Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2009
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Vörslur
- Upptaka
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2009. |
|
Nr. 249/2009. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Vilhjálmi Vilhjálmssyni (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Vörslur. Upptaka. Sératkvæði.
V var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi við A, haft í vörslum sínum 392 MDMA töflur, ætlaðar til söludreifingar í ágóðaskyni, en töflurnar fundust við leit lögreglu í leigubifreið sem V og A voru farþegar í. Þá var V jafnframt sakfelldur fyrir vörslu á fíkniefnum sem fundust við leit á honum þegar lögreglan hafði afskipti af honum í leigubifreiðinni, svo og heima hjá honum. Þegar litið var til fjölda taflnanna, þyngdar þeirrar og styrkleika, var talið að háttsemi ákærða væri réttlega heimfærð í ákæru til 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var ákvörðun héraðsdóms um að dæma V í tveggja ára fangelsi staðfest, en til frádráttar refsingunni kom gæsluvarðahald sem hann hafði sætt við rannsókn málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu á 1. tölulið ákæru 17. desember 2008 og að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur að öðru leyti játað.
Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði staðfastlega neitað því að hafa haft í vörslum sínum 392 MDMA töflur þegar hann og meðákærði í héraði, A, voru handteknir aðfaranótt 20. mars 2008. Hinn síðarnefndi játaði að eigin frumkvæði í skýrslu hjá lögreglu 13. maí 2008 að hafa átt framangreindar töflur. Hefur hann verið dæmdur fyrir þá háttsemi, sem ákært er fyrir og dómurinn ekki til endurskoðunar að því er hann varðar. Fyrir dómi skýrði hann frá því að hann hefði farið með töflurnar í pakka út í leigubifreiðina sem þeir voru í við handtökuna og sett pakkann við eða undir sæti bifreiðarstjórans.
Ákærði hefur borið að hann og meðákærði í héraði séu bestu vinir. Upplýst er að þeir hafi ekið saman til Reykjavíkur 19. mars, daginn fyrir handtökuna, og verslað þar. Er komið var til baka hafi þeir dvalið á heimili meðákærða í héraði en haldið svo í ökuferð og að því búnu farið heim til ákærða. Þar hafi þeir dvalið í skamma stund áður en þeir pöntuðu leigubifreið, sem þeir höfðu nýlega sest inn í, er þeir voru handteknir. Í framhaldi af handtökunni voru framkvæmdar húsleitir á heimilum þeirra. Á heimilum beggja fundust sundurklipptir pokar sams konar og klipptir höfðu verið niður til að nota í umbúðir utan um töflurnar í pakkanum sem fannst í leigubifreiðinni, en inni í honum voru fjórir minni pakkar og var hverjum þeirra lokað með svörtu einangrunarlímbandi. Sama gerð af límbandi fannst við húsleitir á heimilum þeirra beggja. Á heimili ákærða fundust sams konar MDMA töflur og voru í pakkanum sem fannst í leigubifreiðinni og voru umbúðir þeirra sambærilegar. Hefur ákærði viðurkennt að hafa átt þær töflur. Við húsleitina á heimili ákærða fundust einnig gögn sem bentu til sölu hans á fíkniefnum, en hann hefur staðfest fyrir dómi að hafa stundað þá iðju, en þó ekki sölu á MDMA töflum. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 16. maí 2008 að viðstöddum verjanda sínum á þeim tíma. Þar voru honum kynnt hljóðbrot vegna hlerana, sem lögregla kvaðst hafa gert á síma hans. Voru honum kynnt þrjú tilgreind stímtöl sem fram hefðu farið 18. janúar, 2. og 12. febrúar 2008 og gerð grein fyrir þeirri ætlan lögreglu að í öllum tilvikum hefði hann verið að bjóða til sölu eða segja frá sölu á umtalsverðu magni af MDMA töflum. Ákærði kvaðst ekki muna eftir neinu af þessum símtölum og bar fyrir sig mikla neyslu fíkniefna á þessum tíma. Efni lögregluskýrslunnar að þessu leyti var borið undir ákærða er hann kom fyrir dóm og kvaðst hann ekki muna eftir þessu en nefndi að hann væri ekki viss um að rödd hans væri á umræddum hljóðbrotum. Tveir lögreglumenn, þar með talið sá sem annaðist símhlerunina, komu einnig fyrir dóm og svöruðu spurningum. Kváðust þeir vissir um að það væri rödd ákærða sem heyrðist á hljóðbrotunum. Í málinu liggur ekki fyrir úrskurður um heimild til símhlerunar. Engin rannsókn hefur farið fram á því hvort víst sé að um rödd ákærða sé að ræða. Af framangreindu og afstöðu ákærða, eins og henni er lýst, verður þó talið fram komið að rangar séu fullyrðingar hans um að hann hafi ekki stundað sölu á MDMA töflum, heldur öðrum fíkniefnum.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir skýrslu leigubifreiðastjóra þess, sem ók bifreiðinni er ákærði og meðákærði höfðu pantað og voru handteknir í. Eins og þar kemur fram taldi hann að það hefði verið ákærði sem troðið hefði einhverju í vasa á baki bifreiðastjórasætisins, en þar fann lögregla pakkann með MDMA töflunum.
Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði verði, ásamt meðákærða í héraði, að teljast vörslumaður þeirra 392 MDMA taflna sem fundust í leigubifreiðinni. Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt leiddar hafi verið líkur að því að meðákærði í héraði hafi innt af hendi greiðslur fyrir töflurnar. Þá verður heldur ekki vefengt mat héraðsdóms um að framburður meðákærða í héraði 13. maí 2008 og fyrir dómi um að hann hafi einn verið eigandi taflnanna sé ótrúverðugur, einkum í ljósi þess að hann hafði tvívegis í skýrslum hjá lögreglu 20. og 26. mars sama ár neitað því að kannast við hver ætti töflurnar. Þykir einnig hafið yfir vafa að töflurnar hafi verið ætlaðar til söludreifingar í ágóðaskyni svo sem í ákæru greinir. Með tilliti til fjölda taflnanna, þyngdar þeirra og styrkleika, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, er háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Er refsing hans einnig hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og verður hún staðfest, en frá henni dregst að fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 20. til 27. mars 2008.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað að því er ákærða varðar eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sæti fangelsi í tvö ár en til frádráttar refsingunni komi að fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist hans 20. til 27. mars 2008.
Niðurstaða héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað, að því er ákærða varðar, skal vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 411.370 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er ósammála meirihluta dómara um afgreiðslu á 1. tölulið ákæru 17. desember 2008, þar sem ákærða og meðákærða í héraði er gefið að sök að hafa 20. mars 2008 haft í vörslum sínum 392 MDMA töflur. Er atvikum sem að þessu lúta lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Það er skilyrði fyrir sakfellingu ákærða að ákæruvaldið færi fram lögfulla sönnun í málinu um að hann hafi haft nefnd fíkniefni í vörslum sínum umrætt sinn en það er sú verknaðarlýsing sem í ákæru greinir og heimfærð er til 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við skýringu á hugtakinu vörslur í lagaákvæðinu verður að líta til almennrar notkunar þess í lögfræði, meðal annars að einkarétti, sem engan veginn er þó einhlít. Þannig er ljóst að maður telst ekki hafa vörslur hlutar fyrir það eitt að samferðamaður hans hefur hlutinn í fórum sínum. Sýnist þá ekki heldur skipta máli þó að viðkomandi viti um hlutinn í vörslum samferðamannsins. Á sama hátt er ljóst að tveir menn sem eru saman í för geta talist fara saman með vörslur hlutar þó að aðeins annar þeirra hafi hann undir höndum. Svo mætti til dæmis telja ef þeir eiga hlutinn saman eða eru að flytja hann með vitneskju beggja milli staða í því skyni að hafa sameiginleg not af honum á áfangastað. Fleiri atriði kunna að skipta máli þegar metið er hvað felist í hugtakinu vörslur. Almennt verður að gera ráð fyrir að strangari kröfur verði gerðar til þess að um vörslur teljist vera að ræða, þegar þær eru skilyrði refsiábyrgðar heldur en í öðrum tilvikum.
Af 46. gr., sbr. 45. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, nú 1. mgr. 109. gr., sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, leiðir að færa þarf fram sönnun, sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum, „um hvert það atriði sem varðar sekt“ ákærðs manns. Í þessu máli stendur svo á að samferðamaður ákærða, meðákærði í héraði, hefur sagst hafa verið eigandi fíkniefnanna. Ekki skiptir máli fyrir sönnun sakar á hendur ákærða að þessi maður hafði neitaði þessu fyrst í stað en viðurkennt síðar. Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um peningaúttekt samferðamannsins nokkrum dögum fyrir hið ætlaða brot, sem vel getur samrýmst því að hann hafi fest kaup á efnunum fyrir það fé. Engin gögn í málinu benda til þess að ákærði hafi lagt til fé til kaupanna. Það er því ósannað að ákærði hafi átt efnin með hinum manninum. Samkvæmt skýrslu lögreglu um húsleit á heimili meðákærða í héraði 20. mars 2008 fannst þar plastpoki „sem virtist sá sami og notaður var sem umbúðir um töflurnar sem fundust í leigubifreiðinni“ svo sem komist er að orði í skýrslunni. Það sannar ekki þátttöku ákærða í innpökkun þessara efna að umbúðaleifar af svipaðri gerð fundust einnig á heimili hans, en hann hefur viðurkennt að hafa selt fíkniefni, þó ekki af þeirri gerð sem um ræðir í málinu. Ákærði kvaðst hafa fengið MDMA töflur, sem fundust á heimili hans hjá meðákærða í héraði, en sá ákæruliður sem hér er til umfjöllunar tekur ekki til þeirra. Tilvist þeirra sannar ekki eignarhald eða vörslur ákærða á efnunum sem fundust í leigubifreiðinni. Þá er ósannað að ákærði hafi verið með efnin í fórum sínum, þegar hann settist upp í leigubifreiðina, og einnig að hann hafi komið þeim fyrir í sætisvasanum aftan á bílstjórasætinu. Raunar myndi það ekki uppfylla kröfur lagatextans um vörslur þó að sannað væri að hann hefði tekið við efnunum af meðákærða í héraði inni í bifreiðinni, þegar lögreglunnar varð vart, og komið þeim fyrir í sætisvasanum.
Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að ekki hefur verið færð fram í málinu sönnun um tiltekin atvik sem skipta máli við mat á því hvort ákærði teljist hafa haft efnin í vörslum sínum svo sem hann er ákærður fyrir og áskilið er í lagatextanum. Hann verður að mínum dómi ekki sakfelldur fyrir vörslur nema slík sönnun sé færð fram á þann veg að ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum. Er að mínum dómi alveg eins líklegt að frásögn ákærða af atvikum málsins sé sönn eins og ætlan ákæruvaldsins. Það getur ekki dugað að þyrla upp moldviðri um alls kyns kringumstæður brots, kunningsskap milli ætlaðra brotamanna og vitneskju um fyrri háttsemi til að uppfyllt teljist sönnunarskylda sem leitt geti til sakfellingar í refsimáli.
Af þeim ástæðum sem hér hefur verið gerð grein fyrir tel ég að sýkna beri ákærða af 1. tl. ákæru 17. desember 2008. Með því að þetta er alvarlegasta brotið sem hann er sakaður um í málinu og meirihluti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að sakfella beri fyrir þetta brot, tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um ákvörðun refsingar ákærða, upptöku fíkniefna að því er hann varðar eða sakarkostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 18. mars 2008.
1.
Dómkröfur
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni framhaldsaðalmeðferð 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, 3. nóvember 2008, á hendur A, kt. og heimilisfang [...] “fyrir eftirtalin brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum:
I.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 22. desember 2006 haft í vörslum sínum 9,9 g af amfetamíni er hann geymdi í frystihólfi í ísskáp í eldhúsi á heimili sínu að [...].
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
II.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 8. maí 2007 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...], 3,25 g af kannabisefni og 1,79 g af amfetamíni er hann geymdi í eldhúsi, stofu og svefnherbergi.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.65
III.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 19. maí 2007 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...] , 1 g af kannabisefni er hann geymdi í stofu og 4,73 g af kókaíni er hann geymdi á hillu í eldhúsi.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
IV.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 8. júní 2007 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...] , 10,46 g af amfetamíni er hann geymdi í forstofu, 26,08 g af kannabisefni er hann geymdi í forstofu og stofu og 57 stk. af LSD er hann geymdi í eldhúsi.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
V.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 22. júlí 2007 haft í vörslum sínum 0,88 g af hassi er lögregla fann við leit í bifreiðinni AS-374, á Langholtsvegi við Laugarásveg, Reykjavík, í hólfi milli framsæta.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
VI.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 25. júlí 2007, ekið bifreiðinni AS-374, undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (amfetamín og tetrahýdrókannabínól) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, norður Hafnargötu, Reykjanesbæ, uns bifreið hans og bifreiðin YI-482 rákust saman á gatnamótum Skólavegar og Hafnargötu.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr.a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
VII.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 31. ágúst 2007 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...], 56,58 g af kannabislaufum, 19,24 g af marihuana og 13 kannabisplöntur er hann geymdi í stofu og á háalofti húsnæðisins.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., 4. gr. a, sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
VIII.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 2. september 2007, ekið bifreiðinni NK-306, undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (amfetamín) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, vestur Faxabraut og norður Suðurgötu, Reykjanesbæ.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr.a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
IX.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 9. mars 2008, ekið bifreiðinni AF-407, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (amfetamín og MDMA) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, á Reykjanesbraut við Strandarheiði, Reykjanesbæ þar sem hann ók á bifreiðina VR-610.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr.a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
X.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 11. apríl 2008 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...], 0,54 g af amfetamíni, 1,05 g af kannabisefni og 1 stk. ecstasy er hann geymdi á stofuborði og í eldhússkáp í húsnæðinu.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
XI.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 30. apríl 2008 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...] , 0,53 g af kannabisefni er hann geymdi á stofuborði í húsnæðinu.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
XII.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 17. maí 2008, ekið bifreiðinni YY-Y93, sviptur ökuréttindum og án þess að hlýða stöðvunarmerkjum lögreglu, norður Njarðarbraut og austur Iðjustíg að Brekkustíg 41, Reykjanesbæ.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
XIII.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 4. júlí 2008 haft í vörslum sínum 8,64 g af amfetamíni er hann geymdi í brjóstvasa sínum og lögreglan fann við líkamsleit á honum á tjaldsvæði í Kalmannsvík, Akranesi.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
XIV.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 4. ágúst 2008 haft í vörslum sínum á heimili sínu að [...] , 5,38 g af amfetamíni, er hann geymdi í krukku undir stiga í húsnæðinu.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
XV.
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 17. september 2008, ekið bifreiðinni NI-190, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (amfetamín og tetrahýdrókannabínól) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, austur Faxabraut, Reykjanesbæ.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr.a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er þess jafnframt krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á 36,71 g af amfetamíni, 108,61 g af kannabisefni, 13 kannabisplöntum, 4,73 g af kókaíni, 57 stk. af LSD og 1 stk. af ecstasy, sbr. I.-V., VII., X-XI og XIII-XIV. liði ákæruskjals, fíkniefni sem lögregla lagði hald á í þágu rannsóknar málanna, skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, sbr. reglugerð 848/2002.
Málið er einnig höfðað með ákæru, útgefinni 27. nóvember 2008, á hendur áðurgreindum A “fyrir brot gegn lögum ávana- og fíkniefni, með því að hafa sunnudaginn 17. ágúst 2008, haft í vörslum sínum 0,72 g af kannabisefni er lögreglan fann í hanskahólfi bifreiðarinnar DF-597 er hún hafði afskipti af ákærða sem farþega í bifreiðinni á bifreiðastæði við Stigahlíð 47, Reykjavík.
Telst þessi háttsemi varð við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 0,72 g af kannabisefni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Þá er málið höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara, 17. desember 2008, á hendur áðurgreindum A og Vilhjálmi Vilhjálmssyni, kt. 230977-5779, áður að Heiðargarði 5, Reykjanesbæ, en nú að Heiðarbóli 2, Reykjanesbæ “fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot framið 20. mars 2008:
1. Ákærðu báðum fyrir að hafa haft í vörslum sínum 392 MDMA töflur, ætlaðar til söludreifingar í ágóðaskyni, en töflurnar fundust við leit lögreglu í vasa á baki ökumannssætis leigubifreiðar sem ákærðu voru farþegar í, þar sem bifreiðinni var lagt við Suðurgötu 42, Reykjanesbæ..
2. Ákærða Vilhjálmi fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,53 g af kannabis sem hann framvísaði er lögregla hafði afskipti af honum í framangreindri leigubifreið, sem og 43 skammta af lysergide (LSD), 16 MDMA töflur, 7,11 g af amfetamíni og 6,19 g af kannabis, sem fundust við leit lögreglu á þáverandi dvalarstað ákærða að Suðurgötu 42, Reykjanesbæ.
3. Ákærða A fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,74 g af tóbaksblönduðu kannabis sem lögregla fann við leit á heimili hans að [...].
Brot ákærðu varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.”
Loks er málið höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, 15. janúar 2008 á hendur áðurgreindum Vilhjálmi “fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, framin þann 1. mars 2008:
I.
Fyrir hótanir með því að hafa í stigagangi hússins að Fífumóa 3, Reykjanesbæ, hótað EF, kt. og heimilisfang, lífláti.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum í íbúð að Fífumóa 5a, Reykjanesbæ, 1,01 g af amfetamíni er lögregla framkvæmdi leit í húsnæðinu.
Telst þetta varða við 2., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á 1,01 g af amfetamíni, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn málanna, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.”
Af hálfu ákærða, A, er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna.
Af hálfu ákærða, Vilhjálms Vilhjálmssonar, er krafist sýknu af ákærulið 1 í ákæru útgefinni 17. desember 2008, en vægustu refsingar sem lög leyfa að því er varðar ákærulið 2 í sömu ákæru og að brotið verði heimfært undir lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þá er krafist sýknu af ákærulið I í ákæru, útgefinni 15. janúar 2009, og vægustu refsingar sem lög leyfa að því er varðar ákærulið II í sömu ákæru. Þá er þess krafist að refsing ákærða verði að fullu skilorðsbundin.
2.
Málavextir.
A.
Ákærur, útgefnar 3. og 27. nóvember 2008, á hendur A.
Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindar ákærur varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæranna.
B.
Ákæra, útgefin 17. desember 2008, á hendur A og Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Ákæruliður I. Á hendur ákærðu báðum.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sem dagsett er 20. mars 2008, voru lögreglumenn við eftirlit í Reykjanesbæ aðfaranótt þess sama dags er þeir veittu ákærðu athygli þar sem þeir voru að setjast upp í leigubifreið við Suðurgötu 42. Í skýrslunni segir að ákærði A hafi sest upp í bifreiðina hægra megin og ákærði Vilhjálmur vinstra megin, þ.e. aftan við bílstjórasætið. Þeir hafi heimilað lögreglu að framkvæma leit á þeim og hafi ákærði A afhent lögreglu poka með hvítu dufti í og ákærði Vilhjálmur rúllu með sellofan og lítið glas með ætluðu maríjúana. Hafi þeim strax verið kynnt að þeir væru handteknir vegna gruns um fíkniefnabrot og þeim kynntur réttur handtekinna manna. Í vasa á sætisbaki ökumanns leigubifreiðarinnar, fyrir framan ákærða Vilhjálm, hafi síðan fundist plastpakkning vafin með málningarlímbandi. Hvorugur ákærða hafi viljað kannast við þessa pakkningu. Ákærði Vilhjálmur hafi tjáð lögreglu að þeir hafi pantað leigubifreið til að forðast það að vera stöðvaðir á bifreiðinni KM-U37, sem þeir hafi komið á og var þar skammt frá. Ákærðu voru báðir fluttir á lögreglustöð og vistaðir þar. Við athugun á pakkningunni á lögreglustöðinni hafi komið í ljós um var að ræða 400 ecstacy tölfur.
Fimmtudaginn 20. mars 2008 kl. 7.25 fór fram húsleit á heimili ákærða A að [...] í Keflavík. Í stofu íbúðarinnar fannst plastbox með ætluðum fíkniefnum eða íblöndunarefnum og heimatilbúin pípa, ætluð til fíkniefnaneyslu. Í svefnherbergi fannst öskubakki með ætluðum fíkniefnum (jónu) í og í eldhúsi svart einangrunarlímband og sundurskorinn plastpoki. Segir í skýrslunni að plastpokinn hafi virst sá sami og notaður hafi verið sem umbúðir utan um töflurnar, sem fundist hafi í leigubifreiðinni.
Fimmtudaginn 20. mars 2008 kl. 15.09 fór einnig fram húsleit á heimili ákærða Vilhjálms að Suðurgötu 42 í Keflavík. Í skýrslu lögreglu segir að áður en leitin hófst hafi ákærða verið gefinn kostur á því að segja til um hvort fíkniefni væru í íbúðinni og hafi hann tjáð lögreglu að þar ætti aðeins að vera smáræði af grasi í krukku í eldhússkáp.
Við leitina fannst m.a. áðurnefnd glerkrukka með grasi í, svo og ætlað amfetamín eða kókaín vafið í plast í frystihólfi ísskáps, plastpokar vafðir í sellófan í tösku í eldhúsglugga, ætlað LSD vafið í álpappír í eldhússkáp, ætlaður skuldalisti, bók með kennitölu og bankanúmeri, sogrör, grá límbandsrúlla, sellófanrúlla, allt á eldhúsbekk, plastpoki frá ÁTVR í ruslatunnu í eldhúsi, en í skýrslunni segir að pokinn hafi verið klipptur líkt og hann hafi verið notaður í umbúðir. Á salerni íbúðarinnar fundust 16 ætlaðar e-töflur, vafðar inn í eldhúspappír og vog og í stofu svart einangrunarlímband í stofuglugga.
Daginn eftir var húsleitinni fram haldið, einnig að viðstöddum verjanda ákærða, og fannst þá m.a. glerkrukka með ætluðum íblöndunarefnum.
Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla tæknideildar lögreglu, dags. 16. apríl 2008, en deildin fékk til rannsóknar pakkningu með fíkninefnum, sem fannst í vasa á ökumannssæti áðurgreindrar leigubifreiðar. Í skýrslunni segir að efnin hafi verið í fjórum einingum og hafi 98 töflur verið í hverri einingu. Hver eining hafi verið vafin inn í hringlaga plastbúta, sem klipptir höfðu verið úr innkaupapoka með rauðu mynstri og merktir www.vinbud.is. Hverri einingu hafði verið lokað með svörtu einangrunarlímbandi og höfðu einingarnar fjórar verið settar í einn glæran plastpoka. Í skýrslu tæknideildar gefur að líta ljósmyndir af fíkniefnunum og pakkningum utan um þau, svo og ljósmynd af sams konar innkaupapoka og plastbútarnir höfðu verið klipptir úr og segir í skýrslunni innkaupapokinn hafi fundist á vettvangi.
Að beiðni tæknideildar voru efnin send til greiningar hjá Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði. Matsgerð rannsóknarstofunnar er dags. 9. apríl 2008 og þar segir m.a. eftirfarandi:
“Sýnið var 3 bleikar, yrjóttar töflur, um 8,2 mm í þvermál og meðalþungi þeirra var 0,328 g. Á annarri hlið þeirra var mynd af andliti (broskarli). Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum fannst að töflurnar innihéldu MDMA-klóríð. Í töflunum voru 65 mg af MDMA-basa (samsvarar 77 mg af MDMA-klóríði).”
Meðal rannsóknargagna málsins er einnig myndaskýrsla rannsóknardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þar gefur að líta ljósmyndir af munum, sem haldlagðir voru á heimili ákærða Vilhjálms. Á ljósmynd 1 eru fíkniefni þau sem fundust á heimilinu, þ.e. ætlaðar e-töflur. Hafði þeim verið pakkað inn í hringlaga plastbút og utan um hann vafið gulu málningarlímbandi og pakkinn síðan falinn inni í salernisrúllu. Á ljósmynd nr. 3 gefur að líta umbúðir, sem voru utan um áðurgreind 392 stykki af e-töflum, þ.e. vafningur úr gulu málningarlímbandi og segir í skýrslunni að þar sé um að ræða sams konar umbúðir og fundist hafi á heimili ákærða Vilhjálms, sbr. ljósmynd 1. Á ljósmynd 4 gefur að líta plastpoka merktan ÁTVR og hringlaga plastbút og segir í skýrslunni að svo virðist sem plastpokinn hafi verið notaður í umbúðir eins og verið hafi utan um fíkniefnin, sbr. ljósmynd 1. Í skýrslunni er einnig ljósmynd af vafningi með amfetamíni, sem fannst í frystihólfi ísskápsins, glerkrukku, sem innihélt maríjúana, ljósmynd af álpappírsumbúðum, sem innihéldu 43 skammta af LSD og ljósmynd af glerkrukku, sem innihélt mjólkursykur, ætlaðan til íblöndunar á fíkniefnum.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir að því er varðar sakarefni ákæru, útgefinnar17. desember 2008.
Ákærði Vilhjálmur Vilhjálmsson neitaði sök að því er varðar 1. lið ákærunnar, sem útgefin er 17. desember 2008, en játaði sök að því er varðar 2. lið ákærunnar. Hann sagðist hafa verið í mikilli lyfja- og fíkniefnaneyslu á þessum tíma og því lítið muna eftir því sem gerðist. Hann sagði að þeir meðákærði væru bestu vinir.
Ákærði sagði að umrædda nótt hefði hann verið nýstiginn upp í leigubifreið þegar lögregla hefði komið, opnað hurðina og beðið hann um að stíga út úr bifreiðinni. Hefði lögreglan fundið á honum “gras”. Lögreglan hefði síðan leitað í bifreiðinni og tekið upp einhvern pakka, sem hann hefði ekkert kannast við.
Aðspurður sagðist hann hafa neytt e-taflna á þessum tíma og nokkru áður hefði hann fengið nokkrar e-töflur hjá meðákærða A. Sagði hann að lögreglan hefði lagt hald á það sem eftir var af töflunum á heimili hans. Sagðist hann ekki hafa neytt e-taflna daglega, en stundum hefði hann farið með allt upp í 15 töflur á einu kvöldi. Hann sagðist aðspurður hafa greitt meðákærða fyrir töflurnar, en þó ekki í hvert sinn. Hann sagðist ekki muna hver pantaði leigubifreiðina eða hvert þeir meðákærði voru að fara. Sagðist hann hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar fyrir aftan ökumanninn og stigið upp í bifreiðina á eftir meðákærða.
Ákærði sagðist hafa verið vanur að pakka amfetamíni inn í búta úr plastpokum og kvað hann það líklega skýringu á því hvers vegna sams konar poki og var utan um e-töflurnar fannst heima hjá honum. Vaninn hefði verið að setja fíkninefnin á plastpokann og vefja síðan pokanum utan um efnin og klippa á. Plastbútarnir hefðu því orðið hringlaga.
Ákærði Vilhjálmur sagðist hafa verið í sambandi við meðákærða á meðan á afplánun hans á eftirstöðvum reynslulausnar stóð á Litla-Hrauni. Meðákærði hefði þó ekki fengið að koma í heimsókn til hans fyrr en að liðnum þremur eða fjórum mánuðum frá því að gæsluvarðhaldi þeirra lauk, en þeir hefðu oft talast við í síma. Hann sagði að þriðji aðili hefði komið þeim skilaboðum til hans frá meðákærða að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu máli, þ.e. hvað varðar e-töflurnar. Síðar hefði meðákærði komið til hans í heimsókn á Litla-Hraun og sagt honum að hann hefði átt pakkann með e-töflunum. Það hefði verið löngu áður en meðákærði fór til lögreglu og skýrði frá því að hann hefði átt e-töflurnar. Aðspurður sagðist ákærði hafa stundað sölu á amfetamíni áður en hann var handtekinn vegna þessa máls, en meðákærði hefði hins vegar stundað sölu á e-töflum og fleiru. Hann sagðist hins vegar hafa fengið e-töflur hjá meðákærði þegar hann vildi neyta þeirra.
Ákærði var inntur út í símtöl sem lögregla hleraði 18. janúar og 2. og 12. febrúar 2008 þar sem m.a. væri rætt um talningu á brosköllum, svo og e-töflur og sölu á þeim. Sagðist ákærði ekkert muna eftir þessum símtölum og ekki geta staðfest að þetta væri hann sem talaði. Sagði hann að allt væri í móðu frá þessum tíma þar sem hann hefði verið í mikilli lyfjaneyslu. Einnig sagði hann að lögregla hefði ekki verið viss um að þetta væri hann. Sagðist hann ekki vera viss um að röddin hans heyrðist í upptökunni. Hann sagði að sú tilgáta lögreglunnar að annar væri að taka á sig sök í málinu fyrir hann væri óskiljanleg.
Ákærði sagðist hafa verið í fíkniefnameðferð á meðan hann var í afplánun á Litla-Hrauni, en sagðist hafa fallið um áramótin. Sagðist hann hafa verið að koma sér á rétt ról síðan en þó án aðstoðar fagaðila.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. og 27. mars og 16. maí 2008. Þar sagðist hann ekki kannast við e-töflurnar, sem fundust í leigubifreiðinni eða að hafa komið þeim fyrir í bifreiðinni. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa séð ákærða A gera það. Spurður um e-töflurnar, sem fundust á heimili hans, sagði hann að hann og félagar hans hefðu átt þær. Í skýrslunni frá 16. maí sagðist hann hafa talað daglega við ákærða A eftir að hann kom á Litla-Hraun, en ákærði A hafi ekki mátt heimsækja hann þangað. Þá bar hann um það að hann hefði fengið að vita það frá þriðja manni, sem hann vildi ekki nafngreina, að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu máli. Þá sagðist hann ekki hafa stundað sölu á fíkniefnum og að e-töflurnar sem hafi fundist heima hjá honum hefðu verið til einkanota. Þegar ákærða voru kynnt hljóðbrot úr síma hans frá 18. janúar, 2. og 12. febrúar 2008 þar sem talið sé að rætt sé um e-töflur sagðist ákærði ekki muna eftir símtölunum vegna mikillar neyslu.
Ákærði A játaði sök að því er varðar 1. og 3. ákærulið ákæru, útgefinnar 17. desember 2008. Hann sagði að í umrætt sinn hefðu þeir meðákærði verið heima hjá þeim síðarnefnda og pantað leigubíl til að komast í annað hús. Á leiðinni út í leigubílinn hefði hann séð lögreglubíl og þegar hann hefði sest upp í leigubílinn hefði hann tekið pakkann með fíkniefnunum sem hann var með í höndunum og sett hann undir eða á bak við sætið hjá leigubílstjóranum. Meðákærði hefði síðan komið á eftir honum og sest inn í leigubílinn. Þá hefði lögreglan komið og handtekið þá. Ákærði sagðist hafa sest inn í bifreiðina ökumannsmegin og fært sig síðan innar í sætið og setið fyrir aftan farþegasætið. Þá sagði hann að meðákærði hefði komið sömu megin inn í bifreiðina, þ.e. ökumannsmegin og setið fyrir aftan ökumannssætið.
Ákærði sagðist hann hafa neytt mikilla fíkniefna þessa nótt eins og venjulega. Þegar ákærði var beðinn um að lýsa því nánar hvernig hann losaði sig við fíkniefnapakkann inni í leigubifreiðinni sagðist hann hafa sett pakkann niður á bak við ökumannssætið. Einnig sagðist hann hafa fleygt pakkanum í sætið. Sagðist hann hafa séð lögregluna skömmu síðar taka pakkninguna úr sætinu. Ákærði sagðist hafa orðið mjög stressaður þegar hann hefði komið auga á lögregluna vitandi það að hann væri með um 400 e-töflur á sér og því gæti hann ekki lýst því nákvæmlega hvað hann gerði. Hann sagði að sig minnti að hann hefði lagt pakkann frá sér. Ákærði sagðist hafa pakkað e-töflunum inn í umrædda pakkningu. Hann sagði að um hefði verið að ræða fjóra poka með hundrað töflum í hverjum poka. Pokarnir hefðu verið hringlaga og skornir út úr plastpoka. Þá hefði hverri pakkningu verið lokað með sellófani. Utan um allan pakkann hefði verið vafið málningarlímbandi. Ákærði sagðist hafa talið 100 töflur, vigtað þær og síðan skipt töflunum í pakkningarnar samkvæmt þeirri vigt. Sagðist ákærði hafa verið í annarlegu ástandi á þessum tíma og því hefði hann greinilega talið töflurnar vitlaust í byrjun þar sem 98 töflur hefðu verið í hverjum pakka. Hann sagðist hafa keypt 500 e-töflur tveimur eða þremur dögum áður en hann var handtekinn og greitt fyrir þær 300.000 krónur. Hann sagði að meðákærði hefði vitað að hann væri í svona buisness, eins og ákærði orðaði það. Meðákærði hefði séð um sitt og hann um sitt. Hann sagði að þeir væru mjög góðir vinir og þeir gæfu hvor öðrum fíkniefni. Hann sagðist kannast við að hafa gefið meðákærða e-töflur skömmu áður en þeir voru handteknir.
Ákærði sagðist hafa verið í a.m.k. vikulegum samskiptum við meðákærða eftir að meðákærði fór inn á Litla-Hraun til að afplána eftirstöðvar reynslulausnar. Sagðist ákærði hafa rætt við meðákærða í síma þar sem hann hefði ekki mátt heimsækja hann. Sagðist hann hafa komið þeim upplýsingum til meðákærða á Litla-Hrauni að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu máli, enda hefði ekki staðið til að láta meðákærða taka á sig sök fyrir hann. Hann sagði að ekki væri rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hefði sagt meðákærða þetta sjálfur. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa játað á sig sök fyrr en 13. maí 2008 vegna þess að hann hefði vitað að lögreglan myndi ekki láta hann í friði eftir það, enda hefði sú orðið raunin. Ákærði var spurður að því hvers vegna hann hefði verið með upptökutæki meðferðis þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu í umrætt sinn og játaði á sig sök í málinu. Gaf ákærði þá skýringu á því að hann hefði verið prófa rafhlöður í tækinu heima hjá sér og verið með tækið í vasanum. Hann sagði að ekki hefði verð ætlunin að taka upp skýrsluna hjá lögreglunni.
Ákærði sagðist hafa farið í meðferð á Vogi síðastliðið haust og væri nú búinn að vera án fíkniefna í fjóra mánuði. Hann sagðist einu sinni hafa fallið, en þá byrjað á aftur að mæta á AA-fundi, sem hjálpaði honum að vera án fíkniefna. Hann sagðist vera á sjó og hafa stundað sjómennsku í 8 ár. Sagðist hann hafa góð laun og eiga íbúð.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. og 26. mars og 13. maí 2008. Í fyrstu skýrslunni sagði ákærði að þeir meðákærði hefðu í fyrstu rúntað um bæinn á bifreið meðákærði en síðan ákveðið að taka leigubíl af ótta við afskipti lögreglu. Hann kvaðst ekki hafa neytt e-taflna frá árinu 2003 eða 2004 og ekki hafa átt e-töflurnar sem fundust í leigubifreiðinni. Þá sagðist hann ekki hafa hugmynd um það hvort meðákærði hefði átt umræddar töflur og ekki vita hvort hann hefði verið með slíkar töflur meðferðis þegar þeir settust upp í leigubílinn. Þá væri það tilviljun ein að sams konar umbúðir hefðu verið utan um e-töflurnar, sem fundust heima hjá honum og þær sem fundust í leigubílnum. Þá neitaði hann því að stunda sölu á fíkniefnum og sagðist aðeins neyta fíkniefna einu sinni eða tvisvar í mánuði og þá reykja gras.
Í skýrslunni frá 26. mars neitaði ákærði því að peningaúttekt að fjárhæð 365.000 krónur hinn 13. mars 2008 hefði farið í kaup á fíkniefnum.
Í skýrslunni frá 13. maí 2008 viðurkenndi ákærði að hafa átt e-töflurnar sem fundust í leigubílnum. Sagðist hann hafa keypt 450 e-töflur fyrir 300.000 krónur tveimur dögum áður en þeir meðákærði voru handteknir. Hann hefði verið með töflurnar heima hjá sér og farið með þær umrætt kvöld heim til meðákærða. Þar hefðu þeir verið í um 15 mínútur og síðan ætlað í heimsókn í Innri-Njarðvík og hann ætlað að fela töflurnar einhvers staðar á leiðinni. Hann hefði farið út í leigubifreiðina á undan meðákærða og séð strax lögreglubifreiðina nálgast. Hann hefði orðið hræddur og látið efnin “þarna undir”. Ákærði var spurður að því hvað hann ætti við með orðunum “þarna undir”. Sagði ákærði þá að hann hefði sett þau á gólfið og sparkað þeim undir bílstjórasætið. Honum var þá bent á að hann hefði áður borið um það að hafa setið fyrir framan farþegasætið. Sagðist ákærði þá hafa sett efnin undir ökumannssætið um leið og hann settist inn í bifreiðina. Pakkinn hefði ekki farið langt undir ökumannssætið heldur hefði sést í hann. Honum var þá bent á að efnin hefðu fundist í vasa aftan á ökumannssætinu. Sagði ákærði það ekki vera rétt og sagðist hafa séð efnin á gólfinu þegar lögreglan tók þau.
Ákærði sagði að efnunum hefði verið pakkað inn í 4 glæra poka og hefðu 100 töflur verið í hverjum poka. Hvítur innkaupapoki hefði síðan verið utan um þá og síðan hefði allur pakkinn verið límdur með málningarlímbandi. Þegar hann hefði keypt töflurnar í Reykjavík hefðu allar töflurnar 450 verið í einum stórum, glærum poka, sem hægt hefði verið að loka. Hann hefði endurpakkað töflunum í fjóra poka þar sem hann hefði ætlað að selja þær í fernu lagi, þ.e. 100 stykki í einu. Sagðist hann hafa keypt töflurnar 18. mars og pakkað þeim í umbúðirnar daginn eftir.
Hann sagði að meðákærði hefði ekki vitað af þessum e-töflum, en hann hefði verið með þær í vasanum allan tímann. Sagðist hann ekki geta skýrt það hvers vegna eins e-töflur, sem pakkað hefði verið inn á sama hátt, hefðu fundist heima hjá meðákærða. Sagðist hann ekki hafa séð svona töflur heima hjá meðákærða.
Ákærði sagðist hafa heyrt í meðákærða nokkrum sinnum í meðákærða eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi. Sagðist hann hafa sagt meðákærði það fyrir um einni til tveimur vikum að hann ætlaði að fara til lögreglunnar og segja frá því að hann hefði átt töflurnar. Sagðist hann hafa reynt að koma skilaboðum til meðákærða fyrir löngu síðan um að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Sagði ákærði að ástæðan fyrir því að hann hefði ekki sagt frá þessu fyrr væri sú að hann hefði viljað losna við afskipti lögreglu.
Vitnið Halldór S. Sveinsson lögreglumaður sagðist hafa haft afskipti af ákærðu A og Vilhjálmi aðfaranótt 20. mars 2008. Þeir Ragnar Hafsteinsson lögreglumaður hefðu séð ákærðu setjast inn í leigubíl. Þeir hefðu rætt við ákærðu og fengið þá út úr leigubílnum. Ákærði Vilhjálmur hefði verið hægra megin og ákærði A vinstra megin. A hefði framvísað einhverju hvítu efni og Vilhjálmur hefði haldið á litlu glasi sem hefði innihaldið kannabis og var með lítið sellófan í vasanum. Þar sem ákærðu væru þekktir fyrir aðild sína að fíkniefnamálum hefði verið leitað í bílnum og í vasa aftan á sætisbaki ökumannsins hefði hann fundið pakkningu, sem síðar hefði reynst innihalda talsvert magn af e-töflum. Hann sagði engin leið hefði verið að henda pakkanum þar ofan í þar sem vasinn hefði ekki verið laus frá sætisbakinu. Yrði að stinga hlut þarna ofan í þar sem hann dytti ekki auðveldlega ofan í vasann.
Vitnið Ragnar Hafsteinsson fyrrverandi lögreglumaður sagðist hafa verið í eftirlitsferð um Reykjanesbæ í umrætt sinn ásamt Halldóri S. Sveinssyni lögreglumanni þegar þeir hefðu séð ákærðu stíga inn í leigubíl. Þeir hefðu stöðvað þá og leitað á þeim. Ákærði A hefði komið snögglega út úr bílnum og rétt honum poka með hvítu dufti. Í framhaldi af því hefðu þeir leitað á ákærðu og skömmu síðar hefði Halldór látið vita af því að hann hefði fundið fíkniefni. Hann sagði að A hefði setið í aftursæti hægra megin, en Vilhjálmur hefði setið fyrir aftan bílstjórann. Hann sagðist hafa verið fyrir utan bifreiðina þegar Halldór hefði fundið efnið og því hefði hann ekki séð hvar pakkningin var í bifreiðinni. Hann sagði að Halldór hefði komið út úr bifreiðinni með pakkninguna í höndunum til að sýna honum.
Vitnið H leigubílstjóri sagði að ákærðu hefðu pantað leigubíl umrædda nótt. Sagðist hann hafa verið búinn að bíða í smá tíma fyrir utan húsið þegar ákærði A hefði komið og sest aftur í bifreiðina hægra megin og tilkynnt að aka ætti í Innri-Njarðvík, en bíða yrði eftir öðrum. Eftir smá tíma hefði hinn maðurinn komið inn í bifreiðina með miklu meiri látum en sá fyrrnefndi. Sá hefði farið inn í bifreiðina vinstra megin og sest í aftursætið fyrir aftan ökumannssætið og sagt honum að fara strax af stað. Í því hefði lögreglu borið að og hún handtekið ákærðu. Hann sagðist ekki hafa séð hvar fíkniefnin fundust í bifreiðinni, en lögreglan hefði rétt honum pakkninguna á milli sætanna og spurt hann að því hvort hann kannaðist við þetta. Hann sagðist hafa fundið fyrir því að eitthvað hefði verið átt sætið þegar sá síðari hefði komið inn í bifreiðina, þ.e. hann hefði fundið fyrir hreyfingu og einhverjum bægslagangi aftur í bifreiðinni. Hann sagði að vasinn aftan á sætisbakinu væri þröngur og ekki væri hægt að henda einhverju ofan í hann. Taka yrði í vasann til að koma einhverju ofan í hann. Nánar aðspurður sagðist hann ekki vera alveg viss á því að ákærði A hefði farið inn í bifreiðina hægra megin. Hann sagði að vel gæti verið að hann hefði farið inn um afturdyrnar ökumannsmegin og fært sig yfir í farþegasætið hægra megin eins og eftir honum væri haft í lögregluskýrslu. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 25. mars 2008 sagði hann að ákærði Vilhjálmur hefði sest beint fyrir aftan ökumannssætið og þá hefði hann fundið fyrir því að eitthvað væri átt við sætisbakið, eins og t.d. þegar menn væru að koma sér fyrir og settu hnén í sætisbakið.
Vitnið Bjarki Sigurðsson lögreglumaður sagði að ákærði A hefði hringt í sig tæpum tveimur mánuðum eftir að þeir ákærðu voru handteknir og tjáð honum að hann vildi gefa skýrslu í málinu. Ákærði hefði komið sjálfviljugur á lögreglustöðina og gefið skýrslu um að hann hefði verið eigandi e-taflnanna. Þá hefði verið búið að boða ákærða Vilhjálm í skýrslutöku daginn eftir. Þegar skýrsla ákærða A hefði verið u.þ.b. hálfnuð hefðu þeir heyrt skruðninga og þá hefði komið í ljós að ákærði var með upptökutæki í vasanum, sem stillt hafði verið á upptöku. Hann sagði að ákærði hefði virst vera mjög stressaður í skýrslutökunni.
Vitnið sagðist hafa hlustað á upptökur af ætluðum samtölum ákærða Vilhjálms við þriðja aðila þar sem m.a. kæmi fram í fyrsta símtalinu viðkomandi væri með 500 e-töflur og hefði náð að selja 100 í einu, í öðru símtalinu væri hann að bjóða mönnum rauðan smiley fyrir 600 kall stykkið og í því þriðja væri hann að bjóða stelpu að kaupa rauða broskalla. Sagðist vitnið þekkja rödd ákærða Vilhjálms á þessum upptökum, enda væri rödd hans mjög auðþekkjanleg. Þá sagðist hann telja líklegt að í upptökunum væri talað um fíkniefni. Hann sagði að sams konar töflur hefðu fundist heima hjá ákærða Vilhjálmi og hefðu verið í pakkningunni, sem fundist hefði í leigubifreiðinni, þ.e. bleikar e-töflur með broskarli. Þá hefðu e-töflurnar, sem fundust í leigubifreiðinni og heima hjá Vilhjálmi verið í sams konar pakkningum, þ.e. bútum úr ÁTVR-plastpoka. Aðspurður sagði hann að ÁTVR-plastpoki, sem búið var að klippa úr, hefði bæði fundist bæði heima hjá ákærða A og heima hjá ákærða Vilhjálmi.
Vitnið Sigvaldi Arnar Lárusson lögreglumaður sagðist hafa hlustað á síma ákærða Vilhjálms. Sagðist vitnið vera alveg visst á því að það væri ákærði Vilhjálmur, sem talaði í símann. Sagði hann að Vilhjálmur hefði talað um bleikar e-töflur með broskörlum og kallað þær smiley.
Vitnið sagðist hafa verið viðstatt skýrslutöku af ákærða A þegar hann játaði að eiga pakkann með e-töflunum, sem fundist hefðu í leigubílnum. Í miðri skýrslutökunni hefðu þeir heyrt surg í vasanum hjá honum og í ljós hefði komið að hann var með upptökutæki í vasanum. Hefði ákærði sagt þeim að hann hefði ekkert vitað af upptökutækinu og verið stressaður.
Vitnið Kristján Friðþjófsson lögreglumaður sagðist hafa fengið umbúðirnar, sem voru utan um e-töflurnar til rannsóknar. Hann sagði að plastbútarnir, sem e-töflunum hefði verið pakkað inn í, hefðu verið orðnir svo teygðir að ekki hefði verið hægt að gera samanburðarrannsókn á þeim og plastpokanum, sem fylgdi með og fundist hafði við húsleit, sbr. ljósmynd á skjali I-4, bls. 4. Hann sagðist ekki vita við hvaða húsleit umræddur plastpoki fannst, en hins vegar hefði verið búið að klippa hringlaga búta úr honum.
Vitnið Sveinbjörn Halldórsson lögreglumaður sagðist hafa gert húsleit heima hjá ákærða Vilhjálmi. Áður en þeir fóru í húsleitina hefðu þeir verið búnir að sjá umbúðirnar, sem voru utan um fíkniefnin, sem fundust í leigubílnum, þ.e. að þeim hafði verið pakkað inn í búta úr vínbúðarplastpoka og að límt hafði verið fyrir hverja einingu með svörtu einangrunarlímbandi. Sagði hann að þeir hefðu fundist sams konar plastpoka í ruslinu heima hjá ákærða, svo og svart einangrunarlímband. Hann sagði að pokinn, sem hefði verið í ruslinu, hefði verið rifinn og klipptur.
Vitnið Haukur Örn Sigurjónsson lögreglumaður sagðist hafa tekið þátt í húsleitum heima hjá ákærðu með fíkniefnahundi. Hann sagðist hafa fundið innkaupapoka frá vínbúðinni í ruslinu heima hjá Vilhjálmi, sem hafði verið klippt úr. Hann sagði að fíkniefnahundurinn hefði merkt við ruslafötuna, en ekki sérstaklega við víðbúðarpokann.
Vitnið Jón Halldór Sigurðsson lögreglumaður sagðist hafa tekið þátt í húsleit heim hjá ákærða Vilhjálmi. Þar hefði fundist ÁTVR-innkaupapoki, sem klipptur hafði verið í marga hringlaga plastbúta. Plastbútur úr sams konar poka hefði verið utan um e-töflurnar, sem fundist hefðu heima hjá Vilhjálmi.
Ákæruliður 2. Á hendur ákærða Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindan ákærulið varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæruliðarins.
Ákæruliður 3. Á hendur ákærða A.
Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindan ákærulið varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæruliðarins.
C.
Ákæra, útgefin 15. janúar 2009, á hendur Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Ákæruliður I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra klukkan 8.24 um að C hefði hringt og sagt að maður að nafni Vilhjálmur hefði verið að reyna að brjótast inn á heimili hans að [...]. Einnig að Vilhjálmur hefði dregið upp skammbyssu og ógnað honum með henni. Lögreglumenn fundu ákærða heima hjá D að Fífumóa 3d og voru ákærði og D báðir handteknir og þeir færðir á lögreglustöð. D heimilaði leit í íbúðinni en engin skammbyssa fannst. Blautir strigaskór fundust í fataskáp í forstofu íbúðarinnar og segir í skýrslunni að munstrið á þeim hafi passað við skóför, sem legið hafi frá [...]. Hafi ákærði viðurkennt að eiga skóna. Síðar fannst óhlaðin skammbyssa í geymslu að Fífumóa 5, sem tilheyrir íbúð D. Lögreglumenn fór að [...] og ræddu við C. Hafi C tjáð þeim að E hefði klifrað upp á svalirnar hjá sér, vakið sig og sagt sér að ákærði væri á leiðinni til hans og ætlaði að stúta honum. Ástæðan væri sú að ákærði héldi að C hefði gefið lögreglunni upplýsingar um fíkniefnafund, sem átt hefði sér stað á heimili ákærða á Varnarsvæðinu skömmu áður. Sagði C þær grunsemdir ekki vera á rökum reistar. Tveimur til þremur mínútum síðar hefði verið sparkað í útidyrahurðina á íbúðinni hans. E hefði þá rokið til og opnað hurðina. Vilhjálmur hefði verið á ganginum og reynt að komast inn í íbúðina en E hefði hrint honum frá hurðinni og ýtt honum upp að vegg fyrir framan íbúðina. Á meðan E hélt ákærða hefði ákærði beint skammbyssu að höfði E og ógnað honum með henni. Á meðan á þessu stóð hefði ákærði sagt við E: Stendurðu með þessu “skvílarafífli” ? E hefði þá sagt við ákærða: Ætlarðu að skjóta mig ? Sagðist C þá hafa lokað hurðinni, hringt í neyðarlínuna og tilkynnt um atburðinn. Því næst hefði E bankað á hurðina hjá honum og sagt að ákærði væri farinn.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir.
Ákærði sagðist ekki muna vel eftir laugardagsmorgninum 1. mars 2008 þar sem hann hefði verið undir áhrifum lyfja- og fíkniefna og ekki sofið í 5 eða 6 sólarhringa þegar þarna var komið sögu. Hann sagði að hann og E væru góðir vinir, en sagðist engin tengsl hafa við C. Einnig sagðist hann vera vinur D. Hann sagði að þeir E hefðu farið frá D og heim til C umrædda nótt. Að ósk E hefði hann lyft honum upp á svalirnar heima hjá C og þar hafði E farið inn til C. Sjálfur sagðist hann hafa farið inn í stigahúsið og bankað eða lamið á útidyrahurðina hjá C. E hefði þá komið til dyra og C einnig komið í dyragættina. Sagðist ákærði þá hafa öskrað á C og kallað hann barnaperra. Ennfremur hefði hann borið það upp á C að hafa misnotað drengi kynferðislega Hann sagði að E hefði aftrað því að hann færi inn í íbúðina, en sagði að ekki væri rétt að hann hefði hótað vini sínum E lífláti. Hins vegar gæti vel verið að hann hefði hótað C, en hann sagðist ekki muna eftir því. Ákærði sagðist síðan hafa farið aftur heim til D, en þangað hefði víkingasveit lögreglunnar komið og handtekið hann fyrir að vera vopnaður skammbyssu.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 1. mars og 24. apríl 2008. Í fyrri skýrslunni lýsti ákærði málsatvikum með svipuðum hætti og hér fyrir dómi en þó þannig að hann hefði farið einn frá D og heim til C. Hann neitaði því að hafa verið með skammbyssu og kvaðst ekki hafa beint byssu að höfði E. Í seinni skýrslunni vísaði ákærði til fyrri skýrslunnar og kvaðst engu hafa við hana að bæta.
Vitnið D sagði að ákærði Vilhjálmur hefði vakið hann um nóttina og um 5 til 10 mínútum síðar hefði lögreglan komið og farið með hann niður á stöð. Sagðist hann ekkert hafa vitað hvað var um að vera. Hann sagðist ekki hafa hitt Vilhjálm og E fyrr um nóttina. Hann sagðist hins vegar hafa hitt E fyrr um kvöldið, þ.e. mörgum klukkutímum áður, en ekki þarna um nóttina. Þegar framburður hans hjá lögreglu var kynntur fyrir honum sagðist hann ekki muna þetta vel enda væri um ár liðið frá því að þetta gerðist og vel gæti verið að hann hefði munað þetta betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Hann sagði að Vilhjálmur hefði talað um að það hefðu verið einhver læti heima hjá C. Hann sagðist vera gamall skólafélagi og vinur ákærða Vilhjálms, en engin samskipti hafa haft við E. Þá sagðist hann vita hver C væri, en hann byggi í sama hverfi og hann.
Vitnið staðfesti skýrslu þá, sem það gaf hjá lögreglu 1. mars 2008. Þar bar vitnið um það að hafa vaknað við það umrædda nótt að dyrasíminn hringdi og síðan hafi verið bankað á svaladyrnar. Þar hafi þá verið staddir ákærði og E. Hann hafi hleypt þeim inn og þeir stoppað við hjá honum í 30-45 mínútur. Ákærði hafi talað um það að hann ætlaði sér að berja C. Þeir ákærði og E hafi síðan farið og hann farið aftur að sofa. Hann hafi síðan vaknað aftur við það að bankað var á svaladyrnar og þar hafi þá verið ákærði og verið mjög móður. Hann hafi hleypt honum inn og ákærði tjáð honum að hann hefði farið heim til C og gert hommann skíthræddan og að hann hefði átt það skilið. Skömmu síðar hafi lögreglan komið og þeir tveir verið handteknir.
C sagði að í kringum átta eða níu um morguninn hefði E vakið sig með því að banka á svaladyrnar hjá sér og hann opnað fyrir honum. E hefði verið mjög æstur og tjáð honum að ákærði ætlaði að koma heim til hans og berja hann. Um sjö til átta mínútum síðar hefði verið sparkað í hurðina hjá honum og E opnað hurðina, en sjálfur hefði hann staðið rétt fyrir innan anddyrið og um tvo metra fyrir aftan E. Fyrir utan hefði ákærði staðið og haldið á skammbyssu, sem hann sagðist halda að hefði verið ætluð honum en ekki E. Ákærði hefði sagt: “Ertu að verja þetta fífl?” E hefði náð að ýta ákærða frá og aftrað því að ákærði færi inn í íbúðina. Þá hefði hann heyrt E spyrja: “Ertu með skammbyssu?”. Hefði hann þá flýtt sér að loka hurðinni á eftir E og því næst farið inn í svefnherbergi og hringt í neyðarlínuna. Stuttu síðar hefði ákærði farið. Hann sagðist ekki muna eftir því hvort E hefði farið með ákærða eða hvort hann hefði komið aftur inn í íbúðina. Þó sagðist hann minna að E hefði bankað upp hjá honum og látið hann vita að ákærði væri farinn og síðan farið sjálfur. Hann sagðist sjálfur ekki hafa farið fram á stigaganginn og ákærði hefði ekki komið inn íbúðina. Hann sagðist hafa heyrt E kalla upp: “Ætlarðu að skjóta hann, hvað ertu að gera við skammbyssu?” Hann sagðist ekki hafa heyrt ákærða hóta sér eða E og sagðist ekki hafa upplifað atvikið með þeim hætti að ákærði hefði verið að hóta E. Sagðist hann ekki hafa heyrt orðaskil eftir að hann lokaði hurðinni að íbúðinni. Hann sagðist ekki hafa séð ákærða eftir þetta atvik og ekki ætla sér að hitta hann aftur. Sagðist hann óttast ákærða. Ákærði hefði haldið að hann hefði sagt til hans, en það væri ekki rétt. Hann sagðist lítið sem ekkert hafa rætt málið við E Hann sagðist ekki muna eftir að ákærði hefði miðað skammbyssu að höfðinu á E en kvaðst e.t.v. hafa munað þetta betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 1. mars 2008. Þar lýsti hann málsatvikum með svipuðum hætti, en kvaðst þó hafa séð ákærða miða skammbyssu að höfðinu á E g heyrt E pyrja: “Ætlar þú að skjóta mig?”
Esagði að fráleitt væri að ákærði Vilhjálmur hefði hótað honum að morgni 1. mars 2008 að [...]. Hann sagðist ekki muna vel hvað gerðist, en ákærði Vilhjálmur hefði aldrei hótað sér. Hann sagðist engin tengsl hafa við C en sagðist vera vinur ákærða Vilhjálms. Hann sagðist tvisvar hafa farið heim til C Í fyrra skiptið hefði hann hringt dyrabjöllunni og farið inn um aðaldyrnar, en í síðar skiptið hefði hann klifrað upp á svalirnar. Í fyrra skiptið hefði hann verið einn og spjallað við C en hann hefði tjáð honum að einhverjir guttar hefðu verið að hóta honum og beðið hann um vernd gegn því. Þá hefði annar maður haft samband við hann og beðið hann um að fara heim til Ctil að athuga hvort einhverjir guttar væru að brjótast inn til hans til að berja á honum.
Aðspurður sagðist hann ekki muna eftir að hafa hitt ákærða Vilhjálm heima hjá Cí hvorugt skiptið. Sagðist hann hafa verið í milli áfengis- og lyfjaneyslu á þeim tíma, sem hann gaf fyrri skýrslu sína um málið hjá lögreglu, og ekkert muna eftir henni. Hann sagðist hins vegar muna eftir seinni skýrslunni frá 29. apríl 2008.
Hann sagðist muna eftir því að í seinna skiptið þegar hann kom heim til C þ.e.a.s. þegar hann fór inn um svaladyrnar, hefði C erið vælandi og einhver hefði verið að sparka í hurðina. Sagðist hann hafa opnað hurðina og þar fyrir utan hefði verið manneskja, sem hann þekkti ekki neitt. Var honum þá bent á að ákærði Vilhjálmur hefði borið um það sjálfur að vitnið hefði opnað fyrir honum í umrætt sinn. Sagði hann þá að vel gæti verið að ákærði Vilhjálmur hefði verið fyrir utan dyrnar, en hann hefði verið í svo mikilli lyfja- og áfengisneyslu á þessum tíma að hann myndi ekki eftir því hvort það var ákærði Vilhjálmur sem hann opnaði fyrir. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa rætt við viðkomandi manneskju, en sagðist muna eftir ummælum á borð við “...helvítis hommakvikindið þitt...”, en ekkert meira.
Hann staðfesti að lögregla hefði komið til hans þar sem hann var heima hjá móður sinni og spurt sig að því hvort hann væri tilbúinn til að koma með þeim á lögreglustöðina. Lögreglan hefði síðan ekið sér á lögreglustöðina. Hann sagðist hafa komið nokkrum sinnum heim til D en sagðist ekki geta staðfest hvort hann kom á heimili hans hinn 1. mars 2008. Hann staðfesti undirritun sína undir lögregluskýrslur frá 1. mars og 29. apríl 2008.
Í fyrri lögregluskýrslunni sagðist hann hafa farið einn heim til C og notað stiga til að fara upp á svalirnar og síðan bankað á svaladyrnar. Áður hefði hann gert nokkrar tilraunir til að gera vart við sig en C hefði ekki svarað. Hann sagði að C hefði verið búinn að biðja hann um vernd þar sem hann óttaðist að á hann yrði ráðist. Á milli þess sem hann reyndi að komast inn til C kvaðst hann hafa farið heim til D. Hann sagði að enginn hefði verið hjá D á meðan hann átti þar viðdvöl. Eftir að C opnaði svaladyrnar og hleypti honum inn hefðu þeir C spjallað saman í stofunni í um 40 mínútur. Hefði þá verið barið einu sinni harkalega í útidyrahurðina. Sagðist hann hafa farið til dyra og þá hefði ákærði staðið fyrir utan dyrnar, ekki litið sig viðlits og verið miklu meira en brjálaður. Ákærði hefði ætlað að æða inn í íbúðina, en hann hefði varnað því. Ákærði hefði þá tekið upp skammbyssu og beint henni að höfðinu á sér með fingurinn á gikknum. Ákærði hefði einnig beint byssunni inn í íbúðina og kvaðst telja að hann hefði beint byssunni að C. Hann hefði þá sagt við ákærða: “Við vorum búnir að tala um þetta.” og ákærði hefði þá sagt: “Þú varst að skvíla mig.” Hann hefði þá sagt við ákærða: “Ertu að ráðast á mig?” Í því hefði C lokað dyrunum að íbúðinni þannig að hann og ákærði hefðu verið læstir úti. Ákærði hefði þá slitið sig frá honum og hlaupið niður stigann og út. Honum hefði brugðið mjög mikið við þetta og verið skjálfandi lengi á eftir. Hann hefði bankað á dyrnar hjá C og C hleypt honum inn. Kvaðst honum líða stórfurðulega eftir atvikið og sagði að miðtaugakerfið væri í rúst og hann alveg í hönk. Kvaðst hann leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir að hafa hótað sér með skammbyssu, þó með þeim fyrirvara að hann fengi skýringu á því hvers vegna C hefði lokað hurðinni á hann og ákærða.
Í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu dró vitnið kæru sína til baka. Kvað hann ákærða ekki hafa verið með byssu heima hjá C. Á þessum tíma hefði hann verið búinn að vera í mikilli áfengis-og fíkniefnaneyslu og að hann myndi ekkert af hverju hann hefði farið heim til C. Hann væri í miklu betra ásigkomulagi í dag og væri á leiðinni í meðferð. Einnig sagði hann að ákærði hefði verið í svörtum hönskum og haldið höndunum eins og hann væri með byssu, en svo hefði ekki verið. Tók hann fram að ákærði væri góður drengur og hefði á þessum tíma verið þunglyndur og langt niðri enda nýkominn af Litla-Hrauni.
F sagðist búa við hliðina á C að [...]. Umræddan laugardagsmorgun hefðu þær mæðgur verið nývaknaðar klukkan átta eða hálf níu þegar þær hefðu heyrt að lamið var mjög hátt á hurðina hjá C. Hún sagðist hafa vitað að ekki væri rétt að fara fram og gá. Sagðist hún hafa heyrt karlmannsrödd kalla: “Opnaður, opnaðu !”. Þá sagðist hún ekki vera viss um hvort hún heyrði einnig kallað upp annað hvort “Ég ætla að skjóta þig!” eða “Ég ætla að drepa þig !”. Hún sagðist ekki hafa þekkt þessa rödd.
G sagðist einnig búa í sama stigagangi og C. Sagðist hún hafa vaknað að morgni til og haldið að einhver hefði bankað hjá henni og að eitthvað væri að. Sagðist hún hafa henst fram og þá heyrt einhver læti frammi á stigaganginum. Þegar hún hefði ætlað að opna hurðina hefði hún heyrt einhvern karlmann segja: “...drepa þig, helvítið þitt... “ eða “...skjóta þig, helvítið þitt...” eða eitthvað í þeim dúr. Hún sagði að verið gæti að um hefði verið að ræða tvo til þrjá karlmenn. Þá sagðist hún hafa heyrt stimpingar og hávaða. Hún sagðist ekki hafa heyrt í C.
Guðmundur Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því að lögregla hefði haft samband við E heima hjá móður hans eftir atburðinn. Hefði hann verið spurður að því hvort hann ætlaði að fylgja málinu eftir og E samþykkt að koma með lögreglu og gefa skýrslu í málinu og leggja fram kæru á hendur ákærða Vilhjálmi.
Lögreglumennirnir María Pálsdóttir og Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir gáfu skýrslur fyrir dóminum en ekki þykir ástæða til að rekja efni þeirra hér.
Ákæruliður II.
Málið dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða að því er framangreindan ákærulið varðar og er því um málavexti skírskotað til ákæruliðarins.
3.
Niðurstaða
A.
Ákærur, útgefnar 3. og 27. nóvember 2008, á hendur A.
Ákærði A játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum. Þykir með játningu ákærða sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunum.
B.
Ákæra, útgefin 17. desember 2008, á hendur A og Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Ákæruliður 1.
Hlutur ákærða A.
Ákærði A játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákærulið 1. Þykir með játningu ákærða sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og er brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Hlutur ákærða Vilhjálms Vilhjálmssonar.
Ákærði Vilhjálmur hefur staðfastlega neitað sök að því er þennan ákærulið varðar. Hefur meðákærði A viðurkennt hér fyrir dómi og hjá lögreglu hinn 13. maí 2008 að hafa átt fíkniefnapakkann, sem fannst í leigubifreiðinni og hefur borið um það að ákærði Vilhjálmur hafi ekkert um hann vitað.
Framburður meðákærða um þennan ákærulið hefur verið hvarflandi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 20. mars 2008 neitaði meðákærði því að hafa átt áðurgreindar e-töflur og kvaðst ekki hafa hugmynd um það hvort ákærði Vilhjálmur hefði átt þær. Þann framburð staðfesti meðákærði í skýrslu sinni hjá lögreglu 26. mars 2008. Það var svo ekki fyrr en 13. maí 2008 sem meðákærði kom að eigin frumkvæði til lögreglunnar og viðurkenndi að hafa átt áðurgreindar e-töflur. Þykja ótrúverðugar skýringar hans á því hvers vegna hann kom ekki til lögreglunnar fyrr og játaði sök. Hinn 13. maí viðurkenndi meðákærði einnig að hafa verið í samskiptum við ákærða frá því að gæsluvarðhaldi þeirra ákærðu lauk og á meðan ákærði Vilhjálmur afplánaði dóm á Litla-Hrauni. Einnig að hafa tjáð ákærða nokkru áður að hann hygðist fara til lögreglunnar og játa sök í málinu. Við sama tækifæri fannst upptökutæki í vasa meðákæra sem stillt var á upptöku. Þykja skýringar meðákærða á þeirri staðreynd afar ótrúverðugar og atvikið benda til þess að ákærði hafi ætlað að tryggja sér sönnur fyrir því að hann hefði játað á sig sök í málinu og að hann hafi verið undir þrýstingi um að fara til lögreglunnar í þessum tilgangi. Þá þykir framburður meðákærða um það hvar og hvernig hann losaði sig við fíkniefnapakkann í leigubifreiðinni afar óskýr og ótrúverðugur. Hér fyrir dómi lýsti meðákærði þessu ýmist þannig að hann hefði sett pakkann undir eða á bak við ökumannssætið. Einnig sagðist meðákærði hafa sett pakkann niður á bak við ökumannssætið. Þá sagðist hann hafa fleygt pakkanum í sætið og að hafa séð lögreglu taka pakkann úr sætinu skömmu síðar. Loks sagðist ákærði hafa lagt pakkann frá sér. Hjá lögreglu sagðist ákærði fyrst hafa sett efnin “þarna undir” og þegar hann var beðinn um nánari skýringu á því sagðist hann hafa sett þau á gólfið og sparkað þeim undir ökumannssætið. Síðar í skýrslunni sagðist hann hafa sett efnin undir ökumannssætið um leið og hann settist inn í bifreiðina.
Meðákærði hefur borið um það að hafa pakkað fíkniefnunum inn í þá pakkningu, sem fannst í leigubifreiðinni. Þrátt fyrir það hefur hann ekki getað lýst því með skilmerkilegum hætti hvernig töflunum var pakkað inn og er framburður hans um það atriði hér fyrir dómi ekki í samræmi við framburð hans hjá lögreglu.
Ákærðu hafa báðir borið um það að vera vel til vina og að hafa báðir verið í neyslu fíkniefna á þeim tíma sem um ræðir. Þá hefur ákærði Vilhjálmur borið um það að hafa stundað sölu á amfetamíni, en meðákærði sölu á e-töflum. Einnig að þeir hafi hvor um sig látið hinum í té fíkniefni til eigin neyslu og m.a. kveðst ákærði Vilhjálmur hafa fengið nokkrar e-töflur hjá meðákærða skömmu áður en þeir voru handteknir. Samkvæmt framburði ákærða A keypti hann e-töflurnar tveimur dögum áður en þeir ákærðu voru handteknir og pakkaði þeim inn daginn áður. Ekki bar ákærðu saman um það hvort fíkniefnin, sem þeir létu hvor öðrum í té til eigin neyslu, voru án endurgjalds eða gegn greiðslu. Er fram komið að sams konar e-töflur og voru í leigubifreiðinni fundust við húsleit heima hjá ákærða Vilhjálmi og að þeim hafði verið pakkað inn á sama hátt. Þá er og fram komið að við húsleit heima hjá ákærða Vilhjálmi, þaðan sem ákærðu voru að koma í greint sinn, fannst sundurklipptur innkaupapoki merktur vínbúð ÁTVR, sbr. ljósmynd nr. 4 á skjali nr. II-7, en bútar úr sams konar plastpoka voru utan um e-töflurnar, sem fundust í leigubifreiðinni og heima hjá ákærða Vilhjálmi. Þá ber og að líta til vitnisburðar leigubílstjórans, H, sem bar um það að þegar ákærði Vilhjálmur hefði komið inn í leigubifreiðina og sest fyrir aftan ökumannssætið hefði hann fundið fyrir því að eitthvað var átt við ökumannssætið, þ.e. hann hefði fundið fyrir hreyfingu og einhverjum bægslagangi aftur í bifreiðinni. Þá bar hann um það að vasinn aftan á sætisbakinu væri þröngur og að taka yrði í hann til að stinga einhverju ofan í hann. Þykir þetta benda til þess að pakkningunni hafi verið stungið ofan í sætisvasann í þann mund er ákærði Vilhjálmur sté inn í leigubifreiðina og kom sér fyrir í aftursætinu. Í ljósi alls framangreinds þykir mjög ótrúverðugur sá framburður ákærða Vilhjálms um að hann hafi ekki vitað af e-töflunum í leigubifreiðinni. Þykir í ljós leitt svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að fíkninefnin hafi verið í vörslum ákærðu beggja í greint sinn. Með vísan til magns fíkniefnanna, hvernig um þau var búið og framburðar ákærða A þykir og ljóst að þau hafi verið ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Þykir því sannað að ákærði Vilhjálmur hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í ákærulið 1 og er brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
C.
Ákæra útgefin 15. janúar 2009 á hendur Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Ákæruliður I.
Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa hótað E lífláti í stigagangi hússins að [...] í Reykjanesbæ að morgni 1. mars 2008. Framburður vitnanna F og G er ekki með þeim hætti að hann geti varpað skýru ljósi á málsatvik. Gegn eindreginni neitun ákærða og með vísan til framburðar vitnanna C og E þykir ósannað að ákærði hafi hótað E lífláti í greint sinn. Er ákærði því sýknaður af refsikröfu ákæruvalds að því er þennan ákærulið varðar.
Ákæruliður II.
Ákærði játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákærulið II í ákæru útgefinni 15. janúar 2009. Þykir með játningu ákærða sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærða rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Samkvæmt sakavottorði ákærða A hefur hann fimm sinnum frá árinu 2003 gengist undir greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots. Hinn 8. janúar 2004 gekkst ákærði undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði vegna ölvunaraksturs og brots gegn 48. gr. umferðarlaga. Með dómi 6. september 2007 var ákærði dæmdur til greiðslu sektar og sviptingar ökuréttar í 3 ár vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Síðast hlaut ákærði dóm hinn 16. september 2008 og var þá dæmdur til greiðslu sektar vegna fíkniefnalagabrots.
Brot þau er greinir í ákæruliðum I-VIII í ákæru, útgefinni 3. nóvember 2008, framdi ákærði áður en dómur frá 6. september 2007 gekk. Þá framdi ákærði brot þau er greinir í ákæruliðum I-XIV í ákæru, útgefinni 3. nóvember 2008, ákæru útgefinni 27. nóvember 2008 og 17. desember 2008, áður en dómur frá 16. september 2008 gekk. Ber því að dæma ákærða hegningarauka við þessa dóma að því er framangreind brot varðar, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Með broti því, er greinir í IX. ákærulið ákærunnar frá 3. nóvember 2008, ítrekaði ákærði í annað sinn brot gegn 45. gr. umferðarlaga.
Í máli því sem hér er til meðferðar hefur ákærði alls þrettán sinnum gerst sekur um vörslur fíkniefna og er þar um að ræða tiltölulega lítið magn af amfetamíni, kannabisefni, kannabisplöntum og kókaíni, en tiltölulega mikið magn af e-töflum og LSD. Þá hefur ákærði fjórum sinnum ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna og þrisvar sinnum sviptur ökurétti. Með vísan til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga skal gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir öll brotin.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur játað brot sín og er það honum til refsimildunar. Á hinn bóginn er litið til sakarferils ákærða og þess að hann hefur nú gerst sekur um vörslur á talsverðu magni af hættulegum fíkniefnum og að um samverknað hans og meðákærða var að ræða. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Með hliðsjón af sakarferli ákærða þykja ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald er ákærði sætti vegna málsins. Þá er ákærði ökurétti ævilangt frá 8. október 2010 að telja.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Vilhjálms var hann hinn 16. febrúar 2000 dæmdur til greiðslu sektar vegna brots gegn 106. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 10. mars 2004 hlaut ákærði fangelsisdóm, 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi, fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði hinn 9. febrúar 2006 dæmdur í 2 ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningaraga og hinn 16. maí 2007 var ákærða dæmdur hegningarauki við þann dóm fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, en ekki gerð sérstök refsing. Síðast gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun, sekt og sviptingu ökuréttar, fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.
Brot þau, er ákærði er nú sakfelldur fyrir, sbr. 1. og 2. lið ákæru, útgefinnar 17. desember 2008 og II. ákærulið ákæru, útgefinnar 15. janúar 2009, framdi ákærði áður en hann gekkst undir viðurlagaákvörðun dómara hinn 3. júlí 2008. Ber því að dæma ákærða hegningarauka við þá sátt, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga og gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir öll brotin, sbr. 77. gr. sömu laga.
Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til þess að ákærði hefur áður gerst sekur um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga og er það ákærða til refsihækkunar. Þá er litið til þess að hann hefur nú gerst sekur um vörslur á talsverðu magni af hættulegum fíkniefnum. Í ljósi framangreinds þykir refsing hans hæfilega ákveðin 2 ára fangelsi og þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins.
Upptæk skulu gerð 44,82 g af amfetamíni, 116,05 g af kannabisefni, 13 kannabisplöntur, 4,73 g af kókaíni, 57 stykki af LSD, 43 skammta af lysergide (LSD), 408 MDMA töflur, 0,74 g af tóbaksblönduðu kannabis og 1 stykki af ecstacy.
Ákærði A greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.419.854 krónur, þar af 75.569 krónur sameiginlega með meðákærða, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., 506.440 krónur og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Ásbjörns Jónssonar hdl., 305.971 króna, hvorutveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar af
Ákærði Vilhjálmur greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.065.593 krónur, þar af 75.569 krónur sameiginlega með meðákærða, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 432.264 krónur og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hdl, 557.760 krónur, hvorutveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Sakarkostnaður að fjárhæð 127.363 krónur vegna blóðrannsóknar í tengslum við ætlað hótunarbrot greiðist úr ríkissjóði.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, A, sæti fangelsi í 18 mánuði, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald er ákærða sætti vegna málsins.
Ákærði A er sviptur ökurétti ævilangt frá 8. október 2010 að telja.
Ákærði, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sæti fangelsi í 2 ár, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald er ákærði sætti vegna málsins.
Upptæk skulu gerð 44,82 g af amfetamíni, 116,05 g af kannabisefni, 13 kannabisplöntur, 4,73 g af kókaíni, 57 stykki af LSD, 43 skammta af lysergide (LSD), 408 MDMA töflur, 0,74 g af tóbaksblönduðu kannabis og 1 stykki af ecstacy.
Ákærði A greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.419.854 krónur, þar af 75.569 krónur sameiginlega með meðákærða, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., 506.440 krónur og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Ásbjörns Jónssonar hdl., 305.971 króna.
Ákærði Vilhjálmur greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.065.593 krónur, þar af 75.569 krónur sameiginlega með meðákærða, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., 432.264 krónur og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hdl., 557.760 krónur.
Sakarkostnaður að fjárhæð 127.363 krónur greiðist úr ríkissjóði.