Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Nauðasamningur


Mánudaginn 14

 

Mánudaginn 14. júlí 2003.

Nr. 259/2003.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn

(Ragnar Baldursson hdl.)

gegn

Móum hf., fuglabúi

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Nauðasamningur.

Kröfu S um að bú M hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta var hafnað með vísan til þess að félagið nyti heimildar til að leita nauðasamnings.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Haraldur Henrysson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara gert að taka kröfu hans um gjaldþrotaskipti til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, greiði varnaraðila, Móum hf., fuglabúi, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2003.

                Með bréfi, dagsettu 2. maí 2003, hefur Sameinaði lífeyrissjóðurinn, kt. 620492-2809, krafist þess að bú Móa hf., fuglabús, kt. 440788-1229, Fellsási 10, Mosfellsbæ, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

                Skiptabeiðandi segir að skuldari hafi haft heimild til greiðslustöðvunar er hafi runnið út 8. apríl 2003.  Kveður hann skuldarann standa í skuld við sig er nemi 833.471 krónu.  Bendir hann á að krafa sín falli ekki undir nauðasamning.  Byggir hann kröfu um gjaldþrotaskipti á 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. 

                Krafa þessi var þingfest 11. þessa mánaðar og ákvað dómari þá að taka málið til úrskurðar án kröfu.  

                Skuldari hafði heimild til greiðslustöðvunar er féll niður 7. apríl sl. er honum var með úrskurði veitt heimild til að leita nauðasamnings.  Vegna ákvæðis 40. gr. laga nr. 21/1991 er óheimilt á meðan nauðasamningsumleitanir standa yfir að taka bú skuldara til gjaldþrotaskipta.  Bar því með réttu að vísa beiðni skiptabeiðanda á bug samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991.  Þessi vanræksla dómsins breytir því hins vegar ekki að gjaldþrotaskipti eru á þessu stigi óheimil og verður því að hafna kröfu skiptabeiðanda.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Beiðni Sameinaða lífeyrissjóðsins, um að bú Móa hf. verði tekið til gjaldþrotaskipta er hafnað.