Hæstiréttur íslands

Mál nr. 535/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Útivist
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 4

 

Miðvikudaginn 4. desember 2002.

Nr. 535/2002.

Vísir.is ehf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði verzlunarmanna

(Ólafur Gústafsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Héraðsdómur kvað upp úrskurð um að bú V ehf. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu V ehf. var ekki sótt þing í héraði þegar málið var tekið fyrir. Brast því heimild til að kæra málið og var því vegna þessa vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. desember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess aðallega að sóknaraðili og lögmaður hans verði í sameiningu dæmdir til að greiða sér kærumálskostnað, en til vara að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu fyrir greiðslu kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar beiðni varnaraðila um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir 21. október 2002. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því. Í dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1992 bls. 2028, sbr. og meðal annars dóma 4. desember 2001 í málinu nr. 432/2001, 8. apríl 2002 í málinu nr. 158/2002 og 30. sama mánaðar í málinu nr. 189/2002, voru ákvæði laga nr. 21/1991 skýrð með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild brysti til kæru máls sem þessa þegar þannig stæði á. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Ekki eru efni til að verða við kröfu varnaraðila um að lögmanni sóknaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað. Þá er þess að gæta að varnaraðili setti fyrst fram kröfu um málskostnaðartryggingu í greinargerð fyrir Hæstarétti, þar sem hann tók til varna um efni málsins, og var sú krafa því of seint fram komin. Sóknaraðili verður á hinn bóginn dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Vísir.is ehf., greiði varnaraðila, Lífeyrissjóði verzlunarmanna, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. október 2002.

Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 3. júlí 2002 hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna, kt. 430269-4459, Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, Reykjavík, krafist þess að bú Vísis.is, kt. 560299-2819, Þverholti 11, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skiptabeiðandinn kveðst eiga kröfu á hendur skuldara vegna vangoldinna lífeyrisiðgjalda til sín fyrir tímabilið frá apríl 2001 til og með mars 2002 auk kostnaðar. Árangurslaust fjárnám fyrir þessari skuld hafi verið gert 26. júní sl.

Í kröfu skiptabeiðanda er höfuðstóll skuldarinnar ásamt vöxtum og kostnaði tilgreindur kr. 6.029.500.

Um lagastoð fyrir kröfu sinni vísar skiptabeiðandi til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á dómþingi 21. október sl. og var ekki sótt þing af hálfu gerðarþola. Málið var þá tekið til úrskurðar að kröfu skiptabeiðanda.

Fullnægt er skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að mega verða við kröfu skiptabeiðanda og er bú skuldara því tekið til gjaldþrotaskipta.

Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Bú Vísis.is, kt. 560299-2819, Þverholti 11, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.