Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


í hæstaréttarmálinu nr

 

Fimmtudaginn 18. apríl 2002.

Nr. 171/2002.

Wellington Management Services Ltd.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Aalesund Seafood AS

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.

S, sem var með starfstöð í Rússlandi, samdi við D, félag í Líberíu, um leigu á togveiðiskipi. S fékk síðan lán hjá W, sem var með starfstöð í Bandaríkjunum, og samdi við A, norskt félag, M, íslenskt félag, og D um endurgreiðslu lánsins. Í aðfararorðum samningsins var tekið fram að A hefði tekið að sér að selja afla skipsins og að M annaðist útgerð þess, en W hefði lagt til nánar greinda fjárhæð til kaupa á aflaheimildum fyrir skipið. Í umræddum samningi lýsti S sig skuldbundið til að endurgreiða W þessa fjárhæð af söluverði afla, sem A tæki að sér að selja. Þá lýsti S því og yfir ásamt M að A væru á óafturtækan hátt gefin fyrirmæli um að greiða fjárhæðina inn á tiltekinn bankareikning W af andvirði afla skipsins. A lýsti því síðan yfir að hann staðfesti gagnvart W að hann myndi halda eftir fé fyrir umsaminni greiðslu af andvirði aflans og inna hana af hendi inn á bankareikning W innan 30 daga frá löndun. Í lokaákvæði samningsins var tekið fram að um hann færi eftir íslenskum lögum, svo og að mál um hvers konar ágreining, sem kynni að rísa vegna samningsins eða í tengslum við hann, skyldi rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. W, sem var ekki aðili að þessum samningi, taldi að A hefði ekki staðið við fyrrgreint loforð sitt og höfðaði því mál á hendur A fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Málinu var vísað frá þar sem varhugavert var talið að skýra varnarþingsákvæði samningsins á þann hátt að þau gætu fellt skyldu á A til að sæta því að W ræki í þeirra skjóli mál á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins veitti sóknaraðili, sem hefur starfstöð á nánar tilteknum stað í Delaware í Bandaríkjunum, félaginu Sarmat Nord Ltd., með starfstöð í Murmansk í Rússlandi, samtals 452.823 bandaríkjadali að láni með samningum 26. apríl, 19. júní og 2. júlí 2001. Í hverju tilviki átti að endurgreiða lánsféð ásamt 24% ársvöxtum að liðnum þremur mánuðum frá dagsetningu viðkomandi samnings.

Hinn 27. apríl 2001 gerði Sarmat Nord Ltd. samning við varnaraðila, sem hefur starfstöð í Álasundi í Noregi, Melbrún hf., með starfstöð í Garðabæ, og Daybreak Fishing Company Ltd., Monróvíu í Líberíu. Í aðfararorðum þessa samnings var tekið fram að Sarmat Nord Ltd. væri leigutaki nafngreinds togveiðiskips, sem skrásett væri í Rússlandi, að varnaraðili hefði með samningi 6. ágúst 1999 tekið að sér að selja afla skipsins, að Melbrún hf. annaðist útgerð þess og Daybreak Fishing Company Ltd. væri eigandi þess, en sóknaraðili hefði lagt til nánar greinda fjárhæð í bandaríkjadölum til kaupa á aflaheimildum fyrir skipið. Var þar um að ræða þá fjárhæð, sem sóknaraðili hafði á áðurgreindan hátt lánað Sarmat Nord Ltd. 26. apríl 2001. Í umræddum samningi frá 27. apríl 2001 lýsti Sarmat Nord Ltd. sig skuldbundið til að endurgreiða sóknaraðila þessa fjárhæð af söluverði afla, sem landað yrði í Noregi í maí á því ári og varnaraðili tæki að sér að selja. Sama félag lýsti því og yfir ásamt Melbrún hf. að varnaraðila væru á óafturtækan hátt gefin fyrirmæli um að greiða fjárhæðina inn á tiltekinn bankareikning sóknaraðila af andvirði afla skipsins. Varnaraðili lýsti því yfir að hann staðfesti gagnvart sóknaraðila að hann myndi halda eftir fé fyrir umsaminni greiðslu af andvirði aflans og inna hana af hendi inn á bankareikning sóknaraðila innan 30 daga frá löndun. Í lokaákvæði samningsins var tekið fram að um hann færi eftir íslenskum lögum, svo og að mál um hvers konar ágreining, sem kynni að rísa vegna samningsins eða í tengslum við hann, skyldi rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samsvarandi samningar voru gerðir milli þessara fjögurra félaga 19. júní og 2. júlí 2001 um endurgreiðslu lána, sem sóknaraðili veitti Sarmat Nord Ltd. með fyrrnefndum samningum þeirra tveggja frá sömu dögum.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðila 10. október 2001 og var það þingfest á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. sama mánaðar. Í héraðsdómsstefnu kom meðal annars fram að eina greiðslan, sem sóknaraðila hafi borist frá varnaraðila, hafi komið 11. júní 2001 og verið að fjárhæð 300.000 bandaríkjadalir. Af henni hafi 72.340 bandaríkjadölum verið varið til „endurgreiðslu á öðrum kostnaði“ sóknaraðila, en eftirstöðvarnar, 227.660 bandaríkjadalir, hafi gengið upp í skuld Sarmat Nord Ltd. við hann. Þar af hafi greiðst 10.164 bandaríkjadalir í áfallna vexti, en 217.496 bandaríkjadalir upp í höfuðstól skuldarinnar, sem stæði þá í 235.327 bandaríkjadölum, sem var dómkrafa sóknaraðila. Samkvæmt stefnunni beindi sóknaraðili þessari kröfu að varnaraðila aðallega á þeim grundvelli að sá síðastnefndi hefði í fyrrnefndum samningum sínum við Sarmat Nord Ltd., Melbrún hf. og Daybreak Fishing Company Ltd. gefið sóknaraðila sjálfstætt loforð um greiðslu, en jafnframt að varnaraðili væri skaðabótaskyldur við sóknaraðila ef andvirði afla umrædds fiskiskips hefði verið ráðstafað á annan veg en kveðið var á um í samningunum.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi á þeim grundvelli að heimild skorti gegn andmælum hans til að reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

II.

Sóknaraðili reisir heimild sína til að reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á áðurgreindu ákvæði um varnarþing í samningum varnaraðila við Sarmat Nord Ltd., Melbrún hf. og Daybreak Fishing Company Ltd. frá 27. apríl, 19. júní og 2. júlí 2001. Með 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, sem heimilar aðilum einkamáls að semja um meðferð þess í hverri þinghá sem er hér á landi, er vikið frá þeirri almennu reglu að mál verði rekið á heimilisvarnarþingi stefnda, sbr. 32. gr. og 33. gr. sömu laga. Skuldbinding aðila í samningi um að sæta málsókn á hendur sér utan heimilisvarnarþings síns horfir honum almennt til íþyngingar, auk þess sem af því getur leitt að um lögskiptin verði beitt réttarreglum annars ríkis en hann er búsettur í. Gegn andmælum þess, sem stefnt er á slíkum grunni í einkamáli, verður því að vera ótvíræð stoð fyrir að hann hafi gengist undir að málið verði rekið á hendur sér utan þess varnarþings, sem ella hefði átt við eftir almennum reglum.

Sóknaraðili var ekki aðili að umræddum samningum frá 27. apríl, 19. júní og 2. júlí 2001, þótt þeir hafi varðað hagsmuni hans. Hann hafði ekki fyrir sitt leyti gengist undir að mál á hendur sér um þessa hagsmuni hans yrði rekið í þeirri þinghá, sem þar greindi. Að öllu þessu gættu er varhugavert að skýra varnarþingsákvæði þessara samninga á þann hátt að þau geti fellt skyldu á varnaraðila til að sæta því að sóknaraðili reki í þeirra skjóli mál þetta á hendur honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Wellington Management Services Ltd., greiði varnaraðila, Aalesund Seafood AS, 60.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2002.

I

Mál þetta var höfðað 10. október 2001 og tekið til úrskurðar hinn 21. febrúar 2002, að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.  Stefnandi er Wellington Management Services Limited, Delaware, Bandaríkjunum, en stefndi er Aalesund Seafood AS, Devoldsgate 13, Aalesund, Noregi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda USD 235.327,00, með 24% vöxtum af USD 241.233,00 frá 23. mars 2001 til 1 l. júní 2001, en af USD 161.727.000 frá þ.d. til 29. júní 2001, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er þess krafist að áfallnir vextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 23. mars 2001, allt í samræmi við 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar.

Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara sýknu.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.

Hinn 21. febrúar sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hrundið en auk þess krefst hann málskostnaðar.

II

Fyrirtækið Sarmat Nord Ltd., Rússlandi gerði á árinu 1997 leigusamning (Bareboat Charter) um togarann Pechenga (þá nefnt "Peter"). Togarinn er skráður í skipaskrá í Rússlandi, en með undirliggjandi skráningu í St. Vincent og Grænhöfðaeyjum.  Togarinn Pechenga mun um árabil hafa stundað veiðar á fiski í Barentshafi, samkvæmt rússneskum aflaheimildum. 

Stefndi kveður að með samningi 6. ágúst 1999, hafi fyrirtækið tekið sér að annast sölu fiskafla sem skipið Pechenga aflaði í Barentshafi.  Aðilar samnings þessa auk stefnda voru eigandi skipsins, Daybreak Fishing Company Ltd., kaupleiguhafi, og útgerðaraðili þess, Sarmat Nord Ltd., og umboðsmaður útgerðaraðila, Melbrún ehf.

Stefnandi greinir svo frá að í apríl 2001, er aflaheimildir skipsins hafi verið uppurnar, hafi hann samþykkt að lána fé til kaupa á viðbótaraflaheimildum fyrir skipið, samtals 948 tonn af rússneskum þorsk- og ýsukvóta, fyrir samtals 452.823,00 bandaríkjadali.  Alls hafi verið gerðir 3 samningar um þessa lánsfjármögnum sem nánar tilgreindir séu eftirfarandi:

l. Samningur, dagsettur 26. apríl 2001, sem varðar kaup á 488 tonnum á kvóta fyrir samtals 241.223 Bandaríkjadali.

2. Samningur, dagsettur 19. júní 2001, sem varðar kaup á 300 tonnum af kvóta fyrir samtals 138.000 Bandaríkjadali.

3. Samningur, dagsettur 2. júli 2001, sem varðar kaup á 160 tonnum af kvóta fyrir samtals 73.600 Bandaríkjadali.

Í samhljóða ákvæðum í öllum ofangreindum samningum, er kveðið á um það að Sarmat Nord Ltd. endurgreiði stefnanda lán ásamt vöxtum, af afla skipsins og að aflinn verði seldur af stefnda samkvæmt sölusamkomulagi þar um frá 6. ágúst 1999. Þá eru ákvæði í samningunum þar sem Sarmat Nord Ltd. og Melbrún Ltd. gefa stefnda fyrirmæli um að greiða af verðmæti afla skipsins lánsfjárhæðina hverju sinni auk vaxta, inn á bankareikning stefnanda.  Jafnframt hafi stefndi skuldbundið sig til að draga lánsfjárhæðina af aflaverðmætinu og greiða inn á reikning stefnanda í síðasta lagi 30 dögum eftir að uppskipun á afla hafði átt sér stað.

Hinn 11. júní innti stefndi af hendi 300.000,00, Bandaríkjadala greiðslu til stefnanda.  Lögmaður stefnanda sendi stefnda kröfubréf 16. ágúst 2001.  Af hálfu lögmanns stefnda var óskað eftir gögnum þess efnis að greiðsla stefnanda á kvóta hafi farið fram þar sem skylda stefnda um greiðslu væri háð fjármögnun stefnanda á kvótakaupum.   Í bréfi forsvarsmanns Melbrúnar ehf. til lögmanns stefnda frá 7. september 2001, kemur fram að fyrirtækið telji að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi fjármagnað kvóta fyrir Sarmat Nord Ltd.   Þvert á móti sýni þau skjöl sem stefnandi hafi lagt fram að engin slík fjármögnun hafi farið fram.  Sé það meginforsenda þess að Melbrún ehf. hafi fyrirskipað stefnda að greiða ekki frekar inn á reikning stefnanda.

III

Krafa stefnanda byggir á því að hann hafi lánað útgerðaraðila skipsins (Sarmat Nord) peninga til kaupa á tilteknum aflaheimildum fyrir skipið Pechenga, eins og nánar sé tilgreint í ofangreindum samningum. Lánveiting þessi hafi verið bundin því skilyrði af hálfu stefnanda að endurgreiðsla lánsins yrði tryggð í verðmæti því er fyrir aflann kæmi.

Stefndi hafi með ofangreindum samningum samþykkt að selja afla skipsins og jafnframt samþykkt að vera vörslumaður aflaverðmætisins. Þá hafi stefndi tekist á hendur þá skyldu gagnvart stefnanda að halda eftir af aflaverðmætinu tilteknum fjármunum, sem samsvari stefnufjárhæð máls þessa og greiða beint til stefnanda.

Stefndi hafi í samningum þeim er mál þetta varðar gefið stefnanda sjálfstætt loforð um samningsefndir, samanber samhljóða ákvæði í 3. mgr. 3. gr. tilvitnaðra samninga.

Stefndi hafi samþykkt að endurgreiðsla á lánum þessum til stefnanda skyldi ganga framar öllum kröfum sem stefndi kynna að eiga á hendur, Sarmat Nord, Daybreak Fishing Company eða Melbrún ehf.  Hafi stefnda verið það kunnugt að það hafi verið ákvörðunarástæða fyrir lánveitingu stefnanda að endurgreiðsla lánsins yrði tryggð með þessum hætti.

Stefnda hafi sem vörslumanni peninga þessara borið að ráðstafa þeim á þann hátt sem kveðið sé á um í tilgreindum samningum, þ.e. inná bankareikning stefnanda.  Stefndi hafi hins vegar ráðstafað þessum fjármunum á annan veg en samningar þessir kveði á um. Stefndi hafi með því bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda máls þessa, sem samsvari stefnufjárhæð.

Stefnandi sundurliðar höfuðstólsfjárhæð kröfu sinnar þannig:

1. Lán samkvæmt samningi dags. 26. apríl 2001, sbr. viðbótarsamning dags. 19. júní 2001, 241.223,00 Bandaríkjadalir.

Til frádráttar komi innborgun dags. l. júní 2001, 217.496,00 Bandaríkjadalir (440 tonn x 494,31 Bandaríkjadalir)

2. Lán samkvæmt samningi dags.19. júní 2001, 138.000,00 Bandaríkjadalir.

3. Lán samkvæmt samningi dags. 2. júlí 2001, 73.600,00 Bandaríkjadalir.

Samtals 235.327,00, Bandaríkjadalir sem sé stefnufjárhæð máls þessa.

Þrátt fyrir greiðslutilmæli stefnanda og einnig útgerðaraðila skipsins, Sarmat Nord Ltd., hafi ofangreind fjárhæð ekki verið greidd og sé því málshöfðun þessi nauðsynleg.

Stefndi byggir á því að stefnandi, sem sé fyrirtæki skráð í Bandaríkjunum, sé ekki aðili að ofangreindum þremur samningum.  Ákvæði samninganna sem stefnandi byggi rétt sinn á, um varnarþing á Íslandi, eigi því ekki við hvað varðar kröfugerð stefnanda.  Stefnandi, sem sæki rétt sinn til stefnda, sem sé með lögheimili í Noregi, beri því að sækja þetta mál fyrir norskum dómstóli.  Vísa beri því máli þessu frá dómi, enda sé ekkert ákvæði í V. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um varnarþing sem heimili stefnanda að höfða mál þetta hér á landi.

Til viðbótar við rökstuðning fyrir kröfu sinni um frávísun málsins, þá sé raunverulegum skuldara meintrar lánveitingar ekki stefnt í máli þessu.  Engar kröfur séu hafðar uppi á hendur Sarmat Nord Ltd. til staðfestingar á því að meint lánveiting hafi átt sér stað, en það sé einmitt forsenda kröfugerðar stefnanda.  Stefnandi bregði því út af skyldu til samaðildar sem kveðið sé á um í 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála og beri því að vísa máli þessu frá dómi.

Til stuðnings kröfum sínum um frávísun málsins vísar stefndi til V. kafla laga nr. 91/1991, svo og til 18. gr. sömu laga.   Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130. gr. sömu laga.

Stefnandi hafnar því að taka eigi frávísunarkröfu stefnda til greina.  Stefnandi hafi fallist á að lána útgerðaraðila fé til kvótakaupa, lánið hafi verið dregið af söluandvirði aflans og um það gerðir samningar sem í felist þriðja manns loforð stefnanda til handa.  Hvað varði þau rök stefndu að um skyldu til samaðildar samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 sé að ræða þurfi að líta til þess hvort skyldan hvíli á tveimur eða fleiri og að skyldan verði ekki efnd nema fyrir tilstilli beggja eða allra.  Krafa hans snúist um efndir á samningi og því sé ekki um óskipta skyldu að ræða.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar og reglna um skaðabætur innan samninga.  Kröfu um vexti byggir stefnandi á samningi aðila þar um sbr. og heimild í II. kafla laga nr. 25/1987, sbr. og II. kafla laga nr. 38/2001.  Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði.

IV

Í málinu liggur fyrir, að í tilefni af lánsfjármögnun stefnanda voru gerðir þrír samningar og er efni þeirra að nokkru rakið hér framar.  Aðilar að þessum samningum eru Melbrún ehf.,  Sarmat Nord Ltd., stefndi, Aalesund Seafood AS, og Daybreak Fishing Company Ltd.  Í þeim öllum tekst Sarmat Nord Ltd. á hendur þá skyldu að endurgreiða stefnanda lán með vöxtum og jafnframt er kveðið á um að stefndi greiði andvirði söluverðs fyrir afla skipsins “Pechenga” inn á reikning stefnanda fyrir tilstilli Sarmat Nord Ltd. og Melbrúnar ehf. og ekki síðar en 30 dögum eftir uppskipun aflans.  Er þar og kveðið á um að úr ágreiningi vegna samningsins verði leyst eftir íslenskum lögum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.  Í samningum þessum er kveðið á um ákveðin lögskipti sem lúta að stefnanda og stefnda og áhrif hafa á hagsmuni stefnanda, en skyldan verður ekki innt af hendi nema fyrir tilstuðlan þeirra aðila er að samningnum stóðu.  Verður ekki séð að stefnandi, sem ekki er aðili að samningunum þremur, geti byggt á þeim rétt gagnvart stefnda enda er meginreglan sú að með samningi stofnist einungis réttindi og/eða skyldur fyrir þá aðila sem að samningnum standa.  Stefnandi hefur því ekki öðlast sjálfstæðan rétt á hendur stefnda samkvæmt umræddum samningum og getur því ekki byggt á ákvæði þeirra um varnarþing á Íslandi.  Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 75.000 krónur. 

Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.

ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Wellington Management Services Limited, greiði stefnda, Aalesund Seafood AS, 75.000 krónur í málskostnað.