Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Kaupleiga
- Riftun
|
|
Mánudaginn 27. október 2014. |
|
Nr. 672/2014.
|
Halldór Hauksson (Ásbjörn Jónsson hrl.) gegn Lýsingu hf. (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Kaupleiga. Riftun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem L hf. var heimilað að fá tilgreinda bifreið tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum H og fengna sér þar sem H hefði ekki staðið í skilum með greiðslur samkvæmt kaupleigusamningi aðilanna um bifreiðina. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. rakið að við meðferð málsins í héraði hefði H aflað útreiknings á stöðu skuldarinnar samkvæmt samningnum eftir þeim forsendum sem hann taldi rétt að miða við og greitt L hf. í samræmi við útreikninginn. Hefði H með þessu viðurkennt að hann hefði staðið í skuld við L hf. þegar sá síðarnefndi rifti samningi þeirra og gæti slík eftirfarandi greiðsla engu breytt um lögmæti þeirrar riftunar. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um heimild til aðfararinnar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014, þar sem varnaraðila var heimilað að fá bifreið með skráningarnúmerinu VO 933 tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengna sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til kaupleigusamnings, sem aðilarnir gerðu 27. desember 2006 um fyrrnefnda bifreið sem skráð er á nafni varnaraðila, en í honum var meðal annars mælt fyrir um að fjárhæð greiðslna sóknaraðila á hverjum tíma yrði háð breytingum á gengi tveggja erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Varnaraðili reiknaði stöðu samningsins á nýjan leik 25. október 2010 með tilliti til þess að ákvæði hans um gengistryggingu hafi verið andstæð lögum. Vegna nánar tiltekinna vanefnda, sem varnaraðili taldi að orðið hefðu í framhaldi af þessu á greiðslum úr hendi sóknaraðila, lýsti varnaraðili yfir riftun samningsins með símskeyti til sóknaraðila 8. nóvember 2013. Hann krafðist síðan 12. desember sama ár heimildar til að fá bifreiðina tekna úr umráðum sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Undir rekstri þessa máls í héraði aflaði sóknaraðili útreiknings á stöðu skuldar samkvæmt samningnum eftir forsendum, sem hann taldi rétt að taka mið af, og greiddi 8. maí 2014 í samræmi við niðurstöðu útreikningsins 163.160 krónur til varnaraðila, en með þessu telur sóknaraðili sig hafa endanlega gert upp skuld við varnaraðila á grundvelli samningsins. Án tillits til þess hvort áðurnefndur útreikningur varnaraðila 25. október 2010 hafi verið í samræmi við lög og dómaframkvæmd hefur sóknaraðili með greiðslu sinni 8. maí 2014 viðurkennt að hann hafi staðið í skuld við varnaraðila þegar sá síðarnefndi rifti samningi þeirra. Slík eftirfarandi greiðsla getur úr því sem komið er engu breytt um lögmæti riftunarinnar, sem heimild varnaraðila til aðfarargerðar er háð. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, en eins og atvikum er háttað er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 2. september sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni, sem móttekin var 12. desember 2013.
Sóknaraðili er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Varnaraðili er Halldór Hauksson, Heiðargerði 70, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að bifreið af gerðinni Toyota Avensis, árgerð 2005, fastanúmer VO 933 verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin sóknaraðila. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði að hin umkrafða aðfarargerð nái fram að ganga. Til vara krefst varnaraðili þess að málskot til æðri dóms fresti gerðinni. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II
Málavextir
Samkvæmt gögnum málsins gerðu sóknaraðili sem leigusali og varnaraðili sem leigutaki, samning 27. desember 2006 sem ber yfirskriftina ,,Bílasamningur Lýsingar“. Framangreindur bílasamningur er í 28 greinum og ber með sér að um staðlað samningsform sé að ræða, þar sem efni fyrstu fjögurra greinanna er fyllt út, eftir því sem við á, en aðrar greinar hans eru staðlaðar. Í 1. gr. samningsins er hinu leigða lýst en um er að ræða bifreið af gerðinni Toyota Avensis, með fastanúmerið VO 933. Í 8. gr. samningsins kemur fram að sóknaraðili sé eigandi hins leigða. Samkvæmt útprentum úr ökutækjaskrá er sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar, en varnaraðili er skráður umráðamaður. Samkvæmt 4. gr. samningsins er samningsfjárhæð 1.945.582 kr. Samkvæmt sömu grein er samningurinn gengistryggður og allar fjárhæðir bundnar erlendum myntum í hlutföllunum „JPY 50%, CHF 50%“ og taka þær mið af þeim á hverjum tíma. Gengi/vísitala gjaldmiðla skyldi miðast við útborgunardag samnings. Samkvæmt 3. gr. skyldi leigutími vegna samningsins vera frá 27. desember 2006 til 5. janúar 2013. Fyrstu leigugreiðslu skyldi greiða 5. janúar 2007, en fjöldi greiðslna skyldi vera 72, og skyldu greiðslur vera mánaðarlegar. „Leigugreiðsla við undirritun“ var 40.000 kr. samkvæmt samningunum. Í 18. gr. samningsins kemur fram að leigutaki geti ekki sagt samningnum upp og ekki skilað bifreiðinni til leigusala við samningslok. Hins vegar geti leigutaki hvenær sem er greitt samninginn upp og skuli leigusali þá gefa út afsal fyrir bifreiðinni. Með samkomulagi málsaðila 22. mars 2010 var samningstíminn framlengdur til 5. apríl 2013 og fjárhæð afborgana lækkuð tímabundið. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 153/2010 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að umrætt bílasamningsform sóknaraðila bryti í bága við ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem þau gengisviðmið sem notuð voru í samningnum væru í andstöðu við ákvæðin. Væru þau því ekki skuldbindandi fyrir viðkomandi leigutaka. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 mælti rétturinn fyrir um að í stað gengistryggingarinnar skyldi greiða vexti samkvæmt 4. gr. nr. 38/2001. Í kjölfarið endurreiknaði sóknaraðili samninginn.
Sóknaraðili vörslusvipti bifreiðinni 24. nóvember 2011 í kjölfar riftunaryfirlýsingar hans á samningi aðila en hann taldi varnaraðila vera í vanskilum með samninginn. Í mars 2012 gerðu aðilar með sér samkomulag um að varnaraðili fengi bifreiðina aftur afhenta gegn því að hann greiddi 100.000 kr. inn á kröfu sóknaraðila. Lokauppgjör færi fram þegar niðurstaða samstarfsnefndar sem starfaði á grundvelli undanþágu Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 lægi fyrir. Með undanþágunni var Samtökum fjármálafyrirtækja veitt heimild til samstarfs í tilefni af dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 þar sem reyndi á gildi fullnaðarkvittana. Samstarfinu lauk sumarið 2012 en þá hafði nefndin valið prófmál þar sem reyndi á álitaefni sem þyrfti að fá úr skorið fyrir dómstólum. Hinn 29. október 2013 sendi sóknaraðili varnaraðila aðvörun um riftun samningsins þar sem hann taldi varnaraðila hafa vanefnt hann. Hinn 8. nóvember 2013 rifti sóknaraðili kaupleigusamningi aðila vegna ætlaðra vanskila varnaraðila. Sama dag mótmælti varnaraðili riftuninni og ætluðum vanskilum með bréfi til sóknaraðila. Sóknaraðili telur að á riftunardegi hafi heildarvanskil varnaraðila vegna kaupleigusamnings aðila verið 1.136.390 kr. að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Undir rekstri málsins lagði varnaraðili fram endurútreikninga Procura ráðgjafar ehf. á hinum umþrætta bílasamningi og greiddi í samræmi við það 163.160 kr. inn á reikning sóknaraðila 8. maí sl. Í útreikningum varnaraðila er tekið tillit til dóma sem fallið hafa í Hæstarétti varðandi fullnaðarkvittanir, þ.e. að fullnaðarkvittun geti valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu á hendur skuldara.
III
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að vegna vanskila varnaraðila á samningi aðila hafi sóknaraðila verið heimilt að rifta honum, sbr. 21. gr. samningsins þar sem finna megi heimild til riftunar án fyrirvara vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins. Sem dæmi sé nefnt ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi þessum á umsömdum gjalddögum. Á riftunardegi hafi samningstími samningsins verið liðinn og greiðslur frá apríl 2011 til apríl 2013 í vanskilum. Þar sem samningi aðila hafi verið rift séu umráð og afnot varnaraðila yfir bifreiðinni heimildarlaus og sé því sóknaraðila heimilt að fá bifreiðina tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila.
Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að varnaraðili hafi ekki gert sóknaraðila grein fyrir afstöðu sinni um það hverjar umsamdar greiðslur á grundvelli samningsins ættu að vera og boðið fram greiðslur samkvæmt því. Hafi sóknaraðila því verið heimilt að rifta samningi aðila. Það að varnaraðili hafi lagt fram útreikninga undir rekstri þessa máls geti með engu móti talist uppfylla fyrrgreinda reglu sem Hæstiréttur hafi markað. Sóknaraðili hafnar útreikningum varnaraðila sem röngum en vísar til þess að þeir sýni að samningur aðila hafi verið í vanskilum á riftunardegi sem leiði til þess að sóknaraðili hafði, vegna vanskilanna, haft heimild til þess að rifta samningi aðila.
Sóknaraðili byggir í þriðja lagi á því að í máli þessu eigi ekki að fjalla sérstaklega um fjárkröfuna að baki samningnum heldur einungis um rétt sóknaraðila til umráða yfir eign sinni. Sóknaraðili sé þinglýstur eigandi yfir bifreiðinni og þá komi einnig skýrt fram í samningi aðila að sóknaraðili sé eigandi bifreiðarinnar. Sóknaraðili hafi samningsbundna heimild til þess að krefjast þess að varnaraðili skili bifreiðinni, sbr. 22. gr. samnings aðila. Í ljósi þess að sóknaraðili hafi rift samningi aðila vegna vanskila varnaraðila eigi í máli þessu eingöngu að fjalla um rétt sóknaraðila yfir eign sinni og að annar ágreiningur, svo sem um skuldastöðu, komi ekki til skoðunar.
Sóknaraðili byggir í fjórða lagi á því að samningi aðila hafi verið komið í rétt horf með endurútreikningi sem tilkynntur hafi verið varnaraðila þann 25. október 2010. Framlögð skuldastaða varnaraðila hjá sóknaraðila gefi rétta mynd af vanskilum hans á samningnum og því hafi sóknaraðila verið heimilt að rifta samningi aðila.
Sóknaraðili hafnar því að varnaraðili geti borið fyrir sig undantekningarregluna um fullnaðarkvittun vegna lögskipta aðila.
Sóknaraðili hafnar því að hann hafi með tilkynningu á heimasíðu sinni skuldbundið sig til þess að endurreikna ekki bílasamning aðila fyrr en eftir gildistöku laga nr. 151/2010. Þá sé endurútreikningur samnings aðila í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 471/2010 sem og lög nr. 151/2010.
Sóknaraðili hafnar því að samkomulag aðila, sem kveðið hafi á um tímabundna frestun innheimtuaðgerða og varðar samstarf fjármálafyrirtækja, valdi því að honum sé ekki heimilt að innheimta kröfu sína. Sóknaraðili hafi hætt innheimtuaðgerðum tímabundið á meðan beðið var niðurstöðu um það hvort og þá hvernig haga ætti endurútreikningi. Nú þegar ljóst sé, að mati sóknaraðila, að fyrri endurútreikningur sem gerður hafi verið á samningi aðila sé réttur og endanlegur hafi hann heimild til að halda innheimtu á eftirstöðvum samningsins áfram.
Sóknaraðili mótmælir því, nái gerðin fram að ganga, að henni verði frestað þar til Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu í málinu.
Málsástæður varnaraðila
Í greinagerð varnaraðila byggir á því að hann hafi mótmælt riftun á bréfi til sóknaraðila hinn 8. nóvember 2013 þar sem ekki hafi verið um vanskil að ræða eða meint vanskil óljós.
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að með einhliða yfirlýsingu sóknaraðila frá 1. október 2010, um að ekki verði sendur endurreikningur lána fyrr en eftir afgreiðslu laga sem heimila slíkt, hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að endurreikna ekki kaupleigusamninginn fyrr en eftir gildistöku laga nr. 151/2010. Endurreikningurinn sem sóknaraðili byggi á hafi því verið gerður einhliða af sóknaraðila og án heimildar í lögum eða samkomulags við varnaraðila.
Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að með samkomulagi um lausn til bráðabirgða frá því í apríl 2012 hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að selja varnaraðila umrædda bifreið þegar fullnægjandi grundvöllur fyrir lokauppgjöri lægi fyrir í samræmi við niðurstöðu þess samstarfs sem samtökum fjármálafyrirtækja var veitt með undanþágu Samkeppniseftirlitsins frá 9. mars 2012, ákvörðun nr. 4/2012. Jafnframt hafi sóknaraðili skuldbundið sig til að hætta innheimtuaðgerðum. Forsendur varnaraðila við gerð umrædds samkomulags hafi verið þær að yrði umræddur samningur endurreiknaður í samræmi við dómafordæmi væri hann að öllum líkindum uppgreiddur. Umræddu samstarfi hafi lokið með tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins í byrjun sumars 2012. Varnaraðili hafi því talið að nægilega skýr dómafordæmi lægju fyrir til að unnt væri að ganga frá uppgjöri á kaupleigusamningi aðila í samræmi við fyrrgreint samkomulag.
Í þriðja lagi bendir varnaraðili á að skuldayfirlit sóknaraðila stangist á við yfirlýsingar hans í tölvupósti frá 2. júlí 2012 þess efnis að samkomulag væri í gildi um uppgjör og að eina ástæða þessara innheimtukrafna væri að ekki væri hægt að stoppa rafræna keyrslu þeirra. Geti yfirlitið ekki verið grundvöllur riftunar kaupleigusamningsins. Innheimt séu ýmis gjöld án nánari rökstuðnings eða skýringa.
Varnaraðili telur að með vísan til alls ofangreinds sé varhugavert í skilningi 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 að gerðin nái fram að ganga. Jafnframt beri að hafna beiðni sóknaraðila vegna þeirra takmörkuðu sönnunargagna, sem heimilt sé að afla samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar sem forsendur og innihald samkomulags verði ekki að fullu lýst án vitnaleiðslu. Slík óvissa sé um ætluð vanskil varnaraðila við riftun samningsins að ekki séu uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að leyfa hina umbeðnu aðfarargerð.
Í munnlegum málflutningi vísaði varnaraðili til þess að hann hefði nú lagt fram rétta endurútreikninga á láninu og greitt sóknaraðila í samræmi við það, sbr. innborgun frá 8. maí sl. Varnaraðili mótmælir því að hann hafi ekki gert sóknaraðila grein fyrir því hverjar greiðslur ættu að vera. Hann hafi óskað eftir að samningurinn yrði gerður upp í samræmi við gildi fullnaðarkvittana.
Varakröfu sína byggir varnaraðili á því að málið sé fordæmisgefandi og því séu ríkir hagsmunir fólgnir í því að varnaraðili haldi umráðum sínum yfir andlagi gerðarinnar þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í málinu.
IV
Niðurstaða
Sóknaraðili krefst í máli þessu innsetningar í bifreiðina VO 933 sem er í vörslum varnaraðila. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar, en varnaraðili er skráður umráðamaður. Er þessi skráning í samræmi við 8. gr. samnings aðila um fjármögnun bifreiðarinnar og tilgreiningu á stöðu aðila í upphafi hans. Eins og nánar er rakið í málavöxtum var umræddur samningur, sem ber yfirskriftina Bílasamningur Lýsingar, gerður 27. desember 2006. Samningurinn var gengistryggður og allar fjárhæðir hans bundnar við erlendar myntir. Í kjölfar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 153/2010 frá 16. júní 2010 og nr. 471/2010 frá 16. september 2010 endurreiknaði sóknaraðili samninginn.
Varnaraðili hefur í greinargerð sinni teflt fram nokkrum málsástæðum því til varnar að hin umbeðna gerð nái fram að ganga. Af þeim má helst ráða að hann telji yfirlýsingar sóknaraðila og samkomulag sem hann hafi gert við sóknaraðila standa í vegi fyrir innheimtuaðgerðum. Þannig er byggt á því að endurútreikningur sóknaraðila hafi ekki gildi þar sem hann hafi með yfirlýsingu 1. október 2010 skuldbundið sig til að endurreikna ekki samninginn fyrr en eftir gildistöku laga nr. 151/2010. Í málinu hefur ekki komið annað fram en að útreikningur sóknaraðila frá 25. sama mánaðar sé í samræmi við nefnd lög. Þótt nýr útreikningur ætti sér stað nú þá myndi það ekki breyta neinu um niðurstöðu hans. Þá vísar varnaraðili til samkomulags um að sóknaraðili léti af innheimtuaðgerðum þar til niðurstaða lægi fyrir vegna samstarfs sem samtökum fjármálafyrirtækja var veitt af Samkeppniseftirlitinu með ákvörðun þess nr. 4/2012. Fyrir liggur að umræddu samstarfi lauk sama ár en aðila greinir á um hvaða ályktanir megi draga af dómum í málum sem valin voru í tengslum við samstarfið. Getur þetta ekki staðið í vegi fyrir innheimtuaðgerðum sóknaraðila. Jafnframt er ekkert hald í þeirri málsástæðu varnaraðila að yfirlýsingar sóknaraðila í tölvupósti frá 2. júlí 2012 standi í vegi fyrir innheimtu.
Er sóknaraðili rifti samningi aðila 8. nóvember 2013 taldi hann sig eiga kröfu að fjárhæð 1.136.390 kr. á hendur varnaraðila. Þá hafði varnaraðili ekki greitt greiðslur samkvæmt samningnum frá því í ársbyrjun 2011 utan þess að hann greiddi 100.000 kr. til sóknaraðila í apríl 2012. Varnaraðili byggir á því að skuld hans við sóknaraðila hafi, er samningnum var rift, verið umtalsvert lægri. Undir rekstri þessa máls hefur hann lagt fram eigin útreikninga á því hver skuldin skuli vera og greiddi hann sóknaraðila samkvæmt því 163.160 kr. hinn 8. maí 2014. Samkvæmt framangreindu liggur því fyrir að varnaraðili var sannanlega í skuld við sóknaraðila er samningnum var rift. Áður en til riftunar samningsins kom átti varnaraðili þess kost að gera sóknaraðila grein fyrir afstöðu sinni um hverjar umsamdar greiðslur á grundvelli hans ættu að vera og bjóða fram greiðslu samkvæmt því. Af gögnum málsins má hins vegar ráða að hann hafi ekki talið sig standa í skuld við sóknaraðila er samningnum var rift, sbr. bréf hans til sóknaraðila frá 8. nóvember 2013. Samkvæmt 21. gr. samnings aðila var sóknaraðila heimilt að rifta samningnum án fyrirvara ef varnaraðili innti ekki tilskildar greiðslur af hendi á umsömdum gjalddögum. Riftun sóknaraðila á samningi aðila var, samkvæmt framangreindu, lögmæt og umráðaréttur varnaraðila yfir bifreiðinni því fallinn niður. Tölulegur ágreiningur aðila getur ekki, eins og hér stendur á, haggað rétti sóknaraðila til þess að krefjast þess að aðfarargerðin fari fram.
Samkvæmt öllu framangreindu verður talið að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt, enda verður ekki talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina. Ekki eru efni til að fallast á varakröfu varnaraðila um að málskot til æðra dóms fresti aðfarargerð þessari.
Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sóknaraðila, Lýsingu hf., er heimilt að fá bifreið, af gerðinni Toyota Avensis, með fastanúmerið VO 933, tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Halldórs Haukssonar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.