hvort tveggja af beinni textaskýringu á ákvæði 3. mgr. 112. gr. laganna og þá einkum orðinu „framkvæmdastjórn“ auk athugasemda í frumvarpinu, að ákvæðinu sé ætlað að ná til þeirra forráðamanna/yfirmanna félags sem hafi raunverulega yfirmannsstöðu hjá viðkomandi félagi en ekki aðeins þess sem sé æðsti yfirmaður, eins og sóknaraðili virðist halda fram. Helstu röksemdir þess að sóknaraðili falli undir undantekningarreglu 3. mgr. 112. gr. laganna séu eftirfarandi:
- Sóknaraðili hafi við starfslok borið starfstitilinn „framkvæmdastjóri mannauðs- og rekstrarsviðs“. Samkvæmt beinni textaskýringu falli framkvæmdastjórn félags undir ákvæði 3. mgr. 112. gr. laganna.
- Sóknaraðili hafi verið æðsti æðsti yfirmaður síns sviðs og heyrt beint undir forstjóra/sparisjóðsstjóra og borið á því ábyrgð.
- Sóknaraðili hafi setið reglulega framkvæmdastjórnarfundi varnaraðila. Á þeim fundum hafi öll helstu fjárhagsmálefni SPRON-samstæðunnar og önnur málefni komið til umræðu og ákvarðanir verið teknar af framkvæmdastjórum.
- Sóknaraðili hafi setið í varastjórn Frjálsa fjárfestingarbankans hf., sem verið hafi dótturfélag varnaraðila. Auk þess hafi hún setið í þriggja manna aðalstjórn nb.is sparisjóðs hf. sem einnig hafi verið dótturfélag varnaraðila. Seta sóknaraðila í stjórnum dótturfélaga varnaraðila sé enn ein staðfestingin á ábyrgð og valdsviði sóknaraðila sem eins af framkvæmdastjórum varnaraðila.
- Sóknaraðili hafi ótvírætt notið launakjara í samræmi við stöðu sína og ábyrgð innan félagsins. Við starfslok hafi mánaðarlaun sóknaraðila numið 1.670.264 krónum á mánuði og hafi hún verið þriðji launahæsti starfsmaður SPRON-samstæðunnar.
- Sóknaraðili hafi fengið greitt aukalega 12% mótframlag atvinnurekanda í séreignarsjóð. Slík kjör, sem séu umfram það sem lögbundið sé, hafi aðeins staðið framkvæmdastjórum SPRON-samstæðunnar og æðstu stjórnendum til boða.
- Sóknaraðili hafi haft 12 mánaða uppsagnarfrest. Svo langan uppsagnarfrest hafi aðeins örfáir starfsmenn varnaraðila haft, þ.e. framkvæmdastjórar og æðstu stjórnendur SPRON-samstæðunnar.
- Sóknaraðili hafi notið hlunninda (bifreið, símar, tölvubúnaður) í samræmi við stöðu sína sem framkvæmdastjóri hjá varnaraðila.
Þá vísar varnaraðili jafnframt til þess að tilgangur og markmið undantekningarreglu 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé að fyrirbyggja að æðstu forráðamenn félaga, sem fari með æðstu stjórn þess og sé öllum málefnum þess kunn, geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfesti og orlofsfé. Þá hafi markmið reglunnar jafnframt verið að koma í veg fyrir óeðlilegar niðurstöður í framkvæmd eins og verið hefði í tíð eldri laga frá 1878, sbr. ummæli í athugasemdum með frumvarpi til gjaldþrotaskiptalaga. Því beri að hafna kröfum sóknaraðila sem forgangskröfum.
Varnaraðili telur að hafna beri kröfu sóknaraðila um mótframlag í lífeyrissjóð, fyrst og fremst af þeim sökum að sóknaraðili sé ekki réttur aðili að þeirri kröfu. Aðildarskortur, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, leiði í þessu tilviki til þess að hafna beri kröfunni.
Um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða gildi lög nr. 129/1997 og reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli greiða iðgjöld til lífeyrissjóða. Hvergi í lögunum sé kveðið á um heimild launamanns til að heimta þessar greiðslur beint til sín frá launagreiðanda og raunar myndi launagreiðandi gerast brotlegur við þessi lög ef hann greiddi lífeyrissjóðsgreiðslur, auk mótframlags, beint til launþega eins og sóknaraðili krefjist. Þetta komi skýrt fram í 2. mgr. 7. gr. laganna þar sem segi að launagreiðanda sé skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum. Auk þess megi benda á að samkvæmt 11. gr. laganna séu með tæmandi hætti talin þau tilvik sem launamanni sé heimilt að hefja úttekt af innstæðu hjá lífeyrissjóði og samkvæmt 1. mgr. greinarinnar verði rétthafi að hafa náð 60 ára aldri áður en honum sé heimilt að hefja úttekt. Með vísan til framangreinds sem og dómaframkvæmdar Hæstaréttar beri að hafna þessum lið í kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila um greiðslu hlunninda verði alfarið hafnað. Samkvæmt starfssamningi hafi varnaraðili lagt sóknaraðila til bifreið og greitt allan kostnað vegna hennar en sóknaraðili hafi greitt skatt vegna bifreiðarhlunninda. Að sama skapi hafi varnaraðili greitt kostnað vegna farsíma og heimasíma fyrir sóknaraðila og hafi sóknaraðili greitt skatt vegna þessara hlunninda. Því hafi ekki verið um að ræða fastar greiðslur til sóknaraðila vegna þessara hlunninda, heldur hafi kostnaður vegna þeirra verið greiddur af varnaraðila og verið forsenda þess að sóknaraðili væri við störf hjá varnaraðila. Eigi sóknaraðili því ekki rétt á greiðslum þessum eftir starfslok, meðal annars vegna þess að framangreindar forsendur séu brostnar auk þess sem greiðsluskylda sé ekki til staðar.
Til vara sé á því byggt að þessi liður kröfu sóknaraðila geti ekki fallið undir 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 enda sé ekki um að ræða „laun“ í skilningi ákvæðisins eins og það hafi verið skýrt í framkvæmd. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóti kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæðinu, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Verði ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Þegar þannig sé rætt um laun samkvæmt ákvæðinu sé ótvírætt sett sú regla að réttur til launa, sem þar geti átt undir, þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Kostnaður sem varnaraðili hafi greitt vegna síma og tölvutengingar vegna sóknaraðila falli því ekki undir 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Auk þess vísist til alls þess sem áður greinir um undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. sem röksemda fyrir því að hafna beri kröfum um hlunnindi sem forgangskröfum.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar varnaraðili til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 101. gr. Þá vísar hann til meginreglna hins almenna vinnumarkaðsréttar um uppgjör launa við starfslok og meginreglna samningaréttar, meðal annars um brostnar forsendur. Um málskostnað vísar hann til 129.-131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Eins og fram er komið snýst ágreiningur aðila einkum um fjárhæð kröfu sóknaraðila og hvar skipa skuli henni í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili krefst viðurkenningar á því að krafa hennar að fjárhæð 19.472.492 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Krafa sóknaraðila er þríþætt: 1) laun í uppsagnarfresti og orlof, að frádregnum launum sem hún hafði hjá nýjum vinnuveitanda á tímabili uppsagnarfrests, samtals að fjárhæð 15.898.079 krónur 2) lífeyrissjóðsiðgjöld að fjárhæð 3.179.616 krónur og 3) hlunnindagreiðslur, samtals að fjárhæð 394.797 krónur, þ.e. bifreiðahlunnindi að fjárhæð 343.797 og kostnaður vegna síma 51.000 krónur.
Óumdeilt er í málinu að sóknaraðili á rétt á launum í uppsagnarfresti, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 auk orlofs, sbr 3. töluliður ákvæðisins. Þá er ekki ágreiningur um að krafa þessi sé að fjárhæð 15.898.079 krónur. Varnaraðili hins vegar telur að krafa þessi njóti ekki forgangs þar sem undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. laganna eigi við um kröfuna.
Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili eigi aðild að kröfu vegna lífeyrissjóðsiðgjalda, sbr. 4. töluliður 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en ekki er tölulegur ágreiningur um kröfuna. Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili eigi rétt á hlunnindagreiðslum eftir að hún hefur lokið störfum í þágu varnaraðila þar sem forsendur séu brostnar fyrir þeim. Ef hins vegar verði fallist á að sóknaraðili eigi rétt á hlunnindagreiðslunum telur varnaraðili að þessi liður í kröfu sóknaraðila geti ekki fallið undir 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ekki sé um að ræða laun í skilningi ákvæðisins enda þurfi réttur til launa að eiga rætur að rekja til vinnu. Auk framangreinds beri að hafna því að hlunnindagreiðslur séu forgangskröfur með vísan til undantekningarákvæðis 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir kröfur sína um lífeyrissjóðsgreiðslur á 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sem veiti kröfum um gjöld til lífeyrissjóða forgang. Eins og að framan er rakið er ekki tölulegur ágreiningur um kröfu sóknaraðila um greiðslur í lífeyrissjóð og séreignasjóð en varnaraðili telur hins vegar að viðkomandi sjóðir fari með forræði kröfunnar en ekki sóknaraðili og beri því að hafna kröfunni.
Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta forgangs meðal annars kröfur um gjöld til lífeyrissjóða sem þrotamanni hefur borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag eða eftir hann. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 er launagreiðanda skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum. Aðilar gerðu með sér samkomulag um að auk lögbundinna lágmarksiðgjalda til lífeyrissjóðs skyldi varnaraðili greiða 7% iðgjald af launum sóknaraðila í séreignasjóð og 5% sérstakt viðbótarframlag í séreignasjóð sem varnaraðili myndi velja. Framangreindum lögbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóð og greiðslum í séreignasjóð, sem sóknaraðili krefst greiðslu á, er varnaraðila skylt að standa hlutaðeigandi sjóðum skil á og hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann geti átt aðild að þeirri kröfu. Þykir engu breyta þótt viðkomandi sjóðir hafi ekki lýst kröfunni fyrir slitastjórn. Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir er þessum kröfulið að fjárhæð 3.179.616 krónur hafnað.
Krafa sóknaraðila um greiðslu hlunninda nær til þriggja mánaða á árinu 2009 eða fram til þess tíma er hún hóf störf hjá nýjum vinnuveitanda. Samkvæmt starfssamningi milli aðila skyldi varnaraðili leggja sóknaraðila til bifreið og greiða allan kostnað af rekstri hennar. Sóknaraðili skyldi greiða skatta af bifreiðahlunnindum þessum en samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra skulu ársumráð bifreiðar metin til tekna sem hlutfall af verði hennar að teknu tilliti til þess hvenær bifreiðin var tekin í notkun. Þykir ljóst af þessu að bifreiðahlunnindin voru hluti af ráðningarkjörum sóknaraðila og liggur ekkert fyrir annað en að sóknaraðili hefði notið þessara hlunninda í uppsagnarfresti hefði hún þurft að vinna hann en þess var ekki krafist. Þykir því ljóst að sóknaraðili eigi rétt á að fá andvirði þessara réttinda greidd með launum í uppsagnarfresti en fjárhæð kröfunnar 343.797 krónur hefur ekki verið mótmælt af varnaraðila.
Hvað snertir þau hlunnindi sem sóknaraðili hafði varðandi síma þá liggur fyrir að samkvæmt samningi aðila greiddi varnaraðili kostnað af heimasíma og farsíma sóknaraðila. Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki annað séð en að þessar greiðslur frá varnaraðila hafi í raun verið greiðsla á útlögðum kostnaði vegna símanotkunar sóknaraðila en ekki hluti launa hennar. Verður því að hafna þessum kröfulið sóknaraðila að fjárhæð 51.000 krónur.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið er viðurkennt að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila að fjárhæð 16.241.876 krónur (15.898.079+343.797). Stendur þá eftir að leysa úr því hvar skipa skuli kröfunni í skuldaröð.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns, sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag, forgangs. Samkvæmt 2. tölulið ákvæðisins njóta kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafa átt sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölulið eða eftir frestdag einnig forgangs, sbr. laun og hlunnindi í uppsagnarfresti, og samkvæmt 3. tölulið ákvæðisins njóta kröfur um orlofsfé eða orlofslaun, sem réttur hefur unnist til á því tímabili sem um ræðir í 1. tölulið eða eftir frestdag, einnig forgangs. Í samræmi við framangreinda niðurstöðu um kröfur sóknaraðila falla þær undir 2. og 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna.
Varnaraðili hafnar forgangsrétti kröfunnar á grundvelli 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Byggir hann þá afstöðu sína á því að sóknaraðili hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá varnaraðila og falli hann því undir þá sem tilgreindir séu í ákvæðinu. Njóti krafa sóknaraðila því rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna við slitameðferð varnaraðila.
Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu hennar með 19. gr. laga nr. 95/2010, gat sá sem hafði með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem er til gjaldþrotaskipta ekki notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum sem ella hefði verið skipað í réttindaröð samkvæmt 1.-3. töluliðum 1. mgr. 112. gr. laganna. Í 3. mgr. 112. gr. laganna var ekki rætt um starfsheiti þeirra sem ákvæðið tók til heldur náði það samkvæmt orðanna hljóðan til þeirra sem fóru með framkvæmdastjórn félags eða stofnunar. Ákvæði þetta var nýmæli frá því sem gilti fyrir setningu laganna. Kemur fram í greinargerð með lögunum að lagt sé til að tekin verði upp regla að danskri fyrirmynd til að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé. Sambærileg takmörkun hafi ekki verið til staðar í eldri lögum sem hafi stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd. Af framangreindu verður ráðið að ekki sé eingöngu átt við þann sem að forminu til sé titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og tilkynntur sem slíkur til hlutafélagaskrár. Þá verður ekki af ofangreindu ráðið að til þess að undantekningarákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við, þurfi hlutverk viðkomandi að verulegu leyti að samræmast heimildum, skyldum og ábyrgð framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Við mat á því hvort umrætt undantekningarákvæði eigi við í tilfelli sóknaraðila verður að líta til þess hvort hún hafði raunverulega yfirmannsstöðu hjá varnaraðila.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið ræður starfsheitið framkvæmdastjóri eitt og sér því ekki hvort sóknaraðili falli undir þá sem greinir í 3.mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur verður að líta til frekari þátta við ákvörðun á því hvort sóknaraðili geti fallið undir það að verða talin hafa verið forráðamaður hjá varnaraðila, s.s. möguleika hennar til áhrifa innan bankans, stjórnunarheimilda, verksviðs og launakjara.
Sóknaraðili hafði, frá árinu 2005 og þar til hún hætti störfum hjá varnaraðila á árinu 2009, starfstitilinn framkvæmdastjóri. Í upphafi var hún framkvæmdastjóri þjónustusviðs og í lok árs 2006 tók hún að sér að vera framkvæmdastjóri fjárhagssviðs auk þess sem hún hélt starfi sínu sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs. Hún var því framkvæmdastjóri þjónustu- og fjárhagssviðs frá þeim tíma fram í janúar 2008 er hún fékk starfstitilinn framkvæmdastjóri þjónustu- og rekstrarsviðs. Gegndi hún því starfi þar til þjónustusviðið var lagt niður í janúar 2009 og þá tók hún við starfi framkvæmdastjóra mannauðs og rekstrar.
Samkvæmt gögnum málsins gegndi sóknaraðili sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs stöðu yfirmanns fjögurra starfseininga, starfsmannaþjónustu, rekstrarþjónustu, innri þjónustu og skiptiborðs. Yfir sviðum þessum, öðrum en skiptiborði, voru forstöðumenn og var sóknaraðili yfirmaður þeirra og annarra starfsmanna starfseininganna. Munu starfsmenn hafa verið um 30 talsins á þessu sviði. Í starfsmannaþjónustunni voru ráðningamál, launavinnslur og ýmis starfsmannamál afgreidd. Rekstrarþjónustan sá um ýmis innri rekstrarmál hjá varnaraðila s.s. lagermál, póst og póstflutninga milli útibúa, öryggismál í útibúum, viðhald húsnæðis o.s.frv. Innri þjónusta sá um bakvinnslu fyrir útibúin og svo skiptiborð. Í bakvinnslunni var unnið með skjöl, útlán og skuldabréf útibúanna og þau unnin miðlægt á einum stað innan fyrirtækisins samkvæmt fyrirmælum.
Í málinu liggur fyrir að áætlanir voru mikið notaðar í starfi varnaraðila og mikil vinna lögð í áætlanagerð og eftirfylgni með þeim. Sem framkvæmdastjóri hafði sóknaraðili heimild til til að starfa innan áætlananna og heimild til að skuldbinda fyrirtækið innan þess fjárhagsramma sem áætlun sagði til um og jafnvel allt að einni milljón króna umfram það sem í áætlun greindi í undantekningartilfellum. Vitnið Guðmundur Hauksson, fyrrverandi forstjóri varnaraðila, bar fyrir dómi að varnaraðili hafi verið mjög mikið drifinn áfram af áætlunum og allir sem voru framkvæmdastjórar eða forstöðumenn ákveðinna þátta hafi haft heimild til þess að skuldbinda fyrirtækið svo framarlega sem það væri innan þess fjárhagsramma sem áætlanir settu.
Þá kom fram hjá Guðmundi að hluti af því að veita starfsmönnum varnaraðila titilinn framkvæmdastjóri hafi verið að dreifa ábyrgðinni og kannski að létta honum störfin. Hugmyndin að baki þessu hefði verið að öllum væri ljóst að framkvæmdastjórar ákveðinna þátta í rekstri varnaraðila hefðu með þann þátt að gera. Í tilviki sóknaraðila hafi honum þótt skipta miklu máli að allir starfsmenn vissu að endastöðin í þeirra máli væri hjá henni. Hann hafi ekki viljað fá mikið af slíkum málum inn á sitt borð heldur viljað að mönnum væri ljóst að sóknaraðili hefði völd til að halda utan um starfsmannamálin en að hans mati var starfsmannahaldið mjög mikilvægur þáttur í starfsemi varnaraðila.
Eins og að framan er rakið tók sóknaraðili að sér starf framkvæmdastjóra fjárhagssviðs tímabundið frá lokum árs 2006 fram í janúar 2008. Starf framkvæmdastjóra fjárhagssviðs var einna helst fólgið í færslu bókhalds, afstemmningum og uppgjöri. Þá var sviðinu ætlað að safna saman upplýsingum um afkomu og rekstur víðar að innan úr samstæðunni og samræma þær upplýsingar svo hægt væri að bera þær saman við afkomuáætlanir hjá fyrirtækinu. Þótt starf fjárhagssviðsins hafi ekki náð til fjármögnunar félagsins, fjárfestinga, fjárstýringar eða áhættustýringar þá felst í því að sá sem sinnti því hafði aðgang að öllum upplýsingum um fjárhagsstöðu samstæðunnar eins og kom fram hjá vitninu Guðmundi.
Sóknaraðili sat sérstaka framkvæmdastjórnarfundi varnaraðila fram á haustið 2008 en ekki liggur fyrir að framkvæmdastjórnarfundir hafi verið haldnir eftir það. Voru þessir fundir fyrst og fremst upplýsingafundir þar sem framkvæmdastjórar skiptust á upplýsingum um rekstur sinna sviða og þar sem bornar voru saman raunáætlanir við heildaráætlanir fyrirtækisins. Var því ekki um eiginlega ákvarðanatöku á fundunum enda allar ákvarðanir um framkvæmdir og annað slíkt hjá stjórn varnaraðila og forstjóra eftir atvikum. Eins og kom fram hjá vitninu Guðmundi voru fundir þessir haldnir til að tryggja það að allir sem gegndu æðstu ábyrgðarstöðum í fyrirtækinu og dótturfélögum væru að ganga í takt, að verið væri að gæta samræmis og veita upplýsingar þannig að menn vissu af því hvað væri að gerast á hinum ýmsu stöðum í fyrirtækinu. Þá kom fram hjá honum að á þessum fundum hafi setið lykilmenn í rekstri.
Meðal gagna málsins er að finna nokkrar fundargerðir þessara framkvæmdastjórnarfunda og má af þeim ráða að á fundum þessum hafi meðal annars verið rætt um rekstrarmálefni varnaraðila, rekstrarstöðu hans og uppgjör auk þess sem á fundum þessum fór fram almenn upplýsingagjöf. Af fundargerðum þessum má einnig ráða að hlutverk sóknaraðila sem framkvæmdastjóra fjárhagssviðs á fundum þessum var veigamikið, meðal annars að fara yfir uppgjör og afkomutölur varnaraðila. Á framkvæmdastjórafundi 22. janúar 2008 var rekstraráætlun 2008 yfirfarin og í henni var gert ráð fyrir að árið 2008 yrði þungt rekstrarlega og að hagnaður ársins yrði langt frá því að vera viðunandi. Þá var aðhald í rekstri varnaraðila boðað á árinu. Voru slík mál og sameiningarviðræður við önnur félög rædd á þessum fundum á árinu 2008.
Óumdeilt er að sóknaraðili var yfirmaður á þeim sviðum sem hún gegndi forstöðu og fór því með almennar stjórnunarheimildir yfir starfsfólki á þeim starfssviðum og verður af því ráðið að hún hafi stjórnað daglegum rekstri þessara starfssviða. Sem yfirmaður starfsmannaþjónustu varnaraðila heyrðu undir hana starfsmenn sem heimildir höfðu til að sjá um ráðningar starfsfólks og samninga um laun samkvæmt samþykktum áætlunum og kjarasamningum. Þegar þetta er virt og til þess litið sem að framan hefur verið rætt um störf sóknaraðila sem framkvæmdastjóra fjárhagssviðs þykir ljóst að sóknaraðili hafi talist til æðstu stjórnenda og verið einn af lykilstarfsmönnum varnaraðila sem hafði tök á því í störfum sínum og með setu sinni á framkvæmdastjórnarfundum að hafa áhrif á stefnumótun innan varnaraðila. Þá bera gögn málsins með sér að hún hafi haft aðgang að mikilvægum upplýsingum um rekstrarafkomu varnaraðila, bæði sem framkvæmdastjóri fjárhagssviðs og með setu á framkvæmdastjórnarfundum. Þá hafði sóknaraðili heimildir til að skuldbinda varnaraðila innan ákveðins ramma.
Þá þykja launakjör sóknaraðila renna stoðum undir það sóknaraðili hafi verið meðal æðstu stjórnenda varnaraðila, en laun hennar í byrjun árs 2009 voru komin upp í 1.651.970 krónur fyrir utan ýmis hlunnindi, mótframlag í séreignasjóð og 12 mánaða uppsagnarfrest. Samkvæmt gögnum málsins var hún einn af hæst launuðustu starfsmönnum hjá varnaraðila. Þá fær þetta enn fremur stoð í fyrirliggjandi skipuriti fyrir varnaraðila sem gilti til 1. febrúar 2009, framburði vitnisins Guðmundar.
Sóknaraðili heldur því fram að afstaða slitastjórnar varnaraðila til annarra starfsmanna sem gegnt hafi veigameira hlutverki fyrir varnaraðila en sóknaraðili leiði til þess að sóknaraðili geti ekki talist hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félagsins í skilningi gjaldþrotaskiptalaga. Vísar hún til þess að launakröfur innri endurskoðanda, forstöðumanns áhættustýringar og fyrrverandi framkvæmdastjóra fjárstýringar hafi verið gerðar upp sem forgangskröfur. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram haldbær gögn þessum fullyrðingum sínum til stuðnings og er ekkert fyrirliggjandi í málinu sem bendir til þess að slitastjórn varnaraðila hafi mismunað starfsmönnum.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að sóknaraðili hafði raunverulega yfirmannsstöðu með höndum hjá varnaraðila. Þykir engu breyta að hún hafi verið ráðin af forstjóra og heyrt beint undir hann. Nýtur krafa sóknaraðila því ekki forgangsréttar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna, heldur verður hún viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 16.241.876 krónur. Verður ekki séð að með þessari niðurstöðu sé gengið á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sigurður Örn Hilmarsson hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Bjarki Már Baxter hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Hörpu Gunnarsdóttur, að fjárhæð 16.241.876 krónur er viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., en hafnað er að viðurkenna hana sem forgangskröfu.
Málskostnaður fellur niður.