Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Skiptastjóri
|
|
Fimmtudagurinn 29. september 2011 |
|
Nr. 490/2011.
|
Ásmundur Sigurðsson og Sigurður Sigurðsson (Þorsteinn Pétursson hdl.) gegn Óskari Sigurðssyni (Óskar Sigurðsson hrl.)
|
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Skiptastjóri.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á og S um að Ó yrði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi hjónanna S og G. Héraðsdómur taldi að rétt hefði verið að skipa Ó skiptastjóra við opinber skipti dánarbúsins vegna ákvæða í erfðaskrá S heitins. Talið var að Á og S hefði hvorki fært fram röksemdir fyrir því að Ó hefði misst almennt hæfi sitt til að vera skipaður skiptastjóri, né sérstakt hæfi til að annast starfann, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991. Þá voru Á og S ekki taldir hafa sýnt fram á að framferði Ó í starfi skiptastjóra hefði verið með þeim hætti að honum bæri að víkja vegna þess, sbr. 2. mgr. 47. gr. sömu laga. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. júlí 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi hjónanna Sigurðar Sigurðssonar og Guðrúnar K. Ottesen. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að að varnaraðila, Óskari Sigurðssyni hæstaréttarlögmanni, verði vikið úr starfi skiptastjóra í fyrrgreindu dánarbúi. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar gerðu ekki kröfu um málskostnað við meðferð málsins í héraði svo sem nauðsynlegt var, sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Kröfu um það verður ekki komið að fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Ásmundur Sigurðsson og Sigurður Sigurðsson, greiði óskipt varnaraðila, Óskari Sigurðssyni, 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. júlí 2011.
Sóknaraðilar eru Ásmundur Sigurðsson, kt. 231058-3899, Hrauntjörn 6, Selfossi og Sigurður Sigurðsson, kt. 070846-3069, Hrísholti 11, Laugarvatni, en varnaraðili er Óskar Sigurðsson hrl.
Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurðað verði hvort varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi Sigurðar Sigurðssonar kt. 200915-4029 og Guðrúnar K. Ottesen kt. 230225-4439.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum 6. september 2010 var dánarbú hjónanna Sigurðar Sigurðssonar, kt. 200915-4029, og Guðrúnar K. Ottesen, kt. 230225-4439, tekið til opinberra skipta og var varnaraðili Óskar Sigurðsson hrl. skipaður skiptastjóri við skiptin. Áður höfðu erfingjar fengið leyfi sýslumannsins á Selfossi til að skipta búinu einkaskiptum en þeir ekki náð saman um skiptingu búsins. Varnaraðili gerði kröfuna um að búið yrði tekið til opinberra skipta, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1991, en í erfðaskrá, dags. 5. maí 2008, hafði Sigurður heitinn lýst þeim vilja sínum að varnaraðili og Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl., heitinn, eða þeir sem við skrifstofu þeirra tækju, skyldu sjá um að farið yrði eftir erfðaskránni við búskipti eftir daga Sigurðar heitins. Var kröfu um opinber skipti búsins ekki mótmælt og voru ekki höfð uppi andmæli eða athugasemdir við skipun skiptastjóra, eða um heimild varnaraðila til að gera kröfu um opinber skipti á búinu.
Með bréfi til dómsins, dags. 7. desember 2010, skaut varnaraðili ágreiningi við búskiptin til héraðsdóms. Ágreiningurinn snerist um það að við skipti dánarbúsins kallaði sóknaraðili Ásmundur til réttar gagnvart 146 ha landspildu úr landi jarðarinnar Efsta Dals II samkvæmt afsali Sigurðar heitins og Guðrúnar heitinnar um fyrirframgreiddan arf, en varnaraðili hafnaði því og taldi að umrædd landspilda skyldi teljast meðal eigna búsins. Var úrskurðað um þann ágreining í málinu nr. Q-1/2010, þann 18. apríl 2011, af undirrituðum héraðsdómara og niðurstaðan sú að fallast á kröfu sóknaraðila, sem eru sömu sóknaraðilar og í þessu máli, um að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila Óskars um að hafna gildi afsals um fyrirframgreiddan arf og viðurkennt að við skipti dánarbúsins skyldi taka tillit til þess að sóknaraðila Ásmundi hafi verið afsöluð 146 ha spilda úr landi nefndrar jarðar. Úrskurður þessi var ekki kærður.
Að gengnum úrskurði setti Sigurður sóknaraðili þessa máls fram kröfu, dags. 26. apríl 2011, um að varnaraðila yrði vikið úr starfi skiptastjóra. Voru tilgreindar ástæður í erindi sóknaraðila og vörðuðu ætlaða fyrri aðkomu varnaraðila að dánarbúinu og erfðamálum því tengdu. Í erindinu var vísað til 1. mgr. 47. gr. laga um skipti á dánarbúum o. fl. nr. 20/1991.
Í nefndu ákvæði er kveðið á um það að heimilt sé m.a. erfingjum, meðan á skiptum standi, að bera fram skriflegar aðfinnslur um störf skiptastjóra til þess héraðsdómara sem hefur skipað skiptastjóra. Komi fram slíkar aðfinnslur skuli héraðsdómari kveðja á sinn fund skiptastjórann og þann sem hafi haft uppi aðfinnslurnar, en jafnframt sé héraðsdómara heimilt að kveðja fleiri á sinn fund af því tilefni. Á þessum grundvelli voru þeir kvaddir á fund undirritaðs héraðsdómara, 13. maí 2011, Þorsteinn Pétursson hdl., lögmaður sóknaraðila Sigurðar, og varnaraðili Óskar Sigurðsson hrl., skiptastjóri. Var lögmönnum annarra erfingja í búinu jafnframt gefinn kostur á að koma til fundarins. Mættu þeir ekki, en Þorsteinn Pétursson hdl. mætti á fundinn fyrir Ívar Pálsson hdl., þáverandi lögmann Ásmundar Sigurðssonar erfingja í búinu, en Ívar hafði, f.h. síns umbjóðanda, tekið undir kröfur sóknaraðila um þetta í tölvupósti til undirritaðs héraðsdómara.
Á framangreindan fund, sem haldinn var á tilsettum tíma, mættu þorsteinn Pétursson hdl., Sigurður Sigurðsson og varnaraðili. Leystist ágreiningurinn ekki á fundinum. Var því boðað til þinghalds um ágreininginn og fór það fram 20. maí 2011. Þingið sóttu sóknaraðili Sigurður ásamt lögmanni sínum Þorsteini Péturssyni hdl., sem sótti líka þing fyrir Ívar Pálsson hdl. fyrir sóknaraðila Ásmund Sigurðsson erfingja, sem sótti raunar líka þing sjálfur. Fyrir varnaraðila Óskar Sigurðsson hrl., skiptastjóra, sótti þing Grímur Hergeirsson hdl.
Í þinghaldinu gaf dómari öllum mættu kost á að fjalla um störf skiptastjóra og gerðu það allir sem sóttu þingið. Dómari kynnti það síðan að hann teldi ekki efni til að víkja skiptastjóra úr starfi.
Með erindi, dagsettu og mótteknu 3. júní 2011, kröfðust sóknaraðilar úrskurðar héraðsdómara um hvort varnaraðila verði vikið úr starfi sem skiptastjóri í framangreindu dánarbúi. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. i.f. laga nr. 20/1991 var farið með kröfuna skv. ákvæðum 121. gr. og XVII. kafla laganna. Var málið þingfest þann 29. júní 2011 og tekið til úrskurðar samdægurs að loknum munnlegum málflutningi.
Málsástæður sóknaraðila
Málsástæður sóknaraðila eru samskonar og við fyrra erindi, dags. 26. apríl 2011. Í kröfu sóknaraðila segir að við vitnaleiðslur í ofangreindu ágreiningsmáli, Q-1/2010, hafi komið fram hjá Snæbirni Sigurðssyni, einum erfingja búsins, að varnaraðili hafi verið lögmaður hans. Hann hafi haft milligöngu um að varnaraðili semdi yfirlýsingu, dagsetta 2. nóvember 2007, sem þeir hafi farið saman með á Kumbaravog og hafi varnaraðili farið með skjalið inn til undirritunar meðan Snæbjörn hafi beðið úti í bíl. Þann 5. maí 2008 hafi Sigurður Sigurðsson heitinn undirritað erfðaskrá sem hafi verið útbúin af Málflutningsskrifstofu varnaraðila og Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hrl., heitins, þar sem sett hafi verið inn ákvæði þess efnis að umrædd lögmannsstofa skyldi sjá um að farið yrði eftir erfðaskránni við búskiptin eftir lát Sigurðar heitins. Jafnvel þótt erfðaskráin yrði talin fullgild, sem tæpast væri, þá felist ekki í henni fyrirmæli um skipun varnaraðila í starf skiptastjóra skv. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 20/1991, en varnaraðili var skipaður skiptastjóri í búinu 6. september 2010 á grundvelli erfðaskrárinnar. Er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hafi þá strax verið fullkomlega vanhæfur til að taka að sér starf skiptastjóra vegna tengsla og trúnaðar sem lögmaður eins erfingjans, Snæbjarnar Sigurðssonar, og þar af leiðandi bæði ófær um að taka hlutlægar ákvarðanir um málefni búsins auk þess sem hann geti ekki talist uppfylla skilyrði 6. tl. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og til hliðsjónar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þar segi í 1. mgr. lið b að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef hann hafi gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Þá segi í g lið að ef fyrir hendi séu aðrar aðstæður eða atvik sem fallnar séu til að draga óhlutdrægni hans í efa. Í greinargerð með lögum nr. 20/1991 segi í athugasemdum við 2. mgr. 46. gr. að hæfisskilyrðin séu að nokkru hliðstæð almennum skilyrðum laga nr. 92/1989 fyrir skipun manns í embætti sýslumanns. Skiptastjóri sé opinber sýslunarmaður og um störf hans gildi því almenn ákvæði sem m.a. komi fram í 5. gr. laga nr. 91/1991. Fráleitt sé að ætla að vanhæfniskröfur á hendur skiptastjóra séu minni í einstökum málum en dómarans sem skipar hann. Þá sé ljóst að sýslumaður væri vanhæfur ef hann hefði mál til umfjöllunar sem hann hefði átt sömu aðkomu að áður eins og skiptastjórinn í þessu dánarbúi hefur átt í þessu tilviki.
Kveða sóknaraðilar að varnaraðila virðist hafa láðst, þegar hann var skipaður, að skýra dóminum frá því að hann hefði þá þegar komið að málinu sem lögmaður eins erfingjanna, Snæbjarnar Sigurðssonar, og beitt sér í þá veru að ógilda gerning sem umbjóðandi hans vissi af og taldi ganga gegn sínum hagsmunum. Sé það andstætt 18. gr. laga nr. 77/1998 enda ekki hægt að þjóna tveimur herrum samtímis. Þessu til staðfestu sé framburður Snæbjarnar Sigurðssonar við meðferð framangreinds ágreiningsmáls, sem og bréf varnaraðila til Snæbjarnar dags. 20. nóvember 2007 og reikningur varnaraðila til Snæbjarnar dags. 30. nóvember 2007, þar sem fram komi að varnaraðili sé að vinna fyrir Snæbjörn. Síðar þegar varnaraðili sé orðinn skiptastjóri taki hann þá ákvörðun að skjöl sem hann hafi sjálfur samið í þágu umbjóðanda síns, þ.e. Snæbjarnar Sigurðssonar, séu nægileg til að ógilda gerning um fyrirframgreiddan arf til sóknaraðila Ásmundar. Sé ljóst að varnaraðili hafi beinlínis sem lögmaður verið að vinna gegn hagsmunum sóknaraðila Ásmundar og síðar sem skiptastjóri í búinu taki hann ákvarðanir í samræmi við það gegn hagsmunum sóknaraðila Ásmundar. Með aðkomu sinni að málinu á fyrri stigum hafi varnaraðili tekið sér stöðu og geti aldrei orðið með öllu hlutlaus gagnvart erfingjum. Þetta geti hvorugur sóknaraðila unað við því þeir vilji geta treyst því að skiptastjóri hafi hagsmuni allra að leiðarljósi Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í ágreiningsmálinu hafi ákvörðun varnaraðila, sem augljóslega hafi verið tekin til að gæta hagsmuna Snæbjarnar Sigurðssonar, verið felld úr gildi og öllum rökum varnaraðila fyrir henni verið hafnað.
Sóknaraðilar geti ekki unað við að varnaraðili fari áfram með hagsmuni búsins þar sem í ljós hafi komið að hann hafi ekki til að bera nauðsynlegt hlutleysi. Því sé ítrekuð krafa um að varnaraðili verði látinn víkja og nýr og hæfur skiptastjóri verði skipaður í hans stað. Kveðast sóknaraðilar vísa til 3. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991 ásamt öðrum ákvæðum laganna, laga um lögmenn nr. 77/1998 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Í framlögðu bréfi varnaraðila, skiptastjórans Óskars Sigurðssonar hrl., segir að hann hafi aldrei tekið að sér lögmannsstörf fyrir Snæbjörn Sigurðsson. Frá því að varnaraðili hafi verið skipaður skiptastjóri í umræddu búi hafi það legið ljóst fyrir að hann hafi útbúið skjöl fyrir Sigurð heitinn Sigurðsson á árunum 2007 og 2008. Hafi verið leitað til skrifstofu sinnar árið 2007 um lögfræðiaðstoð fyrir Sigurð heitinn. Þeir hafi átt fund á Kumbaravogi 18. október 2007 þar sem Sigurður heitinn hafi lýst því fyrir sér að hann hafi skrifað undir eitthvað fyrir mörgum árum sem hann gæti ekki munað hvað hafi verið eða hvað hafi falið í sér. Sigurður heitinn hafi beðið sig um að setja saman skjal þar sem kæmi fram með skýrum hætti vilji hans til þess að öll börn hans myndu sitja við sama borð við skipti á búi hans og konu hans, þegar þau féllu frá, en jafnframt hafi Sigurður heitinn beðið sig að fylgja eftir þeim vilja sínum. Kannað hafi verið hjá sýslumanni hvort einhverjum skjölum hafi verið þinglýst á fasteignir hans eða gerningar skráðir hjá embættinu en svo hafi ekki verið. Í samræmi við vilja og fyrirmæli Sigurðar heitins hafi verið útbúin fyrst yfirlýsing og síðan erfðaskrá, sem Sigurður heitinn hafi ritað undir. Í erfðaskránni hafi komið fram sá vilji Sigurðar heitins að fela varnaraðila að fara eftir erfðaskránni við búskiptin eftir hans dag.
Kveður varnaraðili að í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til bréfs varnaraðila til Snæbjarnar í nóvember 2007. Kveður varnaraðili það bréf einungis hafa falið í sér upplýsingar um vinnu varnaraðila fyrir Sigurð heitinn á þeim tímapunkti og hafi Snæbjörn fengið afrit af yfirlýsingu Sigurðar heitins, sem varnaraðili hafi þinglýst. Snæbjörn hafi óskað eftir upplýsingum um vinnu varnaraðila og óskað eftir því að reikningur vegna vinnu fyrir Sigurð heitinn yrði sendur honum, en Snæbjörn hafi ætlað að annast um að reikningurinn yrði greiddur. Af þessu leiði að varnaraðili hafi ekki gegnt lögmannsstörfum fyrir Snæbjörn, hvorki þá né síðar. Umbjóðandi varnaraðila á þessum tíma hafi verið Sigurður Sigurðsson heitinn og skyldur varnaraðila hafi einungis verið við hann. Varnaraðili hafi einfaldlega fylgt skýrum vilja Sigurðar heitins á þessum tíma og framkvæmt það sem Sigurður heitinn hafi óskað eftir og falið sér að gera. Þessi aðkoma varnaraðila að málum Sigurðar heitins og Guðrúnar K. Ottesen heitinnar hafi legið ljós fyrir frá upphafi og svo hafi jafnframt verið þegar hann hafi verið skipaður skiptastjóri.
Þá sé það ljóst að tilvísun til 6. tl. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991 geti ekki átt við í málinu enda eigi varnaraðili hvorki sjálfur kröfu til arfs úr búinu eða aðra kröfu á hendur því né maki hans né skyldmenni hans eða maka í beinan legg eða 1. legg til hliðar. Ekki kveðst varnaraðili átta sig á tilvísun til 18. gr. laga nr. 77/1998 en þess ákvæðis hafi verið gætt vegna starfa varnaraðila fyrir Sigurð heitinn á sínum tíma. Þá eigi 5. gr. laga nr. 91/1991 augljóslega ekki við.
Niðurstaða
Í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991 er kveðið á um það að hafi sá látni tilnefnt ákveðinn mann í erfðaskrá til að framkvæma skipti eftir sig skuli sá skipaður skiptastjóri, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 46. gr. laganna. Í 2. mgr. 46. gr. laganna segir að almenn hæfisskilyrði til að vera skiptastjóri séu að vera 25 ára gamall, lögráða og hafa ekki misst foræði bús síns, vera svo á sig kominn andlega og líkamlega að geta gegnt starfanum, hafa ekki orðið sannur að refsiverðu athæfi sem verði talið svívirðilegt að almenningsáliti eða athæfi sem geri viðkomandi óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum og að hafa lokið embættisprófi í lögum eða hafa annars þá þekkingu á lögum sem verði talin nauðsynleg til rækslu starfans. Þá er í ákvæðinu sett þau sérstöku hæfisskilyrði að viðkomandi eigi hvorki sjálfur kröfu til arfs úr búinu eða aðra kröfu á hendur því né maki hans né skyldmenni hans eða maka hans í beinan legg eða 1. lið til hliðar. Ekki eru aðrar hæfisreglur varðandi skiptastjóra í dánarbúi í lögunum.
Í 2. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991 segir að komi fram aðfinnslur um störf skiptastjóra, eða dómara berist með öðrum hætti vitneskja um að framferði skiptastjóra í starfi kunni að vera aðfinnsluvert, geti dómari gefið skiptastjóra færi á að bæta úr aðfinnslum innan tiltekins frests. Verði skiptastjóri ekki við því eða ef framferði hans í starfi hefur annars verið slíkt að ekki verði talið réttmætt gefa honum kost á að ráða bót á starfsháttum sínum, skuli skiptastjóri þegar í stað víkja honum úr starfi með úrskurði. Á sama hátt skuli héraðsdómari víkja skiptastjóra úr starfi ef hann setur ekki tryggingu skv. 5. mgr. 46. gr. innan tilskilins frests eða fullnægir ekki lengur þeim hæfisskilyrðum sem sett eru í 2. mgr. 46. gr. laganna.
Það er mat dómsins að rétt hafi verið að skipa varnaraðila skiptastjóra við opinber skipti umrædds dánarbús vegna ákvæða í erfðaskrá Sigurðar Sigurðssonar heitins, dags. 5. maí 2008, en ákvæði erfðaskrárinnar verða skilin svo að Sigurður heitinn hafi óskað þess að varnaraðili, eða Guðjóns Ægir Sigurjónsson hrl., heitinn, skyldu annast búskipti eftir daga Sigurðar heitins, en erfðaskrá þessari hefur ekki verið hnekkt fyrir dómi. Sætti heimild varnaraðila til að krefjast opinberra skipta á búinu, sem og skipun varnaraðila í starf skiptastjóra, engum andmælum.
Það er mat dómsins að sóknaraðilar hafi ekki fært fram röksemdir fyrir því að varnaraðili hafi misst almennt hæfi sitt til að vera skipaður skiptastjóri. Það er sömuleiðis mat dómsins að sóknaraðilar hafi ekki fært fyrir réttinn haldbær rök fyrir því að varnaraðili hafi ekki haft, eða hafi misst, sérstakt hæfi til að annast starf skiptastjóra í umræddu dánarbúi, en fyrir liggur að varnaraðili á hvorki sjálfur kröfu til arfs úr búinu eða aðra kröfu á hendur því né maki hans né skyldmenni hans eða maka hans í beinan legg eða 1. lið til hliðar, sbr. 6. tl. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 20/1991. Koma ekki aðrar hæfisreglur til álita að mati dómsins, en brottvikning skiptastjóra verður ekki byggð á sérreglum um hæfi dómara í einkamáli sem lýst er í 5. gr. laga nr. 91/1991, en þess er sérstaklega að geta að engri reglu er fyrir að fara um skiptastjóra sem er sambærileg við ákvæði g liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Auk þess er umdeilt í málinu hvort varnaraðili tók að sér verk fyrir Sigurð Sigurðsson heitinn, eða son hans, Snæbjörn Sigurðsson, en skv. gögnum málsins var verkið unnið við erfðaskrá Sigurðar heitins en reikningur vegna verksins gefinn út á Snæbjörn og sendur honum. Hvort heldur sem var þá verður hins vegar ekki fram hjá því litið að því verki var löngu lokið þá er varnaraðili tók að sér skiptastjórnina og ekkert verið fært fram um það að Snæbjörn hafi þá, eða síðar, verið skjólstæðingur varnaraðila.
Þá hafa engin rök verið færð fram um það að framferði varnaraðila í starfi skiptastjóra hafi verið með þeim hætti að honum beri að víkja vegna þess, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991. Breytir í því efni engu að með úrskurði héraðsdóms í málinu nr. Q-1/2010 hafi ákvörðun varnaraðila vegna búsins verið felld úr gildi, en í því máli var uppi lögfræðilegur ágreiningur og fjarri því að afstaða varnaraðila sem skiptastjóra hafi fallið undir það að framferði varnaraðila við skiptastjórnina hafi verið með þeim hætti að honum beri að víkja úr starfi vegna þess.
Tilvísun sóknaraðila til 18. gr. laga nr. 77/1998 getur ekki breytt þessu, en hún fjallar almennt um starfsskyldur lögmanna.
Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra í umræddu dánarbúi.
Málskostnaðar hefur ekki verið krafist.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Ásmundar Sigurðssonar og Sigurðar Sigurðssonar, um að varnaraðila, Óskari Sigurðssyni hrl., verði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi hjónanna Sigurðar Sigurðssonar og Guðrúnar K. Ottesen.