Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-103
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Varanleg örorka
- Miski
- Fyrirvari
- Matsgerð
- Málsástæða
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 12. apríl 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars sama ár í málinu nr. 724/2019: A gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi eigi rétt á frekari bótum frá gagnaðila vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir árið 2013 við störf í skipi í eigu opinberrar stofnunar. Árið 2015 voru leyfisbeiðanda greiddar bætur í samræmi við niðurstöðu örorkunefndar, með fyrirvara um rétt hans til frekari bóta yrðu varanleg örorka og/eða miski metin hærri en samkvæmt álitsgerð nefndarinnar.
Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms, með vísan til forsendna hans, að framangreindur fyrirvari hefði ekki falið annað í sér en að leyfisbeiðandi áskildi sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í áliti örorkunefndar vegna síðari ófyrirséðra breytinga á heilsu hans. Með vísan til niðurstöðu yfirmatsgerðar var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að ófyrirséðar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni. Þá var talið að við yfirmatið hefði verið litið til geðrænna einkenna leyfisbeiðanda, þótt þau hefðu ekki verið metin sérstaklega til miska þar sem þau sköruðust við heilkenni vegna höfuðáverka sem talið var alvarlegra. Þá væri yfirmatið ekki haldið öðrum annmörkum sem leitt gætu til þess að það yrði ekki lagt til grundvallar um líkamlegt og andlegt tjón leyfisbeiðanda vegna slyssins. Gagnaðili var því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína auk þess að hafa verulegt almennt gildi. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Hann vísar meðal annars til þess að í dómi Landsréttar í máli nr. 143/2020, sem kveðinn hafi verið upp sama dag, hafi sams konar fyrirvari ekki verið talinn takmarkaður við þær aðstæður að ófyrirséðar breytingar yrðu á heilsu tjónþola og því sé uppi óvissa um réttarframkvæmd. Þá hafi ekki verið leyst úr öllum málsástæðum hans fyrir Landsrétti. Loks telur hann að sú aðferðafræði sem beitt hafi verið í yfirmatsgerð, að heilkenni vegna höfuðáverka, sem sé líkamstjón, rými geðrænu tjóni út, hafi ekki lagastoð.
Gagnaðili kveðst leggja í mat Hæstaréttar hvort áfrýjunarleyfi verði veitt. Að mati gagnaðila er niðurstaða í máli leyfisbeiðanda í samræmi við dómaframkvæmd um fyrirvara við bótauppgjör. Þá telur hann að dómur í málinu myndi engu bæta við dómaframkvæmd varðandi bætur fyrir líkamstjón. Héraðsdómur og Landsréttur hafi leyst réttilega úr því að höfuðáverki leyfisbeiðanda hafi haft tilteknar afleiðingar sem metnar hafi verið í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar. Um sé að ræða læknisfræðileg atriði og læknisfræðilegt mat. Geðrænt tjón hafi sannanlega verið metið bæði af örorkunefnd og yfirmatsmönnum.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi, meðal annars um þýðingu fyrirvara við bótauppgjör. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.