Hæstiréttur íslands
Mál nr. 679/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Miðvikudaginn 30. október 2013. |
|
Nr. 679/2013.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn B (Daníel Pálmason hdl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 11. október 2013 um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þess að þóknun skipaðs talsmanns síns fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Daníels Pálmasonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.400 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2013.
Með kröfu, sem dagsett er 11. október 2013 og barst réttinum 14. sama mánaðar, hefur S, kt. [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 11. október 2013 um að hún skuli vistast á sjúkrahúsi. Þá krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Kröfunni er mótmælt af hálfu varnaraðila, B, kt. [...],[...],[...], en hann er faðir sóknaraðila. Þá krefst hann þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. a. lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.
Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dómi við meðferð málsins. Hún mótmælir þeim skilningi að hún sé í geðrofsástandi og telur sig ekki haldna ranghugmyndum.
Fyrir liggur í málinu læknisvottorð Guðlaugar Þorsteinsdóttur, geðlæknis, þar sem fram kemur að við skoðun 10. október 2013 hafi sóknaraðili lýst umfangsmiklu ranghugmyndakerfi og augljóslega verið í [...]. Sóknaraðili sýni öll merki um alvarlegan geðsjúkdóm. Ranghugmyndir hennar snúi að aðsóknarhugmyndum um njósnir og glæpastarfsemi. Hún hafi verið að hóta fólki og um langt skeið átt í útistöðum við [...] á [...] og hérlendis. Innsæi í einkenni sé ekki til staðar og enginn vilji sé til að þiggja meðferð. Ekki sé hægt að útiloka að sóknaraðili geti verið hættuleg öðrum. Sjúkdómsgreining sé [...]. Í fylgiskjali með vottorði um nauðungarvistun benti Guðlaug einnig á að sóknaraðili hefði samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og fjölskyldumeðlimum endurtekið ofsótt fólk og verið með hótanir um ofbeldi og morð. Líklega hefði hún verið veik til margra ára en aldrei fengið viðeigandi meðferð. Við meðferð málsins gaf Guðlaug skýrslu fyrir dómi, staðfesti framangreint vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Fyrir dómi lýsti Guðlaug því að sóknaraðili væri í [...] og með miklar ranghugmyndir. Þá væri hún í sturlunarástandi og ekki í sambandi við veruleikann. Sóknaraðili hefði ekkert innsæi í sjúkdóm sinn um þessar mundir.
Að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn og sérstaklega að teknu tilliti til skýrslu Guðlaugar Þorsteinsdóttur, geðlæknis, fyrir dómi verður að telja nægilega í ljós leitt að brýn nauðsyn sé til þess að sóknaraðili dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar þá læknishjálp sem í boði er, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Með vísan til 3. mgr. 19. gr. sömu laga verður því staðfest sú ákvörðun innanríkisráðuneytisins að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna aðila, Daníels Pálmasonar hdl. og Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 69.025 krónur til hvors um sig. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnaldur Hjartarson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 11. október 2013 um að sóknaraðili, [...], kt. [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðra talsmanna aðila, Daníels Pálmasonar hdl. og Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 69.025 krónur til hvors um sig.