Hæstiréttur íslands

Mál nr. 136/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 20. febrúar 2015.

Nr. 136/2015.

 

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. mars 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2015.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. mars nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október, nr. [...] hafi kærða upphaflega verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í 4 vikur á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, að því er lítur að rofi á skilorði.  Þann 3. desember sl. hafi kærða verið gert með úrskurði í máli nr. [...], að sæta gæsluvarðhaldi fram til 29. desember og þann dag hafi kærða verið gert með úrskurði í máli [...] að sæta gæsluvarðhaldi fram til 26. janúar 2015 og þann dag hafi kærða verið gert með úrskurði í máli [...] að sæta gæsluvarðhaldi fram til dagsins í dag.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2013 nr. [...] hafi kærða verið gert að sæta 16 mánaða fangelsi fyrir m.a. fimm líkamsárásir, sem hann hafi framið í júlí og september 2012.  Hafi refsing hans verið bundin almennu skilorði 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi hér verið um að ræða hegningarauka við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2012, nr. [...], þar sem hann hafi hlotið 7 mánaða fangelsi, sem sömuleiðis hafi verið bundið almennu skilorði.

Hinn 30. júní sl. og 20. ágúst sl. hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað sakamál á hendur kærða með tveimur ákærum fyrir skjalafals og umferðarlagabrot framin 6., 23. og 28. maí, og nytjastuld og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, brot framin 13. nóvember 2013 og 5. júlí 2014.

Þá hafi lögregla til rannsóknar gróft ofbeldismál, þar sem kærði sé undir rökstuddum grun um mjög hættulegar líkamsárásir, þannig að varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Þar sé kærða gefið að sök að hafa laugardaginn 27. september 2014, veist að A, fyrir utan húsið að [...] í Reykjavík, og slegið hann í andlit með grjóthnullungi, þannig að A hafi hlotið tann- og nefbrot.  Rannsókn málsins sé á lokastigi og teljist málið líklegt til sakfellis.  Kærði, sem hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins, neiti sök.  Í málinu liggi fyrir framburðir tveggja manna sem segjast hafa séð kærða berja A með grjóti í andlitið. 

Þá hafi undirritaður sækjandi gefið út ákærur í fjölda mála á hendur ákærða og hafi mál vegna þeirra verið þingfest þann 13. febrúar sl.  Þar sem ákærði hafi játað öll þau umferðarlagabrot sem ákært hafi verið fyrir nema eitt, sem jafnframt varðaði nytjastuld, en neitað sök hvað varðar fjórar líkamsárásir, þar af þrjár sem taldar séu varða við 2. mgr. 218. gr.  Aðalmeðferð málsins fari fram þann 9. mars n.k.

Líkamsárásirnar séu eftirfarandi:

Með því að hafa 16. mars 2013 slegið mann fleiri en einu höggi í andlitið með krepptum hnefa, með þeim afleiðingum að hann féll í götuna, og því næst sparkað í höfuð hans þar sem hann lá og telst brotið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2014, veist að tveimur stúlkum utan við á skemmtistaðnum [...] við [...], að annarri þeirra með því að slá hana með krepptum hnefa í andlitið svo hún féll yfir sig yfir járnhandrið og á götuna, telst brot það varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að hinni með því að hafa slegið hana ítrekað í höfuðið með glerflösku, með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á gagnauga. Brotið telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Með því að hafa sunnudaginn 25. maí 2014, veist að manni við [...] og slegið hann með kúbeini í höfuð og bak.  Telst brotið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Verði kærði fundinn sekur fyrir ofangreind brot hafi hann bersýnlega rofið almennt skilorð dómanna [...] og [...].  Hin tildæmda refsing, samtals 23 mánuðir, verði því dæmd upp, samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, og refsing ákveðin í einu lagi, sbr. 77. gr. laganna, sem verði aldrei skemur en þrjú ár.

Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé fullnægt, sbr. úrskurð frá 8. október, og allar þær aðstæður uppi sem hafi verið þá. Það liggi fyrir að dómur verði upp kveðinn í málum kærða ekki síðar en 6. apríl n.k. og gæti hann því hafið afplánun fljótlega, að því gefnu að hann verði fundinn sekur fyrir ofangreind brot.

Sakarefni málanna séu talin varða við 2. mgr. 218. gr., en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

         Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan 8. október sl. á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 á þeim grundvelli að rökstuddur grunur leiki á því að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í skilorðsbundnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2013 í málinu nr. [...]. Með þeim dómi var honum gert að sæta 16 mánaða fangelsi fyrir líkamsárásir, en dómurinn var bundinn almennu skilorði 57. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940. Ákærur hafa nú verið gefnar út á hendur varnaraðila meðal annars vegna fjögurra líkamsárása, en í þremur þessara mála er hann sakaður um alvarlega líkamsárásir annars vegar í mars 2013 og hins vegar í maí 2014 er varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Aðalmeðferð í þessum málum er fyrirhuguð 9. mars nk.

         Líkamsárásir þær sem varnaraðili hefur verið ákærður fyrir að hafa framið í mars 2013 getur ekki falið í sér brot á skilorði sem honum voru sett með dómi [...], heldur verður að ætla að fyrir þær verði honum gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verði hann sakfelldur. Á hinn bóginn er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás [...]. maí 2014, auk þess sem rannsókn stendur yfir á ætlaðri líkamsárás sem varnaraðili á að hafa framið [...]. september sl. Telur dómurinn að með fyrrgreinda málinu sé fullnægt skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að rökstuddur grunur leiki á því að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í skilorðsbundnum dómi [...].

         Eins og þeim brotum er háttað sem varnaraðili er grunaður um verður ekki talið að þær aðstæður séu uppi sem lýst er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fyrir liggur að aðalmeðferð verður í þeim málum sem ákært hefur verið út af 9. mars nk. og má vænta að dómur liggi fyrir innan fjögurra vikna frá því að það hefur verið dómtekið. Ekki liggur annað fyrir en að rekstur á málum varnaraðila hafi verið með eðlilegum hætti og eru atvik ekki hliðstæð því sem dæmt var um í dómi Hæstaréttar 2. júlí 2007 í málinu nr. 345/2007. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi til 16. mars nk. eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

                Ákærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 16. mars nk. kl. 16:00.