Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Veðskuldabréf
- Málamyndagerningur
|
|
Miðvikudaginn 14. febrúar 2001. |
|
Nr. 33/2001. |
Hólafélagið ehf. (Sigurður Eiríksson hdl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Gunnar Sólnes hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Veðskuldabréf. Málamyndagerningur.
H kærði þá niðurstöðu héraðsdóms að L skyldi fá úthlutun af söluverði fasteignar við nauðungarsölu í stað H. Byggði H kröfu sína til úthlutunar á skuldabréfi sem hann átti og tryggt var með veði í fasteigninni. Fallist var á að skuldabréfið hefði verið gefið út til málamynda og gæti H ekki byggt rétt á því við úthlutunina. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. janúar 2001, þar sem ákvörðun sýslumannsins á Akureyri 5. október 2000 um að hafna mótmælum varnaraðila gegn því að sóknaraðili fengi úthlutað af söluverði fasteignarinnar að Einholti 6a á Akureyri samkvæmt frumvarpi sýslumanns til úthlutunar 22. ágúst sama árs var breytt á þann veg að varnaraðili fengi úthlutun af söluverðinu í stað sóknaraðila. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fyrrnefnd ákvörðun sýslumanns verði staðfest. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Fallist verður á með héraðsdómara að veðskuldabréf sóknaraðila, sem um ræðir í málinu, hafi verið gert til málamynda og þannig ekki ætlað að hafa áhrif gagnvart skuldaranum samkvæmt efni sínu, svo og að sóknaraðila hafi mátt vera þetta kunnugt. Af þeim sökum getur ekki komið til þess að úthlutað verði af söluverði fasteignarinnar að Einholti 6a til greiðslu kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hólafélagið ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. janúar 2001.
Mál þetta barst dóminum með bréfi Gunnars Sólnes hrl., dags. 17. október 2000 og móteknu 18. s.m. Málið var þingfest þann 30. október 2000, en munnlega flutt og tekið til úrskurðar 6. desember s.l. Málskot þetta styðst við 52. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90, 1991, um nauðungarsölu.
Sóknaraðili málsins er Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík. Varnaraðili er Hólafélagið ehf., kt. 560997-3029, Helgamagrastræti 23, Akureyri.
Sóknaraðili gerir þær kröfur, að frumvarpi sýslumannsins á Akureyri til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Einholti 6a, Akureyri, verði breytt þannig, að ekki komi til úthlutunar af söluverðinu upp í „kröfu“ (sic) varnaraðila, en að úthlutað verði þess í stað upp í kröfu sóknaraðila svo sem veðrétturinn leyfir. Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili gerir þá kröfu aðallega, að málinu verði vísað frá dómi. Til vara gerir hann þá kröfu, að ákvörðun sýslumannsins á Akureyri frá 5. október 2000, um að hafna framkomnum mótmælum við frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Einholti 6a, Akureyri, í nauðungarsölumáli nr. 309/1998, verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og 24,5 % virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Þann 22. ágúst 2000 var, af sýslumanninum á Akureyri, lagt fram frumvarp til úthlutunar á uppboðsandvirði fasteignarinnar Einholti 6a á Akureyri. Samkvæmt frumvarpinu skyldi úthluta til varnaraðila kr. 1.288.108,- upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfi á 2. veðrétti. Sóknaraðili máls þessa mótmælti frumvarpinu með bréfi dags. 12. september 2000 og var haldinn fundur með lögmönnum sóknar- og varnaraðila þann 5. október 2000. Á fundinum tók fulltrúi sýslumanns þá ákvörðun, að hafna framkomnum mótmælum sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila lýsti því í kjölfarið yfir, að sóknaraðili myndi bera greinda ákvörðun undir Héraðsdóm Norðurlands eystra, sem hann gerði með bréfi dags. 17. október 2000.
Kveður varnaraðili kröfu um frávísun vera á því byggða, að í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra í málinu nr. Z-3/1999 hafi verið fjallað um nákvæmlega sömu málsástæður og í þessu máli og að fullnaðardómur í málinu hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti 13. júní 2000, í máli nr. 213/2000. Kveðst varnaraðili í þessu sambandi vísa til 77. gr. laga nr. 90, 1991, um nauðungarsölu, sbr. 116. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála. Í fyrra málinu hafi meðal annars verið gerð krafa um að margumrætt viðskiptabréf yrði metið þannig, að um málamyndagerning væri að ræða, sem hefði ekkert gildi að lögum samkvæmt 34. gr. samningalaga nr. 7, 1936. Með ofangreindum dómi Hæstaréttar hafi kröfugerð þessari verið hafnað og ekkert fundið að viðskiptabréfinu sem nauðungarsöluheimild. Því beri samkvæmt 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála að vísa málinu frá dómi.
Þá kveðst varnaraðili benda á, að dómari máls þessa hafi áður fjallað um samskonar mál nr. Z-3/1999 á milli sömu aðila þegar hann, sem dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra, hafi úthlutað því til dómara og kveðst varnaraðili í þessu sambandi benda á g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála. Kveðst varnaraðili þó ekki gera kröfu um að dómari víki sæti af þessari ástæðu heldur vísar hann í þessu sambandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála.
Varnaraðili kveðst benda á, að sýslumaður hafi tekið ákvörðun sína 5. október 2000 en krafa sóknaraðila hafi ekki borist til dómsins fyrr en 18. sama mánaðar. Þetta samrýmist ekki 5. mgr. 73. gr. laga nr. 90, 1991, um nauðungarsölu.
Kveðst varnaraðili gera athugasemd við að sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir því hvaða rétt hann eigi samkvæmt 3. veðrétti fasteignarinnar Einholt 6a, Akureyri, en samkvæmt þinglýsingarvottorði sé Íslandsbanki hf. þinglýstur eigandi þess veðréttar. Varnaraðili kveðst því mótmæla að til greina geti komið að sóknaraðili geti átt rétt samkvæmt þeim veðrétti.
Varnaraðili kveður réttaráhrif þinglýsingar þeirra fjárnáma, sem sóknaraðili byggi aðilda sína á í málinu, fallin brott samkvæmt 37. gr. þinglýsingalaga nr. 39, 1978 þar sem meira en 5 ár séu liðin frá því að þau voru færð inn í þinglýsingabók og ekki hafi verið þinglýst yfirlýsingu rétthafa um að höftin væru ekki fallin niður. Þetta leiði til þess, að sóknaraðili hafi ekki réttarlega hagsmuni af að reka málið.
Sóknaraðili kveður dóm Hæstaréttar frá 13. júní 2000 í málinu nr. 213/2000 ekkert hafa með mál þetta að gera og verði málinu því ekki vísað frá á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91, 1991. Niðurstaða Hæstaréttar sé ekki efnisleg niðurstaða um ágreiningsefni máls þessa, enda sé niðurstaðan eingöngu byggð á því, að varnaraðilar máls nr. 213/2000 hafi ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá nauðungaruppboðinu frestað. Ágreiningur aðila þessa máls lúti ekki að því að fresta nauðungaruppboði heldur fá úr því skorið hvernig úthluta beri söluverði eignarinnar að Einholti 6a, Akureyri.
Kveðst sóknaraðili mótmæla frávísunarkröfu varnaraðila byggðri á því, að dregist hafi að bera málið undir dóminn. Vísist til þess, að fundur þar sem sýslumaður tók afstöðu til mótmæla sóknaraðila hafi verið haldinn 5. október s.l. og því verði ekki betur séð en málið hafi verið borið undir dóminn tafarlaust eftir að gögnin voru til reiðu hjá sýslumanni.
Sóknaraðili kveður ekki verða ráðið af greinargerð varnaraðila hvort hann sé að gera kröfu um að málinu verði vísað frá dómi vegna þess að hann telji, að sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir hvaða rétt hann eigi samkvæmt 3. veðrétti „fasteignarinnar Einholt 6a, Akureyri“. Af gögnum málsins verði ekki séð að sóknaraðili telji sig eiga einhver réttindi á þessum grunni svo athugasemdin virðist, kveður sóknaraðili, ekki eiga neinn rétt á sér.
Að mati dómsins kemur það skýrt fram í forsendum dóms Hæstaréttar frá 13. júní 2000, í máli nr. 213/2000, að rétturinn staðfesti þá ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, sem um var deilt í málinu, með vísan til þess, að sóknaraðili og Kjarnafæði hf. hefðu ekki lögvarða hagsmuni af því að koma í veg fyrir að nauðungarsala næði fram að ganga að beiðni varnaraðila. Hefur Hæstiréttur því ekki, að mati dómsins, tekið afstöðu til þeirra málsástæðna, sem sóknaraðili máls þessa byggir nú á og lúta að mótmælum gegn frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Einholti 6a á Akureyri, enda segir orðrétt í niðurstöðum réttarins (en sóknaraðili málsins fyrir Hæstarétti var varnaraðili máls þess, sem hér er til úrlausnar): „Þeir ættu kost á að mótmæla frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs ef þar yrði ráðgerð greiðsla til sóknaraðila, sem myndi skerða úthlutun til þeirra af söluverði eignarinnar.“ Verður máli þessu því ekki vísað frá dómi á grundvelli 77. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90, 1991, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91,1991, um meðferð einkamála.
Fundur vegna mótmæla sóknaraðila við frumvarp sýslumannsins á Akureyri var haldinn þann 5. október 2000. Mál þetta barst dóminum þann 18. október s.l. með bréfi sóknaraðila dags. 17. s.m. Það liðu því tæplega tvær vikur frá því að fulltrúi sýslumanns tók hina umdeildu ákvörðun og þar til dóminum bárust málsgögnin frá sóknaraðila. Var þessi framgangsmáti, að mati dómsins, í góðu samræmi við áskilnað 5. mgr. 73. gr. laga nr. 90, 1991.
Ekki verður séð að ákvæði 37. gr. þinglýsingalaga nr. 39, 1978, hafi á nokkurn hátt áhrif á aðild sóknaraðila að máli þessu, sbr. ákvæði 3. tl. 2. gr. laga nr. 90, 1991. Hann er því réttilega aðili máls þessa, sbr. einnig ákvæði 73. gr. og 74. gr. síðastnefndra laga.
Sóknaraðili kveður ekki annað verða séð af þeim lögregluskýrslum, sem fyrir liggi í málinu, en varnaraðili málsins eigi ekki kröfu á hendur Baldvini Þorvaldssyni á grundvelli „veðskuldabréfsins“ (sic). Af 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90, 1991, verði ráðið, að nauðungarsala sé sala á eign gegn vilja eiganda hennar til að fá peningakröfu fullnægt af andvirði hennar. Það skilyrði sé sett samkvæmt greindri reglu, að um gjaldfallna peningakröfu sé að ræða. Sú sé aðstaðan ekki í þessu máli samkvæmt ótvíræðum yfirlýsingum stjórnarformanns varnaraðila hjá lögreglu. Það hafi aldrei verið fyrir hendi nein krafa handhafa „veðskuldabréfsins“ (sic) á hendur skuldara þess og kveðst sóknaraðili því ekki geta séð, að það geti komið til álita að úthluta af söluverði eignarinnar upp í „kröfu“ sem aldrei hafi verið til.
Kveður sóknaraðili „veðskuldabréfið“ (sic) vera gefið út til Víðis Gunnlaugssonar. Í skýrslu hans hjá lögreglu komi fram, að hann hafi aldrei átt neina kröfu á hendur útgefandanum, hann hafi í raun verið að lána nafn sitt. Síðan sé „veðskuldabréfið“ (sic) framselt af Víði til Baldvins Þorvaldssonar, sem framselji það til stjórnarformanns varnaraðila, sem loks framselji bréfið til varnaraðila. Í skýrslu stjórnarformannsins hjá lögreglu komi fram, að hann sjálfur eða varnaraðili hafi ekki átt kröfu á hendur útgefanda „veðskuldabréfsins“ (sic). Kveður sóknaraðili framburð stjórnarformannsins með ólíkindum hvað varði tilurð „veðskuldabréfsins“ (sic) og af honum verði ekki ráðið hver tilgangurinn með útgáfu bréfsins hafi verið, nema að nota það til að koma í veg fyrir að skuldheimtumenn Baldvins Þorvaldssonar gætu leitað fullnustu í fasteigninni Einholti 6a.
Telur sóknaraðili fram komið, að við útgáfu „veðskuldabréfsins“ (sic) hafi það aldrei verið ætlunin að bréfið gilti samkvæmt efni sínu. Skjalið sé hreinn málamyndagerningur þar sem því hafi aldrei verið ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Skjalið hafi því ekkert gildi að lögum, sbr. 34. gr. laga nr. 7, 1936.
Sóknaraðili kveður rétt að árétta, að stjórnarformaður varnaraðila sé föðurbróðir Baldvins Þorvaldssonar og hafi hann því aldrei getað verið í góðri trú og þannig unnið rétt samkvæmt „veðskuldabréfinu“.
Margnefnt „veðskuldabréf“ (sic) kveður sóknaraðili hafa verið framselt til útgefanda þess 10. nóvember 1993. Framsöl eftir þann tíma séu til málamynda eins og fram hafi komið og hafi því ekkert gildi að lögum. Kveðst sóknaraðili telja eðlilegt að líta svo á, að Baldvin Þorvaldsson sé handhafi „veðskuldabréfsins“ (sic). Skjalið geti því ekki orðið grundvöllur nauðungarsölu því réttindi og skyldur samkvæmt skjalinu séu komin á sömu hendi. Eðlilegt sé að líta svo á, að þar með hafi krafan fallið niður. Samkvæmt efni sínu sé um að ræða viðskiptabréf og hafi verið talið að með framsali slíkra bréfa sé hægt að endurvekja kröfu sem að baki þeim búi með framsali, en í þessu tilviki sé um að ræða framsöl til málamynda, sem ekkert gildi hafi að lögum.
Kveður sóknaraðili varnaraðila að því er virðist byggja á, að margnefnt „veðskuldabréf“ hafi verið greiðsla á einhverri skuld Þorvaldar Baldvinssonar, föður útgefanda bréfsins, við bróður hans, stjórnarformann varnaraðila. Sóknaraðili kveður ekkert liggja fyrir í málinu um greinda kröfu og séu sögur um hana nokkuð fjarstæðukenndar. Af framburði stjórnarformannsins fyrir lögreglu megi ráða, að krafan eigi að hafa orðið til einhvern tímann á áttunda áratugnum en engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings henni og því kveðst sóknaraðili mótmæla því, að krafan hafi verið greidd með framsali á „veðskuldabréfinu“ (sic) 12. nóvember 1993.
Varnaraðili kveður umrætt skuldabréf fullnægja skilyrðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90, 1991. Bréfið sé því gild uppboðsheimild. Þá fullnægi bréfið jafnframt skilyrðum reglna um viðskiptabréf og sé fjárkrafa varnaraðila, sem á því byggi, lögvarin krafa.
Kveðst varnaraðili hafa eignast skuldabréfið með samfelldri röð framsala. Mótmæli hann því að sú staðreynd, að gerðarþoli hafi um tíma aftur orðið eigandi bréfsins, leiði til að skuldabréfið verði ekki talin gild lögvarin krafa, enda hafi sóknaraðili ekki bent á neitt í reglum um viðskiptabréf, sem renni stoðum undir greinda fullyrðingu.
Varnaraðili kveður skuldabréfið ekki málamyndagerning. Sé það villandi, sem fram komi í lögregluskýrslu Brynjars Baldvinssonar 28. júní 1999, að Brynjar hafi ekki látið Baldvin hafa neitt í staðinn fyrir bréfið. Hið rétta sé, að Baldvin hafi verið að afhenda bréfið til Brynjars, sem tryggingu fyrir greiðslu á skuld Þorvaldar Baldvinssonar við Brynjar Baldvinsson, en Brynjar hafi tekið á sig skuldir Þorvaldar, sem fallið hafi á hann vegna ábyrgða og peningaláns frá Brynjari til Þorvaldar. Baldvin hafi því með útgáfu skuldabréfsins verið að ganga í ábyrgð fyrir föður sinn Þorvald gagnvart Brynjari og meiningin hafi verið að Brynjar fengi skuldina greidda með innheimtu skuldabréfsins. Þetta fái stoð í yfirlýsingum Brynjars Baldvinssonar og Baldvins Þorvaldssonar. Brynjar hafi hins vegar ekki fengið skuldabréfið afhent fyrr en 12. nóvember 1993 þegar ljóst hafi verið orðið, að bréfið myndi ekki seljast á almennum markaði vegna galla í framsali bréfsins. Meiningin hafi síðan verið, að Brynjar hefði bréfið í sínum vörslum, sem tryggingu, þar til skuld Þorvaldar við hann yrði greidd með söluandvirði fiskveiðiheimilda sem losna hafi átt þann 1. september 1994. Í millitíðinni hafi það hins vegar gerst, að fiskverkunarfyrirtækið Jóhannes og Helgi hf., sem haft hafi umráðarétt yfir fiskveiðiheimildunum árin 1993-1994, hafi lent í fjárhagskröggum og orðið gjaldþrota. Þá hafi komið í ljós, að félagið hafi verið búið að selja fiskveiðiheimildirnar en það ekki skilað andvirðinu til rétts eiganda, Þorvaldar Baldvinssonar. Þegar þetta hafi orðið ljóst hafi Brynjar þegar verið búinn að hafa bréfið í sínum vörslum í um 11 mánuði og hafi bréfið af framangreindum ástæðum verið áfram í hans vörslum.
Þá kveður varnaraðili það rangt, að Þorvaldur Baldvinsson hafi verið stjórnarformaður varnaraðila við stofnun félagsins. Hann hafi ekki átt aðild að félaginu á þeim tíma.
Varnaraðili kveður lögreglu ekki hafa tekið skýrslu af útgefanda skuldabréfsins og því vanti veigamiklar upplýsingar um málið.
Kveður varnaraðili fyrirvara verða að gera við vægi framlagðra lögregluskýrslna, en líta verði til þess, að skýrslugjafar hafi ekki komið fyrir dóm og hafi því ekki verið fjallað um skýrslurnar með faglegum hætti.
Varnaraðili kveður, að jafnvel þó svo talið verði að skuldabréfið sé málamyndagerningur, þá sé það mótbára sem falli niður gagnvart varnaraðila samkvæmt þeim reglum, sem gildi um viðskiptabréf.
Ekkert hafi komið fram sem renni stoðum undir að um refsivert athæfi hafi verið að ræða í tengslum við útgáfu skuldabréfsins, enda vandséð hvernig varnaraðili geti tengst því þar sem hann hafi eignast skuldabréfið löngu eftir útgáfu þess. Þá kveðst varnaraðili benda á, að ákæruvaldið hafi ekkert aðhafst í málinu.
Bendir varnaraðili á, að skjölum þeim, sem sóknaraðili byggi aðild sína á, hafi ekki verið þinglýst á eignina fyrr en 11 til 14 mánuðum eftir að skuldabréfi varnaraðila var þinglýst á eignina Einholt 6a, Akureyri. Sóknaraðili hafi ekki gert athugasemd við viðskiptabréfið á þeim tíma sem hann hafi verið að þinglýsa sínum bréfum.
Varnaraðili kveðst um málskostnað vísa til 2. mgr. 75. gr., sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90, 1991, um nauðungarsölu, sbr. 129. og 130. gr. einkamálalaga nr. 91, 1991. Varðandi virðisaukaskatt á málskostnað sé vísað til laga nr. 50, 1988.
Upphaflegur kröfuhafi samkvæmt umræddu veðskuldabréfi, Víðir Gunnlaugsson, bar hjá lögreglunni á Akureyri 28. júní 1999, að hann hafi gefið Baldvin Þorvaldssyni munnlega heimild til að greina hann sem kröfuhafa samkvæmt skuldabréfinu. Hins vegar hafi skuldari bréfsins, nefndur Baldvin, aldrei skuldað honum höfuðstól bréfsins kr. 3.000.000,-. Þá staðfesti Víðir, að hann hafi 10. nóvember 1993 framselt bréfið til Baldvins, án þess að fá nokkur verðmæti í staðinn. Var helst að skilja á Víði að þetta hafi hann gert af greiðasemi við Baldvin, sem hafi ætlað að koma bréfinu í verð. Víðir hafi sjálfur hins vegar ekkert hagnast á þessu.
Brynjar Baldvinsson, föðurbróðir Baldvins Þorvaldssonar, bar fyrir lögreglu 28. júní 1999, að hann hafi eignast veðskuldabréfið þann 12. nóvember 1993 er Baldvin hafi framselt bréfið til hans. Kvaðst Brynjar ekki hafa látið Baldvin hafa neitt í staðinn fyrir bréfið. Þá kvað hann Baldvin aldrei hafa skuldað sér neitt. Staðfesti Brynjar að hann hafi framselt bréfið til Hólafélagsins ehf. 1. desember 1997. Hann hafi enn ekkert fengið fyrir bréfið, en eigi inni hjá félaginu vegna þess. Þá hafi Baldvin aldrei greitt neitt til hans af bréfinu.
Kvað Brynjar Þorvald, föður Baldvins, skulda sér peninga vegna bátaviðskipta, sem hann hafi staðið í á árunum 1970-1980 og endað hafi með að ábyrgðir hafi fallið á Brynjar vegna skulda Þorvaldar.
Um tengsl sín við varnaraðila þessa máls bar Brynjar, að hann væri stjórnaformaður Hólafélagsins ehf. og eigandi þess, ásamt Þorvaldi Baldvinssyni. Aðspurður kvað Brynjar starfsemi varnaraðila felast í stofnun félagsins og eign margnefnds skuldabréfs og hafi varnaraðili verið stofnaður í þeim eina tilgangi að eiga skuldabréfið.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 8. júlí 1999 kvaðst Þorvaldur Baldvinsson, faðir Baldvins Þorvaldssonar, ekki eiga neinn hlut í varnaraðila og ekki sitja í stjórn félagsins né vera framkvæmdastjóri þess. Þá kvaðst hann staðfesta þann framburð Víðis Gunnlaugssonar, að Baldvin hafi ekki skuldað Víði neina peninga þegar bréfið hafi verið útbúið, en ætlunin hafi hins vegar verið að gera peninga úr bréfinu. Þorvaldur hafi beðið Baldvin um að heimila sér að veðsetja Einholt 6a á Akureyri fyrir kr. 3.000.000,- með útgáfu nefnds skuldabréfs árið 1993, sem síðan hafi verið ætlunin að selja svo að hægt væri að greiða Brynjari. Bréfið hafi verið útbúið, en þegar átt hafi að selja það hafi komið í ljós, að það hafði verið framselt til skuldara og það því óseljanlegt. Þorvaldur kvaðst þá hafa samið við Brynjar um að hann héldi bréfinu þar til krafa vegna kvóta, sem Þorvaldur hafi átt útistandandi, yrði greidd. Baldvin hafi því framselt bréfið til Brynjars. Síðar hafi komið í ljós, að það kæmi engin greiðsla fyrir kvótann og hafi Baldvin þá sagt við Brynjar, að hann skyldi innheimta bréfið með því að ganga að fasteigninni Einholt 6a. Brynjar hafi ekki viljað að uppboð á eign Baldvins bróðursonar hans yrði auglýst að kröfu hans. Hann hafi því stofnað Hólafélagið ehf. til að hægt væri að innheimta skuldina án þess að nafn hans kæmi við sögu. Brynjar hafi síðan afhent Hólafélaginu ehf. bréfið til eignar og Hólafélagið ehf. síðan sett það í innheimtu.
Eins og hér hefur verið rakið báru Víðir Gunnlaugsson og Þorvaldur Baldvinsson fyrir lögreglu, að Baldvin Þorvaldsson hafi ekki staðið í neinni skuld við Víði er hið umdeilda skuldabréf var gefið út. Þá virðist ljóst, samkvæmt framburði Víðis, Þorvaldar og Brynjars Baldvinssonar, að aldrei hafi verið greitt af bréfinu og að aldrei hafi komið til neitt endurgjald þegar bréfið hafi verið framselt, en Brynjar bar þó að hann ætti inni hjá varnaraðila vegna framsals bréfsins til félagsins. Þá þykir dóminum frásögn Þorvaldar af tilurð Hólafélagsins ehf. vera með nokkrum ólíkindum og verður til þess að líta, að hún fær lítinn stuðning í framburði Brynjars, sem þó er stjórnarformaður og eigandi að félaginu.
Fullyrðingu varnaraðila þess efnis, að veðskuldabréfið hafi verið notað sem greiðsla á skuld Þorvaldar Baldvinssonar við bróður hans og stjórnarformann varnaraðila, Brynjar Baldvinsson, þykir verða að hafna sem ósannaðri, en engin haldbærgögn hafa verið lögð fram til sem sýna fram á tilvist skuldarinnar eða efni hennar.
Verður því að telja sannað, með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið, að umrætt veðskuldabréf sé málamyndagerningur, þ.e. honum hafi ekki verið ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu, og hafi því ekkert gildi að lögum, sbr. og gagnályktun frá 34. gr. samningalaga nr. 7, 1936. Af framan röktum framburði Brynjars Baldvinssonar, stjórnarformanns og eiganda að varnaraðila, er ljóst, að honum hlaut, er hann persónulega framseldi skuldabréfið til varnaraðila, að vera kunnugt um eðli skuldabréfsins. Fullyrðing varnaraðila, um að félagið hafi verið í góðri trú er það eignaðist skuldabréfið, getur af þeim sökum vart staðist og getur varnaraðili því ekki byggt rétt á bréfinu. Er því fallist á kröfu sóknaraðila þess efnis, að frumvarpi sýslumannsins á Akureyri til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Einholti 6a, Akureyri, verði breytt þannig, að ekki komi til úthlutunar af söluverðinu upp í kröfu varnaraðila, en að úthlutað verði þess í stað upp í kröfu sóknaraðila svo sem veðrétturinn leyfi.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 80.000,- í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Frumvarpi sýslumannsins á Akureyri til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Einholts 6a, Akureyri, er breytt þannig, að ekki kemur til úthlutunar af söluverðinu upp í kröfu varnaraðila, Hólafélagsins ehf, en úthlutað skal þess í stað upp í kröfu sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., svo sem veðrétturinn leyfir.
Freyr Ófeigsson.
Úrskurðurinn er kveðinn upp að lögmönum aðila fjarstöddum þar sem ekki vannst tími til að gera þeim aðvart um þinghald þetta.