Hæstiréttur íslands

Mál nr. 331/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 9

 

Mánudaginn 9. ágúst 2004.

Nr. 331/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. l. nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. september 2004 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt læknisvottorði sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss 27. júlí 2004 reyndist Y vera með um 15 cm langan og allt að 4 til 5 cm djúpan skurð vinstra megin á hálsi við komuna þangað aðfaranótt þess dags.  Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan forsendna til hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. ágúst 2004.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [...] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en miðvikudagsins 15. september 2004  kl. 16:00. 

 

          Í greinargerð lögreglustjóra segir að aðfaranótt 27. júlí sl. hafi Y hringt  í Neyðarlínuna, frá [...]götu 69, Reykjavík, og tilkynnt að hann hefði verið skorinn á háls.  Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang skömmu síðar hafi þeir hitt nefndan Y auk M.  Y hafi borið sýnilega skurð- eða stunguáverka frá kjálka að barka en verið með meðvitund og á vettvangi hafi verið blóð við og í leigubifreiðinni.  Y hafi verið fluttur á sjúkrahús en M verið handtekinn.  Upplýsingar hafi fengist strax í upphafi frá Y og M um fjölda manna sem höfðu verið í leigubifreiðinni, útlitslýsingar og nöfn að hluta.  Kærði, V og P hafi síðan verið handteknir skömmu síðar, ekki langt frá vettvangi. 

 

          Kærði beri fyrir sig algjört minnisleysi um atburði næturinnar.  Skýrslur hafi verið teknar af M, V og P.  Einnig hafi verið teknar skýrslur af Y og öðrum vitnum.  Útlits- og klæðaburðarlýsing vitna og meðkærðu, M og V, passi við kærða umrædda nótt þegar hann hafi verið handtekinn skammt frá vettvangi og fyrstu viðbrögð hans og ummæli við lögreglumenn varpi mjög á hann sök í þessu máli.  M og V hafi báðir kannast við að hafa verið í för með kærða umrædda nótt og framburður brotaþolans Y sé mjög skýr um alla atvikalýsingu.  Framburður annarra vitna standi málinu til fyllingar og styðji það sem fram hafi komið.  Rannsókn málsins sé vel á veg komin.  Vettvangs- og tæknirannsókn sé að mestu lokið, læknisvottorð liggi fyrir en beðið sé niðurstöðu blóðsýnarannsóknar alkóhólgreiningar.  Myndflétting hafi farið fram fyrr í dag og hafi Y þekkt kærða af mynd sem árásarmanninn.  Liggi fyrir að ljúka rannsókn málsins og fela það ákæruvaldi til meðferðar.

          Að mati lögreglu þyki kærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa veitt Y alvarlegan og hættulegan skurðáverka á hálsi og virðist sem tilviljun ein hafi ráðið því að afleiðingar verknaðarins reyndust ekki alvarlegri en urðu.  Brot kærða kunni þannig að varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði fangelsi allt að 16 árum.  Verði  að telja og reikna með að ef sakborningur hafi orðið uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus þá valdi það hneykslun og andúð í samfélaginu og særi réttarvitund almennings, en um þetta sjónarmið megi vísa til rits próf. Evu Smith, Straffeprocess, 4. útg. 1999, bls. 76-77.  Hagsmunir almennings krefjist þess því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi og það því nauðsynlegt.  Umrædd krafa um gæsluvarðhald sé gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. mál nr.: 44/2004, 268/2003, 563/2002 og 431/2002.

          Lögregla kveður að verið sé að rannsaka meint brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slík brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum, ef sök sannast.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

          Eins og fram kemur í gögnum málsins og hér að framan er rakið liggur fyrir sterkur, rökstuddur grunur um að kærði hafi veitt Y alvarlegan áverka á hálsi með egg­vopni.  Brot þetta getur varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannast, sbr. 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Fallist er á að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti áfram gæslu­varðhaldi.

          Með vísan til þessa og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eru uppfyllt skilyrði til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.  Ber því að fallast á kröfu lögreglu­stjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða svo sem greinir í úrskurðarorði.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, þó eigi lengur en miðvikudagsins 15. september 2004, kl. 16:00.