Hæstiréttur íslands
Mál nr. 513/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Akstur sviptur ökurétti
- Ítrekun
|
|
Fimmtudaginn 8. febrúar 2007. |
|
Nr. 513/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Jóel Mar Hólmfríðarsyni (Logi Guðbrandsson hrl.) |
Bifreiðir. Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Ítrekun.
J var sakfelldur fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis. Hann hafði áður verið sakfelldur fyrir ölvunarakstursbrot en var ekki orðinn fullra 18 ára þegar hann framdi það brot. Með vísan til dómvenju var refsing J ákveðin sekt 190.000 krónur. Þá fór um ökuréttarsviptingu J eftir þágildandi 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en ekki 4. mgr. greinarinnar þar sem fyrra ölvunarakstursbrot J hafði ekki ítrekunaráhrif vegna aldurs hans, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var J sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu héraðsdóms að telja.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. september 2006, að fengnu áfrýjunarleyfi, í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst mildunar á refsingu og styttingar á ökuréttarsviptingu.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Ákærði er fundinn sekur um að aka bifreið sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis. Hann er fæddur 7. ágúst 1986. Með dómi 26. apríl 2005 var hann sakfelldur fyrir ölvunarakstursbrot sem hann framdi 20. maí 2004. Á þeim tíma var hann ekki orðinn fullra 18 ára. Með vísan til dómvenju verður refsing ákærða ákveðin eins og um fyrsta ölvunarakstursbrot væri að ræða og að meðtalinni refsingu fyrir akstur sviptur ökurétti ákveðst refsingin sekt 190.000 krónur.
Í 4. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. nú 6. mgr. ákvæðisins, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, eru sérreglur um sviptingu ökuréttar þegar stjórnandi ökutækis, sem áður hefur brotið gegn 45. gr. laganna, gerist sekur um slíkt brot á nýjan leik. Reglum þessum verður þó aðeins beitt ef brot verður talið ítrekað í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 314/2002 í dómasafni réttarins 2002, bls. 3671. Eitt skilyrða þess að brot hafi ítrekunaráhrif er að sakborningur hafi verið fullra 18 ára þegar hann framdi það brot. Svo sem að framan greinir hafði ákærði ekki náð þeim aldri þegar hann framdi fyrra ölvunaraksturs brot sitt. Fer því um ökuréttarsviptingu hans eftir þágildandi 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga, en ekki 4. mgr. greinarinnar. Með vísan til þessa er ökuréttarsvipting ákærða ákveðin eitt ár frá birtingu hins áfrýjaða dóms að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Kostnað vegna áfrýjunar sakarinnar ber samkvæmt 169. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að greiða úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti eru að meðtöldum virðisaukaskatti tiltekin í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jóel Mar Hólmfríðarson, greiði 190.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella 14 daga fangelsi.
Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 1. júní 2006 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Loga Guðbrandssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. maí 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 5. apríl sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæruskjali lögreglustjórans á Húsavík, útgefnu þann 10. mars 2006 á hendur Jóel Mar Hólmfríðarsyni, kt. 070886-2949, Stórhóli 6, Húsavík,
„fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni IG-926, að morgni mánudagsins 6. ágúst 2005, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,71) og sviptur ökurétti, um Norðausturveg við Aðaldalsflugvöll uns hann ók bifreiðinni út af við syðri enda flugvallarins.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.“
Fyrirkall í máli þessu var gefið út 14. mars sl. og birt fyrir ákærða þann 16. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins þann 5. apríl sl. sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu sækjanda með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991.
Þykir mega jafna framangreindri útivist ákærða til játningar hans með vísan til áðurgreindrar lagagreinar, enda er sú niðurstaða í samræmi við gögn málsins. Telst brot ákærða því nægjanlega sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði í ákæruskjali.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði, þann 26. apríl 2005, dæmdur til greiðslu kr. 130.000 í sekt og sviptur ökurétti í 1 ár, fyrir ölvunarakstur. Þykir refsing ákærða nú því hæfilega ákveðin kr. 200.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.
Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 ber að svipta ákærða ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Í málinu liggur fyrir sakarkostnaður vegna töku blóðsýnis ákærða og rannsóknar þess að fjárhæð kr. 32.551 og ber að dæma ákærða til greiðslu þess kostnaðar.
Dómsuppsaga hefur tafist lítillega vegna anna dómarans.
Dóminn kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði Jóel Mar Hólmfríðarson greiði kr. 200.000 í sekt til ríkissjóðs og komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði er sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði kr. 32.551 í sakarkostnað.