Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/1999


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamsáverkar


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 266/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Valgarði Daða Gestssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Bifreiðir. Líkamsáverkar.

V var ákærður fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi með því að hafa ekið bifreið sinni yfir óbrotna línu, fram úr annarri bifreið og framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Var hann dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar auk sektar og ökuleyfissviptingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst mildunar á refsingu og að sviptingu ökuréttar verði markaður skemmri tími en ákveðinn var í héraðsdómi.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir umferðarlagabrot og hegningarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sinni yfir óbrotna línu fram úr annarri bifreið á leið norður eftir Reykjanesbraut 11. janúar 1999 og valdið þannig árekstri við bifreið, sem var á leið suður eftir sama vegi, en við áreksturinn hlutu ökumaður og farþegi í síðastnefndri bifreið áverka, sem nánar er greint frá í hinum áfrýjaða dómi. Í héraði gekkst ákærði skýlaust við sakargiftum.

Fyrir Hæstarétti hefur því verið borið við af hálfu ákærða að hann kunni að hafa misst stjórn á bifreiðinni umrætt sinn vegna þess að annar framhjólbarði hennar hafi sprungið og hún við það farið yfir á rangan vegarhelming. Þessum getgátum hefur ekki svo séð verði áður verið hreyft við rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi og eiga þær enga stoð í gögnum þess.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Valgarður Daði Gestsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. f.m., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði, útgefinni 18. mars 1999, á hendur Valgarði Daða Gestssyni, kt. 180380-5909, Lækjarsmára 94, Kópavogi, fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 20. gr. og 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með því að hafa, „mánudaginn 11. janúar 1999 ekið bifreiðinni VZ-276, norður Reykjanesbraut austan við Lónakot, Hafnarfirði, framúr annarri bifreið á sömu leið án nægilegrar aðgæslu miðað við aðstæður. Við þennan framúrakstur fór ákærði yfir heila óbrotna línu er bannar framúrakstur og yfir á rangan vegarhelming, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreið hans og bifreiðinni TY-909 er ekið var suður Reykjanesbraut. Við slysið fékk ökumaður bifreiðarinnar TY-909 m.a. heilahristing og missti meðvitund, en farþegi sömu bifreiðar viðbeinsbrotnaði, fingurbrotnaði, brotnaði á bringubeini og marðist víða, auk þess sem að vökvi kom í fleiðurhol og vinstra lunga féll saman”.

Þess er krafist í ákæru að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.

Við þingfestingu málsins var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds, að auk þeirra ákvæða, sem í ákæru greinir og hér að framan eru tilgreind, taki saksókn á hendur ákærða til 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 341/1989, enda rúmist sú heimfærsla innan verknaðarlýsingar ákæru.

I.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Áverkum þeim, sem ökumaður og farþegi bifreiðarinnar TY-909 hlutu við áreksturinn, er lýst í framlögðum vottorðum Sigurgeirs Kjartanssonar læknis á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Er lýsing á áverkum þeirra í ákæru í samræmi við vottorðin.

Með skýlausri játningu ákærða, sem samræmist rannsóknargögnum lögreglu, einkum ljósmyndum af vettvangi og lýsingum vitna, þykir nægilega sannað að ákærði hafi í umrætt sinn gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með þeim framúrakstri, sem þar er lýst, braut ákærði gegn 2. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, sem breytt var með 6. gr. reglugerðar nr. 348/1998, en reglugerð nr. 341/1989 féll úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 289/1995 31. maí 1995. Hins vegar þykir tilvísun til 36. gr. umferðarlaga ekki eiga við svo sem atvikum var háttað. Við árekstur bifreiðanna, sem alfarið verður rakinn til framúraksturs ákærða, hlutu ökumaður og farþegi bifreiðarinnar TY-909 þá áverka sem í ákæru greinir. Háttsemi ákærða varðar því að auki við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Ákærði hefur samkvæmt framansögðu unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og hann er ungur að árum. Á móti kemur, að hann virti að vettugi bann við framúrakstri, sem að auki var varhugaverður í ljósi allra aðstæðna. Varð ákærði með þessum vítaverða akstri sínum valdur að umtalsverðu tjóni. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 1 mánuð, en rétt þykir að fresta fullnustu þeirrar refsingar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður ákærða ennfremur gert að greiða 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 20 daga fangelsi í hennar stað verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993, og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands frá 20. desember 1994, H.1994.2892, ber að svipta ákærða ökurétti í 2 ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Í yfirliti sýslumannsins í Hafnarfirði um sakarkostnað eru reikningar frá Aðalskoðun hf. vegna skoðunar á bifreið ákærða, að fjárhæð 3.723 krónur, og frá lækni og læknaritara vegna læknisvottorðs varðandi ákærða, að fjárhæð 12.500 krónur. Eins og hér stendur á verður sá kostnaður sem hér um ræðir ekki talinn óhjákvæmilegur hluti kostnaðar vegna rannsóknar máls og meðferðar þess, sbr. 164. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999. Að þessum kostnaði frátöldum verður ákærða gert að greiða þann kostnað sem tilgreindur er á framlögðu yfirliti. Þá skal ákærði ennfremur greiða þóknun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, og þykir hún hæfilega ákveðin 30.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð :

Ákærði, Valgarður Daði Gestsson, sæti fangelsi í 1 mánuð, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 80.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 20 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt framangreindu, þar með talda þóknun til skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.