Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/1999


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Áminning
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur


           

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000.

Nr. 369/1999.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Ólafi Hauki Johnson

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

                                              

Opinberir starfsmenn. Áminning. Stjórnsýsla. Andmælaréttur.

Ó starfaði sem kennari við fjölbrautarskólann B. Skólameistari B veitti honum áminningu, þar sem hann hefði tekið eintak af stærðfræðiprófi úr skólanum, sem notað var í þágu sumarskólans S. Ó krafðist þess að áminningin yrði ógilt og byggði kröfu sína annars vegar á því, að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefðu verið brotnar, en hins vegar hefðu ekki verið fyrir hendi skilyrði til áminningar samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Talið var, að Ó hefði fengið tækifæri til þess að tjá sig um fyrirhugaða áminningu á þremur fundum, sem haldnir voru með honum, áður en honum var afhent skriflegt áminningarbréf. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdómara, að ekki hefði verið brotinn andmælaréttur á Ó. Talið var, að nægilega hefði verið sýnt fram á, að almennar reglur hefðu gilt um meðferð prófgagna í tengslum við próf hjá B þótt ekki yrði fullyrt, að Ó hefði vitað hvaða reglur giltu nákvæmlega um þessi efni hjá stærðfræðideild. Ó hefði fengið prófið hjá annarri deild en þeirri, sem hann starfaði hjá og án þess að leita heimildar hennar. Dreifing hans á prófinu innan S, sem hann ræki sjálfur í samkeppni við B, yrði að telja á hans ábyrgð og væri slík notkun prófsins annars eðlis en hagnýting þess meðal nemenda B. Var heimildarlaus taka og hagnýting prófsins með þessum hætti ekki talin hafa samrýmst ábyrgðar- og trúnaðarskyldum Ó samkvæmt IV. laga nr. 70/1996. Þóttu því ekki efni til að verða við kröfu hans um ógildingu áminningarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 1999 og krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnda og verði stefnda gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt álit umboðsmanns Alþingis 26. júlí 1999 í tilefni kvörtunar stefnda vegna áminningar sem skólameistari áfrýjanda veitti honum 5. júní 1997. Í samræmi við ósk stefnda og tilmæli umboðsmanns dró skólameistarinn áminningu þessa til baka með bréfi 15. september 1999. Þá hefur og verið lagt fram bréf skólameistarans til stefnda 17. september 1999 þar sem áhersla er lögð á að tilefni aðfinnsluefna skólameistarans gagnvart stefnda tengist með einum eða öðrum hætti eignarhaldi hans og rekstri á Sumarskólanum sf., en ekki rækslu starfa hans sem kennara við skólann.

Mál þetta varðar kröfu stefnda um ógildingu áminningar, sem skólameistari áfrýjanda veitti honum 8. september 1998. Er efni áminningarbréfsins tekið upp í heild í héraðsdómi. Ógildingarkrafa stefnda byggir annars vegar á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 13. gr. og 14. gr. um andmælarétt, hafi verið brotnar, og hins vegar hafi ekki verið fyrir hendi skilyrði til áminningar samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Eins og lýst er í héraðsdómi var stefndi boðaður skriflega á fund skólameistara 28. ágúst 1998 með eins dags fyrirvara, án þess að tilefnis væri getið. Á umræddum fundi, þar sem einnig var staddur aðstoðarskólameistari áfrýjanda, var stefnda kynnt tilefnið og að skólameistari liti mjög alvarlegum augum það atferli hans að taka stærðfræðipróf úr skólanum og nota það í þágu Sumarskólans sf. Kom þar fram að skólameistari íhugaði áminningu af þessu tilefni. Stefndi kom að sjónarmiðum sínum á þessum fundi. Ekki var ákveðinn frestur honum til handa í lok hans. Stefndi kynnti sér réttarstöðu sína síðan nánar og ræddi málið aftur við skólameistara og aðstoðarskólameistara 31. ágúst, þar sem hann lýsti fyrir þeim viðhorfum sínum. Að lokum var stefndi kallaður til fundar við framangreinda tvo yfirmenn áfrýjanda 8. september 1998 og mætti þar með honum trúnaðarmaður kennara. Var málið þá rætt enn frekar en að því loknu var stefnda afhent áminningarbréf, sem dagsett var 7. september.

Þótt fyrir liggi að ekki hafi verið getið tilefnis við boðun fundar 28. ágúst 1998, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, eða veittur ákveðinn frestur til handa stefnda, sbr. 18. gr. sömu laga, þykir af framangreindu ferli ljóst að honum hafi nægilega verið kynnt í upphafi, að skólameistari hefði í huga áminningu vegna tilgreinds atferlis. Jafnframt hafi hann fengið tækifæri til að tjá sig um tilefnið, bæði á fyrsta fundinum, svo og 31. ágúst og 8. september. Fékk hann þannig svigrúm til að kynna sér réttarstöðu sína og koma viðhorfum sínum þar að lútandi á framfæri við yfirmenn áfrýjanda. Að vísu er ósannað að sérstaklega hafi komið til tals með hvaða hætti stefndi komst yfir umrætt próf í skólanum fyrr en á fundinum 8. september, en fram hefur komið að þá hafi hann ekki viljað gefa upp hver hafi afhent honum prófið.

Að öllu þessu athuguðu verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki hafi verið brotinn andmælaréttur á stefnda.

Í áminningarbréfi skólameistara áfrýjanda til stefnda var vísað til fundarins 28. ágúst 1998 og sagt að stefndi hafi tekið á brott, ,,í laumi” og án þess að fá leyfi, eintak af lokaprófi í stærðfræði, sem lagt hafði verið fyrir nemendur áfrýjanda undanfarandi vor og afhent það stærðfræðikennara við Sumarskólann sf., sem stefndi væri eigandi að. Prófið hafi síðar verið fjölfaldað og dreift sem sýnisprófi fyrir lokapróf í þeim skóla. Var stefndi áminntur í bréfinu með vísan til 21. gr. laga nr. 40/1996 fyrir athafnir sem væru ósamrýmanlegar starfi hans við skólann.

Stefndi hefur viðurkennt að hann hafi fengið umrætt próf og afhent það stærðfræðikennara við Sumarskólann sf.  Hann segir að kennari hjá áfrýjanda hafi afhent sér prófið, en hefur ekki viljað nafngreina þann kennara. Hann kveður tilgang sinn með þessu hafa verið þann að bjóða upp á vandaða kennslu og markvissan prófundirbúning hjá Sumarskólanum sf. Hann kveðst hins vegar ekki hafa vitað af því að umræddur kennari dreifði prófinu meðal nemenda Sumarskólans sf. Stefndi kvað reglur hafa verið losaralegar hjá áfrýjanda um framkvæmd prófa og varðveislu prófgagna. Hafi sér ekki verið kunnugt um það að ekki mætti afhenda gömul próf en það hafi hann iðulega gert gagnvart nemendum sínum. Af hans hálfu hefur og verið vísað til 4. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing fimm stærðfræðikennara hjá áfrýjanda, sem voru deildarstjórar stærðfræðideildar skólans árin 1990-1999, þar sem fram kemur að það hafi verið vinnuregla deildarinnar að óheimilt væri að sýna og dreifa áður fyrirlögðum lokaprófum í stærðfræði nema fyrir lægi samþykki deildarinnar. Komu allir þessir kennarar fyrir dóm og staðfestu þetta. Hins vegar kom fyrir dóminn Hjálmur Steinn Flosason kennari við viðskiptadeild áfrýjanda, en hann hefur einnig kennt stærðfræði við stærðfræðideild. Kannaðist hann ekki við framangreinda vinnureglu og kvað viðskiptadeild ekki hafa sett slíkar reglur. Sagði hann nemendur skólans hafa fengið að sjá gömul prófverkefni. Aftur á móti kannaðist hann við að í gildi væru almennar reglur um undirbúning og varðveislu prófgagna.

Einnig var lögð fram í héraði yfirlýsing prófstjóra áfrýjanda um starfsreglur varðandi vinnu við framkvæmd prófa. Kemur þar meðal annars fram að eftir lok hvers prófs eigi að skila öllum gögnum, sem tilheyra prófinu, til prófstjóra, sem síðan afhendi deildarstjóra þau. Séu þau síðan í höndum deildarstjóra til varðveislu. Engin gögn varðandi próf megi fara út fyrir skólann. Prófstjórinn hefur staðfest yfirlýsingu þessa fyrir dómi og hafa þrír stærðfræðikennarar áfrýjanda auk skólameistara og aðstoðarskólameistara, sem hún var borin undir fyrir dómi, staðfest að þar væri rétt frá greint.

 Stefndi hefur verið kennari hjá áfrýjanda frá 1988 og kennt þar í viðskipta- og tölvudeildum. Var hann deildarstjóri tölvudeildar í nokkur ár. Jafnframt starfi sínu hefur hann staðið að rekstri Sumarskólans sf. frá 1993. Hefur sá rekstur verið í samkeppni við sumarskóla áfrýjanda síðustu ár.

Þegar til þess er litið, sem fram hefur komið í máli þessu, verður að telja að nægilega hafi verið sýnt fram á, að almennar reglur hafi gilt um meðferð prófgagna í tengslum við próf hjá áfrýjanda. Þessar reglur hafa þó ekki verið skriflegar en öruggt má telja að hverri deild hafi verið ætlað að sjá um varðveislu gagna til framtíðar. Hins vegar virðist sem ekki hafi verið til samræmdar reglur um hvernig þessari varðveislu skyldi háttað og hafi deildir framkvæmt þetta með mismunandi hætti.

 Ekki verður fullyrt að stefndi hafi vitað hvaða reglur nákvæmlega giltu um þessi efni í stærðfræðideild. Þegar litið er til stöðu hans og starfsreynslu hjá áfrýjanda verður hins vegar að telja að honum hafi átt að vera fyllilega ljóst að hjá hverri deild áfrýjanda yrði að vera reiða á þessum málum og að afhending gagna, sem hér um ræðir, þyrfti að lúta ákveðnum reglum. Stefndi fékk umrætt próf hjá annarri deild en þeirri, sem hann starfaði hjá og án þess að leita heimildar hennar. Hann afhenti það til notkunar í skóla, sem hann rekur sjálfur í samkeppni við áfrýjanda. Dreifingu prófsins meðal nemenda Sumarskólans sf. verður að telja á hans ábyrgð. Slík notkun prófsins er annars eðlis en hagnýting þess meðal nemenda áfrýjanda innan skólans sjálfs. Vísan stefnda til ákvæða upplýsingalaga hefur hér ekki þýðingu, enda leitaði hann ekki leyfis til  hagnýtingar prófsins.

Á það verður að fallast að áminningarbréf skólameistara áfrýjanda hafi ekki stuðst við nægjanleg rök að því leyti, að stefndi hafi tekið umrætt próf ,,í laumi”, þótt líta verði til þess að hann gerði ekki fulla grein fyrir því, hvernig hann komst yfir prófið. Á hinn bóginn verður að líta til þeirrar ábyrgðar og trúnaðarskyldna, sem á stefnda hvíldu sem starfsmanni áfrýjanda, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996. Verður heimildarlaus taka og hagnýting prófsins með ofangreindum hætti ekki talin hafa samrýmst þessum skyldum. Samkvæmt því þykja ekki efni til að verða við kröfu hans um ógildingu áminningarinnar.

Rétt þykir að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði. Við ákvörðun hans verður tekið tillit til þess að orðalag áminningarbréfs áfrýjanda var ekki að öllu leyti réttlætanlegt samkvæmt því sem áður sagði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, á að vera sýkn af kröfum stefnda, Ólafs Hauks Johnson.

Stefndi greiði áfrýjanda 150.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 1999.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. júní s.l., er höfðað með stefnu út gefinni      4. janúar s.l. og birtri 9. janúar s.l.

Stefnandi er Ólafur Haukur Johnson, kt. 201251-3899, Kjarrmóum 50, Garðabæ.

Stefndi er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, kt. 590182-1099, Austurbergi 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði með dómi áminning sem skóla­meistari stefnda veitti honum með bréfi dagsettu 7. september 1998.  Þá er krafist máls­kostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Málavextir.

Stefnandi er kennari við viðskiptadeild stefnda, Fjölbrautaskólann í Breiðholti og jafnframt er hann einn af eigendum Sumarskólans sf.  Síðastliðið sumar komst þá­ver­andi deildarstjóri stærðfræðideildar stefnda að því að stærðfræðiprófi stefnda frá 11. maí 1998 hafði verið dreift í Sumarskólanum sf. sem sýnisprófi fyrir lokapróf þar.  Deildarstjórinn mun hafa haft samband við kennara við Sumarskólann sem stað­festi að stefnandi hefði látið sig hafa prófið.

Í málinu hefur verið lögð fram yfirlýsing fimm kennara, sem gegnt hafa störf­um deildarstjóra Stærðifræðideildar frá árinu 1990 til ársins 1999, þess efnis að óheim­ilt sé og hafi verið að sýna og dreifa áður fyrirlögum lokaprófum í stærðfræði til nemenda nema fyrir liggi samþykki deildarinnar.  Þá liggur fyrir í málinu yfir­lýs­ing prófstjóra stefnda þar sem því er lýst að sá kennari, sem sat yfir í prófi, skili öll­um gögnum sem tilheyrðu prófinu til prófstjóra, þ.e. úrlausnum, af­gangs­próf­verk­efn­um og öllum pappír.  Prófstjóri afhendir síðan deildarstjóra þau gögn sem ekki eru not­uð.  Þá lýsir prófstjóri því yfir að engin gögn varðandi próf megi fara út fyrir skól­ann.

Með skriflegu fundarboði dagsettu 27. ágúst s.l. var stefnandi beðinn um að koma á fund hjá skólameistara daginn eftir kl. 11:00.  Í fundarboði er ekki getið um til­efni fundarins.  Stefnandi kom á fundinn og mun aðstoðarskólameistari hafa verið við­staddur.  Ekki mun hafa verið rituð fundargerð en stefndi heldur því fram að stefn­anda hafi verið tjáð að hann hefði tekið gögn skólans í leyfisleysi og notað í eigin­hagsmunaskyni.  Væri þetta litið alvarlegum augum og til stæði að veita honum áminn­ingu.  Stefnandi viðurkenndi strax að hafa látið kennara við Sumarskólann sf. hafa prófið.  Stefnandi mun hafa komið á fund skólameistara og aðstoð­ar­skóla­meist­ara 31. ágúst s.l. og lýst því yfir með vísan til upplýsingalaga að hver sem er hefði að­gang að prófum sem þegar hefðu verið þreytt.  Ekki var fallist á þessi sjónarmið stefn­anda og 7. september s.l. kom hann aftur á fund skólameistara, að­stoð­ar­skóla­meist­ara og trúnaðarmanns kennara þar sem honum var afhent áminningarbréf dag­sett daginn áður.   Er áminningarbréfið svohljóðandi:  “Með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, veitir undirrituð, yfirmaður þinn og skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti þér hér með áminningu fyrir at­hafn­ir sem eru ósamrýmanlegar starfi þínu við skólann.  Eins og þér var kynnt á fundi með undirritaðri og Stefáni Benediktssyni, aðstoðarskólameistara, þann 28. ágúst sl. er hér verið að vísa til þess að þú tókst á brott, í laumi og án þess að fá leyfi, eintak af lokaprófi í stærðfræði við F.B., sem var lagt fyrir nemendur þann 11. maí síðastliðinn, og afhentir það stærðfræðikennara við Sumarskólann sf., sem þú ert eig­andi að.  Prófið var síðar fjölfaldað og dreift sem sýnisprófi fyrir lokapróf í Sum­ar­skólanum sf.  Á fundinum var þér sagt að til stæði að áminna þig fyrir þetta og þér gef­inn kostur á að tala máli þínu.  Þrátt fyrir framkomin sjónarmið þín telur undir­rituð að framangreind háttsemi sé af þeim toga að varði áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996.  Með áminningarbréfi þessu er þér gefið færi á að bæta ráð þitt, en verði ekki breyting þar á, leiðir það til uppsagnar á ráðningarsamningi án frekari fyrir­vara.”

Stefnandi sætti sig ekki við áminninguna og freistaði þess að fá skólameistara til þess að draga hana til baka en án árangurs.

 

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir ógildingarkröfu sína á því að þau skilyrði áminningar sem kveðið er á um í 21. gr. laga nr. 70/1996 hafi ekki verið fyrir hendi í hans tilviki.  Hún hafi því byggst á ólögmætum forsendum og sé þar af leiðandi ógild samkvæmt grund­vallarreglum stjórnsýsluréttarins.  Þá hafi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotnar, en það eitt leiði til þess að ógilda beri áminninguna.

Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki notið andmælaréttar eins og kveðið er á um í 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga.  Þess hafi ekki verið getið í fundarboði að skóla­meist­ari stefnda hefði til athugunar hvort beita ætti stefnanda stjórnsýsluviðurlögum.  Vegna þessa hafi stefnandi ekki átt þess kost að leita til trúnaðarmanns síns, fulltrúa stétt­arfélags síns eða búa sig undir fundinn.  Þá hafi ekki komið til tals á fundinum að stefn­­andi hafi gerst sekur um að hafa í laumi tekið á brott með sér tilteknar eigur stefnda.  Beri þegar af þessum ástæðum að ógilda áminninguna.

Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki reynt að draga dul á að hann hafi sýnt til­teknum kennara við Sumarskólann sf. umrætt próf.  Þá segir stefnandi að kenn­ar­inn hafi án samþykkis síns eða vitundar dreift prófinu til nemenda sem sýnisprófi.  Stefn­andi kannast ekki við að honum hafi nokkurn tíma verið gefið til kynna af yfir­boð­urum sínum að þetta væri óheimilt.  Þá bendir stefnandi á að próf, sem notuð hafa verið opinberlega, séu gögn sem engin leynd hvíli yfir, en í 4. tl. 6. gr. upp­lýs­inga­lag­anna sé tekið sérstaklega fram að einungis sé heimilt að takmarka aðgang almennings að prófum á vegum ríkis eða sveitarfélags “ef  þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki ti­lætluðum árangri væru þau á almanna vitorði.”.  Þetta orðalaga eigi augljóslega ekki við um framhaldskólapróf sem þegar hefur verið lagt fyrir nemendur.

Þá byggir stefnandi á því að það fái með engu móti staðist að sú athöfn hans að sýna kennara við Sumarskólann sf. gamalt próf geti talist ósamrýmanleg starfi hans hjá stefnda.  Hafi athöfn hans verið þáttur í þeirri viðleitni hans að bjóða upp á vand­aða kennslu og markvissan prófundirbúning hjá Sumarskólanum sf.  Sé það full­kom­lega samrýmanlegt starfi hans hjá stefnda og algerlega að meinalausu fyrir hann.

Stefnandi reisir málskostnaðarkröfu á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og laga ákvæða um virðisaukaskatt.

Stefndi  mótmælir því að ekki hafi verið gætt andmælaréttar stefnanda í sam­ræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga.  Stefnandi hafi verið boðaður til fundar með skóla­meist­ara 28. ágúst s.l. og kom hann til þess fundar.  Var honum þar gerð grein fyrir því að hann hefði tekið prófgagn skólans í leyfisleysi og stæði til að veita honum áminn­ingu vegna þess.  Stefndi lýsti sjónarmiðum sínum vegna hinnar fyrirhuguðu áminn­ingar á fundi 31. ágúst.  Samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 skal starfsmanni gef­inn kostur á að tala máli sínu ef það er unnt áður en honum er veitt skrifleg áminn­ing og byggir stefndi á því að ekki sé kveðið á um að starfsmanni skuli kynnt að til standi að kynna honum fyrirhugaða áminningu.  Það sé ekki sjálfstæði stjórn­sýslu­ákvörðun að gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu, heldur hluti af máls­með­ferð.  Stefnanda hafi gefist nægt tækifæri á að tala máli sínu og koma sjónarmiðum sín­um á framfæri, þar á meðal gat hann leitað til trúnaðarmanns eða fulltrúa stétt­ar­fél­ags.  Stefndi mótmælir því sem röngu að efni fyrirhugaðrar áminningar hafi ekki komið til tals á fundinum.  Stefnandi hafi talið sér heimilt að taka eintak af stærð­fræði­prófinu og því til stuðnings hafi hann vísað til upplýsingalaga.  Stefnanda hafi því ekki aðeins verið gefinn kostur á að tala máli sínu heldur nýtti hann sér þann rétt og kom sjónarmiðum sínum á framfæri.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki beðið um leyfi til að taka prófgögn skól­ans og því liggi fyrir að hann hafi tekið þau í leyfisleysi og í laumi.  Var um að ræða gögn úr deild sem hann kenndi ekki við og hafi hann því haft nokkuð fyrir því að nálgast prófgögnin.  Stefnandi hafi ekki aðeins sýnt kennara Sumarskólans sf. prófið heldur hafi hann afhent honum það.  Stefnandi beri því ábyrgð  á því að próf­inu var dreift í Sumarskólanum sf.

Stefndi byggir á því að sá sem sinni atvinnurekstri sé með öllu óheimilt að mis­nota aðstöðu sína í opinberu starfi einkarekstri sínum til framdráttar.  Stærð­fræði­próf­ið hafi verið afrakstur vinnu þeirra kennara sem starfa við skólann og því eign hans.  Í háttsemi stefnanda hafi því falist óhæfileg og ósamrýmanleg athöfn í starfi.  Það sé meginregla að afrakstur af vinnuframlagi starfsmanna í þjónustu ríkisins verði eign vinnuveitanda.  Stefndi hafi því farið með allar heimildir til að nýta umrætt hug­verk og afrakstur vinnu stærðfræðikennara við skólann.  Stærðfræðiprófið hafi verið hluti af vinnuskyldu kennara.  Það leiði af eðli ráðningarsambands aðila að starfs­manni ber að halda sig frá hvers konar athæfi eða athafnaleysi sem vinnur gegn hags­mun­um vinnuveitanda, einkum að því er varðar eignir og samkeppnisstöðu vinnu­veit­anda. 

Stefndi byggir á því að í ljósi þess sem að framan er rakið sé ljóst að athöfn stefn­anda var ósamrýmanleg starfi hans hjá stefnda og var skylt að áminna hann.  Stefndi vísar einkum til 21. gr. starfsmannalaga og grunnraka 14., 15., 18. og 20. gr. sömu laga.  Þá bendir stefndi á ákvæði 139. gr. almennra hegningarlaga, enda þótt stefn­andi hafi ekki verið kærður fyrir háttsemi sína.  Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst, hvort sem vísað er til almennrar skynsemi sem 6. gr. starfsmannalaga höfðar til eða menntunar stefnanda í viðskiptafræði og uppeldis- og kennslufræði að gögn vinnu­veitanda eru ekki ætluð til einkanota eða í þágu atvinnureksturs, allra síst þegar um skylda starfsemi er að ræða.

Stefndi bendir á að að stefnandi hafi áður hlotið áminningu í starfi vegna þess að hann nýtti aðstöðu í skólanum til að koma starfsemi Sumarskólans sf. á framfæri.  Stefn­anda hafi því verið fullljóst að það var litið alvarlegum augum og talið ósam­rým­anlegt starfi kennara við skólann að nýta aðstöðu eða eignir skólans starfsemi einka­skóla til framdráttar.

Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að engin leynd sé yfir prófum skól­ans og að allir hafi aðgang að þeim eftir að þau hafa verið lögð fyrir.  Stefndi vísar til reglna skólans þar að lútandi og stefnanda mátti vera fullkunnugt um.  Stefndi mótmælir því að upplýsingalög hafi þýðingu fyrir kröfu stefnanda.  Stefnandi hafi ekki óskað eftir upplýsingum á grundvelli þeirra heldur hafi hann notað prófið án leyfis. 

Stefndi byggir á því að af framangreindum ástæðum sé áminning sú sem stefn­anda var veitt gild að formi og efni.  Stefnanda hafi verið veittur kostur á að tali máli sínu og það hafi hann gert.  Mat skólameistara á að veita bæri áminningu vegna at­hafn­ar stefnanda hafi verið rétt og í samræmi við lög. 

Stefndi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Stefnandi kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og skýrði svo frá að hann hefði kennt í skólanum á viðskiptasviði og í tölvudeild og kvaðst hann um tíma hafa verið deildarstjóri þar.  Hann kvaðst ekki hafa kennt við stærðfræðideild.  Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um reglur stærðfræðideildar um að ekki mætti afhenda gömul próf og kvað hann slíkar reglur ekki vera í viðskiptadeild.  Stefnandi kvaðst hafa lýst yfir áhuga sínum við starfsmann skólans, sem hann vildi ekki nafngreina, á því að fá að sjá prófið.  Hann kvað starfsmanninn hafa afhent sér prófið og kvaðst stefn­andi þá hafa sýnt það Stefáni Jónssyni, kennara við Sumarskólann sf.  Stefnandi kann­aðist við að hafa afhent honum prófið en hann ætlaðist ekki til þess að því yrði dreift meðal nemenda Sumarskólans sf. og kvaðst hann hafa beðið skólameistara stefnda afsökunar á því.

Kristín Arnalds, skólameistari stefnda, kt. 140739-3089, skýrði svo frá fyrir dómi að alltaf hafi legið ljóst fyrir að til stæði að veita stefnanda áminningu.  Hún kvaðst hafa leitað lögfræðiálits áður en sú ákvörðun var tekin.  Þá lýsti hún því yfir að hver sem væri mætti skoða prófgögn að fengnu leyfi viðkomandi deildar.  Hún kvað skólann ekki gefa út ársskýrslur með gömlum prófum.

Hjálmur Steinn Flosason, kt. 230348-3599, kennari við skólann kom fyrir dóm og kvaðst hafa kennt á viðskiptasviði og við stærðfræðideild.  Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um þá reglu að leynd skyldi hvíla yfir gömlum prófum og þá lýsti hann því yfir að nemendur skólann hafi fengið að sjá gömul próf.

Einnig komu fyrir dóminn þeir deildarstjórar stærðfræðideildar sem rituðu undir yfirlýsingu um meðferð prófa sem áður hafa verið lögð fyrir og staðfestu efni hennar.  Einnig kom fyrir dóm prófstjóri stefnda og staðfesti yfirlýsingu sína. 

 

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur annars vegar að því hvort stefnandi hafi notið andmælaréttar er  honum var veitt áminning fyrir þá háttsemi sína að afhenda kennara við Sumarskólann sf. gamalt próf sem lagt hafði verið fyrir nemendur stefnda vorið 1998 og hins vegar hvort sú háttsemi hafi verið þess eðlis að rétt væri að áminna hann með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins.

Ljóst er að stefnandi var boðaður skriflega á fund þar sem honum var tilkynnt að ofangreind háttsemi hans væri litin alvarlegum augum.  Ágreiningur er með að­il­um um það hvort stefnanda hafi á þeim fundi verið kynnt að fyrirhugað væri að áminna hann.  Þegar litið er til fyrri samskipta aðila og sérstaklega áminningar sem stefn­andi hlaut fyrir að nýta sér aðstöðu sína í skólanum til að koma starfsemi Sum­ar­skólans sf. á framfæri, verður að telja að stefnanda hafi mátt vera ljóst hvað stæði fyrir dyrum.    Áðurgreindur fundur var haldinn 28. ágúst s.l. og 31. sama mánaðar átti stefnandi enn fund með forsvarsmönnum stefnda.  Hafði stefnandi þá kynnt sér rétt­arstöðu sína og vísaði til ákvæða upplýsingalaga málstað sínum til framdráttar.  Stefn­anda var síðan afhent skrifleg áminning dagsett 7. september s.l. á fundi daginn eftir.  Verður því samkvæmt framansögðu að telja að stefnanda hafi gefist næg tæki­færi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Verður áminningin því ekki felld úr gildi á þeim forsendum að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnanda.

Stefnandi hefur kannast að við hafa afhent kennara við Sumarskólann sf. um­rætt stærðfræðipróf.  Hann hefur lýst því yfir að honum hafi ekki verið kunnugt um þær reglur stærðfræðideildar að leynd skyldi hvíla yfir gömlum prófverkefnum  Sá fram­burður stefnanda fær stoð í framburði kennarans Hjálms Steins Flosasonar.  Þá heldur stefnandi því fram að hann hafi ekki ætlast til þess að prófið yrði lagt fyrir nem­endur Sumarskólans sf. og hann segist hafa beðið afsökunar á því hvernig fór.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 skal veita starfsmanni áminningu sem hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfir­manns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu.  Al­kunna er að margir framhaldsskólar birta gömul prófverkefni í ársskýrslum sínum en upplýst var fyrir dómi að stefndi hefur ekki þann hátt á.  Mikilvægur þáttur í öllu námi er að er að láta nemendur spreyta sig á gömlum prófum svo þeim megi vera ljóst hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.  Dóminum er ekki að fullu ljóst hvaða sjón­ar­mið liggja að baki þeirri ákvörðun stefnda að hafa þann hátt á meðferð gamalla prófa sem hér hefur verið lýst, en svo virðist, að því er stefnanda varðar, að einhvers konar sam­keppnissjónarmið liggi þar að baki.  Háttsemi stefnanda var að sönnu að­finnslu­verð, en þegar litið er til þess að ósannað er að stefnanda hafi verið kunnugt um þær reglur sem giltu í stærðfræðideild um meðferð gamalla prófa, réttlætir hún ekki að mati dómsins að stefnda hafi verið heimilt  að veita honum áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.  Verður því fallist á kröfur stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 150.000 í máls­kostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Felld er úr gildi áminning sem skólameistari stefnda, Fjölbrautaskólans í Breið­holti, veitti stefnanda, Ólafi Hauki Johnson, með bréfi dagsettu 7. september 1998.

Stefndi greiði stefnanda kr. 150.000 í málskostnað að meðtöldum virð­is­auka­skatti.