Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2013


Lykilorð

  • Loforð
  • Einkahlutafélag
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 45/2013.

Þrotabú Norðurturnsins ehf.

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf.

(Ragnheiður M. Ólafsdóttir hrl.)

Loforð. Einkahlutafélag. Aðfinnslur.

Þrotabú N ehf. krafðist greiðslu úr hendi E ehf. vegna byggingaframkvæmda við bílastæðahús við verslunarmiðstöðina S. Byggði þrotabúið á því að samið hafi verið um það með bindandi hætti að E ehf. greiddi hluta af kostnaði við framkvæmdirnar þar sem byggt hafi verið í þágu þess umtalsvert fleiri bílastæði en þörf hafi verið á. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekki lægju fyrir í málinu fundargerðir eða önnur gögn sem bentu til að stjórn E ehf. hafi skuldbundið félagið til að inna af hendi greiðslu á því fé sem þrotabú N ehf. krefðist úr hendi þess. Þá hafi þeir sem voru í fyrirsvari fyrir E ehf. neitað því að félagið hafi tekist á hendur slíka skuldbindingu. Þrotabúinu hafi því ekki tekist að sýna fram á svo hafi verið. Þótt tveir af þeim sem áttu sæti í stjórn E ehf. hafi ritað undir lánsskilmála fyrir hönd annars einkahlutafélags, þar sem það félag tókst á hendur skuldbindingu gagnvart væntanlegum lánveitanda vegna framkvæmdanna, væri sú undirskrift á engan hátt bindandi fyrir E ehf. í ljósi ákvæða laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu E ehf.

Dómur Hæstiréttur.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.300.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins voru Norðurturninn ehf. og stefndi dótturfélög Fasteignafélags Íslands ehf. og að öllu leyti í eigu þess félags. Sömu menn, þeir Einar Örn Jónsson, Gunnar Þorláksson og Jóhannes Jónsson, skipuðu stjórnir félaganna þriggja fram á mitt ár 2008.

Árið 2007 hóf Norðurturninn ehf. að reisa verslunar- og skrifstofuhúsnæði auk bílastæðahúss og tengibyggingar við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi sem er í eigu stefnda. Fyrirhugað var að verslunar- og skrifstofuhúsnæðið yrði 15 hæðir, en framkvæmdir við bygginguna stöðvuðust í lok ársins 2008 í kjölfar efnahagshrunsins sem reið yfir í október það ár. Var þá aðeins lokið við að reisa fjórar hæðir.

Með kaupsamningi 27. ágúst 2007 seldi stefndi Fasteignafélagi Íslands ehf. hluta lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi. Meðal forsendna samningsins var að Norðurturninn ehf. reisti fyrrgreint húsnæði á lóðarhlutanum, sem er nú sérgreind lóð,  nr. 3 við Hagasmára. Í 1.6. grein samningsins var tekið fram að aðilar hafi orðið sammála um að sem hluti af endurgjaldi stefnda fyrir lóðina skyldi gerður samstarfssamningur milli Norðurturnsins ehf. og stefnda þar sem meðal annars yrði kveðið á um afnotaréttindi stefnda „af bílastæðum í bílastæðahúsi Norðurturnsins.“ Óumdeilt er að þessi samstarfssamningur var aldrei gerður.

Í minnisblaði Pálma Kristinssonar, þáverandi framkvæmdastjóra Fasteignafélags Íslands ehf. og Norðurturnsins ehf., til Þorsteins Hjaltasonar, starfsmanns Landsbanka Íslands hf., 6. júní 2008 kom fram að stjórn Fasteignafélags Íslands ehf., móðurfélags stefnda, hafi ákveðið að fara þess á leit við lánveitendur stefnda að þeir veittu honum heimild til töku á um 1.300.000.000 króna langtímaláni. Væri tilgangur lántökunnar að fjármagna kostnaðarhlut stefnda vegna byggingar bílastæðahúss og fleiri mannvirkja „í tengslum við byggingu Norðurturnsins“. Samkvæmt vitnisburði Pálma fyrir héraðsdómi kviknaði sú hugmynd að stefndi kæmi að fjármögnun byggingaframkvæmdanna með áðurgreindum hætti fyrst vorið 2008 þegar erfiðleika fór að gæta við að fjármagna þær.

Í skilmálum framkvæmdaláns, sem Norðurturninn ehf. hugðist taka hjá Glitni banka hf., sagði meðal annars: „Lántaki skuldbindur sig til að koma með undirritaða yfirlýsingu Smáralindar ehf. ... við undirritun framkvæmdalánssamningsins, um greiðslu kr. 1.300.000.000,- til Norðurturnsins ehf. Greiðslan skal berast lántaka eigi síðar en 30. mars 2009 á bankareikning lántaka, handveðsettan lánveitanda. Andvirðið skal notað til greiðslu kostnaðar eftir framvindu verksins við Hagasmára 3, Kópavogi“. Þá skuldbatt lántaki sig samkvæmt skilmálunum „til að fara í skuldabréfaútgáfu ... með milligöngu lánveitanda“ að fjárhæð 2.000.000.000 króna. Skrifað var undir skilmálana 19. júní 2008 og gerðu það Einar Örn Jónsson og Gunnar Þorláksson fyrir hönd Norðurturnsins ehf. sem lántaka og tveir starfsmenn Glitnis banka hf. fyrir hönd bankans sem lánveitanda. Fyrir héraðsdómi kvaðst Einar Örn hafa litið á ákvæði skilmálanna um að útvega greiðsluyfirlýsingu stefnda sem viljayfirlýsingu af hálfu Norðurturnsins ehf. er ekki hafi síðan reynst unnt að standa við.

Í samningi um framkvæmdalánið milli Norðurturnsins ehf. og Glitnis banka hf. 17. september 2008 var ekki minnst á fyrrgreinda skuldbindingu lántaka um að útvega yfirlýsingu stefnda um greiðslu á 1.300.000.000 krónum til byggingaframkvæmda á lóðinni nr. 3 við Hagasmára. Á kynningarblaði Glitnis banka hf., sem var tekið saman í tilefni af áðurnefndri skuldabréfaútgáfu sumarið 2008, var gerð grein fyrir fjármögnun framkvæmdanna. Þar sagði meðal annars að stefndi þyrfti „að fjármagna frá sínum rekstri 1.265 mkr. sem kemur til niðurgreiðslu á framkvæmdafjármögnun Norðurturnsins.“

Bú Norðurturnsins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. september 2010. Er krafa áfrýjanda á hendur stefnda reist á því að með þeim samningum, sem gerðir voru vegna byggingaframkvæmdanna á lóðinni nr. 3 við Hagasmára og lýst hefur verið að framan, hafi verið samið um það með bindandi hætti milli Norðurturnsins ehf. og stefnda að hann greiddi hluta af kostnaði við framkvæmdirnar.

II

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fer félagsstjórn með málefni slíks félags og stjórn þess ásamt framkvæmdastjóra. Hann annast daglegan rekstur félagsins, en getur aðeins gert ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnarinnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Meginreglan er sú samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga nr. 138/1994 að félagsstjórn kemur fram út á við fyrir hönd einkahlutafélags. Þá er tekið fram í öðrum málslið 1. mgr. 47. gr. laganna að ekki megi taka mikilvæga ákvörðun um málefni slíks félags án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur.

Ekki liggja fyrir í málinu fundargerðir eða önnur gögn sem benda til að stjórn stefnda hafi skuldbundið hann til að inna af hendi greiðslu á því fé, sem áfrýjandi krefst úr hendi hans, hvorki til Norðurturnsins ehf. né byggingaframkvæmdanna á lóðinni nr. 3 við Hagasmára. Þá hafa þeir, sem voru í fyrirsvari fyrir stefnda árið 2008, neitað því að stefndi hafi tekist á hendur slíka skuldbindingu. Þótt tveir af þeim, sem áttu sæti í stjórn stefnda, hafi ritað undir lánsskilmála fyrir hönd annars einkahlutafélags, þar sem það félag tókst á hendur skuldbindingu gagnvart væntanlegum lánveitanda, er sú undirskrift á engan hátt bindandi fyrir stefnda vegna áðurnefndra ákvæða laga nr. 138/1994. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt bæði félögin hafi verið dótturfélög þriðja einkahlutafélagsins og að öllu leyti í eigu þess. Með skírskotun til þessa verður ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að stefndi hafi tekist á hendur þá skuldbindingu sem hér um ræðir. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu og málskostnað því staðfest.

Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi er ekki gefið stutt yfirlit um atvik málsins og ágreiningsefni í því eins og boðið er í d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, heldur er lýsing atvika fyrst og fremst byggð á því sem fram kemur í héraðsdómsstefnu. Einnig er þar ekki að finna hnitmiðaða og rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði málsins svo sem gert er ráð fyrir í f. lið sömu málsgreinar. Þá hefur láðst að geta þess að dómsuppsaga dróst fram yfir þann fjögurra vikna frest, sem tiltekinn er í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en málið hafi þó ekki verið flutt á ný þar sem héraðsdómari og málsaðilar hafi talið það óþarft.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, þrotabú Norðurturnsins ehf., greiði stefnda, Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 3. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Norðurturnsins ehf., kt. [...], Aðalstræti 6, Reykjavík, með stefnu, birtri 15. nóvember 2011, á hendur Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf., kt. [...], Hagasmára 1, 201 Kópavogi.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.300.000.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. marz 2009 til greiðsludags. Þá er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

         Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafizt málskostnaðar að mati dómsins.

II

Málavextir

Málavöxtum er lýst svo í stefnu, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 3. september 2010, hafi stefnandi, Norðurturninn ehf., verið tekinn til gjaldþrotaskipta og Helgi Birgisson hrl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur vegna gjaldþrotaskiptanna hafi verið 10. maí 2010. Kröfulýsingarfresti hafi lokið 16. nóvember 2010. 

         Stefnandi sé skráður eigandi fasteignarinnar Hagasmára 3, fastanúmer 230-7807, sem er Norðurturninn við Smáralind, þar sem til hafi staðið að yrði 15 hæða verzlunar- og skrifstofuhúsnæði, auk þriggja hæða bílastæðahúss og tengibyggingar við Smáralindina. Framkvæmdir við turninn hafi stöðvazt í kjölfar efnahagshrunsins í lok árs 2008, og hafi þá aðeins verið lokið við að reisa fjórar hæðir af þeim 15, sem fyrirhugaðar hafi verið.

         Stefndi, Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., sé eigandi fasteignarinnar Hagasmára 1, fastanúmer 222-7650, sem er verslunarmiðstöðin Smáralind.

         Stefnandi hafi verið dótturfélag Fasteignafélags Íslands hf. (hér eftir FFÍ). Samkvæmt kynningu á Norðurturnsverkefninu frá Glitni banka hf. vegna útgáfu skuldabréfaflokks í júlí 2008 sé EIK Properties ehf. eigandi að FFÍ. Eigendur EIK Properties hafi verið Glitnir banki hf. með 46% hlutafjár, Saxbygg ehf. (síðar Icarus ehf.) með 52% og aðrir með 2%. Saxbygg ehf. hafi verið í jafnri eigu Saxhóls ehf. og BYGG ehf. Í rannsóknarskýrslu Alþingis séu BYGG ehf., Saxbygg ehf. og Baugur Group hf. taldir tengjast FFÍ. Í desember 2009 hafi Reginn ehf. tekið FFÍ yfir vegna skuldaskila. Reginn ehf. sé alfarið í eigu NBI hf.

         Stefnandi hafi verið stofnaður af móðurfélaginu FFÍ þann 5. júlí 2000. FFÍ sé einnig eigandi alls hlutafjár í stefnda. Stefnandi og stefndu hafi þannig verið dótturfélög FFÍ og félögin þrjú því nátengd og hafi stjórnir þeirra allra verið skipaðar sömu mönnum á þeim tíma, sem hér skipti máli. 

         Í kynningarefni um Norðurturninn, sem gefið hafi verið út af stefnanda 15. apríl 2007, segi, að á árinu 2002, um hálfu ári eftir að Smáralindin var opnuð, hafi vaknað hugmynd að byggingu Norðurturnsins. Tillaga ASK arkitekta að breyttu deiliskipulagi á lóðinni við Hagasmára 1 hafi hlotið samþykki í bæjarstjórn Kópavogs 14. febrúar 2006 og síðan afgreiðslu Skipulagsstofnunar og loks staðfestingu skipulagsnefndar Kópavogs 4. apríl 2006.  Í kynningarefninu komi fram, að þeir, sem muni standa að framkvæmdinni, séu stefnandi, stefndi og aðalverktakinn við framkvæmdina (BYGG). Fullyrt sé, að þegar Norðurturninn verði tekinn í notkun, muni það hafa mikil og jákvæð áhrif á alla starfsemi Smáralindar.

         Með kaupsamningi, dags. 27. ágúst 2007, hafi stefndi selt móðurfélagi sínu FFÍ hluta lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára fyrir kr. 1.000.000.000. Að baki viðskiptunum hafi búið sá tilgangur að láta stefnanda reisa Norðurturninn við norðvesturhorn verzlunarmiðstöðvarinnar. Sá hluti lóðarinnar við Hagasmára 1, sem stefndi hafi selt FFÍ, hafi síðan fengið nafnið Hagasmári 3. Hinn 5. maí 2008 hafi FFÍ lagt lóðina Hagasmára 3 inn í dótturfélag sitt, stefnanda, sem greiðslu fyrir hækkun á hlutafé að fjárhæð kr. 1.000.000.000. FFÍ hafi ennþá átt allt hlutafé í stefnda í lok árs 2010 samkvæmt ársreikningi félagsins vegna ársins 2010.

         Í fyrrgreindum kaupsamningi stefnda og FFÍ um Hagasmára 3, gr. 1.6, komi fram, að gert sé ráð fyrir því, að gerður verði sérstakur samstarfs- og afnotasamningur á milli dótturfélaga FFÍ, þ.e. stefnda og stefnanda, þar sem m.a. verði kveðið á um afnotaréttindi stefnda af bílastæðum í bílastæðahúsi stefnanda.

         Þessi samningur muni aldrei hafa verið fullgerður, þrátt fyrir það að í grein 3.1.3 sé gert að skilyrði fyrir sölu lóðarinnar, að fyrir liggi samstarfssamningur, sem hafi átt að tryggja afnotarétt stefnda af bílastæðum í bílastæðahúsi Norðurturnsins. Kaupsamningurinn sé undirritaður af Gunnari Þorlákssyni, Jóhannesi Jónssyni og Einari Erni Jónssyni, fyrir hönd bæði stefnda og FFÍ, en félögum hafi verið stjórnað af sömu aðilum á þessum tíma. Gunnar Þorláksson og Einar Örn hafi einnig setið í stjórn stefnanda, eins og áður sé rakið. 

         Þá megi í fyrrnefndu kynningarefni stefnanda frá 15. apríl 2007 vegna Norðurturnsins finna útlistun á því, hvernig nýta skyldi bílastæðahúsið.

         Þann 17. apríl 2007 hafi Gunnar Ingi Birgisson, þáverandi bæjarstjóri Kópavogs, tekið fyrstu skóflustunguna að Norðurturninum.

         Um sumarið 2008 hafi verið unnið að því að afla fjármagns vegna byggingar Norðurturnsins. Á kynningarblaði (sk. teaser), sem afhent hafi verið mögulegum fjárfestum í skuldabréfaútboði, sé fjármögnun verkefnisins lýst þannig:

1.   Norðurturninn þarf framkvæmdarfjármögnun að fjárhæð 5.680 m.kr.

2.   Norðurturninn þarf vsk. ábyrgð að fjárhæð 1.085 m.kr. þar til leigusamningar eru komnir.

3.   Smáralind ehf. þarf að fjármagna frá sínum rekstri 1.265 m.kr. sem kemur til niðurgreiðslu á framkvæmdafjármögnun Norðurturnsins.

4.   Norðurturninn þarf við lok framkvæmda að LT fjármagna 4.415 m.kr. á móti leigutekjum í turninum.

         Þann 19. júní 2008 hafi verið undirritaðir lánsskilmálar vegna framkvæmdalánasamnings milli Norðurturnsins um framkvæmdalán, allt að kr. 3.726.765.000, milli stefnanda sem lántaka og Glitnis banka hf. sem lánveitanda. Samningurinn hafi verið undirritaður af tveimur af þremur stjórnarmönnum í stefnanda, þeim Einari Erni Jónssyni og Gunnari Þorlákssyni, en þeir hafi jafnframt verið tveir af þremur stjórnarmönnum í stefnda á þessum tíma.

         Þegar framkvæmdalánssamningur var undirritaður þann 17. september 2008 á milli Glitnis banka hf. og stefnanda, hafi framangreind skuldbinding einhverra hluta vegna ekki verið til staðar.

         Til að afla skýringa og upplýsinga um aðkomu stefnda að fjármögnun Norðurturnsins hafi skiptastjóri kallað til skýrslugjafar eftirtalda einstaklinga: Björn Inga Sveinsson, fyrrum stjórnarformann stefnanda, en hann hafi m.a. setið í stjórn Glitnis banka hf. og verið framkvæmdastjóri Saxbyggs ehf., Einar Örn Jónsson, fyrrum stjórnarmann stefnanda, en hann hafi einnig á sama tíma setið í stjórn stefnda og móðurfélagsins FFÍ, Gunnar Þorláksson, sem einnig hafi setið í stjórnum stefnanda, stefnda og móðurfélagsins FFÍ, auk þess sem hann hafi setið í stjórnum BYGGs ehf. og Saxbyggs ehf., svo nokkur tengd félög séu nefnd. Loks hafi verið tekin skýrsla af Pálma Kristinssyni, fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda.

         Í skýrslu Björns Inga Sveinssonar hjá skiptastjóra frá 2. maí 2011 komi eftirfarandi fram um skuldbindingu í lánsskilmálum frá 19. júní 2008: „Menn hafi væntanlega ekki áttað sig á því á þessum tíma að lánveitendur [stefnda] hefðu þurft að samþykkja þessa fjármögnun.“

         Björn Ingi hafi verið stjórnarformaður Norðurturnsins ehf. frá 12. ágúst 2008 til 20. maí 2009. Einar Örn Jónsson gefi þær skýringar í skýrslu sinni hinn 15. apríl 2011, þegar hann hafi verið spurður út í lánsskilmála framkvæmdaláns frá 19. júní 2008, að það sé ljóst, að framkvæmdaaðilar hafi ætlað að útvega þetta fjármagn, en hann geri sér ekki grein fyrir því, hvernig það hafi átt að gerast. Einar hafi verið stjórnarmaður í stefnanda frá 29. marz 2007 til 20. maí 2009.

         Í skýrslu Pálma Kristinssonar þann 27. apríl 2011, sbr. dskj. nr. 14, kveðist hann hafa samið kynninguna um Norðurturninn frá 15. apríl 2007, þar sem fram komi fyrirhuguð notkun á bílastæðum fyrir viðskiptavini Smáralindar. Enn fremur hafi hann sagzt kannast við það kynningarskjal (sk. teaser), sem notað hafi verið til að afla stefnanda fjármagns sumarið 2008, en það hafi verið fyrst í nóvember sama ár sem hann hafi fengið vitneskju um, að „teaserinn“ hafi verið notaður sem gagn í skuldabréfaútboðinu. Pálmi hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra stefnanda frá því að félagið hóf byggingu Norðurturnsins til áramóta 2008-2009.

         Gunnar Þorlákssonar hafi, við skýrslugjöf hjá skiptastjóra þann 20. maí 2011, þegar undir hann voru borin ákvæði lánsskilmála um hlutdeild stefnda í fjármögnum stefnanda, borið, að hann hafi á þessum tíma verið orðinn verktaki að húsinu og ekkert komið að fjármögnum verksins.

         Fulltrúar kröfuhafa stefnanda hafi átt fund með Helga S. Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Regins ehf., þann 4. febrúar 2011, þar sem þeir hafi lýst þeirri skoðun sinni, að stefndi hefði samþykkt að taka þátt í kostnaði vegna bílastæðauppbyggingar á lóð Norðurturnsins. Því hafi fulltrúi Regins ehf. andmælt og muni m.a. hafa vísað til lögfræðiálits þess efnis, að loforðið hefði verið fellt niður. Í kjölfar fundarins hafi Reginn ehf. sent bréf á fulltrúa kröfuhafa, dags. 16. febrúar 2011, þar sem því hafi verið hafnað, að stefnandi ætti kröfu á hendur stefnda. Því hafi fulltrúi kröfuhafa stefnanda, Halldór Jónsson hrl., andmælt með bréfi til Regins ehf., dags. 24. júní 2011.

         Með bréfi skipastjóra til stefnda, dags. 16. ágúst 2011, hafi þess verið krafizt, að stefndi greiddi stefnanda 1,3 milljarða króna vegna loforðs síns um þátttöku í framkvæmdakostnaði Norðurturnsins. Því hafi stefndi hafnað með bréfi lögmanns hans, dags. 1. september 2011. Með bréfi stefnda, dags. 4. október 2011, hafi verið höfð uppi krafa á stefnanda um greiðslu á meintri skuld, að fjárhæð um 272 milljónir króna. Þeirri kröfu hafi stefnandi hafnað sem rangri.

         Stefndi kveður Glitni banka hf. hafa skrifað undir lánaskilmála við stefnanda þann 19. júní 2008 og á svipuðum tíma hafi bankinn séð um skuldabréfaútboð fyrir stefnanda og hafi kynningarefni (svokallaður teaser) á vegum bankans verið lagt fram til mögulegra kaupenda skuldabréfanna í tengslum við það. Af lánaskilmálunum og þessu kynningarefni hafi mátt skilja, að stefndi hafi ætlað að leggja fram ákveðna fjárhæð til fjármögnunar á byggingu Norðurturnsins, þótt ekki hafi verið að finna neinar staðfestingar á því af hálfu stefnda. Skuldabréfin hafi verið seld um sumarið 2008 og hafi verið gengið frá endanlegum lánssamningi á milli stefnanda og Glitnis banka hf. þann 17. september 2008.

         Fljótlega eftir það hafi aðstæður á fjármálamörkuðum farið að versna mjög og efnahagshrun hafi orðið, sem leitt hafi til þess, að framkvæmdir við verkefni þetta hafi stöðvazt, og hafi það leitt til þess, að stefnandi hafi fengið greiðslustöðvun þann 12. maí 2010 og farið að lokum í þrot, eins og nánar sé gerð grein fyrir í stefnu. Í lok ársins 2009 hafi stefnda farið að berast til eyrna, að hugmyndir væru uppi á meðal kröfuhafa stefnanda um, að stefndi kynni að skulda stefnanda einhverja fjárhæð, sem stefndi hafi, með einhverjum hætti, einhvern tíma átt að hafa skuldbundið sig til að leggja stefnanda til vegna byggingar Norðurturnsins. Hafi forsvarsmenn stefnda átt í stöku samskiptum við fyrirsvarsmenn stefnanda á árunum 2010 og 2011 vegna þessa, þar sem stefndi hafi ítrekað mótmælt tilvist þessarar meintu kröfu. Formlegt innheimtubréf hafi svo borizt frá skiptastjóra stefnanda þann 16. ágúst 2011, og hafi því verið svarað með bréfi fyrir hönd stefnda þann 1. september 2011.

III

Málsástæður stefnanda

Aðalkrafa stefnanda í máli þessu byggist á því, að hann eigi kröfu á hendur stefnda, að fjárhæð kr. 1.300.000.000 vegna framkvæmda við bílastæðahús Norðurturnsins. Af þeim samningum, sem gerðir hafi verið vegna framkvæmdanna, og fjármögnun þeirra, sé ljóst, að um það hafi verið samkomulag, að stefndi greiddi stefnanda hluta af byggingarkostnaði Norðurturnsins á grundvelli þess, að í þágu stefnda hafi verið byggð umtalsvert fleiri bílastæði en þörf var á fyrir Norðurturninn.

         Í fyrrgreindu kynningarefni vegna fyrirhugaðrar byggingar Norðurturnsins frá 15. apríl 2007 sé fullyrt, að þegar Norðurturninn hefði verið tekinn í notkun myndu bílastæði á götuhæð verða opin almenningi (viðskiptavinum Smáralindar). Með þessu hafi verið kominn á samningur með stefnanda og stefnda um, að bílastæði götuhæðar Norðurturnsins skyldu vera til afnota fyrir viðskiptavini Smáralindar og af þeirri ástæðu hefði verið ráðizt í umtalsvert stærra bílastæðahús en þörf hafi verið á fyrir Norðurturninn.

         Þegar ráðizt hafi verið í skuldabréfaútboð vegna fjármögnunar Norðurturnsins, hafi verið gefið út kynningarblað (sk. teaser), merkt Glitni banka hf., þar sem segi um fjármögnun verkefnisins, að Smáralind ehf. fjármagni af sínum rekstri kr. 1.265.000.000, sem komi til niðurgreiðslu á framkvæmdafjármögnun Norðurturnsins. Í lánsskilmálum Glitnis banka hf. vegna framkvæmdaláns, dags. 19. júní 2008, sé tekið fram, að lántaki skuldbindi sig til að koma með undirritaða yfirlýsingu stefnda um greiðslu á kr. 1.300.000.000 til stefnanda. Undir lánsskilmálana riti samþykki sitt tveir stjórnarmenn stefnda, sem skipað hafi meirihluta stjórnar stefnda á þeim tíma.

         Af framansögðu megi ráða, að stjórnendur stefnda hafi samþykkt, með skuldbindandi hætti, að greiða stefnanda sem svaraði um 1,3 milljörðum króna fyrir þau bílastæði, sem stefndi hafi fengið til afnota við Norðurturninn og það hagræði fyrir rekstur Smáralindar, sem þeim fylgi. Að mati stefnanda breyti engu um skuldbindingargildi loforðs stefnda, hvort tekin hafi verið formleg ákvörðun um framangreinda þátttöku á stjórnarfundi stefnda eða ekki. Það liggi fyrir, að sömu einstaklingar hafi setið í stjórn stefnanda og stefnda, sem og móðurfélaginu FFÍ, þegar ákveðið hafi verið að leggja stefnanda til 1,3 milljarða króna. Þannig hafi stjórnarmenn stefnda, sem einnig hafi setið í stjórn stefnanda og móðurfélagsins FFÍ, staðið að þeirri ákvörðum að leggja stefnanda til 1,3 milljarða króna.

         Í þessu sambandi byggi stefnandi einnig á því, að forsvarsmenn stefnda hafi tekið þátt í þeirri kynningu fyrir kröfuhöfum stefnanda, að fé yrði lagt fram af hálfu stefnda til byggingar Norðurturnsins.

         Stefndi beri því við, að honum hafi verið óheimilt að skuldbinda sig til þess að greiða stefnanda fjárframlag vegna Norðurturnsins vegna ákvæða í lánasamningi um svokallað sambankalán, þar sem afla hefði þurft samþykkis „sambankans“. Ákvæði í lánasamningi stefnda við þriðja aðila og hugsanlegt brot stefnda á slíku ákvæði hafi engin áhrif á skuldbindingargildi loforðs, sem stefndi hafi gefið stefnanda. Hvort og hvaða áhrif loforð stefnda hafi á samninga hans við lánardrottna, varði á engan hátt réttarstöðu stefnanda.

         Stefnandi vísi til reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og reglna um túlkun og gildi löggerninga, sem m.a. komi fram í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísi stefnandi til almennra reglna félagaréttar og reglna um heimild til að skuldbinda einkahlutafélög, sem m.a. komi fram í IX. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Enn fremur vísi stefnandi til reglna gjaldþrotaréttar, sem komi fram í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum reglna um riftanir ráðstafana þrotamanns í XX. kafla laganna, og vísist einkum til 3., 131., 142. og 148. gr. laganna. Um varnarþing vísi stefnandi einkum til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um dráttarvaxtakröfu vísi stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því, að félagið hafi aldrei skuldbundið sig til að leggja fram fé til fjármögnunar á byggingu Norðurturnsins.

         Sú fullyrðing í stefnu, að á þeim tíma, sem þau gögn, sem lýst sé í stefnu, voru gerð, hafi sömu aðilar setið í stjórn stefnanda, stefnda og móðurfélags þeirra, FFÍ, sé röng, og hafi ekki verið sami framkvæmdastjóri í þessum þremur félögum á þessum tíma. Pálmi Kristinsson hafi verið framkvæmdastjóri stefnanda og FFÍ, en Helgi M. Magnússon hafi verið framkvæmdastjóri stefnda frá 4. marz 2007, sbr. dómskj. nr. 40.

         Þrátt fyrir það að stjórnir félaganna hafi verið skipaðar sömu mönnum fram á seinni hluta ársins 2008 verði hver sú ákvörðun, sem tekin sé, að vera réttilega tekin með formlegum hætti innan hvers félags fyrir sig til að um skuldbindandi ákvarðanir geti verið að ræða af hálfu hvers félags um sig. Leiði þetta af ákvæðum hlutafélaga- og einkahlutafélagalaga og sé alveg skýrt.

         Í öllum þeim gögnum, sem vísað sé til í stefnu, sem og öðrum gögnum málsins, sé hvergi að finna undirritun fyrir hönd stefnda á neinu skjali, sem innihaldi orðalag um skuldbindingu þess efnis, að stefndi ætli að leggja fram fjármagn til byggingar Norðurturnsins. Ákvörðun um að leggja fram um 1,3 milljarða króna til verkefnisins hefði þurft að taka fyrir á stjórnarfundi í félaginu, en stjórnin hafi enga slíka ákvörðun tekið, og sé ekki að finna eina einustu stjórnarfundargerð innan félagsins, sem feli í sér slíka bókun.

         Umfjöllun um málið sé aðeins að finna í einni óformlegri fundargerð stefnda (minnispunktum), en hún sé frá 5. nóvember 2009, dskj. nr. 23. Þar sé því lýst, að einhverjar hugmyndir kunni að vera uppi um, að félagið hafi átt að leggja fram fjármuni í tengslum við fjármögnun Norðurturnsins á sínum tíma. Sé þar verið að ræða um þann misskilning, sem virðist þá hafa verið kominn upp um, að stefndi hafi á einhverjum tímapunkti skuldbundið sig til að greiða þetta fjárframlag.

         Aðeins í einni fundargerð stjórnar í félögunum FFÍ og NT (stefnanda) sé fjallað beint um þetta málefni, en það sé í sameiginlegri fundargerð fyrir bæði félögin, fundur haldinn 10. apríl 2008, dskj. nr. 44.

         Af fundargerð þessari sé ekki að sjá, að á fundinum hafi staðið til að taka formlega ákvörðun um málið, heldur sé bara upplýst um framlagningu gagna af hálfu framkvæmdastjóra félagsins til Glitnis banka og Landsbankans. Þó svo að formleg ákvörðun hefði verið tekin á þessum fundi, hefði hún ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda, þar sem hún hefði ekki verið tekin á stjórnarfundi þess félags.

         Ekki sé að finna neitt um skuldbindingu stefnda til fjárframlags til stefnanda í kaupsamningi þeim, sem gerður hafi verið um lóðina undir Norðurturninn, dags. 27. ágúst 2007 (ekki 2008 eins og skrá stefnanda yfir framlögð skjöl beri með sér) og sjá megi á dskj. nr. 8.

         Kaupsamningurinn hafi verið gerður milli FFÍ og stefnda, og hafi stefnandi ekki komið að gerð þess samnings. FFÍ hafi síðar lagt lóðina inn í dótturfélag sitt, stefnanda, sem greiðslu fyrir hlutafjárhækkun í stefnanda, og hafi stefndi ekkert komið að þeim gerningum.

         FFÍ, sem 100% eigandi stefnanda, hafi samþykkt sem skilyrði fyrir kaupsamningnum að beita sér af fremsta megni fyrir því, að samningur yrði gerður milli systurfélaganna, ESML (stefnda) og NT (stefnanda), um samstarf og afnot af Norðurturninum, sem hafi einkum átt að vera um afnotaréttindi af bílastæðum í bílastæðahúsinu fyrir stefnda.

         Fram komi í kaupsamningnum, að ofangreindur samningur, sem hafi átt að gera, ætti að vera hluti af því endurgjaldi, sem stefndi hafi átt að fá fyrir lóðina, enda hafi FFÍ ætlað að framselja lóðina síðar til stefnanda. Það framsal hafi farið fram, en með hvaða hætti og skilyrðum það hafi gerzt, komi stefnda ekki við, enda hafi engir frekari samningar verið gerðir af hálfu þess félags vegna lóðarinnar.

         Þannig sé ljóst, að umræddur samstarfs- og afnotasamningur hafi átt að vera gerður til hagsbóta fyrir stefnda. Það að stefndi hafi gefið út afsal fyrir lóðinni síðar, án þess að skilyrði þetta væri uppfyllt, þýði aðeins, að stefndi hafi fallið frá þeim rétti, sem fyrirtækið hafi átt til að rifta kaupsamningnum á þessum grundvelli, en í því felist engin viðurkenning eða staðfesting á einhverju öðru. Ekki sé hægt að túlka þetta skilyrði sem svo, að samningurinn hafi á nokkurn hátt átt að fjalla um einhver fjárframlög stefnda til stefnanda, enda hvergi hægt að sjá neinar vísbendingar um slíkt.

         Í þessu sambandi sé einnig rétt að vísa til þess, að í lóðarleigusamningi frá 18. apríl 2008, dskj. nr. 38, og stofnskjali frá 21. apríl 2008, dskj. nr. 39, sem báðum hafi verið þinglýst þann 2. maí 2008 á lóðirnar Hagasmára 1, Hagasmára 3 og Hagasmára 5, komi skýrt fram, að kvöð sé á lóðunum um samnýtingu bílastæða á lóðum nr. 1 og 3, og kvöð um gagnkvæman umferðarrétt. Skjöl þessi komi til nokkru eftir gerð kaupsamningsins og taki að vissu leyti á þeim atriðum, sem nefnd hafi verið í kaupsamningnum.

         Í stefnu sé annars vegar fjallað um kynningarefni um Norðurturninn frá 15. apríl 2007, dskj. nr. 7, og hins vegar um svokallaðan „teaser“ merktan Glitni banka, frá sumrinu 2008, dskj. nr. 17, til stuðnings því áliti stefnanda, að svo hafi um samizt á milli stefnanda og stefnda, að stefndi myndi leggja fram fé til uppbyggingar Norðurturnsins, og að stefndi ætti að fá ákveðin bílastæði í Norðurturninum. Ekkert sé hins vegar að finna í þessum gögnum, sem leitt geti til þess, að stefndi verði talinn hafa skuldbundið sig til að leggja fram fé til stefnanda.

         Um þessi gögn sé það fyrst að segja, að hvorugt þeirra stafi frá stefnda, og hvergi sé að finna neina staðfestingu á því, að þau hafi verið borin undir stefnda eða fengizt hafi samþykki stefnda fyrir því, sem fram komi í þeim.

         Kynningarefnið um Norðurturninn beri með sér að stafa frá stefnanda, og sé ekki hægt að sjá, að stefndi komi að neinu leyti þar að. Í kaflanum „Eigendur og stjórnendur Norðurturnsins ehf.“ megi finna lokamálsgrein, sem segi: „Framkvæmdastjóri félagsins er Pálmi Kristinsson. Sömu menn skipa stjórn og framkvæmdastjórn Fasteignafélags Íslands hf.“ Ekki sé minnzt á stjórnendur stefnda í þessu efni. Í kaflanum „Lýsing á bílastæðahúsi“ komi eftirfarandi fram: „Bílastæði á götuhæðinni verða opin almenningi (viðskiptavinum Smáralindar)“, en ekkert sé frekar í þessu kynningarefni, sem ýi að því, að stefndi komi að fjármögnun þeirra, eða hafi skuldbundið sig með einhverjum hætti, hvað þetta varði. Rétt sé að geta þess hér, að bílastæði þau, sem séu á götuhæð Norðurturnsins, séu þau bílastæði, sem hafi verið við Smáralindina, áður en Norðurturninn var reistur. Ekið sé inn á bílastæðin undir turninn, og þurfi ekki að aka inn í neina byggingu eða slíkt til að fara inn á þessi stæði. Aðgangur að þeim sé öllum opinn og ekki hægt að loka hann af fyrir einhverja ákveðna aðila, s.s. viðskiptavini Norðurturnsins, viðskiptavini Smáralindar, eða einhvern annan. Þetta sé í raun opið svæði. Á lóðinni sé þinglýst kvöð um gagnkvæman rétt stefnanda og stefnda á þessum bílastæðum og umferðarrétt um þau og að, eins og sjá má á dskj. nr. 38 og 39.

         Hvað varði hinn svokallaða „teaser“ frá Glitni banka, þá beri hann með sér að hafa verið lagður fram við skuldabréfaútboð stefnanda, sem Glitnir banki hafi séð um. Í þessu skjali komi fram, að stefndi þurfi að bera kostnaðinn af byggingu bílastæðahúss, og sett sé inn áætlun um, að stefndi „[þurfi] að fjármagna frá sínum rekstri 1.265 mkr.“ eins og segi í skjalinu. Glitnir banki hafi aldrei leitað eftir staðfestingu frá stefnda um samþykki félagsins fyrir þessari skuldbindingu, enda séu engin gögn til, sem sýni, að slíkt samþykki hafi nokkurn tíma verið veitt af hálfu félagsins. Stefnukrafa byggist greinilega ekki heldur á því, að stofnazt hafi til skuldbindingarinnar með þessum “teaser”, þar sem stefnufjárhæð sé 1.300.000.000 kr., en ekki 1.265.000.000 kr. 

         Í stefnu sé byggt á ákvæðum í svokölluðum lánaskilmálum Glitnis banka vegna framkvæmdaláns, dags. 19. júní 2008, sbr. dskj. nr. 16, þar sem segi, að lántaki (stefnandi) skuldbindi sig til að koma með undirritaða yfirlýsingu frá stefnda um greiðslu á kr. 1.300.000.000 til stefnanda. Stefndi hafi hvergi komið að gerð þessara lánaskilmála og hafi þeir ekki verið bornir undir stefnda, hvað þá samþykktir og undirritaðir af hans hálfu. Feli þeir þar af leiðandi ekki í sér neina skuldbindingu af hálfu stefnda um fjárframlag til stefnanda.

         Lánaskilmálar þeir, sem undirritaðir hafi verið, séu undanfari gerðar endanlegs lánssamnings, og séu það ákvæði hins endanlega lánssamnings, sem gildi um lánveitinguna að lokum. Eins og sjá megi af ákvæðum hins endanlega lánssamnings frá 17. september 2008, dskj. nr. 18, sé þetta skilyrði farið með öllu út, og hvergi sé minnzt á fjárframlag frá stefnda í sambandi við fjármögnun verkefnisins í lánasamningnum, enda ljóst, að ákvörðun um fjárframlag stefnda upp á 1,3 milljarða króna hafi aldrei verið tekin í félaginu. Þegar litið sé til stefnufjárhæðar í máli þessu, virðist hún byggjast á því, sem fram komi í lánaskilmálunum frá 19. júní 2008. Þannig virðist stefnandi byggja á því, að í gerð þessara lánaskilmála felist skuldbinding stefnda, en eins og vikið sé að hér að framan, sé ekki ritað undir þessa skilmála af hálfu stefnda og þeir aldrei bornir upp við framkvæmdastjóra stefnda eða lagðir fyrir stjórn stefnda til samþykktar á stjórnarfundi eða öðrum vettvangi innan þess félags.

         Í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á því, að stefndi hafi á þessum tíma verið bundinn af ákvæðum sambankaláns, sem félagið hafi fengið á árinu 2004, en Landsbanki Íslands hafi verið umsjónaraðili með því fyrir hönd lánveitenda. Samkvæmt ákvæðum þess sambankaláns hafi félaginu verið óheimilt að selja eða kaupa eignir, taka lán, eða skuldbinda sig til fjárframlaga þótt kæmi úr rekstri þess o.s.frv., nema með samþykki sambankans fyrir ráðstöfuninni, dskj. nr. 43.

         Framkvæmdastjóri FFÍ og stefnanda, Pálmi Kristinsson, virðist hafa sent tölvupósta og minnisblöð til Glitnis banka og Landsbanka Íslands vegna málsins á tímabilinu 15. maí 2008 til 6. júní 2008, þar sem hann fjalli um málefni stefnda, dskj. nr. 13, 14 og 15. Þetta sé athyglisvert, þar sem framkvæmdastjóri FFÍ og NT hafi ekki komið að stefnda á þessum tíma. Svo virðist því sem hann hafi verið að beita sér í málefnum stefnda algerlega án nokkurs umboðs eða samþykkis innan stefnda fyrir því.

         Í tölvupóstum Pálma til Glitnis banka þann 21. maí 2008 og 26. maí 2008, sem beri með sér að hafa verið sendir frá Pálma frá Fasteignafélagi Íslands hf. og Norðurturninum ehf. (stefnanda), sbr. dómskj. nr. 13 og 14, sjáist, að Pálmi sé að senda áætlanir um lánsfjárþörf v. Norðurturnsins; áætlun A geri ráð fyrir því, að öll lánsfjárþörfin verði fjármögnuð með framkvæmdalánasamningi við Glitni banka, en áætlun B geri ráð fyrir að 1.268 m.kr. lánsfjárþörf verði fjármögnuð af stefnda með langtímaláni. Í seinni tölvupóstinum sé send breytt greiðsluáætlun, A og B, þ.e. með og án 1.268 m.kr. langtímafjármögnunar í júní/júlí 2008. Þannig sé ljóst, að á þessum tíma liggi ekki fyrir neitt ákveðið um fjárframlag frá stefnda.

         Í minnisblaði frá 6. júní 2008, sem Pálmi sendi með tölvupósti til Þorsteins Hjaltasonar hjá Landsbanka Íslands, segi, að stjórn FFÍ hafi ákveðið að fara þess á leit við lánveitendur stefnda, að þeir samþykki að veita stefnda heimild til töku á ca 1,3 milljarða króna langtímaláni og veðsetningar fyrir því. Tilgangurinn sé að fjármagna kostnaðarhlut stefnda vegna byggingar bílastæðahúss o.fl. mannvirkja í tengslum við byggingu Norðurturnsins, sbr. dómskj. nr. 15. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum hafi aldrei verið samþykkt að heimila þessa lántöku, en samþykki lánveitenda í sambankaláni til stefnda hefði verið nauðsynlegt til þess samkvæmt ákvæðum sambankalánasamningsins, eins og áður er rakið. Framlag stefnda til byggingar Norðurturnsins hefði einnig þurft samþykki lánveitendanna, þótt það kæmi af rekstri félagsins, sbr. orðalag lánssamningsins.

         Skýrslur þær, sem teknar hafi verið af þáverandi stjórnarmönnum og stjórnendum félaganna hjá skiptastjóra stefnanda, sbr. dómskj. nr. 26, 27, 29 og 30, styðji allar þá málsástæðu stefnda, að aldrei hafi verið tekin skuldbindandi ákvörðun af hálfu stefnda, stefnanda eða FFÍ um að stefnda bæri að leggja fram fjármagn til byggingar Norðurturnsins, eins og stefnan byggist á.

         Af öllu framangreindu megi sjá, að hvernig sem hugmyndir stefnanda og FFÍ hafi verið í upphafi um fjármögnun uppbyggingar Norðurturnsins, sé ljóst, að þær hafi aldrei farið af hugmyndastiginu yfir á ákvörðunarstig og aldrei hafi verið tekin nein ákvörðun um slíkt af hálfu stefnda. Stefnandi hafi alla tíð vitað, að ekki hafi verið tekin skuldbindandi ákvörðun um þetta fjárframlag, og geti stefnandi ekki byggt á því núna gegn betri vitund sinni.

         Kröfufjárhæðin sé ósönnuð og órökstudd og krefjist stefndi sýknu af þeim kröfum. Til vara krefjist stefndi verulegrar lækkunar á þeim kröfum, ef til þess kæmi, að hann yrði talinn eiga að greiða stefnanda eitthvert fjárframlag.

         Að lokum sé vakin athygli á því, að algerlega vanti umfjöllun um það í stefnu fyrir hvað hið meinta fjárframlag eigi að vera. Ef svo færi, að fallizt yrði á kröfur stefnanda, væri stefnda skylt að leggja fram fjárhæð til stefnanda, án allrar tilgreiningar á því, hvað komi fyrir það fjárframlag. Það sé ljóst, að ef svo væri, að stefndi hefði átt að leggja stefnanda til einhverja fjármuni, þá hefði átt að vera ljóst, hvað stefndi væri að fá fyrir þá fjármuni. Einhver eignarhlutur eða veruleg réttindi í Norðurturninum hlyti þannig að vera eign stefnda, ef hann hefði átt að leggja til fjármuni við byggingu hans. Ekki sé gerð grein fyrir því í stefnu, hvaða eign eða réttindi stefndi eigi að fá fyrir þetta fjárframlag, sem krafist sé, og sé það vafalaust vegna þess, að það sé ekki ljóst og ekki til nein gögn um það. Styðji það þær málsástæður stefnda, að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um, að stefndi ætti að leggja stefnanda til neitt fjárframlag, því að um leið og slík ákvörðun hefði verið tekin, hefði væntanlega legið skýrt fyrir, hvað stefndi hefði átt að fá í sinn hlut fyrir slíkt fjárframlag. Sé því ekki annað hægt en að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

         Stefndi vísi til stuðnings sýknukröfu sinni til meginreglna þeirra, sem gildi um hlutafélög og einkahlutafélög, þá einkum til heimilda aðila til að skuldbinda slík félög, einkum IX. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Varðandi málskostnaðarkröfur vísist til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Helgi S. Gunnarsson, stjórnarformaður stefnda, Pálmi Kristinsson verkfræðingur, Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri, Björn Ingi Sveinsson verkfræðingur, Jóhannes Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Hjaltason, starfsmaður fyrirtækjasviðs Landsbankans, og Helgi Marinó Helgason, sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

         Stefnandi byggir kröfu sína á því, að samkomulag hafi verið gert um byggingu fleiri bílastæða en þörf var á fyrir Norðurturninn, í þágu stefnda, og vísar í því sambandi til svonefnds „teasers“, lánaskilmála Glitnis banka og kynningarstarfs fyrirsvarsmanna stefnda fyrir kröfuhöfum stefnanda á fjármögnuninni.

         Pálmi Kristinsson verkfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði verið framkvæmdastjóri Norðurturnsins ehf. og Fasteignafélags Íslands hf. á þeim tíma, sem meint skuldbinding Smáralindar á að hafa átt sér stað, þ.e. um  mitt ár 2008, en þar á undan kvaðst hann hafa verið framkvæmdastjóri eignarhaldsfélags Smáralindar og hafa verið það frá upphafi. Hann kvað kynningarefni um Norðurturninn, sem liggur fyrir á dskj. nr. 7 og er dagsett 15. apríl 2007, hafa verið innanhússplagg, sem ekki hefði farið í opinbera kynningu nokkurs staðar. Þetta hefðu verið hugmyndir, sem upp hefðu komið. Á þeim tíma hefðu engar hugmyndir verið uppi um, að Smáralindin myndi taka þátt í kostnaði við framkvæmdina, sem þarna var kynnt, og þær hugmyndir hefðu komið upp síðar, eða eftir að framkvæmdir voru hafnar.

         Spurður um svokallað minnisblað til Þorsteins Hjaltasonar hjá Landsbanka Íslands vegna fyrirhugaðrar lántöku Smáralindar til þess að fjármagna kostnaðarhlut félagsins við byggingu bílastæðahúss, kvað hann ljóst, að mikið þyrfti að gerast svo endanlegar ákvarðanir yrðu teknar um þá þátttöku og hefði vegið þyngst, að félaginu hefði verið algerlega óheimilt að taka slíkar ákvarðanir einhliða, án samráðs við lánveitendur. Hefði öllum viðkomandi verið það ljóst, bæði stjórn félagsins, hluthöfum, eigendum og lánveitendum. Þarna hefði verið um að ræða hugmynd, sem reynt hefði verið að leiða til lykta, en hefði ekki falið í sér neinar skuldbindingar. Undirtektir Landsbankans hefðu ekki verið jákvæðar og hefði þetta mál í raun dáið út, án formlegrar tilkynningar frá bankanum.

         Spurður um það, hvers vegna hann hefði skrifað minnisblaðið til Landsbankans, en ekki framkvæmdastjóri Smáralindar, sem þá var Helgi Marvin Magnússon, kvaðst hann hafa gert það sem framkvæmdastjóri móðurfélagsins. Skjalið hefði verið óformlegt minnisblað. Hið rétta hefði auðvitað verið, að framkvæmdastjóri Smáralindar hefði skrifað það, en erindið hefði aldrei verið formlega komið yfir til þess félags. Framkvæmdastjóri Smáralindar hefði vitað af minnisblaðinu og einnig stjórnarmenn samstæðunnar. Smáralind og Norðurturninn hafi verið systrafélög í eigu móðurfélagsins, Fasteignafélags Íslands. Sömu stjórnarmenn hafi verið í báðum félögunum og rekstur félaganna hafi farið fram á sömu skrifstofunni.

         Spurður um ákvæði í staflið P í lánsskilmálum á dskj. nr. 16, dags. 19. júní 2008, kvaðst hann ekki hafa átt beinan þátt í að útbúa það skjal og hefði ekki verið viðstaddur, þegar gengið var frá því og hefði ekki haft hugmynd um, að skjalið hefði verið undirritað fyrr en um hálfum mánuði síðar.

         Spurður um svokallaðan „teaser“ á dskj. nr. 17, kvaðst hann fyrst hafa séð drög að því skjali í júnílok 2008, og hefði það þá komið frá starfsmanni Glitnis, sem hefði óskað eftir því að hann færi yfir þau drög. Skjalið hefði verið vinnuskjal, og ekki hefði verið búið að ganga frá fjármögnun Smáralindar, sem þar er talað um. Í símtölum við Glitni banka, hefði hann lagt áherzlu á, að sú fjármögnun væri í mikilli óvissu og vaxandi líkur á því, að ekki yrði af henni.

Í þessu skjali hefðu verið miklar yfirlýsingar og skuldbindingar, sem hefðu þurft að vera með formlegum hætti og hefði þurft að leggja fyrir stjórn félagsins, sem hefði samt aldrei verið gert. Hann hafi fyrst séð teaserinn í nóvember og þar hefðu verið yfirlýsingar, sem hafi komið algerlega aftan að honum.

         Einar Örn Jónsson skýrði svo frá, að hann hefði verið stjórnarformaður Fasteignafélags Íslands og dótturfélaganna, Smáralindar og Norðurturnsins, frá árinu 2007 og fram í apríl 2009.

         Spurður um staflið P í lánsskilmálum á dskj. nr. 16, kvað hann þarna ekki hafa verið um endanlegt skjal að ræða, þetta hefði fremur verið viljayfirlýsing varðandi það, hvernig hlutirnir skyldu ganga fyrir sig. Hvers vegna Smáralindin hefði verið sett þarna inn, fremur en annað félag innan samstæðunnar, kvaðst hann ekki muna, en taldi sennilegt, að það hefði verið vegna þess að Smáralindin hefði verið eina félagið, sem myndaði einhverjar tekjur. Það hefði verið fallið frá þessari skuldbindingu í endanlegum lánssamningi, væntanlega vegna þess, að menn hefðu ekki séð fram á að geta staðið við hana.

         Spurður um minnisblað Pálma til Landsbankans og „teaserinn“, kvaðst hann hvorugt skjalið hafa séð.

         Björn Ingi Sveinsson skýrði svo frá, að á árinu 2008 hefði félagið Saxbik, sem hann veitti forstöðu og sat í stjórn fyrir, og Glitnir banki ákveðið að stofna stórt fasteignafélag, þar sem menn myndu leggja inn eignahluti sína í hinum ýmsu félögum, svo sem Fasteignafélagi Íslands, sem hafi átt Smáralindina og Norðurturninn, og Eik fasteignafélagi, sem hafi átt mikið af fasteignum í miðborginni, og svo fasteignasjóði, sem þeir hafi átt saman úti í Noregi, að hluta til, og steypa þannig öllu í eitt félag. Ein af forsendunum, sem settar hafi verið fyrir þessari sameiningu, hafi verið sú, að framkvæmdinni við Norðurturninn, sem þá var hafin, yrði lokið með fjármögnun frá Glitni banka. Þann 19. júní 2008 hafi verið skrifað undir alla samninga um þessa sameiningu og að auki hafi verið skrifað undir lánsskilmála fyrir framkvæmdaláni á þeim tíma. Á sama degi hafi hann tekið við stjórnarformennsku í allri samstæðunni og hinum ýmsu dótturfélögum, nema Norðurturninum, sem hann hafi ekki tekið við stjórnarformennsku í fyrr en 12. ágúst sama ár. Hann hafi ekki setið í stjórn Norðurturnsins á þessum tíma.

         Spurður um undirritun lánsskilmála milli Norðurturnsins og Glitnis banka, dskj. nr. 16. sama dag og hann kom inn í stjórn félaganna, svaraði hann, að hann liti ekki á þetta sem samning, enda séu lánsskilmálarnir með fyrirvara um endanlega skjalagerð.

         Spurður um staflið P í framangreindu skjali, kvaðst hann ekki átta sig á því, hvernig það hefði komið til, hann hefði ekki komið að gerð skjalsins. Væntanlega hefðu menn haft hugmyndir um, að hægt væri að gera þetta á þennan hátt, en síðar hafi komið í ljós, að þetta gengi aldrei upp, þar sem Smáralindin hefði verið með þungt sambankalán, sem í væru allir íslenzku bankarnir, sem og Norræni fjárfestingarbankinn og mögulega fleiri bankar, og þeir hefðu aldrei samþykkt þessa skuldbindingu, sem væri enda ekki bindandi í þessu plaggi. Endanleg skjalagerð hafi tekið miklum breytingum frá þessu plaggi.

         Spurður um, hvort tekin hefði verið formleg ákvörðun af hálfu stjórnar Smáralindar um að leggja fram umdeilt fé til Norðurturnsins, kvaðst hann ekki þekkja til þess, það hefði þá verið gert, áður en hann kom inn í stjórn félagsins.

         Þorsteinn Hjaltason skýrði svo frá, spurður um minnisblað til hans frá Pálma Kristinssyni, að um hefði verið að ræða beiðni til bankans um að leita samþykkis skuldara um, að þeir fengju að taka þetta lán. Það hefði ekki verið gert og hefðu verið fyrir því fjölmargar ástæður. Hefði erindinu hvorki verið svarað formlega né lagt fyrir lánanefnd bankans. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa átt samskipti við aðra en Pálma innan Smáralindar eða Norðurturnsins varðandi minnisblaðið.

         Helgi Marinó Magnússon skýrði svo frá, að hann hefði tekið við framkvæmdastjórn Smáralindar ehf. árið 2007 og farið jafnframt með fjármálastjórn félagsins. Spurður um staflið P í lánsskilmálum á dskj. nr. 16, kvaðst hann ekki hafa átt þátt í því skjali, en þarna hefði fyrst og fremst verið um að ræða hugmyndir um að leysa ákveðinn vanda. Þetta hefði ekki verið í þágu Smáralindar, heldur andstætt hagsmunum hennar, og hefði fyrst og fremst verið mál Norðurturnsins. Hann kvaðst hafa setið stjórnarfundi eignarhaldsfélagsins Smáralindar sem framkvæmdastjóri félagsins, og hefði þetta mál, sem varðaði fjárframlag félagsins, ekki komið inn á borð þess.

         Eins og fram kemur í framburði framangreindra vitna, sem skýrslu gáfu í málinu, var kynningarblaðið á dskj. nr. 6 innanhússplagg, sem fól ekki í sér neinar skuldbindingar stefnda Smáralindar gagnvart Norðurturninum, enda þar um að ræða hugmyndir, sem ekki voru komnar í fast form, svo sem heiti skjalsins gefur einnig til kynna. Þá er ljóst, að hinn svokallaði „teaser“, sem stafaði frá Glitni banka og var gefinn út í tengslum við skuldabréfaútboð Norðurturnsins, skuldbindur á engan hátt stefnda til þátttöku í kostnaði við bílastæðahús, og liggur ekki fyrir, að það plagg hafi verið borið undir eða samþykkt af þar til bærum aðilum fyrir hönd stefnda.

         Minnisblað það, sem Pálmi Kristinsson lagði fyrir Þorstein Hjaltason í Landsbankanum, ber með sér að vera tillaga vegna fyrirhugaðrar lántöku Smáralindar ehf. á láni vegna kostnaðar við byggingu bílastæðahúss o.fl. Pálmi hafði á þessum tíma ekkert umboð til þess að ganga erinda Smáralindar í þessum tilgangi eða gefa yfirlýsingar, sem skuldbundu Smáralindina gagnvart Norðurturninum til þess að taka þátt í umræddum kostnaði. Kemur jafnframt fram í vitnisburði, bæði Pálma og Þorsteins Hjaltasonar, að þeir litu svo á, að skjalið hefði ekki falið í sér skuldbindingu af neinum toga, og ber skjalið það enda ekki með sér. Auk þess ritar Pálmi það ekki í nafni Smáralindar, heldur gengur hann þar erinda Norðurturnsins.

         Í margnefndum staflið P í lánsskilmálum á dskj. nr. 16 segir svo m.a.: „Lántaki skuldbindur sig til að koma með undirritaða yfirlýsingu Smáralindar ehf. kt. [...], við undirritun framkvæmdalánssamningsins, um greiðslu kr. 1.300.000.000,- til Norðurturnsins ehf.“ Skjal þetta er undirritað annars vegar f.h. Norðurturnsins ehf. og hins vegar f.h. Glitnis banka hf. Stefndi er hins vegar ekki aðili að þessum samningi, sem reyndar tók breytingum síðar, og einnig án aðkomu stefnda. Þá liggur ekki fyrir, að tillaga um fjárframlag stefnda í þessum tilgangi hafi verið borin upp fyrir, og samþykkt af, stjórn stefnda, þannig að félagið yrði skuldbundið gagnvart Norðurturninum ehf.

         Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að lögmæt, skuldbindandi ákvörðun hafi verið tekin af stjórn stefnda um að leggja fram umkrafið fé til byggingar bílastæðahúss Norðurturnsins. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Jafnframt ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.000.000.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Norðurturnsins ehf.

         Stefnandi greiði stefnda kr. 1.000.000 í málskostnað.