- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Lagaskil
- Ómerking ummæla
- Miskabætur
|
Fimmtudaginn 31. maí 2012. |
Nr. 591/2011.
|
Jón Bjarki Magnússon (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Kim Gram Laursen (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Lagaskil. Ómerking ummæla. Miskabætur.
K höfðaði mál gegn blaðamanninum J og krafðist m.a. ómerkingar ummæla sem birst höfðu í grein eftir J í DV. Því var ekki mótmælt af hálfu J að ummælin hefðu falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð K í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. J byggði sýknukröfu sína á því blaðamönnum væri í vissum tilvikum heimilt að hafa ummæli eftir viðmælendum sínum og að í ljósi nýrra laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sem tóku gildi eftir að málið var höfðað, bæri hann ekki ábyrgð á ummælunum. Það var m.a. niðurstaða Hæstaréttar að þótt ómerking ummæla á grundvelli 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 teldist til refsikenndra viðurlaga væri hún í eðli sínu staðfesting á því að óviðurkvæmileg ummæli skuli vera að engu hafandi. Yrði því úrræði ekki jafnað til íþyngjandi viðurlaga á borð við réttindasviptingu í merkingu 2. mgr. 2. gr. laganna. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummælanna, en miskabætur lækkaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2011 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur því ekki verið mótmælt af hálfu áfrýjanda að ummælin, sem málið snýst um og birtust í grein eftir hann í DV 12. nóvember 2010, feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnda í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ennfremur liggja fyrir yfirlýsingar frá Hjördísi Aðalheiðardóttur og Ragnheiði Rafnsdóttur um að ummælin séu rétt eftir þeim höfð og birt með samþykki þeirra beggja.
Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, sem giltu um ábyrgð á efni rita, þar á meðal dagblaða þegar fyrrgreind grein var birt, bar höfundur efnisins refsi- og fébótaábyrgð á því ef hann var nafngreindur. Átti það við um áfrýjanda.
Hinn 21. apríl 2011 tóku gildi lög nr. 38/2011 um fjölmiðla. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 51. gr. þeirra ber nafngreindur einstaklingur ábyrgð á eigin ummælum, sem höfð eru réttilega eftir honum í fjölmiðlum á borð við dagblöð, hafi hann samþykkt það. Bæri áfrýjandi því ekki refsiábyrgð á ummælum þeim, sem mál þetta er sprottið af, ef þau hefðu birst í grein eftir hann í dagblaði eftir gildistöku áðurnefndra laga. Verður að skýra ákvæði 2. gr. almennra hegningarlaga svo að áfrýjanda hefði ekki verið dæmd refsing fyrir umrædd ummæli ef þess hefði verið krafist.
Í 2. mgr. síðastgreindrar lagagreinar segir að þegar svo stendur á, sem að framan greinir, skuli falla niður aðrar afleiðingar verknaðar sem refsinæmi hans að eldri lögum leiddi af sér. Af ummælum í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga má ráða að hér sé átt við viðurlög, önnur en refsingu, sem refsiverður verknaður hefði ella haft í för með sér fyrir sakaðan mann, svo sem sviptingu réttinda. Önnur réttaráhrif verknaðarins, svo sem skylda til að greiða brotaþola bætur, skuli hins vegar haldast þótt refsing falli niður samkvæmt framansögðu. Þótt ómerking ummæla á grundvelli 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga teljist til refsikenndra viðurlaga er hún í eðli sínu staðfesting á því að óviðurkvæmileg ummæli, sem fela til dæmis í sér refsiverða aðdróttun í garð brotaþola, skuli vera að engu hafandi. Af þeirri ástæðu verður því úrræði ekki jafnað í þessu samhengi til íþyngjandi viðurlaga á borð við réttindasviptingu.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þó þannig að með hliðsjón af málsatvikum verða miskabætur til stefnda úr hendi áfrýjanda hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Jón Bjarki Magnússon, greiði stefnda, Kim Gram Laursen, 250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2010 til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms skulu að öðru leyti vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kim Gram Laursen, búsettum í Danmörku, með stefnu birtri 10. janúar 2011, á hendur Jóni Bjarka Magnússyni, Kristnibraut 75, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til E, sem birt voru í helgarblaði DV, föstudaginn 12. nóvember 2010, og stefndi ber ábyrgð á samkvæmt 2. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956, verði dæmd dauð og ómerk.
A. Konan segir þær hræddar við föður sinn sem hafi beitt þær andlegu og líkamlegu ofbeldi.
B. ... sem flúði með dætur sínar hingað til lands í október eftir að hafa fengið nóg af því sem hún segir vera ofbeldi og ofsóknir barnsföður síns.
C. Hjördís sakar föðurinn um andlegt og líkamlegt ofbeldi sem og vanrækslu. ... og afhenda þau ofbeldisfullum föður þeirra.
D. Hún segir hann hafa fylgst með þeim og haldið ofbeldinu áfram.
E. Þetta hafi í raun fyllt mælinn en fram að því hafi hann verið búinn að beita hana andlegu og sem og líkamlegu ofbeldi í nokkurn tíma.
2. Gerð er krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 16. desember 2010 til greiðsludags.
- Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum. Til vara er krafist birtingarkostnaðar að álitum.
- Þess er krafist að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
5. Þá er sú krafa gerð að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti auk virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.
II
Málavextir
Stefnandi var giftur íslenskri konu, Hjördísi Aðalheiðardóttur, og bjuggu þau saman í Danmörku ásamt þremur ungum dætrum sínum. Þau slitu samvistir og deila nú um forsjá dætranna en dómsmál þar að lútandi er rekið fyrir dönskum dómstólum. Konan fór með börnin til Íslands í október sl. og taldi stefnandi að hún hefði þannig brotið gegn forsjár- og umgengnisrétti hans sem dómstóll ytra hafði nýverið ákveðið meðan á rekstri forsjármálsins stæði. Stefnandi leitaði til íslenskra stjórnvalda og krafðist þess að börnin yrðu afhent honum á grundvelli Haag-samningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa og laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá og afhendingu brottnuminna barna. Með dómi Hæstaréttar frá 7. mars sl. í málinu nr. 109/2011 var talið að konan hefði flutt börnin til Íslands og haldið þeim með ólögmætum hætti og var krafa stefnanda um afhendingu tekin til greina. Í nóvember 2010 var fjallað um málið í DV. Þrjár fréttir birtust á www.dv.is, 11. og 12. nóvember 2010, og síðan var opnuumfjöllun um afhendingarmálið og stefnanda í helgarblaði DV, sem kom út föstudaginn 12. nóvember 2010. Að mati stefnanda var nálgun DV ekki sú sem hefði verið eðlileg, að konan hefði með því athæfi sínu að nema börnin á brott frá Danmörku brotið lög og alþjóðasamninga, heldur að stefnandi væri ofbeldismaður sem hefði í gegnum tíðina beitt börnin sín líkamlegu og andlegu ofbeldi. Með bréfi stefnanda, dags. 16. nóvember 2010, til stefnda og ritstjórnar DV var þess krafist að blaðið myndi biðjast afsökunar, leiðrétta umfjöllunina og greiða stefnanda miskabætur. Ekki var orðið við kröfum stefnanda. Stefndi er nafngreindur höfundur umfjöllunar um stefnanda sem birtist í helgarblaði DV, föstudaginn 12. nóvember sl., þar sem þau ummæli er að finna sem stefnandi krefst að verði ómerkt, og beinir hann því málssókninni að stefnda.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins var lögð fram yfirlýsing Hjördísar Aðalheiðardóttur og systur hennar, Ragnheiðar Rafnsdóttur, viðmælenda stefnda, þar sem fram kemur að allt sem haft sé eftir þeim í blaðagreininni sé rétt og að stefndi hafi haft fulla heimild til að birta ummælin.
III
Málsástæður stefnanda
Ómerking ummæla
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að stefnanda með ummælum um hann í DV. Í umfjöllun stefnda um stefnanda í heild, einstökum ummælum, fyrirsögnum og framsetningu efnis, felist ærumeiðandi aðdróttanir í hans garð. Stefnandi sé ítrekað nafngreindur í umfjöllun DV og dregin upp mynd af honum sem forhertum ofbeldismanni sem beiti fjölskyldu sína andlegu og líkamlegu ofbeldi. Haldið sé fram að stefnandi hafi gerst sekur um andlegt og líkamlegt ofbeldi og ofsóknir gagnvart barnsmóður sinni og ítrekað andlegt og líkamlegt ofbeldi og vanrækslu gagnvart dætrum sínum. Margra ára fangelsi liggi við þessum brotum að íslenskum lögum, samanber 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá séu brotin svívirðileg að áliti alls almennings. Ásakanir stefnda í garð stefnanda eigi ekki við rök að styðjast. Stefnandi sé ekki með sakarferil og þá séu engin mál til rannsóknar á hann hjá lögreglu.
Stefnandi telur að með ummælum í staflið A haldi stefndi því fram að stefnandi hafi beitt dætur sínar andlegu og líkamlegu ofbeldi í gegnum tíðina og dætur stefnanda séu hræddar við hann. Hér sé stefnandi ásakaður um refsiverða háttsemi sem varði við 217. og/eða 218. gr. almennra hegningarlaga og brot á 98. og/eða 99. gr. barnaverndarlaga nr. 801/2002. Þá sé það af og frá að dætur stefnanda séu hræddar við hann. Þvert á móti sé kærleiksríkt samband milli stefnanda og dætra hans. Í staflið B haldi stefndi því fram að barnsmóðir stefnanda hafi flúið með dætur þeirra til Íslands vegna ofbeldis og ofsókna stefnanda. Hér ásaki stefndi stefnanda á nýjan leik um ofbeldi og bætir um betur með því að halda því fram að stefnandi ofsæki fjölskyldu sína. Með sama hætti og áður sé hér um ræða alvarlegar ásakanir um brot á barnverndarlögum og almennum hegningarlögum. Í stafliðum C, D og E sé stefnandi með sama hætti og áður ásakaður um andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart barnsmóður sinni. Þá sé stefnanda gefið að sök í staflið C að hafa vanrækt fjölskyldu sína, meðal annars börnin sín. Hér sé enn á ný um alvarlegar ásakanir að ræða sem varði við almenn hegningarlög og barnaverndarlög. Þá er í ummælum í staflið C fullyrt að stefnandi sé ofbeldisfullur.
Stefnandi byggir á því að ummælin feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir og brot gegn 235. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Þau séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Ef ekki verður fallist á að ummælin varði 235. gr. almennra hegningarlaga er til vara og með vísan til ofangreindra sjónarmiða byggt á því að ummælin varði við 234. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.
Miskabótakrafa
Miskabótakröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til þess að tilvitnuð ummæli, sem stefndi hafi birt í DV hafi fengið mjög á stefnanda andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram án þess að stefndu hafi nokkuð haft fyrir sér. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna. Þá sé stefnda gefið að sök með ummælunum að hafa beitt börnin sín og fjölskyldu ofbeldi. Fjölskyldan sé það sem sé hverjum manni kærast sérstaklega börn viðkomandi og hafi þannig verið vegið með alvarlegum hætti að hornsteini tilvistar stefnanda.
Útbreiðsla ummæla stefnda hafi verið mikil enda hafi þau verið birt í víðlesnu dagblaði og jafnframt á vefsvæði DV. Ummælin hafi verið sett fram með áberandi hætti og fengið mikið pláss á síðum DV sem sé gefið út í hagnaðarskyni.
Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ljóst sé að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum, sem ætlað sé að vernda æru stefnanda, sbr. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.
Birting dóms
Hvað varðar kröfu um birtingu dóms vísar stefnandi til þess að ummæli stefnda hafa fengið mikla útbreiðslu. Stefnanda sé því nauðsynlegt að fá dæmdan birtingarkostnað til þess að rétta hlut sinn með auglýsingum í fjölmiðlum. Þá sé sú krafa gerð að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gangi í málinu, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.
Tjáningarfrelsi stefnda
Hvað varðar tjáningarfrelsi stefnda vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið sé gegn mannorði annarra manna. Þegar metnar séu þær skorður sem friðhelgi einkalífs setji tjáningarfrelsinu skipti aðalmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Umfjöllun stefnda um stefnanda tengist á engan hátt slíkri umræðu.
Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Ómerking ummæla
Af hálfu stefnda er öllum málsástæðum stefnanda sem lúta að ómerkingu ummælanna mótmælt. Öll ummælin sem stefnt sér út af séu í raun sama eðlis, þ.e.a.s. blaðamaðurinn hafi eftir nafngreindum viðmælanda sínum tiltekinn ummæli. Í öllum tilvikum séu setningarnar orðaðar þannig að „konan segir ...“ eða „Hjördís sakar föðurinn um ...“ þannig að alltaf sé ljóst að blaðamaðurinn lýsi hvorki eigin skoðun né sé hann að saka stefnanda um þá háttsemi sem um getur. Byggir stefndi á því að blaðamönnum sé í vissum tilvikum refsilaust að hafa ummæli eftir viðmælendum sínum að því skilyrði uppfylltu að rétt sé haft eftir. Í þessu sambandi sé jafnframt byggt á meginreglunni um tjáningarfrelsi sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skýrt 10. gr. sáttmálans svo ekki verði refsað fyrir útbreiðslu ummæla annarra, jafnvel þótt í þeim felist ærumeiðingar eða aðdróttanir, nema mjög ríkar ástæður séu til þess. Hafi verið talið að þetta sjónarmið eigi sérstaklega við þegar um sé að ræða málefni sem varða almenning miklu og eiga brýnt erindi í þjóðfélagsumræðuna.
Tilefni þeirra skrifa stefnda sem mál þetta snúist um hafi m.a. verið meint andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Þá hafi tilefni greinarinnar jafnframt og ekki síður verið að fjalla um hvernig kerfið bæði á Íslandi og í Danmörku taki á málum sem varði meint ofbeldi gegn börnum í tengslum við forsjárdeilur foreldra. Þannig hafi m.a. verið gagnrýnt það úrræðaleysi sem blasi við foreldrum í tilvikum sem þessum sérstaklega þegar foreldrar séu ekki með sama ríkisfang. Með hliðsjón af þessu tilefni greinarinnar sé ljóst að það hafi verið óhjákvæmilegt fyrir blaðamanninn og nauðsynlegt að vísa til þess með almennum hætti að konan bæri manninn ásökunum um ofbeldi. Tilefni skrifanna hafi að engu leyti verið að ráðast á stefnanda eða halda því fram að hann hafi viðhaft þá háttsemi sem konan hafi sakað hann um.
Við munnlega málflutning byggði stefndi jafnframt á því að samkvæmt 2. ml. a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2008, sem samþykkt voru 15. apríl sl., séu blaðamenn ábyrgðarlausir á útbreiðslu meiðandi ummæla sem réttilega séu höfð eftir nafngreindum einstaklingi, þ.e. ábyrgðina beri viðkomandi einstaklingur. Telur stefndi ákvæðið hafa afturvirk áhrif og að horfa beri til 2. gr. almennra hegningarlaga um ábyrgð stefnda, þ.e. verknaðurinn sé ekki lengur refsinæmur.
Miskabótakrafa
Stefndi hafnar miskabótakröfu stefnanda enda hafi stefndi ekki brotið gegn honum með ummælum sínum. Þá sé hún úr hófi og beri því að lækka hana verulega.
Birting dómsins
Kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu er mótmælt. Verði ekki fallist á það er fjárhæðinni mótmælt sem allt of hárri og þess krafist að hún verði lækkuð umtalsvert.
Kröfu stefnanda um að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur í málinu er mótmælt. Í fyrsta lagi er því mótmælt að ummæli stefnda feli í sér nokkurs konar brot gegn stefnanda. Í öðru lagi er því mótmælt að stefnandi geti haft slíka kröfu uppi gagnvart stefnda um birtingu dóms í DV. Rétt hefði verið og nauðsynlegt að stefna útgefanda til að ná þessari kröfu fram. Sé því byggt á aðildarskorti hvað þessa kröfu varðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Um lagarök vísar stefnandi til 234. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Jafnframt er byggt á 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um ábyrgð stefnda á ummælum sem birtust í grein í helgarblaði DV sem út kom 12. nóvember 2010 og bar yfirskriftina „RÁÐUNEYTIÐ UNDIRBÝR BROTTFLUTNING BARNA“. Blaðagreinin, sem byggist m.a. á viðtölum stefnda við Hjördísi Aðalheiðardóttur og systur hennar Ragnheiði Rafnsdóttur, fjallar um að lögmaður dóms- og mannréttindaráðuneytisins hóti aðgerðum í máli Hjördísar sem hafi flúið með dætur sínar og stefnanda til Íslands. Hafi lögmaðurinn sent henni bréf þar sem þess er krafist að dæturnar verði sendar til Danmörku á grundvelli Haag-samningsins um brottnám barna. Lýsir Hjördís því að stefnandi, sem nafngreindur er í greininni, hafi beitt hana og dæturnar andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þá hafi hann vanrækt þær. Hún hafi komið að lokuðum dyrum hjá yfirvöldum í Danmörku og biðla hún og fjölskylda hennar til dómsmálaráðneytisins og spyr hvort ekkert sé hægt að gera. Ummælin sem krafist er ógildingar á eru eftirfarandi:
A. Konan segir þær hræddar við föður sinn sem hafi beitt þær andlegu og líkamlegu ofbeldi.
B. ... sem flúði með dætur sínar hingað til lands í október eftir að hafa fengið nóg af því sem hún segir vera ofbeldi og ofsóknir barnsföður síns.
C. Hjördís sakar föðurinn um andlegt og líkamlegt ofbeldi sem og vanrækslu. ... og afhenda þau ofbeldisfullum föður þeirra.
D. Hún segir hann hafa fylgst með þeim og haldið ofbeldinu áfram.
E. Þetta hafi í raun fyllt mælinn en fram að því hafi hann verið búinn að beita hana andlegu og sem og líkamlegu ofbeldi í nokkurn tíma.
Af hálfu stefnda hefur því ekki verið mótmælt að ummælin, sem stefnt er út af, feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þau séu ósönnuð. Sýknukrafa stefnda byggist á því að hann beri ekki ábyrgð á ummælunum þar sem þau séu réttilega höfð eftir viðmælendum hans. Vísar stefndi í því samhengi til þess að umfjöllunarefni greinarinnar hafi átt erindi til almennings og njóti því verndar tjáningarfrelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tilefni skrifanna hafi m.a. snúist um andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum í tengslum við forsjárdeilur foreldra og hafi honum því verið óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að vísa til þess með almennum hætti að konan ásakaði manninn um ofbeldi. Dómurinn getur ekki fallist á þessi sjónarmið stefnda. Umrædd grein fjallar ekki almennt um ofbeldi gegn börnum eða hvernig hið opinbera taki á málum sem varði ofbeldi gegn börnum í tengslum við forsjárdeilur foreldra. Á engan hátt er reynt að varpa mynd á hvernig háttað er meðferð forsjármála eða afhendingarmála t.d. með viðtölum við sérfræðinga sem við þau starfa eða með umfjöllun um Haag-samninginn um brottnám barna. Einungis er um að ræða umfjöllun um tiltekið mál, þ.e. kröfu um afhendingu dætra stefnanda til Danmerkur, sem átti takmarkað erindi til almennings enda um að ræða umfjöllun um hagsmuni sem verndaðir eru af friðhelgisákvæði 71. gr. stjórnarskrár. Umfjöllun stefnda um persónuleg málefni stefnanda og fjölskyldu hans í umræddri blaðagrein í DV verður því ekki réttlætt með vísan til tjáningarfrelsisákvæða stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu.
Lögð hefur verið fram yfirlýsing frá Hjördísi Aðalheiðardóttur og systur hennar, Ragnheiði Rafnsdóttur, þar sem fram kemur að allt sem haft sé eftir þeim í blaðagrein stefnda sé rétt og að hann hafi haft fulla heimild til að birta ummælin. Þar sem stefndi er tilgreindur sem höfundur texta og hefur ekki mótmælt því að hafa samið greinina telst hann vera höfundur hennar í skilningi 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 og ber sem slíkur ábyrgð á henni. Eins og fram hefur komið í dómum Hæstaréttar, í málum 328/2008 og nr. 329/2010, breytir þá engu hvort viðmælendur hans kunni einnig að geta talist höfundur greinarinnar í skilningi þessa ákvæðis.
Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að ný lög um fjölmiðla nr. 38/2011, sem tóku gildi 20. apríl sl., standi því í vegi að hann verði látinn sæta ábyrgð í máli þessu. Samkvæmt 2. ml. a-liðar 1. mgr. 51. gr. laganna séu blaðamenn ábyrgðarlausir hvað viðkemur útbreiðslu meiðandi ummæla sem réttilega séu höfð eftir nafngreindum einstaklingi, þ.e. ábyrgðina beri viðkomandi einstaklingur. Telur stefndi að beita eigi ákvæðinu með afturvirkum hætti. Beri að horfa til 2. gr. almennra hegningarlaga í þeim efnum. Vísar hann sérstaklega til þess að í 2. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga sé kveðið á um að „aðrar afleiðingar verknaðar“, sem refsinæmi verknaðar að eldri lögum leiddi af sér, falli niður. Taldi stefndi ómerkingu ummæla og skaðabætur falla þar undir. Þessi málsástæða stefnda kom fyrst fram í munnlegum málflutningi. Þar sem umrædd fjölmiðlalög tóku ekki gildi fyrr en 20. apríl sl., þ.e. eftir að stefndi skilaði greinargerð sinni, er málsástæðan ekki of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála, enda hefur henni ekki verið andmælt af hálfu stefnanda sem slíkri.
Hin nýju lög um fjölmiðla hafa ekki að geyma ákvæði um lagaskil hvað varðar ábyrgð á ritefni. Það er viðurkennd lögskýringarregla, að nýjum lögum verði ekki beitt afturvirkt borgurunum til óhagræðis, ef lögin mæla ekki fyrir um annað. Í stjórnarskrá, er að finna sérstök ákvæði um bann við afturvirkni refsilaga og skattalaga. Í 2. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um hvaða áhrif það eigi að hafa á refsingu ef refsilöggjöf breytist frá þeim tíma er verknaður var framinn til þess er refsingu hefur verið fullnægt að öllu leyti. Er meginreglan sú að yngri lög skuli leggja til grundvallar þótt brot hafi verið framin í gildistíð eldri laga. Þó eru þær undantekningar gerðar að aldrei má refsa fyrir verknað sem var refsilaus á þeim tíma sem hann var framinn og að aldrei megi beita þyngri refsingu. Í 2. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga eru ákvæði um áhrif þess að refsinæmi verknaðar hefur fallið brott eftir að refsing hefur verið dæmd fyrir slík brot en áður en hún hefur verið framkvæmd. Er þá mælt fyrir um að hún falli niður, sem og aðrar afleiðingar verknaðar sem refsinæmi hans að eldri lögum leiddi af sér, að undantekinni skyldu til greiðslu sakarkostnaðar. Að mati dómsins getur ákvæði 2. gr. hegningarlaga ekki átt við ómerkingu ummæla og skaðabótaskyldu, eins og haldið er fram af stefnda, enda er ómerking ummæla og skaðabætur ekki refsing í skilningi refsiréttar. Þá er sérstaklega kveðið á um það í greinargerð með frumvarpi sem varð að almennum hegningarlögum nr. 19/1940 að önnur réttaráhrif verknaðar, sem ekki eru háð refsinæminu, t.d. skaðabótaskylda, haldist, þótt refsing falli niður samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 2. gr. laganna. Verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina á þessum grundvelli.
Í hinum umstefndu ummælum í stafliðum A, B, C, D og E er stefnanda borin á brýn refsiverð háttsemi sem fellur undir 217. gr. eða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hann hafi beitt fyrrum eiginkonu sína og dætur þeirra ofbeldi. Þá fellur háttsemi sem hann er sakaður um gagnvart dætrum sínum enn fremur undir 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varða ummælin við 235. gr. almennra hegningarlaga, enda fela þau í sér fullyrðingar sem engum stoðum hefur verið skotið undir að séu réttar. Því hefur heldur ekki verið andmælt af hálfu stefnda eins og áður er rakið. Þessi ummæli verða því dæmd dauð og ómerk eftir 241. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fól umfjöllun stefnda, sem birtist í víðlesnu blaði sem gefið er út í hagnaðarskyni, í sér ærumeiðingar í garð stefnanda. Með þessu hefur verið framin meingerð gegn persónu stefnanda sem stefndi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að öllu virtu þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum svo sem greinir í dómsorði.
Með vísan til 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, er fallist á kröfu stefnanda um að forsendur og niðurstöðu dóms þessa skuli birta í næsta tölublaði DV sem út kemur eftir uppsögu dómsins. Breytir engu um þá kröfugerð þótt útgefandi blaðsins eigi ekki aðild að málinu, enda hvílir þessi skylda á honum lögum samkvæmt. Hefur Hæstiréttur fallist á kröfu um birtingu í sambærilegu tilviki sbr. dóm réttarins í máli nr. 329/2010. Ekki er hins vegar ástæða til þess að gera stefnda að greiða stefnanda kostnað til að standa straum af frekari opinberri birtingu dómsins.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Framangreind ummæli í stafliðum A, B, C, D og E skulu vera dauð og ómerk.
Stefndi, Jón Bjarki Magnússon, greiði stefnanda, Kim Gram Laursen, 500.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. desember 2010 til greiðsludags.
Birta skal forsendur og niðurstöðu dóms þessa í fyrsta tölublaði DV sem út kemur eftir uppsögu dómsins.
Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.