Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2016

Lindarflöt ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Framlagning skjals

Reifun

L ehf. krafðist þess að A hf. yrði gert að leggja fram nánar tilgreint skjal í máli sem fyrrnefnda félagið hafði höfðað á hendur því síðargreinda. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, var vísað til þess að A hf. hefði ekki orðið við áskorun L ehf. um framlagningu skjaldsins. Við þær aðstæður gæti dómurinn með vísan til 1. mgr. 68. gr. laganna skýrt skjalið svo að A hf. samþykkti frásögn L ehf. um efni þess en þó því aðeins ef L ehf. ætti sjálfstæðan rétt til skjalsins eða A hf. væri skylt að bera vitni um efni þess væri það ekki aðili að málinu, sbr. 2. mgr. 67. gr. sömu laga. Væri það í höndum dómara að meta þessi atriði við endanlega úrlausn málsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og eftir meginreglunni um fjálst sönnunarmat dómara. Var kröfu L ehf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að leggja fram nánar tilgreint skjal í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að „leggja fram skjal sem ber heitið „trúnaðaráætlun“ og tilgreint er í 8. gr. samnings um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings banka hf.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að mælt verði svo fyrir að fyrrgreint skjal verði lagt fyrir dómara í trúnaði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lindarflöt ehf., greiði varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2016.

                                                                          I.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 9. mars 2016, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Lindarflöt ehf., Lindarflöt 39, Garðabæ á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

                Í máli þessu er deilt um kröfu stefnanda, sem kveðst vera hluthafi í Fasteignafélaginu Ártúni ehf., (Ártún) um skaðabætur úr hendi stefnda vegna meints tjóns sem stefnandi telur að stefndi hafi valdið honum, með því að krefjast þess af skiptastjóra þrotabús BM-Vallár hf. að hann færi fram á gjaldþrotaskipti í BM Vallá hf. sem ekki hafi verið gjaldþrota. Fasteignafélagið Ártún ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 9. júní 2010 og er skiptum ólokið. Þegar Ártún var tekið til gjaldþrotaskipta var félagið í eigu eignarhaldsfélagsins Plateu de Pierre S.A.R.L. í Lúxemborg. Ártún varð til við skiptingu BM Vallár hf. árið 2005. Við skiptingu eignaðist Ártún tilteknar eignir BM Vallár hf., svo sem Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3 í Reykjavík, Suðurhrauni í Garðabæ, fasteignir á Akureyri o.fl.

      Í þinghaldi þann 18. febrúar 2016, krafðist stefnandi þess að dómari úrskurðaði um hvort svokölluð „trúnaðaráætlun“, sem tilgreind er í 8. gr. samnings um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþingsbanka hf. og Kaupþingsbanka hf. og er að finna á dskj. 95, verði lögð fram í málinu. Er nánar tiltekið um að ræða viðauka sem vísað er til í 8. grein fyrrgreinds samnings og er talinn hafa að geyma upplýsingar um mat á verðmæti þeirra eigna eða réttinda sem m.a. skyldi byggt á við uppgjör milli Nýja Kaupþingsbanka hf. og Kaupþingsbanka hf.

                Umrædd 8. gr. samningsins hljóðar svo: Þær eignir sem taldar eru upp í áætlun 2 skulu aðskildar í samræmi við samning þennan og skulu teljast „aðgreindar eignir“ að því er varðar samninginn. Samanlagt virði aðgreindra eigna er tiltekið í Trúnaðaráætlun og upphafsreikningum Nýja Kaupþings (sú upphæð er „upphaflegt virðismat“). Ef misræmi er milli virðisins sem kemur fram í upphafsreikningnum skal virðið sem tiltekið er í trúnaðaráætluninni gilda. Í 1. gr. sama samnings, sem mælir fyrir um túlkun og skilgreiningar á einstökum hugtökum, kemur fram að „Trúnaðarlisti“ merki trúnaðarkvaðaskyldan lista af eignum þar sem haldið er aðskildum eignum og skuldum sem innihalda verðmæti er varða sérhverja umgirta eign sem nánar er fjallað um í 8. gr. […].

                Krafa stefnanda er reist á því að umrætt trúnaðarskjal (trúnaðarlisti eða trúnaðaráætlun) sem vísað er til í fyrrgreindum samningi á dskj. 95, sé hluti af samningnum, sem þegar hafi verið lagður fram. Til þess að skilja efni samningsins sé nauðsynlegt að trúnaðarskjalið, að því leyti sem það lúti að Fasteignafélaginu Ártúni ehf., verði lagt fyrir dóminn ásamt viðaukum, til þess að unnt verði að fá rétta mynd af málinu. Bótakrafa stefnanda eigi rót sína að rekja til umrædds trúnaðarskjals. Um sé að ræða skjal sem hefði þurft að leggja fram og skuli leggja fram. Málatilbúnaður stefnanda lúti að því hvort farið hafi verið að lögum við verðmat fyrirtækja stefnanda. Trúnaðargögn sem vísað sé til í umræddri 8. gr. samningsins séu upplýsingar sem dómari verði að hafa til þess að leggja dóm á bótakröfu stefnanda. Í umræddu trúnaðarskjali liggi fyrir upplýsingar um hvernig skuldir stefnanda voru færðar niður. Hjá stefnda liggi upplýsingar um verðmatið á eignum stefnanda. Þær upplýsingar geti ekki verið stefnanda óviðkomandi. Stefnandi hafi beina hagsmuni af því að vita hvernig eignir hans voru metnar við uppgjör á skuldum hans gagnvart gamla bankanum. Þá tekur stefnandi fram að ekki sé verið að opna nein skjöl sem varði þriðja mann heldur aðeins gagnvart stefnanda.

                Stefnandi telur að ákvæði 4. mgr. 52. gr. og d-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, girði ekki fyrir framlagningu gagnanna eins og haldið hafi verið fram af stefnda. Þá geti trúnaðarskylda samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, ekki átt við gagnvart stefnanda. Ákvæði 58. gr. gildi gagnvart þriðja manni. Í þessu máli sé ekki um það að ræða. Hér sé það málsaðili sem óski eftir upplýsingum um hvers vegna félagi hans var komið í gjaldþrot. Stefndi þurfi því að leggja fram trúnaðargögn sem vísað er til í 8. gr. umrædds samnings. Hér sé verið að fara fram á að aðili sem sé í málaferlum gagnvart Arion banka hf. afhendi gögn til þess að dómari geti fengið heildarmynd af því hvernig ákvarðanir lágu fyrir. Banki geti ekki borið fyrir sig trúnaðarskyldu þegar viðskiptaaðili óski eftir afhendingu gagna sem hann varða. Auk þess sem byggt verði á dskj. nr. 95 við aðalmeðferð málsins og vitnaleiðslum.

                Stefndi, Arion banki hf., krefst þess aðallega að kröfu stefnanda verði hafnað, en til vara að gögnin verði eingöngu lögð fyrir dómara í trúnaði, sbr. 69. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi tekur fram að í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna á dskj. 89 sé m.a. að finna umfjöllun um samninginn sem liggi fyrir á dskj. 95  þar sem einnig sé minnst á umræddan trúnaðarlista. Stefndi tekur fram að virðismat krafna stefnda hafi verið 50%, sbr. dskj. 93 um samantekt vegna skiptingar efnahagsreiknings Kaupþingsbanka hf. og bráðabirgðaefnahagsreiknings Nýja Kaupþings banka hf. Hinar umdeildu eignir hafi verið metnar á 50% virði við framsal til stefnda. Í 8. gr. samningsins sé mælt fyrir um að ef virði fyrirtækjanna lækkar frá því sem áður hafi verið miðað við í stofnefnahagsreikningi, sem liggi fyrir á dskj. 93, þá skuli miða við verðmætið eins og það kemur fyrir á trúnaðarlistanum. Stofnefnahagsreikningurinn liggi fyrir í máli þessu auk umrædds samnings á dskj. 95, en trúnaðarlistinn sem vísað sé til í 8. gr. samningsins liggi ekki fyrir í málinu. Telur stefndi ekki skylt að leggja fram trúnaðarlistann þar sem stefnandi sé ekki aðili að samningnum á dskj. 95. Vísar stefndi í því sambandi til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 og tekur fram að stefnandi eigi ekki rétt til skjalsins „án tillits til málsins“ ásamt því að stefndi telur að honum væri ekki skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu, m.a. þar sem sýnilega sé um að ræða viðkvæmar fjármálalegar upplýsingar, sbr. 4. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

                Þá bendir stefndi á að stefnandi eigi ekki aðild að málinu og þess vegna eigi 58. gr. laga nr. 161/2002 ekki við. Þá fjalli trúnaðarlistinn um verðmat innan samningsins, en ekki gagnvart stefnanda.

                                                                                   II.

Eins og áður greinir hefur stefnandi höfðað mál þetta til heimtu skaðabóta á hendur stefnda. Málsóknin er á því reist að stefndi hafi látið framkvæma og beri ábyrgð á að allt of lágt mat var lagt til grundvallar á eignum tveggja fyrirtækja sem stefnandi kveðst vera hluthafi í, sem að lokum og eftir langvarandi samningaviðræður við eigendur fyrirtækjanna hafi leitt til gjaldþrots þeirra. Mat þetta hafi tekið mið af samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþings banka hf. og Kaupþings Banka hf. dags. 3. september 2009, þ.e. nánar tiltekið í lista yfir það sem nefnt var „Ring-fenced assets“ og var viðauki 2 með nefndum samningi. Listi þessi hafi verið trúnaðarskjal og fylgt þeim samningi sem lagður var til grundvallar þegar metnar voru „fluttar eignir“ milli umræddra banka. Á listanum hafi verið tilgreind fyrirtæki sem aðilar samningsins höfðu ákveðið að taka frá og ganga að til að fjármagna skuldir Kaupþings Banka hf. við stefnda.

                Í 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mælt fyrir um að skori aðili á gagnaðila að leggja fram skjal sem hann hefur í vörslum sínum, beri gagnaðila að verða við því ef aðili á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðila væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu.

                Í 1. mgr. 68. gr. sömu laga segir síðan að verði málsaðili ekki við áskorun um að leggja fram skjal samkvæmt 2. mgr. 67. gr., sem þykir sannað að hann hafi undir höndum, getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. þó 69. gr. sömu laga.

                Aðilar máls þessa hafa forræði á því sakarefni sem hér um ræðir og hafa því m.a. forræði á sönnunarfærslu í máli þessu. Stefndi hefur ekki orðið við áskorun stefnanda um framlagningu umrædds skjals. Við þessar aðstæður getur dómurinn með vísan til 1. mgr. 68. gr. laga 91/1991, skýrt skjalið svo að stefndi samþykki frásögn stefnanda um efni þess en þó því aðeins ef stefnandi á sjálfstæðan rétt til skjalsins eða stefnda væri skylt að bera vitni um efni þess væri hann ekki aðili að málinu, sbr. 2. mgr. 67. gr. sömu laga. Dómari mun við endanlega úrlausn málsins meta þessi atriði samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja og lögð verða fram í málinu og eftir meginreglunni um frjálst sönnunarmat dómara.

                Af þessu leiðir að kröfu stefnanda, um að „trúnaðaráætlun“ sem tilgreind er í 8. gr. samnings um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþingsbanka hf. og Kaupþingsbanka hf. og er að finna á dskj. 95 verði lagt fram í málinu, er hafnað.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                                   ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu stefnanda um að „trúnaðaráætlun“, sem tilgreind er í 8. gr. samnings um vörslu og skilyrtan virðisrétt í tengslum við eignir Nýja Kaupþingsbanka hf. og Kaupþingsbanka hf., verði lögð fram í málinu.