Hæstiréttur íslands
Mál nr. 597/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 17. september 2012. |
|
Nr. 597/2012 |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl. Sératkvæði.
Hafnað var kröfu X þess efnis að hann fengi afrit af mynd- og hljóðdiskum með skýrslutökum yfir honum og vitnum í sakamáli sem höfðað hafði verið á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2012 sem barst héraðsdómi daginn eftir og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærðu og vitnum í málinu. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda sér framangreinda mynd- og hljóðdiska.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég skilaði sératkvæði 6. september 2012 í hæstaréttarmálinu nr. 584/2012 þar sem reyndi á hliðstætt sakarefni. Afstaða mín er óbreytt og byggist á þeim forsendum sem hér verða endurteknar.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er kveðið svo á að verjandi skuli jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Lögregla geti þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Talið verður að sama regla gildi um aðgang verjanda að gögnum eftir að mál hefur verið höfðað, sbr. dóma Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010 og 12. apríl 2012 í máli nr. 205/2012.
Niðurstaða hins kærða úrskurðar er byggð á skýringu á orðinu skjal í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Er þar talið með vísan til dóma Hæstaréttar 21. september 2009 í málum nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009 að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að ekki þurfi að afhenda verjanda önnur gögn sakamáls en þau sem séu á skjölum jafnvel þó að hægt sé að afrita þau eins og þau gögn sem varnaraðili krefst að verði afhent verjanda sínum. Var kröfu hans því hafnað.
Í 66. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir að framburðarskýrslur við rannsókn sakamála séu hljóðritaðar eða teknar upp á myndband eða mynddisk. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna um afhendingu rannsóknargagna til verjanda eiga að tryggja réttaröryggi sakbornings og möguleika til málsvarnar. Öll sömu sjónarmið sem að þessu lúta eiga við, þó að rannsakandi hafi í samræmi við 1. mgr. 66. gr. laganna hljóðritað skýrslur eða tekið þær upp á mynddisk í stað þess að skrá þær á pappír. Við skýringu á lagaákvæði sem ætlað er að tryggja réttaröryggi sakaðra manna verður að mínum dómi að beita þeim skýringarkosti sem tryggir það markmið best. Kveða þurfi í settum lögum skýrt á um undantekningu frá þeim rétti til þess að hún teljist gild. Sé 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 skýrð með þeim hætti, sem gert var í fyrrgreindum dómsmálum og meirihluti réttarins heldur sig við í þessu máli, leiðir það til þess að sá sem rannsakar sakamál hefur í hendi sinni að takmarka aðgang verjanda að framburðarskýrslu með því að velja tækni við skráningu hennar sem undanþegin er heimild verjandans til að fá afrit afhent samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Þetta er að mínum dómi ótæk lögskýring. Með vísan til alls þessa tel ég að túlka beri ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 þannig að því verði beitt um afrit hljóðrita og mynddiska. Samkvæmt þessu ber verjanda réttur til að fá slík gögn afhent nema þau séu sérstaklega undanþegin með öðrum ákvæðum laganna svo sem til dæmis er gert í 3. mgr. 37. gr. Svo er ekki í þessu máli. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfu varnaraðila.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. júní 2012 á hendur X, kt. [...], [...], „fyrir brot á lögum um tóbaksvarnir, umferðar-, tolla- og hegningarlögum í Reykjavík með því að hafa þriðjudaginn 28. september 2010 flutt til landsins sem háseti á [...] 4600 vindlinga, 90 dósir af munntóbaki, 50 dósir af fínkorna neftóbaki og 41 lítra af sterku áfengi, ekki gert tollayfirvöldum grein fyrir varningnum heldur borið hann frá borði í bifreiðina [...] og ekið á brott af hafnarsvæðinu, en er tollverðir hugðust stöðva hann ekki sinnt stöðvunarmerkjum þeirra heldur ekið áfram austur Vatnagarða, suður Sægarða að Sæbraut, gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótunum og áfram austur Sæbraut, suður Skeiðarvog, yfir umferðareyju og yfir á rangan vegarhelming á brúnni yfir Miklubraut, gegn rauðu ljósi á gatnamótum Skeiðarvogs, Sogavegar og Réttarholtsvegar síðan áfram suður Réttarholtsveg á réttum vegarhelmingi, vestur Bústaðaveg með allt að 109 km hraða á klst. að gatnamótum Bústaðavegar og Háleitisbrautar þar sem hann hugðist beygja norður Háaleitisbraut en missti stjórn á bifreiðinni sem fór stjórnlaust yfir umferðareyju, eystri akrein Háaleitisbrautar og aðra umferðareyju og hafnaði á vinstra framhorni strætisvagnabifreiðarinnar NR-369, sem var á leið suður vestari akrein Háaleitisbrautar, með þeim afleiðingum að ökumaður NR-369, A fæddur [...], kastaðist úr ökumannssætinu á framrúðuna og hafnaði loks í tröppum vagnsins og hlaut við þetta blæðingu undir heilahimnu, og þurfti af þeim sökum að fara í tvær skurðaðgerðir, og hefur auk þess í kjölfar slyssins glímt við höfuðverk og einbeitingar- og minnisleysi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 170. gr. og 3. mgr. 167. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005, 5. mgr. 8. gr. laga um tóbaksvarnir nr. 6/2002, 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 4. mgr. 14. gr., 1. mgr., sbr. c. lið 2. mgr., 36. gr. og 1. mgr. 37. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. gr. laga nr. 83/2005.“
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993. Jafnframt er þess krafist að 4600 vindlingar, 90 dósir af munntóbaki, 50 dósir af fínkorna neftóbaki og 41 l af sterku áfengi, sem lagt var hald á, verði gert upptækt samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. september 2010, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá því að ákærða var kynnt krafan og til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Í þinghaldi í dag gerði verjandi ákærða kröfu um að fá afhenta hljóð- og mynddiska með skýrslum ákærða og vitna hjá lögreglu. Sækjandi synjaði kröfu ákærða um afhendingu þeirra en lýsti því yfir að verjanda og ákærða stæði til boða að kynna sér diskana hjá lögreglu. Verjandi og sækjandi tjáðu sig um kröfuna og lögðu málið í úrskurð.
Eins og fram kemur í dómum Hæstaréttar, sbr. mál nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009, teljast hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslu lögreglu af sakborningum og vitnum, ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Ber að synja um afhendingu þeirra, ekki aðeins á rannsóknarstigi heldur einnig eftir að mál hefur verið höfðað, eins og fram kemur í dómum Hæstaréttar í málum nr. 614/2010, 205/2012 og nr. 584/2012. Að þessu virtu og með vísan til þess að í skjölum málsins liggja fyrir nákvæmar samantektir á framburði ákærða og vitna, byggðar á upptökunum, og verjanda og ákærða er heimill aðgangur að upptökunum hjá lögreglu, er kröfu ákærða hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu ákærða, X, um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærða og vitnum í máli Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-525/2012 er hafnað.