Hæstiréttur íslands
Mál nr. 646/2013
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2014. |
|
Nr. 646/2013. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Sigfúsi Sturlusyni (Valgeir Kristinsson hrl.) |
Ávana-og fíkniefni. Upptaka.
S var
sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 55
kannabisplöntur, 1.336,15 g af kannabislaufum, 2.124,83 g af kannabisstönglum
og 630,14 g af maríhúana-kannabis. Með hliðsjón af
umfangi brota S, sakaferli hans og dómafordæmum var refsing S ákveðin fangelsi
í 6 mánuði.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigfús Sturluson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 263.560 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16.
september 2013 .
Mál þetta, sem dómtekið var 10.
september sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru
26. mars 2013 á hendur Sigfúsi Sturlusyni, kt. [...],
til heimils að [...] fyrir
fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 17. desember 2012 að [...]
haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni 55 kannabisplöntur, 1.336,15 g
af kannabislaufum, 2.124,83 g af kannabisstönglum, 630,14 g af maríhúana-kannabis og hafa um nokkurt skeið fram til þessa
dags ræktað greindar plöntur sem lögregla fann við leit ásamt kannabislaufum,
stönglum og maríhúana.
Er talið að þetta varði við 2. gr., sbr. 4., 5.
og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög
nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og
önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Er
þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar og jafnframt er krafist upptöku á 55 kannabisplöntum ásamt
1.336,15 g af kannabislaufum, 2.124,83 g af kannabisstönglum og 630,14 g af maríhúana-kannabis samkvæmt
6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og
þá er þess einnig krafist að 8 ljósalampar,
3 gróðurhúsatjöld og 2 loftsíur verði gert upptækt samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga
nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Ákærði viðurkennir að hafa haft fíkniefni samkvæmt ákæru
í vörslum sínum miðvikudaginn 17. desember 2012, þó svo hann viti ekki magn
fíkniefnanna. Hann neitar því að hafa verið með fíkniefnið í sölu og
dreifingarskyni. Af hálfu verjanda ákærða er aðallega krafist sýknu, en til
vara vægustu refsingar. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t.
málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá mánudeginum 17.
desember 2012 bárust lögreglu þann dag kl. 20.00 upplýsingar um að ræktun
kannabis færi hugsanlega fram að [...]. Fóru lögreglumenn á staðinn. Samkvæmt
skýrslunni fannst lykt af kannabis fyrir utan [...] og var farið að íbúð á [...]
hæð. Þar fyrir utan fannst mikil lykt af kannabis koma frá íbúðinni. Var íbúðin
opnuð með aðstoð lásasmiðs. Kom þá í ljós ræktun í íbúðinni. Var tæknideild
lögreglu kölluð til. Var vettvangur ljósmyndaður og eru myndir úr íbúðinni á
meðal rannsóknargagna málsins. Fíkniefni og áhöld til ræktunar þeirra voru
haldlögð í þágu rannsóknar málsins. Í frumskýrslu kemur fram að haft hafi verið
samband við ákærða, sem komið hafi á vettvang. Hafi hann í framhaldi verið
handtekinn í þágu rannsóknar málsins.
Samkvæmt munaskýrslu lögreglu um haldlagða muni var
þennan dag lagt hald á lampa, tjöld og loftsíur sem notaðar voru við ræktunina.
Þá var lagt hald á 55 plöntur á vettvangi. Var mesta hæð þeirra 104 cm en minnsta 7 cm. Samkvæmt
skýrslu tæknideildar voru þrjú tjöld í íbúðinni, svonefnd ræktunartjöld, sem
notuð voru við ræktunina. Einnig hafi verið í íbúðinni maríhúana
í plastpokum, kannabislauf og kannabisstönglar. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu
var lagt hald á 55 plöntur af kannabis. Af þeim voru 20 stykki á gólfi í stofu
sem mældust á bilinu 60 til 104 cm, 13 stykki á gólfi
í stofu sem mældust frá 50 til 60 cm að hæð og 22
stykki á gólfi í stofu sem mældust 7 til 10 cm. Þá
var lagt hald á 630 g af maríhúana sem var á gólfi í
eldhúsi, 1.336,15 g af kannabislaufum sem voru á gólfi í borðstofu og 2.124,83
g af kannabisstönglum á gólfi í borðsstofu. Samkvæmt verkbeiðni tæknideildar
voru plöntur sendar úr hverjum hæðarflokki plantna sem lagt var hald á.
Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og
eiturefnafræði frá 21. janúar 2013 mældist úr fyrsta flokki plantna sem voru á
bilinu 60 til 104 cm á hæð sýni sem var 185,85 g, en eftir
þurrkun reyndist það 30,85 g. Reyndist sýnið vera kannabis og magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni 8,5 mg/g, sem samsvarar
1,4 mg/g í sýni fyrir þurrkun. Í flokki sýna sem reyndist vera á bilinu 50 til
60 cm á hæð reyndist sýnið vera 80,10 g, en eftir
þurrkun 14,49 g. Magn tetrahýdrókannabínóls í þurru sýni 8,8 mg/g, sem samsvarar
1,6 mg/g fyrir þurrkun. Í flokki sýna sem reyndist vera á bilinu 7 til 10 cm á hæð reyndist sýnið vera 2,38 g, en eftir þurrkun 0,75
g. Magn tetrahýdrókannabínóls
í þurru sýni 26 mg/g, sem samsvarar 8,2 mg/g fyrir þurrkun.
Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 18. desember
2012. Þá gaf hann skýrslu fyrir dómi. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa verið
með umrædda ræktun. Hafi hann kynnt sér aðferð við ræktun á internetinu og í
framhaldi komið sér upp búnaði. Ákærði hafi ekki verið í vinnu á þessum tíma
heldur notið atvinnuleysisbóta. Ákærði kvaðst aðallega hafa ætlað að nota þessi
fíkniefni sjálfur en á þessum tíma hafi hann reykt kannabis. Þá kvaðst hann
hafa ætlað að gefa eitthvað af efnum. Í lögregluskýrslu er skráð að ákærði hafi
svarað því til að hann hafi ætlað að gefa eitthvað af efnum í jólagjöf. Ákærði
staðfesti fyrir dómi að hafa greint svo frá hjá lögreglu. Árangur úr
ræktunninni hafi orðið rýr. Hafi komið í ljós að erfiðara hafi verið að rækta
kannabis en ákærði hafi talið. Hafi árangurinn því orðið næsta lítill. Bróðir
ákærða hafi verið að aðstoða ákærða við að koma undir sig fótum á þessum tíma
og því verið skráður fyrir íbúðinni sem leigutaki.
Sævar Þór Sigmarsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í
rannsókn málsins. Er lögreglumenn hafi komið inn í íbúðina hafi ræktunin komið
í ljós. Um hafi verið að ræða ,,meðalstóra“ ræktun. Öll íbúðin hafi meira og
minna verið undirlögð undir ræktunina, nema svefnherbergi er ákærði hafi sofið
í. Guðmundur Páll Jónsson lögreglumaður staðfesti sömuleiðis þátt sinn í
rannsókn málsins. Hafi Guðmundur Páll komið á staðinn. Ræktunin hafi verið
talsvert stór og hún örugglega verið ætluð til dreifingar. Hildur Rún Björnsdóttir lögreglumaður
staðfesti að hafa tekið skýrslu af ákærða 18. desember 2012. Athygli hafi vakið
að ákærði hafi meðal annars lýst yfir að hann hafi ætlað að gefa hluta af
ræktuninni sem jólagjafir.
Valþór Ásgrímsson verkefnisstjóri staðfesti matsgerð
rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Gerði hann nánar grein fyrir
niðurstöðu úr mati.
Niðurstaða:
Ákærði játar sök að hluta til. Hefur hann játað vörslur
fíkniefna samkvæmt ákæru. Hann neitar sök að því leyti að hann hafi ekki ætlað
efnið til sölu og dreifingar. Þá kveðst hann ekki viss um magn fíkniefna á
staðnum. Efni samkvæmt ákæru byggja á skýrslu tæknideildar lögreglu um haldlögð
efni. Samkvæmt því var lagt hald á 55 kannabisplöntur, sem voru á misjöfnu
stigi í ræktun. Ræktunin var ekki komin á endastöð þar sem þær plöntur sem
lengst voru komnar voru ekki farnar að blómstra. Þá voru minnstu plönturnar
stutt á veg komnar. Samkvæmt haldlagningarskýrslu var lagt hald á 1.336,15 g af
kannabislaufum, 2.124,83 g af kannabisstönglum og 630,14 g af maríhúana-kannabis. Með hliðsjón af haldlagningarskýrslu og
skýrslu tæknideildar lögreglu er sannað að magn fíkniefna að Flétturima 14 var
það er í ákæru greinir.
Standa þá eftir þær varnir ákærða að hann hafi ekki
ætlað efnið til sölu og dreifingar. Samkvæmt myndum tæknideildar af vettvangi
var ræktun þessi á engan hátt viðvaningsleg. Komið hafði verið upp sérstökum
tjöldum til ræktunar með tilheyrandi loftræstikerfi, lömpum og öðrum búnaði.
Var íbúðin nánast öll undirlögð undir ræktunina. Þá hefur ásetningur ákærða
verið afdráttarlaus, en lögregla hafi stöðvað ræktunina áður en plöntur fóru að
blómstra. Er ekki hægt að fallast á varnir ákærða um að ræktunin hafi verið
misheppnuð og rýr. Matsgerð leiðir í ljós að um venjulega ræktun á
kannabisplöntum hafi verið um að ræða, þar sem afraksturinn var efnið tetrahýdrókannabínól, sem er ólöglegt fíkniefni. Er að mati
dómsins hafið yfir allan vafa að ræktunin hafi verið umfram ætlaða neyslu
ákærða sjálfs. Verður við það miðað að hún hafi verið ætluð í sölu og
dreifingu. Samkvæmt því er sök ákærða sönnuð og verður hann sakfelldur samkvæmt
ákæru. Er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í febrúar árið
1984. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði einu sinni gengist undir
viðurlagaákvörðun og fimm sinnum undir sáttir vegna brota á lögum um ávana- og
fíkniefni. Er síðasta sáttin frá 15. desember 2009. Þá hefur ákærði tvisvar
sinnum verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnalagabrot og
umferðarlagabrot. Með hliðsjón af umfangi brota ákærða, sakaferli hans og dómum
Hæstaréttar í málum nr. 64/2010 og 752/2009 er refsing ákærða ákveðin fangelsi
í 6 mánuði. Ákærði hefur sex sinnum áður gengist undir sáttir eða verið dæmdur
fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með hliðsjón af því verður refsingin
ekki bundin skilorði.
Með
vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptækar gerðar til ríkissjóðs 55
kannabisplöntur, 1.336,15 g af kannabislaufum, 2.124,83 g af kannabisstönglum,
630,14 g af maríhúana-kannabis, 8 ljósalampar, 3 gróðurhúsatjöld og 2 loftsíur, sem
lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði sakarkostnað
samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun, að teknu tilliti til
virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Símon
Sigvaldason héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
D
ó m s o r ð :
Ákærði, Sigfús Sturluson, sæti
fangelsi í 6 mánuði.
Upptækar gerðar til ríkissjóðs
55 kannabisplöntur, 1.336,15 g af kannabislaufum, 2.124,83 g af
kannabisstönglum, 630,14 g af maríhúana-kannabis, 8
ljósalampar, 3 gróðurhúsatjöld og 2 loftsíur, sem lögregla lagði hald á við
rannsókn málsins.
Ákærði greiði 471.351 krónu í
sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Valgeirs Kristinssonar
hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.