Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2008


Lykilorð

  • Skattur
  • Fyrning
  • Málsástæða
  • Afdráttarlaus málflutningur


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 234/2008.

Guðmundur Leó Guðmundsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Skattar. Fyrning. Málsástæður. Afdráttarlaus málflutningur.

G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að nánar tiltekin skuld vegna þing- og sveitasjóðsgjalda teldist fyrnd. Í málinu var deilt um hvort innborgun G inn á opinber gjöld sín hafi falið í sér viðurkenningu hans á hinni umdeildu skuld og þar með rofið fyrningu hennar samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að meðal gagna málsins væri kvittun sem óumdeilt væri að G hafi fengið í hendur þegar hann innti greiðsluna af hendi. Í kvittuninni hafi komið fram að greiddur hafi verið virðisaukaskattur en ekki minnst á önnur opinber gjöld. Ósannað væri að G hafi við greiðsluna fengið í hendur upplýsingar um að greiðslan hafi komið til ráðstöfunar inn á þá skuld sem deilt var um í málinu. Mátti G þvert á móti ráða af þeirri kvittun að greiðslunni hefði verið ráðstafað inn á virðisaukaskattskuld hans, enda var þar um að ræða skuld sem var eldri en sú skuld sem um var deilt í málinu. Var því ekki fallist á að fyrning hinnar umdeildu kröfu hafi rofnað við innborgunina og krafa T því fyrnd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2008. Hann krefst þess að staðfest verði með dómi að skuld hans vegna opinberra gjalda ársins 1994 að fjárhæð 882.676 krónur sé fallin niður. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ekki er ágreiningur milli málsaðila um að þinggjöld áfrýjanda vegna álagningar 1994 með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði hafi 11. desember 2007 numið þeirri fjárhæð sem greinir í kröfu áfrýjanda og að krafa hans sé miðuð við þá dagsetningu.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi veitti sýslumaðurinn í Reykjavík hinn 7. júlí 2000 viðtöku aðfararbeiðni tollstjórans í Reykjavík, þar sem krafist var aðfarar hjá áfrýjanda fyrir opinberum gjöldum vegna áranna 1994 til 1999 og virðisaukaskatti 1993 til 1997 samtals að höfuðstól 2.837.753 krónur. Er óumdeilt að skattskuldin sem ágreiningi veldur í málinu var meðal þeirra skulda sem aðfararbeiðnin tók til. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti vildi áfrýjandi byggja á því að kvaðning vegna þessarar aðfararbeiðni hafi misfarist hjá sýslumanni auk þess sem málinu hafi ekki verið fram haldið án ástæðulauss dráttar, svo sem tilskilið er í 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem aðför á grundvelli beiðninnar hafi ekki farið fram fyrr en 3. október 2002. Móttaka beiðninnar hafi því ekki rofið fyrningu kröfunnar samkvæmt lagaákvæðinu. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi fyrr byggt kröfu sína á þessum málsástæðum þó að tilefni hafi verið til. Teljast þær því með vísan til 5. mgr. 101. gr., sbr. 2. mgr. 163. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála of seint fram komnar og verður ekki á þeim byggt í málinu. Af þessu leiðir að fallist verður á með stefnda að fyrningu kröfunnar teljist hafa verið slitið 7. júlí 2000.

Fyrir liggur að 27. febrúar 2007 veitti sýslumaðurinn í Reykjavík viðtöku beiðni um aðför hjá áfrýjanda vegna hinna umdeildu gjalda ársins 1994. Óumdeilt er í málinu að krafan fyrnist á fjórum árum. Er þá til athugunar hvort fyrningu hennar hafi verið slitið á ný einhvern tíma á fjögurra ára tímabili næst fyrir síðast nefnda dagsetningu og þá áður en fjögur ár liðu frá fyrningarslitunum 7. júlí 2000. Í þessu efni greinir aðila á um hvort innborgun áfrýjanda 6. mars 2003 inn á opinber gjöld sín hafi falið í sér viðurkenningu hans á skuldinni, sem hafi rofið fyrningu hennar samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Byggir stefndi þá á því að við þessa innborgun, sem samtals nam 300.000 krónum, hafi 294.000 krónum verið ráðstafað inn á gjöldin 1994. Þar sem áfrýjanda hafi verið sú ráðstöfun ljós en látið henni ómótmælt beri að líta svo á að hann hafi viðurkennt skuldina í skilningi nefnds lagaákvæðis. Er þetta eini hluti kröfunnar, sem beiðst var aðfarar fyrir 7. júlí 2000, sem stefndi heldur fram að ófyrndur sé. Þannig séu kröfur um öll yngri gjöldin sem þar greindi fyrndar.

Meðal gagna málsins er kvittun sem óumdeilt er að áfrýjandi hafi fengið í hendur þegar hann innti greiðsluna 6. mars 2003 af hendi. Í kvittuninni kemur fram að greiddur hafi verið virðisaukaskattur, en ekki er þar minnst á önnur opinber gjöld. Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi um leið fengið á framhaldsblaði yfirlit þar sem fram hafi komið ráðstöfun á 294.000 krónum inn á þá skuld sem um er deilt í málinu. Þessu mótmælir áfrýjandi. Stefndi hefur ekki fært fram í málinu fullnægjandi sönnun um staðhæfingu sína hér að lútandi. Telst því ósannað í málinu að áfrýjandi hafi við greiðsluna fengið í hendur upplýsingar um þá ráðstöfun sem stefndi byggir á. Mátti stefndi þvert á móti ráða af þeirri kvittun, sem óumdeilt er að hann hafi fengið, að greiðslunni hefði allri verið ráðstafað inn á virðisaukaskattskuld hans, enda var þar um að ræða skuld sem var eldri en skuldin frá 1994, sem hér er til umfjöllunar. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á það með stefnda að fyrning hinnar umdeildu kröfu hafi rofnað við þessa innborgun.

Stefndi heldur því ekki fram að önnur atvik á nefndu tímabili hafi rofið fyrningu hinnar umdeildu kröfu. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður fallist á með áfrýjanda að krafan sé fyrnd og verður viðurkenningarkrafa hans því tekin til greina.

Stefnda verður samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennt er að krafa stefnda, íslenska ríkisins, á hendur áfrýjanda, Guðmundi Leó Guðmundssyni, vegna opinberra gjalda árið 1994, samtals að fjárhæð 882.676 krónur með vöxtum og kostnaði miðað við 11. desember 2007, er fallin niður.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2008.

Mál þetta var flutt 13. mars sl. Það er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðmundi Leó Guðmundssyni, Njálsgötu 48a, Reykjavík á hendur fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, með stefnu birtri  5. júlí 2007. Með úrskurði 8. febrúar sl. var máli þessu vísað frá dómi án kröfu.  Með dómi Hæstaréttar Íslands 29. febrúar sl. var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómkröfur stefnanda eru þær að krafa stefnda, samtals að fjárhæð 882.676 kr. miðað við 11. desember 2007 vegna opinberra gjalda fyrir árið 1994 með vöxtum og kostnaði á hendur stefnanda, verði dæmd fyrnd. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostaðar úr hans hendi.

Málavextir

Samkvæmt stöðuyfirliti frá Tollstjóranum í Reykjavík hinn 28. nóvember 2006  skuldaði stefnandi opinber gjöld, samtals að fjárhæð 14.053.849 kr. Voru gjöldin vegna áranna 1993 til 1999.

Með bréfi, dags. 29. desember 2006, óskaði stefnandi eftir því að skuld þessi yrði afskrifuð.

Með bréfi Tollstjórans í Reykjavík frá 12. janúar 2007 var fallist á að gjöld, að undanskilinni skuld vegna AB E 1994, væru fyrnd. Varðandi skuld AB E 1994 kom fram að fjárnám var gert í fasteign stefnanda 3. október 1994 og að stefnandi hafi greitt 294.000 kr. inn á kröfuna 6. mars 2003.  Sú greiðsla hafi haft í för með sér sjálfstætt fyrningarrof á þeim gjöldum.  Sú krafa væri því ófyrnd.

Hinn 5. júlí 2007 var stefnda birt stefna málsins. Aðalkrafan var viðurkenningarkrafa um að gjöld, samtals að fjárhæð 15.671.925 kr. miðað við 29. júní 2007, væru fyrnd.

Hinn 27. og 28. ágúst 2007 voru kröfur að fjárhæð um 15 millj. kr. afskrifaðar í tölvukerfi stefnda.

Stefnan, sem birt var 5. júlí 2007, var lögð fram í Héraðsdómi 6. september 2007.

Greinargerð stefnda var lögð fram 27. nóvember sl. Aðallega var krafist frávísunar málsins. Í fyrirtöku 21. desember sl. lækkaði stefnandi kröfu sína og stefndi féll frá frávísunarkröfu sinni.

Eftir stendur ágreiningur um það hvort gjöld vegna AB E 1994 séu fyrnd eða ekki.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að með honum og tollstjóra hafi tekist samkomulag um að skattaskuldir stefnanda yrðu afskrifaðar eftir 3. október 2006 en þá voru 4 ár liðin frá aðfarargerð nr. 011-2000-10530, þar sem gert hafði verið fjárnám fyrir eignarhluta stefnanda í Njálsgötu 48A, Reykjavík. Stefnandi telur að hinn 17. nóv. 2005 hafi munnlegt samkomulag verið gert við þáverandi yfirmann innheimtudeildar tollstjóra, um að allar skuldir stefnanda frá 1993 til 1999 yrðu afskrifaðar og felldar úr innheimtukerfinu eftir 3. okt. 2006, þar sem þá væru liðin 4 ár frá því að fjárnám átti sér stað (3. okt. 2002) og skuldir stefnanda því fyrndar. Þetta sagði yfirmaðurinn að hefði verið niðurstaðan af samtali hennar við tollstjóra. Var þessi ákvörðun rituð í minnisbanka stefnda um stefnanda en litið er á umrædda minnispunkta sem innanhúsplagg hjá stefnda og tollstjóra.

Þá bendir stefnandi á bréf stefnda, dags. 12. jan. 2007, þar sem fyrir liggur viðurkenning á því að kröfur tollstjóra vegna áranna 1993 – 1999 verði afskrifaðar á næstu dögum. Ekki hafði það átt sér stað við stefnugerð í lok júní 2007. Stefnandi tekur fram að tollstjóri hafi borið fyrir sig í sama bréfi að greitt hefði verið inn á kröfu stefnda vegna AB E 1994 og þ.a.l. væri hún ekki fyrnd. Þessu er harðlega andmælt. Krafa þessi var löngu fyrnd ásamt öðrum. Engar aðgerðir hafi átt sér stað síðan 3. okt. 2002 og er andlagið sem gert var fjárnám í ennþá óselt og engin tilraun verið gerð til þess að selja það síðan aðförin átti sér stað 3. okt. 2002.

Stefnandi telur að krafa stefnda hafi þá þegar verið fyrnd er greitt var inn á þinggjöld AB E 1994 hinn 6. mars 2003. Fyrnd krafa verði ekki vakin upp með því einu að borga inn á hana. Jafnvel þó haldið sé fram að greitt hafi verið sérstaklega inn á kröfuna frá 1994 hinn 6. mars 2003, þá hafi engar frekari aðgerðir átt sér stað af hálfu stefnda til að framfylgja rétti sínum. Rúmlega 4 ár séu liðin frá umræddri greiðslu og krafan því fyrnd.

Í annan stað mótmælir stefnandi því að greiðsla hans 6. mars 2003 að fjárhæð 300.000 kr. slíti fyrningu. Stefnda hafi borið skylda til að leiðbeina stefnanda, er hann innti greiðslu af hendi en hann er ólöglærður. Stefnda beri að færa sönnur á því að hann hafi gert stefnanda grein fyrir því að hann væri að greiða inn á fyrnda skuld. Skv. 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 verði stefnandi að hafa viðurkennt skuld sína með skriflegum hætti, t.d. með því að lofa borgun eða greiða vexti. Stefndi hafi með atferli sínu gerst sekur um misneytingu skv. 31. gr. samningalaga nr. 7/1936 og brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Um framangreint vísast til Hrd. 469/2003.

Um lagarök bendir stefnandi  á 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðild stefnda en stefndi hefur ákvörðunarvald sem æðsti fyrirsvarsmaður tollstjórans í Reykjavík. Þá er byggt á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um rétt manna til að fá viðurkenningardóm um rétt sinn.  Byggt er á 3. gr. og 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Þá styðst stefnandi við 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Um málskostnað vísast til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til laga nr. 50/1988 um að stefnandi eigi að verða skaðlaus af málsókn þessari.

Málsástæður og lagarök stefnda

Í upphafi tekur stefndi fram að í bréfi Tollstjórans í Reykjavík frá 12. janúar 2007 komi fram að þær kröfur sem stefnandi krefst viðurkenningardóms um í máli þessu séu fyrndar að undanskilinni skuld vegna AB E 1994.  Í bréfinu kemur fram að þar tilgreindar kröfur að undanskilinni kröfu vegna AB E 1994 muni verða afskrifaðar á næstu dögum.  Því lá yfirlýsing um fyrningu krafnanna fyrir löngu áður en til málsóknar þessarar kom og því er málsókn þessi vegna þeirra krafna sem viðurkenning í bréfi frá 12. janúar 2007 tók til, algerlega óþörf að mati stefnda.  Hinar fyrndu kröfur voru afskrifaðar hinn 27. ágúst 2007 í hefðbundinni afskriftarvinnslu. Hinar fyrndu kröfur hafa verið afskrifaðar og felldar niður úr innheimtukerfi Tollstjórans í Reykjavík.

Krafa vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994 að höfuðstól 196.670 kr., merkt AB E 1994, er að mati stefnda ófyrnd að öllu leyti.  Þannig eru höfuðstóll, vextir og kostnaður ófyrnd og er öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Álagning fór fram 1. ágúst 1994.  Fyrningu var slitið með kröfulýsingu í þrotabú stefnanda 1997, sbr. m.a. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Aðfararbeiðni var móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík 3. júlí 2000 og því aftur rofin fyrning, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989.  Fyrningu var enn slitið með fjárnámi sem gert var í eignarhluta stefnanda í Njálsgötu 48a, Reykjavík hinn 3. október 2002, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989.  Fyrningu var enn slitið með nauðungarsölubeiðni á grundvelli fjárnáms í Njálsgötu 48a hinn 5. desember 2002, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991.  Þá greiddi stefnandi inn á kröfuna 6. mars 2003 294.000 kr. sem ráðstafaðist inn á vexti og kostnað og viðurkenndi þar með skuld sína við kröfueiganda, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 og dóm Hæstaréttar nr. 299/2002.  Þá var fyrningu enn slitið með aðfararbeiðni sem send var 26. febrúar 2007 og móttekin  hjá sýslumanni 27. febrúar 2007, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. 

Stefndi mótmælir sem röngu og ósönnuðu að samkomulag hafi verið gert um að „umræddar skattskuldir“ yrðu afskrifaðar og felldar úr innheimtukerfinu eftir 3. október 2006 eða að þær væru fyrndar eins og stefnandi heldur fram í stefnu.  Mótmælt er að loforð í þá veru hafi verið gefið.  Mótmælt er fullyrðingum stefnanda um þetta. Mótmælt er frásögn í stefnu af efni meints samtals yfirmannsins við tollstjóra. Ekkert samkomulag hefur verið lagt fyrir dóminn til staðfestingar á því sem stefnandi heldur fram, en fyrir öllu sem hann heldur fram hefur stefnandi sönnunarbyrði. Stefndi leggur fram skjámynd úr vanskilareikningi  stefnanda.  Þar er að finna færsluna: „ATH. Umrædd ákvörðun GH var tekin í fullu samráði við Snorra Olsen, tollstjóra.“ Að mati stefnda tengist þessi færsla bókun um afturköllun fjárnáms. Þar að auki mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuðu að samkomulag hafi orðið um að fella niður skattaskuldir stefnanda vegna AB E 1994 vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994.  Fyrir því hefur stefnandi sönnunarbyrði.

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að í bréfi tollstjóra frá 12. janúar 2007 felist viðurkenning á því að allar kröfur tollstjóra vegna áranna 1993-1999 verði afskrifaðar. Sérstaklega er áréttað að í bréfi þessu kom skýrt fram að tollstjóri teldi kröfu AB E 1994 vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994 ekki fyrnda.

Stefndi mótmælir öllum ávirðingum í stefnu í garð embættis tollstjóra. Að auki er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnda hafi borið skylda til að leiðbeina stefnanda er hann innti greiðslu af hendi 6. mars 2003. Krafa stefnda á hendur stefnanda var þá í fullu gildi er hann greiddi inn á hana. Greiðsla rýfur fyrningu. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi gert athugasemdir við ráðstöfun á innborgun 6. mars 2003 fyrr en með stefnu í máli þessu.  Hefur stefnandi sýnt af sér   stórfellt tómlæti við að halda fram þessari málsástæðu gagnvart stefnda.

Því er harðlega mótmælt sem röngu að stefndi hafi gerst sekur um misneytingu, brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir öllum fullyrðingum sínum í málinu.  Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur málsins lýtur að álagningu gjalda fyrir árið 1994, en álagningin fór fram 1. ágúst 1994.  Krafa þessi fyrnist á fjórum árum sbr. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Fyrningu var slitið með kröfulýsingu í þrotabú stefnanda hinn 18. mars 1997, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Fyrning var aftur rofin 7. júlí 2000 er sýslumaðurinn í Reykjavík veitti viðtöku aðfararbeiðni tollstjórans í Reykjavík, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Ekki er byggt á því né sýnt fram á, að gerð þessari hafi ekki verið haldið fram án ástæðulauss dráttar. Fyrir liggur í málinu að tollstjórinn hafði einnig hinn 3. október 2002 gert fjárnám í eignarhluta stefnanda og nauðungarsölubeiðni á grundvelli fjárnámsins er frá 5. desember 2002. Annmarkar voru aftur á móti á fjárnáminu, sbr. endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness frá 12. október 2005 og var það fellt niður. Eins og að framan greinir var fyrningin rofin 7. júlí 2000. Ágreiningur málsaðila lýtur aðallega að því hvort innborgun stefnanda, að fjárhæð 300.000 kr., inn á kröfu sína hinn 6. mars 2003 hafi rofið fyrningu. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi óskað eftir að greiðsla þessi gengi uppí einhverja sérstaka álagningu en stefnandi skuldaði þá talsverðar fjárhæðir vegna álagninga nokkurra ára. Meginhluta fjárhæðarinnar eða 294.000 kr. var ráðstafað inn á elstu gjöldin þ.e. álagningu 1994 og 6.000 kr. inn á virðisaukaskatt. Er það venju samkvæmt. Á þessum tímapunkti skuldaði stefnandi umtalsverðar fjárhæðir vegna áranna 1995 – 1999 en þessar kröfur voru afskrifaðar 27. ágúst 2007. Með greiðslu sinni viðurkenndi stefnandi kröfu sína og rauf þar með fyrningu samanber 6. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Ekkert er fram komið um að stefnanda hafi ekki verið leiðbeint á fullnægjandi hátt, en hann getur ekki borðið fyrir sig vanþekkingu á álagningu á opinberum gjöldum á hann, né heldur að hann þekki ekki lögin.

Þá liggur fyrir í málinu að hinn 27. febrúar 2007 var móttekin hjá sýslumanni aðfararbeiðni vegna hinna ógreiddu gjalda. Stefnandi mun ekki hafa mætt hjá sýslumanni þrátt fyrir boðun og liggur nú fyrir að boða hann með aðstoð lögreglu. Öllum málsástæðum stefnanda um að mál hans hafi ekki gengið fyrir sig án óeðlilegs dráttar er hafnað sem ósönnuðum.

Stefnandi byggir á því að starfsmaður tollstjóra hafi gefið bindandi yfirlýsingu um það að allar skuldir stefnanda yrðu afskrifaðar og felldar úr innheimtukerfi ríkissjóðs eftir 3. október 2006. Þessari fullyrðingu hefur verið neitað fyrir dómi af viðkomandi starfsmanni. Því er hún ósönnuð.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eins og atvikum málsins er háttað þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Magnús B. Brynjólfsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Guðmundar Leós Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.