Hæstiréttur íslands

Mál nr. 74/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. nóvember 2001.

Nr. 74/2001.

Sveinn Ómar Ólafsson

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Samherja hf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting.

Stýrimaðurinn S vann við að þrífa gólf og veggi í lest loðnuskips. Til verksins notaði hann álstiga og háþrýstidælu, en gólfið í lestinni var hált af grút og vatni. Umræddur stigi var með gripflötum úr riffluðu harðplasti neðan á stigakjálkum og þeirrar gerðar að unnt var að festa saman tvo stigahluta og lengja hann. S stóð í miðjum stiganum, sem hann hafði reist upp við skemmri hlið lestarhólfsins, þegar stiginn rann undan honum þannig að hann féll niður og slasaðist. Hæstiréttur taldi að slysið yrði rakið til vanbúnaðar stigans, sem útgerðarmaður skipsins hafði lagt S til við verkið, enda hefðu gripfletir á stigakjálkunum ekki hentað við aðstæður í lestinni. Þá hefði mátt draga úr hálku á gólfi lestarinnar með því að setja á það málningu með hálkuvörn. Aftur á móti var S, sem hafði gegnt starfi stýrimanns um borð í skipinu samfellt um átta ára skeið, látinn bera tvo þriðju hluta tjóns síns sjálfur þar sem hann var þaulkunnugur öllum aðstæðum um borð og átti að bera skynbragð á hvort stiginn hentaði til verksins. Þá ákvað hann alla tilhögun við verk sitt sjálfur og gat óskað eftir manni til að halda við stigann eða gert gangskör að því að útvega hinn hluta stigans, þannig að unnt hefði verið að lengja hann og skorða að því búnu milli langhliða lestarhólfsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.644.678 krónur með 2% ársvöxtum af 11.150.655 krónum frá 31. ágúst 1996 til 27. janúar 1997, af 11.600.978 krónum frá þeim degi til 15. apríl 1999, af 10.684.228 krónum frá þeim degi til 27. sama mánaðar, en af 10.644.678 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1999. Frá þeim degi krefst áfrýjandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júli 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Verði vátryggingafélagi til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 31. ágúst 1996 við vinnu sína um borð í fiskiskipinu Oddeyrinni EA 210. Stefndi hafði eignast skipið fyrr á því sumri, en áfrýjandi hafði starfað á því frá árinu 1981, þar af samfellt sem stýrimaður frá 1988. Þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu hafði skipið verið við loðnuveiðar og landað afla á Siglufirði, en síðan haldið til Akureyrar, þar sem 1. stýrimaður ásamt áfrýjanda, sem þá gegndi starfi 2. stýrimanns, og fleiri úr áhöfninni unnu við þrif á lestum þess. Áfrýjandi vann við að þrífa gólf og veggi í neðstu lest skipsins og var einn að störfum þar, en lestin var hólfuð niður á þverveginn. Lestarhólfið, þar sem áfrýjandi var við störf, var 160 til 190 cm breitt. Notaði hann álstiga og háþrýstidælu til verksins. Álstiginn var 275 cm langur og 42 cm breiður. Var hann þeirrar gerðar að unnt var að festa saman tvo stigahluta og lengja hann þannig í allt að 425 cm, en áfrýjandi mun aðeins hafa haft annan hluta hans til verksins. Gripfletir undir kjálkum stigans voru úr riffluðu harðplasti. Gólf lestarinnar, sem var steinsteypt, var málað, en málningin tekin að flagna af. Áfrýjandi hafði nýlega hafið verkið og stóð í miðjum stiganum, sem hann hafði reist upp við skemmri hlið lestarhólfsins bakborðsmegin, þegar stiginn rann undan honum þannig að hann féll á gólf lestarinnar og hlaut líkamstjón af. Slysið var tilkynnt lögreglu, sem gerði samdægurs skýrslu um það og tók ljósmyndir á vettvangi.

 Áfrýjandi tilkynnti stefnda með bréfi 13. október 1997 að hann teldi stefnda bera skaðabótaábyrgð á tjóni sínu. Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi 3. mars 1998. Áfrýjandi aflaði sér örorkumats hjá lækni 10. janúar 1999. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón áfrýjanda væri 100% frá 31. ágúst 1996 til 27. janúar 1997. Teldist hann hafa verið rúmliggjandi í tvo mánuði eftir slysið, en veikur eftir það með fótaferð til 27. janúar 1997. Varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins var metinn 15% og varanleg örorka einnig 15%. Höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu bóta vegna slyssins 1. nóvember 1999 og miðaði dómkröfu sína við framangreint mat. Stefndi vildi ekki una niðurstöðu matsins varðandi varanlegan miska og varanlega örorku og leitaði mats Örorkunefndar á þeim þáttum 7. janúar 2000. Í álitsgerð nefndarinnar 27. júní 2000 var varanlegur miski áfrýjanda vegna slyssins metinn 12%, en varanleg örorka 20%. Breytti áfrýjandi kröfu sinni til samræmis við þessa niðurstöðu og er ekki ágreiningur um fjárhæð hennar.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms leitaði áfrýjandi 27. janúar 2001 álits Vinnueftirlits ríkisins um orsakir framangreinds slyss. Hann hefur lagt fyrir Hæstarétt svar Vinnueftirlits ríkisins 2. febrúar sama árs við þessu erindi. Þá hafa aðilar að tilhlutan Hæstaréttar aflað skoðunar- og álitsgerðar Guðjóns Jónssonar verkfræðings 20. október 2001 um tiltekin atriði varðandi stigann, sem áfrýjandi notaði við verk sitt þegar slysið varð, sem og um nokkra aðra þætti, er tengjast aðstæðum á slysstað.

II.

Áfrýjandi vann við þrif á lest loðnuskips þegar slysið varð. Var gólfið í lestinni hált af grút og vatni. Til verksins lét stefndi áfrýjanda í té álstiga með gripflötum neðan á stigakjálkum úr riffluðu harðplasti. Í fyrrnefndri álitsgerð Guðjóns Jónssonar kemur fram að stiginn hafi hentað illa til nota við þessar aðstæður, þar sem hvorki voru festingar á honum né nægjanlegt grip í stigakjálkunum. Veiti gripfletir þessarar gerðar litla mótstöðu á hálu yfirborði. Séu til stigar með annars konar gripflötum á stigakjálkum, sem myndi mun meiri mótstöðu við þær aðstæður.

Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hefði getað framkvæmt verkið án áhættu með því að reisa stigann upp við lengri hlið lestarhólfsins í stað skemmri hliðarinnar. Þar sem lestarhólfið sé tiltölulega mjótt hefði hann með því getað skorðað stigann á milli lengri hliða hólfsins og þannig tryggt að hann rynni ekki til þrátt fyrir hálku á gólfinu. Leggja verður til grundvallar að til verksins hafi áfrýjandi aðeins fengið annan hluta stigans, en hann var sem áður segir 275 cm að lengd. Samkvæmt álitsgerð Guðjóns Jónssonar hefði halli á svo stuttum stiga, sem stillt væri upp á milli lengri hliða hólfsins, orðið 46 til 55°. Slíkur halli er allt of mikill til að unnt hefði verið að vinna í stiganum með tryggum hætti, en í framlögðum leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins er gert ráð fyrir því að við vinnu í stiga þurfi halli á honum að vera um 75°. Gat áfrýjandi því ekki tryggt stöðugleika stigans, sem honum var fenginn til verksins, með því að skorða hann á milli lengri hliða lestarhólfsins.

Að því virtu, sem að framan greinir, verður að rekja slysið til vanbúnaðar stigans, sem stefndi lagði áfrýjanda til við verk hans. Verður einnig í þessu sambandi að líta til þess, sem fram kemur í álitsgerð Guðjóns Jónssonar, að draga hefði mátt úr hálku á gólfi lestarinnar með því að setja á það málningu með hálkuvörn, en fyrir liggur að málning á gólfinu var nokkuð tekin að flagna. Samkvæmt þessu verður stefndi að bera skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Við mat á sök verður þó einnig að líta til þáttar áfrýjanda. Hann var reyndur sjómaður og hafði gegnt starfi stýrimanns um borð í skipinu samfellt um átta ára skeið þegar slysið varð. Hann var því þaulkunnugur öllum aðstæðum um borð og einn af yfirmönnum skipsins. Stefndi hafði nýlega eignast skipið og bjó áfrýjandi yfir meiri þekkingu á aðstæðum um borð en fyrsti stýrimaður, sem hafði tekið við því starfi eftir eigendaskiptin. Kom fram í framburði fyrsta stýrimanns fyrir héraðsdómi að hann hafi litið svo á að áfrýjandi væri verkstjóri við þrifin ásamt sér og hefði hann leiðbeint öllum, sem við þau unnu, nema áfrýjanda. Áfrýjandi átti því að bera skynbragð á hvort stiginn, sem honum var fenginn, hentaði til verksins. Hann hafði stöðu til að hafna stiganum ef hann teldi svo ekki vera og neita að vinna verkið ella. Þá ákvað áfrýjandi alla tilhögun við verk sitt sjálfur. Hann hefði getað óskað eftir manni til að halda við stigann eða gert gangskör að því að útvega hinn hluta stigans, þannig að unnt hefði verið að lengja hann og skorða að því búnu á milli lengri hliða lestarhólfsins með viðunandi halla. Átti áfrýjandi því verulega sök á slysinu. Er að þessu gættu hæfilegt að hann beri sjálfur 2/3 hluta tjóns síns, en stefndi 1/3 hluta.

Eins og áður segir er ekki ágreiningur um fjárhæð kröfu áfrýjanda. Ber stefnda því að greiða honum 3.548.226 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Samherji hf., greiði áfrýjanda, Sveini Ómari Ólafssyni, 3.548.226 krónur með 2% ársvöxtum af 3.716.885 krónum frá 31. ágúst 1996 til 27. janúar 1997, af 3.866.993 krónum frá þeim degi til 15. apríl 1999, af 3.561.409 krónum frá þeim degi til 27. sama mánaðar, en af 3.548.226 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 1999. Frá þeim degi greiðist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember s.l., er höfðað með stefnu birtri 1. nóvember 1999.

Stefnandi er Sveinn Ómar Ólafsson, kt. 121164-8099, Merkurgötu 13, Hafnar­firði.

Stefndi er Samherji hf., kt. 671272-2859, Glerárgötu 30, Akureyri.  Réttargæslustefndi er Vörður vátryggingafélag, kt. 690269-6359, Skipagötu 9, Akureyri.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Samherji hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 10.644.678 með 2% ársvöxtum af kr. 11.150.655 frá 31. ágúst 1996 til 27. janúar 1997, af kr. 11.600.978 frá þeim degi til 15. apríl 1999, af kr. 10.684.228 frá þeim degi til 27. apríl 1999, af kr. 10.644.678 frá þeim degi til 1. nóvember 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi Samherji hf., verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt reikningi auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda Samherja hf. eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans samkvæmt reikningi auk virðisaukaskatts.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi hafði frá árinu 1988 starfað samfellt sem stýrimaður á skipinu Oddeyri EA-210, en skipið er í eigu stefnda, en réttar­gæslustefndi annaðist slysa- og ábyrgðartryggingar vegna áhafnar skipsins.  Laugardaginn 31. ágúst 1996 slasaðist stefnandi um borð í skipinu þar sem það lá bundið við bryggju í Akureyrarhöfn.  Skipið hafði verið við loðnuveiðar og var stefnandi 2. stýrimaður í veiðiferðinni.  Vann skipshöfnin við þrif á lestum skipsins eftir löndun, þar á meðal stefnandi.  Segir í lögregluskýrslu, sem gerð var samdægurs, að mjög hált hafi verið í lestum vegna lýsisgrúts.  Séu þrjú lestarop á lest skipsins og sé lestargólfið steypt og málað, en málning farin að flagna af.  Lestin sé hólfuð niður á þverveginn með þiljum, þannig að hólfalengjur séu beggja vegna lestaropsins.  Lestaropið sé 160-190 cm breitt eða álíka breitt og bilið á milli þiljanna.  Segir í skýrslunni að stefnandi hafi verið staddur undir lestaropinu í neðstu lest, sem er 320 cm á hæð og hafi hann verið að þvo þil bakborðsmegin að utanverðu með háþrýstidælu.  Hafi hann staðið í álstiga, sem sé tvöfaldur, 10 þrep í hvorum, 275 cm langur og 42 cm breiður.  Sé hægt að festa þá saman og sé þá mesta hæð 450 cm.  Búið var að hífa stigann upp úr lestinni þegar lögregla kom á vettvang og því var ekki hægt að kanna uppsetningu hans.

Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu 6. september sama ár og skýrði hann svo frá að hann hefði notað annan hluta stigans, en ekki stigann samansettan.  Sagðist stefnandi eftir hádegið umræddan dag hafa verið að verka lýsisgrút og óhreinindi úr lestum skipsins og kvaðst hann hafa verið einn að verki.  Kvaðst hann hafa notað álstiga við verkið og komið honum fyrir fremst í botnlest skipsins, bakborðsmegin og hafi hann verið skáhallt upp í hornið.  Þá kvaðst hann hafa notað háþrýstidælu við verkið og hafi hann þurft að fara með þrýstistútinn nokkuð nálægt þeim flötum sem unnið var við svo óhreinindin næðust vel af.  Kvaðst stefnandi hafa farið upp í miðjan stigann og verið nýbyrjaður á verkinu þegar stiginn rann skyndilega undan honum með þeim afleiðingum að hann féll á steinsteypt lestargólfið.  Stefnandi sagðist oft áður hafa unnið slíkt verk.  Kvað hann áður hafa verið notaða dælu með lengri þrýstistút þannig að minna hafi þurft að vera í stiga.  Stefnandi kvað umræddan stiga ekki áður hafa verið notaðan við verkið.   Stefnandi benti á að endar stigans væru klæddir riffluðu hörðu plastefni en ekki væri um hrágúmmí að ræða.

Í stefnu er því haldið fram að útgerðarstjóri stefnda hafi falið stefnanda umrætt verk og jafnframt hafi honum verið falið að nota háþrýstidælu og álstiga við verkið.  Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum stefnanda sem röngum.

Upplýst hefur verið að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins.

Stefnandi var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og gekkst hann undir aðgerð á fæti og mjöðm.  Lá stefnandi eina viku á sjúkrahúsinu og mun hann hafa verið óvinnufær til 27. janúar 1997.

Í vottorði Þorvalds Ingvarssonar, læknis, dagsettu 3. maí 1998 segir svo m.a.: „Skoðun við komu leiddi í ljós mikil eymsli í nára og út eftir hnútu svo og snúning í mjaðmarlið.  Rtg. mynd sýndi brot neðan lærleggsháls á vinstri lærlegg.  Brotið var úr lagi fært.  Sveinn var tekinn samdægurs til aðgerðar þar sem brotið var rétt og fest með renninagla.  Fékkst ágætis lega brots og renninaglans.  Eftir aðgerðina dvaldi Sveinn hér á FSA til 07.09.96, var hann þá sjálfbjarga og gat gengið við 2 hækjustafi.  Útskrifaðist til síns heima og eftirlit var ákveðið að færi fram í Reykjavík enda býr Sveinn fyrir sunnan.“     

Í áliti Boga Jónssonar, læknis, dagsettu 11. desember 1998, segir svo m.a. um afleiðingar slyssins:  „Ljóst er að Sveinn hefur hlotið röskun á vöðvum sem stjórna hreyfingum við gang og hlaup.  Þetta er ástand sem er komið til að vera þar sem ástand hefur ekki skánað þótt næstum 2 ár eru liðin frá slysi.  Ekki er útilokað að slit geti myndast í þessum mjaðmarlið fyrr en reikna má með ef hann hefur ekki brotnað.  Hann er nánast að verða óvinnufær sem sjómaður og mjög erfitt í dag fyrir hann að vinna sem sjómaður.“

 Með bréfi dagsettu 13. október 1997 tilkynnti lögmaður stefnanda um þá afstöðu hans að hann teldi stefnda bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Stefndi hafnaði bótaskyldu með bréfi dagsettu 3. mars 1998.

Jónasi Hallgrímssyni, lækni, var falið að meta afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum og er niðurstaða hans dagsett 10. janúar 1999.  Taldi hann tímabundið atvinnutjón stefnanda hafa verið 100% frá 31. ágúst 1996 til 27. janúar 1997.  Þá taldi læknirinn stefnanda hafa verið veikan og rúmliggjandi í 61 dag eftir slysið og veikan en með fótaferð í 87 daga.  Læknirinn taldi varanlega miska stefnanda vera 15% og varanlega örorku taldi hann einnig vera 15%. 

Stefndi undi ekki niðurstöðu læknisins um varanlega örorku og miskastig og óskaði eftir mati örorkunefndar á þeim þáttum.  Niðurstaða örorkunefndar er dagsett 27. júní s.l. og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri hæfilega metinn 12% en varanleg örorka var talin vera 20%.

Stefnandi reisir kröfur sínar um greiðslu þjáningabóta og bóta fyrir tímabundið atvinnutjón á matsgerð Jónasar Hallgrímssonar, læknis, en krafa hans um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku er byggð á álitsgerð örorkunefndar.  Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig að krafa um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá 1. nóvember 1996 til 27. janúar 1997 er kr. 450.323, krafa um þjáningabætur er kr. 162.580, krafa um bætur fyrir 12% varanlegan miska er kr. 558.240 og bætur fyrir 20% varanlega örorku er kr. 9.473.535.  Hefur stefnandi þá tekið tillit til bóta vegna tapaðra lífeyrisréttinda, 6% frádráttar vegna aldurs og bóta sem greiddar voru úr slysatryggingu sjómanna 15. apríl 1999 og 27. apríl sama ár.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir á því að slys hans sé að rekja til vanbúnaðar álstiga sem honum hafi verið falið að nota við þrif á lestarveggjum skipsins.  Óumdeilt sé að lestargólfið hafi verið mjög hált og þá sé óumdeilt að stiginn rann á hálu gólfinu með  þeim afleiðingum að stefnandi hlaut örkuml.  Óforsvaranlegt hafi verið af forsvarsmönnum stefnda að fela stefnanda að vinna með stiga með riffluðum plasthausum á neðri endum stigans.  Hafi þetta valdið því að stiginn rann á gólfi lestarinnar.  Hefði verið unnt að koma í veg fyrir slysið með því að fela stefnanda að nota stiga með stömu efni undir stigakjálkum og hefði stigi með slíku efni ekki runnið á hálu lestargólfinu.  Þá byggir stefnandi á því að  unnt hefði verið að koma í veg fyrir slysið með því að festa stigann við lestarvegg eða útvega stefnanda stiga sem búinn hefði verið öðrum öryggisbúnaði, svo sem hjálparfótum.  Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi vanrækt viðhald á málningu á gólfi lestarinnar, en málning hafi verið farin að flagna af gólfi lestarinnar og hafi það m.a. valdið því að stiginn rann á gólfinu.  Með því að leggja stefnanda til umræddan stiga hafi stefndi brotið gegn reglum um öryggi starfsmanna, s.s. leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins um vinnuvernd nr. 1/1991 og reglum nr. 414/1995 um vinnuöryggi á fiskiskipum 15 metrar og lengri.  Stefnandi telur augljóst að slysið sé að rekja til vanbúnaðar stigans og beri stefndi fébótaábyrgð á þeirri vanrækslu stjórnenda stefnda að leggja stefnanda ekki til öruggan stiga.

Stefnandi byggir jafnframt á því að óforsvaranlegt hafi verið af útgerðarstjóra stefnda að fela stefnanda að þrífa veggi lestarinnar með háþrýstidælu með mjög stuttum þrýstistút.  Hafi slík dæla alls ekki hentað við verkið og hefði mátt koma í veg fyrir slysið hefði stefnanda verið falið að vinna verkið með dælu með löngum stút, sem unnt hefði verið að nota af gólfi við þrifin.  Að mati stefnanda hafi forsvarsmenn stefnda sýnt af sér saknæma háttsemi með því að fela stefnanda að nota umrædda háþrýstidælu.

Þá byggir stefnandi á því að slysið sé að rekja til þess að verkstjórn hafi verið ábótavant á vinnustað.  Hafi engin verkstjórn verið við verkið en stefnda hafi borið að tryggja að eftirlit væri með starfsmönnum við verkið.  Þá byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að fela öðrum starfsmanni að aðstoða stefnanda við hreinsun lestarinnar og styðja við stigann við notkun hans á hálu gólfinu.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi beri ábyrgð á hættulegum aðstæðum í lest skipsins og beri að virða stefnda til sakar hversu hættulegar aðstæður voru í lestinni.  Hafi forsvarsmönnum stefnda borið að tryggja að gólf væru ekki eins hál og raun bar vitni áður en vinna við þrif veggja var hafin.

Stefnandi vísar til laga nr. 34/1985, einkum 1. mgr. 171. gr.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/980.  Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar og reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 50/1993, einkum 2. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 15. gr.  Stefnandi vísar til laga nr. 35/1985, 35/1993, leiðbeininga nr. 1/1991, reglugerða nr. 431/1997, 785/1998 og 786/1998, reglna nr. 414/1995 og reglna nr. 185/1995.  Stefnandi vísar um varnarþing til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, en samkomulag sé um að reka málið hér fyrir dómi.  Stefnandi vísar um vexti til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvexti til III. kafla vaxtalaga.  Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. og krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988.

Stefndi byggir á því að ekkert liggi fyrir sem styðji þá málsástæðu stefnanda að umbúnaður stigans hafi verið óforsvaranlegur og að það hafi valdið slysinu.  Hins vegar sé margt sem bendi til þess að stefnandi hafi ekki farið með stigann á þann hátt sem ætlast mætti til af honum með hliðsjón af reynslu hans og menntun.  Þá megi ráða af myndum af vettvangi að hægt hefði verið að vinna verkið með því að setja stigann þversum í lestarrýminu.

Stefndi byggir á því að ekkert liggi fyrir um að ástand gólfsins hafi verið annað en almennt gerist um borð í fiskiskipum.  Þá sé óljóst hvort ómálað gólf sé almennt hálla en vel málað gólf.  Þá liggi ekkert fyrir um að stefnanda hafi verið ómögulegt að haga vinnubrögðum sínum þannig að ekki stafaði hætta af hálku á lestargólfinu, t.d. hefði hann getað sett stigann þversum í lestarrýminu áður en hann notaði hann.

Stefndi mótmælir því að háþrýstidælan hafi verið vanbúin.  Ekkert liggi fyrir sem styðji þessa staðhæfingu stefnanda.  Stefndi bendir á að nauðsynlegt hafi verið að nota stiga þegar unnið hafi verið með dælu með lengri stút og geti því dæla með styttri stút aldrei talist óforsvaranlega búin.

Stefndi mótmælir því að umræddur búnaður hafi í nokkru brotið gegn leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins eða reglum um vinnuöryggi á fiskiskipum.

Stefndi mótmælir því að aðstæður um borð í lest skipsins hafi verið hættulegri en almennt gerist um borð í fiskiskipum og bendir á að augljóslega sé ekki hægt að þrífa gólfin áður en veggir eru þrifnir, enda hljóti grútur og drulla sem skolast af veggjunum að lenda á gólfinu.

Stefndi byggir á því að engin gögn liggi fyrir um það í málinu að stefnanda hafi verið falið að ganga til verksins með þeim hætti sem hann gerði.  Þá byggir stefndi á því að teldust þessar staðhæfingar stefnanda sannaðar hefðu yfirmenn stefnda haft fyllstu ástæðu til að gera ráð fyrir að stefnandi myndi á eigin spýtur og án aðstoðar nota tækin á hættulausan hátt, t.d. með því að hafa stigann þversum í lestinni.  Vísar stefndi í því sambandi til langrar reynslu stefnanda af störfum um borð og skipstjórnarmenntunar hans.

Stefndi telur þá málsástæðu stefnanda að engin verkstjórn hafi verið við verkið lítt fá samræmst þeirri málsástæðu að honum hafi sérstaklega verið falið að ganga til verksins og nota við það stigann og dæluna.  Stefndi byggir á því að verkstjórn með störfum stefnanda hafi verið fullnægjandi og bendir á að vegna mikillar reynslu og skipstjórnarmenntunar hans hafi ekki verið sérstök ástæða til að vaka yfir störfum hans.

Stefndi byggir á því að telji dómurinn bótaábyrgð stefnda til að dreifa, þá verði slysið alfarið rakið til eigin óaðgæslu stefnanda.  Stefnandi hafi mikla reynslu af sjómennsku og sé skipstjórnarmenntaður.  Hafi honum því borið að haga vinnubrögðum sínum í samræmi við þá hálku og hættu sem kunni að vera samfara þrifum lestarinnar.  Það hafi hann ekki gert að mati stefnda og firri það hann öllum rétti til bóta.

Ekki er ágreiningur um útreikning bóta, teljist skaðabótaskylda vera fyrir hendi, en stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta og telur ekki standa efni til að dæma dráttarvexti frá fyrri tíma en uppsögu dóms í málinu.

Stefndi vísar til almennra reglna skaðabótaréttarins og laga nr. 91/1991, laga nr. 50/1988 og vaxtalaga.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hafi unnið við að þrífa lestina með háþrýstidælu og stóð hann í stiga sem hann hafði reist upp við fremsta þilið, skáhallt upp og voru báðir kjálkar á sama vegg.  Hann kvað útgerðarstjóra hafa lagt stigann til, en 1. stýrimaður hafi séð um að panta þann útbúnað sem notaður var.  Stefnandi kvað 1. stýrimann hafa verið verkstjóra á staðnum, en sá hafi komið á skipið tveimur mánuðum áður, en fram að þeim tíma kvaðst stefnandi hafi verið 1. stýrimaður.  Stefnandi kvaðst hafa verið búinn að benda á að hentugra væri að nota dælu með löngum stút.  Hann kvaðst hafa þurft að halda með annarri hendi í byssuna og hinni í stútinn og hafi ekki verið hægt að styðja sig við stigann.  Stefnandi kvað stigann hafa runnið af stað og kvaðst hann hafa fallið niður og lent á vinstri mjöðm.  Stefnandi kvaðst oft áður hafa unnið við að þrífa lestar skipsins en áður hafi verið notaður lengri þrýstistútur þannig að minna hafi þurft að vera í stiga.  Stefnandi kvaðst ekki hafa notað umræddan stiga áður.

Þorsteinn Vilhelmsson, kt. 030552-3509, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi verið útgerðarstjóri á þeim tíma sem hér um ræðir, en hann kvaðst engin afskipti hafa haft af þrifum.  Hann kvað það ekki í sínum verkahring að útvega dælur eða stiga til verksins.  Þá kvaðst hann ekki vita hvers vegna slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins.

Ísleifur Karl Guðmundsson. kt. 020763-7019, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi hafið störf sem 1. stýrimaður á skipinu í júnímánuði árið 1996.  Hann kvaðst ekki hafa gefið fyrirskipanir um þrif á lestum skipsins, en hann kvaðst hafa tekið þátt í þrifunum.  Hann kvaðst hafa verið verkstjóri ásamt stefnanda og kvaðst hann umrætt sinn hafa verið æðsti maður um borð vegna fjarveru skipstjóra.  Þá kvaðst  hann hafa leiðbeint öllum nema stefnanda.

Forsendur og niðurstaða.

Við munnlegan flutning málsins var því hreyft af hálfu stefnanda að slysið hefði ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 612/1989, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980.  Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. þeirra laga ná lögin til fermingar og affermingar skipa, þar með talin fiskiskip, svo og til viðgerða um borð í skipum og starfsemi, sem því er tengd.  Lögin ná þó ekki til búnaðar í skipum, sem notaður er í þessum tilgangi.  Þá ná lögin ekki til lögskráðra manna, nema þeir starfi undir verkstjórn úr landi.  Upplýst er að skipverjar Oddeyrar EA-210 önnuðust þrif á lestum skipsins í beinu framhaldi af veiðiferð, en eftir að það hafði lagst við bryggju.  Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að stefnandi hafi ekki verið lögskráður þegar hann sinnti þessum starfa og þá er upplýst að hann starfaði ekki undir verkstjórn úr landi.  Samkvæmt þessu hefur ekki verið sýnt fram á að lög nr. 46/1980 eigi hér við.  Lögregla var kvödd á vettvang eftir slysið og liggja fyrir í málinu lögregluskýrsla þar sem aðstæðum er ítarlega lýst svo og ljósmyndir af vettvangi.  Þá hefur því ekki verið haldið fram í málinu að halda hefði átt sjópróf vegna slyssins samkvæmt 219. gr. siglingalaga nr. 34/1985, enda var skipið ekki statt utan íslenskrar hafnar þegar stefnandi slasaðist.  Verður því á því byggt í máli þessu að nægileg rannsókn hafi farið fram á aðdraganda slyssins og aðstæðum á vettvangi.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um skaðabótaskyldu stefnda.  Verði á bótaskyldu fallist er ekki ágreiningur um kröfugerð stefnanda að öðru leyti en því að upphafsdegi dráttarvaxta er mótmælt.

Í stuttu máli reisir stefnandi málatilbúnað sinn á því í fyrsta lagi að stigi sá sem honum var fenginn til verksins hafi verið vanbúinn og ekki uppfyllt þær öryggiskröfur sem gera verður til stiga.  Í öðru lagi telur stefnandi að honum hafi verið fengin háþrýstidæla með stuttum stút, en hann hafi beðið um dælu með löngum stút.  Í þriðja lagi telur stefnandi verkstjórn við þrifin hafa verið ábótavant og í fjórða lagi er á því byggt af hálfu stefnanda að stefndi beri ábyrgð á þeim hættulegu aðstæðum sem voru í lestinni umrætt sinn.

Stefnandi bar við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði komið stiganum fyrir fremst í botnlest skipsins, bakborðsmegin og hafi hann verið skáhallt upp í hornið.  Stefnandi var ekki inntur eftir nánari skýringu á þessum framburði.   Fyrir dómi skýrði stefnandi hins vegar nánar frá því hvernig hann gekk frá stiganum.  Kvaðst hann þá hafa reist stigann upp við fremsta þilið, skáhallt upp og voru báðir kjálkar á sama vegg.  Hér er um öllu nákvæmari lýsingu stefnanda að ræða og verður á því byggt í málinu að hann hafi búið um stigann með þessum hætti.

Þegar stefnandi gekk til þess verks að þrífa lestar skipsins umrætt sinn var hann næstráðandi á skipinu sem 2. stýrimaður en 1. stýrimaður gegndi störfum skipstjóra í forföllum hans.  Stefnandi hafði unnið um borð í skipinu um margra ára skeið sem 1. stýrimaður og var hann þaulkunnugur öllum verkum um borð, einnig þrifum á lestum eftir veiðiferðir.  Fram hefur komið í málinu að 1. stýrimaður hafði nýhafið störf á skipinu og samkvæmt framburði hans fyrir dómi taldi hann ekki þörf á að leiðbeina stefnanda um þrifin.  Ekki hefur verið sýnt fram á að gólf lestarinnar hafi verið hálla en við mátti búast eftir veiðiferð og þá hefur ekki verið sýnt fram á að gólfið hafi verið hálla en ella sökum þess að málning var farin að flagna af.  Má jafnvel leiða að því líkur að lestargólf séu hálli nýmáluð.  Ekki hefur verið sýnt fram á að stiginn hefði orðið stöðugri við þær aðstæður sem voru í lestinni hefði stamt gúmmí verið á endum hans í stað rifflaðs harðs plastefnis.  Þrátt fyrir að stefnandi hefði ekki notað umræddan stiga áður mátti honum vegna menntunar sinnar og sjómannsreynslu vera ljóst hvaða ráðstafana var þörf við þær aðstæður sem voru í lestinni.  Honum var í lófa lagið að gera ráðstafanir til að stiginn yrði skorðaður þannig af að ekki væri hætta á að hann rynni til eða fá aðstoð skipsfélaga sinna til að halda honum stöðugum.  Hefði stefnandi gert þessar ráðstafanir hefði ekki skipt máli hvort notuð var dæla með stuttum eða löngum stút. 

Stefnanda var falið einfalt verk og máttu forsvarsmenn stefnda gera ráð fyrir að stefnandi, með hliðsjón af verkkunnáttu sinni og reynslu, stæði að því með þeim hætti að ekki þyrfti sérstaka umsjón af þeirra hálfu með honum.  Verður því ekki fallist á að verkstjórn hafi verið ábótavant á vinnustað.  Þá verður fráleitt á því byggt að stefndi beri ábyrgð á þeim aðstæðum sem voru í lest skipsins, enda voru stefnanda aðstæðurnar kunnar og ekki er annað í ljós leitt en lestargólfin hafi ekki verið hálli en stefnandi hafi mátt búast við.

Samkvæmt framansögðu er það því álit dómsins að slys stefnanda verði ekki rakið til neinna þeirra atvika sem stefndi beri ábyrgð á, heldur hafi það orðið vegna óhappatilviljunar og gáleysis stefnanda við framkvæmd starfans.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Samherji hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sveins Ómars Ólafssonar í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.