Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2008


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Meðlag
  • Áfrýjunarfrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. júní 2008.

Nr. 24/2008.

M

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

K

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Meðlag. Áfrýjunarfrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

M krafðist þess að sér yrði gert að greiða einfalt meðlag með barni sínu og K frá 12. febrúar 2007 til 18 ára aldurs barnsins en til vara þrefalt meðlag með barninu á sama tímabili. K krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá Hæstarétti. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003 er áfrýjunarfrestur í málum vegna ágreinings um forsjá einn mánuður. Sömu reglu lúta þeir þættir forsjármáls sem varða greiðslu meðlags, sbr. 5. mgr. 34. gr. barnalaga og dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 445/2007. Áfrýjunarstefna í málinu var gefin út að liðnum einum mánuði frá uppkvaðningu héraðsdóms. Var málinu samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2008. Hann krefst þess aðallega  að sér verði gert að greiða einfalt meðlag, sbr. 2. mgr. 55. gr. barnalaga nr. 76/2003, með barni sínu og varnaraðila, A, frá 12. febrúar 2007 til 18 ára aldurs barnsins, en til vara þrefalt meðlag með barninu á sama tímabili. Þá krefst hann þess að málskostnaður verði látinn niður falla á báðum dómstigum.

Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

Stefnda höfðaði mál þetta til að fá sér dæmda forsjá áðurnefnds sonar aðilanna, auk þess sem hún krafðist að í dómi yrði kveðið á um umgengni áfrýjanda við barnið og honum gert að greiða fjórfalt meðlag með því frá málshöfðun til 18 ára aldurs þess. Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi samþykkti hann kröfu stefndu um forsjá og við munnlegan flutning málsins þar féllu þau bæði frá kröfum um að í dómi yrði kveðið á um umgengni við barnið. Með hinum áfrýjaða dómi var því stefndu veitt forsjá barnsins, en leyst að efni til úr ágreiningi aðilanna um hæð meðlags með því úr hendi áfrýjanda.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. barnalaga er áfrýjunarfrestur í málum vegna ágreinings um forsjá barna einn mánuður. Sömu reglu lúta þeir þættir forsjármáls sem varða greiðslu meðlags, sbr. 5. mgr. 34. gr. barnalaga og dóm Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 445/2007. Héraðsdómur var kveðinn upp 17. október 2007 en áfrýjunarstefna ekki gefin út fyrr en 15. janúar 2008. Áfrýjunarfrestur var þá liðinn. Verður málinu samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.