Hæstiréttur íslands
Mál nr. 683/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Afhending gagna
- Matsgerð
|
|
Mánudaginn 24. nóvember 2014. |
|
Nr. 683/2014.
|
K & G ehf. (Magnús Helgi Árnason hdl.) gegn Glitni hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Afhending gagna. Matsgerð.
G hf. höfðaði mál á hendur K ehf. til innheimtu á samningi aðila frá 2008. Að beiðni K ehf. voru dómkvaddir matsmenn til að leggja mat á nánar tilgreint álitaefni. Á matsfundi var ákveðið að fara nákvæmari og tímafrekari leið við matið en forsenda fyrir henni væri sú að matsmenn fengju í hendur frekari gögn frá G hf. samkvæmt sérstakri beiðni þar um. Í beiðni hinna dómkvöddu matsmanna óskuðu þeir í fyrsta lagi eftir að fá afhentan tilgreindan árshlutareikning G hf., en í öðru lagi gögn og upplýsingar í fimm töluliðum. Í upphafi mun hafa staðið til af hálfu G hf. að afhenda umbeðin gögn. Síðar virðist sú afstaða G hf. hafa breyst og félagið neitað að afhenda gögnin. Í hinum kærða úrskurði var einvörðungu fallist á kröfu K ehf. um afhendingu á árshlutareikningi G hf. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á með G hf. að hafna bæri afhendingu gagna samkvæmt tilgreindum töluliðum á þeim grunni að tilgreining þeirra væri of víðtæk og óljós og að hann gæti ekki af þeim sökum tekið afstöðu til þess hvort afhending þeirra færi í bága við ákvæði laga um bankaleynd. Í þessu sambandi leit Hæstiréttur til þess að aðilar málsins hefðu sammælst um á matsfundi að fara ítarlegri leið við gerð matsins, auk þess sem G hf. hefði þegar tekið saman umbeðin gögn og því verið um langa hríð í aðstöðu til mats á afhendingu gagnanna með tilliti til ákvæðis laga um bankaleynd. Á hinn bóginn var fallist á með héraðsdómi að töluliðir 3, 4 og 5 fælu fremur í sér spurningar en beiðni um tilgreind gögn og var þeirri kröfu K ehf. hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afhenda dómkvöddum matsmönnum tiltekin gögn, en fallist á kröfu hans um afhendingu á árshlutareikningi varnaraðila 31. mars 2008. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að afhenda dómkvöddum matsmönnum öll gögn sem þeir höfðu óskað eftir í tölvubréfum til varnaraðila 27. september 2013 og 22. janúar 2014. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar „að því leyti sem beiðni sóknaraðila um afhendingu gagna er hafnað“ og að vísað verði frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila um afhendingu gagna samkvæmt beiðni dómkvöddu matsmannanna 22. janúar 2014, en til vara að þessari kröfu verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði var mál þetta höfðað á hendur sóknaraðila 19. september 2012 til innheimtu kröfu samkvæmt samningi aðila 24. september 2008 um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Hinn 7. júní 2013 féllst héraðsdómur á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna sem yrði falið „að leggja mat á það, með skoðun á árshlutareikningi matsþola vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 30. júní 2008, hvaða áhrif gengi íslensku krónunnar hafði á þróun stærða efnahags- og rekstrarreiknings matsþola á fyrstu sex mánuðum ársins 2008“. Á matsfundi 20. ágúst 2013 kom fram að unnt væri að framkvæma matið á tvo vegu, annars vegar að nota fyrirliggjandi upplýsingar úr árshlutareikningi eða hins vegar að fara nákvæmari og tímafrekari leið en forsenda fyrir henni væri sú að matsmenn fengju í hendur frekari gögn frá varnaraðila samkvæmt sérstakri beiðni þar um. Það var samhljóða niðurstaða fundarins að notast við síðari aðferðina. Í samræmi við þessa niðurstöðu sendu matsmenn 8. nóvember 2013 beiðni um gögn sér til afnota við matið, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Óskuðu þeir í fyrsta lagi eftir að fá afhentan árshlutareikning varnaraðila 31. mars 2008, en í öðru lagi gögn og upplýsingar í fimm töluliðum en tveir þeirra voru með undirliðum. Er nánar gerð grein fyrir efni beiðnarinnar í hinum kærða úrskurði.
II
Gögn málsins hafa að geyma fjölmörg tölvubréf milli lögmanna aðila og hinna dómkvöddu manna. Af þeim má ráða að í upphafi hafi staðið til af hálfu varnaraðila að afhenda gögn í samræmi við beiðni matsmanna 8. nóvember 2013. Þannig kemur fram í tölvubréfi 18. desember 2013, frá þeim lögmanni varnaraðila sem annaðist samskipti við sóknaraðila, að varnaraðili hefði „lagt út í mikla yfirferð ... að fara yfir og tengja gögn sem búa að baki ákveðnum þáttum í uppgjöri bankans pr. 31/12/2007 og 30/6/2008“ og að gögn yrðu „að sjálfsögðu“ send um leið og þau væru tilbúin. Þá var að lokum spurt hvort matsmenn vildu fá þau gögn sem þegar lægju fyrir eða hvort betra væri að gögnin yrðu afhent í heild sinni. Með tölvubréfi 22. janúar 2014 óskuðu matsmenn, til viðbótar við gagnabeiðni sína 8. nóvember 2013, eftir því að fá afhentar daglegar skýrslur varnaraðila til Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð á tímabilinu 1. janúar 2008 til 30. júní 2008. Í svarbréfi lögmanns varnaraðila 7. febrúar 2014 kom fram að stefnt væri að því að senda matsmönnum „öll gögnin í lok næstu viku“. Þá sagði jafnframt að varnaraðili teldi sig ekki geta orðið við beiðninni frá 22. janúar 2014 þar sem hann gæti ekki séð hvernig skýrslurnar kæmu til skoðunar við mat á árshlutareikningi varnaraðila 30. júní 2008. Af samskiptum aðila frá og með 14. mars 2014 má ráða að afstaða varnaraðila til afhendingu gagnanna hafi breyst og varnaraðili neitað að afhenda þau. Hinn 30. apríl 2014 óskaði sóknaraðili eftir því að boðað yrði til fyrirtöku í málinu til að leysa úr ágreiningi þessum. Í hinum kærða úrskurði var eins og áður greinir einvörðungu fallist á kröfu sóknaraðila um afhendingu á árshlutareikningi varnaraðila 31. mars 2008.
III
Eins og áður er fram komið gerir sóknaraðili þá kröfu fyrir Hæstarétti að varnaraðila verði skylt að afhenda annars vegar öll gögn sem um ræðir í þeim fimm töluliðum í tölvubréfi 27. september 2013 og hins vegar daglegar skýrslur um gjaldeyrisjöfnuð 1. janúar til 30. júní 2008 samkvæmt tölvubréfi 22. janúar 2014. Ekki verður séð að sóknaraðili hafi borið undir héraðsdóm kröfu um aðgang gagna þeirra sem um getur í hinu síðargreinda tölvubréfi. Er því fallist á með varnaraðila að sú krafa sóknaraðila komi ekki til úrlausnar hér fyrir dómi.
Kröfugerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er óljós að því er tekur til afhendingar árshlutareiknings hans 31. mars 2008, sem héraðsdómur hafði fallist á að afhentur yrði. Þá hefur varnaraðili heldur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti. Kemur hinn kærði úrskurður því ekki til endurskoðunar hvað varðar þennan árshlutareikning. Samkvæmt þessu er einungis til athugunar fyrir Hæstarétti sá hluti úrskurðar héraðsdóms er lýtur að þeim fimm töluliðum sem greinir í tölvubréfi matsmanna 27. september 2014.
IV
Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er þeim, sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að, skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Framangreind ákvæði um heimildir matsmanna til gagnaöflunar og skyldu til að láta gögn af hendi eru þó háð takmörkunum sem meðal annars leiða af 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til þess að unnt sé að meta hvort beiðni um gögn eða upplýsingar fari í bága við þagnarskyldu samkvæmt greininni verður að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna sé óskað. Almenn staðhæfing um að gögn séu háð bankaleynd leiðir á hinn bóginn ekki ein og sér til þess að gögn verði ekki afhent. Það er hlutverk dómstóla að leggja mat á það í hverju tilviki hvort það fari í bága við þagnarskyldu að veita upplýsingar eða afhenda gögn. Við það mat hefur verið lagt til grundvallar að ekki er sama ástæða til að veita félögum, sem tekin hafa verið til slita, jafn ríka vernd og einstaklingum, sbr. XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og til hliðsjónar 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en varnaraðili er í slitameðferð.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði er í töluliðum 1 og 2 í beiðni sóknaraðila óskað eftir þeim upplýsingum og vinnuskjölum sem notuð voru við vinnslu og framsetningu nánar tilgreindra skýringa, annars vegar í árshlutareikningi varnaraðila 30. júní 2008 og hins vegar í ársskýrslu hans fyrir árið 2007. Ekki verður fallist á með varnaraðila að hafna beri afhendingu þessara gagna á þeim grunni að tilgreining þeirra sé of víðtæk og óljós og að hann geti ekki af þeim sökum tekið afstöðu til þess hvort afhending þeirra fari í bága við ákvæði laga um bankaleynd. Beiðnin er þvert á móti nægilega skýr til mats á því hvort það fari í bága við þagnarskyldu að veita umbeðin gögn. Í þessu sambandi verður að líta til þess að aðilar málsins sammæltust um á matsfundi að fara ítarlegri leið við gerð matsins sem krefðist aukinna gagna frá varnaraðila, auk þess sem ljóst þykir af gögnum málsins að varnaraðili hafi þegar tekið saman umbeðin gögn, sbr. framangreint tölvubréf lögmanns hans 7. febrúar 2014. Verður því ekki annað ráðið en að hann hafi sjálfur talið framkomna beiðni hvorki of víðtæka né óljósa og verið um langa hríð í aðstöðu til mats á afhendingu gagnanna með tilliti til ákvæðis laga um bankaleynd. Samkvæmt framansögðu verður varnaraðila því gert að afhenda þau gögn sem um ræðir í töluliðum 1 og 2.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á niðurstöðu hans varðandi töluliði 3, 4 og 5.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að varnaraðila, Glitni hf., er skylt að afhenda sóknaraðila, K & G ehf., gögn þau sem um getur í 1. og 2. tölulið beiðni þar um frá 8. nóvember 2013.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2014.
I.
Málið þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. september sl. um þann ágreining sem að neðan greinir, er höfðað með áritun á stefnu 19. september 2012.
Stefnandi er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík, varnaraðili í þessum þætti málsins.
Stefndi er K&G ehf., Hafnargötu 9, Sandgerði, sóknaraðili í þessum þætti málsins.
Í málinu krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 61.930.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á kröfum hans. Jafnframt krefst stefndi þess, verði fallist á „nettun“, að vextir verði ekki tildæmdir frá fyrra tímamarki en þingfestingardegi málsins. Verði stefndi dæmdur til að greiða fjárhæð í GBP gegn mótframlagi stefnanda í íslenskum krónum krefst stefndi þess að það mótframlag beri sömu dráttarvexti og frá sama tíma og krafa stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að afhenda matsmönnum þau gögn og gefa þær skýringar sem gerð er grein fyrir í gagnabeiðni matsmanna á dskj. nr. 66. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Varnaraðili krefst þess að framangreindum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann þess að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins verði látin bíða efnisdóms í málinu.
II.
Í stefnu er málsatvikum lýst með þeim hætti að málsaðilar hafi átt í afleiðu- og gjaldeyrisviðskiptum. Á árinu 2007 hafi málsaðilar gert með sér tvo stundargengissamninga. Á árinu 2008 hafi málsaðilar gert með sér einn samning um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og tólf samninga um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti, sem allir hafi verið framlenging á framvirka samningnum. Fyrri hluti hvers samnings sé bókaður undir liðnum stundarviðskipti í viðskiptayfirliti fyrir árið 2008 og síðari hluti sem framvirkur samningur í sama yfirliti.
Allir samningarnir séu uppgerðir að frátöldum samningi auðkenndum með númerinu SW0000070066, sem gerður hafi verið 24. september 2008 og með gjalddaga 1. október 2008, en fyrri hluti viðskiptanna hafi þegar verið gerður upp án athugasemda af hálfu stefnda.
Samningurinn, líkt og fyrri samningar, hafi gert ráð fyrir skiptum á gjaldmiðlum bæði í upphafi og lok samningstímans. Við upphaf samningsins, auðkennt sem fyrri hluti, hafi stefndi afhent 131.480.000 íslenskar krónur gegn afhendingu stefnanda á 1.000.000 breskum pundum. Við lok samnings, þ.e. á afhendingardegi 1. október 2008, hafi stefndi átt að afhenda 1.000.000 bresk pund gegn afhendingu stefnanda á 131.040.000 íslenskum krónum, auðkennt sem síðari hluti.
Notast hafi verið við miðgengi Seðlabanka Íslands á afhendingardegi við umreikning skuldar stefnda í íslenskar krónur í samræmi við 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Á þeim degi hafi gengi bresks punds gagnvart íslenskri krónu verið 197,97. Stefnda hafi því borið að afhenda 1.000.000 bresk pund, sem hafi jafngilt 192.970.000 íslenskum krónum (1.000.000 * 197,97) á þeim degi, gegn afhendingu stefnanda á 131.040.000 íslenskum krónum. Skylda stefnanda til afhendingar jafnist á móti skyldu stefnda og eftir standi nettótalan 61.930.000 krónur í tap fyrir stefnda (192.970.000 krónur- kr.131.040.000 krónur).
Í stefnu segir að umræddur samningur hafi verið framlenging á eldri samningi sama efnis. Viðskiptin hafi upphaflega komist á í símtali 14. febrúar 2008 í samræmi við almenna skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti. Í ársreikningi stefnda vegna reikningsársins 2008 komi fram að tap vegna framvirkra samninga sé að fjárhæð 62.400.000 krónur.
Í efnisþætti málsins krefst stefndi sýknu, en til vara lækkunar og til þrautavara hefur hann uppi tilteknar kröfur vegna útreiknings vaxta.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á nokkrum málsástæðum, m.a. þeim að stefndi eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda, sem sé a.m.k. jafn há stefnukröfunni. Að mati stefnda séu þeir gerningar, sem stefnandi byggir á í málinu, stofnaðir með saknæmum og ólögmætum hætti af starfsmönnum stefnanda, sem hann beri ábyrgð á. Bankinn hafi átt andstæðra hagsmuna að gæta við stefnda á þeim tíma sem um ræði þar sem hann hafi safnað upp eignum í erlendum gjaldeyri. Gengisfall íslensku krónunnar hafi þannig fært stefnda gengishagnað og hafi þessi hagnaður borið uppi rekstur bankans í 20 mánuði fyrir fall hans.
Eins og alkunna er tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf. í október 2008 og skipaði skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins, sbr ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 um skipan skilanefndar fyrir Glitni banka hf. Var stefndi í kjölfarið tekinn til slitameðferðar og öllum eignum og réttindum ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis banka hf., kt. [...], til Nýja Glitnis banka hf., kt. [...]. Í ákvörðun fjármálaeftirlitsins er tekið fram að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum flytjist ekki yfir til Nýja Glitnis banka hf.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 7. júní 2013 var fallist á beiðni stefnda um dómkvaðningu matsmanna, sem falið yrði að leggja mat á það, með skoðun á árshlutareikningi matsþola vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 30. júní 2008, hvaða áhrif gengi íslensku krónunnar hafði á þróun stærða efnahags- og rekstrarreiknings matsþola á umræddu tímabili. Voru matsmenn dómkvaddir 14. júní sama ár.
Í matsbeiðni stefnda er vísað til þess að matsþoli hafi aukið verulega jákvæða stöðu í erlendum gjaldeyri á árinu 2008 og að gengi íslenskrar krónu hafi haft veruleg áhrif á stöðu hans. Er í þessu sambandi vísað til þess að í skýringu 7 með áðurgreindum árshlutareikningi megi sjá að liðurinn ”Net foreign exchange gains” hafi hækkað verulega á tímabilinu miðað við sama tímabil árið 2007. Í matsbeiðninni segir að tilgangur matsins sé að færa sönnur á fullyrðingu matsbeiðanda í greinargerð þess efnis að alvarlegir hagsmunaárekstrar hafi verið matsþola ljósir og að matsþoli hafi í raun verið gjaldþrota ef ekki hefðu komið til tekjur af gengishagnaði. Því hafi stefnandi leitast við að fá aðila til gjaldeyrisviðskipta þar sem gagnaðili stefnanda tók stöðu með íslensku krónunni.
Með tölvupósti 30. apríl sl. óskaði lögmaður stefnda eftir að boðað yrði til fyrirtöku í málinu til að fjalla um framkvæmd starfa hinna dómkvöddu matsmanna og beiðni þeirra um aðgang að gögnum, en ágreiningur væri um þetta atriði á milli málsaðila. Af þessu tilefni var boðað til fyrirtöku í málinu í júní sl., en af henni varð þó ekki vegna anna lögmanns stefnanda og dómara. Voru lögmenn málsaðila sammála um að fresta til 4. september sl., en þá fór fram munnlegur málflutningur um áðurgreint ágreiningsefni og var málið að svo búnu tekið til úrskurðar.
III.
Í málinu hefur verið lögð fram fundargerð matsfundar í málinu 20. ágúst 2013 þar sem mætt var af hálfu beggja málsaðila. Þar kemur fram að matsmenn hafi gert grein fyrir því að unnt væri að framkvæma matið á tvo vegu, þ.e. annars vegar að nota einungis tölur og gögn úr árshlutareikningi og hins vegar að óska eftir frekari gögnum frá matsþola um stöðu liða í erlendri mynt, bæði hvað varði efnahagsreikning og rekstrarreikning. Síðari aðferðin væri nákvæmari, en tæki lengri tíma. Af fundargerðinni verður ráðið að ákveðið hafi verið að notast við síðari aðferðina og að engin mótmæli hafi komið fram gegn þeirri ákvörðun. Forsendan væri hins vegar sú að matsmenn fengju aðgang að gögnum matsþola. Jafnframt kemur fram í fundargerðinni að rætt hafi verið almennt um aðgang að gögnum matsþola og að matsmenn yrðu að leggja fram sérstaka gagnabeiðni þar sem gögnin væru „í mismunandi kerfum og skoða þarf það í hvert skipti fyrir sig.“
Í málinu hefur verið lögð fram beiðni hinna dómkvöddu matsmanna, dags. 8. nóvember 2013, um afhendingu á gögnum. Þar óska matsmenn í fyrsta lagi eftir að fá afhentan árshlutareikning Glitnis 31. mars 2008. Þá óska matsmenn eftir eftirfarandi gögnum og upplýsingum:
- Allar upplýsingar og vinnuskjöl sem notaðar hafa verið við gerð og framsetningu skýringar nr. 35, á blaðsíðu 23 í árshlutareikningi Glitnis 30.6.2008, dskj. 41, og skýringu nr. 81, á blaðsíðu 120 í ársskýrslu Glitnis (Consolidated Annual Accounts 2007) ársins 2007, í þeim tilgangi að greina hvernig liðurinn „Others“ skiptist niður á myntir.
- Allar upplýsingar og vinnuskjöl sem notaðar hafa verið við gerð og framsetningu skýringar nr. 13 (Derivatives held for trading) og skýringu nr. 14 (Derivatives to which hedge accounting is applied) á blaðsíðu 16 í árshlutareikningi Glitnis 30.6.2008, dskj. 41, og skýringu nr. 26 (Derivatives financial instruments) og skýringu nr. 27 (Derivatives to which hedge accounting is applied) á blaðsíðu 95 í ársskýrslu (Consolidated Annual Accounts 2007) ársins 2007. Leitað er eftir upplýsingum um fjárhæðir andlaga í afleiðusamningum (Derivatives financial instruments) í þeim tilgangi að greina myntsamsetningu þeirra. Athugið að í ársreikningi 2007 er fjárhæðir andlaga (notitional amount) sýnt í skýringum nr. 26 og 27 í íslenskum krónum en engin sundurliðun á myntir.
- Vinsamlegast skýrið frá með hvaða hætti gjaldmiðlaskiptasamningar eru settir fram í skýringu nr. 35 í árshlutareikningi Glitnis 30.6.2008, dskj. 41.
- Eru leggir samninga nettaðir saman og flokkaðir sem eign eða skuld?
- Hvað ræður því í hvaða mynt-dálk (skýr. nr. 35) fjárhæðin er sýnd í?
- Gjaldmiðlasamningur sem hefur einn legg í íslenskum krónum og annan legg í erlendri mynt, hvort flokkast þessi gjaldmiðlasamningur í dálkinn „ISK“ eða í viðeigandi erlenda mynt?
- Hver er sú fjárhæð, í íslenskum krónum, sem bankinn innleysi í rekstrarreikningi annars vegar á fyrsta ársfjórðungi 2008, janúar til mars, og hins vegar á öðrum ársfjórðungi 2008, apríl til júní, af gjaldmiðlaskiptasamningum þar sem einn leggur var í íslenskum krónum? Vinsamlegast tilgreinið í brúttó fjárhæðum, heildar tekjur/hagnaður og heildar gjöld/tap.
- Til vara ef ekki er hægt að fá fjárhæðina niðurbrotna á tvo fyrstu ársfjórðunga ársins 2008, þá á fyrri hluta árs 2008, janúar til júní.
- Til vara ef ekki er hægt að svara a) lið. Í skýringu nr. 7, blaðsíðu 14, í árshlutareikningi 30.06.2008 í línu merktri „Net foreign exchange gains“ og í dálki merkt „2008, Q1-Q2“ er fjárhæð 5.005 m.kr. Sambærilega skýringu er að finna í ársreikningi 2007, 31.12.2007, bls. 92, skýring nr. 12, sem þarf einnig upplýsingar um.
i. Hver er þessi fjárhæð brúttó, þ.e. gengishagnaður og gengistap?
ii. Er hagnaður eða tap gjaldmiðlaskiptasamninga innifalið í þessum lið og hver er þá fjárhæð þeirra á umræddum tímabilum?
- Í skýringu nr. 35, í árshlutareikningi 30.06.2008 er liðurinn „Net off-balance sheet position“. Þessi liður hefur nettó stöðu 13.352 millj. kr. ef lagðar eru saman allar fjárhæðir. Hver er ástæðan fyrir nettó stöðu?
Af tölvupóstsamskiptum lögmanna málsaðila og matsmanna á tímabilinu frá 8. nóvember 2013 til 7. apríl 2014, sbr. dskj. nr. 67, má ráða að í fyrstu hafi staðið til af hálfu varnaraðila að afhenda umbeðin gögn, en síðar hafi sú afstaða breyst og varnaraðili neitað að afhenda gögnin.
IV.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að varnaraðili hafi með tölvupósti 18. desember 2013, þ.e. eftir að gagnabeiðni matsmanna kom fram, gefið sóknaraðila skuldbindandi loforð um að afhenda umbeðin gögn, en ekki látið verða af því. Um sé að ræða gögn og upplýsingar, sem samkvæmt 5. gr., sbr. 4. mgr. 87. gr. a, laga nr. 3/2006 um ársreikninga eigi að koma fram í árs- og árshlutareikningum fyrirtækja, en samkvæmt nefndum ákvæðum eigi þeir að gefa glögga mynd af afkomu og efnahag viðkomandi félags. Árshlutareikningur stefnda frá 1. janúar til 30. júní 2008 gefi greinilega ekki þá glöggu mynd af afkomu og efnahag félagsins sem mælt sé fyrir um í lögum. Þá bendir sóknaraðili á að árshlutareikningur varnaraðila sé ekki á íslensku eins og kveðið sé á um í 7. gr. laga nr. 3/2005 heldur á ensku.
Loks bendir sóknaraðili á að á matsfundi 20. ágúst 2013 hafi verið ákveðið að fara þá leið við matið að afla frekari gagna hjá varnaraðila um stöðu liða í erlendri mynt í árshlutareikningnum bæði hvað varðaði efnahags- og rekstrarreikning.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt matsbeiðni hafi matsmönnum verið falið að leggja mat á það, með skoðun á árshlutareikningi varnaraðila vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2008, hvaða áhrif gengi íslensku krónunnar hafi haft á þróun stærða efnahags- og rekstrarreiknings matsþola á umræddu tímabili. Matsspurningin sé einskorðuð við skoðun á árshlutareikningi stefnanda á framangreindu tímabili og því komi önnur gögn ekki til skoðunar. Samkvæmt framangreindu hafi matsmenn aðgang að matsandlaginu, þ.e. áðurgreindum árshlutareikningi. Þá bendir varnaraðili á að matsmenn hafi lýst því yfir á matsfundum 20. ágúst 2013 og 1. apríl 2014 að þeir gætu lokið matsgerð eingöngu á grundvelli áðurgreinds árshlutareiknings varnaraðila frá 1. janúar til 30. júní 2008. Samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála geti matsmenn ekki gert kröfu um aðgang að öðrum gögnum en matsandlaginu sjálfu. Með vísan til framangreinds sé varnaraðila ekki skylt að afhenda umbeðin gögn.
Þá bendir varnaraðili á að í máli þessu gildi fortakslaust meginreglan um málsforræði aðila. Varnaraðila verði því ekki gert skylt að leggja fram gögn á grundvelli 1. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, sbr. ákvæði 1. mgr. 68. gr., en þar sé kveðið á um hvernig með skuli fara verði aðili ekki við áskorun gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 67. gr. sömu laga.
Verði talið að matsandlagið nái út fyrir áðurgreindan árshlutareikning kveðst varnaraðili benda á að matsmenn hafi ekki sýnt fram á nauðsyn eða ástæðu þess að biðja um tilgreind gögn, upplýsingar og skýringar. Með hliðsjón af meginreglunni um málsforræði aðila beri að túlka matsandlagið, sem fjallað sé um í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, þröngt.
Þá kveðst varnaraðili mótmæla fullyrðingum sóknaraðila um að matsmenn óski eftir upplýsingum og skýringum, sem með réttu hafi átt að koma fram í árshlutareikningi varnaraðila. Ekki komi fram í gögnum matsmanna að þeir telji að árshlutareikningurinn gefi ekki glögga mynd af afkomu og efnhag varnaraðila. Þá hafi sú staðreynd að árshlutareikningurinn sé á ensku enga þýðingu í málinu.
Varnaraðili kveðst mótmæla öllum töluliðum gagnabeiðninnar með eftirfarandi rökum:
Varnaraðili kveðst telja beiðnir samkvæmt 1. og 2. tölulið, þar sem óskað sé eftir öllum upplýsingum og vinnuskjölum sem notuð hafi verið við gerð og framsetningu ákveðinna þátta í ársreikningi 2007 og árshlutareikningi 30. júní 2008, of óljósar og víðtækar til að unnt sé að verða við þeim. Matsþola verði að vera ljóst hvaða gögnum verið er að óska eftir til þess að hann geti metið hvort afhending gagnanna fari gegn ákvæðum laga um bankaleynd, þ.e. 58. gr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 699/2011. Auk þess varði upplýsingar og gögn vegna ársreiknings 2007 ekki matsandlagið.
Í 3., 4. og 5. tölulið sé óskað eftir skýringum og settar fram margþættar spurningar, en ekki krafist aðgangs að gögnum eða matsandlaginu. Varnaraðili kveður slíka beiðni ekki eiga sér stoð í lögum og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 281/2014, sérstaklega til umfjöllunar um h-lið í því máli.
Varnaraðili kveður það ganga gegn 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál að matsmenn óski skýringa á einstökum þáttum sem þeim sé ætlað að meta, en með því móti gætu málsaðilar haft áhrif á niðurstöðu matsins.
Þrátt fyrir að varnaraðili hafi samþykkt í byrjun að afhenda gögnin teljist varnaraðili ekki hafa gefið skuldbindandi loforð í þeim efnum. Varnaraðili hafi samþykkt að viðhafa ákveðna aðferð við matið, en í því felist ekki loforð eða samningur af hans hálfu um afhendingu á umbeðnum gögnum.
Með vísan til alls framangreinds beri að hafna kröfu sóknaraðila.
V.
Fram kemur í fundargerð matsfundar 20. ágúst 2013 að hinir dómkvöddu matsmenn hafi talið að unnt væri að framkvæmda matið á tvo vegu. Annars vegar að nota einungis tölur og gögn úr árshlutareikningi varnaraðila 30. júní 2008 og hins vegar að óska eftir frekari gögnum frá matsþola um stöðu liða í erlendri mynt, bæði hvað varðaði efnahagsreikning og rekstrarreikning. Jafnframt upplýstu matsmenn að síðari aðferðin væri nákvæmari en tímafrekari. Fram kemur í fundargerðinni að málsaðilar hafi verið sammála um að viðhafa síðari aðferðina við matið. Í kjölfar þessa óskuðu matsmenn eftir þeim gögnum, sem greinir í gagnabeiðni á dskj. nr. 66. Samkvæmt þessu er ljóst að matsmenn telja umbeðin gögn nauðsynlegt til að svara matsspurningunni með hliðsjón af þeirri aðferð sem málsaðilar voru ásáttir um að beita við matið.
Með hliðsjón af meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila og ákvæðum laga um þagnarskyldu, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, verður ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi samþykkt svo skuldbindandi sé að afhenda umbeðin gögn.
Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er þeim, sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að, skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það.
Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 23. maí 2014 í máli nr. 281/2014, en varnaraðili var aðili að því máli einnig, er framangreint ákvæði um heimild matsmanna til gagnaöflunar og skyldu til að láta gögn af hendi háð takmörkunum sem meðal annars leiða af 58. gr. laga nr. 161/2002. Til þess að unnt sé að meta hvort beiðni um gögn fari í bága við þagnarskyldu samkvæmt greininni verði að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna sé óskað. Ennfremur segir að það sé hlutverk dómstóla að leggja mat á það í hverju tilviki hvort það fari í bága við þagnarskyldu að afhenda gögn. Við það mat hafi í dómaframkvæmd verið lagt til grundvallar að ekki sé sama ástæða til að veita félögum, sem tekin hafi verið til gjaldþrotaskipta, jafn ríka vernd og einstaklingum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991.
Taka verður afstöðu til réttmætis beiðni matsmanna um að fá aðgang að þeim gögnum og upplýsingum, sem greinir í gagnabeiðni þeirra á dskj. nr. 66, eftir þeim reglum sem að framan greinir. Samkvæmt því verður fallist á að varnaraðila beri að afhenda árshlutareikning Glitnis banka hf. frá 31. mars 2008. Því er hins vegar hafnað að skylt sé að afhenda gögn samkvæmt 1. og 2. tölulið gagnabeiðni matsmanna, en tilgreining á umbeðnum gögnum þykir of víðtæk og óljós til þess að unnt sé að meta hvort það fari í bága við 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 að verða við beiðninni. Þá er því hafnað að skylt sé að afhenda gögn samkvæmt 3., 4. og 5. tölulið beiðninnar ásamt undirliðum, enda fela þessir töluliðir, eins og þeir eru fram settir, fremur í sér spurningar en beiðni um tilgreind gögn.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Varnaraðila, Glitni hf., er skylt að afhenda sóknaraðila, K & G ehf., árshlutareikning Glitnis banka hf. frá 31. mars 2008.
Að öðru leyti er beiðni sóknaraðila um afhendingu gagna hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.