Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/2008
Lykilorð
- Skaðabætur
- Eignarréttur
- Fasteign
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2009. |
|
Nr. 125/2008. |
Íslenska gámafélagið ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl. Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Sigurði Baldurssyni (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Eignarréttur. Fasteign.
SB átti jörðina S við Reyðarfjörð. Sanddæluskip á vegum Í ehf. dældi jarðefnum af botni fjarðarins. SB krafði Í ehf. um greiðslu fyrir efni sem hann hélt fram að tekið hafi verið innan netlaga S. Í ehf. hélt því fram að öll efni hafi verið tekin utan netlaga S. SB hafði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hafði þó verið samið um verð. Talið var að þrátt fyrir að málatilbúnaður SB væri á reiki um hvort stuðst væri við réttarreglur innan eða utan samninga væri unnt að skera úr ágreiningi aðilanna. Í ehf. hafi ekki haldið til haga eða lagt fram gögn í málinu um hvar efnin hafi verið tekin, þrátt fyrir að því hafi verið það í lófa lagið, til að styðja þá staðhæfingu að jarðefni hafi ekki verið tekin innan netlaga S. Þá þótti sú skýring Í ehf. að það hafi aðeins tekið efni fyrir landi Fjarðarbyggðar samkvæmt heimild frá sveitarfélaginu ekki skýra efnistökuna. Þótti SB því hafa sýnt fram á að Í ehf. hafi tekið efni úr landi hans og eiga rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir það. Í ehf. mótmælti kröfu SB um greiðslu á 75 krónum fyrir hvern rúmmetra af jarðefni og bar því við að kostnaður við vinnslu efna úr sjó væri hærri en þar sem þau væru tekin úr efnisnámu úr landi. Engin gögn voru þó lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta þar sem metin voru jarðefni sem tekin voru eignarnámi úr námu í landi S sagði að ágreiningslaust væri að verðmæti þeirra hafi verið 50 krónur fyrir hvern rúmmetra og að nefndinni þætti það verð hæfilegt. Með hliðsjón af því var Í ehf. dæmt til að greiða SB 50 krónur fyrir hvern rúmmetra með dráttarvöxtum frá því mánuði eftir að hann sendi því bréf þar sem tiltekið var magn jarðefna, sem krafist var greiðslu fyrir, og einingaverð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. janúar 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 27. febrúar 2008 og var áfrýjað öðru sinni 5. mars sama ár. Aðaláfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. maí 2008. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 9.450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2005 til greiðsludags, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Heiti aðaláfrýjanda mun hafa verið breytt úr Eignarhaldsfélag íslenska gámafélagsins ehf. í Íslenska gámafélagið ehf.
I
Gagnáfrýjandi er eigandi jarðarinnar Sléttu við Reyðarfjörð. Á árunum 2004 og 2005 dældi sanddæluskip á vegum aðaláfrýjanda jarðefnum af botni fjarðarins, einkum vegna gerðar stóriðjuhafnar við Mjóeyri í Reyðarfirði. Ágreiningur málsaðila er til kominn vegna kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu fyrir efni, sem hann heldur fram að aðaláfrýjandi hafi tekið innan netlaga jarðar hans. Aðaláfrýjandi ber því hins vegar við að öll efni hafi verið tekin utan netlaga Sléttu. Gagnáfrýjandi krefst greiðslu fyrir 126.000 m3 af sandi og möl í samræmi við yfirlýsingu Arnarfells ehf. 3. janúar 2006 um að það efnismagn hafi verið flutt með sanddæluskipi aðaláfrýjanda í stóriðjuhöfnina á tímabilinu frá ágúst 2004 til september 2005. Fyrir hvern rúmmetra krefst gagnáfrýjandi 75 króna.
Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda kemur meðal annars fram að fyrirsvarsmaður aðaláfrýjanda hafi í upphafi leitað eftir heimild hans til að taka efni í netlögum Sléttu, sem gagnáfrýjandi hafi samþykkt. Ekki hafi þó verið samið um verð á því stigi. Engu að síður reisir gagnáfrýjandi kröfu sína aðallega á reglum um skaðabætur utan samninga með því að hann hafi orðið fyrir sannanlegu tjóni vegna óleyfilegrar sjálftöku aðaláfrýjanda á jarðefnum í sinni eigu. Að auki kveðst gagnáfrýjandi reisa kröfu sína á því að með töku jarðefna hafi hann öðlast endurgjaldskröfu á hendur aðaláfrýjanda um sanngjarnt kaupverð. Málatilbúnaðar gagnáfrýjanda er þannig á reiki um það hvort stuðst er við réttarreglur um skaðabætur innan eða utan samninga. Þrátt fyrir það er unnt að skera úr ágreiningi aðilanna eins og málið liggur fyrir.
II
Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá framburði nokkurra vitna um það, sem þau sáu til ferða sanddæluskips aðaláfrýjanda um Reyðarfjörð á þeim tíma, sem taka jarðefna stóð yfir. Þá eru meðal málsgagna bréfaskipti lögmanna aðila á árinu 2005, þar sem af hálfu gagnáfrýjanda var leitað eftir upplýsingum um magn þess efnis, sem aðaláfrýjandi hafi tekið í netlögum Sléttu. Svör aðaláfrýjanda bárust seint og voru misvísandi og það var ekki fyrr en með áðurnefndri yfirlýsingu Arnarfells ehf. 3. janúar 2006 sem marktækar upplýsingar fengust um það. Í skýrslu skipstjórans á dæluskipinu kom fram að skipsdagbók hafi verið haldin og að teknir hafi verið svonefndir GPS punktar, þar sem efni voru tekin, „en það var bara til að hitta sama punktinn aftur.“ Aðaláfrýjandi hefur ekki haldið til haga eða lagt þessi gögn fram í málinu, sem honum hefði þó verið í lófa lagið að gera til að styðja þá staðhæfingu sína að jarðefni hafi ekki verið tekin innan netlaga Sléttu. Að því virtu, sem að framan greinir, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að leggja verði til grundvallar að umrædd jarðefni hafi verið tekin í netlögum jarðar gagnáfrýjanda.
Aðaláfrýjandi mótmælir kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu á 75 krónum fyrir hvern rúmmetra af jarðefni. Í því sambandi vísar aðaláfrýjandi meðal annars til þess að kostnaður við vinnslu efna úr sjó sé hærri en þar sem þau séu tekin úr efnisnámu á landi og beri að líta til þess. Aðaláfrýjandi hefur þó engin gögn lagt fram til stuðnings þessari málsástæðu og er haldlaus tilvísun hans til dóms Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 645/2006, en þar lágu fyrir gögn um kostnað við vinnslu jarðefna úr svokölluðum Fáskrúðsfjarðargöngum. Kemur þetta atriði þegar af þeirri ástæðu ekki til álita við úrlausn málsins.
Úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta 1. júní 2005 er meðal málsgagna, en þar voru auk annars metin jarðefni, sem Vegagerðin tók eignarnámi úr námu í landi Sléttu. Í niðurstöðu úrskurðarins segir að ágreiningslaust sé að verðmæti þeirra hafi verið 50 krónur fyrir hvern rúmmetra og að nefndinni þyki það verð hæfilegt. Með hliðsjón af þessu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 50 krónur fyrir hvern rúmmetra eða samtals 6.300.000 krónur með dráttarvöxtum frá 7. október 2005, en þá var mánuður liðinn frá því að gagnáfrýjandi sendi honum bréf þar sem tiltekið var magn jarðefna, sem krafist var greiðslu fyrir, og einingaverð.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í eini lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Íslenska gámafélagið ehf., greiði gagnáfrýjanda, Sigurði Baldurssyni, 6.300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2005 til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2007.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri fyrir lögmanni stefnda samkvæmt ódagsettri undirritun hans á stefnu og þingfest 25. janúar sl.
Stefnandi er Sigurður Baldursson, Sléttu, Reyðarfirði.
Stefndi var Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf., Búðareyri 15, Reyðarfirði. Við aðalmeðferð málsins var þess getið að Eignarhaldsfélag íslenska gámafélagsins hefði tekið við aðild varnarmegin.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
MÁLSATVIK
Stefndi vann frá hausti 2004 fram á mitt ár 2005 við hafnargerð í Reyðarfirði. Stefnandi kveður stefnda hafa dælt upp jarðefnum, sandi og möl, af sjávarbotni innan netlaga jarðar stefnanda, Sléttu. Í málinu liggur frammi meðal annarra gagna, ljósmynd af Reyðarfirði þar sem merkt eru austurmörk Sléttu, sunnan megin í firðinum. Samkvæmt myndinni eru austurmörkin við Jötnagarða. Vestan við Jötnagarða, í Sléttulandi, eru merktar Miðströnd, Holtastaðaeyri og Hrúteyri. Í fjarðarbotninum sjást árósar, og munu vestari landamerki jarðarinnar vera við ósa Sléttuár og Norðurár, sem sameinast áður en þær renna í fjörðinn.
Stefndi kveðst hafa samið við Fjarðabyggð um heimild til að taka jarðefni af sjávarbotni innan netlaga lands sem sveitarfélagið á og kveðst ekki hafa tekið neitt efni úr landi stefanda. Bendir stefndi á að netlög sunnan óss Sléttuár og Norðurár tilheyri jörðinni Sléttu en netlög norðan óss Sléttuár og Norðurár tilheyri hins vegar sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Stefndi kveðst í greinargerð hafa tekið 50.060 rúmmetra af jarðefnum af sjávarbotni innan netlaga lands Fjarðabyggðar á tímabilinu 6. febrúar 2005 til 15. maí 2005. Þá kveðst hann hafa, haustið 2005, tekið um það bil 20.000 rúmmetra af jarðefni af sjávarbotni innan netlaga lands sveitarfélagsins fyrir norðan ós Sléttuár og Norðurár en efnið hafi verið nýtt í Eskifirði. Í málinu liggur frammi ljósmynd af botni Reyðarfjarðar norðanverðum, þar sem ósar Sléttuár og Norðurár eru neðarlega á myndinni. Eru þar dregnir tveir ferningar í flæðarmálið, annar er við Reyðarfjarðarhöfn en hinn er stærri og sunnar og nær niður að árósum.
Með bréfi dagsettu 31. maí 2005 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við stefnda að fá upplýsingar um efnismagnið sem stefndi hefði dælt upp af sjávarbotni innan netlaga jarðarinnar Sléttu og var í bréfinu sett fram krafa um 50 krónur fyrir hvern rúmmetra. Kveðst stefndi hafa haft samband við lögmann stefnanda og mótmælt því að hafa tekið jarðefni í netlögum fyrir landi stefnanda. Lögmaður stefnanda krafði stefnda um greiðslu fyrir 100.000 rúmmetra 7. september 2005.
Í tölvupósti lögmanns stefnda dagsettum 28. september 2005 kemur fram að stefndi telji ólíklegt að hann hafi tekið efni í eigu stefnanda en hann hafi tekið alls 72.000 rúmmetra af efni í firðinum. Sé hann fullviss um að stærsti hluti þess hafi verið tekinn fyrir landi í eigu Fjarðabyggðar og sé hann að kanna hvort eitthvert efni hafi verið tekið af sjávarbotni er tilheyrði stefnanda. Þá er kröfu um 50 krónur á rúmmetra mótmælt sem of hárri. Í greinargerð kveðst stefndi hafa gert athugun á því hvar efni hafi verið tekið og hafi sú athugun leitt í ljós að stefndi hafi aðeins tekið jarðefni í netlögum fyrir landi sveitarfélagsins.
Stefnandi hefur lagt fram yfirlýsingu undirritaða af Jörgen Hrafnkelssyni, f.h. Arnarfells ehf. Þar segir að í stóriðjuhöfnina við Mjóeyri í Reyðarfirði á tímabilinu ágúst 2004 til september 2005 hafi verið flutt „Fyllingarpúði, möl um 79.000 m3“ og „Fylling III, sandur/möl um 47.000 m3“ Efnisins hafi verið aflað í Reyðarfirði, sunnan hafnarinnar og innar, líklega að mestu leyti í landi Sléttu án þess að Jörgen sé kunnugt um nákvæm skipti milli landeigenda. Með bréfi dagsettu 3. ágúst 2006 gerði lögmaður stefnanda lögmanni stefnda grein fyrir efni yfirlýsingarinnar og krafðist greiðslu fyrir 126.000 rúmmetra af efni, miðað var við 75 krónur á rúmmetra. Var verðhækkunin frá síðasta bréfi sögð vera vegna verðlagsbreytinga. Nam höfuðstóll kröfunnar 9.450.00 krónum, að auki var krafist dráttarvaxta frá 1. júlí 2005 og innheimtukostnaðar. Með tölvupósti dagsettum 24. ágúst 2006 mótmælti lögmaður stefnda kröfum þeim er voru settar fram í bréfi lögmanns stefnanda.
Stefndi hefur lagt fram skjal sem byggir á dagseðlum skipsins Skandia, þar sem taldir eru fjöldi farma, á tilteknum dagsetningum frá 6. febrúar 2005 til 15. maí 2005, á stað sem er kallaður „Sléttá & Norðurá“, alls 50.060 rúmmetrar af efni. Þá eru taldir farmar á tímabilinu 7. ágúst 2004 til 22. janúar 2005 til 21. júní 2005, í „Fyldningspude“, alls 90.362 rúmmetrar. Þá er einnig dálkur fyrir það sem kallað er „Uddybning“, þar sem teknir eru 102.226 rúmmetrar af efni frá því síðsumars 2004 fram í september 2005.
Fyrir dóminn komu stefnandi, fyrirsvarsmaður stefnda og vitni.
Stefnandi, Sigurður Baldursson, kom fyrir dóminn. Inntur eftir því hvenær hann hafi fyrst orðið var við að sanddæluskip Gáma- og tækjaleigunnar væri að dæla upp jarðefnum innan netlaga jarðar sinnar, kvað hann það hafa verið í ágúst 2004, við Holtastaðaeyri. Sigurður kvað fyrirsvarsmann stefnda, Óskar Beck, hafa hringt í sig og sagt að hann væri að byrja að dæla efni í fyllingarpúða undir stálþil við álvershöfn. Óskar hafi sagt að búið væri að kanna aðstæður við Miðströnd og Hrúteyri en bestu aðstæður hafi verið við Holtastaðaeyri. Hafi þeir einnig rætt saman síðar. Kvaðst stefnandi hafa gefið munnlegt leyfi fyrir efnistökunni og gert ráð fyrir samningum síðar. Þegar nokkuð hafi verið liðið á verkið hafi Sigurður farið að tala um það við Óskar að hann þyrfti að fá magntölur til að þeir gætu fundið verð fyrir efnið. Óskar hefði tjáð stefnanda að allt væri klárt í skipinu til þess að fá magntölur og staðsetningarpunkta, en upplýsingarnar hafi ekki borist. Kvað stefnandi efni hafa verið flutt í fyllingarpúðann undir stálþilið á tímabilinu frá ágúst 2004 til áramóta. Kvaðst hann ekki hafa betur séð en að meiri hlutinn af efninu í það hafi verið tekinn við Holtastaðaeyri. Eftir það hafi stefnandi séð að farið var að dæla efni sunnan við ósa Sléttuár og Norðurár. Dýpkunarframkvæmdir við höfnina hafi hafst síðar. Sigurður kvað vera aðdjúpt í Reyðarfirði. Borin var undir stefnanda fyrrnefnd ljósmynd af Reyðarfjarðarbotni norðanverðum. Kvað hann allt efnið hafa verið tekið utan ferhyrninganna tveggja, enda hafi mynd þessi ekki komið til fyrr en eftir að efnistöku í höfnina var lokið.
Óskar Beck, fyrirsvarsmaður stefnda kvað fyrirtækið hafa tekið dælt efni í tilraunaskyni fyrir landi Sléttu og þann farm hafa verið fluttan í höfnina. Óskar kvaðst kannast við að hafa rætt við Sigurð Baldursson á árinu 2004 vegna jarðefnatöku. Hann kvað þá hafa prufudælt alls staðar í firðinum. Hann kvað efni fyrir landi Fjarðabyggðar hafa reynst vera betra, einkum í firðinum norðanverðum við ósa Ljósár, austan við þorpið. Óskar kvað þeim hafa verið heimilað að taka efni á þeim reitum sem merktir voru inn á framlagða ljósmynd, kvað hann Guðmund Sigfússon hafa afhent þeim skjalið. Ekki hafi átt að taka efni annars staðar, en hann hafi ekki sjálfur verið um borð í skipinu. Átt hafi að dýpka höfnina og því verið lögð áhersla á að taka efni úr norðanverðum reitnum. Borið var undir vitnið fyrrgreint skjal þar sem taldir eru farmar af efnum sem teknir eru á tilteknum dögum, meðal annars um 50.000 rúmmetrar á svæði merktu Sléttá og Norðurá. Vitnið kvað reitina á ljósmyndinni vera svæðið sem skilgreint væri sem Sléttá og Norðurá. Samið hafi verið um þetta efnistökusvæði við Fjarðabyggð. Hann kvað 90.362 rúmmetra, í „Fyldningspude“, hafa verið tekna að mestu við Ljósárósa en það svæði ekki vera merkt inn á nefnda ljósmynd. Kvað hann vera til dagseðla úr skipinu þar sem fram kæmi hvar efni væri numið og hversu mikið, og yfirlitið yfir efnistöku vera búið til eftir þeim.
Christian Erik Rasmussen skipstjóri á Skandia þegar dælt var jarðefnum á árinu 2005, kvað sveitarstjórnina hafa látið hann hafa kort af firðinum þar sem merkt voru inn á tvö svæði þar sem mátti taka efni. Hann hafi reynt eins og unnt var að taka efni meðfram bryggjunni því þar hafi þurft að dýpka fyrir stærri skip. Hafi aðallega verið tekið efni á svæðinu norðar á myndinni. Kristian Erik kvaðst aðeins hafa tekið efni á þessum reitum, þeir hafi þó tekið sýni fyrir landi Sléttu en efnið verið of fíngert. Hann kvaðst aðspurður ekki treysta sér til að svara hvort það hafi verið á fyrri eða seinni helmingi ársins 2005 sem þeir fengu kortið afhent. Hann kvað hafa verið skrifaða dagseðla í skipinu, einnig hafi verið teknir GPS punktar en aðeins í því skyni að finna sama stað aftur, og ekki til að skrá niður. Kvað hann þá hafi haldið dagbók á skipinu.
Eiður Jónsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda, og verkstjóri hjá honum, kvað þá hafa fengið teikningu frá bænum sem hafi sýnt hvar mátti taka efni en það hafi verið fyrir landi bæjarins. Kvað hann þetta líklega hafa verið fyrir norðan ós Norðurár og Sléttuár í fjarðarbotninum. Inntur eftir því hvort tekið hafi verið efni fyrir landi Sléttu, sagði hann þetta náttúrulega vera fyrir framan það land. Aðspurður kvað hann það rétt skilið að reitirnir hafi verið fyrir framan land Fjarðabyggðar. Hann kvað þá hafa haldið sig innan merktra svæða. Hann sagðist ekki muna hvenær stefndi hafi fengið nefnt kort í hendurnar en það hafi verið þegar til hafi staðið að taka efni. Ekki hafi verið farið að taka efni fyrr en þeir hafi haft leyfi fyrir að taka efni á tilteknum stöðum.
Jörgen Hrafnkelsson fyrrverandi starfsmaður Arnarfells og verkefnastjóri við byggingu Mjóeyrarhafnar mætti í réttinn. Kvað hann tölurnar á yfirlýsingu sinni, sem lögð hefur verið fram og byggt er á í kröfugerð stefnanda, vera komnar úr magntöluuppgjöri verksins, en hann hafi haft umsjón með því gagnvart verkkaupa. Jörgen kvaðst ekki geta sagt hvar efni var tekið og hversu mikið. Hins vegar gæti hann staðfest að töluvert hafi verið tekið bæði við Miðströnd og Holtastaðaeyri. Hann kvaðst hafa séð þetta. Jörgen kvað starfsstöð sína hafa verið í vinnubúðunum við Mjóeyrarhöfn og hafi þaðan verið þokkalegt útsýni yfir austanvert land Sléttu. Einnig væri gott útsýni yfir fjarðarbotninn frá heimili hans á Reyðarfirði. Fullyrðingar sínar um að efnið hafi líklega að mestu verið tekið í landi Sléttu kvað hann byggðar á því sem hann hafi séð frá degi til dags. Kvað hann skip stefnda hafa tekið eitthvað hinum megin við fjörðinn líka, við Ljósá, sem væri ekki í landi Sléttu. Hann kvað sér vera kunnugt um landamerki Sléttu norðvestan megin í fjarðarbotninum en ekki að öðru leyti. Jörgen kvaðst hafa farið með skipinu tvær ferðir eða svo í upphafi verksins, og hafi þá verið dælt við Miðströnd eða við Holtastaðaeyri til reynslu. Hafi efnið uppfyllt gerðar kröfur.
Jörgen kvað einhverja staðsetningarpunkta hafa verið tekna í skipinu, að minnsta kosti fyrst í stað, um hvar efni hafi verið tekið og það sett niður. Þessir pappírar hafi farið til eftirlitsaðila Fjarðabyggðar, en einhverjir þeirra í gegnum hendur Jörgens. Jörgen kvaðst telja að ekki hafi verið tekið mikið efni í ferhyrningunum sem dregnir eru á framlagðri ljósmynd.
Vitnið Svavar Valtýsson, Áreyjum í Reyðarfirði, kom fyrir dóminn. Kvað hann jörð sína vera innst í firðinum, fyrir botninum. Hann var inntur eftir því hvort hann hefði á tímanum frá hausti 2004 fram á mitt ár 2005 séð sanddæluskip dæla upp jarðefnum úr sjó innan netlaga jarðarinnar Sléttu. Hann kvaðst hafa séð það, hafi þetta verið einhvern tímann á árinu 2004. Hann kvaðst hafa verið á Hrúteyrinni í fjöruferð þegar skipið hafi komið upp að Hrúteyri. Þetta hafi verið ótrúlega nálægt, ekki meira en 50 metrum frá fjörunni að hann taldi. Kvaðst hann hafa séð skipið á hverjum degi víða um fjörðinn, en þennan umrædda dag þegar skipið kom að Hrúteyrinni hafi hann verið staddur þar. Skipið hafi verið að dæla upp jarðefnum. Svavar sagði um tengsl sín við stefnanda að kona stefnanda og hann væru frændsystkin.
Þá kom Kristinn Briem fyrir dóminn. Var hann inntur eftir því hvort hann hefði séð sanddæluskip dæla jarðefnum úr sjó innan netlaga jarðarinnar Sléttu á tímabilinu frá hausti 2004 og fram á mitt ár 2005. Hann kvaðst hafa séð það nokkuð oft og aðeins hafa fylgst með framkvæmdunum. Hann kvaðst hafa séð skipið við Holtastaðaeyri sérstaklega í tvö skipti, í apríl eða maí 2005. Hann hafi þá ekið þangað en skipið hafi verið alveg uppi í árósnum á eyrinni, um 10 til 15 metrum frá landi. Hann kvaðst hafa séð skipið oftar hinum megin frá, hafi það rokkað á milli eyranna, Ljósáreyrar norðan megin í firðinum og Holtastaðaeyrar. Hafi hann séð þetta nokkur skipti. Einu sinni hafi skipið verið við Hrúteyri en hann kvaðst telja að það hafi stoppað stutt þar. Hann hafi svo séð það nokkuð oft í fjarðarbotninum, og þá tekið af því myndir, dagsettar 10. maí, og sent athugasemd til Skipulagsstofnunar um hvort þeir hafi haft heimild til að dæla úr marbakkanum.
Jón Runólfur Jónsson kvaðst hafa unnið í febrúar 2005 við að moka upp efni í fjörunni á jörð stefnanda. Kvaðst hann hafa tekið ljósmyndir á símann sinn af skipi sem hafi staðið á Skandia, og gröfunni sem hann var sjálfur að vinna á. Skipið hafi dælt upp efni nokkru sunnan við ósinn sem eru landamerki Sléttu og Kollaleiru, örfáum metrum frá landi. Hann kvað skipið hafa komið oft þangað.
Þá kom fyrir dóminn Guðmundur Helgi Sigfússon forstöðumaður umhverfissviðs Fjarðabyggðar. Bornar voru undir Guðmund myndirnar þar sem dregin eru upp efnistökusvæði í Reyðarfirði. Hann kvað efnistökusvæðið hafa verið skilgreint um vorið 2005. Hafi tilefni þess verið framkvæmdir á Eskifirði, og það að vantað hafi stað til efnistöku fyrir gatnagerðar o.fl. framkvæmdir. Guðmundur kvaðst ekki kannast við að þetta efnistökusvæði hafi verið skilgreint af Fjarðabyggð vegna efnistöku fyrir stóriðjuhöfnina við Mjóeyri.
Einnig gaf skýrslu fyrir dóminum Óttar Guðmundsson en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans hér.
MÁLSÁSTÆÐUR
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi tekið jarðefni af sjávarbotni innan netlaga jarðar sinnar, Sléttu.
Stefnandi kveður kröfu sína um 9.450.000 krónur vera á því byggða að jarðefni af sjávarbotni innan netlaga sjávarjarða séu undirorpin eignarrétti jarðeiganda og hann eigi því tilkall til sanngjarns endurgjalds fyrir þau jarðefni sem þaðan séu tekin og fénýtt. Stefnandi vísar um eignarrétt sinn til 1.-3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um sanngjarnt endurgjald á jarðefnunum til 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.
Stefnandi telur sönnunarbyrði um það efnismagn sem tekið hafi verið úr netlögum jarðar stefnanda hvíla á stefnda. Í 1. mgr. 8. gr. siglingalaga nr. 34/1985 segi að skipstjóra beri að fylgjast með því að skipsbækur séu færðar eftir því sem lög og reglur mæli fyrir um. Hann hafi yfirumsjón með færslu í bækurnar og með varðveislu þeirra. Í 9. gr. laganna komi fram að samgönguráðherra setji reglur um skipsbækur, sbr. reglur um skipsbækur nr. 138/1986, ásamt breytingum nr. 183/1987. Sanddæluskipum sé skylt samkvæmt 1. gr. reglnanna að halda dagbók séu þau tólf rúmlestir eða stærri. Í 7. gr. segi meðal annars að í dagbók skuli skrá greinilega frásögn um ferð skipsins. Í 11. gr. komi síðan fram að hver sá sem lögmætra hagsmuna hafi að gæta geti krafist þess að fá að kynna sér efni skipsbóka og fá endurrit úr þeim.
Stefndi hafi þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir ekki lagt fram gögn til upplýsinga um efnismagn sem hann hafi dælt upp af sjávarbotni innan netlaga jarðarinnar Sléttu eða ferðir og staðsetningu sanddæluskips síns á umræddum tíma. Lögmaður hans hafi þó viðurkennt að stefndi hafi unnið og fénýtt jarðefni úr netlögum jarðarinnar en ekki getað upplýst neitt nánar um raunverulegt magn. Þær tölur sem af hans hálfu hafi óformlega verið nefndar í þessu sambandi hafi hins vegar reynst alrangar. Upplýsinga um efnismagnið hafi stefnandi því sjálfur þurft að afla sér hjá Arnarfelli ehf. og sé hér miðað við þær tölur enda ekki öðrum til að dreifa. Sé þó áskilinn réttur til þess að auka við kröfugerð ef það upplýsist undir rekstri málsins að meira efni hafi verið numið í netlögum Sléttu en miðað sé við í kröfugerð í málinu. Lögmaður stefnanda tók fram í málflutningsræðu sinni að lögmaður stefnda hafi loks þegar greinargerð var skilað, lagt fram með henni yfirlit þar sem sjáist jarðefni sem numin voru á tilteknum dögum, væri þó ekki tiltekið nákvæmlega hvaðan efnin væru. Stefndi hafi haldið því fram að hann hafi numið efnin annars staðar, samkvæmt samningi, en ekki lagt fram það samkomulag.
Varðandi sanngjarnt endurgjald fyrir jarðefnin kveðst stefnandi ítreka tilvísun til 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þá vísar hann til hliðsjónar í úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta nr. 6/2005 þar sem stefnandi var eignarnámsþoli en Vegagerðin eignarnemi. Í niðurstöðu matsnefndarinnar komi fram að hæfilegt endurgjald fyrir jarðefni úr námu í Sléttuá væri 50 krónur á rúmmetra. Stefnandi telji hins vegar liggja fyrir að þau jarðefni sem dælt hafi verið upp af sjávarbotni innan netlaga jarðarinnar Sléttu séu mun verðmeiri en þau sem tekin hafi verið úr námunni í Sléttuá, þá verði að taka tillit til verðhækkana og verðþróunar á þeim tíma sem liðinn sé síðan úrskurðurinn gekk.
Stefnandi kveðst miða við 9.450.000 krónur í kröfugerð en áskilur sér rétt til að auka við kröfugerð með framhaldssök komi í ljós að meira efni hafi verið numið í netlögum Sléttu en miðað sé við í kröfugerð í málinu.
Stefnandi styður kröfu sína aðallega við skaðabótareglur utan samninga enda hafi hann orðið fyrir sannanlegu tjóni vegna óleyfilegrar sjálftöku stefnda á jarðefnum í eigu stefnanda. Að auki segir hann kröfu sína á því byggða að með töku stefnda á jarðefnunum hafi stefnandi öðlast endurgjaldskröfu á hendur stefnda um sanngjarnt kaupverð. Stefnda hafi borið að greiða kaupverðið þegar stefnandi krafðist þess, sbr. 49. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Fyrsta formlega kröfubréf stefnanda til stefnda hafi verið dagsett 31. maí 2005.
Til viðbótar við kaupverðið geri stefnandi kröfu um dráttarvexti, sbr. 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Dráttarvaxta sé krafist frá þeim tíma er liðinn hafi verið mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslu, það er frá 1. júlí 2005, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefnandi kveðst telja rétt að miða allan dráttarvaxtaútreikninginn frá 1. júlí 2005 við 9.450.000 krónur þar sem stefndi beri ábyrgð á að ekki hafi verið hægt að forma fjárkröfuna að fullu í fyrsta kröfubréfi, dagsettu 31. maí 2005.
Stefnandi vísar til 1. - 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hvað varðar eignarrétt stefnanda á jarðefnum innan netlaga jarðar sinnar. Um sönnunarbyrði stefnda fyrir því efnismagni sem hann hafi dælt upp innan netlaga eignarjarðar stefnanda vísar stefnandi til 8. og 9. gr. laga nr. 34/1985 um siglingar ásamt 1., 7. og 11. gr. reglna um skipsbækur nr. 138/1986. Um kröfugrundvöllinn vísar stefnandi aðallega til skaðabótareglna utan samninga. Þá vísar hann til meginregna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en sú regla fái meðal annars lagastoð í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Vísar stefnandi sérstaklega til 45. gr. lausafjárkaupalaga hvað varðar sanngjarnt endurgjald fyrir jarðefnin sem og til 49. og 51. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingar. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki tekið efni af sjávarbotni innan netlaga fyrir jörð stefnanda. Stefndi kvaðst hafa unnið frá hausti 2004 fram á mitt ár 2005 við hafnargerð í Reyðarfirði. Vegna þess verks hafi hann samið við Fjarðabyggð um heimild til að taka jarðefni af sjávarbotni innan netlaga lands sveitarfélagsins fyrir norðan ós Sléttuár og Norðurár. Sveitarfélagið hafi látið stefnda hafa kort af því svæði innan netlaga lands sveitarfélagsins þar sem stefnda var heimil efnistakan. Stefndi telur kröfu stefnanda vera vanreifaða, styðjist hún hvorki við gögn né vitnaframburð. Af þeim sökum skuli sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Í málflutningi fyrir dómi kvaðst lögmaður stefnda telja að vanreifun væri slík að hún skyldi leiða til frávísunar. Stefndi bendir á að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum og tilvist kröfu sinnar. Stefnandi hafi ekki fært sönnur að skaðabótakröfu sinni eða endurgjaldskröfu samkvæmt ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Stefndi leggur áherslu á að yfirlýsing Arnarfells ehf. sem stefnandi ber fyrir sig hafi enga þýðingu í málinu og sanni alls ekki þá staðhæfingu stefnanda að stefndi hafi tekið 126.000 rúmmetra af jarðefni af sjávarbotni í netlögum jarðar stefnanda. Stefndi bendir í þessu sambandi á það að þegar Arnarfell ehf. hafi gefið út fyrrgreinda yfirlýsingu hafi stefndi og Arnarfell staðið í málaferlum vegna framkvæmdar við stóriðjuhöfn í Reyðarfirði og í desember sl. hafi Arnarfell ehf. verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða stefnda um það bil 60.000.000 króna. Skoða beri yfirlýsingu Arnarfells ehf. í þessu ljósi. Þá leggur stefndi áherslu á að ákvæði siglingalaga nr. 34/1985 og reglna um skipsbækur nr. 138/1986, sem stefnandi vísi til í stefnu hafi ekki þýðingu við mat á sönnunarbyrði í málinu. Samkvæmt reglum kröfuréttar og einkamálaréttarfars beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að stefndi hafi tekið jarðefni í hans eigu, hafi stefnandi jafnframt sönnunarbyrði fyrir fjárhæð kröfu sinnar.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu krefst stefndi þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndi mótmælir í fyrsta lagi kröfu um greiðslu fyrir 126.000 rúmmetra af jarðefni og bendir á í því sambandi að stefndi hafi tekið alls 50.060 rúmmetra af jarðefni innan netlaga í landi Fjarðabyggðar í nágrenni óss Sléttuár og Norðurár. Stefndi telur staðhæfingar stefnanda um að stefndi hafi tekið 126.000 rúmmetra af jarðefni innan netlaga jarðar stefnanda vera vanreifaðar líkt og annað í málatilbúnaði stefnanda og í andstöðu við staðreyndir málsins. Stefndi áréttar að yfirlýsing Arnarfells ehf. hafi enga þýðingu í málinu. Stefndi kveðst hafa nýtt meira en 50.060 rúmmetra af jarðefni við hafnargerðina en segir stærsta hluta þess efnis hafa verið tekinn fyrir utan höfnina í Reyðarfirði. Verði að einhverju leyti fallist á kröfu stefnanda í málinu geti aldrei komið til greina að viðurkenna kröfu stefnanda um greiðslu nema fyrir lítið hlutfall af jarðefni því sem stefnandi hafi tekið innan netlagna lands sveitarfélagsins nærri Sléttu, sem þó væri fráleit niðurstaða að mati stefnda.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu á 75 krónum fyrir hvern ætlaðan rúmmetra af jarðefni og telur þá kröfu augljóslega vera of háa, ósanngjarna og ekki í neinu samræmi við gangverð fyrir jarðefni þau sem um ræðir. Stefndi telur kröfu stefnanda ekki vera um sanngjarnt endurgjald og telur stefndi meðal annars úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 6/2005 ekki styðja á neinn hátt kröfu stefnanda. Þá mótmælir stefnandi því að ætlað jarðefni af sjávarbotni innan netlaga jarðar stefnanda séu mun verðmeiri en jarðefni þau sem fjallað hafi verið um í fyrrgreindu máli nr. 6/2005.
Stefndi mótmælir kröfu um upphafstíma dráttarvaxta og telur að ef svo ótrúlega færi að fallist yrði á kröfu stefnanda að einhverju leyti eða öllu beri ekki að dæma dráttarvexti frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi. Stefndi telur að minnsta kosti augljóst að krafa stefnanda um dráttarvexti frá 1. júlí 2005 eigi sér hvorki stoð í lögum nr. 38/2001 né öðrum lögum.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi kveður stefnda hafa dælt upp jarðefnum fyrir landi sínu í Reyðarfirði á árunum 2004 og 2005. Krefur stefnandi um greiðslu fyrir jarðefni þessi. Að því er varðar magn sem krafist er greiðslu fyrir, byggir krafa stefnanda á bréfi undirrituðu af Jörgen Hrafnkelssyni f.h. Arnarfells ehf. um efnismagn flutt með Skandia, sanddæluskipi Gáma- og tækjaleigunnar í Stóriðjuhöfnina við Mjóeyri frá ágúst 2004 til september 2005.
Af hálfu stefnda krafðist lögmaður hans frávísunar málsins í málflutningsræðu sinni við aðalmeðferð og bar fyrir sig að krafa stefnanda væri vanreifuð.
Á það verður ekki fallist hér en gögn málsins eru nægjanlega skýr til þess að efnisdómur verði lagður á ágreining aðila.
Þá krefst stefndi sýknu á þeim grundvelli að hann hafi ekki dælt upp efni fyrir landi stefnda utan eitt skipti sem fyrirsvarsmaður stefnda kvað hafa verið dælt í tilraunakyni.
Vitnið Svavar Valtýsson kvaðst hafa séð sanddæluskip dæla jarðefnum upp við Hrúteyri um haustið 2004 er hann hafi verið staddur á eyrinni, kvað hann skipið hafa verið ótrúlega nálægt landi. Vitnið Kristinn Briem kvaðst hafa ekið að Holtastaðaeyri í tvö skipti í apríl eða maí 2005 er sanddæluskip hafi verið að dæla jarðefnum úr sjó við eyrina, um 10 til 15 metrum frá landi. Þá hafi hann séð skipið í nokkur önnur skipti við Holtastaðaeyri og við Ljósáreyri, í eitt skipti við Hrúteyri og nokkuð oft í fjarðarbotninum. Vitnið Jón Runólfur Jónsson bar um að hafa séð skipið Skandia dæla efni úr fjarðarbotni, fyrir landi stefnda, í febrúar 2005 og í málinu liggja frammi myndir sem hann kveðst hafa tekið af skipinu. Vitnið Jörgen Hrafnkelsson sem skrifaði yfirlýsingu Arnarfells ehf. bar einnig um að hann hefði séð Skandia dæla við land stefnanda. Þykir með þessum framburði vitna vera nægilega sannað að stefndi hafi dælt efni úr marbakkanum við land stefnanda, innan netlaga, og að það hafi verið oftar en eitt tilraunaskipti.
Í málinu liggur frammi svo sem áður segir, skjal frá stefnda sem byggir á dagseðlum úr Skandia. Þar kemur fram að 50.060 rúmmetrar af efni hafi verið teknir á stað sem kallaður er Sléttá og Norðurá á tímabilinu 6. febrúar til 15. maí 2005, og 90.382 rúmmetrar í svonefndan „Fyldningspude“ á tímabilinu 7. ágúst 2004 til 21. júní 2005. Þá er einnig dálkur fyrir það sem kallað er „Uddybning“, teknir 102.226 rúmmetrar af efni frá því síðsumars 2004 fram í september 2005.
Fyrirsvarsmaður stefnda, Óskar Beck, var spurður um skjalið fyrir dómi. Lýsti hann því að 50.060 rúmmetrar hafi verið teknir á reitum sem merktir hafi verið inn á framlagða ljósmynd frá sveitarfélaginu og 90.382 rúmmetrar að mestu leyti norðan megin í firðinum við Ljósá. Vitnið Eiður Jónsson bar einnig um að dælt hafi verið upp efni í firðinum samkvæmt teikningu frá bænum sem hafi sýnt hvar mátti taka efni. Christian Erik Rasmussen, skipstjóri hjá stefnda á árinu 2005, kvaðst hafa tekið efni samkvæmt teikningu en kvaðst ekki muna hvenær árs 2005 hann fékk teikninguna.
Vitnið Guðmundur Helgi Sigfússon forstöðumaður umhverfissviðs Fjarðabyggðar kvað ljósmynd með reitum ekki hafa verið gerða út fyrr en vorið 2005 og þá vegna framkvæmda á Eskifirði. Kvaðst hann ekki kannast við að þetta efnistökusvæði hafi verið skilgreint af Fjarðabyggð vegna efnistöku fyrir stóriðjuhöfnina við Mjóeyri. Á skjalinu sjálfu, undir ljósmyndinni stendur „\Loftmyndir\grk-isnet020306.dgn 13.5.2005 14:04:04“. Virðist þetta vera tíminn þegar myndin var tekin. Í framlögðu skjali úr skipinu er síðasta efnistaka á svæðinu Sléttá og Norðurá 15. maí 2005, en sú fyrsta 6. febrúar það ár. Í dálkum „fyldningspude“ er síðast tekið efni 20. og 21. júní 2005, samtals 2.645 rúmmetrar. Þar áður var ekkert tekið frá 27. janúar 2005. Langstærsti hluti efnis í Sléttá og Norðurá, og fyrir fyllingarpúða, var því numið áður en myndin var gefin út af sveitarfélaginu.
Þykir sú skýring stefnda að hann hafi aðeins tekið efni fyrir landi Fjarðabyggðar samkvæmt heimild frá sveitarfélaginu og eftir margnefndri ljósmynd ekki skýra efnistöku á árinu 2004 og fyrri hluta árs 2005. Var stefnda í lófa lagið að sýna fram á með gögnum hvar hann tók efni á þessum tíma og að hann hafi haft heimild til þess en ekkert kemur fram af hans hálfu um hver skil hann hafi gert á andvirði þess efnis sem hann tók.
Samkvæmt því sem hér að framan er rakið hefur stefnandi sýnt fram á að stefndi hafi tók efni úr landi hans og þykir stefnandi eiga rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir það. Fram kemur í málinu að dagbók var haldin um borð í skipinu Skandia og dagseðlar útbúnir sem byggt er á í framlögðu yfirliti um efnistöku. Eins og atvikum er háttað hér verður það ekki lagt á herðar stefnda að mæla hvaða efni eða hversu miklu stefndi dældi. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn um þetta, önnur en áðurnefnt skjal sem byggir á dagseðlum skipsins. Þykir því verða að miða við það magn sem stefnandi krefst greiðslu fyrir samkvæmt yfirliti Arnarfells ehf., sem samkvæmt framburði vitnisins Jörgrns Hrafnkelssonar eru tölur í því komnar úr magntöluuppgjöri verksins, sem vitnið hafði umsjón með gagnvart verkkaupa. Er magn þetta heldur minna en það sem lýst er á framlögðu skipsplaggi að numið hafi verið á svæðinu Sléttá og Norðurá og fyrir fyllingarpúða. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða fyrir 126.000 rúmmetra af ótilgreindu efni. Þykir mega miða við 40 krónur á rúmmetra svo sem krafist var upphaflega af hálfu stefnanda. Samkvæmt því verður stefnda gert að greiða stefnanda 5.040.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. júlí 2005 til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Eignarhaldsfélag íslenska gámafélagsins ehf., greiði stefnanda, Sigurði Baldurssyni, 5.040.000 krónur, með dráttarvöxtum frá 1. júlí 2005 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.