Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005.

Nr. 314/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Vigni Þór Ólafssyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorðsrof.

V var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafði V ráðist á X með hnífi í kjölfar þess að sá síðarnefndi sló hann í andlitið, með þeim afleiðingum að X hlaut meðal annars tvö stungusár. Við ákvörðun refsingar þótti rétt að líta til 4., 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. og 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga svo og 60. og 77. gr. laganna. Var V gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Með vísan til þess að atlaga V var stórhættuleg og að hann rauf skilorð þótti ekki unnt, þrátt fyrir breytta hagi hans, að skilorðsbinda refsinguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði brotaþoli reitt ákærða til reiði með því að slá hann í andlitið að fyrra bragði í framhaldi af orðaskaki milli þeirra. Við ákvörðun refsingar er því rétt að vísa til 4. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var ungur að árum þegar hann framdi brotið og verður því refsing hans einnig ákveðin með tilliti til 4. tl. 1.mgr. 70. gr. laganna. Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.

Ákærði réðist á brotaþola með hnífi með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi hlaut stungusár á miðju baki við 10. brjósthryggjarlið, stungusár á vinstri síðu aftanverðri rétt ofan við mjaðmakamb, sár neðan við vinstri olnboga og rispu neðarlega á kvið vinstra megin. Þessi atlaga ákærða var stórhættuleg og réði hending ein að brotaþoli hlaut ekki lífshættulega áverka. Með broti sínu rauf ákærði auk þess skilorð, sem honum var sett með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2002, sem nánar er vikið að í héraðsdómi. Þegar framangreint er virt þykir ekki unnt, þrátt fyrir breytta hagi ákærða, að skilorðsbinda refsinguna.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Vignir Þór Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2004.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 7. nóvember 2003 gegn

Vigni Þór Ólafssyni, kt [...].

„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt föstudagsins 21. mars 2003 í bifreiðinni AN-613 sem stóð fyrir utan hús nr. 31 við Karfavog í Reykjavík, lagt til Björgvins Þórs Kristjánssonar með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár á miðju baki við 10. brjósthryggjarlið, stungusár á vinstri síðu aftanverðri rétt ofan við mjaðmakamb, sár neðan við vinstri olnboga og rispu neðarlega á kvið vinstra megin.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Af hálfu Björgvins Þórs Kristjánssonar, kt. 140183-3189, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 961.105 auk vaxta frá 21. mars 2003 í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

Verjandi ákærða krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir eru þeir að föstudaginn 21. mars 2003 var lögreglan send á slysadeild Landspítala Fossvogi vegna manns sem leitað hafði aðhlynningar þar vegna áverka eftir hnífsstungu. Samkvæmt því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu dagsettri þennan sama dag, hittu þeir fyrir hinn slasaða, Björgvin Þór Kristjánsson, og kvaðst hann hafa hitt mann, sem hann kallaði „Steina” í því skyni að selja honum fíkniefni. Með honum hafi komið fleiri aðilar á blárri og grárri sendiferðabifreið og áttu viðskiptin að eiga sér stað í bifreiðinni fyrir utan heimili Björgvins að Karfavogi 31.  Kvað Björgvin að til orðaskipta hefði komið á milli hans og „Steina” og hefði hann ráðist á sig og slegið sig. Hafi hann misst mátt í fótunum og þá tekið eftir því að honum blæddi. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að eggvopni hafi verið beitt í átökum þeirra. Lýsti hann árásarmanninum þannig að hann hafi verið með ljóst stutt hár, langt hvasst nef, kringlótt augu og stutt á milli augna.

Fram kemur í skýrslu lögreglu að framburður Björgvins Þórs hafi verið mjög á reiki. Við leit á fatnaði hans fundust ætluð fíkniefni, E-töflur og hass. Þá hittist fyrir á vettvangi Árni Gunnarsson og var hann handtekinn, grunaður um aðild að málinu. Reyndist hann vera í annarlegu ástandi, undir áhrifum áfengis og örvandi efna. Björgvin Þór kvaðst ekki kannast við hinn handtekna en kvað hann hafa verið farþega bifreiðinni ásamt Pétri nokkrum. Upplýsingar bárust lögreglu um bifreið þá sem hér um ræðir en Árni hafði áður verið stöðvaður á bifreiðinni AN-613 ásamt fleirum. Bifreiðin fannst á heimili skráðs eiganda og við skoðun kom í ljós blóð inni í henni. Einnig bárust upplýsingar þess efnis að árásarmaðurinn væri ákærði í máli þessu.     

Björgvin Þór kærði ákærða fyrir líkamsárás hinn 21. mars 2003. Kvaðst hann hafa komist í kynni við ákærða á skemmtistað aðfaranótt föstudagsins. Þeir hafi ákveðið að hittast heima hjá honum að Karfavogi 31 til að ganga frá fíkniefnaviðskiptum en félagi hans, Kristófer Örn Sigurðsson, hafi ætlað að selja ákærða fíkniefni. Hafi ákærði komið á bifreiðinni AN-613, innréttaðri blárri sendibifreið. Maður að nafni Ólafur hefði ekið bifreiðinni, ákærði hafi setið farþegamegin frammi í en hann hafi setið fyrir aftan ákærða og þeir Árni og Kristófer aftast. Ákærði hafi orðið æstur þegar Kristófer vildi ekki þiggja gsm-síma í skiptum fyrir amfetamín. Kvaðst Björvin Þór hafa lent í orðaskaki við ákærða af þessum sökum og hafi ákærði fært sig aftur í bifreiðina. Hafi ákærði slegið í átt til hans í vinstri síðuna. Þá kvaðst hann hafa slegið ákærða í andlitið sem þá hafi stungið hann í bakið. Kvaðst Björgvin Þór þá hafa reynt að flýja bifreiðina en þurft að bera hönd fyrir höfuð sér þegar ákærði lagði til hans og hafi hann þá fengið hnífstungu í vinstri olnboga. Hafi Ólafur ekið honum á slysadeild en Árni og Kristófer hafi haldið ákærða frá honum. Aðspurður kvaðst Björgvin Þór hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar árásin átti sér stað.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð Björns Geirs Leifssonar dagsett 16. september 2003. Þar segir að Björgvin Þór hafi komið á bráðamóttöku spítalans kl. 04:31 þann 21. mars sl. með áverka eftir hnífsstungur. Eftirtalin sár hafi fundist við skoðun:

1.       Á miðju baki við tind 10. brjósthryggjarliðar væri u.þ.b. lóðrétt stungusár eftir hníf eða svipað eggvopn með stefnu aðeins frá vinstri. Seytlblæðing og lítill margúll hafi verið undir húðinni. Sárið væri um 3 cm að lengd í húðinni og gangi inn í undirhúðina í mesta lagi inn að vöðvum.

2.       Á vinstri síðu aftanverðri strax ofan við aftanverðan mjaðmakamb væri sár sem lægi í sömu stefnu og fyrrnefnda sárið og virtist hafa gengið inn frá vinstri í átt að miðju, engin blæðing eða margúll. Samkvæmt sneiðmynd gangi þetta sár inn í kviðveggsvöðvann í átt að ileopsoasvöðvanum en nái ekki inn í kviðarhol eða nýrnahýði en liggi í áttina að neðri pól vinstra nýrans. Sárið sé að sama útliti og stærð og sár nr. 1 og gæti verið valdið með sama verkfæri í svipaða stefnu.

3.       Strax neðan við vinstri olnboga innanverðum, framan til, rúmlega 1 cm að lengd án blæðingar, sé að finna sár sem nái rétt inn úr vöðvahylkinu inn í vöðvana sem kreppa fingur og úlnlið þeim megin. Sárið sé einnig þess eðlis að hafa verið valdið með hnífi eða svipuðu eggvopni.

4.       Þá væri að lokum grunn rispa, 3-4 mm löng, vinstra megin í hæð við sár nr. 2 án blæðingar eða margúls sem ekki næði inn úr leðurhúðinni.

 Í samantekt læknisins segir að fjögur ný sár svari til þess að hafa verið veitt með hvössu eggvopni, ekki meira en 3 cm breiðu blaði sem þó gæti verið mjórra. Öll sárin virðist vera veitt úr sömu stefnu þannig að ekki sé ólíklegt að sá sem veitti sárin hafi verið rétthentur og snúið að Björgvini Þór framan frá eða til vinstri hliðar, ellegar örvhentur og staðið fyrir aftan sjúkling. Lagt hafi verið til Björgvins Þórs að minnsta kosti þrisvar, hugsanlega fjórum sinnum, ef rispa vinstra megin á kviðvegg sé talin með. Þau tvö sár sem væru á bol hefðu getað orðið lífshættuleg. Engin merki hafi þó komið fram um skaða á lífsnauðsynlegum líffærum. Húð, undirhúð og vöðvar hafi orðið fyrir áverkum. Áverkar hafi ekki verið lífshættulegir í eðli sínu og ekki náð inn að lífsnauðsynlegum líffærum eins og áður segi, en ekki hafi verið langt frá sári 1 inn að mænu eða lungnasekk og hefði getað farið verr. Sár nr. 2 á vinstri síðu hafi náð inn að kviðarholi og nýra og við dýpri stungu hefði áverkinn getað orðið lífshættulegur.

Á meðal gagna málsins eru jafnframt ljósmyndir teknar á vettvangi, af bifreiðinni AN-613 og innréttingum hennar. Þá liggja einnig frammi ljósmyndir af fatnaði Björgvins Þórs eins og hann leit út við komu á slysadeild svo og ljósmyndir af fatnaði ákærða. Ljósmyndir voru einnig teknar af bifreiðinni ZV-304, sem er í eigu ákærða, en í henni fundust tveir hnífar, dúkahnífur og búrhnífur og voru þeir myndaðir. Hnífarnir voru skoðaðir í tæknideild lögreglunnar en ekkert blóð fannst á þeim og segir í skýringum við myndirnar að litlar líkur væru á því að þeir hafi verið notaðir við árásina.

Einnig liggur fyrir matsgerð Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands en blóð- og þvagsýni voru tekin úr Björgvini Þór hinn 21. mars sl. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir að þær sýni að hlutaðeigandi hafi neytt amfetamíns, MDMA og kannabis og verið undir töluverðum áhrifum þessara efna þegar blóðsýnið var tekið.

Við þingfestingu málsins föstudaginn 9. janúar sl. kvað ákærði atvikalýsingu í ákæru rétta og gerði ekki athugasemdir við gögn málsins. Á dómþingi þriðjudaginn 13. janúar sl. kvaðst verjandi halda uppi vörnum á þeim grundvelli að málið heyrði ekki undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og ákæra málsins er byggð á heldur 1. mgr. 217. gr. sömu laga.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði kvaðst hafa komið að Karfavogi 31 með Ólafi og Árna. Þar hafi þeir hitt Björgvin Þór og annan mann sem ákærði muni ekki nafnið á. Kvaðst hann ekki hafa þekkt þá Björgvin fyrir. Aðspurður kvaðst hann hafa ætlað að kaupa fíkniefni af Björgvini Þór. Þeir Björgvin Þór og ákærði hefðu farið að kíta vegna símkorta sem hafi endað með því að Björgvin Þór hefði kýlt ákærða í nefið og við það hafi ákærði dottið í gólfið. Kvaðst ákærði hafa snöggreiðst og misst stjórn á sér. Hann hafi síðan stokkið upp og stungið Björgvin Þór með litlum hnífi sem var áfastur á lyklakippu hans. Kvaðst ákærði hvorki vita hvar hann stakk Björgvin Þór né hversu oft enda hafi þetta gerst mjög hratt. Kvaðst hann strax hafa séð eftir gerðum sínum og gefið sig fram við lögreglu daginn eftir. Aðspurður kvað hann hnífskaptið hafa verið um það bil 1 cm að lengd en með um það bil 3 cm löngu og 1 cm breiðu hnífsblaði. Þá taldi hann hnífsblaðið ekki hafa getað verið 5-6 cm að lengd. Þá taldi hann lýsingu í læknisvottorði um 3 cm breidd hnífsblaðsins ekki geta staðist. Kvaðst ákærði hafa hent hnífnum út um gluggann í „panik” eftir að þetta gerðist.

Aðspurður um lýsingu á sárum Björgvins Þórs í framlögðu læknabréfi dags. 10. september 2003 kvaðst ákærði ekki mótmæla henni enda hlyti hún að vera rétt. Aðspurður um aðstæður sínar nú kvaðst ákærði vinna við vörubílaakstur og þá hafi hann farið í meðferð eftir að þetta gerðist. 

Björgvin Þór Kristjánsson kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvað vin sinn hafa kynnst þeim Vigni og félögum fyrr um kvöldið og þeir hefðu síðan hringt í sig til þess að verða sér úti um fíkniefni. Þeir hefðu síðan komið að heimili vitnisins til að kaupa af honum fíkniefni. Í bílnum hefði komið til rifrildis milli ákærða og vitnisins en ekki mundi vitnið um hvað þeir rifust. Vitnið kvaðst hafa slegið ákærða í andlitið og við það hafi ákærði dottið úr sætinu. Þá hafi Árni stokkið á vitnið og haldið honum en ákærði þá staðið upp og stungið hann tvisvar sinnum í bakið og einu sinni í hendina. Vitnið kvaðst hafa séð hnífinn í höndum ákærða eftir að ákærði stakk hann. Hefði verið um að ræða vasahníf með um það bil 8-10 cm löngu hnífsblaði. Sérstaklega aðspurður um lengd blaðsins kvað hann hnífsblaðið ekki hafa getað verið einungis 3 cm að lengd. Hefði hann þó ekki séð þetta greinilega. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð ákærða henda hnífnum út á leiðinni á sjúkrahúsið. Aðspurður um afleiðingar árásarinnar kvað hann þær helstar að hann fyndi fyrir vanlíðan og vöðva- og taugaverkjum í kringum sárin. Þá kvaðst hann hafa átt við að stríða óþægindi í þvagblöðru sem lýstu sér þannig að hann þyrfti oft að fara á salerni.

Ólafur Vignir Ólafsson kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa verið ökumaður bifreiðarinnar umrætt sinn Lýsti hann atvikum málsins inni í bifreiðinni þannig að þeir ákærði og Björgvin Þór hefðu verið að rífast og Björgvin Þór slegið ákærða í andlitið svo ákærði datt í gólfið. Hefði þeim síðan lent saman og síðan hefði hann heyrt mikil öskur og læti. Kvaðst vitnið hafa farið út úr bifreiðinni í stutta stund en farið síðan inn í bifreiðina aftur. Sagði hann Árna hafa reynt að stöðva átökin. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði stakk Björgvin Þór en hann hefði hins vegar séð hnífinn. Hefði hann skoðað hnífinn fyrr um kvöldið og síðan séð hann eftir atvikið útataðan í blóði. Um væri að ræða lyklakippuhníf sem lokaðist sem væri í heild um það bil 10-13 cm að lengd en hnífsblaðið verið um það bil helmingur þess að lengd eða styttra. Aðspurður af verjanda ákærða kvað vitnið lengd hnífsblaðsins geta verið svipað að lengd og blað vasahnífs sem verjandinn sýndi honum í dóminum með rúmlega 3 cm löngu hnífsblaði. Taldi hann líklegt að hnífsblaðið hefði verið um það bil 3-6 cm að lengd og hefði það verið breiðara við skaptið en mjókkað fram. Vitnið kvaðst ekki vita hvað orðið hefði um hnífinn eftir þetta. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið hafa verið allsgáður þegar atvik málsins áttu sér stað. 

Kristófer Örn Sigurðarson kom fyrir dóminn sem vitni. Kvað hann ákærða og Björgvin Þór hafa byrjað að rífast og síðan hefði Björgvin Þór slegið ákærða í andlitið og hefði ákærði dottið aftur fyrir sig en náð að halda sér í bílsætið. Hefði vitninu sýnst ákærði kýla Björgvin Þór í bakið og síðun en þá hefði Björgvin Þór skyndilega öskrað að ákærði væri að stinga hann. Sagði vitnið atburðarásina hafa gerst mjög hratt. Kvaðst vitnið hafa séð hnífinn eftir að ákærði stakk Björgvin Þór og hefði hnífurinn vera á að giska 12-14 cm langur vasahnífur með um það bil 6-7 cm löngu hnífsblaði. Hefði hann ekki tekið eftir því hvort eitthvað hékk með hnífnum.

Verjandi ákærða sýndi vitninu vasahníf með rúmlega 3 cm löngu hnífsblaði og spurði hvort hnífsblað ákærða hefði verið líkt því. Vitnið neitaði því og sagði blaðið hafa verið töluvert breiðara.

Árni Gunnarsson kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður þegar þetta var. Ákærði og Björgvin Þór hefðu verið að ræða saman og hefði Björgvin Þór kýlt ákærða í andlitið en mundi ekki til þess að hafa séð áverka á ákærða. Kvað hann ákærða hafa dottið við höggið frá Björgvini Þór. Kvaðst vitnið hafa stokkið á milli þeirra og stöðvað átökin. Ákærði hefði síðan ráðist á Björgvin Þór. Kvaðst vitnið ekki hafa áttað sig á að ákærði væri að stinga Björgvin Þór en hann hefði séð hnífinn eftir á. Hnífurinn hefði verið um það bil 3-3 1/2 cm á lengd. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að hann hefði ekki séð hnífinn. Kvaðst vitnið hafa verið þunnur og illa á sig kominn þegar skýrslan var tekin af honum og væri það skýringin á framburði hans. Hins vegar var hann viss um að hafa séð hnífinn umrætt sinn. Verjandi ákærða sýndi vitninu vasahníf með rúmlega 3 cm löngu hnífsblaði og kvað vitnið blaðið á hníf ákærða hafa verið örlítið lengra. 

Björn Geir Leifsson, læknir,  kom fyrir dóminn sem vitni. Kvaðst hann hafa tekið á móti Björgvini Þór sem sérfræðingur skurðlækningardeildar sem yfirleitt væri kallaður til þegar um alvarlega áverka á bol væri að ræða. Hefðu áverkar Björgvins Þórs umrætt sinn getað orðið lífshættulegir en vegna legu sáranna hefði hnífurinn ekki hitt á mikilvæg líffæri. Önnur hliðrun hefði getað orsakað alvarlegri áverka. Kvað vitnið dýpt stungnanna því ekki endilega skipta mestu máli. Í því tilviki sem hér um ræðir hafi dýpt stungu getað skipt verulegu máli varðandi hugsanlega lífshættulegan áverka en önnur hliðrun hefði getað valdið sama skaða. Aðspurður kvað vitnið hníf með 3 cm langt hnífsblað geta valdið lífshættulegum áverkum. Það sem skipti mestu máli væri hvar stungan lenti. Björgvin Þór væri grannur maður og hafi verið 3 cm inn að ristli. Önnur hliðrun hefði því valdið alvarlegum áverka. Áverki á baki hefði einnig getað talist lífshættulegur ef hann hefði verið aðeins framar því þá hefði getað komið gat á brjósthol með loftbrjósti eða blæðingu. Aðspurður kvað vitnið eðlilega styttra inn að líffærum, sem slæmt væri að fá skaða á, hjá grannholda mönnum. Spurður um mat sitt á því hvers konar vopni hafi verið beitt á Björgvin Þór taldi vitnið að um eineggja hníf hafi verið að ræða en blaðið hefði þó getað verið mjórra en hann tiltæki í læknisvottorði enda gæti sár í húðinni orðið lengra en breidd hnífsblaðsins. Vitnið kvað það rétt að Björgvin Þór hafi orðið órólegur á sjúkrahúsinu og útskrifað sig sjálfur. Hafi vitnið viljað halda honum lengur enda væri regla að hafa menn undir eftirliti í einn sólarhring eftir stungusár sem þessi, þar sem að afleiðingar geti komið fram eftir á, svo sem blæðingar. Aðspurður kvað vitnið ákærða ekki hafa leitað á sjúkradeild aftur vegna áverkanna.

Niðurstaða

Ákærði játaði á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi að hafa ráðist á Björgvin Þór og stungið hann með hnífi. Kvaðst hann hafa snöggreiðst og misst stjórn á sér eftir að Björgvin Þór sló hann í nefið. Gat hann hvorki sagt til um það hvar hann stakk hann né hversu oft. Vitnum í málinu ber saman um aðdragandann að atburðum þeim sem mál þetta snýst um. Þá ber þeim einnig saman um að ákærði hafi ráðist á Björgvin Þór eftir að Björgvin Þór sló ákærða og að Björgvin Þór hafi þá hlotið stungusár af völdum ákærða. Lýsingar ákærða og vitna á hnífnum hafa hins vegar verið með ólíkum hætti. Ákærði kvaðst hafa notað lítinn hníf áfastan á lyklakippu með um 3 cm löngu hnífsblaði. Hefur vitnið Ólafur Vignir borið að um þess konar hníf hafi verið að ræða en hann kvaðst hafa skoðað hnífinn sérstaklega fyrr um kvöldið. Þá liggur fyrir framburður vitnisins Björns Geirs um að hnífur með 3 cm hnífsblaði hafi verið til þess fallinn að valda lífshættulegum áverka. Þykir mega leggja lýsingu ákærða á hnífnum til grundvallar, enda hefur hnífurinn ekki fundist og ósannað er að um stærri hníf eða lengra hnífsblað hafi verið að ræða.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir sannað, með framburði ákærða sjálfs, vitna og læknisfræðilegra gagna, að ákærði hafi umrætt sinn veitt Björgvini Þór áverka með hnífi með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði Björns Geirs og framburði hans hér fyrir dómi þykir sýnt að áverkar Björgvins Þórs hafi verið alvarlegir þó svo að þeir hafi ekki verið lífshættulegir. Þá lagði ákærði til hans oftar en einu sinni með vopni og hefði getað farið verr ef stefna eða dýpt stungnanna hefði verið með öðrum hætti. Verður verknaður ákærða heimfærður til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Ákærði er fæddur 22. júní 1983 og var því 19 ára þegar hann framdi brot sitt. Samkvæmt sakavottorði hlaut hann fjögurra mánaða fangelsisdóm 3. apríl árið 2002 fyrir brot gegn 244. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga og vopnalögum. Refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára. Þá gekkst hann þrisvar sinnum undir sátt á árinu 2003 fyrir fíkniefnabrot og brot gegn umferðarlögum. Einnig hlaut hann tvívegis dóm á því ári og var hinn 18. júní dæmdur til greiðslu sektar fyrir umferðarlagabrot en með dómi frá 13. október var honum ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 151. og 246. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans nú er hegningarauki við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði rofið skilorð ofangreinds dóms frá 3. apríl 2002.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði gaf sig sjálfur fram við lögreglu sama dag og verknaðurinn var framinn. Þá var hann samvinnuþýður við rannsókn málsins og greindi hreinskilnislega frá hér fyrir dómi, sbr. 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á móti kemur að ákærði réðst að Björgvini Þór með hættulegu vopni og stakk hann ítrekað. Varanlegt mein hlaust hins vegar ekki af atlögunni. Fyrir liggur að Björgvin Þór sló ákærða að fyrra bragði eftir orðaskak þeirra á milli en ákærði þykir engu að síður hafa farið offari með verknaði sínum og þykja ekki efni til að líta til 3. mgr. 218. a, við ákvörðun refsingarinnar.

Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dóms frá 3. apríl 2002 eins og áður greinir. Verður refsing hans samkvæmt þeim dómi tekin upp og verður nú tiltekin í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir hún hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi.

Skaðabætur

Af hálfu Björgvins Þórs Kristjánssonar hefur verið lögð fram bótakrafa samtals að fjárhæð 961.105 krónur auk vaxta frá 21. mars 2003 í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

Skaðabótakrafan er þannig rökstudd að sú ólögmæta meingerð gagnvart friði, frelsi, persónu og líkama brotaþola hafi valdið honum miklum þjáningum og óþægindum. Brotaþoli hafi orðið fyrir tilefnislausri og stórhættulegri árás og samkvæmt læknisvottorði hafi heppni ráðið því að ekki hlaust af henni lífshættulegur áverki. Auk þess hafi árásin verið gerð með stórhættulegu vopni.

Krafan er sundurliðuð þannig:

Miskabætur                                                       kr. 800.000,-

Sjúkrakostnaður                                               kr.   50.300,-

Lögfræðiaðstoð                                                kr. 110.805,-

Samtals                                                              kr. 961.105,-

 

Ákærði hefur með verknaði sínum valdið brotaþola miska og er hann skaðabótaskyldur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar krónur 200.000. Krafa um sjúkrakostnað er ekki studd gögnum og verður henni því vísað frá dómi. Þá á brotaþoli rétt á lögmannskostnaði við að halda fram kröfu sinni og ákveðst hann krónur 50.000 að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði skal því greiða brotaþola krónur 250.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1993 frá 21. mars 2003 til 1. nóvember 2003, en þann dag var liðinn mánuður frá því að ákærða var kynnt framkomin bótakrafa og þá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 50/1993 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar B. Ólafssonar krónur 150.000.

Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjóra, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Vignir Þór Ólafsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar B. Ólafssonar krónur 150.000.

Ákærði greiði Björgvini Þór Kristjánssyni krónur 250.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1993 frá 21. mars 2003 til 1. nóvember 2003, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 50/1993 til greiðsludags.