Hæstiréttur íslands
Mál nr. 505/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Sameign
- Slit
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013. |
|
Nr. 505/2013.
|
Skúli Einarsson (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) gegn Daða Einarssyni og Valdimar Einarssyni (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Sameign. Slit.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í B að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni L, til slita á sameign. S, einn eigenda fasteignarinnar, hafði ritað sameigendum sínum bréf þar sem hann skoraði á þá að ganga til samninga um slit á sameigninni fyrir 15. október 2011 en tækjust samningar ekki að þeim tíma liðnum myndi hann krefjast nauðungarsölu á eigninni. D tilkynnti honum með bréfi 10. október 2011 að tilgreindur lögmaður myndi annast viðræður fyrir sína hönd auk þess sem hann bauðst til að kaupa hlut S ef samningar tækjust um kaupverðið. Bréfinu svaraði S 13. október 2011 og tilkynnti, með vísan til þess hve seint svarbréfið hefði verið sent, að ekki gæfist tími til viðræðna um sameignarslit. Degi síðar óskaði hann eftir nauðungarsölu á eigninni til slita á sameign. Í dómi Hæstaréttar sagði að S hefði hafnað að freista þess að ná samningum við D um slit á sameigninni þótt sá síðarnefndi hefði lýst yfir vilja sínum til að leita samninga innan þess frests sem S hafði veitt honum. Hefðu því ekki verið skilyrði til þess að nauðungarsala færi fram til slita á sameigninni á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. júlí 2013, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 20. febrúar 2012 um að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð, til slita á sameign. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að „hnekkt verði“ framangreindri ákvörðun sýslumannsins í Búðardal. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara, verði hinn kærði úrskurður staðfestur, að dæmdur málskostnaður í héraði verði lækkaður.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ritaði sóknaraðili sameigendum sínum að framangreindri fasteign bréf 22. ágúst 2011 þar sem hann skoraði á þá að ganga til samninga um slit á sameigninni. Ef samningar tækjust ekki fyrir 15. október sama ár myndi hann krefjast nauðungarsölu á eigninni á grundvelli 8. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðilinn Daði Einarsson svaraði bréfinu 10. október 2011 og tilkynnti að tilgreindur lögmaður myndi annast viðræður fyrir sína hönd. Auk þess bauðst hann til að kaupa hlut sóknaraðila ef samningar tækjust um kaupverðið. Þessu bréfi svaraði sóknaraðili 13. október 2011 og tilkynnti, með vísan til þess hve seint svarbréfið væri sent, að ekki gæfist tími til viðræðna um sameignarslit fyrir 15. sama mánaðar. Degi síðar óskaði hann eftir nauðungarsölu á eigninni til slita á sameign.
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1991 er áskilið að áður en nauðungarsölu á fasteign verði krafist á grundvelli 2. mgr. 8. gr., sem tekur til nauðungarsölu til slita á óskiptri sameign án þess að fyrir liggi dómur um sameignarslitin, skuli gerðarbeiðandi hafa skorað á gerðarþola með minnst eins mánaðar fyrirvara að ganga til samninga við sig um slit á sameigninni. Svo sem rakið er að framan hafnaði sóknaraðili að freista þess að ná samningum við varnaraðilann Daða Einarsson um slit á sameigninni, þótt sá síðarnefndi lýsti yfir vilja til að leita samninga innan þess frests, sem sóknaraðili hafði veitt honum. Voru því ekki skilyrði til þess að nauðungarsala færi fram til slita á sameigninni á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991.
Með framangreindum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Skúli Einarsson, greiði varnaraðilum, Daða Einarssyni og Valdimar Einarssyni, hvorum fyrir sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 12. júlí 2013.
Mál þetta var þingfest 15. janúar 2013 og tekið til úrskurðar 18. júní sama ár. Sóknaraðili er Skúli Einarsson, Melhúsum, Álftanesi. Varnaraðilar eru Daði Einarsson, Lambeyrum, Dalabyggð og Valdimar Einarsson.
Máli þessu beindi sóknaraðili til dómsins til að fá hnekkt þeirri ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 20. febrúar 2012 að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð, (fastanr. 211-6999 og landnr. 196899), til slita á sameign. Þá krafðist sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila auk virðisaukaskatts á málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðilar gera þá kröfu að ákvörðun sýslumanns verði staðfest og að sóknaraðilum verði gert að greiða málskostnað.
Málavextir og lagarök:
Sóknaraðili lýsir atvikum svo að fasteignin Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð, sé að jöfnu í eigu átta aðila (systkina), sem fengu hana í arf eftir foreldra sína, þ. á m. aðila máls þessa. Um er að ræða 1.674 ferm. eignarlóð og á henni stendur íbúðarhús (fastanr. 211-6999) og gestahús (fastanr. 223-7869). Íbúðarhúsið er 139 ferm. og gestahúsið 53,5 ferm.
Í ágúst 2011 skoraði sóknaraðili á sameigendur sína að ganga til samninga um slit á sameigninni, sbr. 10. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Með bréfi dagsettu 10. október 2011 hafi varnaraðili Daði lýst því yfir að hann væri reiðubúinn að kaupa hlut sóknaraðila í umræddri fasteign ef samningar tækjust um verð. Hann hafi hins vegar aldrei gert sóknaraðila tilboð í eignarhlut hans í fasteigninni, þrátt fyrir áskorun sóknaraðila þar að lútandi, né aðhafst neitt frekar í þá átt að slíta sameigninni. Aðrir sameigendur hafi í engu brugðist við tilmælum sóknaraðila um slit á sameigninni.
Eins og ljóst megi vera sé útilokað að skipta umræddri fasteign upp í átta jafna hluta og því hafi sóknaraðili ekki átt þess annan kost en að krefjast nauðungarsölu á eigninni til slita á sameigninni og það hafi hann gert í október 2011. Varnaraðili Daði hafi mótmælt því að nauðungarsala til slita á sameigninni næði fram að ganga en aðrir sameigendur ekki látið málið til sín taka fyrr en Valdimar hafi tekið undir kröfu Daða og tekið til varna. Mótmæli varnaraðila byggi á því að sóknaraðili hafi hafnað viðræðum um sameignarslit. Sú fullyrðing sé ekki rétt þar sem sóknaraðili hafi óskað eftir því við varnaraðila að gera tilboð í eignarhlut sóknaraðila í sameigninni en varnaraðili ekki gert það né aðhafst neitt í þá átt að slíta sameigninni. Reyndar hafi varnaraðili Daði gert tilboð í eignarhlut sóknaraðila í Lambeyrum lóð 2 í nóvember 2011 en það tilboð hafi jafnframt verið tilboð í fleiri eignir og kaupverðið ekki sundurliðað. Það tilboð hafi því verið algerlega ófullnægjandi hvað varði eignarhlut sóknaraðila í Lambeyrum lóð 2.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu geti sá sem á hlut í óskiptri sameign krafist nauðungarsölu á henni til slita á sameigninni verði henni ekki skipt á milli sameigendanna án verulegs tjóns eða kostnaðar. Það sé ljóst að það sé útilokað að skipta fasteigninni Lambeyrar lóð 2 á milli átta eigenda og jafnframt sé ljóst að yrði það gert myndi eignin rýrna mjög í verði og af því hlytist því tjón fyrir sameigendurna.
Í ákvörðun sýslumanns um að stöðva framgang nauðungarsölunnar segi: ,,Með vísun til þess að ágreiningur er milli gerðarbeiðanda og gerðarþola um hvort skilyrða 10. gr. laga um nauðungarsölu hafi verið gætt og þess að gerðarbeiðanda hefur ekki lagt fram nein gögn eða leitt rök að því að umræddri eign verði ekki skipt milli eigenda án verulegs tjóns eða kostnaðar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu, telur sýslumaður að gerðarbeiðandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði til að knýja fram uppboð til slita á sameigninni Lambeyrum, lóð 2, landnr. 196899, Dalabyggð, séu til staðar.“ Þessi fullyrðing sýslumanns sé einfaldlega röng. Þrátt fyrir að það sé ágreiningur með aðilum um það hvort gætt hafi verið skilyrða 10. gr. laga nr. 90/1991 geti það ekki stöðvað framgang nauðungarsölunnar til slita á sameigninni. Sé ágreiningur um þetta uppi eigi sýslumaður að úrskurða um það hvort skilyrðanna hafi verið gætt og telji hann að þeirra hafi ekki verið gætt eigi sýslumaður að segja á hverju sú niðurstaða byggi. Það sé ekki nóg að segja að það sé uppi ágreiningur og ljúka þar með málinu. Sýslumaður eigi þá að taka afstöðu til ágreiningsins. Þá hljóti öllum að vera ljóst að íbúðarhúsi sem er 139 ferm. og gestahúsi sem er 53,5 ferm. verði ekki skipt upp á milli átta sameigenda. Það þurfi ekki að leggja fram nein gögn því til staðfestingar.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu séu skilyrði þess að nauðungarsala til slita á sameign nái fram að ganga að ,,sýnt sé að eigninni verði ekki skipt milli eigenda án verulegs tjóns eða kostnaðar ..... . Það sé alveg ljóst að þannig standi á í þessu tilviki. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun sýslumannsins í Búðardal úr gildi þannig að nauðungarsala til slita á sameigninni Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð, nái fram að ganga.
Vakin er athygli á því að aðeins einn sameigendanna þ.e. varnaraðili Daði hafi látið málið til sín taka hjá sýslumanni og mótmælt framgangi nauðungarsölunnar til slita á sameigninni. Þau mótmæli eigi ekki við rök að styðjast og því hafi sýslumanni borið að hafna þeim og láta nauðungarsöluna til slita á sameigninni ná fram að ganga. Málsatvik og lagarök standi ekki til annars.
Um lagarök er vísað til 2. mgr. 8. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 90/1991. Jafnframt er vísað til XIII. kafla laganna. Varðandi málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991. Um virðisaukaskatt á málskostnað vísast til laga nr. 50/1988. Sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
Af hálfu varnaraðilans Valdimars Einarssonar er þess aðallega krafist að máli þessu verði vísað frá Héraðsdómi.
Varnaraðili krefst þess til vara að ákvörðun sýslumannsins í Búðardal, frá 20. febrúar 2012 um að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Lambeyrar lóð 2, fasteignanúmer 211- 6999, verði staðfest.
Varnaraðili krefst þess ennfremur að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.
Þessi varnaraðili sé búsettur á Nýja Sjálandi og sé kunnugt um að deilur kunni nú að vera milli tiltekinna afkomenda hjónanna Sigríðar Skúladóttur og Einars V. Ólafssonar, sem rekið hafi félagsbúið að Lambeyrum í Laxárdal með syni sínum Daða Einarssyni. Einn afkomendanna, Skúli Einarsson, vilji nú eignast íbúðarhúsið á jörðinni og hafi krafist slita á sameign en íbúðarhúsið sé í óskiptri sameign átta afkomenda Sigríðar og Einars. Mál til slita á sameigninni sé nú rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Þessi varnaraðili hafi fyrst hafa orðið var við þetta deilumál þegar hann hafi móttekið bréf á Nýja Sjálandi hinn 19. janúar sl. þar sem honum hafi verið tilkynnt um að málið yrði tekið fyrir hjá héraðsdómi á Íslandi 15. janúar sl. Hann hafni því alfarið að hafa fengið boðun um fyrirtöku þessa máls fyrir 15. janúar sl.
Honum hafi verið send skönnuð gögn héraðsdómsmálsins í tölvupósti 21. janúar sl. Meðal gagna málsins sé bréf frá Skúla Einarssyni stílað á varnaraðila dags. 22. ágúst 2011. Þar sé skorað á varnaraðila að ganga til samninga um slit á sameigninni Lambeyrar lóð 2, sem muni vera íbúðarhúsið á jörðinni Lambeyrum ásamt tilheyrandi lóð, og að hafi samningar ekki tekist fyrir 15. október 2011 muni Skúli krefjast nauðungarsölu á þessari sameign. Varnaraðili staðhæfir að hann hafi aldrei móttekið bréf þetta og fyrst séð það með áðurnefndum tölvupósti fyrr í janúarmánuði.
Varnaraðili hefur bent á að svo kunni að vera að tilkynningar sem honum voru ætlaðar hafi verið stílaðar á son hans og alnafna og birtar honum á heimilisfangi hans. Það teljist engan veginn fullnægjandi birting tilkynningar gagnvart varnaraðila. Sóknaraðili beri alla sönnunarbyrði fyrir því að lögmæt og fullnægjandi birting hafi átt sér stað. Allan vafa um hvort birting hafi átt sér stað með lögformlegum hætti beri að meta varnaraðila í hag. Af hálfu varnaraðila sé því haldið fram að hefði honum borist tilkynning um slit á sameign þar sem til stæði að selja íbúðarhúsið á Lambeyrum frá jörðinni hefði hann óskað eftir viðræðum við sóknaraðila til að koma í veg fyrir nauðungarsöluna. Varnaraðili lýsir sig reiðubúinn til viðræðna um kaup á hlut sóknaraðila í Lambeyrum lóð 2, verði söluferlið framkvæmt í samræmi við lög.
Samkvæmt 10. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 skal gerðarbeiðandi áður en nauðungarsölu verður krafist á grundvelli 2. mgr. 8. gr. skora á gerðarþola með minnst eins mánaðar fyrirvara að ganga til samninga við sig um slit á sameign. Þar sem varnaraðila hafi aldrei borist bréf það sem sóknaraðili leggi fram í héraðsdómi og sóknaraðili hafi ekki lagt fram neina sönnun um birtingu þess krefst varnaraðili Þess að máli þessu verði vísað frá Héraðsdómi Vesturlands.
Heimild til að fara fram á nauðungarsölu til slita á sameign sé að finna í 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 91/1990. Þar sé kveðið á um að ákvæðum laganna verði beitt eftir því sem átt geti við til að ráðstafa eign sem sé í óskiptri sameign ef þess er krafist af einum eða fleiri eigendum að henni, en þó ekki þeim öllum, og sýnt sé að eigninni verði ekki skipt milli eigenda án verulegs tjóns eða kostnaðar, enda standi hvorki fyrirmæli annarra laga né samnings í vegi fyrir að slík krafa nái fram að ganga. Í 10. gr. laganna sé kveðið á um að áður en nauðungarsölu verði krafist á grundvelli 2. mgr. 8. gr. skuli gerðarbeiðandi skora á gerðarþola með minnst eins mánaðar fyrirvara að ganga til samninga við sig um slit á sameign. Skuli tekið fram í áskoruninni að nauðungarsölu verði krafist á eigninni að liðnum þessum fresti ef samningar hafa þá ekki tekist um sameignarslit. Í frumvarpi því, sem síðar varð að lögum 91/1990 segi m.a. um 10. gr. að þessari áskorun sé ætlað að varna því að beiðni sé sett fram um nauðungarsölu án þess að áður hafi reynt á hvort komast megi hjá henni.
Sóknaraðila hafi borið að bjóða varnaraðila til viðræðna og freista þess að ná samkomulagi til að komast hjá nauðungarsölunni. Sóknaraðili gat með skýrum hætti, t.d. símleiðis, tilkynnt varnaraðila um fyrirætlan sína en þeir eru ekki aðeins málkunnugir, þeir eru bræður. Með því að sýna ekki fram á með tryggum hætti, svo ekki verði véfengt, að tilkynning um slit á sameign hafi verið birt varnaraðila hafi skýrum fyrirmælum 10. gr. laga nr. 91/1990 ekki verið fylgt og þar með hafi sóknaraðili ógilt alla málsmeðferðina sýslumanni ekki stætt á öðru en að stöðva framgang nauðungarsölunnar. Krafist er staðfestingar á þessari ákvörðun sýslumannsins.
Varnaraðili vísar máli sínu til stuðnings til laga um nauðungarsölu nr. 91/1990 og til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili Daði Einarsson vísar til ákvæða 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 91/1990 og 10. gr. laganna. Varnaraðili Daði hafi margsinnis óskað eftir að kaupa eignir meðeigenda sinna að Lambeyrum og m.a. gert sóknaraðila þrisvar tilboð í hans hlut. Sóknaraðili hafi því mætavel vitað um áhuga varnaraðila á að kaupa hlut hans. Af hálfu varnaraðila hafi verið óskað eftir viðræðum við sóknaraðila um kaup á hans hlut innan hins lögboðna frests. Lögmaður varnaraðila hafi lýst sig reiðubúinn til viðræðnanna og óskaði eftir að sóknaraðili hefði samband, svo finna mætti stund og stað til viðræðna. Sóknaraðila hafi með öllu verið óheimilt, lögum samkvæmt, að hafna viðræðum, þar sem beiðnin hafi verið sett fram innan frestsins. Sóknaraðila hafi borið að bjóða varnaraðila til viðræðna og freista þess að ná samkomulagi til að komast hjá nauðungarsölunni. Í stað þess að taka upp viðræður við lögmann varnaraðila hafi sóknaraðili ákveðið að hunsa skýr lagafyrirmæli, hafna viðræðum og senda uppboðsbeiðni til sýslumanns.
Feðgarnir Einar Valdimar og Daði, varnaraðili þessa máls, hafi gert með sér samning um félagsbúskap 14. apríl 1975. Samningi þessum hafi ekki verið sagt upp og sé hann í fullu gildi. Síðari samningar þeirra feðga og stofnun einkahlutafélaga um tilteknar eignir breyti ekki ákvæðum þessa samnings um hluti sem séu í óskiptri sameign eins og fasteignin Lambeyrar lóð 2. Fasteignin Lambeyrar lóð 2 hafi aldrei verið færð undir einkahlutafélag. Ákvörðun Einars Valdimars að stofna síðar einkahlutafélagið, Lambeyrar ehf., breyti í engu þeim skuldbindingum sem hann hafi áður undirgengist gagnvart varnaraðila, Daða.
Í samningnum um félagsbúskap séu ákvæði sem tryggi rétt hvors samningsaðila. T.d. sé kveðið á um það að hvor aðili um sig beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsbúsins gagnvart þriðja aðila, en innbyrðis beri þeir jafna ábyrgð. Báðir aðilar hafi þurft að samþykkja skuldbindingar og meiriháttar ákvarðanir vegna félagsbúsins. Allt séu þetta ákvæði sem tryggi jafnræði samningsaðila. Til að tryggja þetta jafnræði enn frekar sé ákvæði í 7. gr. um að aðili geti því aðeins selt sinn hlut að hinn samningsaðilinn samþykki væntanlegan kaupanda. Sala erfingja er einnig háð samþykki hins aðilans.
Sóknaraðili þessa máls sé einn átta erfingja Einars Valdimars Ólafssonar. Í ákvörðun hans um að krefjast slita á sameigninni með nauðungarsölu felist sala sem sé háð samþykki varnaraðila. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir.
Í 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 91/1990 sé m.a. sett það skilyrði fyrir nauðungarsölu til slita á sameign að fyrirmæli samnings standi ekki í vegi fyrir að slík krafa nái fram að ganga. Samningurinn um félagsbúskap frá 14. apríl 1975 stendur í vegi fyrir því að salan geti átt sér stað.
Í ljósi alls framanritaðs er þess krafist að ákvörðun sýslumannsins í Búðardal, frá 20. febrúar 2012 um að stöðva framgang nauðungarsölunnar, verði staðfest.
Varnaraðili vísar máli sínu til stuðnings til laga um nauðungarsölu nr. 91/1990 og til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Um frávísunarkröfu varnaraðila Valdimars Einarssonar er þess að gæta að í þinghaldi 19. febrúar sl. var mætt af hálfu hans og bókað að hann taki til varna og í þinghaldi 19. mars sl. var lögð fram greinargerð af hans hálfu. Ákvað dómari í þinghaldi 22. maí sl. að hafna kröfu varnaraðila Valdimars Einarssonar um frávísun máls þessa.
Fyrir liggur að af hálfu varnaraðila Daða Einarssonar var bréfi sóknaraðila Skúla Einarssonar frá 22. ágúst 2011, þar sem hann skoraði á meðeigendur sína að ganga til samninga um slit á sameign þeirra að Lambeyri, svarað. Segir í bréfinu að lögmaður Daða muni annast viðræður við sóknaraðila um sameignarslitin og lýsti sig reiðubúinn f.h. Daða að kaupa eignarhlut sóknaraðila ef samningar tækjust um verð. Sóknaraðili svaraði bréfi þessu með bréfi dagsettu 13. október 2011 þar sem segir að ekki gefist tími til samningaviðræðna um sameignarslit fyrir 15. október og myndi sóknaraðili því ekki fresta því að krefjast nauðungasölu á eigninni. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1991um nauðungarsölu skal gerðarþoli skora á gerðarþola með minnst eins mánaðar fyrirvara að ganga til samninga við sig um slit á sameign vilji hann krefjast nauðungasölu til slita á sameign samkvæmt 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Með því að fyrir liggur að sóknaraðili hafnaði samningaviðræðum við varnaraðila Daða sbr. framansagt verður fallist á það með varnaraðila að skilyrði 1. mgr. 10. gr. laganna skorti til þess að nauðungarsala sú sem sýslumaður stöðvaði nái fram að ganga. Þá er til þess að líta að gegn eindregnum mótmælum varnaraðila Valdimars Einarssonar er ekki sýnt fram á það hér að honum hafi gefist tækifæri til samningaviðræðna við sóknaraðila um slit sameignar þeirra.
Af þessum sökum verður kröfu sóknaraðila um að hnekkt verði þeirri ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 20. febrúar 2012 að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð, (fastanr. 211-6999 og landnr. 196899), til slita á sameign, hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum Daða og Valdimar Einarssonum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti er hæfilega telst ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir..
Allan V. Magnússon, dómstjóri, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun sýslumannsins í Búðardal frá 20. febrúar 2012 um að stöðva framgang nauðungarsölu á fasteigninni Lambeyrar lóð 2, Dalabyggð til slita á sameign, er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Daða Einarssyni 200.000 krónur í málskostnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Valdimar Einarssyni 200.000 krónur í málskostnað.