Hæstiréttur íslands
Mál nr. 507/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2002. |
|
Nr. 507/2002. |
Ákæruvaldið(Guðjón J. Björnsson fulltrúi) gegn X, Y og Z (enginn) |
Kærumál. Gagnaöflun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Héraðsdómur vísaði frá máli ákæruvaldsins gegn M, J og H eftir að hafa án árangurs beint því til ákæruvaldsins að leiða nánar tiltekin vitni fyrir dóm og afla frekari gagna. Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi með vísan til þess að ákæruvaldið hefði lýst því yfir að frekari gagnaöflunar væri ekki þörf. Yrði yfirlýsingin ekki túlkuð öðru vísi en svo, að ákæruvaldið axlaði byrðina af því við sönnunarmat, að frekari gagna væri ekki aflað. Hafi dóminum því verið rétt að leggja efnisdóm á málið, enda gæfu gögn þess ekki að öðru leyti tilefni til frávísunar á grundvelli 67. og 68. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2002, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krefst sóknaraðili þess að lagt verði fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra að kveða upp efnisdóm í málinu.
Varnaraðilar hafa ekki látið kærumálið til sín taka.
I.
Mál þetta var höfðað gegn varnaraðilum með ákæruskjali sýslumannsins á Akureyri 23. nóvember 2001, og er ákæruefninu lýst í hinum kærða úrskurði. Var málið þingfest 28. febrúar 2002 og komu tveir varnaraðilar, Z og Y fyrir dóm þann dag. Hinn fyrrnefndi tjáði sig þá um sakarefnið en hinn síðarnefndi óskaði eftir fresti til þess. Varnaraðilinn X mætti við fyrirtöku málsins 4. mars 2002 og tjáði sig um ákæruna. Varnaraðilinn Y mætti síðan aftur fyrir dóminum 14. mars 2002 og tók afstöðu til ákærunnar. Aðalmeðferð málsins fór síðan fram 22. apríl 2002 fyrir þremur dómurum og voru allir varnaraðilar mættir og yfirheyrðir á ný. Auk þess voru yfirheyrð fjögur vitni. Var málið síðan dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.
Hinn 27. september var málið tekið fyrir á ný af formanni dómsins og segir í bókun þess þinghalds að dómsuppsaga hafi dregist úr hömlu vegna starfsanna dómsformanns og síðar sumarorlofa. Með vísan til 133. gr. laga nr. 19/1991 sé því nauðsynlegt að málið verði endurflutt. Vegna þessa telji dómsformaður nauðsynlegt að gefa sakflytjendum „tíma og færi á að fara yfir öll gögn málsins, þ.á.m. útskrift af aðalmeðferðinni, sem er afhent í dóminum hér og nú og gefa þeim kost á því fyrir endurflutning málsins að leiða fram vitni, eða leggja fram sönnunargögn áður en til aðalflutnings kemur að nýju.“ Var frestur ákveðinn til 7. október 2002. Þann dag var þinghald háð af dómsformanni og bókað að málflytjendur óskuðu ekki eftir frekari gagnaöflun og ákveðið að boða til endurflutnings málsins 10. sama mánaðar. Málið var síðan tekið fyrir þann dag af fullskipuðum dómi og segir í bókun að dómara hafi láðst í þinghaldinu 7. október „að geta afstöðu ákæranda og verjenda til eftirgreindra atriða sem dómurinn taldi rétt að afla gagna um, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19,1991:” Eru síðan talin upp þau atriði, sem gerð er grein fyrir í forsendum hins kærða úrskurðar. Var svo bókað að ákæruvaldið sæi ekki ástæðu til frekari gagnaöflunar og töldu verjendur það ekki heldur og fór að lokum fram munnlegur málflutningur.
Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti segir að ákæruvaldið hafi ekki talið unnt að afla frekari sýnilegra sönnunargagna eða leiða fram önnur vitni, sem borið gætu um sakarefnið, sem máli skipti. Hafi þessi ákvörðun verið tekin eftir viðræður við þá lögreglumenn, sem höfðu annast rannsókn málsins. Æskilegt hefði verið að yfirheyra stúlku þá, sem ók varnaraðilum á heimili ætlaðs árásarþola en ekki hafi tekist að hafa upp á henni á þeim tíma, sem frumrannsókn stóð yfir, og taldi ákæruvaldið ekki líklegt að því myndi takast að hafa upp á henni ári síðar. Önnur gögn, sem nefnd séu í bókuninni frá 10. október 2002 telji sóknaraðili þess eðlis að þau liggi fyrir í gögnum málsins, eins og til dæmis tímasetning á hringingu í neyðarlínu, eða að þau myndu ekki bæta neinu við sönnunarfærslu í málinu. Það sé hins vegar ekki dregið í efa að dómurinn hafi getað gefið ákæruvaldi og lögreglu fyrirmæli um að afla tiltekinna gagna, sem hann taldi nauðsynlegt að fá. Jafnframt sé ljóst að dómurinn hafi ekki gefið sóknaraðila slík fyrirmæli. Þá sé eðlilegt að skoða í þessu sambandi heimildir ákæruvalds til að hafa forræði á málsókninni og því hvaða gögn séu lögð fram til að ná fram sakfellingu.
II.
Meðferð máls þessa hófst í febrúar 2002 og fór aðalmeðferð fram 22. apríl 2002, eins og áður segir. Hinn kærði úrskurður er kveðinn upp tæpu ári eftir útgáfu ákæru og rúmum sex mánuðum eftir aðalmeðferð og fyrri dómtöku málsins. Nokkurs misræmis gætir milli bókana í þinghöldum eftir endurupptöku annars vegar og úrskurðarins hins vegar og verður til dæmis ekki séð með vissu af bókunum, hvenær og hvernig tilmælum var beint til sóknaraðila um frekari gagnaöflun, en um þau er fyrst getið í bókun 10. október 2002, sama dag og munnlegur málflutningur fór fram að nýju. Miða verður þó við að dómurinn hafi beint slíkum tilmælum til sóknaraðila. Fyrir liggur að það var afstaða hans að frekari gagnaöflunar væri ekki þörf. Yfirlýsing hans um þetta, þrátt fyrir tilmæli dómsins, varð ekki túlkuð öðru vísi en svo, að hann axlaði fyrir hönd ákæruvaldsins byrðina af því við sönnunarmat, að frekari gagna væri ekki aflað. Verður að telja að við þessar aðstæður hafi dóminum verið rétt að leggja efnisdóm á málið, enda þykja gögn málsins ekki að öðru leyti gefa tilefni til frávísunar þess á grundvelli 67. og 68. gr. laga nr. 19/1991.
Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til málflutnings að nýju og efnislegs dóms.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra að taka málið til málflutnings að nýju og efnislegs dóms.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2002.
Mál þetta er höfðað með ákæruskjali sýslumannsins á Akureyri, útgefnu 23. nóvember 2001, á hendur X, Y og Z;
„fyrir húsbrot og líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. maí 2001, ruðst í heimildarleysi inn í íbúð að [ ] og veist í sameiningu að húsráðanda, A, með höggum og spörkum, þar sem hann lá í rúmi sínu í svefnherbergi íbúðarinnar, með þeim afleiðingum að hann hlaut blæðingu kringum bæði augu, mun meira vinstra megin, sprungnar varir og eymsli í tönnum í efri góm, eymsli og bólgu á nefi og allt höfuð aumt viðkomu, einkum framan við eyru og í andliti, sársauka við allar hreyfingar á hálshrygg, bæði yfir hryggtindum og hálsvöðvum aftan til, eymsli yfir rifjahylkjum beggja vegna, dreifð eymsli á baki alveg niður á setbein, spennta vöðva í kviðvegg og dreifð eymsli í kviðvegg.
Telst þetta varða við 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Í málinu gerir Sigurður Eiríksson hdl. fyrir hönd A, bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 828.105-, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 27. maí 2001 til greiðsludags. “
Skipaður verjandi ákærða X, Arnar Sigfússon hdl., gerir þær kröfur í málinu að umbjóðandi hans verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og honum dæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.
Skipaður verjandi ákærða Z, Þorsteinn Hjaltason hdl., gerir þær kröfur í málinu að umbjóðandi hans verði sýknaður og honum dæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði að mati dómsins.
Skipaður verjandi ákærða Y, Benedikt Ólafsson hdl., gerir þær kröfur í málinu að umbjóðandi hans verði sýknaður og honum dæmd málsvarnarlaun úr ríkissjóði.
Með skipunarbréfi dómstólsins dags. 26. febrúar 2002 var Jón Kr. Sólnes hrl. skipaður réttargæslumaður brotaþola, A, og tók hann frá og með þeim degi við hagsmunagæslu fyrir brotaþola af Sigurði Eiríkssyni hdl.
I.
Samkvæmt framlagðri frumskýrslu lögreglu í máli þessu var kl. 04:59, aðfaranótt sunnudagsins 27. maí 2001, óskað eftir sjúkrabifreið og lögreglu að [ ] vegna manns sem kvartaði yfir eymslum í hálsi, baki og brjóstkassa. Fór lögregla á vettvang og hitti þar fyrir tilkynnanda, B, og íbúa [ ], þau A, bróður B, og sambýliskonu hans, C. Greindi A lögreglu frá því að þrír menn, ákærðu í máli þessu, hefðu ráðist að honum skömmu áður í íbúðinni og gefið þá skýringu á því athæfi sínu að „þetta hefði hann fyrir að lemja sambýliskonu sína, C, nú fyrr í kvöld í Sjallanum“.
Þar sem A kvartaði um mikinn verk í hálsi, baki og brjóstkassa var hann í framhaldinu fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) með sjúkrabifreið til skoðunar.
Lögregla yfirgaf [ ] kl. 05:25, en þá var sjúkrabifreið nýfarin með A á FSA. Kl. 05:35 veitti lögregla ákærðu athygli þar sem þeir voru á gangi á Strandgötu í miðbæ Akureyrar. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að ákærðu hafi allir verið undir áhrifum áfengis. Handtók lögregla ákærðu og færði þá í lögreglubifreið og á lögreglustöðina á Akureyri þar sem þeir voru vistaðir í fangageymslum. Að lokinni nokkurra klukkustunda dvöl í fangageymslum voru ákærðu síðan yfirheyrðir af lögreglu.
Í málinu liggur fyrir áverkavottorð sem Júlíus Gestsson, forstöðulæknir bæklunar- og slysadeildar FSA, vann vegna umræddra áverka A. Í vottorðinu segir eftirfarandi um áverka A: „Í sjúkraskránni er lýst að hann beri sig illa vegna verkja, sé stífur, geti illa hreyft sig. Lýst er skósólaförum á víð og dreif á húð á líkamanum, hann hafi haft blæðingu kringum bæði augu, mun meira vinstra megin. Sprungnar varir og eymsli í tönnum í efri góm, ekki sjáanleg tannbrot þó. Eymsli og bólga án sýnilegrar skekkju á nefi. Allt höfuð aumt viðkomu, einkum framan við eyru og í andliti. ... - Lýst er sársauka við allar hreyfingar á hálshrygg, bæði yfir hryggtindum og hálsvöðvum aftan til. Lýst er eymslum yfir rifjahylkjum beggja vegna en þó ekki talin ummerki um rifbrot. - Á baki var lýst dreifðum eymslum alveg niður á setbein. Í kviðvegg einnig lýst að vöðvar séu spenntir, dreifð eymsli hafi verið í kviðvegg. ... 13.07.01 var að beiðni sjúklings fyllt í beiðni um óvinnufærni tímabilið frá 27.05-14.06.01 sem var talið í fullu samræmi við áverka þá sem lýst er í sjúkraskránni við komuna 27.05.01. ... Ljóst er að við komuna 27.05.01 hafði hann dreifða áverka sem samrýmast lýsingu hans á tilurð þeirra. Tímabil lýstrar óvinnufærni er í fullu samræmi við eðli og umfang áverka.“
II.
Ákærði Y bar fyrir dómi, að hann hafi verið í samkvæmi í íbúð A að kvöldi 26. maí 2001. Að samkvæminu loknu kvaðst Y hafa farið á dansleik í Sjallanum, en áður hafi það verið fastmælum bundið að hist yrði aftur í íbúðinni að dansleiknum loknum.
Á dansleiknum kvað ákærði meðákærða X hafa komið að máli við sig og greint sér frá því að A hefði rotað sambýliskonu sína, C og „ ... urðum við ekkert ofboðslega ánægðir með það, okkur fannst það lágkúrulegt af honum að hafa komið svona fram við hana.“ Kvað Y þá í framhaldinu hafa leitað að A í þeim tilgangi að krefja hann skýringa á því hvað gengið hefði á og jafnframt lýsa yfir óánægju með framkomu hans gagnvart C. Neitaði Y því hins vegar alfarið að þeir hafi ætlað að vinna A skaða.
Y kvað þá X fyrst hafa árangurslaust leitað í miðbænum en síðan hafi þeir ákveðið að fara að [ ] og kanna hvort A væri þar. Í leiðinni hafi þeir ætlað að taka bjórkippu sem X hafi átt í íbúðinni. Hafi þeir hringt í meðákærða Z og beðið hann um akstur að [ ]. Er þangað var komið hafi hafi þeir bankað laust á dyr íbúðar A en því næst gengið inn. Kvað Y þá X fyrst hafa farið inn í stofu, en á honum var að skilja að Z hafi farið inn í svefnherbergi þar sem hann hafi hitt A fyrir. Þegar þeir X hafi heyrt mannamál innan úr svefnherberginu hafi þeir einnig farið þangað.
Inni í herberginu kvað Y X hafa fært í tal við A hvað gengið hefði á í Sjallanum. Við það hafi A brjálast, stokkið upp og reynt að slá X. Hafi X þá gripið um aðra hendi A en hann sjálfur gripið um hina hendina og hafi þeir haldið A þannig í smástund. Við það hafi virst sem mesti æsingurinn færi úr A og hafi tvímenningarnir því sleppt honum aftur. Eftir þetta hafi þeir ræðst eitthvað við áfram og A og Z farið rífast um eldri sakir. Staðhæfði Y að ekki hafi komið til neinna slagsmála á meðan hann var í herberginu, A hafi einungis verið haldið en engin hnefahögg verið veitt.
Y kvað X því næst hafa farið úr herberginu og náð í bjórkippu sína og er hann hafi komið til baka með kippuna hafi hann sagt við Y að þeir skyldu koma út. Hafi þeir gengið út úr herberginu og litlu síðar hafi Z komið á eftir. Var á Y að skilja að hann hafi fylgst með nöfnunum úr hurðargatinu eftir að hann og X fóru út úr svefnherberginu og að engin átök hafi orðið milli þeirra. Ákærðu hafi síðan allir yfirgefið íbúðina, farið inn í bifreið þá sem þeir komu í á staðinn og haldið niður í bæ. Hafi þá verið liðnar um 5-10 mínútur frá því að þeir fóru inn í íbúðina.
Aðspurður kvað Y A hafa verið hálfillan er þeir skildu við hann. Þá kom fram hjá Y að A hafi verið áverkalaus er ákærðu yfirgáfu íbúðina. Gat hann aðspurður engar skýringar gefið á áverkum A þessa nótt.
Y kvaðst hafa verið smávægilega ölvaður er atvik máls gerðust.
Ákærði X bar fyrir dómi, að hann hafi að kvöldi 26. maí 2001 verið í samkvæmi á heimili vinar síns A að [ ]. Að samkvæminu loknu kvaðst X hafa farið í Sjallann ásamt fleiri samkvæmisgestum. Áður hafi hins vegar verið um það rætt að hittast aftur í íbúðinni að dansleiknum í Sjallanum loknum, en bæði hann og A hafi átt eitthvað af öli í íbúðinni.
Í Sjallanum síðar um nóttina kvaðst X hafa séð A henda sambýliskonu sinni, C, utan í vegg. A hafi virt C aðeins fyrir sér en síðan einfaldlega gengið út af staðnum. Kvaðst X hafa hlaupið á eftir A og krafið hann skýringa en ekki fengið neitt af viti út úr honum. Kvaðst X því næst hafa hlaupið aftur inn í Sjallann til að huga að C.
X kvaðst eftir þetta hafa hitt meðákærða Y og greint honum frá því sem gerst hefði. Þeir hafi síðan farið saman í bæinn í leit að A í þeim tilgangi að krefja hann skýringa umræddu atviki. Þar sem leitin í miðbænum hafi ekki borið neinn árangur hafi þeir ákveðið að fara að íbúð A við [ ]. Þeir hafi því næst hringt í meðákærða Z sem þeir hafi vitað að væri með ökumann á sínum snærum.
X kvað útihurð fjölbýlishússins við [ ]hafa verið ólæsta. Er þeir hafi komið að íbúð A hafi þeir gengið inn og kvaðst X farið inn í kjölfar Y. Fyrst kvaðst X hafa farið „eitthvað inn í íbúð“ en síðan inn í herbergi þar sem A hafi verið. Þegar A hafi verið tjáð að ekki væri rétt að koma fram við konur sínar líkt og hann hefði gert hafi A orðið alveg vitlaus og slegið til X. Kvaðst X hafa gripið í hönd A og sagt honum að ekki stoðaði að „banka“ hann líka. A hafi þá róast nokkuð og kvaðst X því hafa sleppt honum. A hafi hins vegar áfram verið æstur og fúll og svo hafi virst sem hann skyldi ekki alveg af hverju félögum hans líkaði ekki allskostar gjörðir hans.
Að þessu loknu kvaðst X hafa farið út úr herberginu og náð í bjór sem hann hafi átt í eldhúsi íbúðarinnar. Á meðan hann hafi verið að ná í bjórinn hafi Z og A verið áfram í herberginu, en Y staðið í herbergisgættinni. Því næst hafi allir ákærðu yfirgefið íbúðina, um 5-10 mínútum eftir að þeir komu þangað.
X neitaði því að komið hefði til átaka eða slagsmála í íbúðinni umrætt sinn. Neitaði hann því jafnframt að hafa valdið A nokkrum áverkum. Sjálfur kvaðst X ekki hafa hlotið neina áverka þessa nótt og þá kvað hann A hafa verið áverkalausan þegar hann sá til hans síðast þessa nótt.
Var á ákærða að skilja að samband þeirra A nú væri ekki hið sama og fyrir atburði umræddrar nætur.
X kvaðst hafa verið ölvaður er atvik máls gerðust og það hafi meðákærðu báðir, sem og A, einnig verið.
Ákærði Z skýrði svo frá fyrir dómi, að aðfaranótt 27. maí 2001 hafi hann verið á dansleik í Sjallanum. Þar hafi honum borist til eyrna að vinur hans, A, hefði hent unnustu sinni, C, utan í súlu en við það hefði hún rotast og í kjölfarið verið flutt á FSA með Sjúkrabifreið.
Nokkru síðar kvað Z meðákærðu Y og X hafa hringt í sig og greint sér frá því að þeir ætluðu heim til A til að lesa honum pistilinn vegna ofangreinds atviks. Hafi orðið úr að hann færi með þeim þangað. Þeir hafi í framhaldinu farið inn í íbúð A og fundið hann í svefnherbergi íbúðarinnar liggjandi vakandi uppi í rúmi. Hafi þeir tekið að lesa A pistilinn og þá kvaðst Z einnig hafa rifjað upp „gömul mál“ tengd fataskemmdum og nefbroti, sem ákærði kvaðst fyrrum hafa hlotið af völdum A. Kvað Z A þá skyndilega hafa orðið alveg brjálaðan og gert sig líklegan til að rjúka í ákærðu. Kvað Z í kjölfarið hafa komið til lítilsháttar átaka en hann gat aðspurður ekki lýst þeim átökum öðru vísi en svo, að A hafi verið tekinn fastatökum í einhverja stund. Gat Z ekkert sagt til um þátt sinn í þessum átökum, sem hann kvað hafa staðið í um 1 mínútu. Neitaði Z því alfarið að hann hafi slegið eða sparkað til A og fullyrti að ekki hafi komið til eiginlegra slagsmála í herberginu. Þá neitaði hann því að hafa sest ofan á A og tekið hann hálstaki.
Z kvað ákærðu hafa dvalist í íbúð A í um 10 mínútur umrætt sinn. Var á honum að skilja, að hann hafi verið fyrstur þremenninganna til að yfirgefa svefnherbergið. Kvað hann A hafa verið áverkalausan og rólegan er ákærðu yfirgáfu íbúðina. Gat Z ekki gefið neina skýringu á því hvernig A hefði hlotið áverka sína.
Z kvaðst ekki vita hvort íbúðin að [ ] hafi verið opin umrætt sinn eða hvort A hafi opnað fyrir ákærðu. Kom fram hjá honum að þegar hann heimsæki A berji hann vanalega að dyrum og gangi svo inn en bíði ekki endilega eftir því að opnað sé fyrir honum.
Z kvaðst hafa hringt í A síðar um nóttina en gat ekkert borið um í hvaða tilgangi það hafi verið.
Aðspurður kvaðst Z hafa verið ölvaður er atvik máls gerðust.
III.
A, fæddur 1974, bar fyrir dómi, að hann hafi að kvöldi 26. maí 2001 verið með samkvæmi í íbúð sinni og sambýliskonu sinnar, C, að [ ]. Í samkvæminu hafi verið fjöldi fólks, þ.á m. ákærðu Y og X. Er samkvæminu lauk hafi vitnið farið ásamt gestum þess í Sjallann.
Um nóttina í Sjallanum kvaðst vitnið hafa lent í „smááflogum“ við sambýliskonu sína; „... og ýtti henni heldur óþyrmilega kannski utan í vegg“. Tók vitnið aðspurt fram að C hafi ekki slegið til þess í átökunum. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með C eftir að hún lenti á veggnum heldur gengið út úr Sjallanum og hafi X þá komið á eftir æpandi og gargandi eitthvað í tengslum við viðskipti vitnisins og C. Vitnið kvaðst síðan hafa tekið leigubíl heim í [ ]þar sem það hafi fengið sér að borða og líklega reykt eina sígarettu, en því næst gengið til náða. Kvaðst vitnið aðspurt hafa skilið útidyr fjölbýlishússins, sem og dyrnar að íbúðinni, eftir ólæstar þar sem C hafi ekki verið með lykil.
Vitnið kvaðst hafa vaknað við það um nóttina að ákærðu stóðu yfir honum. Hafi einn ákærðu haldið um háls vitnisins, en vitnið gat ekki sagt til um hver þeirra það hafi verið. Þá hafi þeir veitt vitninu töluverðan fjölda af höggum, hellt yfir það vökva og drepið í sígarettu í andliti þess. Einnig kvaðst vitnið halda að sparkað hefði verið í það. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hver ákærðu gerði hvað í þessum atgangi enda hafi það eitt allri sinni orku í að reyna að hnipra sig saman til varnar. Vitnið kvaðst muna eftir því að einhver hinna ákærðu, líklega Y, hafi sagt „ ... svona áttu ekki að koma fram við konuna þína.“ Neitaði vitnið að hafa orðið „snarvitlaust“ og ráðist á ákærðu á móti. Vitnið kvaðst á endanum hafa rotast í atganginum og því ekki geta sagt til um hvernig atlögu ákærðu hafi lokið. Taldi vitnið að atlaga ákærðu hafi staðið a.m.k. í 15 mínútur.
Kvaðst vitnið halda að það hafi allan tímann meðan að atlaga ákærðu stóð yfir legið í rúminu. Þá taldi vitnið að allir ákærðu hefðu á einhverjum tímapunkti staðið uppi í rúminu eða á rúmgaflinum.
Vitnið kvaðst ekki reka minni til þess að hafa hringt eftir aðstoð eftir að ákærðu voru farnir af vettvangi. Það hafi hins vegar verið gert úr hans síma þessa nótt en vitnið gat ekki sagt til um hvort það hafi sjálft hringt eða einhver annar.
Vitnið neitaði því alfarið að það hafi boðið ákærðu að koma á heimili sitt eftir skemmtunina í Sjallanum. Þá kannaðist vitnið ekki við neinar umræður í þá veru um nóttina. Það hafi því ekki átt von á ákærðu.
Vitnið kvaðst hafa gefið fyrirliggjandi lögregluskýrslu í sínum tíma skv. bestu vitneskju. Fyrir dómi treysti vitnið sér hins vegar ekki til að staðfesta allt það sem í henni segir og vísaði til þess að langt væri um liðið síðan skýrslan var tekin. Kom þó skýrt fram hjá vitninu aðspurðu fyrir dómi, að skýrslan væri sannleikanum samkvæm.
Aðspurt um ástand sitt umrædda nótt kvaðst vitnið hafa verið nokkuð ölvað.
Vitnið kvað alla ákærðu hafa verið vini sína fyrir umrætt atvik. Samskipti sín við þá eftir þá hafi hins vegar verið þrúgandi. Kvaðst vitnið m.a. hafa hitt X í samkvæmi síðar og hafi hann þá komið til vitnisins og reynt að biðja það afsökunar á umræddu atviki.
Kannaðist vitnið ekki við að hafa einhverju sinni nefbrotið ákærða Z en staðfesti að til handalögmála hefði komið milli þeirra áður fyrr.
Vitnið kvaðst hafa verið í um 5 vikur að jafna sig eftir títtnefnda áverka. Á því tímabili hafi hann verið með glóðarauga sem og marbletti í andliti, á hálsi og á baki. Vitnið kvaðst hins vegar enn bera ör eftir sígarettubrunann. Þá sé vitnið enn aumt í hálsi. Tók vitnið fram að það hafi verið áverkalaust er það kom heim úr Sjallanum. Lýstir áverkar hafi allir verið af völdum ákærðu.
Vitnið kvaðst hafa hafið vinnu í lok annarrar eða byrjun þriðju viku eftir umrædda atburði.
C, unnusta A, fædd 1978, skýrði svo frá fyrir dómi, að hún og A hafi verið með innflutningspartý að kvöldi 26. maí 2001 í íbúð þeirra að [ ]. Að samkvæminu loknu hafi þau og gestir samkvæmisins farið í skemmtistaðinn Sjallann. Þar hafi vitninu og A sinnast og komið til „smá ryskinga“ milli þeirra. Vitnið hafi í kjölfarið verið flutt á FSA í sjúkrabifreið.
Vitnið kvaðst hafa hringt í B af FSA og beðið hana um að ná í sig. Það hafi B gert og fljótlega hafi þær farið að [ ] þar sem þær hafi komið að A uppi í rúmi í miður góðu ástandi. Kvað vitnið A hafa nefnt nöfn ákærðu er það hafi innt hann eftir því hverjir hefðu veist svona að honum.
Vitnið kvað blóð hafa verið í rúmi A og þá hafi verið búið að hella bjór í það. Bjórslettur hafi jafnframt verið uppi um alla veggi. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir mold eða sandi í rúminu, hvorki um nóttina né síðar er hún skipti á rúminu.
B, systir A, fædd 1980, bar fyrir dómi, að hún hafi að kvöldi 26. maí 2001 dvalist í um klukkustund í samkvæmi að [ ], en síðan ekið flestum samkvæmisgestunum niður í miðbæ Akureyrar.
Síðar um nóttina hafi C hringt í vitnið og beðið það um að ná í sig, en C hafi þá verið stödd fyrir utan FSA. Vitnið kvaðst hafa náð í C og hafi þær því næst ekið lítilsháttar um bæinn í leit að A, en hann hafi verið með húslyklana að í búð hans og C við [ ]. Þar sem leitin hafi ekki borið árangur og A ekki svarað símhringingum þeirra hafi þær farið að [ ] í þeim tilgangi að kanna hvort hann væri þangað kominn. Hafi þá komið í ljós að bæði útihurð fjölbýlishússins og hurðin að íbúð C og A voru ólæstar. Er vitnið hafi opnað hurðina að íbúðinni hafi það heyrt öskur í A og því hlaupið inn í herbergi þar sem það hafi fundið hann liggjandi í rúmi. A hafi verið mjög hræddur og hafi það tekið vitnið smá tíma að ná sambandi við hann, en fljótlega hafi hann róast aðeins niður. A hafi síðan greint vitninu frá því að þrír strákar, ákærðu í máli þessu, hefðu komið í íbúðina og gengið í skrokk á honum. Í kjölfarið kvaðst vitnið hafa hringt í neyðarlínuna og óskað eftir sjúkrabifreið.
Vitnið kvað rúmið sem A lá í hafa verið blautt. Sjálfur hafi hann verið blóðugur og með brunasár í andliti. Þá hafi mátt greina skóför á A t.a.m. á baki hans og hálsi.
Júlíus Gestsson, forstöðulæknir bæklunar- og slysadeildar FSA, kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði fyrirliggjandi læknisvottorð er hann vann vegna áverka A. Kom fram hjá Júlíusi að hann hafi verið á bakvakt umrædda nótt og því ekki sjálfur skoðað A, það hafi unglæknir á vaktinni gert.
Vitnið kvað áverka A samrýmast lýsingu hans á málsatvikum að því marki sem þau væru vitninu kunn. Þá kom fram hjá vitninu, að A hafi ekki getað valdið umræddum áverkum sjálfur.
IV.
Fram kom hjá brotaþola A fyrir dómi, að allir ákærðu hafi verið vinir hans er atvik máls gerðust. Þá er jafnframt upplýst, að tveir hinna ákærðu, X Sigurólason og Y, voru gestir í samkvæmi í íbúð A og sambýliskonu hans, C, að kvöldi 26. maí 2001.
Fyrir liggur samkvæmt framburði ákærða X, brotaþola A og C unnustu hans, að til einhverra átaka kom á milli A og C í skemmtistaðnum Sjallanum á Akureyri aðfaranótt 27. maí 2001 sem lauk með því að A hrinti C út í vegg með þeim afleiðingum að hún rotaðist og var flutt á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Jafnframt liggur fyrir að X, sem vitni varð að ofangreindu atviki, líkaði ekki framganga A, sbr. framburð þeirra beggja fyrir dómi. Einnig er upplýst með framburði X og ákærða Y, að sá fyrrnefndi skýrði hinum síðarnefnda frá atvikinu sem leiddi til þess að þeir hófu sameiginlega leit að A. Er þeir fundu hann ekki í miðbæ Akureyrar höfðu þeir samband við ákærða Z og fengu hann með sér að [ ], sbr. framburð allra ákærðu. Þá er og ljóst af framburði ákærðu að þeim mislíkaði verulega framganga A gagnvart C og verður ekki annað séð en það hafi verið megin ástæða farar þeirra að [ ] um nóttina.
Samkvæmt framburði ákærðu og A liggur fyrir að bæði útidyr umrædds fjölbýlishús við [ ] og dyr íbúðar A voru ólæstar er ákærðu bar að garði um nóttina.
Eins og hér hefur verið rakið eru atvik máls óumdeild allt þar til kemur að för ákærðu inn í íbúð A.
Fyrir dómi báru ákærðu Y og X að þeir hafi fyrr um kvöldið verið boðnir í samkvæmi í íbúðinni eftir lok dansleiksins í Sjallanum og því verið heimil innganga í ólæsta íbúðina. Er A var spurður út í þetta atriði fyrir dómi hafnaði hann framburði ákærðu alfarið.
Þá hafa ákærðu allir frá upphafi neitað að hafa inni í íbúðinni veist að A með höggum og spörkum þar sem hann lá í rúmi sínu líkt og þeim er gefið að sök í ákæru. Fyrir dómi bar A á hinn bóginn ákærðu þeim sökum, að þeir hafi veitt honum töluverðan fjölda af höggum, hellt yfir hann vökva, drepið í sígarettu í andliti hans og sparkað í hann.
V.
Eftir aðalmeðferð málsins þann 22. apríl 2002 ákvað dómurinn með vísan til 131. gr., sbr. 3. mgr. 128. gr., laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála að þörf væri á framhaldsmeðferð í málinu svo leggja mætti fyrir ákæruvaldið að leiða frekari vitni fyrir dóm, sem og afla viðbótargagna. Í þinghaldi þann 7. október s.l. kom dómurinn eftirfarandi atriðum á framfæri við ákæruvaldið:
Óskað var eftir vitnaskýrslu af þeim aðila sem ók ákærðu að [ ] og beið eftir þeim meðan þeir dvöldust í íbúðinni. Nafn þess aðila er ekki að finna í rannsóknargögnum málsins, einungis kemur fram í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða Y síðar þann dag er atvik máls gerðust, að um unga konu hafi verið að ræða er beri gælunafnið „[...]“. Var það mat dómsins að skýrslutaka af umræddu vitni væri nauðsynleg svo spyrja mætti vitnið um hvað farið hafi á milli ákærðu í bifreiðinni áður en þeir komu að íbúðinni, m.a. hvort þeir hafi í sameiningu lagt á ráðin um að ganga í skrokk á ákærða. Þá væri jafnframt nauðsynlegt að fá það fram hjá vitninu hvert andlegt ástand ákærðu hafi verið er þeir komu til baka í bifreiðina og hvort þeir hafi þá tjáð sig eitthvað um hvað gerst hefði í íbúðinni.
Þá var óskað eftir því að lögreglumenn þeir sem komu á vettvang umrædda nótt gæfu skýrslu fyrir dómi svo fá mætti lýsingu þeirra á aðkomunni, t.d. mögulegum ummerkjum í rúmi A, en rannsóknargögn lögreglu geyma engar lýsingar lögreglumanna á vettvangi. Þá var vakin athygli ákæruvaldsins á því að sjúkraflutningamenn þeir sem fluttu A af vettvangi gætu mögulega búið yfir upplýsingum um aðkomuna í íbúðinni, s.s. hvort einhver ummerki eftir skófatnað hafi verið í rúminu. Taldi dómurinn nauðsynlegt að kanna til hlítar hvort mögulegt væri að fá frekari upplýsingar um vettvang, en samkvæmt því sem áður hefur verið rakið bar unnusta A, C, fyrir dómi, að rúm A hafi verið blóðugt og blautt af bjór er hún kom að. Hún hafi hins vegar ekki tekið eftir mold eða sandi í rúminu, hvorki um nóttina né síðar er hún skipti á því. Þá bar vitnið B líkt og C að rúmið hafi verið blautt.
Dómurinn benti jafnframt á nauðsyn þess að afla nákvæmari tímasetninga um tiltekin atvik. Óskað var eftir nákvæmum upplýsingum um það hvenær Neyðarlínunni barst tilkynning um umrædda atburði og einnig upplýsingum um tímasetningu átaka A og C unnustu hans í Sjallanum og í því sambandi bent á þá staðreynd að sjúkrabifreið kom á vettvang og flutti C í kjölfarið á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þá var óskað eftir upplýsingum um tímasetningu símhringingar ákærðu Y og X í ákærða Z, sem og hringingar Z í brotaþola. Var það mat dómsins að reyna þyrfti eftir fremsta megni að upplýsa hve langan tíma umræddir atburðir tóku einkum með tilliti til þess hversu langur tími leið frá því að ákærðu yfirgáfu íbúðina og þar til B og C bar þar að garði.
Að endingu vakti dómurinn athygli á því að æskilegt hefði verið að fá fyrir dóm þann unglækni sem annaðist móttöku A á slysadeild og spyrja hann sérstaklega um brunasár sem A kvaðst fyrir dómi hafa hlotið af völdum ákærðu og bar að sjá mætti af framlögðum myndum, en brunasára er í engu getið í framlögðu áverkavottorði sem unnið var af Júlíusi Gestsyni, lækni, en upplýst er að Júlíus skoðaði brotaþola ekki sjálfur. Gat vitnið B þess hins vegar fyrir dómi, að A hafi verið með brunasár í andliti er hún kom í íbúðina. Þrátt fyrir að umræddra brunaáverka sé ekki getið í ákæruskjali, er það mat dómsins að úrlausn þess hvenær A hlaut þá hljóti að hafa áhrif á mat á trúverðugleika framburðar hans.
Í þinghaldi þann 10. október 2002 upplýsti fulltrúi ákæruvalds í tilefni af framanröktum tilmælum dómsins, að Landssíminn eyddi símtalssögu eftir 1 ár þannig að tímasetningar samkvæmt framangreindum símtölum væru ekki lengur tiltækar. Lýsti ákæruvaldið því næst yfir, að það sæi ekki ástæðu til frekari gagnaöflunar í málinu. Að svo búnu fór fram munnlegur flutningur málsins að nýju og var það dómtekið öðru sinni að honum loknum.
Samkvæmt 67. gr. laga nr. 19, 1991 um rannsókn opinberra mála er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar. Í 68. gr. laganna segir, að rannsaka skuli og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um sé að ræða, svo sem stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla megi að skipt geti máli, leita þess sem grunaður sé um brot, finna sjónarvotta og aðra sem ætla megi að borið geti vitni, svo og að hafa upp á sýnilegum sönnunargögnum og munum sem hald skal leggja á skv. X. kafla. Þá skuli rannsaka vettvang ef við á og yfirleitt öll ummerki sem kunni að vera eftir brot.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið er það mat dómsins, að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að ákærðu hafi gerst sekir um brot þau sem þeim eru gefin að sök í ákæruskjali. Dóminum þykir hins vegar í verulegum atriðum skorta á að við rannsókn málsins hafi verið fylgt skýrum ákvæðum 67. og 68. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála. Málið hefur því ekki enn, líkt og ítarlega hefur verið rakið hér að framan, verið rannsakað á fullnægjandi hátt og samræmi við fyrirmæli tilvitnaðra lagagreina. Er þessi framgangsmáti jafnframt í andstöðu við ákvæði 112. gr. laga 19, 1991.
Að öllu ofansögðu athuguðu er það mat dómsins, að eins og mál þetta liggi nú fyrir sé ekki önnur leið fær, að fenginni afstöðu ákæruvaldsins í síðastnefndu þinghaldi þann 10. október s.l., en vísa því frá dómi ex officio.
Að fenginni niðurstöðu dómsins um frávísun þykir rétt að málsvarnarlaun verjanda ákærða, X, Arnars Sigfússonar hdl., er hæfilega þykja ákvörðuð kr. 175.000,- verjanda ákærða Z, Þorsteins Hjaltasonar hdl., er hæfilega þykja ákvörðuð kr. 175.000,- og verjanda ákærða Y, Benedikts Ólafssonar hdl., er hæfilega þykja ákvörðuð kr. 175.000,-, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiðist og úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Kr. Sólnes hrl., er hæfilega þykir ákveðin kr. 60.000,-.
Úrskurð þennan kveða upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari sem dómsformaður og Freyr Ófeigsson dómstjóri og Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða X, Arnars Sigfússonar hdl., kr. 175.000,-, verjanda ákærða Z, Þorsteins Hjaltasonar hdl., kr. 175.000,- og verjanda ákærða Y, Benedikts Ólafssonar hdl., kr. 175.000,-, greiðast úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóns Kr. Sólnes hrl., kr. 60.000,- greiðist úr ríkissjóði.