Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2015


Lykilorð

  • Ríkisstarfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn


                                     

Fimmtudaginn 24. september 2015.

Nr. 81/2015.

Magnús Björnsson

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Landspítala

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Ríkisstarfsmenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.

M krafðist bóta úr hendi L vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Talið var að uppsögnin hefði átt þann aðdraganda að M hafði lýst ítrekað yfir eindreginni ósk um starfslok vegna fyrirætlana L um breytingar á starfsviði sínu. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir yfirmenn þeirra sem væru til þess bærir heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og væri það háð mati hinna fyrrnefndu hvort tilefni væri til slíkra breytinga, enda væru þær reistar á málefnalegum forsendum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn bæri til. M hefði verið í sjálfsvald sett að bregðast við fyrirætlunum L á þann hátt sem hann gerði með ósk um starfslok, sbr. 2. málslið fyrrgreinds lagaákvæðis. Var L sýknað af kröfu M.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 10.755.980 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2013 til 5. október sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að dómkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi beindi stefndi bréfi til áfrýjanda 2. maí 2013, þar sem sá fyrrnefndi sagði þeim síðarnefnda upp störfum. Með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að uppsögnin átti þann aðdraganda að áfrýjandi lýsti ítrekað yfir eindreginni ósk um starfslok vegna fyrirætlana stefnda um breytingar á starfsviði sínu. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 6. júní 2013 í máli nr. 131/2013 hefur í dómaframkvæmd réttarins verið gengið út frá því að 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins veiti forstöðumönnum ríkisstofnana og öðrum yfirmönnum þeirra sem til þess séu bærir ótvíræða heimild til að breyta störfum og verksviði ríkisstarfsmanna og sé það háð mati hinna fyrrnefndu hvort tilefni sé til slíkra breytinga, enda séu þær reistar á málefnalegum forsendum og ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmenn en nauðsyn beri til. Áfrýjanda var í sjálfsvald sett að bregðast við fyrirætlunum stefnda á þann hátt sem hann gerði með ósk um starfslok, sbr. 2. málslið fyrrgreinds lagaákvæðis. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2014.

                Mál þetta höfðaði Magnús Björnsson, Jakaseli 1a, Reykjavík, með stefnu birtri 28. nóvember 2013 á hendur Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Eiríksgötu 5, 101 Reykjavík.  Málið var dómtekið 5. desember sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 10.755.980 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. maí 2013 til 5. október 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðslu­dags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.  Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og máls­kostnaður felldur niður. 

                Stefnandi er menntaður rafeindavirki og rafmagnsiðnfræðingur.  Hann starfaði í um 35 ár hjá stefnda sem sérhæfður tæknimaður, síðast verkstjóri í heilbrigðis- og upplýsingatæknideild. 

                Í stefnu hefst málavaxtalýsing á því að stefnanda hafi verið sagt upp, tilefnis- og fyrirvaralaust þann 2. maí 2013.  Í greinargerð stefnda kemur fram að stefnandi átti fund með Hjörleifi Halldórssyni rekstrarstjóra þann 23. apríl 2013, en Hjörleifur var næsti yfirmaður stefnanda.  Segir í greinargerðinni að tilgangur fundarins hafi verið að ræða fyrirhugaðar breytingar á starfi stefnanda.  Þær hafi falist í því aðallega að auka stjórnunarþátt starfsins og því hafi stefndi talið nauðsynlegt að krefjast þess að starfs­maðurinn hefði háskólamenntun í verkfræði eða eðlisfræði. 

                Við upphaf aðalmeðferðar var lagt fram í dóminum bréf sem stefnandi ritaði Birni Zoëga, þáverandi forstjóra stefnda, dags. 17. maí 2013.  Í bréfinu kemur fram lýsing stefnanda á atvikum og er því rétt að rekja þá frásögn stuttlega.  Í inngangi segir orðrétt:  „Tilefni þessa bréfs er að útskýra atburðarás í kjölfar þess að mér var sagt upp störfum á Landspítala.  Ég tel nauðsynlegt að gera grein fyrir henni þar sem mér hefur borist til eyrna sá orðrómur að ég hafi sjálfur viljað hætta störfum ...“ 

                Því næst er fundinum með Hjörleifi lýst.  Segir stefnandi þar að Hjörleifur hafi sagt honum upp störfum og viljað að hann hætti strax.  Síðan hafi Hjörleifur reifað mismunandi form starfsloka.  Hafi hann að lokum gengið út töluvert reiður. 

                Stefnandi segir síðan frá því að hann hafi leitað til skrifstofu SFR daginn eftir.  Þá hefði hann heyrt frá tveimur samstarfsmönnum sínum að þeir hefðu heyrt að upp­sögn hans væri í ferli.  Þennan sama dag hafi Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmda­stjóri kvenna- og barnasviðs, boðað sig á fund, sem síðan var haldinn 29. apríl.  Stefnandi skrifar síðan að hann hafi farið á sumardaginn fyrsta, 24. apríl, og tæmt skrifstofuna sína. 

                Um fundinn 29. apríl segir stefnandi í bréfinu að Jón Hilmar hafi sagt að ekki hefði verið ætlunin að segja honum upp fyrr en um haustið þegar nýr línuhraðall yrði kominn.  Þann 30. apríl hefði Dómhildur Árnadóttir, mannauðsráðgjafi á kvenna- og barnasviði, haft samband við hann og boðið honum að koma og taka við uppsagnar­bréfi.  Hafi hann beðið um að það yrði 2. maí.  Á þeim fundi hafi Jón Hilmar enn spurt hvort honum hefði ekki snúist hugur.  Hann hefði neitað því þar sem hann gæti ekki hugsað sér að starfa áfram undir stjórn manna sem hefðu sagt honum upp eftir að hann hefði sinnt starfi sínu af heilindum í 35 ár. 

                Frásagnir stefnanda og Hjörleifs af fundinum í skýrslum þeirra fyrir dómi eru ólíkar, nema hvað þeir eru sammála um að fundurinn hafi verið mjög stuttur.  Stefnandi sagði að Hjörleifur hefði byrjað fundinn með því að segja honum upp störfum, að hann ætti að hætta strax, en sinna línuhraðlinum fram á haustið.  Sagði hann að sér hefði ekki verið boðin nein tilfærsla í starfi á þessum fundi.  Hjörleifur kvaðst hvorki hafa sagt stefnanda upp né sagt að það stæði til.  Stefnandi hefði reiðst og hann hafi því ekki náð að ljúka þeirri umfjöllun sem hann hafi ætlað sér um breytingar á starfi stefnanda. 

                Hjörleifur hafði í kjölfarið samband við Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmda­stjóra kvenna- og barnasviðs Landspítalans.  Átti hann tvo fundi með stefnanda eins kemur fram í áðurnefndu bréfi.  Með þeim voru á fundunum Dómhildur Árnadóttir, mannauðs­ráðgjafi hjá stefnda, og fulltrúi frá stéttarfélagi stefnanda. 

                Stefnandi lýsir fundum þessum svo að ekki hafi verið lagt fram neitt um breytingar á starfi hans.  Aðeins hafi verið sagt að það ætti að fá einhvern sem hefði meiri menntun.  Annars hefði ekkert verið útskýrt.  Sér hefði ekki verið boðið annað starf á fundinum.  Þá hefði sér ekki verið boðið að andmæla breytingunum.  Sér hefði þó verið sagt að Hjörleifur hefði ekki átt að segja honum upp.  Hann hefði haft það á tilfinningunni að það ætti að bola honum úr starfi. 

                Jón Hilmar Friðriksson kvaðst hafa beðið stefnanda að íhuga að það yrðu breytingar á starfi hans.  Stefnandi hafi hins vegar ekki viljað vinna lengur hjá stefnda.  Hann hafi loks afhent honum uppsagnarbréfið á fundinum 2. maí.  Hann sagði að það hefði verið misskilningur hjá stefnanda að honum yrði sagt upp strax um haustið.  Ekki hafi staðið til að segja honum upp.  Stefnandi hafi hins vegar neitað öllu á fundinum og sagt að komið hefði verið illa fram við sig.  Hann hafi viljað að gengið yrði frá starfslokum hans. 

                Dómhildur Árnadóttir, mannauðsráðgjafi á kvenna- og barnasviði, sat þessa tvo fundi með Jóni Hilmari og stefnanda.  Hún kvaðst lítið muna í smáatriðum hvað hefði farið fram á fundunum, en þau hefðu viljað koma því að að tilgangurinn hefði ekki verið að segja stefnanda upp störfum.  Stefnandi hefði ekki verið samvinnuþýður á fundunum þótt Jón Hilmar hefði sagt að hann vildi hafa hann í starfi og rætt ýmsa möguleika á því. 

                Fulltrúi SFR sem sat fundi þessa með stefnanda var ekki leiddur fyrir dóminn. 

                Áðurgreint uppsagnarbréf hefur fyrirsögnina „Uppsögn ráðningarsamnings vegna breytinga á starfi – breyttar hæfiskröfur“.  Í texta bréfsins segir að vegna skipulagsbreytinga í deildinni hafi verið ákveðið að breyta starfi stefnanda.  Breytingin fæli í sér breyttar hæfniskröfur og auknar kröfur um menntun, meiri menntun en stefnandi hefði.  Væri honum því sagt upp störfum. 

                Stefnandi sagði í skýrslu sinni að hann hefði lent í því sem hann kallaði núning við Jón Hilmar og Björn Jónsson, deildarstjóra heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar.  Kvaðst hann halda að það hefði haft áhrif í þessu.  Hann sagði að deildinni hefði verið kollvarpað á árinu 2009 og að hann hefði verið ósammála því.  Hefði honum verið sagt upp 15. desember það ár, en uppsögnin hefði verið dregin til baka þremur dögum síðar.  Þá hefði hann ekki verið sammála Jóni Hilmari um kaup á sprautudælum fyrir vökudeildina á árinu 2012.  Hefði komið fljótt í ljós að dælur sem Jón Hilmar hefði viljað voru ekki öruggar. 

                Stefnandi kvaðst nánast ekkert hafa unnið eftir að hann hætti störfum hjá stefnda.  Hann hefði ráðið sig til fyrirtækis er heiti Inter, en sú vinna hefði verið unnin að talsverðu leyti á Landspítalanum og það hefði hann ekki getað hugsað sér.  Hann hefði fengið biðlaun í tólf mánuði eftir að hann hætti, en þann 1. júní 2014 hefði hann byrjað á lífeyri frá lífeyrissjóði sínum. 

                Hann sagði að þessi uppsögn hefði haft mun meiri áhrif á sig en hann hefði getað ímyndað sér.  Hann kvaðst stundum hafa verið það sem hann kallaði eins og í andlegri klessu. 

                Ásvaldur Kristjánsson, trúnaðarmaður rafeindavirkja á Landspítalanum, sagði í skýrslu sinni að hann hefði vitað að núningur hefði verið milli stefnanda og yfirmanna hans.  Hann hefði jafnvel farið í taugarnar á yfirmönnum sínum.  Jón Hilmar hefði ekki brugðist vel við athugasemdum sem þeir hefðu gert við val hans á nýjum dælum, eins og stefnandi lýsti.  Ásvaldur kvaðst hafa leitað eftir útskýringum á uppsögn stefnanda, en lítil svör fengið.  Hann sagði að engar raunverulegar breytingar hefðu orðið strax. 

                Hjörleifur Halldórsson rekstrarstjóri sagði í skýrslu sinni að það hefði átt að breyta skipulaginu.  Stjórnandinn hefði átt að stjórna meira, en ekki vera í viðgerðum.  Þessar breytingar væru að verða nú um þessar mundir.  Breytingar hefðu farið fyrr af stað en ætlað var vegna viðbragða stefnanda.  Umsjónarhópar hafi verið búnir til.  Meiri áhersla væri lögð á bókun um allt viðhald, eftirlit og öll atvik, meiri áhersla væri lögð á eftirlit í fyrirbyggjandi starfi. 

                Hjörleifur sagði að erfitt hefði verið að sinna starfi stefnanda.  Utanaðkomandi menn sinntu viðhaldi á línuhraðlinum og nú væri verið að mennta menn til þess.  Gísli Georgsson verkfræðingur sem hefði tekið við af stefnanda væri við stjórnun en ekki í viðhaldi sjálfur. 

                Jón Hilmar Friðriksson sagði að hugmynd sín með skipulagsbreytingunum hefði verið að endurskilgreina störf fólks eftir styrkleika hvers og eins.  Það hefði átt að ræða þetta við stefnanda, en þeir hefðu ekki komist svo langt á fundunum með honum.  Hann sagði að það tæki 3-5 ár að koma svo breytingum á.  Hann sagði að þetta tengdist ekki af sinni hálfu neinum deilum við stefnanda eða ávirðingum hans. 

                Stefnandi ritaði stefnda bréf, dags. 5. september 2013, þar sem hann krafðist skaða- og miskabóta.  Bréfinu var svarað með bréfi lögfræðideildar stefnda, dags. 25. september 2013.  Þar er atvikum lýst í meginatriðum á sama veg og fram kom í vitna­skýrslum, en þó virðist þar gert ráð fyrir því að stefnandi hefði allt að einu látið af störfum í lok árs 2013. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi segir að uppsögnin hafi verið sér mikið áfall.  Hann hefði helgað stefnda starfskrafta sína alla sína starfsævi.  Þá sé uppsögnin sérstaklega íþyngjandi þar sem ekki sé kostur á sambærilegu starfi hér á landi, en tækjabúnað þann sem hann hafi sérhæft sig í að sinna sé eingöngu að finna hjá stefnda. 

                Stefnandi byggir á því að svonefndar skipulagsbreytingar séu fyrirsláttur af hálfu stefnda.  Uppsögnin hafi ekki verið liður í hagræðingu, en nýr maður hafi verið ráðinn í stöðuna. 

                Þá byggir stefnandi á því að hann hafi ekki brotið af sér í starfi og stefndi sjálfur segi að hann hafi sinnt viðgerðum af mikilli kunnáttu og færni.  Uppsögn sín hafi verið rökstudd með vísan til 19. gr. laga nr. 70/1996 og því borið við að vegna breytinga og aukinna krafna til stjórnarhluta starfs stefnanda yrði að krefjast háskóla­menntunar í starfið.  Ný lýsing á starfinu sé hins vegar efnislega óbreytt um annað en að lýst sé kröfu um háskólamenntun á sviði verkfræði eða eðlisfræði. 

                Stefnandi kveðst byggja dómkröfuna nánar á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt, verulega íþyngjandi og meiðandi og hafi valdið honum umtalsverðu tjóni.  Hann hefði mátt vænta þess að halda starfi hjá stefnda ef hann gerðist ekki brotlegur í starfi eða starfið yrði lagt niður vegna hagræðingar.  Uppsögnin hafi ekki verið rök­studd og sér hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að.  Brotið hafi verið gegn réttmætis-, rannsóknar- og meðalhófsreglum stjórnsýsluréttar sem og andmælarétti stefnanda. 

                Stefnandi byggir á því að uppsögninni hafi verið beint að persónu sinni sérstaklega.  Meintar skipulagsbreytingar hafi verið til málamynda.  Jafnvel þótt skipulagi hefði verið breytt hefði það ekki heimilað uppsögn stefnanda. 

                Stefnandi mótmælir því að 19. gr. starfsmannalaganna heimili uppsögnina.  Samkvæmt ákvæðinu sé starfsmanni skylt að hlíta breytingum á starfi, en það veiti ekki heimild til uppsagnar.  Sér hafi hins vegar verið sagt upp með vísan til meintra skipulagsbreytinga. 

                Þá segir stefnandi að nýjar menntunarkröfur séu fyrirsláttur og geti ekki verið málefnaleg ástæða fyrir starfsmissi sínum.  Það að stefnandi hafi ekki háskólapróf geti ekki svipt hann rétti til að gegna starfi sem hann hafi gegnt með miklum sóma og prýði um langt skeið, einnig stjórnunarþætti þess.  Því hafi ekki verið haldið fram að hann væri ekki starfinu vaxinn.  Þá hafi ekki orðið sú breyting á starfinu að það krefjist náms í eðlisfræði eða verkfræði.  Sú menntun geti ekki gefið meiri hæfni til stjórnunar en sú þekking sem hann hafi aflað sé með áratuga reynslu og sérhæfingu.  Segir hann að það sé sérlega meiðandi fyrir sig að halda því fram að þessi þekking sé einskis nýt. 

                Þá segir stefnandi að þegar kröfum um menntun til ákveðinna starfa sé breytt, missi þeir sem gegnt hafi störfunum og fullnægt eldri skilyrðum ekki rétt til að halda áfram að gegna starfinu. 

                Nánar um bótakröfu. 

                Stefnandi kveðst vera 62 ára að aldri og hafi unnið alla sína starfsævi hjá stefnda.  Hann eigi ekki kost á sambærilegu starfi hérlendis eða annars konar starfi þar sem þekking hans, hæfni og reynsla myndi nýtast.  Það sé sérlega íþyngjandi fyrir sig að neyðast nú til að söðla um og finna nýjan starfsvettvang. 

                Stefnandi telur að laun í tólf mánuði frá starfslokum sem honum hafi verið skömmtuð bæti ekki tjón hans.  Krefst hann launa í tólf mánuði til viðbótar, 8.755.980 króna. 

                Þá segir stefnandi að uppsögnin hafi verið sérlega þungbær og meiðandi, enda algjörlega fyrirvara- og tilefnislaus.  Hún sé alvarleg meingerð gegn æru sinni og persónu.  Gert sé lítið úr menntun hans, hæfni og þekkingu og dregið strik yfir áratuga reynslu og sérhæfingu. Starfsævin sé raunverulega þurrkuð út, en hann hafi alla tíð borið hag stefnda sérstaklega fyrir brjósti og lagt sig fram um að vinna honum gagn.  Þá séu þær ástæður sem gefnar hafi verið fyrir uppsögninni hreinn uppspuni.  Krefst hann miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. 

                Stefnandi krefst vaxta frá dagsetningu uppsagnarbréfs, 2. maí 2013.  Hann krefst dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því er hann sendi kröfubréf, þ.e. frá 5. október 2013. 

                Stefnandi vísar til laga nr. 70/1996, einkum IX. kafla.  Þá vísar hann til almennu sakarreglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 26. gr., meginreglna stjórnsýsluréttar, m.a. réttmætis-, rannsóknar- og meðalhófsreglna svo og reglna um andmælarétt. 

                Málsástæður og lagarök stefnda 

                Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögleg.  Vegna breytinga á skipulagi og þar með starfi stefnanda hafi þurft að breyta skilyrðum sem starfsmaður þurfti að uppfylla, en skilyrði þessi hafi stefnandi ekki uppfyllt.  Mat á þessu hafi verið málefnalegt, en stefnanda hafi borið að hlíta breytingum sem kynnu að verða gerðar á starfi hans, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996. Stefnandi hafi hins vegar neitað að ræða breytingar á starfi sínu og fullyrt að honum hefði verið sagt upp störfum, sem hafi ekki verið rétt.  Þá hafi hann yfirgefið vinnustað sinn og lýst því yfir að hann myndi ekki vinna í uppsagnarfresti.  Því hafi stefndi sjálfur orðið að segja stefnanda upp störfum.  Stefnanda hafi verið greidd laun í eitt ár, að hluta til umfram skyldu. 

                Stefndi mótmælir því að engar raunverulegar breytingar hafi orðið á starfi stefnanda.  Starfinu tilheyri ekki lengur þau almennu verkefni sem verkstjóri tækni­þjónustu sinnti samkvæmt eldri starfslýsingu, eins og uppsetning og undirbúningur tækja.  Sú tæknivinna sé nú í höndum tæknimanna en umsjónarmaður viðhalds lækningatækja stýri starfseminni.  Þetta séu breytingar á starfi stefnanda.  Hann hafi í raun sinnt að miklu leyti starfi tæknimanns. 

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi ekki fengið tækifæri til að koma sjónar­miðum sínum á framfæri.  Tveir fundir hafi verið haldnir með stefnanda þann 24. og 29. apríl til að fjalla um fyrirhugaðar breytingar.  Stefnandi hafi yfirgefið fyrri fundinn og tæmt skrifstofu sína daginn eftir.  Á síðari fundinum hafi hann hafnað öllum við­ræðum og krafist starfsloka.  Það hafi verið ákvörðun stefnanda að ræða ekki fyrirhugaðar breytingar. 

                Stefndi mótmælir því að uppsögnin hafi beinst gegn persónu stefnanda.  Honum hafi borið að una breytingum á störfum sínum og verksviði, sem yfirmenn töldu nauðsynlegar.  Stefndi byggir á því að forsendur breytinganna hafi verið að öllu leyti málefnalegar og ekki haft neitt með persónu stefnanda að gera. 

                Stefndi mótmælir fjárkröfu stefnanda.  Hann krefjist tvöfaldra biðlauna í tólf mánuði.  Hann eigi ekki lögvarinn rétt til tvöfaldra launa á þessu tímabili.  Fyrir slíkri kröfugerð séu engin fordæmi.  Þá sé krafist fullra launa, að meðtöldu vaktaálagi, sem sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. 

                Stefndi kveðst hafa greitt stefnanda laun í uppsagnarfresti sem hafi samsvarað 12 mánuðum, umfram skyldu að hluta.  Uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið fimm mánuðir.  Tjón sé ósannað, en ætlað tjón sé til komið vegna eigin sakar stefnanda og vegna afstöðu hans og þeirrar ákvörðunar hans að hætta störfum.  Starfslok og ætlað tjón sé ekki afleiðing af uppsagnarbréfi stefnda og skilyrði um orsakasamband því ekki uppfyllt.  Jafnvel þótt talið yrði að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt hafi hann ekki sýnt fram á tjón sem bæta ætti.  Ekki finnist lagaheimild eða dómafordæmi til að viðurkenna frekari rétt stefnanda.  Þá vísaði stefndi í málflutningi til þess að fram hafi komið í aðilaskýrslu stefnanda að hann tæki nú lífeyri. 

                Stefndi mótmælir miskabótakröfu.  Uppsögnin hafi hvorki verið fyrirvara- né tilefnislaus.  Stefnandi hafi sjálfur komið málum í þennan farveg með því að neita öllum samræðum við fulltrúa stefnda um breytingar á starfi sínu.  Strax eftir fyrsta fundinn hafi stefnandi tæmt skrifstofu sína og ákveðið að hætta störfum.  Síðan hafi hann hafnað því að fundið yrði annað starf hjá stefnda og krafist starfsloka.  Þrátt fyrir að fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið tilkynntar með formlegum hætti þegar þarna var komið verði að miða við að stefnandi hafi sagt sjálfur upp störfum eftir 46. gr. laga nr. 70/1996 og tekið ákvörðun á grundvelli 2. málsliðar 19. gr. sömu laga.  Því hafi verið lögmætt að ljúka ráðningunni formlega á grundvelli 43. gr. og 2. málslið 1. mgr. 44. gr. nefndra laga.  Bótakrafa stefnanda sé óraunhæf í öllum tilvikum þar sem hann hafi sjálfur bundið enda á ráðningu sína.

                Stefndi segir að við þessar aðstæður hafi ekki verið skylt að gefa kost á and­mælum, en þó hafi það verið gert.  Mótmælir hann því að brotin hafi verið rannsóknarregla, réttmætisregla eða meðalhófsregla.  Ekki séu forsendur til að dæma miskabætur.  Ekki sé ólögmætri meingerð gagnvart stefnanda til að dreifa.  Ekki hafi á nokkurn hátt verið dregið úr gildi menntunar hans, hæfni hans eða þekkingu. 

                Um varakröfu um lækkun bótakröfu vísar stefndi til sömu sjónarmiða um að stefnanda hafi þegar verið greiddar ríflegar bætur. 

                Miskabótakröfu er mótmælt sem allt of hárri.  Loks er vaxta- og dráttarvaxta­kröfum mótmælt. 

                Niðurstaða

                Stefnandi átti þrjá fundi með yfirmönnum sínum í lok apríl og byrjun maí 2013.  Yfirmenn hans kveðast hafa viljað kynna honum fyrirhugaðar breytingar á skipulagi deildarinnar sem stefnandi starfaði við og þá einnig á hans starfi.  Fram kom í skýrslu Jóns Hilmars Friðrikssonar að skipulagsbreytingar þær sem hann vildi hrinda í framkvæmd hafi ekki verið fullmótaðar og ekki virðist hafa verið búið að lýsa þeim skriflega.  Eins og á stóð hefði verið heppilegra að lýsa breytingunum í stórum dráttum í formi minnisblaðs, áður en viðræður hófust við einstaka starfsmenn sem breytingarnar snertu.  Hvað sem því líður er ósannað að breytingarnar hafi verið fyrir­sláttur og til þess gerðar að bola stefnanda úr starfi.  Hefur verið sýnt fram á að uppi voru hugmyndir um raunverulegar breytingar á skipulagi deildarinnar.  Er ósannað að áætlanir þessar hafi verið gerðar í því skyni að koma höggi á stefnanda eða hreinlega að losna við hann.  Þau dæmi sem hann tekur um ósætti eða núning benda ekki til þess að umtalsverður ágreiningur hafi verið uppi á vinnustaðnum og er ekki sennilegt að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið för við framkvæmd þessara breytinga. 

                Í stefnu er byggt á því að stefnanda hafi verið sagt upp störfum skriflega þann 2. maí 2013.  Í aðilaskýrslu hans fyrir dóminum og í bréfi hans til forstjóra stefnda kom fram að hann hefði litið svo á að sér hefði verið sagt upp þegar þann 23. apríl, á fundinum með Hjörleifi Halldórssyni.  Hjörleifur kvað svo ekki hafa verið.  Þessa fundar er ekki getið í stefnu.  Eins og málið er lagt upp verður að miða við að stefnanda hafi verið sagt upp 2. maí.  Er og ósannað að Hjörleifur hafi sagt stefnanda upp störfum, en til þess hafði hann ekki heimild og gerði það þá heldur ekki skriflega. 

                Í kjölfar fundarins með Hjörleifi virðist sem stefnandi hafi ákveðið að hætta þegar störfum.  Hann átti fund með Jóni Hilmari þann 29. apríl og er þá ófáanlegur til að halda áfram.  Afstaða hans var óbreytt á fundi þeirra 2. maí.  Stefnanda og Jóni ber ekki saman um hvaða kostir um áframhaldandi starf voru kynntir stefnanda.  Gegn framburði stefnanda stendur framburður Jóns Hilmars og Dómhildar Árnadóttur mannauðsráðgjafa.  Að framburði þeirra virtum er ósannað að stefnanda hafi í raun verið gert að hætta störfum eða að honum hafi verið tjáð að honum yrði sagt upp fljótlega.  Verður hér að líta til ákvæða 19. gr. starfsmannalaganna, en stefnanda bar að hlíta breytingum á starfsskyldum sínum og verkefnum.  Ekki er byggt á því af hálfu stefnda að 19. gr. heimili uppsögn stefnanda.  Eins og áður segir er ósannað breytingar þessar hafi verið fyrirsláttur. 

                Þótt stefnandi hefði í raun hætt störfum og ekki verið reiðubúinn til að starfa áfram í þjónustu stefnda, var honum sagt upp störfum með uppsagnarbréfinu þann 2. maí.  Uppsögn þessi var ekki fyrirvaralaus er hér var komið sögu og hafði stefnandi sjálfur gefið tilefni til hennar.  Telja verður eins og áður segir ósannað að stefnanda hafi verið sagt upp störfum á fundi hans með Hjörleifi Halldórssyni 23. apríl, en einnig er ósannað að honum hafi verið sagt eða gefið í skyn að honum yrði sagt upp fljótlega.  Þá var honum ekki sagt upp á fundinum 29. apríl eða sagt að það yrði gert.  Verður að leggja til grundvallar í samræmi við framburð Jóns Hilmars og Dómhildar að þau hafi viljað að stefnandi yrði áfram í starfi hjá stefnda.  Loks verður að telja sannað að stefnandi hafi sjálfur lýst því að hann væri ekki reiðubúinn að starfa áfram hjá stefnda og hafi óskað eftir því að hætta.  Að þessu virtu var uppsögn hans lögmæt og ekki brotið gegn neinum reglum stjórnsýsluréttar, réttmætis- rannsóknar- eða meðalhófsreglum.  Þá bera atvik skýrt með sér að ekki var brotið gegn andmælarétti stefnanda. 

                Verður að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir fjártjón.  Á sama hátt verður að hafna kröfu hans um miskabætur þar sem uppsögnin var lögmæt.  Verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 

                Rétt er að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Landspítali - háskólasjúkrahús, er sýknaður af kröfum stefnanda, Magnúsar Björnssonar. 

                Málskostnaður fellur niður.