Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Áritun stefnu
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 29

 

Föstudaginn 29. apríl 2005.

Nr. 158/2005.

Fofnir ehf.

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Sigtryggi A. Magnússyni

(enginn)

 

Kærumál. Áritun stefnu. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Með úrskurði héraðsdóms var tekin til greina krafa S um að felld yrðu niður réttaráhrif áritunar héraðsdómara á stefnu í máli F gegn honum, sem endurupptekið hafði verið eftir ákvæðum XXIII. kafla laga um meðferð einkamála. Var dómkrafa F fyrir Hæstarétti ekki talin lúta að efni úrskurðarins, heldur varða önnur atriði, sem að auki væri tekin ótvíræð afstaða til í síðari málslið 2. mgr. 139. gr. sömu laga. Var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2005, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að felld yrðu niður réttaráhrif áritunar Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2004 á stefnu í máli sóknaraðila á hendur honum, sem endurupptekið var í héraði 28. janúar 2005. Kæruheimild er í r. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að „réttaráhrif aðfarargerðar hinn 1. mars 2005 í aðfararmálinu nr. 011-2004-21583, Fofnir ehf. gegn Sigtryggi A. Magnússyni, haggist ekki og hún haldi gildi sínu ...“. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og að framan greinir var með hinum kærða úrskurði tekin afstaða til kröfu varnaraðila um að felld yrðu niður réttaráhrif áritunar héraðsdómara á stefnu í máli sóknaraðila gegn honum, sem endurupptekið hafði verið eftir ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 139. gr. þeirra. Fyrrnefnd dómkrafa sóknaraðila fyrir Hæstarétti lýtur ekki að efni úrskurðarins, heldur varðar hún önnur atriði, sem að auki er tekin ótvíræð afstaða til í síðari málslið 2. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991. Verður máli þessu því vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2005.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. október 2004 af Fofni ehf., kt. 490891-1379, Hafnarstræti 20, Reykjavík, á hendur Sigtryggi A. Magnússyni, kt. 150369-5849, Hólabergi 52, Reykjavík.  Útivist varð af hálfu stefnda við þingfestingu og var stefnan árituð um aðfararhæfi 14. desember 2004. 

Með bréfi er barst dóminum 12. janúar 2005 krafðist stefndi þess að málið yrði endurupptekið og var það gert með bókun í þingbók 28. janúar 2005.  Ekki var þá leyst úr kröfu stefnda um að felld yrðu niður réttaráhrif áritunar á stefnu.  Var sú krafa tekin til úrskurðar fyrr í dag. 

Stefnandi mótmælir því að réttaráhrif verði felld niður.

Þegar mál er endurupptekið samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 er öll efnishlið málsins tekin til skoðunar og dóms að nýju.  Má telja það eðlilega meginreglu að á meðan sú skoðun stendur verði ekki aðhafst frekar við fullnustu kröfu samkvæmt áritun þeirrar sem til skoðunar er.  Ekki eru sjáanleg í þessu máli atvik er leiða til þess að rétt væri að víkja frá þeirri meginreglu.  Verður því ákveðið að réttaráhrif framangreindrar áritunar falli niður frá og með deginum í dag að telja. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Felld eru niður frá deginum í dag að telja réttaráhrif áritunar, dags. 14. desember 2004, á stefnu í máli nr. E-9705/2004.