Hæstiréttur íslands
Mál nr. 181/2005
Lykilorð
- Meiðyrði
- Stjórnarskrá
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2005. |
|
Nr.181/2005. |
Edwin George Shelton(Jakob R. Möller hrl.) gegn Indriða H. Þorlákssyni (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Meiðyrði. Stjórnarskrá.
E krafðist þess að ummæli I í grein, sem birtist í Morgunblaðinu, yrðu dæmd dauð og ómerk og að I greiddi sér bætur vegna þeirra, en hann taldi ummælin ærumeiðandi. Lutu þau að því að nafngreindur maður hefði skrifað grein ásamt „þekktum dönskum sérfræðingi í skattasniðgöngumálum“, þar sem beinlínis hafi verið gefnar leiðbeiningar og lagt á ráðin hvernig færa mætti fé skattfrjálst úr landi. Ljóst þótti að með þessum ummælum væri átt við E. Þá var vísað til þess að orðið skattasniðganga hefði enga einhlíta merkingu, en þó talið að í því fælist sú háttsemi að komast hjá því að greiða skatta. Þegar ummælin voru metin í ljósi þess, sem fram kom í greininni í heild, var ekki talið að í þeim fælist refsiverð ærumeiðing samkvæmt 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga. Var I því sýknaður af kröfum E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. maí 2005. Hann krefst þess, að þau ummæli í grein stefnda, sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 19. desember 2003, verði dæmd dauð og ómerk að nafngreindur maður hafi skrifað fyrir nokkrum árum grein ásamt „þekktum dönskum sérfræðingi í skattasniðgöngumálum“, þar sem beinlínis hafi verið gefnar leiðbeiningar og lagt á ráðin hvernig færa mætti fé skattfrjálst úr landi. Hann krefst þess einnig, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. apríl 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Hefur áfrýjandi fallið frá síðari ómerkingarkröfu sinni, sem gerð var fyrir héraðsdómi.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í héraðsdómi birtust ummæli þau, sem áfrýjandi krefst ómerkingar á, í frétt í Morgunblaðinu 19. desember 2003, þar sem viðtal var haft við stefnda um fjölgun skattasniðgöngumála. Orðið skattasniðganga hefur enga einhlíta merkingu, en tekið er undir með héraðsdómi að í því felist sú háttsemi að komast hjá því að greiða skatta. Þegar ummæli stefnda, sem krafist er ómerkingar á, eru metin verður að skýra þau út frá greininni í heild sinni. Í upphafi viðtalsins var haft eftir stefnda, að skattasniðgöngumálum hefði fjölgað mjög í kjölfar aukins frelsis í fjármagnsflutningum milli landa. Í mörgum tilvikum sé verið að nýta sér mismunandi skattareglur á milli landa og ákvæði tvísköttunarsamninga, sem séu ætluð til þess að aflétta tvísköttun. Aðspurður hvort um væri að ræða ólögmæta starfsemi sagði stefndi, að starfsemin sem slík væri ekki ólögmæt í þeim skilningi að einstakar athafnir brytu lög. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Edwin George Shelton, greiði stefnda, Indriða H. Þorlákssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2005.
I
Mál þetta var höfðað 15. apríl 2004 og dómtekið 10. febrúar 2005.
Stefnandi er Edwin George (Ned) Shelton, dönsk kennitala [...], Landsevej 7, 2840 Holte, Danmörku. Stefndi er Indriði H. Þorláksson, kt. [...], Nökkvavogi 60, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að neðangreind ummæli í grein stefnda sem birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 19. desember 2003 verði dæmd dauð og ómerk. Hin umstefndu ummæli sem krafist er ómerkingar á eru feitletruð og undirstrikuð:
1. „[Guðjón Rúnarsson], skrifaði fyrir nokkrum árum grein ásamt þekktum dönskum sérfræðingi í skattasniðgöngumálum [stefnandi], þar sem beinlínis eru gefnar leiðbeiningar og lagt á ráðin hvernig færa megi fé skattfrjálst úr landi.
2. Það má kannski bæta við að það fór nú kannski ekki svo vel fyrir þessum danska ráðgjafa eða ráðgjafafyrirtæki því það lenti í hremmingum vegna starfsemi sinnar í Danmörku.”
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.000.000 króna í skaða- og miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi málsins 20. apríl 2004.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi 20. apríl 2004.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Stefndi, sem gegnir embætti ríkisskattstjóra, ritaði í desember 2003 grein í Tíund, fréttablað ríkisskattstjóra. Bar greinin yfirskriftina, Ný viðhorf. Í grein stefnda segir hann meðal annars að mitt í samþjöppun auðs og valda blómstri það sem kallað hafi verið fyrirtækjagræðgi. Afleiðingar þessara viðhorfa geri vart við sig í skattaframkvæmd meðal annars í því að stórfelldum skattasniðgöngumálum fjölgi og gerist æ úthugsaðri. Enda komi oftast í ljós að gerendurnir hafi notið ráðgjafar og aðstoðar sérfræðinga sem notið hafi bestu menntunar til að ráða mönnum heilt og tryggja að rétt sé að málum staðið. Keppist ráðgjafafyrirtæki og fjármálastofnanir um að falbjóða aðstoð við gjörninga sem þeim sem öðrum megi vera ljóst að séu ekki til annars gjörðir en að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum. Ríkulegar þóknanir fyrir aðstoðina réttlæti þetta trúlega í þeirra augum.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, svaraði framangreindri grein stefnda með grein í Morgunblaðinu 18. desember 2003 þar sem hann gerir athugasemdir við ummæli stefnda og telur það ekki sæmandi fyrir embættismann í þessari stöðu að kasta með þessum hætti rýrð á íslenskt atvinnulíf, sem hafi verið að eflast og þróast á síðustu árum meðal annars með uppstokkun á fyrirtækjamarkaði og aukinni þekkingu í fjármálastjórnun. Kemur einnig fram hjá honum að það að aðilar leiti ráðgjafar til að lágmarka skattbyrði sína innan ramma laga og reglna sé bæði eðlilegt og sjálfsagt. En ef ríkisskattstjóri telji sig hafa ástæðu til að ætla að einstakir aðilar séu að brjóta lög hafi hann allar heimildir til að láta á það reyna. Honum sé hins vegar ekki stætt á að beita embættisvaldi sínu með því að alhæfa með þessum hætti um viðskiptalífið í landinu.
Daginn eftir birtist frétt í Morgunblaðinu sem bar yfirskriftina, Reyna að nýta sér ákvæði tvísköttunarsamninga. Í fréttinni vitnar blaðamaðurinn til stefnda og hefur eftirfarandi eftir honum: „Það kemur nokkuð á óvart að þeir láti svo sem þeim sé ókunnugt um starfsemi af þessum toga, einkum með tilliti til þess að einn þeirra, þ.e. framkvæmdastjóri Sambands viðskiptabanka og fjármálafyrirtækja, skrifaði fyrir nokkrum árum grein ásamt þekktum dönskum sérfræðingi í skattasniðgöngumálum, þar sem beinlínis eru gefnar leiðbeiningar og lagt á ráðin hvernig færa megi fé skattfrjálst úr landi. Það má kannski bæta við að það fór nú kannski ekki svo vel fyrir þessum danska ráðgjafa eða ráðgjafarfyrirtæki því það lenti í hremmingum vegna starfsemi sinnar í Danmörku."
Þá segir jafnframt í frétt þessari að aðspurður um hvort þarna væri um ólögmæta starfsemi að ræða, hafi stefndi sagt að starfsemin sem slík væri ekki ólögmæt í þeim skilningi að einstakar athafnir brytu lög, „en það er okkar mat og flestra sem að þessu koma að þær standist ekki gagnvart skattalögum, þ.e. að þær leiði ekki til þeirrar niðurstöðu í skattalegum skilningi sem menn ætla." Þá hafi hann sagt að skattayfirvöld hér á landi og erlendis vikju slíkum gjörningum til hliðar í skattalegu tilliti án þess að dómur væri lagður á hvort um væri að ræða lögbrot í sjálfu sér.
Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Sambands viðskiptabanka og fjármálafyrirtækja, sem vikið er að í framangreindri frétt, kynnti stefnanda efni framangreindrar Morgunblaðsgreinar og í kjölfarið ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda 29. janúar 2004. Í bréfi hans eru rakin þau ummæli sem stefnandi taldi ærumeiðandi og þess óskað að þau yrðu tekin til baka innan tíu daga og að afsökunarbeiðni yrði birt vegna þeirra. Stefndi óskaði í kjölfar bréfsins eftir nánari upplýsingum um hvaða ummæli hans væru rakin ósannindi og óskaði rökstuðnings. Ágreiningur aðila leystist ekki og var mál þetta því höfðað.
Við meðferð málsins kom í ljós að bú stefnanda hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta í Danmörku í apríl árið 2002 og krafðist stefndi þess að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2004 var sú krafa tekin til greina og lagði stefnandi fram tryggingu í samræmi við úrskurðinn.
III
Stefnandi kveður aðild sína að málinu byggða á 16. gr. laga nr. 91/1991. Jafnvel þótt stefndi nefni ekki nafn stefnanda í hinum umstefndu ummælum í Morgunblaðinu, sé öllum sem þekki til alþjóðlegs skattaumhverfis, vel kunnugt að um sé að ræða tilvísun til persónu stefnanda. Þannig vísi stefndi til dansks sérfræðings sem hafi skrifað grein með Guðjóni Rúnarssyni fyrir nokkrum árum síðan. Hér vísi stefndi óumdeilanlega til stefnanda sem reyndar sé ekki danskur en hafi verið búsettur í Danmörku síðan 1986 og sé hann greinilega sá aðili sem stefndi sé að vísa til. Sé því ljóst að stefnandi sé réttur aðili að málinu og hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.
Stefnandi kveður að lagahugtakið „æra” verði skilið á mismunandi vegu. Í íslenskum rétti sé viðtekið að hugtakið merki dómur eða hugmynd manns sjálfs og annarra um persónugildi. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé tjáningarfrelsi verndað á Íslandi þótt það frelsi sé ekki óheft.
Í 71. gr. stjórnarskrárinnar sé meðal annars kveðið á um friðhelgi einkalífs og heimilar skorður við tjáningarfrelsi samkvæmt 73. gr. byggist á 71. gr. stjórnarskrárinnar. Æra manns njóti refsiverndar samkvæmt XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk verndar vegna ákvæða 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Telur stefnandi hin umstefndu ummæli ærumeiðandi og brjóti þau gegn 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 127. gr., 128. gr. og 129. gr. laga nr. 82/1998. Krefst stefnandi þess að hin tilgreindu ummæli verði dæmd óviðurkvæmileg og því ómerk sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga.
Í 234. gr. sé efnislega fjallað um ærumeiðingar eða móðganir og 235. gr. fjalli um aðdróttanir. Samkvæmt 236. gr. geti það varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum að bera út slíkar ærumeiðingar gegn betri vitund. Í 241. gr. sé heimild til þess að dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk svo og til þess að dæma þann sem reynist sekur um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms.
Á grundvelli þeirra lagafyrirmæla sem að framan séu rakin telur stefnandi að stefndi hafi farið langt út fyrir tjáningarfrelsi sitt í Morgunblaðinu 19. desember 2003. Í ummælum stefnda séu einkum tvenn ummæli sem séu mjög ærumeiðandi fyrir stefnanda og vegi að æru hans og persónu. Ummæli stefnda séu ekki rökstudd þrátt fyrir að þau feli í sér harðorðar fullyrðingar um störf stefnanda og mannorð. Með þessu hafi verið vegið ósæmilega að orðstír stefnanda og persónu og því beri að ómerkja ummælin.
Brigsli stefndi stefnanda meðal annars um að hann brjóti gegn skattalögum í ráðgjöf sinni þar sem hann sé sérfræðingur í skattasniðgöngumálum. Skattasniðganga hafi verið skilgreind sem ólögmætt undanskot á sköttum. Fari sniðgangan til dæmis þannig fram að gerðir séu málamyndagerningar, þ.e. gerningar sem ekki eigi að hafa aðrar afleiðingar en að komast hjá skattgreiðslum. Slíkt sé brot á skattalögum og hafi skattyfirvöld heimildir til að víkja slíkum gerningum til hliðar til þess að réttur skattur verði lagður á viðkomandi aðila. Ráðgjöf um skattasniðgöngu kunni að vera refsiverð.
Stefnandi stundi hvorki skattasniðgöngu né ráðleggi umbjóðendum sínum slíka ólögmæta háttsemi. Hafi stefndi einhverjar upplýsingar um slíka starfsemi hafi hann þau úrræði að láta rannsaka slík tilvik eða láta á það reyna hvort ólögmæt háttsemi hafi átt sér stað. Hann ætti ekki að bera slíkan róg á torg. Starfsemi stefnanda felist eingöngu í skattaráðgjöf sem sé fullkomlega lögleg starfsemi, oft nefnd skattafyrirhyggja. Mikill munur sé á því hugtaki og skattasniðgöngu. Það sé stefnda vel kunnugt um eða ætti að minnsta kosti að vera kunnugt um.
Stefnandi sé virtur alþjóðlegur skattaráðgjafi sem hafi viðurværi sitt af löglegri ráðgjöf í skattamálum. Hafi hann skrifað greinar um skattamál sem birst hafi í fræðiritum, starfað með alþjóðlegum nefndum um skattamálefni, víða haldið fyrirlestra um skattamál, meðal annars á Íslandi, auk þess að sitja í ritstjórnum bóka og tímarita um skattamál. Telur stefnandi að hafa verði í huga að alþjóðlegir skattaráðgjafar og alþjóðleg fjármálafyrirtæki og önnur alþjóðleg félög myndi tiltölulega lítið samfélag þar sem menn þekki hverjir aðra. Hafi stefnandi verið þátttakandi í þessu samfélagi um árabil.
Þegar stefndi, æðsti yfirmaður skattamála á Íslandi, segi að stefnandi stundi brot á skattalögum með sérfræðilegri ráðgjöf um skattasniðgöngu, sé það mjög ærumeiðandi fyrir stefnanda og sé ásökunin alvarleg. Ummælin njóti ekki verndar stjórnarskrárinnar og þau beri að dæma dauð og ómerk. Í ljósi stöðu stefnda innan skattkerfisins beri að gera ríkar kröfur til þess að ummæli hans um skattamálefni séu efnislega rétt. Slík ummæli megi því ekki vera til þess fallin að kasta rýrð á þá menn sem starfi við löglega skattaráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga eins og stefnandi. Þetta viti stefndi og hér sé vegið að starfsheiðri stefnanda og kunnáttu í skattarétti og sagt að hann ráðleggi lögbrot. Sé slíkt firra.
Sé sérlega meiðandi fyrir löghlýðinn borgara eins og stefnanda að vera borinn slíkum sökum um refsivert athæfi af manni í stöðu stefnda. Telur stefnandi að hin átöldu ummæli varði aðallega við 235. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 234. gr.
Í síðari ummælum stefnda sem stefnandi átelji komi fram að það hafi ekki farið „svo vel fyrir þessum danska ráðgjafa [ stefnanda ] eða ráðgjafarfyrirtæki því það lenti í hremmingum vegna starfsemi sinnar í Danmörku.” Af þessum orðum og því samhengi sem þau séu sett fram í mætti skilja að stefnandi eða fyrirtæki hans hefði lent í hremmingum vegna skattamála í Danmörku. Hérna slái stefndi fram fullyrðingum sem séu efnislega rangar og til þess fallnar að valda tortryggni í garð stefnanda. Ummæli í þá veru að sérfræðingur í skattamálum hafi lent í vandræðum eða deilum við skattyfirvöld vegna fyrri athafna geti valdið miklum spjöllum á trausti, en traust sé undirstaða þess að fá ný verkefni og halda í viðskiptavini. Telur stefnandi að síðari ummælin varði við 234. gr. almennra hegningarlaga.
Telur stefnandi að öll framangreind ummæli stefnda verði að skoða í því ljósi að hann sé embættismaður, ríkisskattstjóri og æðsti yfirmaður skattamála á Íslandi. Gera verði ríkar kröfur til manns í slíkri stöðu að hann gæti orða sinna, sérstaklega þegar rætt sé um skattamál og brot á skattalögum. Telur stefnandi að stefndi hafi haft í frammi hin umstefndu ummæli gegn betri vitund og þannig brotið efnislega gegn ákvæðum 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. einnig 236. gr. sömu laga þar sem ásetningsbrot séu gerð refsiverð. Vegna alls þessa beri að ómerkja hin umdeildu ummæli.
Stefnandi kveður að greint sé á milli huglægrar og hlutlægrar æru. Huglæg æra hafi aðeins áhrif á þann sem misgert sé við, til dæmis vegna eigin sjálfsvirðingar. Hlutlæg æra vísi til álits annarra á þeim sem ráðist sé að. Árás á hlutlæga æru manns sé því alvarlegri en árás á huglæga æru enda sé í raun um að ræða árás á bæði mannorð manns og sjálfsvirðingu.
Árás stefnda hafi verið árás á hlutlæga æru stefnanda. Ummælin hafi birst í Morgunblaðinu sem berist til meiri hluta þjóðarinnar. Þá bendi stefnandi einnig á að þeir sem starfi að alþjóðlegum skattamálefnum fylgist vel með þeim ummælum sem æðstu menn skattkerfa láti frá sér fara. Því liggi rök til þess að fullyrða að hin meiðandi ummæli stefnda hafi verið mjög víðlesin innan þess samfélags sem stefnandi starfi mikið með eða fyrir. Hafi ummælin því haft áhrif á orðstír stefnanda, traust hans hafi beðið hnekki og ummælin hafi án efa haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir stefnda. Erfitt sé að sanna hversu miklu tjóni stefnandi hafi orðið fyrir í kjölfar ummæla stefnda en sönnun áhrifa slæms umtals sé erfið. Telji stefnandi að venjulegar reglur um sönnun tjóns eigi hér ekki alls kostar við og bendir á að sakarlíkindareglan eigi frekar við en sakarreglan.
Stefnandi geri kröfu um greiðslu 3.000.000 króna í skaðabætur eða lægri bætur að mati dómsins. Fjárhæð kröfugerðar byggi ekki á tölulegum útreikningum enda liggi engir slíkir útreikningar fyrir. Ástæða þess að ekki sé um tölulega útreikninga að ræða um fjártjón stefnanda sé sú að ómögulegt sé að slá föstu hversu mikið tjón stefnanda sé, hvaða viðskiptum hann hafi orðið af vegna ummælanna o.s.frv. Þess í stað láti stefnandi nægja að benda á að slæmt umtal og rýrð á orðstír stefnanda muni hafa haft áhrif á rekstur ráðgjafarfyrirtækis hans, Sheltons Tax Aps. Í þeim efnum bendi stefnandi á að hann hafi ekki mjög marga viðskiptavini í einu en hver um sig sé mjög mikilvægur fyrir reksturinn í heild. Áður hafi verið vikið að því að samfélag þeirra sem stundi alþjóðlega skattaráðgjöf og notfæri sér hana sé tiltölulega lítið og berist fréttir því hratt um það. Á grundvelli sakarlíkindareglunnar telur stefnandi þetta vera nægjanlegan grundvöll fyrir greiðslu skaðabóta. Hið bótaskylda atvik sé ljóst, orsakasamhengi við líklegt tjón sé einnig ljóst og sönnun um umfang tjóns svo erfið að ekki verði lagt á stefnanda að færa fram nákvæma sönnun um það.
Þá geri stefnandi sérstaka kröfu um greiðslu á 500.000 krónum til birtingar dómsins í þremur útbreiddum dagblöðum, sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Byggi sú fjárhæð á þeim kostnaði sem væri samfara slíkri birtingu. Í þessu samhengi bendi stefnandi á að dómsorð og forsendur einar sér verði ekki nægjanlegar til þess að bæta þann mannorðsblett sem hafi orðið vegna ummæla stefnda. Telur stefnandi nauðsynlegt að reyna að bæta úr með opinberri birtingu dómsins í heild. Verði í þessu samhengi að ítreka að ummælin hafi birst í víðlesnu og virtu dagblaði.
Kröfu sína um miskabætur kveðst stefnandi byggja á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Telur stefnandi ljóst að tilgreind ummæli stefnda feli í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda og sé skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga fullnægt. Við mat á fjárhæð eðlilegra miskabóta bendir stefnandi á að með ummælum stefnda hafi stefnandi verið útmálaður í víðlesnu dagblaði sem ráðgjafi um skattasniðgöngu með vafasama fortíð í skattamálum. Slíkur vitnisburður frá æðsta yfirmanni skattamála á Íslandi sé ákaflega meiðandi fyrir stefnanda og til þess falinn að draga úr trausti hans og orðstír á hinum alþjóðlega markaði fyrir skattaráðgjöf. Á þessum grundvelli sé þess krafist að fallist verði á kröfu um að stefndi greiði stefnanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.
Um lagarök fyrir kröfum sínum að öðru leyti en að framan eru rakin kveðst stefnandi byggja kröfur sínar um skaðabætur á sakarlíkindareglunni og kröfuna um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi kveðst að sér, sem æðsta yfirmanni skattamála hér á landi, beri skylda til að sjá til þess að skattalögum sé fylgt í hvívetna og þau séu hvorki sniðgengin né að bein skattsvik séu ástunduð. Sé því eðlilegt að hann láti til sín heyra bæði í ræðu og riti um þennan mikilvæga málaflokk, bæði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild.
Hafi stefnda því verið bæði rétt og skylt að tjá sig eins og hann hafi gert í Morgunblaðinu 19. desember 2003, sem andsvar við grein Guðjóns Rúnarssonar daginn áður, enda hafi ummæli stefnda verið hófstillt og málefnaleg. Ummæli stefnda rúmist því innan þess tjáningarfrelsis sem 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, tryggi sérhverjum þegn þessa lands, sbr. og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, svo sem bæði íslenskir dómstólar og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað tjáningarfrelsið í dómum sínum hin síðari ár. Ummælin séu því hvorki refsiverð né bótaskyld.
Vakin sé athygli á því að stefndi nefni stefnanda hvergi á nafn í viðtalinu. Það sé því afar langsótt og harla ósennilegt að erlendir starfsbræður stefnanda eða viðskiptamenn hafi getað tengt hann við ummælin, sem þar að auki hafi birst á íslensku, einu smæsta málsamfélagi í heimi.
Þá sé rétt að undirstrika það að stefndi sé ekki að brigsla stefnanda um skattsvik, sem sé refsivert brot heldur viðhafi hann orðalagið sérfræðingur í skattasniðgöngu, sem merki allt annað samkvæmt ríkjandi málvenju og teljist ekki refsivert, enda þótt menn séu ekki á eitt sáttir um hina siðferðilegu hlið þess máls. Það sé því viðbúið og eðlilegt að menn ræði það álitaefni opinberlega og hafi til þess fullan rétt í lýðræðislegu samfélagi á grundvelli tjáningarfrelsisins svo sem fyrr sé að vikið.
Ummæli stefnda séu gagnrýni og gildisdómur um hina svonefndu skattasniðgöngu. Þau séu ekki úr hófi og í þágu málefnalegrar umræðu. Það verði því að skýra þau með hliðsjón af grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipunar um frelsi manna til að tjá sig í ræðu og riti. Verði að hafa í huga að tjáningarfrelsið nái einnig til þeirra ummæla, sem fallin séu til þess að hneyksla og raska ró valdamikilla stofnana og einstaklinga í samfélaginu eða tiltekinna starfshópa eða starfsgreina í því. Megi aldrei vanmeta þýðingu og mikilvægi tjáningarfrelsisins fyrir lýðræðisskipulagið og þróun þess því að það sé lýðræðinu sem salt jarðarinnar á hverjum tíma.
Þeim hremmingum, sem stefnandi eða ráðgjafarfyrirtæki hans hafi lent í vegna starfsemi sinnar í Danmörku, sé lýst í grein Björns Lambek sem birtist í Politiken.dk mánudaginn 18. nóvember 2002. Þar komi fram meðal annars að fyrirtækið Shelton APs hafi orðið gjaldþrota og skiptastjórinn í þrotabúinu hafi neyðst til að senda inn lögreglukæru vegna starfsemi fyrirtækisins og í lok þeirrar greinar sé haft eftir stefnanda sjálfum „Konkursen er en rendyrket katastrofe både for mig personligt, for de internationale selskaper, der var kunder hos Sheltons Aps, og for dansk erhvervslivs renomme." Verði hremmingunum varla betur lýst en stefnandi geri þarna sjálfur. Hafi ummælin því verið sönn og réttmæt.
Þá sé því sérstaklega mótmælt að hin umstefndu ummæli hafi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni enda sé það algerlega ósannað. Þá sé vakin athygli á því að framangreint fyrirtæki hafi verið orðið gjaldþrota löngu áður en ummælin hafi birst í Morgunblaðinu 19. desember 2003. Þá sé einnig rétt að vekja athygli á því sem fram komi í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 29. janúar 2004 en þar segi að umdeild ummæli stefnda séu rakin ósannindi. Hér sé dróttað að stefnda að hann sé ósannindamaður. Þá hafi lögmaður stefnanda ekki rökstutt ummæli þessi þrátt fyrir ítrekaða áskorun stefnda þar um. Þetta séu í raun einu ærumeiðandi ummælin í þessu máli og varði við 235. gr. hegningarlaga nr. 19/1994, sbr. 128. gr. laga nr. 82/1998. Sé þess krafist að lögmaður stefnanda verði víttur fyrir þessi ummæli.
Auk framangreindra lagatilvitnana sé málskostnaðarkrafa stefnda reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt byggi á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
V
Ekki er deilt um það í máli þessu að í umstefndum ummælum sé vitnað til stefnanda og ráðgjafarfyrirtækis hans þótt hann sé ekki nafngreindur þar sérstaklega og sagður danskur, sem hann reyndar er ekki, en hann hefur samkvæmt gögnum málsins búið í Danmörku frá árinu 1986.
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi eru samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.
Samkvæmt 234. gr. hegningarlaga skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Samkvæmt 235. gr. sömu laga varðar það sektum eða fangelsi ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út. Þá segir í 236. gr. laganna að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að 2 árum og sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert var við. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum.
Stefnandi telur tvenn ummæli stefnda í umræddri grein Morgunblaðsins vera ærumeiðandi. Í fyrsta lagi þau ummæli stefnda að stefnandi sé sérfræðingur í skattasniðgöngumálum. Með þessum ummælum telur stefnandi að stefndi sé að brigsla honum um að hann brjóti gegn skattalögum í ráðgjöf sinni og hafi hugtakið „skattasniðganga" verið skilgreint sem ólögmætt undanskot á sköttum. Telur stefnandi að ummæli þessi varði aðallega við 235. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 234. gr. sbr. og 236. gr.
Samkvæmt almennri málvenju merkir það að sniðganga til dæmis reglur að ganga fram hjá þeim eða hunsa þær svo dæmi sé tekið. Þá kemur fram í bókinni Orðaheimur eftir Jón Hilmar Jónsson að það að sniðganga reglur sé óhlýðni eða mótþrói. Samkvæmt þessu hefur orðið sniðganga yfir sér frekar neikvæðan blæ þegar það er notað í því samhengi að sniðganga reglur. Af þessu verður dregin sú ályktun að hugtakið „skattasniðganga” feli í sér þá háttsemi að komast hjá því að greiða skatta.
Það er alþekkt í íslensku samfélagi að skattaðilar grípi til ráðstafana til að komast hjá greiðslu skatta og lágmarka skattbyrði sína. Getur slík tegund af skattasniðgöngu verið fullkomlega í samræmi við lög en skattalög gera stundum sérstaklega ráð fyrir skattalegu hagræði og með skattasniðgöngu þarf því alls ekki að vera átt við refsiverða eða óheiðarlega starfsemi eða hátterni.
Hvort ráðstöfun sem telst skattasniðganga telst lögmæt og þar með grundvöllur skattlagningar eða ekki ræðst fyrst og fremst af lögskýringu viðkomandi skattalagaákvæðis en það leiðir af 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar að skattlagning verður að byggjast á formlega settum lögum. Þá felst það í lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að skattalög verði að vera skýr og ótvíræð.
Stefndi er ríkisskattstjóri og skrifaði grein í fréttablað embættis síns þar sem hann gagnrýnir það sem hann kallar fyrirtækjagræðgi og að afleiðingar hennar sé sú að stórfelldum skattasniðgöngumálum fjölgi. Sú grein var svo tilefni greinar Guðjóns Rúnarssonar í Morgunblaðinu þar sem hann gagnrýnir skrif stefnda og telur það ekki sæmandi embættismanni í hans stöðu að kasta rýrð á íslenskt atvinnulíf með þeim hætti sem stefndi geri með þessum skrifum sínum.
Sem æðsti embættismaður skattamála hér á landi ber stefnda skylda til að standa vörð um að skattalögum sé fylgt. Af umdeildri grein stefnda verður ráðið að hann hefur áhyggjur af þeirri þróun, sem hann telur að hafi orðið í kjölfar aukins frelsis í fjármagnsflutningum milli landa, að skattasniðgöngumálum hafi fjölgað þar sem í mörgum tilfellum sé verið að reyna að nýta mismunandi skattareglur milli landa og ákvæði tvísköttunarsamninga sem séu ætluð til þess að aflétta tvísköttun. Kemur fram í umdeildri grein hans að þar sem löggjöf landanna sé mismunandi geti myndast holur. Þá kemur og fram hjá stefnda að ef slíkar ráðstafanir séu gerðar í þeim tilgangi einum að komast undan skattlagningu líti skattayfirvöld svo á að þeim megi víkja til hliðar og skattleggja viðkomandi aðila eins og þær hefðu aldrei verið gerðar.
Sérstaklega aðspurður í umdeildri grein hvort hann teldi að um ólögmæta starfsemi væri að ræða kvað stefndi að starfsemin sem slík væri ekki ólögmæt í þeim skilningi að einstakar athafnir brytu lög þótt hann líti svo á að þær stæðust ekki gagnvart skattalögum.
Þegar það er virt sem nú hefur verið rakið er allsendis ósannað að stefndi hafi með því að kalla stefnanda sérfræðing í skattasniðgöngumálum hafi hann verið að brigsla stefnanda um að brjóta gegn skattalögum í ráðgjöf sinni og fremja refsivert athæfi þótt ljóst megi vera að stefndi var í ummælum sínum að gagnrýna stefnanda. Er ekkert óeðlilegt við það að stefndi sem ríkisskattstjóri láti í ljós opinberlega skoðanir sínar á því sem hann telur gagnrýnivert á sviði skattamála. Fólst hvorki refsiverð móðgun né aðdróttun, sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga í ummælum stefnda heldur gildisdómur þar sem stefndi lagði mat sitt á staðreyndir sem hann taldi vera fyrir hendi. Voru ummæli hans ekki óviðurkvæmileg og verður ekki fallist á það að stefndi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með þeim ummælum.
Í öðru lagi átelur stefnandi þau ummæli stefnda þar sem haft er eftir honum í umdeildri blaðagrein að það hafi ekki farið „svo vel fyrir þessum danska ráðgjafa eða ráðgjafafyrirtæki því það lenti í hremmingum vegna starfsemi sinnar í Danmörku.” Telur stefnandi að þessi ummæli varði við 234. gr. sbr. og 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.
Í málinu liggur fyrir grein á dönsku sem birtist í Politiken.dk þann 18. nóvember 2002. Samkvæmt henni er haft eftir stefnanda þar sem fjallað er um gjaldþrot ráðgjafafyrirtækis hans Sheltons APs, að gjaldþrotið hafi verið mikið áfall fyrir stefnanda persónulega og þau alþjóðlegu félög sem skiptu við Sheltons Aps, og fyrir orðstír dansks atvinnulífs. Í þessum orðum stefnanda felst að félagið og þar með hann persónulega hafi lent í hremmingum vegna gjaldþrotsins. Er ekkert í málinu sem gefur tilefni til að ætla að stefndi hafi með þessum ummælum verið að halda því fram að stefnandi eða ráðgjafarfyrirtæki hans hafi lent í hremmingum vegna skattamála í Danmörku heldur liggur beinast við að ætla að þarna hafi stefndi verið að vísa til gjaldþrots ráðgjafafyrirtækis stefnda enda vísað til þess í ummælum stefnda að fyrirtækið hafi lent í hremmingum, sbr. orðalagið:„... það lenti í hremmingum...” Á þeim tíma sem ummæli stefnda birtust í Morgunblaðinu hafði umrædd grein í Politiken.dk birst rúmu ári áður og lágu því fyrir upplýsingar um að fyrirtæki stefnanda var orðið gjaldþrota þegar ummælin voru höfð uppi. Fólst því hvorki refsiverð móðgun né aðdróttun, sbr. 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga í ummælum stefnda. Voru ummæli hans ekki óviðurkvæmileg og verður ekki fallist á það að stefndi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með þeim ummælum.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Ekki eru efni til að verða við kröfu stefnda um vítur á hendur lögmanni stefnanda.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákvarðaður 250.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jakob R. Möller hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Magnús Thoroddsen hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Indriði H. Þorláksson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Edwin George (Ned) Shelton.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.